Færsluflokkur: Bloggar
Hvernig vitum við hvaða hugmyndir okkar eru góðar?
23.12.2023 | 10:29
Eurika! - Arkímedes
Góð hugmynd er eitthvað sem virkar vel fyrir þann sem hefur hana og skaðar engan annan. Þú veist að hugmyndin er góð ef hún bætir líf þitt og tilveru án þess að rugla í lífi annarra. Góðar hugmyndir eru yfirleitt ekki flóknar, þær eru oft svo einfaldar að auðveldast er að taka ekki eftir þeim. Til dæmis þegar kemur að fjárfestingum, þá borgar sig að kaupa í traustum fyrirtækjum sem eiga bjarta framtíð og eiga bréfin lengi, og muna að það sem gerir fyrirtækin traust er fólkið sem stjórnar þeim og vinnur þar. Það sama á við þegar maður ákveður að ráða sig í vinnu.
Það er hægt að meta góðar hugmyndir frá ólíkum sjónarhornum. Til dæmis vitum við að hugmynd er góð ef hún er í samræmi við sannleikann og dyggðirnar, en þá reyndar þurfum við að leggjast í grúsk og læra meira um sannleikann og dyggðirnar, og áttum okkur fljótt á hversu ólíkar hugmyndir fólk hefur um hvort tveggja, þannig að komast að sameiginlegri niðurstöðu reynist afar vandasamt. En samt getum við byggt upp trausta þekkingu, skilning og hegðun sem getur stýrt okkur til að skilja muninn á góðum og slæmum hugmyndum.
Einnig er hægt að skoða hugmyndir út frá gullna meðalveginum, að hugmyndin sé í jafnvægi og framkvæmd hennar í samræmi við það. Það getur til dæmis verið hugmyndin um hvað börnum er gefið í skóinn, það má hvorki vera of lítið né of mikið, og þarf einhvern veginn að kenna þeim muninn á réttu og röngu.
Góð hugmynd er líka eitthvað sem virkar og stenst tímans tönn. Í skák er ein megin hugmyndin að ná valdi yfir miðborðinu strax í upphafi skákar, þetta er hugmynd sem hefur lengi reynst vel, hún hefur virkað, og skákmenn hafa haldið í hana eins og trú. Samt má vel vera að gervigreindin geti lært og kennt okkur önnur viðmið og aðrar hugmyndir sem eru jafnvel ennþá betri. Það er eitt af því sem einkennir góðar hugmyndir, þó að þær séu góðar, þá virðist alltaf vera hægt að finna einhverjar aðeins betri.
Góðar hugmyndir hjálpa okkur að ná markmiðum okkar og gera lífið betra, bæði fyrir okkur sjálf og fólkið í kringum okkur.
Við höfum samþykkt að það að halda jól sé góð hugmynd. Við megum alveg spyrja okkur af hverju þessi hugmynd hefur fest sig í sessi og af hverju við sem samfélag virðum jólin og áramótin.
Við höfum samþykkt að það sé góð hugmynd að kjósa stjórnvöld yfir hverju landi og bæ, og að kosið sé til stjórna í fyrirtækjum og félögum. En svo vitum við að til er fólk sem telur lýðræðið, rétt eins og jól og jafnvel áramót, vera slæmar hugmyndir og þess virði að rústa.
Við höfum áttað okkur á því að góðar hugmyndir stefna að því að uppfylla okkar eigin þarfir í lífinu, ekki bara grunnþarfir heldur einnig háleitari hugmyndir eins og að gera allt sem við getum til að öðlast sjálfsstjórn og frelsi til að vera við sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Öngstræti þeirra sem vantar visku
22.12.2023 | 17:50
Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini.
Hitt-ki hann finnur,
þótt þeir um hann fár lesi,
ef hann með snotrum situr.
- Hávamál
Flest okkar skortir visku með einum eða öðrum hætti. Við lærum fljótt að fela þennan skort, til dæmis með að hlæja að bröndurum sem við skiljum ekki þegar einhverjir aðrir hlægja, með því að vera svolítið meðvirk.
Eins og segir í þessu ljóði Hávamála sem vitnað er í hér að ofan, þá áttar hinn óvitri sig ekki á að þeir sem þykjast vera sammála honum eru ekkert endilega vinir hans, og áttar sig ekki þegar aðrir hæðast að honum. Þetta er frekar leiðinleg staða fyrir manneskju.
Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að snúa sér frá því að vera óvitur og stefna á visku. Það getur þýtt ýmsar fórnir, eins og að lesa meira, læra meira, hugsa betur og taka betri ákvarðanir, sem þýðir að maður getur sjálfsagt ekki skemmt sér og verið kærulaus öllum stundum.
Sá sem skilur ekki hlutina, sá sem getur ekki tekið góðar ákvarðanir, sá sem getur ekki hagað sér skynsamlega, sá sem getur ekki stutt við aðra án þess að hugsa fyrst um sjálfan sig og sína, það er fólkið sem er óviturt.
Hinn óvitri er líklegur til að telja sig skilja kjarna hvers einasta málefnis, þrátt fyrir að hafa rétt skrapað í hismið. Sá vitri hefur hins vegar fjarlægt hismið og komist að kjarna hvers máls með rannsóknum og rökhugsun. Hinn óvitri telur sig vita eitthvað sem hann ekki veit, og byggir það á skoðunum sínum, sem geta auðveldlega verið byggðar á einhverju öðrum en rannsóknum og rökhugsun.
Hinn óvitri á erfitt með að taka ákvarðanir. Hann þekkir ekkert endilega muninn á réttu og röngu, eða góðu og illu, skynsamlegum leiðum og ógöngum. Þannig flækist hinn óvitri stöðugt fyrir sjálfum sér.
Hinn óvitri gerir mistök og skammast sín fyrir þau, og reynir að fela þau, lætur engan vita að hann hafi gert þau, og ef honum tekst að hylja spor eigin mistaka hefur hann ekkert annað lært en að fela mistök. Sá vitri horfist hins vegar í augu við eigin mistök, og er tilbúinn að viðurkenna þau, og jafnvel eigin skort á þekkingu eða skilning. Þannig lærir hann á eigin mistökum, og ekki nóg með það, hann fylgist með frásögnum af mistökum annarra, til þess að læra af þeim, því hvað er betra en að geta lært af mistökum annarra frekar en að þurfa að gera mistök sjálfur?
Þá sem skortir visku eru oft uppteknir af sjálfum sér, telja að heimurinn snúist um þá, að allt sem þeir sjá hljóti að vera það sem allir aðrir sjá. Hinn vitri áttar sig hins vegar á hvernig hvert og eitt okkar er eins og mjór þráður í miklu teppi sem tengir okkur öll saman, og áttar sig á, með auðmýkt, að lítill þráður hefur kannski lítið að segja, en án hans verður teppið ekki jafn traust og gott.
Það er samt ekki það sama að vera upptekinn af sjálfum sér og leita sér sjálfsþekkingar. Sá sem leitar sér þekkingar á sjálfum sér er ekkert endilega upptekinn af sjálfum sér, heldur er að læra um fyrirbæri sem enginn annar getur nálgast með sama hætti, og þetta nám á manni sjálfum getur vakið mikla undrun. Sá sem er upptekinn af sjálfum sér, eins undarlega og það kann að hljóma, hefur líkast til afar lítinn áhuga á að læra um sjálfan sig, eða veit ekki hvert best er að snúa sér í slíkri rannsókn.
Sá sem skortir visku virðist ekki vera að horfa í átt að því sanna og góða, heldur horfir á skuggamyndir, eins og Platón lýsir í hellislíkingu sinni. Í þeirri líkingu sat heil þjóð hlekkjuð við vegg djúpt í helli nokkrum og kepptist við að greina skuggamyndir á vegg sem birtist fyrir framan það, en á bakvið þau logaði eldur sem varpaði skuggamyndum á vegginn sem þau voru svo upptekin við að greina.
Það eru margar skuggamyndir sem trufla okkur frá því að sjá hið sanna og góða. Sjálfsagt eru þær ólíkar í nútímanum, en engu að síður til staðar, í alls konar formi og gerð. Hvort betra sé að lifa í samfélagi skuggamynda eða sannleikans er svo önnur og stærri spurning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Góður vilji: takmarkalaus uppspretta hins góða í heiminum
21.12.2023 | 23:16
Það er ekkert hægt að hugsa sér í heiminum né utan hans sem talist getur verið gott án takmarkana, annað en góður vilji. - Immanuel Kant, Grunnur að frumspeki siðferðinnar.
Ég oft velt fyrir mér hvernig maður getur þekkt muninn á því sem er gott og illt annars vegar, eða algjörlega hlutlaust hins vegar, og ég er á því að Kant hafi slegið naglann á höfuðið þegar hann sagði að ekkert annað en góður vilji væri gott takmarkalaust.
Annað er að ég held að hið góða, illa og hlutlausa sé ekki eitthvað sem liggi í hlutum, atburðum, öðrum manneskjum, guðlegum verum eða skröttum, heldur eitthvað sem við höfum í huga okkar, sem við ákveðum sjálf út frá því hvernig við skiljum heiminn og sjálf okkur.
Siðfræði er stórkostleg fræðigrein. Hún fjallar um að rannsaka nákvæmlega þetta, hvað er hið góða, hún getur reyndar líka skoðað fleiri hluti eins og hið rétta og hamingjuna, en hið góða er í stórum fókus. Hvernig áttum við okkur á hvað er gott og hvað er ekki gott, og hvað er hvorugt?
Veltum fyrir okkur hlutum eins og sanngirni, réttlæti og umhyggju? Finnst þér gott að fólk sé sanngjarnt, réttlátt og umhyggjusamt? Ef svarið er já, þá veistu eitthvað um það hvað er gott, og þín leið til að vera góð manneskju að einhverju leyti er að æfa þig í að vera sanngjörn, réttlát og umhyggjusöm manneskja.
Hefurðu velt fyrir þér hvernig vilji þinn hefur áhrif á annað fólk? Hvernig það hefur góð áhrif á annað fólk ef þú ert sanngjörn, réttlát og umhyggjusöm manneskja, og hvernig heimurinn væri öðruvísi ef þú væri ósanngjörn, ranglát og kærulaus manneskja? Ég mæli með að horfa á kvikmyndina Its a Wonderful World til að fá skemmtilegt dæmi um þetta. Hugsaðu um muninn á manneskju sem hjálpar öðrum og þeirri sem skaðar aðra. Sjáum við þar muninn á góðu og illu, eða er hið góða aðeins það þegar við högum okkur í samræmi við það sem hjálpar öðrum og ill ef við högum okkur í samræmi við það sem skaðar aðra? Þurfum við þá kannski að velta fyrir okkur hvernig hegðun og hugsunarháttur hjálpar, og hvernig hegðun og hugsunarháttur skaðar? Góður vilji þarf samt alls ekki að hugsa einungis um aðra, hann leitar jafnvægis á milli sjálfs sín og annarra.
Einnig getum við skoðað tilfinningar okkar. Sjáum við að við höfum samúð með öðru fólki, að við leitum skilnings á aðstöðu annarra, að við sýnum kærleika í verki? Eða erum við bara hrædd, fúl og eigingjörn? Getum við stjórnað því hvernig okkur líður? Getur verið að góður vilji sé áttaviti að góðri líðan?
Það getur verið gott að hlusta á hvað aðrir segja, fá umsagnir um hvernig við högum okkur, jafnvel hvernig við hugsum, tölum eða skrifum. Ég veit að minn eigin hugur fer stundum eigin leiðir, líka í þessum hugrenningum sem ég leyfi mér að birta á blogginu, og mér finnst ég vera svolítið nakinn fyrir framan alþjóð, að birta hugsanir sem ég hef ekki grandskoðað, heldur renna aðeins létt um huga minn og í orð; en ég finn samt að það gerir mér gott, og ef það gerir mér gott, þá held ég að það gæti gert einhverjum öðrum gott ef ég birti þessar pælingar.
Já, annars er það nokkuð viðeigandi að velta fyrir sér hvernig góður vilji er rót alls hins góða í þessum heimi, sérstaklega núna þegar jólin eru að renna í garð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig lærir maður rökhugsun?
20.12.2023 | 20:53
Eftir að hafa lifað á þessari jörð í rúm 50 ár hefur mér tekist að svara þeirri spurningu hvort rökhugsun sé okkur meðfædd, og svar mitt er skýrt nei. Við fæðumst alls ekki með rökhugsun, það að hugsa rökrétt krefst náms, en leiðin að rökhugsun getur opnast út frá mörgum ólíkum leiðum. Rökhugsun krefst þess að við áttum okkur á forsendum og reglum rökfræðinnar, og að við getum beitt þessum reglum í daglegu máli. Sterkasta vísbendingin fyrir því að rökhugsun sé ekki meðfædd er hversu margir halda fram samsæriskenningum sem eiga enga stoð í veruleikanum, eða því sem Þorsteinn Gylfason kallaði gervivísindi.
Aftur á móti höfum við öll möguleikann til að læra rökhugsun. Rétt eins og við fæðumst ekki sem skákmenn, fótboltamenn eða framkvæmastjórar, fæðumst við ekki með rökhugsun, þó að við fæðumst líkast til flest með getuna til rökhugsunar. Rétt eins og svo margt annað, þá þurfum við að læra grundvallarreglur rökfræðinnar til að ná völdum á henni. Eins og í skák, ef við kunnum ekki mannganginn og höfum aldrei teflt skák, þá getum við ekki sagt að við kunnum að tefla. Reyndar gætum við talið okkur kunna ýmislegt sem við kunnum ekki. Þegar kemur að skák þá töpum við líkast til skákinni fljótt og örugglega, en þegar kemur að rökhugsun, þá eru engin afgerandi úrslit önnur en að við höfum rangt fyrir okkur, og við getum mögulega talið að við höfum rétt fyrir okkur.
Undirstöðu rökfræðinnar snúast um hluti eins og að skilja hvernig röksemdir og niðurstöður virka, hvernig rök geta verið afleidd eða aðleidd, hvernig sum rök geta verið gild á meðan önnur eru ógild, og hvernig rökvillur geta hljómað sennilega en leitt okkur í ógöngur. Með þessari undirstöðuþekkingu getum við síðan bætt okkur með stöðugri þjálfun og notkun á rökum.
Besta þjálfunin felst í því að beita gagnrýnni hugsun í daglegu tali, spyrjast fyrir um forsendur og rök, bæði þín eigin og annarra. Eins og Sherlock Holmes leitarðu stöðugt að vísbendingum sem leiða til sönnunar og spyrst fyrir þegar þú ert ekki viss.
Einnig er hægt að leika sér í alls konar leikjum sem krefjast rökhugsunar, leikjum eins og skák, púsluspili, krossgátu, sudoko. Flestir tölvuleikir þjálfa okkur í rökhugsun, og það er jafnvel hægt að þjálfa hana með því að spjalla við gervigreind eins og ChatGPT.
Lestur eða hlustun á góðum skáldsögum, jafnvel áhorf á góðum kvikmyndum getur hjálpað til við að móta góða rökhugsun, og ennþá frekar ef þú finnur þér bækur um rökfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun. Þessum lestri þyrfti helst að fylgja einhvers konar íhugun, og þá myndi ég mæla með að skrifa dagbókarfærslu hvern einasta dag.
Samræður eru fyrir rökhugsun eins og skákmót eru fyrir skákir, en góðar samræður sem stefna að því að afhjúpa sannleikann í ákveðnum málefnum eru afar holl æfing. Í samræðum er mikilvægt að vera nógu auðmjúkur til að læra af eigin mistökum, og átta sig á þegar maður hefur ekki hugsað einhverja hugmynd rétt. Maður áttar sig á því þegar efasemdir vakna, og þó maður átti sig ekki á af hverju þær vöknuðu, borgar sig að rannsaka það. Slík rannsókn mun annað hvort leiða eitthvað nýtt í ljós eða ekki, sem getur breytt hvernig við hugsum um það sem okkur er hugleikið. Góð rökhugsun getur hjálpað okkur að breytast í eitthvað betra en við erum.
Finndu þér félaga sem nenna að hugsa með þér og átta sig á gildi rökhugsunar. Tækifærin til að ræða ólíkar hugmyndir eru líkleg til að koma aftan að manni, og þá þarf maður að vera tilbúinn að velta fyrir sér hlutunum, og kunna þá að beita rökhugsuninni vel.
Við getum öll lært að hugsa vel, en við þurfum að læra það og þjálfa okkur. Það getur tekið langan tíma, en smám saman áttum við okkur á hvernig við getum lært að hugsa betur í dag en við gerðum í gær, en það krefst vinnu og þjálfunar. Við þurfum að nenna að læra rökhugsun, og stundum leita okkur að kennara til að læra hana.
Besta kennslan í rökhugsun felst í ástundun heimspeki, enda er rökfræði ein af megingreinum heimspekinnar. Sumir hafa talið og haldið því fram að stærðfræðin kenni okkur betur rökhugsun en rökfræðin sjálf, en það er mikill misskilningur sem hefur haft áhrif á samtíma okkar og fortíð, en það væri hægt að bæta framtíðina töluvert ef við áttum okkur í gildi heimspekinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Flókið jafnvægi magns og gæða
19.12.2023 | 23:10
Þessu er ég að velta fyrir mér á meðan óvissa ríkir um hvort heimili okkar í Grindavík fari undir gríðarlegt magn af hrauni, hvort vegurinn fari á kaf eða hvort við getum farið aftur heim í hið góða líf.
Í leit okkar að dýpri skilningi á heiminum lendum við oft í að velta fyrir okkur flóknu samspili magns og gæða. Oft heyrist sú hugmynd að aukning á magni leiði til lækkunar á gæðum og öfugt. Hins vegar er þetta ekki algildur sannleikur.
Að greina á milli efnislegra og óefnislegra fyrirbæra veitir dýpri innsýn í þetta samband. Efnisleg fyrirbæri eins og matur, eldsneyti eða peningar eru takmarkaðir. Aftur á móti eru óefnislegir eiginleikar eins og hamingja, vellíðan og rík sambönd takmarkalaus.
Hugleiddu heim matreiðslulistarinnar. Skyndibiti, fjöldaframleiddur og hagkvæmur, fórnar oft gæðum fyrir hraða og pláss. Aftur á móti koma fínir veitingastaðir, þekktir fyrir gæði, til móts við færri viðskiptavini til að veita óviðjafnanlega matarupplifun.
Gæðaskynjun getur verið huglæg. Það sem einum finnst yndislegt, eins og bíómynd eða nammi, gæti öðrum þótt ekkert sérstakt. Þessi huglægni nær til þeirrar trúar að skortur feli í sér meiri gæði og meira magn, minni gæði. Hins vegar er ekki alltaf skýrt samband milli orsaka og afleiðinga.
Umhverfismál, eins og alltof mikið örplast í sjónum vegna ofnotkunar á einnota plasti, sýnir þetta jafnvægi. Viðleitni til að draga úr örplastmengun gæti dregið úr þægindum og ákveðnum eiginleikum sem plast býður upp á, eins og að drekka súkkulaðimjólk með plaströri - þar sem pappírsstrá breytir bragði og áferð samanborið við plast.
Framfarir í tækni sýna að hægt er að viðhalda gæðum eða jafnvel auka þau í fjöldaframleiðslu. Þetta kemur fram í framleiðslu á bílum, tölvum og ýmsum öðrum vörum þar sem aukið magn dregur ekki endilega úr gæðum.
Í menntun er hvatt til fjölbreytni í námsefni og aðferðum sem bendir til þess að meira úrval námsefnis geti aukið gæði. Hins vegar getur þetta jafnvægi breyst til hins verra ef fjöldi nemenda í kennslustofu verður of mikill eða of lítill, allt eftir hversu vel tekst til að skipulegja og stjórna skólaumhverfinu og kennslunni.
Að lokum getur ásókn í fleiri smelli til að auka auglýsingatekjur stundum komið í stað ítarlegrar rannsóknarblaðamennsku, sem skilar ekki alltaf fleiri smellum.
Þó að alhæfingar um magn og gæði séu freistandi eru þær oft villandi. Hin sanna list felst í því að finna hinn gullna meðalveg, jafna það sem er nægilega gott og með nægilegu magni, og viðurkenna að þetta jafnvægi er mismunandi eftir mismunandi aðstæðum og samhengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Meira en bara hugsun: áhrif heimspekinnar á hversdagslífið
17.12.2023 | 10:14
Ég á það til að gleyma mér í daglegu tali og velta fyrir mér af hverju fólk heldur fram einhverju sem það heldur fram, og frekar en að halda aftur af mér, fer ég út í það að spyrja nánar út í hlutina, af hverju það heldur það sem það heldur, og ég reyni að skilja hvað verið er að meina.
Oft gerist það að einhver vinur ypptir öxlum og segir að ég sé bara svona heimspekingur, og þá brosir fólk góðlátlega að mér eins og það sé einhvers konar galli sem hægt væri að vinna á, og tekur þessum spurningum ekkert endilega alvarlega.
Svo hefur það gerst að þegar ég spyr slíkra spurninga að mér er tjáð að heimspekin sé vita gagnslaus. Og mér finnst áhugavert að heyra af hverju viðkomandi finnst það, en þá fæ ég vitaskuld ekki að heyra mikið af rökum.
Hins vegar get ég fullyrt að heimspekin hefur ekki verið gagnslaus fyrir mig. Hún hefur hjálpað mér að sjá heiminn út frá allt öðrum forsendum en áður en ég kynntist henni, og hún hefur bætt dýpt í líf mitt, þó að ég geti ekki sagt að hún hafi breytt hvernig manneskja ég er, ekki frekar en ferðalanginum þegar hann kemur heim eftir langt ferðalag, þá er hann ennþá sama manneskjan, en kannski með aðeins meiri reynslu á bakinu.
Þannig sé ég heimspekina, sem ferðalag aftur í tímann og inn í hug fjölda manns, sem geta hugsað um nánast hvert einasta viðfangsefni á spennandi máta. Ég hef áhuga á skák af svipuðum ástæðum, þar er hægt að sjá hugmyndir spretta fram hjá miklum skákmeisturum sem hafa áhrif á hvernig skákir eru tefldar og hvernig þeim er lokið. Heimspeki er frekar lík skák, fyrir utan að hún er meira samvinna og víðtækari, en skákin er meiri samkeppni og nákvæmari. Heimspekin á aðeins betur við mig en skák, þó að mér finnist skákin oft skemmtileg.
En til er fullt af fólki sem finnst skák og heimspeki vita gagnslaus fyrirbæri, rétt eins og mér finnst öll þau lyf sem ég þarf ekki að taka sem til eru í apótekinu vita gagnslaus, kannski þar til ég þarf sjálfur á þeim að halda.
Heimspekin er verkfæri sem ekki allir kunna að nota, og þeir sem kunna eitthvað á það eru sífellt að læra eitthvað nýtt, um hvernig hægt er að beita henni, um hugmyndir sem spretta fram, um hvernig við getum unnið með þær, um hvernig við getum notað hana nánast sem hreinlætisvöru sem hreinsar burt ranghugmyndir og fordóma, en sem síðan, eins og ryk, sækja aftur á hugann. Þannig að heimspekin verður sífellt að vera virk til að hjálpa okkur að hugsa betur.
Mér þykir vænt um að hugsa vel og sífellt betur, sé mikið gildi í því. Og ég veit að það er ferðalag sem ekki er lokið, og að þetta ferðalag er ævilangt.
Eftir að hafa lært heimspeki í mörg ár, sífellt kynnst nýjum hugmyndum og unnið með þær, þá finn ég hvernig hún styrkir mig alhliða sem manneskju, einhvern sem getur áttað sig hratt og vel á aðstæðum, einhvern sem getur unnið vinnuna sína vel, einhvern sem áttar sig á hvernig markmið og lausnir vinna saman, og hvernig heimurinn er sífellt að breytast og við með.
En heimspekin er samt eitthvað sem við notum öll þegar við veltum fyrir okkur hvað það er sem gerir okkur og þau sem við elskum hamingjusöm, þegar við veltum fyrir okkur hvernig best væri að ala upp börnin okkar, hvernig við getum gert það rétta við ólíkar aðstæður, hvernig við getum bætt ákvarðanatöku okkar, hvernig við getum fundið leiðir til að bæta hæfni okkar með einhverjum hætti, og hvernig við getum hugsað betur um lífið og tilveruna.
Við gerum þetta öll, en sumir hafa bara viðað að sér meiri upplýsingum og unnið með þær yfir langan tíma, sem hefur vissulega áhrif á hvernig maður lifur lífinu og hvernig maður bregst við erfiðum atburðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Meira en bara hæfni - Hvernig nám breytir okkur
16.12.2023 | 13:18
Nám er hægt að skilgreina sem sérhvert ferli í lífveru sem leiðir til endanlegrar breytingar á getu og sem er ekki einungis orsökuð af lífrænum þroska eða hærri aldri. (Knut Illeris, 2007)
Hver kannast ekki við að hafa farið á námskeið til þess að læra eitthvað ákveðið og í leiðinni lært eitthvað sem maður átti alls ekki von á að læra?
Þegar við lærum eitthvað nýtt, þá getum við verið að læra um sama hlutinn út frá ólíkum sjónarhornum. Við getum verið að læra nýja þekkingu, skilning, færni eða viðhorf, og getum jafnvel í leiðinni lært eitthvað nýtt um það að læra.
Þegar maður skipuleggur og framkvæmir nám sem kennari, þarf að velta fyrir sér forsendur námsins eins og fyrir hvern námið er hannað og hvað það þarf að innhalda, skipuleggja umhverfi náms frá mörgum ólíkum hliðum - hvort sem það er í skólastofu eða á netinu, það þarf að skrifa niður skýr hæfniviðmið, eða það sem nemendur eiga að hafa lært eftir að námsferlinu lýkur, það þarf að skipuleggja innihald og allar þær upplýsingar sem verður unnið með, hvernig verður unnið með það - hæfnin þjálfuð, og loks átta sig á hvernig gott er að meta hvort og hversu vel nemendur hafi náð hæfniviðmiðunum.
Eins og sést er þetta töluvert ferli, og allt þetta er eitthvað sem fer í það að búa til námskeið. Og þetta er bara undirbúningurinn. Svo gerist alltaf eitthvað sérstakt þegar nám fer í gang, því þá hittast ólíkar manneskjur á sama stað, og stefna að sameiginlegum markmiðum. Allar þessar ólíku manneskjur hafa ólíka fyrri þekkingu og skilning á efninu, hafa sjálfsagt einhverjar hugmyndir og reynslu sem kennaranum hefur mögulega ekki dottið í hug, og það verður að hafa samskipti opin fyrir þetta fólk til að þróa hugmyndir sínar áfram, helst saman. Þetta er eitt af því sem ekki er hægt að sjá fyrir í kennslu og gerir hans svo skemmtilega, áhrif frá ólíkum einstaklingum getur gert allt ferlið svo miklu betra, rétt eins og sumir einstaklingar geta valdið miklum skaða á kennsluferlinu fyrir alla þá sem taka þátt, en eitt af hlutverkum kennarans er að hámarka samvinnu og lágmarka skaða frá einstaklingum sem taka þátt.
Þegar við komum til ára okkar, áttum við okkur smám saman á því að nám snýst ekkert endilega um að byggja upp ákveðna þekkingu eða færni, heldur umbreytist í það að kynnast sjálfum sér og að vinna með þroska og þær breytingar sem við upplifum dag frá degi í lífinu sjálfu. Við áttum okkur á að einhvern tíma munum við deyja, og þurfum til að takast á þeirri staðreynd annars konar þekkingu en maður öðlast í skólastofu eða hjá predikara. Til að takast á við slíkar breytingar áttum við okkur sífellt betur á gildum dyggða eins og visku, þolinmæði, réttlætis, hugrekkis, þolinmæði, þrautseigju og fleira. Nám getur breytt heimsmynd okkar, gildum og jafnvel því hvernig við högum okkur dag frá degi, hvernig við umgöngumst fjölskyldu okkar og vini.
Ef þú sækist í heimspeki, þá ertu líklega manneskju sem hefur áttað sig á hvernig það að leita þekkingar og visku breytir því hvernig við hugsum og högum okkur. Þú kannast við að leita á slóðir hins óþekkta, hver dagur er eins og ferðalag í stjörnuskipinu Enterprise þar sem þú ert kafteinninn. Þú lærir ekki aðeins um ytri heim heldur einnig um þann innri, og áttar þig á að báðir eru þeir gríðarlega stórir, hugsanlega óendanlegir og gefa þér sífellt eitthvað nýtt til að hugsa um. Það eina sem þarf að kunna er að setja saman nýjar spurningar og velta þeim fyrir sér með sæmilega góðri rökhugsun og deila pælingunum með fólki sem nennir að svara og velta þessum hlutum fyrir sér, rétt eins og þú. Reyndar virðist slíkt fólk vera frekar sjaldgæft, en þegar þú finnur aðra slíka manneskju er eins og fjársjóður hafi verið fundinn.
Þannig reynist kjarni náms liggja í því hvernig það getur breytt okkur í betri útgáfu af sjálfum okkur, mannveru (eða lífveru) sem skilur betur heiminn og sjálfa sig, og eigin stöðu í þessum heimi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Svo lærir lengi sem lifir
15.12.2023 | 22:31
Kennsla og nám er tvennt ólíkt. Kennsla felur í sér að skapa aðstæður fyrir nám, og námið getur verið fyrir þann sem skapar aðstæðurnar eða einhvern sem nýtir sér þjónustuna sem felst í kennslu til að læra hraðar og betur það sem viðkomandi vill læra.
Langflestir Íslendingar hafa farið í skóla og lært að skrifa, lesa og reikna. Það getur komið okkur á óvart að sums staðar í heiminum er engin skólaskylda og það er ekkert svo langt síðan ekki var sjálfsagt að allir Íslendingar gengju í skóla. Þetta getur þýtt að okkur þykir þessi lífsgæði sem fylgja námi sjálfsagður hlutur. Ég man eftir á einu af ferðalögum mínum til Afríku þegar ég heimsótti skóla og heyrði frá börnum, sem sátu um 50 saman í skólastofu, sem sögðu frá hvernig þau gengu 5-10 kílómetra í skólann á hverjum degi og þótti það ekkert tiltökumál. Lífsgæðunum er ólíkt skipt í þessum heimi.
En það eru samt til fleiri leiðir til náms, eða það að öðlast þekkingu, en að ganga í skóla. Í skóla lærum við þá list að læra vel, ef vel tekst til. Stundum átta ekki allir nemendur sig á af hverju það er gott fyrir hverja manneskju að læra, sem getur verið vegna þess að þeir falla ekki í kerfið, og eru kannski ekki að fá tækifæri til að læra nákvæmlega það sem þá vantar eða langar til að læra.
Hugsaðu þér að vera þvingaður til að læra um eitthvað sem þig langar alls ekki til að læra, á þeirri forsendu að einhver annar varð hamingjusamur eða lifði góðu lífi vegna þess að hann lærði þennan hlut. Hugsaðu þér svo ef við fengjum að velja það sem við viljum læra og sökkt okkur í nákvæmlega það sem vekur mestan áhuga okkar. Hvort ætli sé gæfuríkara?
Á Íslandi höfum við svo margt sem styður við nám. Við höfum öll aðgang að Internetinu og gegnum netið höfum við aðgang að gríðarlega miklu magni af upplýsingum. Þó þurfum við að læra hvað af þessum upplýsingum eru byggðar á áreiðanlegum grunni, það er byggðar á staðreyndum og traustum rökum frekar en sannfæringu og mælskulist, og þessar áreiðanlegu upplýsingar verða enn áreiðanlegri ef þær hafa verið ritrýndar og skoðaðar af fræðimönnum. Við höfum aðgang að bókasafni í hverjum bæ, bæði söfnum sem geyma bækur úr pappír og söfnum sem geyma rafbækur. Í dag getum við valið að lesa bækur á pappír, á tölvuskjá eða hlustað á þær.
Við getum lært á svo margvíslegan hátt, með rannsóknum, reynslu, tilraunum, samræðum, sjálfsmenntun, gagnrýnni hugsun, opnum hugum, undrun og forvitni, eftirtekt og góðum vilja, og með því að tengja saman allar þær upplýsingar og þekkingu frá öllum þeim sviðum sem við höfum lært um, til að skapa okkur heildarmynd og dýpri skilning á heiminum.
En jafnvel fyrir þá sem setja sér að leita þekkingar er sú leit ævilangt ferðalag, sem lýkur ekki fyrr en maður hættir að spyrja spurninga. Mig langar sjálfum að vera manneskja sem spyr spurninga alla mína ævi, sé sífellt einhverjar nýjar leiðir til að sjá heiminn, átta mig sífellt á að heimurinn er ekki nákvæmlega það sem ég hélt að hann væri, og er alltaf tilbúinn að undrast yfir því sem við þekkjum ekki ennþá, og þá er ég ekki að tala um skattaframtal næsta árs eða hversu mörg skref ég gekk í dag, heldur minni grundvallartrú um hvað heimurinn er og hvernig ég og allt fólkið passar inn í hann og þá í tengslum við frumgildi eins og hið góða, hið sanna, hið fagra, hið þekkta og hið raunverulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Takmörk þekkingar í þessum óþekkta heimi
14.12.2023 | 22:35
Þegar ég skrifaði BA ritgerðina mína í heimspeki fyrir nokkrum áratugum benti Páll Skúlason mér nokkrum sinnum á nauðsyn þess að átta sig á eigin takmörkunum, skilja vel hugtökin sem við beittum og einnig átta okkur á hversu lítið við vitum í raun um það sem við teljum okkur vita. Ég átti afar erfitt með að átta mig á viskunni sem fólst í þessu, því hvernig getur maður þekkt takmarkanir á einhverju viðfangsefni, er það ekki gríðarlega mikið viðfangsefni í sjálfu sér?
Fyrst kynntist ég þessari hugmynd þegar Sókrates lýsir í Síðustu dögum Sókratesar hvernig vinur hans fór og heimsótti véfréttina í Delfí, og spurði hana hvaða maður væri vitrastur, og fékk þá svarið að enginn væri vitrari en Sókrates. Þegar Sókrates heyrði þetta efaðist hann strax um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar og lagði í mikla rannsókn. Hann fór um alla Aþenu að ræða við mikils metið fólk, stjórnmálamenn, skáld, listamenn, handverksmenn og fleiri, þar sem hann ræddi við þá um þekkingu þeirra. Hann komst að því að þeir þekktu fag sitt virkilega vel, en þegar þeir fóru á önnur svið, töldu þeir sig vita mun meira en þeir vissu. Eftir öll samtölin komst Sókrates að þeirri niðurstöðu að hann væri þó vitrari en þetta fólk, því hann þóttist ekki vita eitthvað sem hann vissi ekki, og reyndar gekk hann það langt að halda því fram fullum fetum að hann vissi ekkert.
En ef maður telur sjálfan sig ekkert vita, getur það verið vissa? Er það ekki bara eitthvað sem maður heldur, eitthvað sem maður trúir, og er ekki mótsögn í því að segja vita það eitt að hann viti ekkert, því viti hann ekkert, veit hann varla að hann veit ekkert.
Þessi skilningur á eigin vanþekkingu, og þegar hann er nógu djúpur til að við trúum að það sé satt að við vitum ekkert, þá fyrst getum við byrjað að læra, þá getum við stigið fyrstu skrefin í átt að dýpri þekkingu og skilningi.
Þegar við höldum því fram að við vitum eitthvað, erum við kannski aðeins of kokhraust? Getur verið að vanþekking okkar sé margfalt meiri en þekking okkar? Við vitum að þegar við skoðum eitthvað ákveðið svið þekkingar, hversu smátt sem það virðist vera í upphafi, þá komumst við fljótt að því, eftir heiðarlega rannsókn, hversu lítil þekking okkar er í raun og veru. Við getum til dæmis bent á einhvern líkamshluta okkar, þó ekki væri nema fingur, nef, hár eða húð, og fljótt komist að því að rannsókn á hverju og einu þessara sviða krefst gríðarlegrar vinnu og að þekking okkar er að einhverju leyti takmörkuð.
Hugsum okkur veruleikann sjálfan, hvort einhver ein manneskja gæti skilið hann allan eins og hann er, og við sjáum fljótt að það er ekki mögulegt, því aðrar manneskjur hafa auðveldlega aðrar hugmyndir og sjónarhorn sem við sjáum ekki í hendi okkar, og bara það útilokar að við sjáum veruleikann. Það þarf ekki einu sinni að vera manneskja frá öðrum menningarheimi sem við skiljum ekki, og ekki einu sinni manneskja úr okkar eigin menningarheimi, og ekki einu sinni okkar nánasti vinur; því við þekkjum varla sjálf okkur nema að takmörkuðu leyti, og áttum okkur ekkert endilega á því hversu takmörkuð og margbreytileg við erum sem manneskjur.
Svo er það annað, mögulega eru tækin sem við notum til að skilja heiminn ekki til þess gerð að skilja heiminn betur. Við notum orð og hugtök sem við teljum okkur kannski skilja, en mögulega eru mörg þeirra eitthvað sem ómögulegt er að skilja því þau hafa mögulega ekki vísun í eitthvað raunverulegt, heldur eitthvað sem við ímyndum okkur hvert og eitt.
Til að mynda talaði ég við góðan vin minn í dag, sem ræddi við prest um daginn um Guð. Þeir fóru að ræða um tilvist Guðs og vinur minn minntist á að Guð er ekki það sama fyrir ólíkar manneskjur. Börn sem ræða saman um Guð gera sér sjálfsagt ólíka hugmynd um hvað Guð þýðir heldur en fertug manneskja sem hefur fengið fræðslu úr eigin trúarbrögðum; og það er kannski allt í lagi að við hvert og eitt myndum okkar eigin hugmyndir um það sem við þekkjum ekki og getum ekki þekkt að fullu.
Grundvöllur fræðilegrar hugsunar felst í því að við endurskoðum fyrri hugmyndum og leyfum okkur að efast um sanngildi þeirra. Ef við finnum einhvern galla á fyrri hugmyndum, þá höfum við mögulega fundið tækifæri til að bæta við þekkinguna sem þegar er til staðar.
Ef við viljum virkilega vita eitthvað, finna hið sanna í hverju máli, þá þurfum við fyrst að varpa frá okkur öllum fyrri hugmyndum, öllum okkar skoðunum og trú, og leyfa okkur af auðmýkt að skoða hlutina með hreinni hugsun, og þannig mögulega læra eitthvað nýtt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lífsins jarðhræringar: í leit að visku og sjálfsstjórn
13.12.2023 | 10:32
Ef við tökum stöðugt á fordómum okkar og hreinsum þá reglulega út úr huga okkar, þá erum við á góðri leið með að byggja upp visku og sjálfsstjórn hjá okkur sjálfum. Við þurfum að muna að við getum ekki hreinsað út fordóma hjá öðru fólki, gert aðrar manneskjur vitrar eða tryggt að aðrir séu með góða sjálfstjórn. Þetta getum við aðeins gert fyrir okkur sjálf.
Við þurfum að hafa hæfni til að rannsaka okkar eigin þekkingu, gildi, hugarfar, tilfinningar, viðhorf og hegðun, og út frá slíkum stöðugum rannsóknum áttað okkur á hvar við erum sterk fyrir og hvar veik. Með þessum rannsóknum erum við í leiðinni að þjálfa vitsmuni okkar með virkum hætti.
Segjum að þú lendir í áfalli, til dæmis að bærinn þinn sé rýmdur sem þýðir að þú verður á svipstundu heimilislaus, sem þýðir að þú þarft að finna heimili handa þér og þínum á svipstundu. Hugsaðu þér 3800 manneskju sem fá þetta verkefni á sama augnabliki og þurfa að finna sér samastað. Í okkar samfélagi erum við svo heppin að samfélagið greip okkur í fyrsta fallinu, reisti neyðarstöðvar sem hægt var að leita til, og síðan voru fjölskyldur og vinur tilbúin að grípa okkur líka. Mér var meira að segja boðið húsnæði í Bandaríkjunum og Tyrklandi af góðum vinum.
Þetta eru miklar áskoranir, en það hvernig við bregðumst við þeim skiptir ennþá meira máli en hverjar áskoranirnar eru. Til dæmis hefur bæjarstjóri Grindavíkur, Fannar Jónasson, brugðist afar vel við, og leitt heilt bæjarfélag í skjól með dyggum stuðningi bæjarstjórnar og bæjarbúa. En verkefninu er ekki ennþá lokið. Mikill fjöldi Grindvíkinga er að flytja á milli íbúða núna rétt fyrir jól, þarf að finna leiðir til að greiða fyrir himinháa leigu, fara jafnvel afar langar leiðir í vinnu og skóla, og halda sönsum gegnum þetta allt saman, því atburðurinn er ennþá í gangi, og verður í okkar huga ekki lokið fyrr en allir hafa eignast heimili að nýju. Við Grindvíkingar þurfum að sýna mikið æðruleysi og yfirvegun í ástandi sem gæti ært óstöðugan, og við erum að halda haus. Þó eru áskoranirnar gríðarlega margar og nauðsynlegt að samfélagið vinni vel saman til að leysa úr þessari flóknu stöðu. Spurningin er hvort að samfélagið allt hafi þennan styrk, visku og sjálfstjórn sem þarf til að lenda málinu vel þegar að lendingu kemur?
Eitt sem ég hef tekið eftir undanfarið á fundum sem krefjast mikillar einbeitingar, er hvernig við getum stillt athygli okkar til að hlusta almennilega á þá sem eru að tala, og hvernig það getur verið krefjandi, sérstaklega þegar við höfum öfluga tölvu í höndum okkar, símann. Það krefst sjálfstjórnar, visku og aga að geta stungið símanum í vasann, jafnvel slökkt á honum, og beitt athyglinni að einni manneskju í einu, einni setningu í einu, einu orði í einu.
Vitur manneskja þarf að átta sig á siðferðinu, sem sífellt er tvískipt á milli þess sem er skylda okkar og afleiðingum gjörða okkar. Við þurfum að átta okkur á hvernig þessar brautir falla saman í hegðun okkar og mynda þannig trausta leið inn í framtíðina.
Vitur manneskja þarf stöðugt að læra: byggja upp eigin þekkingu, skilning, færni og viðhorf. Vitra manneskjan sem sækir í að læra getur skráð sig í námskeið og veit að þó kennari veiti upplýsingar og aðstæður til náms, þá krefst námið sjálft gríðarlegrar vinnu og sjálfsstjórnar - því þegar við lærum er það algjörlega á okkar eigin ábyrgð. Gott er að hafa kennara sem leiðir okkur í rétta átt í námi frekar en trufla okkur frá markmiðum okkar, annars getur sjálfsnám verið ágætis leið fyrir mörg okkar. Í dag er svo auðvelt að nálgast upplýsingar á netinu, við þurfum aðeins að átta okkur á hvort þær séu áreiðanlegar og viðeigandi fyrir það sem við viljum læra, og síðan byggja upp þekkingu með því að lesa, hlusta og æfa okkur.
Vitur manneskja þarf að vera sjálfstæð. Hún gerir ekki það sem henni er sagt að gera án þess að spyrja sig hvort hún sé að gera eitthvað gott eða rétt með verkum sínum. Þegar okkur er skipað að gera eitthvað sem við finnum að er rangt, þá þurfum við að finna hugrekki til að gera það ekki, átta okkur á af hverju það er rangt, og síðan segja NEI og finna betri leiðir. Það er enginn sem segir að það að vera vitur manneskja sé einfalt og sársaukalaust, heldur þvert á móti.
Gagnrýnin hugsun hjálpar okkur áleiðis, hjálpar okkur að greina og skilja áskoranir, greina og skilja okkur sjálf, greina og skilja hvernig hlutirnir virka. En samt er gagnrýnin hugsun miklu meira en bara að greina og skilja, í henni felst líka siðferðileg ábyrgð og sköpunarkraftur, því við þurfum að átta okkur á hvað er þess virði að skilja betur og greina, og við þurfum að hafa tilfinningu fyrir því sem er gott og rétt, til að forðast að gera hlutina verri, og þess í stað bæta heiminn, eða í það minnsta eina manneskju í þessum heimi, okkur sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)