Að vera duglegur (1 af 2)

Ívan var einn af þessum duglegu. Hann vissi hvað hann vildi. Hann vildi vinna sig upp. Hann vildi láta alla vinna saman. Hvort sem þeir vildu eða ekki.

Hann hafði myndað sér einfalda lífsspeki sem barn. Að vera duglegur. Þegar hann fékk verkefni í skóla, þá var hann duglegur og kláraði þau.

Ívan var álíka greindur og Forrest Gump. Mamma hans var vön að segja að konfektkassinn hans væri tómur.

Ívan átti erfitt með að skilja hlutina. Sjá samhengið ef það náði útfyrir skynfærin.

En hann vann vel. Kláraði verkefnin. Einkunnir voru ekki háar, en hann náði öllu. Brátt vissi hann að honum væru allir vegir færir. Maður þyrfti ekki kort eða þekkja leiðina, því á endanum lenti maður á áfangastað hvort eð er.

Ívan lærði að halda ræður. Þar var hann góður. Hann gat talað endalaust um hvað sem er, þó að hann vissi sama sem ekki neitt um hlutina. Reyndar trúði hann sjálfur að hann vissi allt um allt. Hvernig gæti hann öðruvísi talað svona sannfærandi?

Hann hélt ræður um bakhluta þumalfingurs af slíkri sannfæringu að hann trúði sjálfur eftir ræðuna að hann gæti ferðast á puttanum til tunglsins. Hann hefði getað það hefði hann reynt.

Leiðin lá í háskóla. Enn var skilningur og þekking að flækjast fyrir honum, en á móti flækti hann bara fyrir skilningnum sjálfum með orðlagni sinni og þar sem þekking er aldrei 100% örugg, gat hann alltaf bent á óvissuna sér til stuðnings. Hann vissi ekki sjálfur að þetta var aðferð hans. Það skipti ekki máli. Hún virkaði.

Hann las öll verk Þorbergs og Laxness afturábak til að átta sig á orðunum. Ívan hafði áhuga á stjórnmálum. Þess vegna ákvað hann að læra steingervingafræði.

Ívan útskrifaðist sem steingervingafræðingur með sérfræðiþekkingu á að gera greinarmun á grænmeti og ávöxtum. Í lokaritgerð sinni sannaði hann að appelsínur væru í raun grænmeti og agúrkur væru ávextir.

Hann fékk enga vinnu sem steingervingafræðingur. Því fór hann í framboð. Hann sá að fólk laðaðist að orðskrúði hans og tókst að safna í kringum sig hópi fólks sem mat meira orðagjálfur en visku. Ívan stofnaði Himnaríkisflokkinn, sem hafði það grundvallarmarkmið að vinna gegn öllu hugsanlegu, svo framarlega sem það væri flokknum til framdráttar. Í leyni að sjálfsögðu.

Hann faldi markmið sitt með því að velja vinsæl stefnumál. Sama hver þau væru. Þau trekktu nefnilega að: að jafna kjör fólks (sem þýddi útrýmingu á kjörum), að jafna möguleika allra (sem þýddi útrýmingu á möguleikum), að gera alla jafn ríka (sem þýddi útrýmingu á eignum).


Framhald síðar...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2010 kl. 11:13

2 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 19.3.2010 kl. 12:24

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég leitaði að "like" en fann ekki... 

Óskar Þorkelsson, 19.3.2010 kl. 16:58

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

:)

Hrannar Baldursson, 19.3.2010 kl. 17:04

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Hrannar. Þessi er góð. Þrátt fyrir að grasrótarstarfið virðist stundum skila sér seint og illa, þá hefur það áhrif. Í stað getu til þess að takast á við núverandi verkefni hefur þessi ríkisstjórn valið sér að láta spunameistara selja okkur þá hugmynd að klæðin væru afar flott, þegar raunveruleikin væri annar. Skoðanakönnun dagsins segir okkur að fólk er að átta sig á staðreyndum. Þessi spuna og aulastjórn fer brátt frá. Þingmenn Hreyfingarinnar fá þó ekki það fylgi sem þeir ættu skilið að fá, því mér finnst þeir vera vaxandi. Fagleg sjónarmið þurfa að vera sett í öndvegi ofar flokkshagsmunum.

Það hefði verið synd ef þín rödd hefði hljóðnað.

Sigurður Þorsteinsson, 19.3.2010 kl. 18:40

6 identicon

Góður.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband