Bloggfærslur mánaðarins, september 2023
Um alheiminn
30.9.2023 | 07:58
Alheimurinn er allt það sem er til og allt það sem er til er áþreifanlegt með einhverjum hætti, það er hægt að mæla með snertingu, bragði, lykt, sjón eða heyrn. Við manneskjurnar reynum að átta okkur á þessum hlutum og tengja þá saman með rökhugsun okkar, við búum til hugtök og orð um öll þau fyrirbæri sem við uppgötvum þannig að við getum sem heild áttað okkur enn betur á hvaða merking liggur að baki þessum fyrirbærum, og reynum að sjá hvert og eitt þeirra sem hluta af heild sem við reynum að átta okkur á.
Reyndar reyna ekki allir að skilja þetta stóra samhengi, sumir eru sáttir við að skoða heiminn eins og hann er umhverfis þau, og sætta sig við að stóra samhengið er kannski allt of stórt til að skilja, því þó að við skoðum ekki nema örlítinn bút af okkar eigin veruleika, þá er margt þar sem er ofar okkar eigin skilningi. Til dæmis að þekkja hljóðin í öllum fuglum sem fljúga hjá okkur, vita hvað þeir heita, kynnast skordýrunum, öllum gróðri og hvernig skepnur haga sér, það er í rauninni heimur út af fyrir sig sem krefst sérhæfingar til að skilningurinn fái að njóta sín.
Sá sem fæst við að skilja allan heiminn þarf að gera það með mikilli auðmýkt, því hann þarf að vita hversu lítið við getum í raun vitað, og það litla sem við áttum okkur á, það gefur annars konar innsýn en praktíska, það sem gefur okkur pening og mat til að lifa á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um þrjóska leiðtoga
29.9.2023 | 07:47
Ég hef búið víða um heim og séð margt. En alltaf kem ég aftur heim til Íslands, enda er þar fólkið sem ég elska, tungumálið sem gerir mér fært að hugsa skýrt og skapandi, og dúndrandi lífskraftur bæði í náttúrunni og menningunni. Ísland er mín orkustöð, mér líður vel hérna, ég elska landið. Samt horfi ég á leiðtoga okkar með slíkri vantrú að ég get varla trúað eigin augum. Mér sýnist þau stefna í svo rangar áttir, í raun út um allt, og standa nákvæmlega á sama hvaða afleiðingar gerðir þeirra hafa gagnvart fólkinu sem býr á Íslandi. Hvernig á því stendur er nokkuð sem mig langar að velta fyrir mér.
Það er margt sem spilar inn í, ekkert eitt. Á Íslandi er ákveðið stjórnkerfi sem hefur verið við lýði síðan Danakonungur réð yfir okkur, en síðan hefur því kerfi verið breytt, til að aðlagast einhverjum í samfélaginu, sem virðist hafa haft þá afleiðingu að sumt fólk er meira virði en annað fólk, annað en maður upplifir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem jafnvel konungsfólkið er metið til jafns við aðra. Á Íslandi er mikið af litlum kóngum og drottningum sem virka svolítið eins og nýlenduherrar í eigin landi, sópa til sín öllum auðlindunum og auðæfum og finnst allt í lagi að sjá annað fólk streða og þræla án þess að það fólk finni sér leið í lífinu.
Þetta hljómar kannski eins og harður dómur, því vissulega er margt gott í þessu samfélagi, en einnig mjög margt sem má betur fara. Og margt sem má miklu betur fara en það gerir í dag. Það er of margt til að telja upp í þessari stuttu færslu.
En af hverju halda leiðtogar sig í skoðanir sem eru augljóslega rangar, enda leiða þær alla sína þegna inn í verri heim frekar en betri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um skilning á hugtökum
28.9.2023 | 17:39
Ef við veltum því aðeins fyrir okkur, þá er magnað hvernig hugurinn virkar. Við lærum öll þessi hugtök sem geta átt við raunverulega hluti sem eru til, raunverulega hluti sem eru ekki til, og skáldskap sem gæti verið til og skáldskap sem ekki er til.
Allir þessir hlutir eru einhvers konar fyrirbæri. Þeir birtast okkur með einhverjum hætti. Þeir eru ekki bara til staðar fyrir framan skynjun okkar, heldur einnig í huga okkar. Til dæmis get ég minnst á hest og þú getur séð fyrir þér hest án þess að sjá hest fyrir framan þig. Þú gætir jafnvel ímyndað þér hann hneggja, ímyndað þér hvernig væri að strjúka faxið, ímyndað þér lyktina. Þetta þýðir að við erum stöðugt að vinna í tvenns konar gagnabönkum. Annar þeirra sækir upplýsingar gegnum skynfæri okkar, eins og náttúrulega hluti eða manngerða, en hinn sækir upplýsingar úr huga okkar, sem gæti þá bæði verið minning eða ímyndum.
Það eitt að við höfum þennan aðgang að hugtökunum er stórmerkilegt, en þessi gagnabanki virðist ganga mann fram af manni og haldast lifandi með samkiptum, sem tjáð eru með allskonar hætti.
Það að við getum lýst hesti og kúreka sem sitja á risastórum bolta, og getum séð fyrir okkur slíka mynd, segir okkur töluvert um kraft ímyndunaraflsins; og hvernig hægt væri að rugla því saman við minningarnar. Og síðan vekur það furðu hvernig hægt er að búa til slíka mynd í dag, ekki aðeins með því að teikna og mála hana, heldur biðja gervigreind að búa hana til fyrir okkur, eins og sést á myndinni sem fylgir þessari færslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um fyrirmyndir og guði
27.9.2023 | 12:56
Frá barnæsku gerum við okkur alls konar hugmyndir, eins og hvernig manneskja væri sem væri algóð, fullkomin, vingjarnleg, skemmtileg, elskuleg, falleg og þar fram eftir götunum.
Það er eins og allir þessir kostir blandist saman í eina veru sem við síðan köllum Guð eða guð, sem þarf ekkert endilega að vera sama guðlega vera og fjallað er um í trúarbrögðum.
En búum við ekki til svona viðmið í huganum, persónugerum þau og notum sem fyrirmyndir fyrir því hvernig við viljum vera og haga okkur frá degi til dags? Höfum við þannig hugsanlega hvert og eitt okkar eigin hugmynd um Guð eða guði, sem þá allar hefðu rétt á sér, því þær gegna þeim tilgangi að hjálpa hverju og einu okkar að finna þá leið sem hver og einn metur sem þá bestu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um gildismat
26.9.2023 | 21:43
Ef við tökum ákvarðanir sem byggja á okkar dýpstu trú og gildum, tryggjum við að hegðun okkar sé samkvæm sjálfri sér og dygðug. Ef við þekkjum okkar eigin gildi gerir það okkur fært að setja okkur markmið í lífinu og forgangsraða þeim þannig að þær endurspegli það sem er sannarlega mikilvægt þegar kemur að dygðugu lífi.
Þegar við horfumst í augu við flókið siðferðilegt val, þá er nauðsynlegt að skilja vel eigin gildi og grundvallarreglur sem viðmið fyrir ákvörðunartöku. Segjum að þú hafir eignast glænýjan og flottan bíl og þú elskir að keyra hann, vilt fara vel með hann, halda honum hreinum og fínum. Vinur þinn kemur í heimsókn og dáist að bílnum þínum og spyr hvort hann megi taka aðeins í hann. Hérna kemur upp vandinn um val: ættirðu að deila bílnum með vini þínum og gera hann ánægðan, jafnvel þó að þú viljir það alls ekki? Eða ættirðu að halda bílnum fyrir sjálfan þig vegna þess að þú vilt halda honum fyrir sjálfan þig?
Það hjálpar að vinna í eigin dygðum, því það gefur okkur dýpri skilning á hvaða dygðir við metum mest og hverjar þeirra við ættum helst að vinna með. Ef við venjum okkur á að vera samkvæm sjálfum okkur þegar við ákveðum eða högum okkur í samræmi við eigin gildi, þá erum við líklegri til að taka góðar ákvarðanir sjálfkrafa og gera það rétta án þess að þurfa umhugsun þegar á reynir.
Þegar við skoðum okkar eigin gildi, þýðir það að við þurfum að skyggnast inn í okkar eigin huga og velta fyrir okkur hvað það er sem við metum mest, af hverju við metum það og hvort að það sem við metum mest sé í raun þess virði. Slíkar íhuganir eru nauðsynlegar fyrir persónulegan þroska og mótun dygðahegðunar. Þessi skilningur getur gefið okkur tilgang og seiglu, og hjálpað okkur að komast í gegnum erfiðleika sem einungis góð og sterk manneskja getur sigrast á.
Bloggar | Breytt 27.9.2023 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um fordóma og skoðanir
25.9.2023 | 09:15
Fordómar verða til þegar við myndum okkur skoðun á málum án þess að skoða þau vandlega fyrst. Fjöldi fólks gerir þetta og ekkert er eðlilegra, enda getur það tekið heilmikinn tíma að setja sig inn í sérhvert mál og hugsa það til enda, sérstaklega ef maður ætlar að skoða það frá sem flestum hliðum. Við getum litið á málin og skoðað þau, og haft einhverja skoðun um það, en við þurfum að átta okkur á að það er mikill munur á að vita eitthvað um mál, og að vita allt um það.
Þetta getur verið afar erfitt að skilja, þó í raun sé þetta sáraeinfalt. Við vitum yfirleitt miklu minna en við teljum okkur vita, og besta leiðin til að forðast mistök er að sleppa því að giska, og vera viss í sinni sök áður en ákvörðun er tekin.
Þannig reynist vandasamt að kjósa í kosningum. Það virðist vera útilokað að sjá hvort öllum þeim sem bjóða sig fram sé treystandi, og hvort fullur hugur standi að baki hverju málefni og loforði sem þeir bera á borð fyrir kosningar. Á endanum kjósum við eitthvað og yfirleitt kemur í ljós að væntingar okkar voru ekki fyllilega í samræmi við það sem við vildum.
Þegar kemur að viðamiklum málaflokkum, eins og kennslu um kynlíf í barnaskólum, tilvist Guðs, hvað á að gera í innflytjendamálum, og þar eftir götunum, þá er lítið mál að gefa sér einhverja skoðun og standa á henni, en mun meiri vandi felst í því að velta þessum hlutum fyrir sér, skoða allar nauðsynlegar hliðar málanna, og taka svo ákvörðun.
Yfirleitt er það nefnilega þannig að þegar við myndum okkur skoðun, nánast sama hver sú skoðun er, er hún að einhverju leyti byggð á fordómum, skoðunum sem við höfum ákveðið að séu í samræmi við heim okkar, samfélag og heimspeki okkar. Þannig er flest það sem við ræðum dags daglega frekar fordómafullt, nema við séum að ræða hlutina til að læra af þeim og ræðum saman með opnum hug, án þess að blása út eigin skoðanir og stefna að því að fella einhvern dóm.
Þannig er betra að skoða fyrst fyrirbærið og mynda sér síðan einhverja skoðun, en samt með þeim fyrirvara að hún sé ekkert endilega rétta svarið, að eitthvað geti breyst, annað hvort eitthvað í aðstæðum eða við fengið frekari upplýsingar sem breytir sjónarhorni okkar. Og það er jafnvel varhugavert að mynda sér skoðun þrátt fyrir að hafa skoðað málið nokkuð vel. Þetta getur verið slunginn heimur, sérstaklega þegar við leitum að því sem er gott, satt og rétt.
Á endanum þarf oft að ákveða sig, en með auðmýkt, því það má vel vera að heilmiklar skekkjur felist í forsendum okkar. Þá vaknar spurningin hvort að betra sé að hafa kúreka sem tekur ákvarðanir fljótt og örugglega, en misjafnlega vel, eða einhvern sem frestar út í hið óendanlega að ákveða eitt eða annað.
Þýðir þetta þá kannski að við verðum að sætta okkur við eigin ófullkomleika, að við gerum mistök, og þurfum að vera nógu auðmjúk til að laga fljótt það sem afvega fer, eða er betra að fara þrjóskuleiðina og halda stöðugt í það sem maður ákvað í fyrstu að var það rétta í stöðunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um að vera leiðtogi í eigin lífi
24.9.2023 | 12:54
Getur það verið að leiðtogi sé eins og að vera skip sem siglir frá einni höfn til annarrar, fer bestu hugsanlegu sjóleiðina og að maður sjálfur sé áttavitinn sem stýrir því á áfangastað?
Rétt eins og áttavitar benda alltaf í norður, í það minnsta fyrir þá sem eru á norðurhveli jarðar, þá þarf sannur leiðtogi alltaf að miða við sitt besta sjálf. Þannig verður norðrið fyrir áttavitann, gildin og dygðirnar fyrir þig sem leiðtoga í þínu eigin lífi. Ef þú hefur hvorki gildi né dygðir munt þú villast af leið, rétt eins og hafnaboltakappinn orðheppni frá Bandaríkjunum sagði: Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara, þá munt þú hafna nákvæmlega þar. (Yogi Berra)
Við þurfum að leiða sjálf okkur með gildum okkar og dygðum, en ef við erum að leiða annað fólk, þá þurfum við að fylgja þessum sömu gildum og dygðum til að taka ákvarðanir fyrir hópinn. Þó að við skiptum um teymi sem við stjórnum, þá skiptum við ekki um gildi og dygðir. Gildin og dygðirnar stefna alltaf í norður, og við þurfum að hafa þau í huga, hvert sem við ætlum að fara, einsömul eða með hópi.
Rétt eins og skip, þurfum við vélar, segl eða árar til að knýja okkur áfram í rétta átt. Þú þarft því að átta þig fyrst á í hvaða átt þú stefnir og síðan knýja sjálfan þig áfram, eða fá félaga þína til að hjálpa þér í þessa átt. Sama þó að öldur séu háar og vindurinn blási sterkur á móti þér, þá veistu hvert þú ætlar og veist að þetta eru aðeins fáeinar af fjölmörgum hindrunum sem standa í vegi þínum. Þú lætur þessar hindranir ekki stoppa þig. Með seiglu kemst þú og teymið þitt í gegnum hvað sem er, hættir ekki fyrr en verkefnið er komið í höfn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um góðmennsku
23.9.2023 | 07:09
Ímyndum okkur að líf okkar sé heimili og hugur okkar garður framan megin og hjarta okkar garður bakdyramegin. Á vorin getum við plantað nýjum fræjum, klippt trén og hreinsað af þeim og reitt arfa, á sumrin vökvum við og sláum blettinn, og á haustin tökum við upp eitthvað af því sem við höfum sáð. Yfir veturinn fær garðurinn að vera í friði, kaldur undir frosti og snjó, en fullur af lífi og möguleikum, tilbúinn til að spretta aftur næsta sumar.
Hugsum okkur nú að allt sem við gerum fyrir garðinn er eitthvað sem við getum gert fyrir okkur sjálf. Fræin sem við sáum eru hegðun okkar og ákvarðanir. Þessi fræ eru til dæmis góðvild, samúð og samkennd.
Það þarf líka að reita arfa og illgresi, en slíkt dafnar í hlutum eins og reiði, sjálfselsku og grimmd. Þegar þessi fræ fá að vaxa og dafna, þá munu þau taka yfir, og smám saman leggja hann í reiðuleysi og rúst.
Góðmennska vex með námi og þroska. Hugurinn nærist á þekkingu en hjartað á visku. Lærðu af eigin mistökum, en ekki gera öll mistök sem hægt er að gera, lærðu líka af mistökum annarra.
Sú ákvörðun að vera góð manneskja felur í sér mikla ábyrgð og vinnu sem tekur allt lífið að sinna. Þannig geturðu tryggt það að verða besta útgáfan af þér, þó að það þýði ekkert endilega að allur heimurinn taki þér þannig og leyfi þér að þroskast og dafna á hans forsendum. Samt er það þess virði, og í raun eina leiðin sem er örugg til að veita þér þann vöxt og þroska sem þarf til að gera garðinn þinn sem allra bestan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um sannleika og fals
22.9.2023 | 06:08
Ímyndum okkur að heimurinn sé eins og púsluspil. Við verjum barnæskunni og miklum hluta ævinnar í að púsla því saman og þegar við loks teljum okkur hafa klárað púslið, tökum við eftir að það vantar eitt púsl. Við leitum út um allt en finnum það ekki. Hvað gerum við þá? Sættum við okkur við að það vanti eitthvað í heildarmyndinni, festum við hana sem trú, eða höldum við áfram að leita eftir þessu síðasta púsli?
Stundum fáum við að heyra sennilegar sögur sem fylla upp í eyðurnar. Þetta geta verið goðsögur og ævintýri, biblíusögur eða þjóðsögur, eitthvað skemmtilegt sem útskýrir þessa hluti sem passa ekki inn í heildarmyndina. Þegar við trúum þessum ósönnu hlutum er það svolítið eins og búa til nýtt púsl í staðinn fyrir það sem vantar. En það sem gerist er að púsluspilið verður þá ekki lengur í samræmi við heildarmyndina, hið ranga púsl skekkir útkomuna.
En ef þú gefst ekki upp, gerir allt sem í þínu valdi stendur til að finna púslið sem vantaði, sama hversu mikla vinnu og leit þú þarft að leggja á þig, þá er tvennt sem þú gerir. Annars vegar frestarðu því að svara einhverju sem þú átt ekkert svar við, og hins vegar byrjar þú rannsókn sem endar ekki fyrr en þú hefur fundið þetta týnda púsl, sama þó að þú þurfir jafnvel að kaupa annað púsl af sömu mynd, og finna þetta eina púsl sem vantar.
Með slíkum aga munt þú sjá heiminn í skýrara ljósi og það mun hjálpa þér að taka betri ákvarðanir, því þær verða byggðar á því sem er satt, en ekki því sem er sennileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um áhrif náms gegn kvíða
21.9.2023 | 09:18
Til að sigrast á vandamálum, eins og kvíða, þá krefst það fyrst heiðarlegrar greiningar á hvort vandinn sé huglægur eða efnislegur, og ef hann er huglægur, þá þarftu að leggja á þig vinnu til að leysa málið með öllum þeim huglægu tækjum sem þú hefur þegar til staðar. Það er hægt í fjölmörgum tilfellum, því oft er hugarfarið vandinn, en ekki eitthvað efnislegt - þó að það sé möguleiki.
Að læra um orsakir kvíða og hvernig hann hefur áhrif á huga okkar og líkama getur gert fyrirbærið aðeins skiljanlegra. Ef við skiljum að kvíði er eðlilegt svar við álagi sem síðan er hægt að stjórna getur hjálpað. Þegar ein manneskja ber ábyrgð á of mörgu, þegar kemur að því að hún ræður ekki lengur við eitthvað af öllu því sem hún er vön að gera, þá getur það smám saman valdið kvíða. Ef þú finnur að þér kvíðir fyrir einhverju, reyndu að átta þig af hverju það er, ertu að bjóðast til að gera eitthvað sem þú ræður ekki við? Ef svarið er já, þá geturðu reynt að minnka þína ábyrgð. Þetta þarf ekki að vera flókið.
Einnig þegar við finnum að álagið á okkur er að vaxa og við finnum fyrir kvíðanum, þá er hægt að nota ýmsar aðferðir til að slá á kvíðann, rétt eins og þegar of mikið loft er í dekki, þá getur verið skynsamlegt að hleypa smá af því út. Þetta er hægt að gera með slökunaræfingum, núvitund og álagsstjórnun. Sú aðferð sem ég nota er að skrifa eina grein í dagbók hvern einasta morgun um hluti eins og þennan. Það hjálpar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)