The Road (2009) ***1/2

 


 

Jörðin er dauð eða í andarslitrunum. Allt líf á plánetunni er að veslast upp og deyja. Flest dýr horfin. Tré geta ekki lengur borið sig. Jörðin sjálf liðast smám saman í sundur. Ekki allar manneskjur deyja um leið og Jörðin. Þær lifa áfram árum saman, en nýtt líf verður ekki lengur til.

Þegar maturinn er búinn, þá eru tveir kostir eftir í stöðunni. Annar þeirra er að lifa áfram. Hinn er að gefast upp. Flestir gefast upp.

Þeir sem lifa áfram skiptast aftur í tvennt. Þá sem bera kyndil í brjósti, og eru hinir góðu, og þá sem lifa til þess eins að komast af, og eru hinir illu. Í það minnsta út frá sjónarhorni sögumanns. Hinir síðarnefndu rupla og ræna, og lifa á mannáti. Hinir eru á stöðugum flótta undan þessum illu öflum í von um að eitthvað betri bíði þeirra einhvers staðar. Það er borin von.

Viggo Mortensen leikur "Mann" sem er á slíkum flótta ásamt syni sínum, "Drengnum" (Kodi Smit-McPhee). Eiginkona hans, "Konan" (Charlize Theron), þoldi ekki lengur við og tók ákvörðun sem maðurinn neitar að samþykkja. "Það verður að láta ljósið skína", segir hann "það verður að halda í von, þó að allt virðist vonlaust." Hann lifir fyrir son sinn, sonur hans er Guð segir hann, meinar það og lifir eftir því.

Ferð feðganna gegnum auðn þar sem áður var líf, og fundi þeirra á þessari löngu leið suður að hafi, er áhugaverð en afar dapurleg. Á leiði þeirra verða mannætur og ræningjar, þjófar og flakkarar, sjúkdómar og hungur, hörmungar og fegurð í smáum hlutum.

"The Road" er ein af þessum myndum sem verður að horfa á í sérstökum stellingum. Maður verður að vera tilbúinn að gefa af sér á meðan maður horfir á. Ég mæli með að horfa á hana fjarri skarkala og látum og á stundu þegar þig langar til að hugsa um gildi lífsins. Áhorfandanum er hent í aðstæður sem taka á og eru ljótar. Þarna eru hryllileg atriði inn á milli sem sýna ömurleika mannsins í sinni verstu mynd, þegar fólki er safnað saman og geymt til slátrunar.

Þessi grimmd sálarlausra mannvera og þessi neisti þess sem vill ekkert annað gera en að verja eigið barn frá öllu illu, er kjarni sögunnar. Hún hitti næstum beint í mark hjá undirrituðum. Hvaða veg þú gengur er kannski ekki aðalatriðið. Aðal atriðið er að þú haldir áfram. Hvert sem ferðinni er heitið. Og þó svo þú vitir ekki hvert þú ert að fara.

Afar góð mynd sem hægt er að mæla með fyrir fólk sem hefur áhuga á pælingum um tilgang lífs og dauða. "The Road" hefði þess vegna verið hægt að kalla "Píslargönguna" og hægt væri að færa fyrir því rök að "Maðurinn" sé táknmynd Jesú og "Drengurinn" mannkynið sem fylgir í kjölfar hans. Sem dæmi um trúarlega táknmynd er þegar feðgarnir finna neðanjarðarbirgi fullt af dósamat, og eftir að hafa fengið sér góðan kvöldverð, tekur sonurinn upp á því að þakka fyrir sig, leggur lófana saman, horfir til himins og þakkar "Fólkinu" fyrir.

Úrvalsleikararnir Charlize Theron, Robert Duvall sem "Gamli maðurinn" og Guy Pierce leika smærri hlutverk, en sá síðastnefndi lék eitt aðalhlutverkið í síðustu mynd leikstjórans, John Hillcoat, "The Proposition".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Hjaltadóttir

Þetta er ótrúlega góð mynd sem fær mann til þess að hugsa.. Hún kom mér á óvart.

Takk fyrir allar skemmtilegu færslurnar

kv HH

Halldóra Hjaltadóttir, 6.4.2010 kl. 23:00

2 Smámynd: Ómar Ingi

2 og hálf málið dautt , myndin er vonbrigði , littli strákurinn var alveg off í sinu hlutverki og ekkert chemestry þeirra á milli , Mortensen er alltaf traustur þó.

Ómar Ingi, 7.4.2010 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband