Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig veljum við hvort við verðum góðar eða slæmar manneskjur?

Við heyrum stundum í fréttum um spillt og gráðugt fólk, glæpamenn og lygara, einræðisherra og fjöldamorðingja, eins og það sé sjálfsagður hlutur að mikil spilling og slæmir hlutir séu á gangi í samfélaginu. Það sé bara hluti af því að vera til.

Það er frekar auðvelt að verða slæm manneskja, en það gerist þegar maður ákveður að gera hluti nánast í hugsunarleysi og án tillits til viðmiða sem hjálpa manni að finna góða leið í lífinu. En hvernig finnum við hina leiðina, hvernig verðum við góðar manneskjur, sem þá gerir samfélagið þá væntanlega að betra samfélagi. Þegar þú leitar ekki visku, þá sinnir þú ekki visku og finnst allt í lagi að gera heimskulega hluti.

“Að breyta rétt er hinn ósýnilegi hlekkur milli sálar einstaklingsins og sálar borgarinnar.” - Platón (Ríkið, Bók IV)

Stundum er talað um að aðstæður skapi einstaklinga og samfélag, en það er svolítið villandi fullyrðing. Það er hugarfarið sem skapar einstaklinga og samfélag. Einstaklingar með gott hugarfar skapa gott samfélag, og einstaklingar með slæmt hugarfar skapa slæmt samfélag. En einstaklingar eru misjafnir og því eru samfélögin svolítið misjöfn líka. 

En gott hugarfar er forsenda þess að við breytum rétt, en gott hugarfar er tengt einstaklingi sem leitar visku, hugrekkis, réttlætis og skapgerðar. Takið eftir að það þarf ekki að finna til að öðlast gott hugarfar, aðeins að leita, en þó leita af einlægni.

Sá sem leitar visku reynir að gera það sem krefst visku, sá sem leitar hugrekkis reynir að gera það sem krefst hugrekkis, sá sem leitar réttlætis reynir að gera það sem krefst réttlætis og sá sem leitar skapgerðar reynir að gera það sem krefst skapgerðar.

Sá sem leitar visku gerir vel með því að lesa, læra og spyrja spurninga um heiminn og tilveruna, íhugar svörin og leitar ólíkra sjónarmiða.

Sá sem leitar hugrekkis ver eigin sjónarmið, þó það geti verið erfitt, setur ef það er nauðsynlegt eigið líf í hættu til að bjarga öðrum, deilir sögu eða pælingum með öðrum þrátt fyrir ótta við gagnrýni.

Sá sem leitar réttlætis miðar við lög og sanngirni, veltir fyrir sér sönnunargögnum í leit að sannleika hvers máls, og kemur fram við alla aðra af sanngirni.

Sá sem leitar skapgerðar gætir sín á heilbrigðu mataræði, æfingum og svefni, reynir að forðast því að fresta hlutum, og umfram allt reynir að hafa stjórn á eigin tilfinningum og úthella reiði sinni ekki yfir aðra þegar það reynist freistandi.

Við getum ákveðið hvort við verðum góðar eða slæmar manneskjur út frá því hvernig við ákveðum að haga okkur, og ef við stöldrum við og hugsum okkur aðeins um, getum við vanist á að gera þá hluti sem gera okkur að betri manneskju, sérstaklega ef við einbeitum okkur að dyggðum eins og visku, hugrekki, réttæti og skapgerð.

 


Af hverju fylgir því mikill máttur að geta kosið?

Nú rignir frambjóðendum til forseta af himnum ofan, nokkuð sem sumum finnst fyndið, öðrum kjánalegt, einhverjum þreytandi, en með einum eða öðrum hætti er þetta ekkert annað en stórfenglegt. Að venjulegt fólk geti boðið sig fram í forsetaembættið í okkar litla landi, verið frjáls til að gera það, svo framarlega sem það er orðið 35 ára gamalt, og svo staðið frammi fyrir allri þjóðinni og opinberað visku sína og ástæður fyrir að vera forseti þjóðarinnar. Síðan fær þjóðin að velja þann einstakling sem hún telur bestan. Hvað er flottara en það?

Lýðræðið snýst um að allir geti kosið, og að hverju einasta atkvæði fylgi ákveðið vald, að atkvæðið telji með ákveðnum flokki eða manneskju, eða að allt sem við gerum hafi einhverja merkingu og stefnu. Allt annað stjórnarfar en lýðræðið tekur þetta sjálfsagða vald af fólki. 

En hvað er það við þetta vald sem gerir það svona öflugt? Í lýðræðisríki er valdið til að velja ekki bara einhver verknaður; það er grunnurinn að því hvernig samfélagið okkar er byggt upp. Þegar við kjósum erum við ekki aðeins að velja stjórnendur, heldur einnig að segja skoðun okkar á því hvernig við viljum að samfélagið þróist. Hvert atkvæði er eins og smátt málverk sem saman myndar stóra mynd af framtíðinni.

Þetta vald til að velja í lýðræðissamfélagi táknar  frelsi. Frelsi til að tjá skoðanir okkar, frelsi til að móta framtíðina, frelsi til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í löndum þar sem lýðræði er ekki til staðar, eru þetta frelsi og val af takmörkuðu upplagi eða jafnvel ekki til. Þegar harðstjóri nær völdum eru allir þegnar sviptir frelsinu samstundis.

Valdið til að kjósa gefur okkur tækifæri til að taka ábyrgð á eigin lífi og samfélagi. Það minnir okkur á að við höfum rödd og að sú rödd getur haft áhrif. Þetta er ekki aðeins vald, heldur einnig ábyrgð; ábyrgð til að vera upplýstir, virkir borgarar sem ekki hugsa einungis um eigin hag, heldur um velferð samfélagsins sem heild.

Í lýðræði er kjósendur ekki bara að velja stjórnendur og stefnur, heldur endurspegla og móta gildi og drauma samfélagsins. Þannig er mátturinn til að kjósa ekki bara grundvallaratriði í lýðræðinu, heldur einnig lykillinn að því hvernig við skilgreinum okkur sjálf og hvert við stefnum sem samfélag.

 


Valfrelsið og allt það sem við kjósum yfir okkur

Stundum stöndum við fyrir vali í eigin lífi, stundum í kosningum, sem mun hafa áhrif á líf okkar, en hversu oft nýtum við þetta val að fullu? Hvenær veljum við virkilega það sem við vitum að er gott, hugsum valið í gegn, metum hvernig það hefur ekki aðeins áhrif á heiminn í kringum okkur, heldur okkur sjálf?

Þegar maður hugsar af dýpt um það sem maður vill velja, og hefur verið að þjálfa sig í að bæta sig sem manneskja, þá getur það samt verið afar krefjandi að velja þá stefnu sem flytur mann í rétta átt.

Mér verður hugsað um stjórnmálin og val okkar á fjögurra ára fresti, og velti fyrir mér hvort að þegar við förum í kjörklefann, hvort við séum í raun og veru að velja, eða merkjum bara við eitthvað sem okkur finnst passa inn í ytri aðstæður okkar.

Til dæmis ef við veljum stjórnmálaflokk vegna þess að allir í fjölskyldunni velja hann, þá er það í raun ekki alvöru val, heldur erum við að hlusta á áhrif og kjósa eftir þeim, frekar en að fara af dýpt í okkar eigin sál, meta það sem við metum mest, og átta okkur á hvað er rétta valið.

Ég hef áttað mig á að fylgjast ekki bara með því sem fólk segir, heldur því sem það gerir, segir mér meira um manneskjuna og þá stjórnmálaflokkinn, heldur en orðin tóm. Það geta verið til fallegar stefnuyfirlýsingar en ef enginn stendur við þær og varðveitir í verkum sínum, sérstaklega þeir sem hafa skrifað undir þær, þá ber manni alls ekki að velja slíkan flokk. 

Við þurfum að velja í samræmi við stefnu sem við teljum vera góða, og skiljum sem eitthvað sem við sjálf myndum vilja lifa lífinu eftir, og síðan þurfum við að gæta þess að þær manneskjur sem lofa að fylgja þessari stefnu eftir, geri það. Það er nokkuð auðvelt að sjá hvort að viðkomandi flokkur hafi fylgt eigin stefnu eða ekki, sérstaklega ef hann hefur verið áður á þingi, og þá skoðar maður hvað þingmenn hans hafa sagt og gert.

En öll þurfum við að gera upp við okkur hvernig við lifum lífi okkar. Sum veljum við að lifa í samræmi við hugsjónir okkar, aðrir í samræmi við eigin hagsmuni. Það eru til ólíkar leiðir til að velja í samræmi við hugsjónir annars vegar og hagsmuni hins vegar. Þeir sem velja í samræmi við hugsjónir sínar og skilja þær vel, átta sig á eigin skyldu gagnvart þessum hugsjónum og haga sér í samræmi við þær. Vinstri flokkar hafa tilhneigingu til að vera hugsjónaflokkar. Þeir sem velja í samræmi við hagsmuni og haga sér í samræmi við þá, velja annað hvort að haga sér þannig að eigin hagsmunum verði þjónað (sem væri þá eigingjarn og skammsýnt val) eða þá að hagsmunum flokksins verði þjóna (sem væri þá einnig eigingjarnt og skammsýnt val) eða þá að hagsmunum fylgjenda og/eða þegna væri þjónað (sem væri þá göfugra val og til langtíma).

Þetta þýðir að valið getur ekki fjallað bara um hugsjónir eða bara um hagsmuni, heldur þarf að vera einhver blanda þarna, að hagsmunir hópsins verði varðir af hugsjón, eða að hugsjónum verði haldið á lofti af hagsýni, gætu einnig verið góðir kostir.

En samt, þegar allt kemur til alls, þá gerum við sjálf okkur að betri manneskjum með því að velja, og sérstaklega ef við höfum hugsað vel um valið og erum til í að standa við það. Verra er að velja af hugsunarleysi og verst er að velja ekki neitt.


Kostnaður spillingar og óheiðarleika

“Hamingjan veltur á gæðum hugsunar þinnar.” - Markús Árelíus

 

Byrjum á örstuttri sögu:

Það var einu sinni strákur sem var sjúkur í nammi. Hann elskaði alla litina, lyktina og bragðið sem kom úr hverjum einasta bita. Hann var lítill og átti engan pening, og fór því inn í verslun og á nammibarinn og tróð öllu því sem hann gat í vasa sína, bæði framan á gallabuxunum sínum, í rassvasana og úlpuvasana. Hann tróð jafnvel gúmmíbjörnum í húfuna sína áður en hann lagði af stað út. Þegar hann steig út úr búðinni fóru viðvörunarbjöllur í gang og svartklæddur maður með derhúfu birtist fyrir framan hann og skipaði honum að koma með sér. Strákurinn var skíthræddur og fylgdi manninum aftur inn í búðina og inn í herbergi sem var fullt af litlum skjáum, sem sýndu hverja einustu hillu í búðinni. Maðurinn benti á einn skjáinn, þar sem strákurinn sá sjálfan sig troða inn á sig nammi. Hann leit upp og í andlitið á svartklædda manninum, sem horfði svipbrigðalaus á hann, setti körfu fyrir framan hann og benti honum að setja nammið í hana. Strákurinn tók nammið úr vösunum og setti í körfuna, og með hverju einasta handtaki jókst skömmin sem hann fann vaxa í brjósti sínu. Þegar hann hafði loks tæmt alla vasana, tók hann af sér húfuna og lét gúmmíbirnina falla í körfuna. Hann fékk að fara heim, en fann að eitthvað hafði breyst í hjarta hans. Löngunin í litina, lyktina og bragðið af namminu var farið. Það var eitthvað annað sem hafði tekið völdin í huga hans. Hvað það var vissi hann ekki.

 

Smá vangaveltur:

Ég hef ákveðið að trúa á hið góða í fólki, þó að ég viti að ekki séu allir þannig, og sumir muni ganga á lagið og misnota þessa góðu trú. Ég held nefnilega að betra sé að lifa lífinu með slíka trú heldur en ekki. Það er jafnvel hægt að setja þetta í jöfnu.

Ég trúi því besta upp á fólk og þarf ekki að hafa áhyggjur af hvort það vilji svindla og pretta á mér, og hef því meiri tíma til að sinna því sem ég hef áhuga á að gera og geri vel. Ef ég eyði tíma í tortryggni, öfund og of mikla varkárni gagnvart öðru fólki er það væntanlega sem mun trufla mig frá því að gera mitt besta. Það væri frekar leiðinlegt líf.

Hins vegar þegar ég sé óheilindi í fólki, þá hef ég varann á gagnvart þeim einstaklingum, og geri mitt besta til að hleypa þeim ekki inn í mitt líf. Það þarf ekki að vera annað en að það beiti lygum sér í hag, hagræði sannleikanum, sé óheiðarlegt að einhverju leyti, að virðing mín fyrir þeirri manneskju telur ekki lengur; því ég get einfaldlega ekki metið slíka manneskju sem jafningja, hún hefur valið að lifa lífinu eftir öðrum leikreglum og forsendum. Því verður hún meira eins og skepna eða gæludýr í mínum huga, ekkert eitthvað illt eins og uppvakningur sem vill drepa og éta heilann í fólki eða eitthvað ógurlegt skrímsli, heldur einhver sem borgar sig ekki að hlusta á, að minnsta kosti ekki í bili, ekki fyrr en hún hefur bætt ráð sitt, sem getur gerst.

Ég tel nefnilega að heilindin komi innan frá og hafi djúp áhrif á hvernig manneskjur við erum, á hvernig við þróum þekkingu okkar, skilning, færni og viðhorf gagnvart sjálfum okkur og heiminum. Ef við veljum heilindi erum við að velja út frá einhverju sem við ráðum við, ef við veljum óheilindi erum við að velja út frá einhverju sem við ráðum ekki við.

 

Veltum þessu aðeins fyrir okkur:

Af hverju ljúgum við? Er það til annars en að komast upp með eitthvað, til að forða sjálfum okkur frá vandræðum því við höfum ekki hreina samvisku, eða forðast það að særa annað fólk? Allt þetta á það sameiginlegt að tengjast einhverju sem við höfum ekki stjórn á, líðan annarra eða afleiðingum. Það sem gerist þegar við ljúgum hefur hins vegar ekki bara áhrif á fólkið í kringum okkur, heldur hafa lygarnar áhrif á okkur sjálf, þær spilla okkar, neyða okkur til að vera lævísari, og smám saman verða þær að sjálfsögðum hlut sem blekkir ekki aðeins aðra, heldur okkur sjálf líka. Sú leið er ekki leið heilinda, og stuðlar ekki að góðri ákvarðanatöku í lífi okkar.

Af hverju stelum við? Er það til nokkurs annars en að stytta okkur leið að einhverjum ákveðnum markmiðum? Við viljum kannski vinna einhvern leik í íþróttum og mútum dómaranum til að dæma okkur í hag. Það getur hjálpað okkur að vinna leiki, en hjálpar það okkur að verða betri íþróttamaður? Það er eins og í skákinni þar sem fjölda skákmanna finnst allt í lagi að hagræða úrslitum skáka fyrirfram, einfaldlega vegna þess að það kemur þeim vel í mótum, á meðan aðrir vilja alls ekki taka þátt í slíku. Hvaða áhrif ætli það hafi á skákmanninn sem svindlar umfram þann sem svindlar ekki, og hvað þá ef svindlið verður að normi? Mun sú spilling kannski verða til þess að íþróttin öll staðni, og við sem keppendur stöðnum með?

Það er margt sem getur orðið til þess að fólk velji óheiðarleika umfram heiðarleika, en það sem er sameiginlegt með því öllu er að manneskjan áttar sig ekki á því hvernig rangt val hefur á eigið sálarlíf, og að rangt val tengist alltaf því sem er utanaðkomandi, eitthvað sem maður hefur ekki stjórn á, en rétt val hefur alltaf áhrif á það sem við höfum fulla stjórn á, eitthvað sem býr innra með okkur.

Til dæmis, þegar við óttumst neikvæðar afleiðingar, í stað þess að ljúga eða beita óheilindum, þurfum við að horfast í augu við okkar eigin ótta og knýja okkur til að segja satt.

 


Sjálfselskan og ástin

Byrjum á örstuttri sögu:

Einu sinni, fyrir langa löngu, byggði vitur garðyrkjumaður gróðurhús. Hann skipti því í tvo hluta. Annar hlutinn var gríðarlega vel skipulagður, var með plöntum sem gáfu af sér bragðgóða ávexti, jurtir sem hægt var að nota við lyfjagerð, og blóm sem ilmuðu betur en nokkuð sem hægt var að finna annars staðar í veröldinni. Hinn hlutinn var hins vegar í algjörri óreiðu, þar uxu plönturnar frjálsar, gáfu ekkert endilega af sér ávexti, lyf eða ilm, og virðast í raun ekki gera neitt gagn, og mörgum gestum þótti furðulegt að þessi öflugi garðyrkjumaður léti illgresið vaxa með þessum hætti. Þegar hann var spurður út í þetta hafði hann svar á reiðum höndum: “Í lífi okkar kynnumst við tvenns konar ást. Einni sem gagnast okkur og annarri sem einfaldlega er til ástarinnar sjálfrar vegna, en henni fylgir engin þrá til að fá eitthvað til baka. Báðar eiga sér stað í tilverunni, en hreinust er sú sem eins og illgresið í garðinum mínum, er verðmætt fyrir það eitt að vera til og ekki fyrir ávexti sína.”


Einhvern tíma ræddi ég við félaga minn um ástina. Hann hélt því fram að öll ást væri sprottin úr sjálfselsku, en ég reyndi að þræta fyrir það, því mér þykir erfitt að smætta ástina, frekar en nokkuð annað hugtak, niður í eina einfalda útskýringu. Ég spurði hvort það væri þá útilokað að fólk til dæmis fórnaði lífi sínu vegna þess að það elskaði eitthvað annað meira en sjálft sig.

Hann svaraði sem svo að það væri útilokað, að ef við elskum til dæmis hugmyndina um frelsi og fórnuðum lífi okkar fyrir hana, þá værum við að gera það af sjálfselsku því við getum ekki hugsað okkur að lifa lífinu öðruvísi en frjáls.

Mér þóttu þetta afar sannfærandi rök og mér þykir það enn í dag, en samt get ég ekki samþykkt þau að fullu. Ég held nefnilega að hægt sé að elska án sjálfselsku, að það sem maður elski þurfi ekkert endilega að gagnast manni. En hugsanlega hef ég rangt fyrir mér.

Samkvæmt þessari hugmynd, þá elskum við allt sem gagnast okkur við að nálgast það sem við þurfum. Samkvæmt hinum fræga pýramída Maslows um þarfirnar, þá þurfum við að uppfylla líffræðilegum þörfum okkar, þurfum öryggi, þurfum að tengjast öðrum og finna fyrir ást, þurfum virðingu, þurfum að geta hugsað vel, þurfum að geta metið fegurð, þurfum að vera við sjálf og þurfum loks að uppfylla andlegar þarfir okkar.

En af hverju að elska aðeins það sem gagnast okkur sjálfum? Hvað um það sem gagnast börnum okkar og ekki manni sjálfum? Þegar ég óska þess að börn mín verði heilbrigð og hamingjusöm vegna þess að ég elska þau, þarf slík ósk að byggja á sjálfselsku? Getur verið til ást sem hefur enga eigingirni í för með sér, enga gagnsemi, sem er bara til þess eins að vera?

Ég held að ástin geti verið skilyrðislaus, að maður þurfi ekki að vænta neins í staðinn fyrir það sem maður gefur. Það má jafnvel líta á ástina sem skyldu okkar gagnvart öðru fólki, því ef við elskum ekki hvert annað, hvert erum við þá að stefna í þessu lífi?





Hlutir sem geta spillt vináttu og ást

Það er fullt af mótsögnum í vináttu og ást, svona eins og hafstraumar sem bera fleka í óvæntar áttir. Stundum finnum við góða höfn, stundum rekumst við á sker.

Sem börn gerum við fullt af mistökum sem hafa áhrif á samband okkar við önnur börn og annað fólk. Því betur sem við lærum af mistökum okkar, því fljótari erum við að átta okkur á hversu mikilvægt það er að hafa heilindi í lífinu, og hvernig heilindin eru eitthvað ókeypis, eitthvað sem við getum á svipstundu öðlast, með einni ákvörðun og síðan aga.

Veltum þessu aðeins fyrir okkur. 

Hefurðu einhvern tíma logið að einhverjum eða brotið trúnað, til dæmis með því að segja öðrum frá leyndarmáli sem þú áttir með öðrum vin? Það sem gerist er að traustið milli ykkar rofnar, og það er ekki bara ef hinn aðilinn áttar sig á að þú hefur logið eða svikið, heldur vegna þess að þú veist það! Og þú veist að lygar og svik eru vanvirðing, ekki aðeins við hina manneskjuna eða þig, heldur við sambandið sem slíkt, og sambandið verður aldrei eins eftir að þessi trúnaður hefur verið rofinn.

Hefurðu einhvern tíma hætt að hafa samband við einhvern sem þér þykir vænt um, sleppt því að hafa fyrir því að heimsækja, hringja eða senda skilaboð? Hafið þið hætt að hittast á mannamótum? Gerist þá ekki einmitt þetta, að sambandið flosnar upp, þó að það sé ekkert endilega það sem þið viljið? Þegar við hættum að næra samböndin verða þau eins og jörð sem aldrei er vökvuð, hún verður þurr og ekkert á henni grær lengur. Þetta getur líka gerst ef þú tekur hina manneskjuna sem sjálfsagðan hlut, og hefur ekkert fyrir því að vekja hjá henni ánægju eða vera með henni á gæðastundum. Þetta getur gerst þegar þú hunsar aðra manneskju.

Hefurðu einhvern tíma öfundað einhvern sem þú elskar? Hvaða áhrif hefur það á sálarlífið? Oft er sagt að öfund sé verst allra synda, ekki bara vegna þess hversu slæm áhrif hún hefur á sambönd, heldur hversu hundleiðinleg hún er. Það eru engir kostir við hana. Aftur á móti er lítið mál, ef maður þekkir aðeins sjálfan sig, að átta sig á ef öfund sprettur upp, rýna aðeins í hana og uppræta, rétt eins og aðra fordóma sem spretta stundum fram í huga okkar.

Afbrýðisemi er álíka leiðinleg og öfund, en hún er þegar einhver hefur eitthvað sem maður sjálfur vill hafa og telur sig ekki getað fengið það. Verst er að vera afbrýðisamur út í efnislega hluti sem eru takmarkaðir að magni, því þá eru einu leiðirnar til að fá þennan hlut leiðir eins og að stela, svíkja, pretta eða kaupa; en sértu afbrýðisamur út í andlega hluti eins og vináttu við aðra, hamingju eða hæfni, þá ertu á algjörum villigötum, því þetta eru allt hlutir sem maður getur öðlast sjálfur.

Neikvæðin gagnrýni getur orðið ansi leiðigjörn, sérstaklega ef ekkert uppbyggilegt eða vilji til að bæta hlutina býr að baki, þegar hún birtist eins og skot á manneskjuna eða dómur um eitthvað sem maður hefur ekki gert nógu vel. Það er auðvelt að fá leið á manneskjum sem sjá eitthvað ómögulegt í hverju horni, sérstaklega ef það er í fari annarra og óumbeðið. Fólk reynir að forðast leiðinlegar manneskjur, enda er nóg af skemmtilegu og uppbyggjandi fólki til staðar í heiminum, og betra að stofna til sambanda með slíku fólki. 

Stundum rífast ástvinir um eitt eða annað. Sum deilumál leysast fljótt með alúð og athygli, og góðum samskiptum. En vanti slík viðbrögð geta deilurnar orðið hatrammar og langvinnar. Þær geta valdið skilnaði á milli þessara fyrri vina og löngun til að hittast aldrei nokkurn tíma aftur. Slíkt getur jafnvel snúist upp í fjandskap og hatur, eitthvað sem betra væri að forðast sem heitan eldinn.

Ef ástvinur lítur of stórt á sjálfan sig og telur sig eitthvað betri en hinn aðilann, og það kemur fram í orðum hans og verkum, þá getur það valdið óánægju hjá hinum í sambandinu og skapað löngun til að fjarlægjast manneskjuna.

Stundum breytumst við. Eitthvað gerist. Við upplifum eitthvað áhugavert. Öðlumst reynslu, lesum einhvern texta sem hefur djúp áhrif á okkur. Jafnvel kvikmyndir, skáldsögur eða leikrit getur tekið virkan þátt í að breyta okkur. Til er umbreytandi nám, eitthvað sem fær okkur til að endurhugsa hvernig manneskjur við erum og við áttum okkur á að við getum lifað lífinu betur. Þetta getur líka verið í hina áttina, við getum lent í slæmum félagsskap, brotið af okkur, brotið lögin, framið glæpi, og þannig versnað. Sama í hvora áttina við förum, þá getur það haft áhrif á vináttusambönd okkar og ástarsambönd. Vináttusamböndin eru sjaldan jafn sterk og fjölskyldusamböndin, sem þó geta líka trosnað og fjarað út. Sannur vinur áttar sig á að fólk breytist og er það sem það er á hverri stundu, og með breytingum þurfum við umburðarlyndi og vera tilbúin að fyrirgefa, og þá ekki bara hinni manneskjunni, heldur fyrst og fremst okkur sjálfum.

Þetta er ekki tæmandi greinargerð um það sem getur spillt fyrir vináttu og ást, heldur smá vangaveltur sem sprottið hafa úr minni eigin reynslu og vangaveltur um hana. Þar sem ég hef varið um helmingi ævi minnar erlendis, hef ég áttað mig á því hvað fjarveran getur haft sterk og varanleg áhrif á vináttuna, og hvernig veikari sambönd fjara út á meðan sönn vinátta og ást styrkist, þrátt fyrir allt.


Hvernig veljum við vini okkar?

Byrjum á örsögu:

Það var einu sinni í fjárhúsi þar sem fleiri en 200 kindur dvöldu yfir veturinn, að það stóð autt á síðustu dögum sumars, að forvitin húsfluga flaug í kringum mús sem stóð uppi á staur og leit í kringum sig. “Af hverju stendur þú uppi á þessum staur?” spurði flugan. “Ég er svo lítil og heimurinn svo stór,” svaraði músin. Flugan settist á grindverkið við staurinn og spurði músina hvað hún vildi vita um heiminn. “Allt,” sagði músin. “Það hlýtur að vera eitthvað meira en það sem við sjáum hérna.” Húsflugan sagði músinni frá hvernig hún gat stundum þegar viðraði vel flogið hátt yfir sveitina, séð hafið og húsin og fugla á sveimi, fjöllin í fjarska og hvernig stærstu dýr virðast frá því sjónarhorni vera á stærð við músina. Músin sagði flugunni frá því hvernig hún hafði oft naumlega sloppið undan kettinum á bænum og tókst með fimi að skjótast í skjól þar sem kötturinn náði ekki til hennar. Dag eftir dag, það sem eftir leið sumars, og alveg fram á haust, héldu húsflugan og músin áfram að segja hvort öðru sögur um heiminn út frá sjónarhornum sínum. Þegar fór að kólna, fundu þau þægilegan hita í því einu að vera í námunda hvort við annað. 

Frá barnæsku eignumst við vini. Stundum gerist það af sjálfu sér. Við höfum samband við vinina til að leika við þá og þeir við okkur. Þessi sambönd verða stundum traust og halda út alla ævina, önnur flosna upp og verða að litlu öðru en góðri minningu um manneskja sem eitt sinn var vinur manns.

En vinátta er mikill áhrifavaldur í lífi okkar. Hún getur breytt hegðun okkar og hugarfari á óvæntan hátt, hún getur komið aftan að okkur og haft slæm áhrif á okkur, spillt okkur, eða haft góð áhrif og þroskað okkur til muna.

Eftir því sem við eldumst og þroskumst, þá vaxa vinir oft í ólíkar áttir og fjarlægjast, og þá stofnum við til nýrra vináttusambanda út frá því hvar við erum stödd í lífinu. 

Hvernig manneskja viljum við vera? er ein af þeim spurningum sem við þurfum að spyrja okkur áður en við veljum okkur nýja vini, því þetta val endurspeglar hvernig manneskja við viljum vera. Við vitum að vinir okkar hafa áhrif á persónuleika okkar, hugarfar og hegðun; og þurfum því að velja vini út frá þeim gildum sem við metum best. 

Og þegar ég tala um vini, þá á það ekki bara við um eina manneskju, heldur einnig félagsskapinn sem maður vill umgangast. Það gæti verið fyrirtæki sem maður ræður sig til starfa hjá, skóli og nám sem maður velur, stjórnmálaflokkur eða trúarsöfnuður sem maður ákveður að fylgja, eða áhugamál sem maður velur. 

Allt hefur þetta áhrif á hvernig við þróumst sem manneskja. 

En þegar við veljum vini okkar, þá gerum við það ekkert endilega með því að setja kosti og galla manneskjunnar í Excel skjal, heldur er eins og eitthvað náttúrulegt ferli eigi sér stað, eitthvað innsæi og samvinna, sem síðar verður að trausti og órjúfanlegum böndum.

Þeir þættir sem hafa áhrif á valið geta verið hlutir eins og sameiginleg áhugamál, persónuleiki, virðing, tilfinningar, samskipti, félagsleg staða og innsæi. Allt þetta getur hjálpað manni að finna góða vini, en það sem virðist á endanum byggja traustustu vináttuna er ef þeir hafa sams konar gildi, meta sömu hlutina sem verðmæta.


Hrærigrautur breytinganna

“Engin manneskja stígur tvisvar í sömu ána, því það er aldrei sama á og hún er aldrei sama manneskjan.” - Heraklítus

Nú er aðfangadagur jóla. Oft hef ég haft tilfinningu fyrir hátíð, að það beri að fagna lífinu og fæðingu vonar og kærleika. En eftir atburði síðustu vikna, það rót að fá stundum ekki að fara heim nema í fylgd viðbragðsaðila með hjálm á höfði í takmarkaðan tíma, og síðan fengið þau skilaboð að það megi fara heim yfir jólin en muna samt að það geti opnast sprungur undir manni og eldgos geti byrjað í bænum, það sé mikið landris í gangi og að enginn viðbragðsaðili verði til staðar, gefur manni ekki endilega tilefni til bjartsýni.

Og ég velti fyrir mér þessum breytingum. Af hverju heimurinn sé stöðugt að breytast og við með, og þrátt fyrir það haldi fólk í þá trú að allt sé eins og það eigi að vera, allt sé eins og það er, og haldi í sína siði og venjur, sama hvað.

Stundum finnst mér heimurinn standa kyrr, að allt sé eins og það hefur alltaf verið og skilningur minn á því sem er gæti ekki verið betri. Samt veit ég að þetta er aðeins tilfinning og sem slík er hún aðeins blekking.

Það er svo margt sem stöðugt breytist. 

Manneskjur fæðast og deyja hvern einasta dag. Heimili okkar sem eitt sinn þóttu öruggt skjól eru nú fjarlægur staður sem maður heimsækir stöku sinnum, vegna náttúrunnar. Stundum elskar maður náttúruna fyrir fegurð sína og stórfengleika, og stundum stendur manni nokkurn veginn á sama því henni stendur nákvæmlega sama um okkur. 

Reyndar má segja að breytingarnar séu svolítið háðar sjónarhorni. Út frá sjónarhorni einnar manneskju, þá er lífið einn hrærigrautur og það er eins og eitthvað mikið afl sem enginn ræður við sé að hræra í pottinum. 

En ef við stækkum sjónarhornið og veltum fyrir okkur hvernig manneskjan hefur verið síðustu þúsundir ára, að við fáum stöðugt sömu hugmyndir, að við reynum stöðugt að byggja samfélög, að við trúum ólíklegustu hlutum þó að þeir séu augljóslega ekki sannir, þá má líka segja að það sé eitthvað í þessum heimi sem breytist aldrei. Það er erfitt að sjá hvernig góð röksemdafærsla getur hætt að vera góð, það er erfitt að sjá að hreyfing himintunglanna skapi ekki aðdráttarafl, það er erfitt að sjá fyrir sér að breytingar muni nokkurn tíma hætta. Ætli það sé ekki einmitt málið, að breytingar séu eitt af því stöðuga í þessum heimi?

Þessi heimur er skrýtinn og þó að við fáum aldrei gripið hann að fullu, þá er hann og fólkið í honum þess virði. Ég skynja þessar breytingar og átta mig á að einhverju af þeim er hægt að vinna með, bæði manns eigin viðhorfi, tilfinningar og val, og líka því sem unnið er að með teymi samhuga fólks. 

Þrátt fyrir að jörðin hristist og varpi eldi og brennistein, og að maður hrærist með í þessum hrærigraut breytinga, þá getum við þó lært að synda og stöku sinni jafnvel skotist upp á yfirborðið til að átta okkur á hvernig heimurinn hagar sér.

Gleðileg jól!

 


Hvernig vitum við hvaða hugmyndir okkar eru góðar?

“Eurika!” - Arkímedes

Góð hugmynd er eitthvað sem virkar vel fyrir þann sem hefur hana og skaðar engan annan. Þú veist að hugmyndin er góð ef hún bætir líf þitt og tilveru án þess að rugla í lífi annarra. Góðar hugmyndir eru yfirleitt ekki flóknar, þær eru oft svo einfaldar að auðveldast er að taka ekki eftir þeim. Til dæmis þegar kemur að fjárfestingum, þá borgar sig að kaupa í traustum fyrirtækjum sem eiga bjarta framtíð og eiga bréfin lengi, og muna að það sem gerir fyrirtækin traust er fólkið sem stjórnar þeim og vinnur þar. Það sama á við þegar maður ákveður að ráða sig í vinnu.

Það er hægt að meta góðar hugmyndir frá ólíkum sjónarhornum. Til dæmis vitum við að hugmynd er góð ef hún er í samræmi við sannleikann og dyggðirnar, en þá reyndar þurfum við að leggjast í grúsk og læra meira um sannleikann og dyggðirnar, og áttum okkur fljótt á hversu ólíkar hugmyndir fólk hefur um hvort tveggja, þannig að komast að sameiginlegri niðurstöðu reynist afar vandasamt. En samt getum við byggt upp trausta þekkingu, skilning og hegðun sem getur stýrt okkur til að skilja muninn á góðum og slæmum hugmyndum.

Einnig er hægt að skoða hugmyndir út frá gullna meðalveginum, að hugmyndin sé í jafnvægi og framkvæmd hennar í samræmi við það. Það getur til dæmis verið hugmyndin um hvað börnum er gefið í skóinn, það má hvorki vera of lítið né of mikið, og þarf einhvern veginn að kenna þeim muninn á réttu og röngu. 

Góð hugmynd er líka eitthvað sem virkar og stenst tímans tönn. Í skák er ein megin hugmyndin að ná valdi yfir miðborðinu strax í upphafi skákar, þetta er hugmynd sem hefur lengi reynst vel, hún hefur virkað, og skákmenn hafa haldið í hana eins og trú. Samt má vel vera að gervigreindin geti lært og kennt okkur önnur viðmið og aðrar hugmyndir sem eru jafnvel ennþá betri. Það er eitt af því sem einkennir góðar hugmyndir, þó að þær séu góðar, þá virðist alltaf vera hægt að finna einhverjar aðeins betri.

Góðar hugmyndir hjálpa okkur að ná markmiðum okkar og gera lífið betra, bæði fyrir okkur sjálf og fólkið í kringum okkur.

Við höfum samþykkt að það að halda jól sé góð hugmynd. Við megum alveg spyrja okkur af hverju þessi hugmynd hefur fest sig í sessi og af hverju við sem samfélag virðum jólin og áramótin.

Við höfum samþykkt að það sé góð hugmynd að kjósa stjórnvöld yfir hverju landi og bæ, og að kosið sé til stjórna í fyrirtækjum og félögum. En svo vitum við að til er fólk sem telur lýðræðið, rétt eins og jól og jafnvel áramót, vera slæmar hugmyndir og þess virði að rústa. 

Við höfum áttað okkur á því að góðar hugmyndir stefna að því að uppfylla okkar eigin þarfir í lífinu, ekki bara grunnþarfir heldur einnig háleitari hugmyndir eins og að gera allt sem við getum til að öðlast sjálfsstjórn og frelsi til að vera við sjálf.

 


Öngstræti þeirra sem vantar visku

Ósnotur maður

hyggur sér alla vera

viðhlæjendur vini.

Hitt-ki hann finnur,

þótt þeir um hann fár lesi,

ef hann með snotrum situr.

 

- Hávamál



Flest okkar skortir visku með einum eða öðrum hætti. Við lærum fljótt að fela þennan skort, til dæmis með að hlæja að bröndurum sem við skiljum ekki þegar einhverjir aðrir hlægja, með því að vera svolítið meðvirk.

Eins og segir í þessu ljóði Hávamála sem vitnað er í hér að ofan, þá áttar hinn óvitri sig ekki á að þeir sem þykjast vera sammála honum eru ekkert endilega vinir hans, og áttar sig ekki þegar aðrir hæðast að honum. Þetta er frekar leiðinleg staða fyrir manneskju.

Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að snúa sér frá því að vera óvitur og stefna á visku. Það getur þýtt ýmsar fórnir, eins og að lesa meira, læra meira, hugsa betur og taka betri ákvarðanir, sem þýðir að maður getur sjálfsagt ekki skemmt sér og verið kærulaus öllum stundum.

Sá sem skilur ekki hlutina, sá sem getur ekki tekið góðar ákvarðanir, sá sem getur ekki hagað sér skynsamlega, sá sem getur ekki stutt við aðra án þess að hugsa fyrst um sjálfan sig og sína, það er fólkið sem er óviturt.

Hinn óvitri er líklegur til að telja sig skilja kjarna hvers einasta málefnis, þrátt fyrir að hafa rétt skrapað í hismið. Sá vitri hefur hins vegar fjarlægt hismið og komist að kjarna hvers máls með rannsóknum og rökhugsun. Hinn óvitri telur sig vita eitthvað sem hann ekki veit, og byggir það á skoðunum sínum, sem geta auðveldlega verið byggðar á einhverju öðrum en rannsóknum og rökhugsun.

Hinn óvitri á erfitt með að taka ákvarðanir. Hann þekkir ekkert endilega muninn á réttu og röngu, eða góðu og illu, skynsamlegum leiðum og ógöngum. Þannig flækist hinn óvitri stöðugt fyrir sjálfum sér. 

Hinn óvitri gerir mistök og skammast sín fyrir þau, og reynir að fela þau, lætur engan vita að hann hafi gert þau, og ef honum tekst að hylja spor eigin mistaka hefur hann ekkert annað lært en að fela mistök. Sá vitri horfist hins vegar í augu við eigin mistök, og er tilbúinn að viðurkenna þau, og jafnvel eigin skort á þekkingu eða skilning. Þannig lærir hann á eigin mistökum, og ekki nóg með það, hann fylgist með frásögnum af mistökum annarra, til þess að læra af þeim, því hvað er betra en að geta lært af mistökum annarra frekar en að þurfa að gera mistök sjálfur?

Þá sem skortir visku eru oft uppteknir af sjálfum sér, telja að heimurinn snúist um þá, að allt sem þeir sjá hljóti að vera það sem allir aðrir sjá. Hinn vitri áttar sig hins vegar á hvernig hvert og eitt okkar er eins og mjór þráður í miklu teppi sem tengir okkur öll saman, og áttar sig á, með auðmýkt, að lítill þráður hefur kannski lítið að segja, en án hans verður teppið ekki jafn traust og gott.

Það er samt ekki það sama að vera upptekinn af sjálfum sér og leita sér sjálfsþekkingar. Sá sem leitar sér þekkingar á sjálfum sér er ekkert endilega upptekinn af sjálfum sér, heldur er að læra um fyrirbæri sem enginn annar getur nálgast með sama hætti, og þetta nám á manni sjálfum getur vakið mikla undrun. Sá sem er upptekinn af sjálfum sér, eins undarlega og það kann að hljóma, hefur líkast til afar lítinn áhuga á að læra um sjálfan sig, eða veit ekki hvert best er að snúa sér í slíkri rannsókn.

Sá sem skortir visku virðist ekki vera að horfa í átt að því sanna og góða, heldur horfir á skuggamyndir, eins og Platón lýsir í hellislíkingu sinni. Í þeirri líkingu sat heil þjóð hlekkjuð við vegg djúpt í helli nokkrum og kepptist við að greina skuggamyndir á vegg sem birtist fyrir framan það, en á bakvið þau logaði eldur sem varpaði skuggamyndum á vegginn sem þau voru svo upptekin við að greina. 

Það eru margar skuggamyndir sem trufla okkur frá því að sjá hið sanna og góða. Sjálfsagt eru þær ólíkar í nútímanum, en engu að síður til staðar, í alls konar formi og gerð. Hvort betra sé að lifa í samfélagi skuggamynda eða sannleikans er svo önnur og stærri spurning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband