Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Harry Potter and the Half-Blood Prince (2009) *1/2

harry_potter_and_the_half_blood_prince

Enn þynnist þrettándinn.

Ég varð fyrir vonbrigðum með Harry Potter and the Half-Blood Prince. Þau mistök eru gerð að leggja meiri áherslu á tilhugalíf galdraunglinga en þá spennandi fléttu sem birtist á síðum bókarinnar eftir J.K. Rowlings. Ég er ekki að segja bókina vera eitthvað snilldarverk, en mér fannst rangar leiðir farnar. Í stað þess að grípa tækifærið og gera dramað dramatískt er skautað yfir lykilatriði eins og þau séu aukaatriði og aukaatriði sett í forgrunninn eins og þau væru aðalatriði. Útkoman er tæknilega vel gerð mynd, en með frekar óspennandi sögu.

Harry Potter finnur gamla bók sem merkt er Blendingsprinsinum, en í stað þess að sagan snúist um hver þessi dularfulli prins er, eins og vikið var mikið að í bókinni, snýst hún um að endurtaka myndir frá 1-4 með aðeins myrkari undirtón. Reyndar er eitt afar gott atriði í myndinni, þar sem Dumbeldore og Harry fara inn í ansi skuggalegan helli, en fyrir utan það er hún tómt miðjumoð. Það vantar allan kraft í frásögnina, spennu í kvikmyndatökuna og áhugaverðan leik.

Án efa versta Harry Potter myndin af þeim fimm sem komið hafa út, en síðustu tvær voru ágætar.


Til hvers að biðja menn um afsökunarbeiðni ef þeir skilja hvorki né viðurkenna að þeir breyttu rangt?

"Manneskjur þrá ekki aðeins að verða ríkar, heldur að verða ríkari en aðrar manneskjur." John Stuart Mill 

Fólk hagar sér samkvæmt eigin sannfæringu. Ef það breytir rangt, er það vegna þess að það veit ekki hvað er rétt. Ef það framkvæmir illvirki, er það vegna þess að það þekkir ekki hið góða.

Ég efast um að þeir sem hafa komið íslenskri þjóð í alvarlegustu klípu frá upphafi, telur sig ekki hafa gert neitt rangt, að þau hafi verið að fylgja eftir ferlum og farið eftir reglum sem voru viðurkenndar sem eðlileg viðskipti. Það er eins og kerfið hafi orðið að viðmiði fyrir því sem er gott eða illt.

Ég leita hamingju. Hamingja kemur frá hinu góða. Hið góða felst í gróða. Það er gott að vera ríkur. Þá get ég jafnvel útdeilt hamingju.

Ég held að hugsunarhátturinn sé ekki flóknari en þetta.

Þetta er nytjahyggjan í sinni hreinustu mynd. Útkoman skiptir öllu máli, og þó að þurfi að fórna eins og einu samfélagi, þá er það í lagi, því að á endanum getur það komið heildinni vel, ef heildin er maður sjálfur og vinir manns.

Af hverju er siðfræði ekki skyldufag í skólum, þar sem hægt er að gefa fólki tækifæri til að hugsa af dýpt meðal annars um nytjahyggju og afleiðingar hennar sem lífsstefnu? 

"Ef þú ættir skammt eftir ólifað og gætir aðeins hringt eitt símtal, í hvern myndirðu hringja og hvað myndirðu segja? Og af hverju ertu að bíða?" (Stephen Levine) 

mbl.is Bíður eftir afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er trúnaður ekki lengur trúnaður, og leynd orðin að yfirhylmingu?

 

_betrayal__by_negative_vision

 

Segjum að þú skutlir vini þínum út í banka, og þér að óvörum kemur hann til baka í bílinn með grímu yfir andlitið og fullar hendur fjár. Hann biður þig að segja engum frá. Ef þú samþykkir, ertu samsekur. Ef þú samþykkir ekki, og lætur lögregluna vita, ertu þá að rjúfa trúnað við vin þinn, eða einfaldlega gera það sem er rétt?

Fólk misnotar leynd og trúnað í daglegu lífi og áttar sig ekki á greinarmuninum á leynd og yfirhylmingu. Til dæmis ef unglingur kemst að því að besti vinur hans er kominn á kaf í dóp, en lofar þessum vini sínum að segja engum frá. Hvað er rétt fyrir unglinginn að gera, segja frá til að koma vini sínum til hjálpar, og reynast þannig sannur vinur, eða þegja yfir vandanum og viðhalda þannig sambandi sem byggir ekki lengur á heilindum, heldur óheilindum, og mun þannig fyrr eða síðar falla um sjálft sig?

Þessar spurningar eru sjálfstætt framhald af færslu gærdagsins, þar sem ofsóknir á hendur þeim sem fjalla um bankaleyndarmál eru gagnrýndar:

Á að krossfesta íslenska rannsóknarblaðamenn fyrir að grafa upp sannleikann?

"Ef þú brýtur einu sinni gegn trausti meðborgara þinna, muntu aldrei njóta virðingu þeirra og halda mikilvægri stöðu. Það er satt að þú getur blekkt alla stundum; þú getur jafnvel blekkt suma alltaf; en þú getur ekki blekkt alla, alltaf." (Abraham Lincoln)


Á að krossfesta íslenska rannsóknarblaðamenn fyrir að grafa upp sannleikann?

 

 

"Orðið 'leynd' er andstyggilegt í frjálsu og opnu samfélagi; og við sem fólk erum meðfætt og sagnfræðilega á móti leynisamfélögum, leynilegum loforðum og leynilegum ferlum." (John F. Kennedy)

Egill Helgason skrifar grein þar sem fullyrt er að verið sé að ákæra fimm íslenska blaðamenn fyrir að fjalla um lekann úr Kaupþingi sem varinn er með bankaleynd. Þessir blaðamenn hafa barist fyrir því að koma sannleikanum til skila, og lagt sig þannig í meðvitaða hættu - enda eru þeir sem hafa getu og vilja til að grafa upp og segja sannleikann oft litnir hornauga, þar sem að sannleikurinn getur verið ansi særandi hafirðu eitthvað að fela.

Ranglát reiði sprettur upp í garð þessara einstaklinga, sem koma í veg fyrir að svindl og svínarí sé haldið í felum, og með hverri uppljóstrun sem vekur athygli, eykst reiði þeirra sem vildu halda málinu leyndu. Helsti óvinur spillingar og svika er fólk sem leitar sannleikans, og svífst einskis til að afhjúpa sönnunargögn sem leiða okkur nær honum.

 

 

Það er aðeins ein gerð umburðarlyndis sem ætti að vera algjörlega skotheld og sett í forgang: gagnvart gagnrýnni hugsun og sannleiksleit. Þegar skortir á umburðarlyndi gagnvart gagnrýnni hugsun er það merki um að eitthvað mjög alvarlegt sé að.

Oft eru það trúarbrögð og stjórnvöld sem vilja takmarka gagnrýna hugsun, en þegar fyrirtæki eru komin í þann hóp og beita fyrir sér ríkisstofnunum, er hugsanlega rétt að endurmeta grundvallarskilning á hugsanlegum óvinum gagnrýnnar hugsunar. Sum fyrirtæki virðast vera að komast á stall trúarstofnanna hinna myrku miðalda, þar sem reynt var að stoppa fólk frá því að móta sér skoðun á heiminum sem byggð var á rökum frekar en trú. Þetta er hliðstætt.

Að vera ákærður fyrir að telja jörðina vera hnöttótta er ekki ólíkt því að vera ákærður fyrir að trúa ekki lygum sem ætlast er til að þú trúir af nefndum, almannatengslum og greiningardeildum, sem segja fyrst og fremst frá því sem hentar viðkomandi stofnun og leynir því sem gæti komið henni illa. Að ljóstra upp sannleikanum getur aldrei verið glæpur.

 

tree-of-knowledge

 

Hugtakið 'bankaleynd' er sambærilegt því að banna vísindamönnum að styðja aðrar kenningar en þær að heimurinn hafi verið skapaður af almáttugri veru, og ef sönnunargögn finnast sem benda til annars, þá skuli þau umsvifalaust grafin og hunsuð, enda augljóslega um svik að ræða fyrst þau passa ekki í hugmyndakerfið.

Bankaleynd virðist vera orðin að sönnum óvini íslensku þjóðarinnar, einhvers konar ofsatrú sem getur orðið heilum þjóðum að falli.

"Besta vopn harðstjórnar er leynd, en besta vopn lýðræðis er að vera opið."  (Niels Bohr) 

 

Þrumugóð ræða um þessi mál frá John F. Kennedy, 1961: 


"Eggið sem át hænuna" eða "egóið sem át okkur"?

Borgarahreyfingin átti að vera litla þúfan sem velti stóra hlassinu, Ríkinu sjálfu, en í dag lítur út fyrir að hreyfingin hafi sogast innan í hugsunarleysishátt Ríkisins og þar af leiðandi látið það velta sér og velta síðan aftur til baka yfir þúfuna sléttu.

Borgarahreyfingin lofaði að breytast ekki í hefðbundinn stjórnmálaflokk sem léti tilganginn helga meðalið. Þráinn stóð við þetta og var alls ekki sáttur þegar félagar hans í þingflokknum ákváðu að láta tilganginn helga meðalið með því að ganga gegn eigin sannfæringu, að ákveðnu marki, og kjósa gegn aðildarviðræðum til Evrópusambandsins, en fyrst og fremst til að mótmæla ICESAVE. Tilgangurinn var góður. Engin spurning. Meðalið var hins vegar slæmt.

Þannig má segja að ICESAVE hafi velt Borgarahreyfingunni og sundrað honum, reyndar innanfrá eins og nauðsynlegt er í slíkum málum. Þráinn vildi ekki sætta sig við hefðbundnar pólitískar þvingunaraðferðir til að ná fram sínum málum, og enginn virðist skilja hvað Þráinn er að meina; á meðan það virðist nokkuð augljóst. Ég skil Þráinn vel.

Með þvingunarfléttunni var nefnilega ekki aðeins brotið gegn einu kosningaloforði hreyfingarinnar, heldur þremur:

  1. styðja aðildarviðræður á Evrópusambandinu
  2. engin klækjapólitík
  3. falla ekki inn í kerfið

Ég leit á þetta sem mannleg mistök og reiknaði með að hópurinn kæmist yfir þetta með smá samræðum og heilbrigðri skynsemi. Það hefur ekki gengið eftir.

Helsti veikleiki Þráins Bertelssonar er stórt egó, enda einn besti kvikmyndaleikstjóri Íslandssögunnar, birti eigin dagbók í Fréttablaðinu í marga mánuði og hefur skrifað bækur sem ganga út frá þessu egói sem meginforsendu: Ég ef mig skyldi kalla : seinþroskasaga og Einhvers konar ég. Þetta var gefið.

Andstæðingar Borgarahreyfingarinnar virðast hafa misnotað þennan veikleika miskunnarlaust með því að birta stanslausar fréttir um deilumál þessara einstaklinga, hvort sem að slíkt mætti kalla raunverulegar fréttir eða ekki. Þetta hlaut að enda með sprengingu, sem hlyti að spretta úr einhverjum mistökum sem einhver hefur gert og þannig væri hægt að gera viðkomandi að blóraböggli.

Allir þekkja framhaldið.

Borgarahreyfingin er í mikilli hættu við að lognast út af, aðeins þremur mánuðum eftir að hún komst á þing. Það er mikið um klækjarefi á þing og í pólitík almennt sem fá mikið út úr því að blása málin upp, og óska einskis frekar en að skíðlogi á milli fólks. Svoleiðis fólk er yfirleitt sett á 'ignore' á netinu, en getur verið vonlaust að forðast í lifandi lífi.

Vonandi er ekki of seint fyrir þingflokkinn að sjá hvað er í gangi og gera eitthvað í málunum áður en það verður of seint. Pólitíkin er miskunnarlaus skepna og bítur miskunnarlaust hausinn af þeim sem eru ekki tilbúnir að leika sér með henni.

Staðan í dag:

Ríkjandi stjórnskipunarfyrirkomulag 1 - Borgarahreyfingin 0

Er leikurinn rétt að byrja?


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

110 ára í dag: Alfred Hitchcock (1899-1980)

hitchcock_1

Einn af bestu leikstjórum sögunnar. Honum tókst að koma hinum venjulega meðal-jóni í slík vandræði að maður gat ekki annað en fylgst með á sætisbrúninni, og getur það ekki enn setji maður einn af diskunum hans í græjurnar.

Hér eru myndir Hitchcock sem fá hæstu einkunn á IMDB, með stuttri umfjöllun eftir mig um þær myndir sem ég hef séð (7/10):

 

(8.80) - Rear Window (1954)

James Stewart leikur fótbrotinn ævintýramann og ljósmyndara sem þarf að láta sér leiðast á heitum sumardögum í íbúð sinni í borginni. Hann fer að fylgjast með nágrönnunum, og smám saman vex með honum sá grunur að einn þeirra sé kaldrifjaður morðingi. Hann ákveður að koma upp um hann og fær kærustu sína, leikna af Grace Kelly, til að njósna um manninn og leita sönnunargagna.

 

(8.70) - Psycho (1960)

Anthony Perkins leikur Norman Bates, einmana mann sem rekur mótel. Gestir mótelsins eru myrtir af dularfullri veru, sem gæti verið Norman, móðir hans eða einhver annar geðveikur morðingi. Án Psycho hefðu þeir aldrei getað gert Friday the 13th, Halloween, Nightmare on Elm Street, Scream og allar þær hrollvekjur sem byggja á því að forhertur morðingi sitji um saklaust fólk.

 

(8.60) - Vertigo (1958)

James Stewart lék í mörgum mynd Hitchcock, og var alltaf góður. Hér leikur hann fyrrum lögreglumann sem þjáist af sjúklegri lofthræðslu eftir að eltingarleikur á húsþaki endaði illa. Hann gerist einkaspæjari og fær undarlegt mál upp í hendurnar þar sem hann grunar að einhver hafi verið myrtur, en hann veit ekki alveg hver hefur verið myrtur, hver morðinginn er eða af hverju það ætti að hafa verið framið morð yfir höfuð, en hann þarf að takast á við eigin lofthræðslu yfir hyldýpi ráðgátunnar til að leysa málið farsællega.

 

(8.60) - North by Northwest (1959)

Cary Grant er markaðsfræðingur á vitlausum stað og vitlausum tíma. Hann blandast inn í alþjóðlegt njósnasamsæri, þar sem njósnarar telja hann vera ofurnjósnara sem í raun er ekki til, en hann þarf samt að standa sig í hlutverki þessa ofurnjósnara til að hreinsa nafn sitt og lifa hremmingarnar af. Á ævintýrum sínum kynnist hann spennandi konu leikinni af Eva Marie-Saint, sem reynist allt annað en dýrlingur. Eftirminnileg atriði eru þegar Cary þarf að hlaupa yfir maísakur á flótta undan flugvél, og slagsmál á nefum forsetanna í Mount Rushmore.

 

(8.40) - Rebecca (1940)

Hitchcock fékk óskarinn fyrir þessa, og Rebecca var valin mynd ársins 1940. Laurence Olivier leikur glaumgosa sem finnur sér unga eiginkonu leikna af Jane Fontaine á frönsku ríveríunni, en þegar heim er komið í glæsivillu Olivier kemur í ljós að fyrri eiginkona hans hvarf á dularfullan hátt og að minningu hennar er haldið hátt á lofti í húsinu, þannig að Jane þarf loks að óttast um líf sitt þegar andi Rebeccu (samt ekki sem draugur) snýst gegn henni.


(8.30) - Notorious (1946)

Ein af örfáum myndum Hitchcock sem ég hef ekki séð, en ætla að bæta úr því í dag, að tilefni dagsins. Ingrid Bergman og Claude Rains fara með stór hlutverk í þessari nasista- og njósnamynd, en Cary Grant leikur aðalhlutverkið. Get varla beðið eftir að horfa á hana.

notorious

 

(8.30) - Strangers on a Train (1951)

Önnur af 10 sem ég hef ekki séð. Greinilegt að ég hef skemmtilegt verkefni framundan.

train

 

(8.20) - Shadow of a Doubt (1943)

Joseph Cotten leikur dularfullan frænda sem virðist hafa dularfulla fortíð og kemur fjölskyldulífi í uppnám og þeytir þeim úr úr hversdagsleika úthverfanna.

Shadow_of_a_Doubt_stort

 

(8.20) - The Lady Vanishes (1938)

Enn ein myndin sem ég hef ekki séð, en mun bæta fljótlega upp.

 

(8.10) - Rope (1948)

Tveir yfirburðargreindir nemendur myrða mann og reyna að komast upp með það, en kennari þeirra leikinn af James Stewart reynist þeim frekar erfiður fjötur um fót í tilraun þeirra til að fremja hinn fullkomna glæp.

 

Merkilegt samt að eftirlætis Hitchcock myndin mín er í 30. sæti listans yfir bestu myndir leikstjórans þar sem læknir leikinn af James Stewart og eiginkona hans, söngkona leikin af Doris Day blandast inn í alþjóðlega svikamyllu þegar syni þeirra er rænt í Marokkó. Leikurinn berst til Lundúna, en einn af lykilkarakterum myndarinnar er lagið "Que sera sera", eða "Hvað sem verður, verður".

(7.50) - The Man Who Knew Too Much (1956)

 


Húmor: Hvað er eiginlega að Íslendingum og öllum hinum?

Hvernig verður spilling til og sú trú að við eigum að misnota kerfið okkur í hag?

CH940127

 

Gerir ríkidæmi þig að guðlegri veru sem getur leikið sér að örlögum fólks?

bill4

 

Hugarfar hamingjunnar, verst að í stað þess einfaldlega að leggjast í grasið og njóta náttúrunnar þurfti að kaupa grasið og horfa á stráka hlaupa eftir tuðru þrisvar í viku:

CH860417

 

Skilanefndir banka og þingmenn sem gera ICESAVE samninga eru bara að vinna vinnuna sína:

jon2

 

Tilgangurinn helgar meðalið:

 

Allar myndir fengnar af vefsíðunni 25 Great Calvin and Hobbes Strips. Ég mæli með Calvin og Hobbes, ekki bara til skemmtunar, heldur til að hrista aðeins upp í gráu sellunum.  Ég ákvað að smækka ekki myndirnar þó að þær leki út fyrir ramma bloggsíðurnar. 

Pældu í þessu...


ICESAVE: Er kjarni málsins hulinn lygafléttu?


Innlánatryggingasjóður er eitt, ríkisábyrgð er annað. Tvö aðskilin mál. Íslenska þjóðin ber ekki ábyrgð á innlánum sem lögð voru í einkafyrirtæki. Það er útilokað, ranglátt, ósanngjarnt og ólöglegt nema alþingi samþykki það sérstaklega. Þetta er ekkert flóknara.

Það sem flækir málið er fólk sem hefur hag af því að skuldir þeirra séu greiddar af íslensku þjóðinni, þó svo að íslenska þjóðin fari á hausinn fyrir vikið. Þetta fólk virðist stjórna fjölmiðlaumfjöllun að einhverju leyti og það heyrist hátt í því. Þetta fólk virðist greiða stjórnmálamönnum þóknun. Það kom í ljós fyrir síðustu kosningar en hefur verið þaggað niður. Það ætti að vera búið að frysta eigur og athafnir þessa fólks, en það hefur ekki verið gert. Réttlætinu hefur ekki verið framfylgt, og því eins og innbrotsþjófur sem látinn hefur verið laus og gengur einfaldlega beint til verks næstu nótt, en aðeins gætnari en áður, ganga hinir ranglátu lausir og vinna þjóðinni skaða eins lengi og þeir komast upp með það. Samviska mun aldrei stoppa þá.

Að rætt sé um að ríkið tryggi tryggingarsjóð innlána er absúrd í sjálfu sér, en slíkur tryggingasjóður ætti að vera byggður á þeim innlánum sem tekið var við, en ekki á mögulegri skattgreiðslu íslenskra þegna til framtíðar. Ef þú lætur mig hafa hundraðkall og ég lofa að láta þig fá hundrað og fimm krónur til baka, þýðir það ekki að þjóð minn beri ábyrgð á hundraðkallinum en enginn á fimm krónunum.

Hvaða einkarekni alþjóðabanki getur beintengt sig í framtíðarskatta sjálfstæðrar þjóðar? Þeir eru víst bara þrír til í heiminum: Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir.

Það er einfaldlega verið að svipta þá ábyrgð sem ábyrgðina eiga og verið er að koma henni yfir á íslenska þjóð. Þetta verður að stöðva.


Hvað gerir ríkisstjórnin þegar hún stendur frammi fyrir skrímsli með fjögur höfuð?

 

 

 
Frið þarf fyrst að skapa til að hægt verði að viðhalda honum. Friður verður til úr Von, Styrki, Krafti, Vilja, Samhug, Réttlæti, Ímyndunarafli, og sigri lögmála. Við öðlumst aldrei frið með athafnaleysi og þögn. (Dorothy Thompson)
 
Er spillingin orðin að skrímsli sem búið er að ná það föstum tökum í rótum okkar, að þörf er á að kippa okkur upp úr jörðinni og gróðursetja á ný?
 
Ríkisstjórnin er stöðugt í vörn gagnvart AGS, ESB, Bretlandi og Hollandi, og virðist finna hvergi tak í þessari sleipu brekku sem hún virðist vera að renna niður. Getur hún enn sótt gegn þeim sem komu okkur í þessa erfiðu stöðu? Eða getur hún ekkert annað en klórað í brekkuna og reynt að forða sér frá falli undan hyldýpinu sem hún nálgast hægt, en ekki rólega.
 
Það síðasta sem þú vilt gera þegar þú stendur frammi fyrir skrímsli er að sýna ótta, sama þó að þú sért skíthræddur. Hins vegar hef ég á tilfinningunni að ríkisstjórnin standi í augnablikinu skjálfandi fyrir dreka með fjögur höfuð, og sé búin að gera í buxurnar. Drekinn veit það. Reyndar er riddarinn á hvíta hestinum einhvers staðar innra með henni og reynir að brjótast út. Þessi hetja hefur fáar raddir innan þingsins, en hún virðist styrkjast með hverjum deginum í nafni einstaka þingmanna sem líta frekar á málefnin og réttlætið sem leiðarljós umfram völd og stefnur.
 
Vonandi ná þessar raddir að heyrast. Ekki til að ráðast gegn skrímslinu, heldur sigrast á eigin ótta og sækja fram á við. Hrópa á hjálp, en ekki eins og skelfingu lostið fórnarlamb, heldur eins og herforingi sem stefnir óttalaus fram á veginn, gegn ósýnilegum óvini, með áætlun um sigur að leiðarlokum, sem vinnur sigur á okkar eigin ótta um miskunnarleysi skepnunnar.
 
 
---
 
Þessi færsla spratt fram eftir lestur minn á þessari grein Egils Helgasonar frá því fyrr í dag, þar sem hann veltir fyrir sér og snertir kjarna málsins um erfiða stöðu ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur brugðist íslenskum heimilum landsins. Enn vona ég að þetta sé ævintýri frekar en harmleikur, en okkur vantar sárlega að sýna baráttuanda og berjast fyrir réttlæti til að ástandið versni ekki mikið meira. Ég er hræddur um að þegnar landsins reikni með að einhver komi og bjargi okkur, á meðan björgunin felst í því að við sýnum virkni og berjumst fyrir og krefjumst réttlætis. 
 
Hvernig?
 
Við verðum að opna augun og vinna saman en ekki sundruð. Það eina sem getur sameinað okkur er traust, og traust öðlumst við ekki fyrr en við upplifum réttlæti, og réttlæti fáum við ekki fyrr en við berjumst fyrir því, og við berjumst ekki fyrir réttlæti fyrr en við vöknum.

Eru bloggarar að blása upp efnahagsvanda þjóðarinnar og þannig ábyrgir fyrir Hruninu?

 

Verslunarmannahelgin, Herjólfsdalur, 2009. 

Ég lá inni í tjaldi og leyfði berum tánum að standa út úr tjaldrifunni. Hin þrjú í tjaldinu voru steinrotuð, ekki öll í svefnpokum. Hins vegar heyrði ég merkilegt samtal í næsta tjaldi. Þetta var snemma morguns og sjálfsagt voru gaurarnir ennþá svolítið fullir, en mig langaði til að stökkva út úr tjaldinu og taka þátt í samræðunni en gerði það ekki, enda var ég með svo mikla timburmenn og óglatt að ég gat ekkert annað gert en bara legið og hlustað.

 

"Íslenskt samfélag er í rúst. Kreppan mun brenna upp eignir fólks í haus, og landinn mun flýja land eins og rottur sökkvandi skip."

"Rólegur vinur. Íslenskt samfélag er í fullkomnu jafnvægi. Enginn hefur gerst sekur um eitt eða neitt í tengslum við Hrunið. Allir eru saklausir. Enginn hefur verið ákærður. Allt var eðlilegt. Stjórnmálamenn gerðu ekkert rangt. Bankamenn gerðu ekkert rangt. Útrásarvíkingar gerðu ekkert rangt. Aðstæður voru bara erfiðar og Ísland óheppið að vera lítið land?"

"Hvað um kúlulánin, spillinguna, gjafirnar til stjórnmálaflokka, atlögu á krónuna, verðtrygginguna, gengisfallið, hækkandi skatta, sökkvandi krónu?" 

"Sumir voru kannski svolítið kærulausir, en þannig erum við Íslendingar í eðli okkar. Það er allt í lagi að fólk sem skuldar fyrir að hafa keypt heimili og bíl á lánum fari á hausinn. Það er náttúrulega ekkert annað en óábyrgt fyrir fólk að taka 100% lán fyrir íbúð. Það er eins og sumir hafi engan skilning á hagfræði. Auðvitað er 100% lán ekkert annað en leiga. Að láta sér detta annað í hug er út í hött. Fátækt fólk verður fátækara og þeir sem eiga eitthvað eignast meira. Þannig eru hlutirnir og þannig eiga þeir að vera. Svo framarlega sem allt lítur út fyrir að vera í lagi, þá er allt í lagi."

"Hvað um allt ranglætið?"

"Ranglætið gleymist, enda hefur almenningur minni sem nær jafn langt og síðasta fyllerí og hann veit að á endanum reddast allt."

"Það var sparkað í andlitið á nágranna mínum og hús frænda míns brennt." 

"Þau jafna sig." 

"Frændi minn er fluttur úr landi." 

"Hann öðlast bara meiri reynslu." 

"Ég er kominn á hausinn, búinn að tapa íbúðinni og bílnum. Konan farin frá mér."

"Það er fullt af fiskum í sjónum." 

"Laun mín hafa lækkað um helming og kostnaður tvöfaldast." 

"Tja, stundum koma mögur ár og þá má hvíla sig á lúxus."

"Útrásarvíkingar og bankar fengu peninga erlendis og ætlast var til að þeir pössuðu upp á þá. Þeir töpuðu öllum peningnum." 

"Enda bara ábyrgðarlaus krakkagrey. Við getum ekki kennt þeim um allan andskotann. Svona gerist bara. Við reddum þessu. Við getum borgað alla reikninga sem útrásarvíkingar og bankar hafa stofnað til, bara svo framarlega sem við getum fengið lán til þess. Ennþá betra er ef við getum ýtt láninu yfir til næstu kynslóðar. Fullt af krafti í næstu kynslóðum. Þau redda þessu bara."

"Hvað um ICESAVE?"

"Steingrímur J. Sigfússon er sannfærandi. Það skín út úr honum sannfæringarkrafturinn þegar hann talar. Hefurðu séð hann tala. Hvernig geturðu annað en treyst slíkum manni?" 

"Hvað um Evu Joly?"

"Hún er bara útlendingur. Hvað er hún að skipta sér af okkar málum? Hún birtist í sjónvarpsþætti og er þá allt í einu orðinn verndarengill Íslendinga. Hvílíkt bull."

"Er þá allt í allrabesta lagi?"

"Auðvitað er allt í allrabesta lagi. Hvernig getur þér dottið annað í hug? Erum við ekki á fjölmennri þjóðhátíð þar sem Árni Johnsen er þjóðhetjan?"

"Jú."

"Hafa bloggarar ekki verið háværir um hvað Árni Johnsen er mikill skúrkur?"

"Jú."

"Heldurðu að þjóðhátíðin væri svona fjölmenn ef Árni væri alvöru skúrkur?"

"Ætli það nokkuð."

"Þar af leiðandi, Hrunið, kreppan og allur sá fjandi er jafn mikil og ómerkileg sápukúla og ásakanir um að tæknileg mistök Árna Johnsen hafi verið glæpsamlega, og að eitthvað sé að því að ráða ættingja í lykilembætti." 

"En..."

"Og veistu hvað. Ef fólk gæti bara þagað, ef hægt væri að þagga niður í þessum helvítis bloggurum, þá væri allt í fínu lagi. Það eru bloggararnir sem blása upp vandann og eru að birta leynileg skjöl."

"Má sannleikurinn ekki koma fram?" 

"Hættu þessu væli og fáðu þér bjór. Ég býð." 

 

Ég heyrði ekki meira, lygndi aftur augunum, fékk mér sopa af romm í kók og sneri mér yfir á vangann sem enn var ósleginn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband