Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
Útópía Slands
14.3.2010 | 09:04
Einu sinni fyrir langa löngu í fjarlægu landi, Lýðveldinu Slandi, voru skattaálögur svo háar að allir urðu að svíkjast undan til að eiga fyrir mat, drykk, húsnæði, fötum, menntun og heilsu. 99% af launum fólksins átti einmitt að byggja upp land þar sem öllum væru tryggður matur, drykkur, húsnæði, föt, menntun og heilsa.
Því miður var ekki hægt að halda uppi neinni stofnun í þessu ríki, því að enginn vildi þiggja opinber störf þar sem 99% launanna fóru beint í ríkissjóð, og þar sem ríkissjóður var svo smár að hann átti ekki einu sinni fyrir launum þessara ríkisstarfsmanna.
Hugtakið spilling var ekki til í þessu samfélagi, að minnsta kosti ekki í hugum þegnanna, því þeir litu á skattsvik sem sjálfsagðan hlut, og höfðu í raun engan áhuga á að breyta neinu, því það sem er orðið að eðlilegum hlut getur verið óþægilegt að breyta. Það ruglar öllu.
Í þessum heimi var einn heiðarlegur maður. Hann hét Jón. Sem barn hafði hann fengið þá flugu í höfuðið að hann ætti alltaf að segja satt og vera samkvæmur sjálfum sér, gera hið rétta og setja sér siðferðileg viðmið. Hann gat ekki hugsað sér að gera öðrum eitthvað sem hann vildi ekki að aðrir gerðu honum, né gat hann hugsað sér að gera ekki einhverjum eitthvað sem hann vildi ekki að aðrir gerðu honum ekki.
Þannig þótti Jón hið mesta viðrini.
Dag nokkurn fór Jón inn í sjoppu og keypti sér ís.
"Mig langar í ís," sagði Jón. "Með dýfu," bætti hann við.
Afgreiðslustúlka með stórt brauðform úr hólki og setti undir dynjandi ísvelina. Síðan dýfði hún ísnum í súkkulaðisósu án þess að líta af Jóni.
"Það gera 75 krónur," sagði hún.
"En það stendur á glugganum að ís með dýfu kosti 100 krónur. Á ég ekki að borga 100 krónur fyrir ísinn?"
"Ekki nema þú viljir borga virðisaukaskatt," sagði stúlkan svolítið hvasst.
"Auðvitað vil ég borga virðisaukaskatt," sagði Jón.
"Ertu eitthvað verri?" sagði stúlkan. Hún henti ísnum í ruslið og skipaði Jóni að hypja sig.
"Út með þig, gerpið þitt," sagði stúlkan.
"Gerði ég eitthvað vitlaust?" spurði Jón.
"Gerðirðu eitthvað vitlaust?" endurtók stúlkan.
Jón kinkaði kolli.
"Veistu hvaða afleiðingar það myndi hafa ef við færum að rukka virðisaukaskatt á hvítu?"
Jón hristi höfuðið.
"Þá þyrftum við annað hvort að borga 25% í ríkissjóð eða sleppa því. Ef við sleppum því væri hægt að ákæra okkur fyrir þjófnað og skattsvik, þar sem að við erum ekki að skila skattpeningum á réttan stað. Ef við borguðum þennan pening, þá kæmist starfsmaður ríkisins á bragðið og færi að búast við að við borguðum honum oftar, og ekki nóg með það, hann færi að krefja aðra um það sama, og þá gæti ríkisstjórnin ráðið fleira fólk til starfa sem hefði ekki bara eftirlit með skattinum, heldur gæti innheimt hann, og ráðið síðan fleira fólk til að reka réttarkerfi og lögreglu. Þá værum við ekki lengi í Paradís, Adam minn."
"Jón heiti ég. Ég vil kaupa ís á hundraðkall. Og ég vil borga hundraðkall. Þú getur ekki bannað mér að kaupa ís á uppgefnu verði."
"Ertu snarvitlaus? Hlustaðirðu ekki á eitt einasta orð sem ég sagði? Við værum að byrja á fordæmi sem hefði alvarlegar afleiðingar. Af hverju í ósköpunum viltu taka slíka áhættu?" spurði stúlkan forviða.
"Tja, Helena, ef það er þitt raunverulega nafn," en það var nafn ísbúðarinnar, "það er ein góð ástæða fyrir því að ég vil borga rétt verð fyrir ísinn. Það er heiðarleiki. Ég vil geta sofið rólegur í nótt og horft á saklaust andlit í speglinum þegar ég vakna á morgnana?"
"Heiðarleiki? Sakleysi?" skrækti hún. "Veistu hvað þú ert að segja maður? Þú ert að tala um siðferðileg hugtök sem hafa nákvæmlega enga merkingu og bara til að halda í þessar barnalegu hugmyndir ertu til í að hella yfir þig lögregluríki með skriffinnsku og guðmávitahverju sem myndi hellast yfir okkur. Veistu ekki að það er gott að geta leyst hlutina í vináttu? Veistu ekki að það er gott að gera hverju öðru greiða? Veistu ekki hvernig lífið væri ef allir neyddust til að vera heiðarlegir?"
"Jú," sagði Jón. "Ég reikna með að heimurinn yrði töluvert betri. Ég held að minna yrði um þjófnað og svik, að fólk stæði við orð sín, að fólk héldi eigum sínum."
"Þú ert að tala um eitthvað sem þú hefur ekki hundsvit á," sagði afgreiðslustúlkan sem hét ekki Helena þó að Jón hafi haldið það. "Þú ert að tala um þunglamalegt ríki þar sem allt þarf að vera nákvæmt og rétt. Liðlegheit væru bönnuð. Það væru búnar til reglur bara af því að það virkar að hafa reglur og reglurnar yrðu settar á hluti sem þér þætti allt í lagi að gera."
"Hvað er að lög og reglum?" spurði Jón.
"Hvað ef reglurnar sem yrðu settar segðu að það væri bannað að kaupa sér ís, bannað að rassskella börn, bannað fyrir konur að stofna fyrirtæki án karla, bannað að lesa dagblöð með róttækar skoðanir, bannað að skrifa 'helvítis fokkin fokk' og önnur slík orð. Ertu til í að gefa frelsi þitt bara til að geta verið heiðarlegur og saklaus?"
"Já," sagði Jón.
"Þá ertu heimskur," sagði stúlkan.
"Fæ ég þá engan ís?" sagði Jón.
"Viltu einn gefins?" spurði hún.
"Fyrir hundraðkall," sagði Jón.
"Hypjaðu þig út," sagði stúlkan, stökk yfir afgreiðsluborðið og sparkaði svo fast í afturenda Jóns að hann hrökklaðist út um dyrnar og út á götu. Hún skellti hurðinni það harkalega á eftir honum að síðustu þrír stafirnir úr nafni ísbúðarinnar duttu með glamrandi brothljóði að fótum Jóns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
ESB: Er aukið skrifræði af hinu illa?
13.3.2010 | 09:21
Skilgreining á skrifræði: Stjórnkerfi þar sem ferli eru sérhæfð, þeir hæfustu ráðnir í embætti, aðgerðir eru í samræmi við fastar reglur, skýr valdaskipting og miðlun valds.
Þannig ætti þetta að vera á Íslandi.
Vandinn felst í því að þegar skrifræðið er komið í fastan farveg og þeir valdameiri finna leiðir til að komast framhjá því, og nýta sér þessar leiðir óspart. Þannig verður spilling til. Lélegt skrifræði lætur menn komast upp með svona hegðun. Gott skrifræði kemur upp um svona hegðun.
Ef Ísland gengur í Evrópusambandið mun skrifræði aukast gífurlega. Þetta skrifræði er þungt og leiðinlegt í vöfum, en gerir spillingaröflum erfiðara fyrir, bæði smáum og stórum. Spillingin dafnar best þegar hægt er að taka ákvarðanir án þess að fara í stíf ferli, þegar hægt er að ráða vini og frændfólk til starfa án þess að auglýsa starfið laust fyrst eða fylla út skýrslur sem sanna að viðkomandi er sá hæfasti til viðkomandi starfs. Til að komast framhjá slíku við skriffinnskustjórnskipan þyrfti að ljúga, og lygarinn yrði síðan dreginn til ábyrgðar þegar lygin kemst upp.
Það sama á við um hagsmunaárekstra. Þingmönnum og ráðherrum getur verið settur stóll fyrir dyrnar þegar kemur að því að maka eigin krók með vafasömum ákvörðunum sem gagnast sumum en skaða aðra.
Málið er að lýðræðið sem slíkt er alls ekki fullkomið stjórnkerfi. Það hins vegar stuðlar að heiðarleika með því að gera ákvarðanir gagnsæjar. Gagnsæið kallar á skriffinnsku. Hægt er að halda vel utan um skriffinnskuna með nútíma upplýsingatækni, eða nota pappír og blýanta. Í dag höfum við slíkt val.
Segjum að upp komist um lygar og spillingu í stjórnkerfi þar sem ferli hafa verið skrásett. Þá verða ákveðin viðurlög og ábyrgð að taka við. Þetta virðist ekki virka rétt á Íslandi í dag, en væri hægt að kippa í lag með þátttöku í ESB þar sem viðurlög við reglubrotum eru vonandi strangari en á Íslandi.
Skriffinnska sem getur hjálpað og verndað þjóð gegn spillingu er ekki jafn slæm og andstæðan, þegar litið er til lengri tíma. Þegar málið um að ganga í ESB er farið að snúast um aukið skrifræði, er í raun verið að spyrja hvort við viljum fá farveg fyrir réttlæti.
Ég hef ekkert á móti slíkum farvegi.
Mynd: theinder.net
Ný stofnun kostar milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Shutter Island (2010) *1/2
11.3.2010 | 22:03
Leikararnir eru fínir. Leikstjórinn töff. Kvikmyndatakan flott. Tónlistin magnþrungin. Sagan slök. Gengur ekki upp. Oft fannst mér "Shutter Island" virka eins og tilgerðarlegur gjörningur og átti alveg eins von á að einhver leikaranna færi að dansa ballet upp úr þurru, bara af því að slíkt gæti verið svo þrungið merkingu og einhvern veginn passað.
Ég skil hvað Martin Scorcese reyndi að gera. Ég ætla samt ekki að segja það. Það gæti eyðilagt fyrir einhverjum sem hefði eftir allt gaman af því að sjá þessa kvikmynd. Gaman að Scorcese skuli gera tilrauninr. Fyrir hann. Leiðinlegt fyrir mig.
FBI lögreglufulltrúinn Teddy Daniels (Leonardo DiCaprio) siglir ásamt nýjum félaga sínum Chuck Aule (Mark Ruffalo) að eyju fyrir geðsjúka glæpamenn til að rannsaka hvarf konu að nafni Rachel (Patricia Clarkson og Emily Mortimer). Þeir koma á ferjubát gegnum þykka þoku og eyjan birtist þeim undir alltof dramatískri tónlist, í stíl við tónlistina úr "Cape Fear".
Í fangelsinu eru Max von Sydow og Ben Kingsley geðlæknaparið sem sinnir "sjúklingunum" með vafasömum aðferðum að mati Daniels, og ætlar hann að koma upp um þá, en það lítur hins vegar út fyrir að hann sé í erfiðri aðstöðu, vopnlaus, gefin "höfuðverkjalyf" á fyrsta degi og farinn að sjá sýnir sem hafa djúp áhrif á hann. Loks fer hann að spyrja hvort hann sé í raun sá sem hann heldur að hann sé.
Þessi söguþráður hljómar vel og hefði getað verið gerður ansi spennandi, en Scorcese klikkar illa í frásagnartækninni, þar sem hann beitir óáreiðanlegum sögumanni. Áhugaverð tilraun, en ekki tveggja tíma virði. Þessi saga hefði getað virkað ágætlega sem hálftíma "Twilight Zone" þáttur, og kæmi mér reyndar ekki á óvart þó það kæmi í ljós að svipaður þáttur hafi einhvern tíma verið settur saman.
Til að vera sanngjarn. Það er spennandi og flott atriði í myndinni þar sem Teddy leitar að fanga á hættulegustu geðdeild spítalans, og það atriði jafnast á við heila hrollvekju. Því miður tókst ekki að halda slíkum dampi alla myndina.
Tilfinningin sem ég sat uppi með eftir myndina kallaði á svona orð: tilgerðarleg, alltof löng, skildi hvað þá langaði að gera, hálf misheppnað. Mér leið nokkurn veginn eins eftir síðustu mynd sem ég sá eftir David Lynch "Inland Empire", en sú var reyndar enn steiktari en þessi.
Af hverju? Af hverju? Af hverju?
10.3.2010 | 22:24
- Af hverju kynjakvóta á stjórnir einkafyrirtækja?
- Af hverju fjölmiðlastofnun?
- Af hverju hækka skatta?
- Af hverju auka atvinnuleysi?
- Af hverju að taka ekki þátt í lýðræðislegri kosningu?
- Af hverju að svíkja eigin loforð?
- Af hverju ekki rétta heimilum hjálparhönd?
- Af hverju spyrja þegar fátt er um svör?
Þjóðaratkvæðagreiðslan: Stórsigur fyrir forseta Íslands og þjóðina, og vantraust á ríkjandi stjórnvöld?
7.3.2010 | 08:40
50-60% er verulega góð þátttaka, og um 93% af þeim atkvæðum segja NEI eða að minnsta kosti 115.000 manns af um 230.000 mögulegum taka skýra afstöðu, sérstaklega þegar eftirfarandi er haft í huga:
- Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar höfðu hvatt fólk til að nýta ekki lýðræðislegan rétt sinn og sitja heima, eins og á Íslandi væri nú einræði orðið málið.
- Fjöldi forsprakka talandi um að málið væri markleysa, en 50-60% þjóðarinnar fer ekki á kjörstað í leiðindaveðri til að kjósa um markleysu.
- Óljóst var fram á fimmtudag hvort að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin yfir höfuð, sem hefur örugglega virkað letjandi á einhverja.
Það er engan veginn hægt að bera þessar kosningar saman við alþingiskosningar eða forsetakosningar vegna alls þess spuna sem komið var af stað til að rugla fólk í ríminu og gera lítið úr gildi kosninganna sjálfra.
Ég var ekki á þeirri skoðun fyrir viku síðan að úrslit þessara kosninga þýddu stjórnarskipti, og er það ekki enn. En ég sé ekki annað en að Steingrímur og Jóhanna verði að víkja vegna afstöðu sinnar gegn sjálfu lýðræðinu. Þau eru rúin trausti. Svo einfalt er það. Þau munu ekki fara frá af eigin frumkvæði.
Þó að stjórnarflokkarnir hafi nokkra mjög hæfa einstaklinga, þá sérstaklega Liljurnar tvær og Ögmund, þá tel ég réttara að leggja íslenska pólitík af tímabundið og koma á þjóðstjórn. Það ætti að koma á einhvers konar neyðarstjórn með fólki sem lítur ekki á málin með pólitískum gleraugum, heldur með almannahag að leiðarljósi.
Forseti Íslands mætti taka virkan þátt í að mynda slíka tímabundna stjórn og fá sér vitra menn til ráðgjafar menn eins og Pál Skúlason og Njörð P. Njarðvík, enda hefur þjóðin greinilega stutt hann með þessu stóra NEI! og spurning hvort að þetta svar gefi þar með forsetanum aukin völd og umboð frá þjóðinni á þessum neyðartímum.
Þetta er fyrst og fremst stórsigur fyrir þjóð sem trúir á lýðræðisleg vinnubrögð og sem sýnt hefur aðdáunarverða, skýra afstöðu og siðferðisvitund fyrir framtíðarkynslóðir.
Þessi þjóð hefur kveikt von um bjartari framtíð.
Ég veit að pólitíkusar munu allir rífast um að túlka sér þessar kosningar sér í hag, en tími pólitíkusa fjórflokksins er liðinn og tími kominn til fyrir þjóðina að taka virkan þátt í hreingerningum eftir hrun. Fulltrúalýðræði á tímum sem þessum er markleysa og ljóst að þingmenn eru að koma í lög gæluverkefnum eins og um kynjakvóta, nokkuð sem er afar óviðeigandi fyrir þjóð sem vill kenna sig við jafnræði og er afar neyðarlegt bæði fyrir karla og konur sem vita að jafnræði felst í hugarfarsbreytingu, og að forsjárhyggjuvaldboð sem þetta eru ekki til þess fallin að breyta hugarfarinu til hins betra.
Beint lýðræði er að virka, og því verður að beita oftar, þó að ríkjandi stjórnvöld vilji eyðileggja fyrir.
Mynd: Portfolio.com
E.S. Þetta er bara örstutt frí frá bloggfríinu, en ég hef hugsað mér að sleppa greinarskrifum þar til í apríl, en mátti til í dag, vegna mikilvægis þessa máls.
Nær allir segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2010 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Frí frá bloggi
1.3.2010 | 07:02
Ætla að taka mér frí frá bloggi.
Munum að sama hvað hver segir, höldum áfram að hugsa sjálfstætt og hvetja aðra til þess sama.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um ICESAVE er ekki bull og vitleysa eins og sumir halda fram. Þjóðaratkvæðagreiðslan er mikilvæg, ekki bara vegna ICESAVE, heldur til að opna þjóðarviljanum farveg á tímum þar sem fulltrúalýðveldi og valdhöfum virðist ekki lengur treystandi.
Það eru breyttir tímar á Íslandi.
Þjóðin þarf að geta haft einhver áhrif á þessar breytingar. Þjóðaratkvæðagreiðslan er mikilvæg til að setja misvitrum stjórnmálamönnum viðmið um eigin takmarkanir. Þau rök að ICESAVE málið henti ekki fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að hafa um öll mál sem þing tekur fyrir.
Ríkisstjórnin í dag virðist jafn ráðvillt og sú síðasta. Megin ástæða þessarar ráðvillu tel ég felist í oftrú á eigin ágæti og þekkingu, og skortur á auðmýkt og vilja til að bæta hlutina með gagnrýnu hugarfari.
Slíkt verður ekki lagfært á einum vettvangi, heldur þarf öll þjóðin að taka sig á, í öllum skúmaskotum og á hvaða starfsvettvangi sem er. Starfsmenn þjóðarinnar sem staðnir eru að óheilindum og lygum ættu að víkja úr stöðum sínum umsvifalaust og velja ætti til stjórnar á lýðveldinu neyðarstjórn sem getur komið á réttlæti sem núverandi ríkisstjórn virðist engin tök hafa á, þrátt fyrir háværar yfirlýsingar fyrir kosningar og þegar mætt er í fjölmiðlaviðtöl.
Verk segja meira en þúsund orð.
Allar mínar bloggfærslur verða óaðgengilegar eftir miðnætti í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)