Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Hvernig væri að banna áfengisframleiðslu, áfengissölu og áfengisneyslu á Íslandi?

 


 

Hófsemi virðist vera dularfullt fyrirbæri í hugarheimi Íslendingsins. Við höfum gífurlega þörf til að vera númer eitt. Ekki veit ég hvort það sé vegna óheflaðs mikilmennskubrjálæðis eða minnimáttarkennd vegna smæðar og fjarlægðar þjóðarinnar við umheiminn. Músin-sem-öskraði einkennið.

Nú hafa stigið upp á yfirborðið getgátur um að orsök mikils kynbundins ofbeldis felist í óhófsömu skemmtanalífi og drykkjuháttum Íslendinga, eins og sjá má hér í athugasemdum við grein Egils Óskars Helgasonar "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"

Ríkisstjórnin virðist heit fyrir þeirri leið að banna óæskilega hluti, þannig að það liggur beint við að annað hvort verði skemmtunum og áfengi sett höft í náinni framtíð, vegna þess kynbundna böls sem fylgir, eða þá að áfengi verði aftur bannað á Íslandi, en allt áfengi var bannað á Íslandi frá 1915-1935.

Það þótti sjálfsagt afar góð hugmynd á sínum tíma að banna áfengi á Íslandi, rétt eins og það hefur þótt góð hugmynd að banna súludans, vændi og annað slíkt. Ég er handviss um að þeir sem barist hafa fyrir þessum bönnum vilji vel og séu afar gott fólk, jafnvel sannkristið, sem er umhugað um samferðarfólk sitt á Íslandi. Hins vegar hafa bönn sem sett eru með lögum tilhneigingu til að snúast upp í öndverðu sína, þar sem þessar hneigðir verða hvort eð er uppfylltar í leyni og fundnar leiðir framhjá lögum og reglu til að svala þeim. 

Þeim fylgir bara aukin spenna og kannski einhver sektarkennd, og hættustigið verður hærra.

Við slíkar aðstæður verður hættulegra fyrir fórnarlömb að gefa sig fram við lögreglu eða heilbrigðisyfirvöld, því að ólöglegri starfsemi gæti þá verið ógnað, og þeir sem standa að ólöglegri starfsemi svífast oft einskis til að verja hana, sérstaklega ef hún er arðbær. Þá eykst kúgun sjálfsagt í samræmi við það.

Vil ég minna á afleiðingar áfengisbannsins á Íslandi frá 1915-1935, en því var loks aflétt þegar í ljós kom að hún hafði aðeins skapað enn verra ástand en áður hafði ríkt í áfengismálum. Málið er að bann slekkur ekki á hvötum, heldur býr til nýjar aðstæður, þar sem fólk sækir í spíra, blandar landa, eða gerir annað verra. Stjórnleysi fylgir í kjölfarið. Það er þó ljóst að þessi málefni hverfa ekki, sama hvað við kreystum hnúana og vonum ofboðslega mikið, og erfitt verður að fylgjast með hinni nýju ólöglegu starfsemi og hegðun af lögreglu, nema þá kannski að lögreglumenn fengju bónus fyrir að leysa slík mál.

Þessi úrdráttur úr Morgunblaðinu frá desember 1925 er ágætis frétt sem hollt er að lesa, sérstaklega fyrir alla þá sem telja að hægt sé að leysa mannlegan breyskleika með boðum og bönnum. Mæli með rauðvínssopa eða köldum bjór eftir að þú hefur stækkað greinina og prentað út, nema þú sért undir tvítugu að sjálfsögðu eða viljir banna áfengi.

 

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

 

Tilvísanir:

Egill Helgason: "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"

Mynd af áfengisbrotadeild Washington lögreglunnar 1922: OldPicture.com

Frétt úr Morgunblaðinu: Timarit.is


The Blind Side (2009) ***1/2

"The Blind Side" er kvikmynd sem virkar. Og hún virkar vel. Hún er mannleg án þess að vera væmin. Hún fjallar um viðkvæm mál tengd fátækt og kynþáttahatri og gerir það vel.

Big Mike (Quinton Aaron) er stór og mikill, hæfileikaríkur með bolta en virðist við fyrstu sýn beinlínis heimskur, trúirðu að slíkt sé til á annað borð, það er að segja, heimska. Réttu nafni heitir hann Michael Oher og einhvers staðar djúpt innan í þessum massaða líkama leynist viðkvæm og kjarkmikil sál. Til að fá notið sín í þessum heimi þar sem hann hefur verið umkringdur ömurlegustu mögulegu lífsskilyrðum, með móður sem dópar og selur sig og hefur eignast börn með hinum og þessum án þess að hafa hugmynd um hvað orðið hefur um þau.

Þegar þjálfarinn Burt Cotton (Ray McKinnon) við kristinn einkaskóla uppgötvar knatthæfileika Big Mike, ákveður hann mæla með honum sem nemanda við skólann. Í ljós kemur að Mike hefur greindarvísitölu sem mælist undir 80 og allar einkunnir hans falleinkunnir. Samt er honum gefið tækifæri. Kennarar styðja við bakið á honum og sjá að eitthvað er á seyði innan í þessum stóra dreng. Hvorki samnemendur né kennara grunar hver sannleikurinn er, hann á hvergi heima og gistir á næturnar í íþróttahúsi skólans, og smyglar nærfötum sínum í þvottavélar hjá öðru fólki.

Eitt kvöldið ráfar Big Mike úti í kaldri rigningu, enda heimilislaus, á leið í íþróttahúsið. Meðlimir Tuohy fjölskyldunnar hafa rekist á hann í skólanum. Sean yngri (Jae Head) hefur gefið honum heilræði og Sean eldri hefur tekið eftir honum hreinsa til eftir blakleik dóttur þeirra Collins (Lily Collins). En það er eiginkona þessa forríka eiganda Taco Bell veitingastaða sem ofbýður og fær Mike til að gista heima hjá þeim þessa nótt. Leigh Anne (Sandra Bullock) tekur strax ástfóstri við þennan unga og stóra mann, enda mannasiðir hans og hegðun til fyrirmyndar. Einnig er hann ljúfur sem lamb og reynist sannur vinur vina sinna.

"The Blind Side" sýnir tvær hliðar á einu samfélagi, sem báðar virðast blindar gagnvart hinni. Það þarf hins vegar tvær afburðarmennskur til að brjótast í gegnum múra fordóma og stéttarskiptingar til að sjá inn í heim hins aðilans, og ekki út frá sjónarhorni áhorfanda, heldur með innilegri væntumþykju og samúð. Árekstrar eru óhjákvæmilegir þegar slíkir heimar mætast, og það eina sem getur snúið slíkum árekstrum við, fyrirgefið fordóma og mistök, eru manngerðir sem eru tilbúnar að hafa augun opin gagnvart öðrum heimi en eigin. Slíkt er sjaldgæft í þessum heimi, en þessi kvikmynd fjallar um nákvæmlega þannig manngerðir.

Sandra Bullock á allan þann heiður sem hún hefur fengið fyrir þessa mynd, fyllilega skilið, og satt best að segja er Quinton Aaron henni engu síðri. Þetta er í raun óvenjuleg félagamynd, svona í anda "Lethal Weapon" og "Butch Cassidy and the Sundance Kid" með þeirri undantekningu að lítið er um ofbeldi í "The Blind Side", þó að vissulega séu ógnirnar nægar og stutt í að sjóði upp úr, sem reyndar gerist á óvæntan hátt í hreiðri glæpaklíku gamla hverfis Big Mike.

Michael Oher er raunveruleg manneskja. Hann er þekktur sem sóknarlínumaður í bandaríska ruðningsboltanum og er reyndar stórstjarna í þeirri íþrótt. Það gerir þessa sögu ekki verri. Það er ekki eitt leiðinlegt augnablik í þessari kvikmynd, þó að stundum eigi maður frekar erfitt með að sætta sig við alla þessa manngæsku og einlægni sem skín út úr mörgum persónum myndarinnar. Miðað við mína eigin upplifun af Bandaríkjunum, en ég hef verið viðloðinn því samfélagi síðustu 17 ár, þá er þetta ansi nálægt þeim Bandaríkjum sem ég þekki. 

Manngæskan þarna er mikil, þó að öfgarnar geti verið það líka.


Af hverju taka ekki ábyrgð þeir sem fengu borgað fyrir að bera ábyrgð?

 

Evironment_We_are_all_responsible

 

"Ábyrgð, n. Aftengjanleg byrði sem auðveldlega er hægt að yfirfæra á Guð, Örlögin, Lánsemi, Heppni, eða nágranna sína. Á dögum stjörnuspekinnar var algengt að færa hana yfir á stjörnu." (Ambrose Bierce)

"Vald án ábyrgðar: forréttindi hórunnar gegnum aldirnar." Rudyard Kipling

"Ekkert styrkir dómgreindina og hleypir lífi í samviskuna eins og persónubundin ábyrgð. Ekkert eykur sjálfsvirðingu eins og að kannast við yfirráð manns yfir sjálfum sér; rétt á sanngjörnum stað, alls staðar viðurkennt, stað sem unnið er til af persónulegum dug, ekki fengin á annarlegan hátt, með arfi, auði, fjölskyldu eða stöðu. (Elizabeh Cady Stanton)

"Ábyrgð hefst í draumum." (William Butler Yeats)

"Miklum völdum fylgir mikil ábyrgð." (Stan Lee)

 

Mynd: Complete Trainer


Viðskiptafræði 101 í anda ríkisstjórnar, Jóns Ásgeirs og Pálma í Fons

2947722395_660a6fa6aa

Ég get ímyndað mér að þetta hafi byrjað með því að fá 100 kall að láni, og síðan 150 krónu láni til að borga það lán, og síðan vindur þetta einfaldlega upp á sig þar til þessi 100 kall er orðinn að 2.500.000.000 krónum. Tekur nokkur ár, en eðlileg framvinda.

Þetta kallast að hugsa í lausnum. Borga skuldir með því að taka lán. Svona eins og íslenska ríkisstjórnin ætlar að gera.

Taka lán til að borga skuldir. Takið síðan lán til að borga lánið. Takið síðan lán til að borga lánið. Og svo framvegis án enda. (Eða þar til hagkerfið hrynur)

Er þetta ekki eins og að taka myndband af sjónvarpstæki sem er tengt við myndavélina eða horfa í tvo spegla andspænis hvor öðrum?  Eða eins og snjóbolti sem vindur upp á sig meðan hann rúllar niður brekku, og vona bara að brekkan taki engan enda.

Það þarf að hugsa dýpra. Útfyrir þversögnina.

Fyrst þarf vilja og getu til þess.

 

 

Mynd: Infinite Reflections á Flickr


Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil

Það leynist töluverð viska í fyrirsögninni, sem dregin er úr lagi eftir hljómsveitina Nýdönsk. Svo virðist sem að frelsið eigi undir högg að sækja á Íslandi í dag, að minnsta kosti er hægt að túlka nýjustu fréttir um bönn gegn strippbúllum og vændi, hernaðarframkvæmdum og virkjunum í hinni guðsgrænu náttúru Íslands.

Ég er sjálfur ekki hrifinn af strippbúllum og vændi, hernaðarframkvæmdum og virkjunum, en ég er heldur ekkert hrifinn af þeirri aðferð að banna þessa hluti með einu pennastriki. Það er of auðvelt. Afleiðingarnar verða öfgafullar. Þær munu reka hægrimenn sem eru nálægt miðju, enn lengra til hægri, og skapa afar skörp skil á milli vinstri og hægri afla með þeim skilaboðum að vinstri þýðir fleiri bönn og meiri skatta, en hægri þýði meira frelsi og minni skatta.

Það er ofur einföldun. 

Grundvöllur vestrænna samfélaga liggur í frelsinu. Það er ekki hugtak sem tilheyrir hægriflokkum frekar en vinstriflokkum, þó að frumstæð stjórnmálaöfl láti það líta þannig út. 

Lýðræðið er leit að vilja lýðsins. Fulltrúar eru valdir á þing til að festa þennan vilja í lög, og hluti þeirra fær aukin völd til að framfylgja þeim lögum sem sett eru. 

Ég efast um að ríkjandi ríkisstjórn fari með vilja þjóðarinnar, og því þykir mér afar vafasamt að setja með hraði lög um viðkvæm málefni sem með eðlilegu stjórnarfari ætti að vera rætt um málefnalega og vandlega. Það er ekki gert.

Núverandi ríkisstjórn komst til valda þegar fyrri ríkisstjórn var ýtt til hliðar, ásökuð um djúprætna spillingu og vanhæfni. Við tók ríkisstjórn sem átti að taka til eftir þá fyrri, en hefur hafið tiltektina með afar furðulegri forgangsröðun.

Vissulega er mikilvægt að vernda fjölskyldur. Mynda skjaldborg. Það er ekki gert með slíkum boðum og bönnum, heldur með því að tryggja fyrst að fjölskyldur hafi það sem þær nauðsynlega þurfa: öryggi um húsaskjól, fæði og klæði. Síðan þarf að huga að menntun og heilbrigði. Siðferði er best ræktað á heilbrigðu heimili, þar sem foreldri eru börnum sínum mikilvægasta fordæmið.

Ef hægt væri að tryggja stöðugleika heimila, og fjölskylduvænt starfsumhverfi, eftir það, þá fyrst mætti huga að öðrum þáttum. 

En aftur að fyrirsögninni: "Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil". Viljinn er lykilatriði hérna og mikilvægt að spyrja hvað vilji sé. Er mögulegt að vilja hið illa? Ég held ekki.

Vilji snýst um að gera það sem maður trúir að sé gott, þannig að aðalatriðið er að bæta skilning, þekkingu og mat á hinu góða. Þetta hefur verið gert með ýmsum hætti hjá ólíkum þjóðfélögum. Flest grípa til trúarbragða, einfaldlega vegna þess að þau eru frekar einfalt stjórntæki sem virkar vel á fólk, en ég tel góða menntun hins vegar vera réttu leiðina, þar sem leitin að vilja okkar og hinu góða verður að lykilatriði. 

Athugið: ekki að finna viljann og hið góða, heldur leita. Það er viðhorfið sem vantar, hvort sem þú horfir til hægri eða vinstri, ef þú veist ekki hvert þú ert að fara, þá skiptir engu máli í hvora áttina þú ferð. Takist þér hins vegar að átta þig á að heildarmyndin er töluvert stærri, að leiðir liggja til miklu fleiri átta en hægri og vinstri, að það eru 360 áttir í hring, þá áttarðu þig kannski aðeins betur á hvar þú ert og hvert þú vilt stefna.

Það er nefnilega gífurlega stór greinarmunur á að gera það sem maður vill og gera það sem manni sýnist. Viljinn hefur mun stærra umfang og tekur marga mannsaldra að safna saman visku um góðan vilja, en að sýnast eitthvað er hins vegar tengdara hvötum og líðandi stundu. 

Það er gott fyrir manneskju sem hefur ræktað eigin vilja að gera það sem henni sýnist, en ég er ekki jafn sannfærður um þá sem hafa ekki ræktað slíkan vilja. Þrátt fyrir það tel ég ekki rétt að banna þeim sem skortir slíka viljaleit að gera hitt og þetta. Betra væri að hjálpa þeim að leggja rækt við þessa leit. 

Til þess höfum við menntakerfi. Því er ætlað að styðja fjölskyldur í ræktun á vilja og gildum barna, sem síðar munu taka við samfélaginu. Það verður síðan þeirra að setja lög og reglur, eftir að hafa rætt málin og íhugað vel, í stað þess að í fljótfærni setja bönn sem verða aðeins til þess að auka spennuna í þjóðfélaginu og búa þannig til tifandi tímasprengju.

 

Mynd: Frelsi, eftir Gilberto Ribeiro


Fleiri bönn og meiri skatta, vinsamlegast, takk!

 

 

Bönnum hjónabönd, því þeim fylgir kynlíf. Allt kynlíf er klám eða vændi. Bara lögverndað!

Bönnum venjur, því hægt er að rugla þeim saman við verjur!

Bönnum öll nöfn sem byrja á Davíð, því það er svo gaman að vera á móti Davíð.

Bönnum kynlíf, því það leiðir til þrælkunar.

Bönnum allt klám, því það er afleiðing þrælkunar!

Bönnum allt vændi, því það er þrælkun!

Bönnum allt ofbeldi, því það er ljótt!

Bönnum tölvuleiki, því þeir eru ofbeldisfullir!

Bönnum bíómyndir, því ekki nóg af gróða Avatar fór í ríkissjóð.

Bönnum lestur Biblíunnar, því þar er fjallað um nauðganir og morð!

Bönnum dagblöð, því þau segja ekki alltaf réttu skoðunina.

Bönnum skemmtistaði, því það er of dimmt þar inni, svona oftast.

Bönnum ljósaperur, því þegar slökkt er á þeim geta myrkraverk verið stunduð.

Bönnum eldsupptök, því þau valda eldsvoða.

Bönnum eldgos, því þau menga og geta valdið eldsvoða.

Bönnum Hraun og gos, því þau eyðileggja tennur.

Bönnum ljót föt, því þau eru skaðleg sjónrænu umhverfi.

Bönnum tannbursta, því tannþræðir eru miklu betri.

Bönnum svona bloggfærslur, því þær gefa bara nýjar hugmyndir um fleira sem hægt er að banna.

Bönnum bloggið, því það er óþægilegt.

Bönnum eignir, því sumir eiga meira en aðrir.

Bönnum ekkert, því maður verður svo ruglaður á að hugsa um það.

Bönnum bros, því þar getur falist tæling, sem getur leitt til nauðgana og vændis.

Bönnum auglýsingar, því þær auka græðgi og græðgi leiðir til nauðgana og vændis.

Bönnum páskaegg stærri en númer 6, því ég fékk aldrei páskaegg stærri en númer 6 þegar ég var lítill.

Skattleggjum hjálparstarfsemi, sérstaklega til Haíti.

Skattleggjum spillingu, því það er svo mikið af henni.

Skattleggjum skuldir, því það er svo mikið af þeim.

Skattleggjum andrúmsloftið og kalda vatnið, því eru svo margir að misnota það.

Skattleggjum fólk eftir pólitískum skoðunum, því þá fáum við fleiri í flokkinn.

Skattleggjum fólk eftir trúarbrögðum og trúleysi, því það er hefð fyrir svoleiðis.

Meiri skatta og fleiri bönn.

Fleiri hugmyndir óskast.

 

Hugmyndaráðuneytið ehf.

 

E.S. Hafir þú lesið þetta til enda, slökktu vinsamlegast á tölvunni eða lokaðu vafranum, því það er bannað að eyða tímanum í svona vitleysu.


Nei, ég borga ekki!

Um daginn fékk ég rukkun inn á heimabanka minn frá tryggingarfyrirtæki upp á rúmar 130.000 krónur. Ég hef aldrei verið viðskiptavinur þessa fyrirtækis og var það ekki þennan dag sem heimabanki minn sýndi rukkunina.

Hefði ég verið ríkisstjórn, hefði ég sjálfsagt stofnað nefnd sem fengi það verkefni að leysa málið.  Þar sem að ég er ekki ríkisstjórn, sendi ég kurteisislega orðaðan tölvupóst á fyrirtækið þar sem fram kom að ég ætlaði ekki að borga þennan pening, einfaldlega vegna þess að ég hafði aldrei átt viðskipti við þá. Ættingi minn hringdi einnig í fyrirtækið fyrir mig, þar sem ég vildi ekki eyða millilandasímtali í þetta. Fljótt kom í ljós að mannleg mistök höfðu átt sér stað, og hefur rukkunin verið strokuð út úr þessari tilvist og sjálfsagt komið inn í líf einhvers annars.

Hefði ég verið ríkisstjórn, hefði ég verið búinn að eyða gífurlegum fjármunum í nefndarstörf og samningsgerð, og sjálfsagt væri búið að samþykkja að greiða þessar rúmu 130.000 krónur að sjö árum með 5.5% vöxtum. Hefði ég opinberlega neitað að borga, reikna ég með að vera útkallaður sem siðferðileg raggeit án manndóms og heiðurs.

Svona rugl á ekkert að vera flókið. Þegar verið er að rukka þig fyrir eitthvað sem þú skuldar ekki, á að vera nóg að segja: "Nei, ég borga ekki."

Og málið dautt.


Að vera duglegur (2 af 2)

Ívan las stjórnmálafræði. Hann komst að því að auðvaldið stjórnaði þjóðfélögum víða um heim. Það þótti honum merkilegt. Hann las sér til um manngerðir auðmanna og kom fram með þá kenningu að auðmenn væru í raun vélmenni frá öðrum hnetti, hugsanlega frá Mars.  Því las hann Marx.

Kommúnismi hafði sigrast á auðvaldi víða um heim. Duglegum flokksmönnum hafði víða tekist að ná völdum þegar veikleikar auðkerfisins komu óhjákvæmilega í ljós. Í handbók auðvaldsins kom fram að ekkert kerfi væri fullkomið. Andstæðingar þess þyrftu bara að bíða eftir tækifærinu.

Ívan þurfti að bíða í 20 ár. 

Ívan gekk í kommúnistaflokkinn en fékk aldrei að ráða neinu þrátt fyrir flottar ræður. Loks klofnaði flokkurinn einu sinni sem oftar og Ívan stofnaði nýjan flokk. Hét fyrsti flokkur hans "Hélvítis flokkinn flokk".

Hann fékk minnihlutahópa í för með sér. Harða feminista. Náttúrudýrkendur. Fylgjendur goðatrúar. Trúlausa. Stjórnlausa. Músaverndarsinna. Jafnvel róna. Rónarnir höfðu skýra stefnu sem Ívani þótti aðdáunnarverð. Ná sem mestum pening af flestum með skattlagningu. Þá yrði flott að vera róni.

Loks hrundi auðvaldskerfið. Auðmenn og útrásarvíkingar voru sakaðir um að hafa stolið milljörðum frá saklausu fólki, en þeir vörðu sig með lögfræðilegum bellibrögðum og lögfræðingum sem voru svo dýrir að kúlulán þurfti til að eiga fyrir þeim. Það hlakkaði í Ívani og tókst honum að safna saman góðum hóp sem mótmæltu öllu grunsamlega harðlega og kenndu öllum sem einhverju höfðu stjórnað um allt sem hægt var að ímynda sér og orða í öflugri ræðu.

Var Ívan duglegastur allra við að grafa upp ásakanir. Sjálfur skrifaði hann texta á fjölmörg kröfuspjöld sem komust í hendur mótmælenda og síðan í heimsfréttirnar. Ríkisstjórnin riðaði til falls og hrundi síðan með háum skelli. Hurðaskelli. Ívan tókst að skella mörgum hurðum ásamt liðsmönnum sínum.

Komst Ívan nú til valda með yfirgnæfandi kosningasigri, 20% atkvæða! Hann hafði alið á óánægju fyrir kosningar. Gefið fögur kosningaloforð. En hafði aldrei ætlað sér að standa við þau. Markmiðið var að ná völdum, sama hvað það kostaði. Og hann vissi að það kostnaði fyrst og fremst dugnað.

Þegar hann hafði loksins náð völdum var bara eitt eftir. Tryggja þau. Það væri auðvelt. Bara vera duglegur. Það skipti ekki máli hvað var gert, bara að eitthvað yrði gert, og af dugnaði. Þá væri ekki hægt að ásaka hann um aðgerðarleysi. Ekkert er verra en aðgerðarleysi. Aldrei.

Ívan var duglegastur allra. Þegar andstæðingur tjáði skoðanir, tókst Ívan að kaffæra hann í orðaflaumi. Yfirleitt dugði að nota persónurök gegn slíku fólki. Hann gat bent á að viðkomandi átti ættingja eða vin sem hafði heldur betur skitið á sig, og þannig tókst honum að vinna flest mál. Í það minnsta í eigin huga. Og það var nóg. Hann réð.

Auðvitað þurfti hann að gera vel við vini sína, halda veislur og redda vinum vinnu, fá duglegt fólk í vinnu sem hefði aðeins eitt markmið: að halda völdum. Allt annað væri aukaatriði.

Lýðræði, réttlæti, siðferði og velferð voru hvort eð er bara tóm hugtök sem enginn venjulegur maður gat skilið án þess að hafa lært heimspeki í hundrað ár. Jafnvel lengur. Þetta vissi hann. Reynslan hafði nefnilega sýnt honum að þó svo að hann hafði ekki hugmynd um hvað hann var að segja þegar hann sjálfur hélt ræður, þá var fullt af fólki sem virtist hlusta á hann af athygli og telja sig skilja meininguna á bakvið orðin og fylgdi honum svo eftir og sagðist vera sammála, og það með steittan hnefa.

Nú er svo komið að vargar sækja að Ívani úr öllum áttum. En hann verst fimlega með nýyrðum og málskrúði, en hann er farinn að finna til þreytu. Sumir af hans traustustu rónum hafa tekið upp gamla siði, náttúruverndarhópurinn bíður eftir sumrinu til að geta dansað um sólríka velli, og feministarnir hans eru farnir að hvessa sig vegna þess að Ívan er karlmaður.

Ívan veit að hann getur bjargað sér. Hann verður bara að vera duglegur. Hann tekur sér skóflu í hönd, fer út á Eyjafjallajökul og byrjar að grafa holur. Þar plantar hann síðan litlum trjám. Áður en fjölmiðlar finna hann uppi á jökli hefur honum tekist að planta 354 grenitrjám og 423 eikum á jöklinum. 

Þyrla flýgur yfir þar sem hann vinnur hörðum höndum við að planta. Þar fara kvikmyndatökumenn frá Stöðinni, en þeir fengu nafnlausa vísbendingu um að einhver væri að planta trjám uppi á jökli. Út stekkur fréttamaður sem hleypur að Ívani með hljóðnema. Hann spyr einhverrar spurningar og Ívan svarar öskrandi á meðan þyrluspaðarnir hægja á sér:

"Ég er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði að ríkisstjórnin sé ekkert að gera! Horfið bara í kringum ykkur. Það getur enginn sagt að þessi ríkisstjórn taki ekki til hendinni. Sé ekki dugleg. Geri það sem gera þarf."

Allt í kring um þá voru lítil tré að sökkva hægt og rólega í vota og ískalda gröf.


Þegar góð manneskja deyr: í minningu Sveins Bjarka

13815 Í dag frétti ég af láti og útför gamals vinar, Sveins Bjarka Sigurðssonar.

Ég sat á skrifstofu minni sem yfirleitt hefur útsýni yfir Oslófjörð, en í dag var fjörðurinn hulinn þykkri þoku. Að horfa yfir fjörðinn var eins og að stara í hvítt myrkur. Þrisvar sinnum í dag hafði ég minnst á við vinnufélaga mína hversu falleg mér þótti þokan. Þeir voru mér ekki sammála. 

Ég hlustaði á útvarpið meðan ég teiknaði myndir í Photoshop fyrir vinnuna. Þá heyrði ég eins og komið væri aftan að mér tilkynningu frá lögreglunni um að í dag færi fram jarðarför rannsóknarlögreglumannsins Sveins Bjarka Sigurðssonar. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Ég hafði ekki vitað af veikindum hans.

Við erum jafnaldrar. Hann sonur kennara míns, Ástu Bjarkar, sem síðar kenndi einnig systur minni. Ásta Björk sat tvö ár við hlið mér í ritlistartímum hjá Nirði P. Njarðvík. Þá vann Sveinn Bjarki í blómabúð föður síns, innan seilingar við HÍ. Sveinn Bjarki er líka frændi góðs vinar míns, Arnþórs. 

Við hittumst ekki oft, en alltaf þegar það gerðist, þá spjölluðum við saman. Síðast hittumst við á Microsoft ráðstefnu í Reykjavík. Við gripum öll hlé sem tækifæri til að ræða málin. Hann hafði fylgst með blogginu hjá mér og hafði gaman af, kallaði mig bíógúrú. Hann sagði mér frá störfum sínum og gantaðist með að hann væri netlögga, að fólk sem niðurhalaði ólöglegu efni skyldi sko passa sig, en síðan minntist hann á hin raunverulegu og erfiðu mál sem tölvulögreglan þarf að fást við, barnaklámið, og við það eitt hvarf hans skæra bros eitt augnablik úr augum hans. 

Sveinn Bjarki var alltaf á áhugaverðum stað í lífinu, frá mínu sjónarhorni séð. Í mörg ár var hann sonur kennarans, og alltaf þegar hann birtist við hlið móður sinnar ljómaði hann af gleði. Ég sá hann aldrei öðruvísi en brosandi og jákvæðan. Ekki einu sinni þegar hann sagði mér söguna af því þegar hann var rændur erlendis af kumpána með hnífi, og í stað þess að vera skynsamur sagðist hann hafa gert það heimskulegasta og klikkaðasta í slíkri stöðu, hann réðst á þjófinn og handsamaði hann. Þjófnum tókst reyndar að skera hann í átökunum. Hann hafði ör til að sanna það.

Svein Bjarka kunni ég vel að meta sem manneskju og hefði verið stoltur af að kalla hann vin, en sjálfsagt værum við flokkaðir sem kunningjar af þeim sem kæra sig um að pæla í slíkum hlutum, en vinskapur var sannarlega okkar á milli.

Sveinn Bjarki var lögreglumaður eins og lögreglumenn eiga að vera, með sterka réttlætiskennd, góðan húmor og mannlega dýpt. Það var gott að ræða við hann um öll heimsins mál, sama hvað bar að. Um tvítugsaldurinn ræddum við stundum saman í glasi á glöðum kvöldum. Viðurkenni ég fúslega að umræðuefnið er löngu horfið úr minni en eimurinn af vináttunni er þarna enn.

Ég missti að mestu samband við Svein Bjarka sem og flesta aðra kunningja mína og vini þegar ég flutti til Mexíkó árið 1998, og hafði í raun ekki náð að kynnast þeim öllum aftur á milli þess að ég kom heim og kreppan skolaði mér út fyrir landssteinana á ný. 

Ég er þakklátur yfir að hafa kynnst Sveini Bjarka. Hann er fyrirmyndarmanneskja. Ég er þakklátur móður hans fyrir að hafa verið mér afar góður kennari og Sveini Bjarka góð móðir. Ég er þakklátur Arnþóri fyrir okkar vináttu og fyrir að vera Sveini Bjarka góður frændi og vinur. 

Ég sendi nánustu vinum og ættingjum Sveins Bjarka innilegar samúðarkveðjur. Það gerði ég á Facebook síðunni hans, og það geri ég aftur núna. Sumir segja að lífið hefjist ekki fyrr en upp úr fertugu. Sveinn Bjarki náði aldrei þeim aldri.

Mér finnst ósanngjarnt að svona lífsglaður einstaklingur, traustur baráttumaður fyrir réttlæti og sannur vinur vina sinna, hamingjusamur fjölskyldufaðir, skuli hrifsaður úr örmum barna sinna og eiginkonu. Það er einfaldlega ekkert rétt við það. Annað en að minning hans markar djúp spor í sál þeirra sem honum kynntumst.

Það er nefnilega meira en að segja það, að vera fyrirmyndarmanneskja, bæði í lífi og minningu. Sveinn Bjarki var slík manneskja. Hann er slík manneskja.

 

24584_402380001409_680786409_4948192_7330124_n

Oslófjörður 19. mars 2009


Að vera duglegur (1 af 2)

Ívan var einn af þessum duglegu. Hann vissi hvað hann vildi. Hann vildi vinna sig upp. Hann vildi láta alla vinna saman. Hvort sem þeir vildu eða ekki.

Hann hafði myndað sér einfalda lífsspeki sem barn. Að vera duglegur. Þegar hann fékk verkefni í skóla, þá var hann duglegur og kláraði þau.

Ívan var álíka greindur og Forrest Gump. Mamma hans var vön að segja að konfektkassinn hans væri tómur.

Ívan átti erfitt með að skilja hlutina. Sjá samhengið ef það náði útfyrir skynfærin.

En hann vann vel. Kláraði verkefnin. Einkunnir voru ekki háar, en hann náði öllu. Brátt vissi hann að honum væru allir vegir færir. Maður þyrfti ekki kort eða þekkja leiðina, því á endanum lenti maður á áfangastað hvort eð er.

Ívan lærði að halda ræður. Þar var hann góður. Hann gat talað endalaust um hvað sem er, þó að hann vissi sama sem ekki neitt um hlutina. Reyndar trúði hann sjálfur að hann vissi allt um allt. Hvernig gæti hann öðruvísi talað svona sannfærandi?

Hann hélt ræður um bakhluta þumalfingurs af slíkri sannfæringu að hann trúði sjálfur eftir ræðuna að hann gæti ferðast á puttanum til tunglsins. Hann hefði getað það hefði hann reynt.

Leiðin lá í háskóla. Enn var skilningur og þekking að flækjast fyrir honum, en á móti flækti hann bara fyrir skilningnum sjálfum með orðlagni sinni og þar sem þekking er aldrei 100% örugg, gat hann alltaf bent á óvissuna sér til stuðnings. Hann vissi ekki sjálfur að þetta var aðferð hans. Það skipti ekki máli. Hún virkaði.

Hann las öll verk Þorbergs og Laxness afturábak til að átta sig á orðunum. Ívan hafði áhuga á stjórnmálum. Þess vegna ákvað hann að læra steingervingafræði.

Ívan útskrifaðist sem steingervingafræðingur með sérfræðiþekkingu á að gera greinarmun á grænmeti og ávöxtum. Í lokaritgerð sinni sannaði hann að appelsínur væru í raun grænmeti og agúrkur væru ávextir.

Hann fékk enga vinnu sem steingervingafræðingur. Því fór hann í framboð. Hann sá að fólk laðaðist að orðskrúði hans og tókst að safna í kringum sig hópi fólks sem mat meira orðagjálfur en visku. Ívan stofnaði Himnaríkisflokkinn, sem hafði það grundvallarmarkmið að vinna gegn öllu hugsanlegu, svo framarlega sem það væri flokknum til framdráttar. Í leyni að sjálfsögðu.

Hann faldi markmið sitt með því að velja vinsæl stefnumál. Sama hver þau væru. Þau trekktu nefnilega að: að jafna kjör fólks (sem þýddi útrýmingu á kjörum), að jafna möguleika allra (sem þýddi útrýmingu á möguleikum), að gera alla jafn ríka (sem þýddi útrýmingu á eignum).


Framhald síðar...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband