Kostnaður spillingar og óheiðarleika

“Hamingjan veltur á gæðum hugsunar þinnar.” - Markús Árelíus

 

Byrjum á örstuttri sögu:

Það var einu sinni strákur sem var sjúkur í nammi. Hann elskaði alla litina, lyktina og bragðið sem kom úr hverjum einasta bita. Hann var lítill og átti engan pening, og fór því inn í verslun og á nammibarinn og tróð öllu því sem hann gat í vasa sína, bæði framan á gallabuxunum sínum, í rassvasana og úlpuvasana. Hann tróð jafnvel gúmmíbjörnum í húfuna sína áður en hann lagði af stað út. Þegar hann steig út úr búðinni fóru viðvörunarbjöllur í gang og svartklæddur maður með derhúfu birtist fyrir framan hann og skipaði honum að koma með sér. Strákurinn var skíthræddur og fylgdi manninum aftur inn í búðina og inn í herbergi sem var fullt af litlum skjáum, sem sýndu hverja einustu hillu í búðinni. Maðurinn benti á einn skjáinn, þar sem strákurinn sá sjálfan sig troða inn á sig nammi. Hann leit upp og í andlitið á svartklædda manninum, sem horfði svipbrigðalaus á hann, setti körfu fyrir framan hann og benti honum að setja nammið í hana. Strákurinn tók nammið úr vösunum og setti í körfuna, og með hverju einasta handtaki jókst skömmin sem hann fann vaxa í brjósti sínu. Þegar hann hafði loks tæmt alla vasana, tók hann af sér húfuna og lét gúmmíbirnina falla í körfuna. Hann fékk að fara heim, en fann að eitthvað hafði breyst í hjarta hans. Löngunin í litina, lyktina og bragðið af namminu var farið. Það var eitthvað annað sem hafði tekið völdin í huga hans. Hvað það var vissi hann ekki.

 

Smá vangaveltur:

Ég hef ákveðið að trúa á hið góða í fólki, þó að ég viti að ekki séu allir þannig, og sumir muni ganga á lagið og misnota þessa góðu trú. Ég held nefnilega að betra sé að lifa lífinu með slíka trú heldur en ekki. Það er jafnvel hægt að setja þetta í jöfnu.

Ég trúi því besta upp á fólk og þarf ekki að hafa áhyggjur af hvort það vilji svindla og pretta á mér, og hef því meiri tíma til að sinna því sem ég hef áhuga á að gera og geri vel. Ef ég eyði tíma í tortryggni, öfund og of mikla varkárni gagnvart öðru fólki er það væntanlega sem mun trufla mig frá því að gera mitt besta. Það væri frekar leiðinlegt líf.

Hins vegar þegar ég sé óheilindi í fólki, þá hef ég varann á gagnvart þeim einstaklingum, og geri mitt besta til að hleypa þeim ekki inn í mitt líf. Það þarf ekki að vera annað en að það beiti lygum sér í hag, hagræði sannleikanum, sé óheiðarlegt að einhverju leyti, að virðing mín fyrir þeirri manneskju telur ekki lengur; því ég get einfaldlega ekki metið slíka manneskju sem jafningja, hún hefur valið að lifa lífinu eftir öðrum leikreglum og forsendum. Því verður hún meira eins og skepna eða gæludýr í mínum huga, ekkert eitthvað illt eins og uppvakningur sem vill drepa og éta heilann í fólki eða eitthvað ógurlegt skrímsli, heldur einhver sem borgar sig ekki að hlusta á, að minnsta kosti ekki í bili, ekki fyrr en hún hefur bætt ráð sitt, sem getur gerst.

Ég tel nefnilega að heilindin komi innan frá og hafi djúp áhrif á hvernig manneskjur við erum, á hvernig við þróum þekkingu okkar, skilning, færni og viðhorf gagnvart sjálfum okkur og heiminum. Ef við veljum heilindi erum við að velja út frá einhverju sem við ráðum við, ef við veljum óheilindi erum við að velja út frá einhverju sem við ráðum ekki við.

 

Veltum þessu aðeins fyrir okkur:

Af hverju ljúgum við? Er það til annars en að komast upp með eitthvað, til að forða sjálfum okkur frá vandræðum því við höfum ekki hreina samvisku, eða forðast það að særa annað fólk? Allt þetta á það sameiginlegt að tengjast einhverju sem við höfum ekki stjórn á, líðan annarra eða afleiðingum. Það sem gerist þegar við ljúgum hefur hins vegar ekki bara áhrif á fólkið í kringum okkur, heldur hafa lygarnar áhrif á okkur sjálf, þær spilla okkar, neyða okkur til að vera lævísari, og smám saman verða þær að sjálfsögðum hlut sem blekkir ekki aðeins aðra, heldur okkur sjálf líka. Sú leið er ekki leið heilinda, og stuðlar ekki að góðri ákvarðanatöku í lífi okkar.

Af hverju stelum við? Er það til nokkurs annars en að stytta okkur leið að einhverjum ákveðnum markmiðum? Við viljum kannski vinna einhvern leik í íþróttum og mútum dómaranum til að dæma okkur í hag. Það getur hjálpað okkur að vinna leiki, en hjálpar það okkur að verða betri íþróttamaður? Það er eins og í skákinni þar sem fjölda skákmanna finnst allt í lagi að hagræða úrslitum skáka fyrirfram, einfaldlega vegna þess að það kemur þeim vel í mótum, á meðan aðrir vilja alls ekki taka þátt í slíku. Hvaða áhrif ætli það hafi á skákmanninn sem svindlar umfram þann sem svindlar ekki, og hvað þá ef svindlið verður að normi? Mun sú spilling kannski verða til þess að íþróttin öll staðni, og við sem keppendur stöðnum með?

Það er margt sem getur orðið til þess að fólk velji óheiðarleika umfram heiðarleika, en það sem er sameiginlegt með því öllu er að manneskjan áttar sig ekki á því hvernig rangt val hefur á eigið sálarlíf, og að rangt val tengist alltaf því sem er utanaðkomandi, eitthvað sem maður hefur ekki stjórn á, en rétt val hefur alltaf áhrif á það sem við höfum fulla stjórn á, eitthvað sem býr innra með okkur.

Til dæmis, þegar við óttumst neikvæðar afleiðingar, í stað þess að ljúga eða beita óheilindum, þurfum við að horfast í augu við okkar eigin ótta og knýja okkur til að segja satt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband