The Blind Side (2009) ***1/2

"The Blind Side" er kvikmynd sem virkar. Og hún virkar vel. Hún er mannleg án þess að vera væmin. Hún fjallar um viðkvæm mál tengd fátækt og kynþáttahatri og gerir það vel.

Big Mike (Quinton Aaron) er stór og mikill, hæfileikaríkur með bolta en virðist við fyrstu sýn beinlínis heimskur, trúirðu að slíkt sé til á annað borð, það er að segja, heimska. Réttu nafni heitir hann Michael Oher og einhvers staðar djúpt innan í þessum massaða líkama leynist viðkvæm og kjarkmikil sál. Til að fá notið sín í þessum heimi þar sem hann hefur verið umkringdur ömurlegustu mögulegu lífsskilyrðum, með móður sem dópar og selur sig og hefur eignast börn með hinum og þessum án þess að hafa hugmynd um hvað orðið hefur um þau.

Þegar þjálfarinn Burt Cotton (Ray McKinnon) við kristinn einkaskóla uppgötvar knatthæfileika Big Mike, ákveður hann mæla með honum sem nemanda við skólann. Í ljós kemur að Mike hefur greindarvísitölu sem mælist undir 80 og allar einkunnir hans falleinkunnir. Samt er honum gefið tækifæri. Kennarar styðja við bakið á honum og sjá að eitthvað er á seyði innan í þessum stóra dreng. Hvorki samnemendur né kennara grunar hver sannleikurinn er, hann á hvergi heima og gistir á næturnar í íþróttahúsi skólans, og smyglar nærfötum sínum í þvottavélar hjá öðru fólki.

Eitt kvöldið ráfar Big Mike úti í kaldri rigningu, enda heimilislaus, á leið í íþróttahúsið. Meðlimir Tuohy fjölskyldunnar hafa rekist á hann í skólanum. Sean yngri (Jae Head) hefur gefið honum heilræði og Sean eldri hefur tekið eftir honum hreinsa til eftir blakleik dóttur þeirra Collins (Lily Collins). En það er eiginkona þessa forríka eiganda Taco Bell veitingastaða sem ofbýður og fær Mike til að gista heima hjá þeim þessa nótt. Leigh Anne (Sandra Bullock) tekur strax ástfóstri við þennan unga og stóra mann, enda mannasiðir hans og hegðun til fyrirmyndar. Einnig er hann ljúfur sem lamb og reynist sannur vinur vina sinna.

"The Blind Side" sýnir tvær hliðar á einu samfélagi, sem báðar virðast blindar gagnvart hinni. Það þarf hins vegar tvær afburðarmennskur til að brjótast í gegnum múra fordóma og stéttarskiptingar til að sjá inn í heim hins aðilans, og ekki út frá sjónarhorni áhorfanda, heldur með innilegri væntumþykju og samúð. Árekstrar eru óhjákvæmilegir þegar slíkir heimar mætast, og það eina sem getur snúið slíkum árekstrum við, fyrirgefið fordóma og mistök, eru manngerðir sem eru tilbúnar að hafa augun opin gagnvart öðrum heimi en eigin. Slíkt er sjaldgæft í þessum heimi, en þessi kvikmynd fjallar um nákvæmlega þannig manngerðir.

Sandra Bullock á allan þann heiður sem hún hefur fengið fyrir þessa mynd, fyllilega skilið, og satt best að segja er Quinton Aaron henni engu síðri. Þetta er í raun óvenjuleg félagamynd, svona í anda "Lethal Weapon" og "Butch Cassidy and the Sundance Kid" með þeirri undantekningu að lítið er um ofbeldi í "The Blind Side", þó að vissulega séu ógnirnar nægar og stutt í að sjóði upp úr, sem reyndar gerist á óvæntan hátt í hreiðri glæpaklíku gamla hverfis Big Mike.

Michael Oher er raunveruleg manneskja. Hann er þekktur sem sóknarlínumaður í bandaríska ruðningsboltanum og er reyndar stórstjarna í þeirri íþrótt. Það gerir þessa sögu ekki verri. Það er ekki eitt leiðinlegt augnablik í þessari kvikmynd, þó að stundum eigi maður frekar erfitt með að sætta sig við alla þessa manngæsku og einlægni sem skín út úr mörgum persónum myndarinnar. Miðað við mína eigin upplifun af Bandaríkjunum, en ég hef verið viðloðinn því samfélagi síðustu 17 ár, þá er þetta ansi nálægt þeim Bandaríkjum sem ég þekki. 

Manngæskan þarna er mikil, þó að öfgarnar geti verið það líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Sammála , sjáðu næst Hot Tub Time Machine hún er HANGOVER á Sterum

Ómar Ingi, 29.3.2010 kl. 21:25

2 identicon

Mikið er ég sammála þér núna og þessi mynd minnti mig dálítið á Radio en hann var líka svona utan gátta í samfélaginu þar til að þjálfari ruðningsliðsins tók hann undir sína arma. En hann var líka raunveruleg manneskja.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.3.2010 kl. 21:40

3 identicon

Flott grein,  vildi leiðrétta að Michael Oher leikur sem "sóknalínumaður", en ekki í varnamaður.

Geir (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 14:18

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Geir: Takk. leiðrétt. Hef ekkert við á bandarískum fótbolta.

Rafn: Þekki ekki Radio.

Ómar Ingi: Hlakka til að sjá hana.

Hrannar Baldursson, 30.3.2010 kl. 20:40

5 identicon

http://en.wikipedia.org/wiki/Radio_(film)

Prófaðu þetta fyrir ofan

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband