Bloggfærslur mánaðarins, september 2023
Um tilurð kvíðans
20.9.2023 | 18:56
Kvíði er tilfinning sem við finnum stundum fyrir. Það er eins og dragi fyrir sólu í huga okkar og blóðið í æðum okkar kólni nánast að frostmarki.
En er eitthvað ákveðið sem einkennir kvíða? Ef eitthvað eitt umfram annað veldur kvíða, þá er það vilji okkar í eitthvað sem liggur handan ákvarðana okkar og getu. Við finnum ekki til kvíða ef okkur langar að gera eitthvað sem við getum gert strax, eitthvað sem er á okkar valdi. Það er hægt að kvíða því að einhver manneskja sem við óttumst ætli að gera okkur eitthvað illt, það er hægt að kvíða slæmu veðri og að okkur muni líða illa vegna þess, það er hægt að kvíða þess að hitta fólk því fólk er óútreiknanlegt.
Við getum hins vegar snúið þessu á hvolf og tekið þá ákvörðun að vilja ekkert endilega gott veður frekar en slæmt, því ákvörðun um gott og illt liggur með okkur sjálfum, við höfum vald á því. Við getum ákveðið að sama hvernig viðrar hefur það ekkert að gera með gott eða illt fyrir okkur, það er bara eitthvað sem er eða verður, og þegar veður er vont, þá getum við verið undirbúin fyrir það með ýmsum hætti, til dæmis með því að kæra okkur kollótt um það, klæða okkur vel, gæta þess að vera í skjóli og gera eitthvað skemmtilegt, eða ákveða að njóta þess sem er, sama hvað og hvernig hlutirnir eru. Því það eina sem við getum stjórnað erum við sjálf, hvað við viljum, hvað við ákveðum, hvað við gerum. Að velta sér upp úr hlutum sem við höfum ekkert vald yfir er tímaeyðsla, og í versta falli skaðlegt okkur sjálfum, eitthvað sem aðeins veldur sífellt meiri kvíða.
Hvaða þörf höfum við fyrir slíkt í lífinu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um verðmæti ákvarðana okkar
18.9.2023 | 21:03
Mark Twain sagði eitt sinn að "besta leiðin til að hressa þig við er að reyna að hressa við einhvern annan." (Dagbók Mark Twain, 1910). Einföld ákvörðun, en verðmæt. Það að hella ánægju yfir í heim annarrar manneskju fyllir kannski ekki vasa okkar af seðlum, en fyllir hjörtu okkar og gerir okkur að ríkum sálum.
E.B. White talaði einnig um þá ákvörðun sem fólst í að skrifa sögur með þessum hætti: "Ég vakna á morgnana ekki viss um hvort ég vilji bragða á heiminum eða bjarga honum. Þetta gerir það ansi erfitt að skipuleggja daginn." (Vitnað í dagbók White, af Israel Shenker, 1969). Kunnum við betur að meta augnablikin sem renna milli fingra okkar eins og sandur, eða viljum við frekar reyna að skrá viðveru okkar í gestabók heimsins?
Við tölum oft um verðmæti eins og þau séu öll efnisleg, endalausar runur af tölum sem fylla út dálka netbankans. Veltu þessu samt aðeins fyrir þér, ákvarðanir okkar, bæði þær minnstu og þær stærstu gera okkur að því sem við verðum og örlög okkar felast í þeim meira en nokkru öðru. Í dag verslaði ég á kassa í Nettó og ungi maðurinn við kassann sagði brosandi: "Eigðu góðan dag." Og ég svaraði honum: "Góðan dag sömuleiðis. Og veistu, að með þessu viðhorfi þínu og hegðun ertu að bæta heiminn?" Hann svaraði: "Já, ég veit það." Þetta augnablik var mér verðmætt, er það enn, og með þessu bloggi vil ég negla það í þjóðarsálina.
Í heimi þar sem sífellt er staglast á því að ekkert sé ókeypis, þá eru samt verðmætustu hlutirnir algjörlega ókeypis, hlutir eins og velvild, samúð og samkennd. Ég man eftir að hafa séð á vegg MacDonalds á Akerbryggju í Osló ansi góða setningu, undir verðlistanum yfir höfði starfsfólksins. "Bros eru ókeypis."
Ákvarðanir okkar eru svolítið eins og sérhver lykkja í prjóni. Ef meistari prjónar, þá verður kannski úr gullfalleg peysa, en ef einhver sem lítið þekkir til verka prjónar, þá verður kannski útkoman ekkert svo merkileg.
Munum að hin raunverulegu auðævi felast í þeim ákvörðunum sem við tökum sem tengjast því að lyfta sjálfum okkur og í leiðinni heiminum upp á aðeins hærra plan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um skort á samúð
17.9.2023 | 13:32
Einu sinni sagði kær vinkona mín sögu af manni sem hafði safnað miklum auði og áhrifum í gegnum árin. Hún leitaði ráða hans, glímdi við fjárhagserfiðleika og vonaði að hann gæti veitt einhver gáfuleg ráð.
Fyrstu viðbrögð hans voru að ráðast í flóknar útskýringar á hlutum sem hún gat ekki alveg skilið. Og þegar hún sagðist ekki skilja hvað hann væri að meina, hló hann, hristi höfuðið og gerði lítið úr henni? En hvers vegna hagar sumt fólk sér svona? Hvað fær fólk til að gera lítið úr þeim sem leita sér þekkingar?
Hugsanlega þurfa þeir sem gera lítið úr þeim sem leita skilnings meira á hjálp að halda en þeir sem leita hennar af einlægri auðmýkt. Hins vegar geta ástæðurnar að baki þessari hegðun verið margvíslegar.
Sumir eiga í erfiðleikum með að sýna samúð eða skilja ólík sjónarmið. Stundum býr fólk yfir óöryggi um eigin þekkingu og skilning. Í stað þess að viðurkenna það af auðmýkt grípa þeir til þess að láta öðrum finnast þeir vera smáir, sérstaklega þá sem viðurkenna vanþekkingu sína. Aðrir virðast svo uppteknir af eigin gáfum að þeir telja sig yfir aðra hafna. Suma skortir áhuga eða þolinmæði til að hjálpa öðrum að læra og skilja. Í stað þess að hlusta vandlega og gefa sér tíma til að útskýra, eiga þeir auðveldara með að gera lítið úr þeim sem skortir skilning. Undirliggjandi geðheilbrigðisvandamál sem er haldið hulið fyrir öðrum gæti verið að trufla. Hugsanlegt er að slíkir einstaklingar hafi engan áhuga á að vera velviljaðar manneskjur.
Þó er ljóst að þeir sem gera lítið úr öðrum sem leita aðstoðar þeirra gætu þurft meira á aðstoð að halda en þeir sem leita aðstoðar þeirra. Þeir virðast týndir í eyðimörkinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um óheilbrigða meðvirkni
16.9.2023 | 10:19
Óheilbrigð meðvirkni er þegar tvær manneskjur (eða fleiri) reiða of mikið hvor á aðra. Það er þegar hamingja einnar manneskju reiðir of mikið á hamingju hinnar manneskjunnar. Dæmi um þetta eru tveir vinir sem geta ekkert gert í sitthvoru lagi, eða hjón sem þurfa að gera allt saman, og útiloka jafnvel annað fólk úr lífinu til að tryggja að hin manneskjan í sambandinu þurfi að reiða því meira á hina.
Óheilbrigð meðvirkni getur verið flókin þegar um ástarsambönd er að ræða, af hvaða tagi sem er. Foreldri getur krafist of mikils af börnum sínum, börnin of mikils af foreldrum, unnusti af kærustu, vinkona af vinkonu, og þar fram eftir götunum; og ef hinn aðilinn gerir ekki sitt besta til að þóknast hinum þá fer allt í háaloft, vinátta verður að óvináttu, ást verður að hatri, samband verður að sambandsleysi.
Óheilbrigð meðvirkni virðist eiga sér stað þegar ein manneskja (eða fleiri) lætur undan hinni og gerir það sem sú kröfuharðari krefst, og gefur á móti eftir eigin óskum og þrám. Ef helsta ósk hennar og þrá er ánægja hinnar manneskjunnar, er hún einfaldlega á villugötum. Við þurfum fyrst að huga að okkur sjálfum.
Ein áhættan við að gefa of mikið eftir er tap á eigin sjálfsmynd. Það virkar í báðar áttir. Þessar tvær manneskjur fara að sjá sig sem eina manneskju, óaðskiljanlegar frá hvorri annarri. Það er auðvelt að sjá hversu óheilbrigt slíkt samband getur orðið, enda ráðum við aðeins yfir okkar eigin vilja, en varla yfir vilja annarrar manneskju.
Meðvirkni getur orðið til þess að manneskjan hættir að sinna eigin þörfum, en einbeitir sér þess í stað á að uppfylla þarfir hinnar manneskjunnar. Þetta getur orðið til þess að hún hættir að læra og þroskast á eðlilegan hátt, sem einstaklingur sem getur farið sínar eigin leiðir í lífinu, sem frjáls manneskja. Þannig er hægt að sjá meðvirkni sem einhvers konar þrældóm, flókið samband þar sem meistarinn er háður þrælnum og þrællinn meistaranum; en í slíku sambandi hlýtur annar aðilinn að vera með meiri völd en hinn.
Ef til er óheilbrigð meðvirkni, getur einhvers konar meðvirkni verið heilbrigð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um endalausa ánægju
15.9.2023 | 07:33
Við gætum haldið að ánægjan sé góð. Til dæmis ef mér finnst gaman að leika mér í tölvuleikjum, hvað er þá að því að spila stanslaust tölvuleiki, allan liðlangan daginn, eða ef mér finnst eitthvað sælgæti sérstaklega bragðgott, eitthvað sem gefur mér svo sannarlega ánægjulegt bragð, hvað er þá að því að fá sér stöðugt smásnakk af þessu nammi?
Börn sem vilja ekkert annað en leika sér í spjaldtölvu eða síma finna fyrir einhverri ánægju, en í raun er verið að taka frá þeim tækifæri til að vaxa og þroska á eigin forsendum, sérstaklega ef þau fá ekki að finna til annars en þess sem gefur þeim ánægju. Það gleymist stundum að okkur getur verið holt að leiðast, það er þá sem sköpunargleðin fer í gang, þar sem við finnum þörf til að búa eitthvað til, velta fyrir okkur, gera eitthvað annað en það eitt að láta okkur líða vel og njóta.
Þroskaþjófarnir leynast víða, og við þurfum að vera vakandi fyrir þeim, sérstaklega ef við berum ábyrgð á heilbrigði og hamingju barna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um að meta rétt og rangt
14.9.2023 | 08:03
Persónulegar skoðanir eru eins og breytingar á veðurfari frá degi til dags. Engar tvær manneskjur halda nákvæmlega sömu skoðun og þar að auki getur ein manneskja skipt um skoðun hvenær sem er.
Það sem getur talist æðra skoðunum eru meginreglur. Til dæmis ef við ætlum að kaupa 100 grömm af harðfiski þá kaupum við ekki poka sem lítur út fyrir að vera um það bil 100 grömm af þyngd, heldur ætlumst við til að hann hafi verið mældur og veginn á staðlaðan hátt, þannig að við fáum nákvæmlega þá þyngd af harðfiski sem við viljum fá.
Það sama á við um réttlætið. Við höfum sett okkur ákveðna mælikvarða um hvað er rétt og hvað rangt, þessir mælikvarðar eru skrifaðir niður og kallast lög, og innan hverrar þjóðar er stjórnarskráin æðst þessara laga, og síðan eru til alþjóðalög sem geta verið æðri stjórnarskrám ólíkra landa.
Einnig eru til óskrifaðir mælikvarðar, sem við köllum siðferði; sem geta verið byggð á persónulegum skoðunum eða vandlegum rannsóknum. Ef mælikvarðarnir um rétt og rangt eru byggðir á persónulegum skoðunum, þá erum við líkleg til að skapa ólög, viðmið um réttlæti sem er í eðli sínu rangt; en ef við byggjum þau á vandlegum rannsóknum, þá ættu lögin að vera réttlát.
Samt þurfum við alltaf að gera ráð fyrir því að það sem einu sinni þótti rétt, jafnvel út frá ýtarlegum rannsóknum, getur verið rangt fyrir okkur í dag vegna breyttra aðstæðna. Og þá þarf hugsanlega að breyta lögum út frá þessum breytta mælikvarða. En þá vandast málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um muninn á skoðun og þekkingu
13.9.2023 | 19:07
Ef einhver er sannfærður um eitthvað, þá er hann aðeins að segja skoðun sína og tilfinningu, en er hvorki að tjá þekkingu né staðreynd. Ef einhver segir satt um eitthvað, þá er hann ekki að tjá sannfæringu, heldur aðeins þekkingu og staðreynd.
Þegar fólk heldur að tilfinningar hafi meira gildi en staðreyndir, þá er ekkert sem mælir gegn því að manneskjan vaði uppi með fordóma og lygar - ef manneskjan verður viðmið um sannleiksgildi, og öllu sem hún segir er trúað, getur hún komist upp með hvað sem er. Staðreyndir geta hins vegar verið mótvægi við lygum og sýnt fram á með einföldum rökum og prófunum að eitthvað sé satt eða ósatt.
Hugsaðu þér manneskju sem gerir ekki þennan greinarmun á þekkingu og skoðunum, það er hægt að sannfæra slíka manneskju um hvað sem er. Hugsaðu þér nú aðra manneskju sem telur að vægi skoðanna sé meiri en þekkingar, það þýðir að hún getur trúað hverju sem er svo framarlega sem það passar við fyrirframákveðnar skoðanir hennar, óháð sannleiksgildi þess. Hugsaðu þér þriðju manneskjuna sem metur þekkingu meira en skoðanir, en hún hefur staðreyndir sem viðmið til að meta hvort hlutir séu sannir eða ósannir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)