Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

4 kostir vegna ICESAVE: kommúnismi, fasismi, kapítalismi eða skynsemi?

Það eru fjórir möguleikar í stöðunni:

SKYNSEMI

Hafna því algjörlega að íslenska þjóðin skuldi ICESAVE reikninganna og hafna öllum samningum sem skuldsetja þjóðina. Þetta þýðir að eigendur og ábyrgðarmenn Landsbankans séu ábyrgir fyrir þessu, og að þeir verði að borga, annað hvort með peningum eða fangelsisvist.

Afleiðingar: hert verður á rannsókn fjármálaglæpa af alþjóðlega samfélaginu. Íslandi verður einungis kennt um hversu illa fór ef þjóðin hindrar rannsóknina. 

Pólitísk markmið þess sem vill þennan kost: hugsanlega réttlæti og þróun á íslensku samfélagi. 

Hér er mikilvægt að hafa sannleikann að leiðarljósi og berjast fyrir réttlæti með kjafti og klóm. Hætta tæknilegri lögfræði, spádómafræðum hagfræðinnar og pólitík sem kom okkur upphaflega í vandann, og standa við okkar sannfæringu, sem er byggð á traustum rökum.

KAPÍTALISMI

Hafna því algjörlega að íslenska þjóðin skuldi ICESAVE reikningana en samþykkja samt samninga sem skuldsetja þjóðina. Þetta þýðir að ábyrgð skuldanna færist frá sönnum ábyrgðarmönnum og eigendum og yfir á íslensku þjóðina. 

Afleiðingar: kröfuhafar víða um heim friðaðir, en þetta verður líka til þess að þeir sem bera hina sönnu ábyrgð komast undan, og að íslenska þjóðin tekur á sig gífurlegar skuldir sem munu koma niður á lífsgæðum þeirra, sem er allt í lagi svo framarlega sem þú ert á móti efnislegum lífsgæðum.

Pólitísk markmið þess sem vill þennan kost: ójafnvægi þar sem útrásarvíkingar fá annað tækifæri til að eignast aftur það sem þeir höfðu áður glatað, og gefa þeim tækifæri til að eignast ennþá meira, eins og til dæmis heimili þriðjungs íslensku þjóðarinnar sem mun þá sjálfsagt þurfa að borga þeim leigu.

FASISMI

Samþykkja að íslenska þjóðin skuldi ICESAVE reikningana en samþykkja ekki samninga sem skuldsetja þjóðina. Þetta mætti kalla ábyrgðarleysi, enda ber hverjum og einum sem skuldar, að greiða sínar skuldir.

Afleiðingar: kröfuhafar víða um heim reiðast og Íslendingar stimplaðir sem gjörspillt þjóð. Gengur ekki upp á alþjóðavettvangi nema þjóðin hafi öflugan her á bakvið sig.

Pólitísk markmið þess sem vill þennan kost: völd. 

KOMMÚNISMI

Samþykkja að íslenska þjóðin skuldi ICESAVE reikningana og samþykkja samninga sem skuldsetja þjóðina. Þetta gæti hljómað sem ábyrg afstaða, en á röngum forsendum, þar sem ekki hefur enn verið sýnt fram á af hverju íslenska þjóðin skuldi ICESAVE reikningana.

Afleiðingar: Skattar hækka á Íslandi, laun verða jöfnuð, eignir landsmanna jafnaðar. Afleiðingin er kommúnismi

Pólitísk markmið þess sem vill þennan kost: líklegast að útrýma skökku lífsgæðamati og efnishyggju sem hefur verið ríkjandi meðal íslensku þjóðarinnar. Burt með fína jeppa og flott hús. Inn með gömlu gildin. 

 

Niðurstaða: 

Aðeins pólitíkusar með ákveðnar hugsjónir/forsjárhyggju og hagsmunaaðilar gætu samþykkt 2, 3 og 4, enda á íslenska þjóðin ekki að skuldbinda sig til að greiða fyrir svik eigenda og ábyrgðarmanna einkafyrirtækis. 

Ekki bara heilbrigð skynsemi velur 1, heldur er það svo augljóslega eina rétta leiðin í stöðunni.

Ástæðan er sára einföld:

Þeir sem stofna til skuldbindinga eiga að svara fyrir þær. Það á ekki að yfirfæra þær yfir á saklaust fólk. Verði það gert erum við að tala um raunverulegan glæp, sem á sér að sjálfsögðu hliðstæðu í sögunni eins og flest annað.

Þá er mér efst í huga augnablikin þegar þjóðir höfnuðu eignarhugtakinu vegna óendanlega mikils pirring á óréttlætinu sem sprottið hafði upp í kringum það, og höfnuðu því með öllu til að innleiða kommúnisma, upp í huga minn skýst Kína, Sovétríkin og Kúba.  

Ef við samþykkjum að skuldbindingarinnar séu íslensku þjóðarinnar, þá erum við einfaldlega búin að tapa skákinni og getum horft aftur á veginn, til fortíðar sem sumt fólk virðist dýrka sem einhvers konar framtíðarlausn. 

Ef þessar pælingar eru á einhvern hátt óskynsamlegar, ósannfærandi eða villandi, vinsamlegast leiðréttið þær, því að ég skrifa þetta af heilum hug, án þess að fylgja ákveðinni stjórnmálastefnu og án hagsmuna.


Kann ríkisstjórnin ekki að tefla pólitíska skák? (Um afleik nafna míns: Hrannars B.)

"Ég trúi ekki á sálfræði, ég trúi á góða leiki." (Robert James Fischer)

Margoft hefur okkur verið ruglað saman, mér og Hrannari B. Arnarsyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, enda erum við báðir skákmenn, svipaðir af styrkleika samkvæmt elóstigum, erum á svipuðum aldri, höfum líkar pólitískar skoðanir, erum bloggvinir á moggablogginu og Facebook vinir (á Andritinu), og höfum ansi lík nöfn.  Hann er virkur í stjórnmálum, ég er virkur bloggari.

Nafni lék illa af sér þegar hann skrifaði seint að kvöldi í upphafi Verslunarmannahelgarinnar, í kjölfar magnaðrar greinar eftir Evu Joly:

"Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis ? Veit hún ekki að megnið af erlendu lánunum (eiginlega allt nema Icesave) er til að styrkja gjaldeyrisforðann og þar myndast eign á móti ? Held hún ætti að halda sig við ráðgjöf við sérstaka saksóknarann og láta aðra um efnahagsmálin."

Seinna sendi hann frá sér leiðréttingu:

Best að undirstrika það rækilega að athugasemdir mínar á fésbókinni eru að sjálfsögðu mínar persónulegu skoðanir - ekki annarra eins og sumir virðast leggja út af þeim. Það hef ég áður látið koma fram að gefnu tilefni. Ég hefði nú líklega átt að láta það koma betur fram að margt er ágætt í þessari grein Evu, ekki síst það sem hún segir um harðræðið sem Bretar hafa sýnt í öllu þessu máli og einnig það sem hún segir um sameiginlega ábyrgð alþjóðasamfélagsins á vandamálinu - ekki síst ESB og Breta og Hollendinga sérstaklega. Eins og athugasemdin ber síðan með sér, hef ég mikla trú á henni sem ráðgjafa varðandi skuggahliðar fjármálahrunsins og er ekki í nokkrum vafa um að þar hefur hún lagt þungt lóð á vogarskálar réttlætis á Íslandi.

Það sem ég gagnrýni hinsvegar og athugsemdin lítur að eru fullyrðingar hennar um að Ísland geti ekki staðið undir þessum skuldbindingum. Eva segir: "Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum." og síðar "Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi." Þessar fullyrðingar Evu eru í algerri andstöðu við allt það sem íslensk stjórnvöld hafa verið að halda fram um þessar skuldbindingar, studd AGS, Seðlabanka og fleiri aðilum og vega í raun að grundvelli þeirrar efnahagsáætlunar sem nú er unnið eftir. Slíkar fullyrðingar eru ekki líklegar til að auka traust á Íslandi - um það hljótum við að vera sammála.

Vandinn við þessa leiðréttingu er að gagnrýnin er ekki góð. Hvort sem að við getum greitt ICESAVE eða ekki, þá er mikill vafi á að réttlætanlegt sé að Íslendingar standi í skilum fyrir þá glæpastarfsemi sem virðist hafa verið í gangi, og leggi þannig blessun sína á svik og pretti í fjármálaheiminum, sem mætti þess vegna endurtaka til eilífðar. Kjarni málsins er að Eva Joly vill að við teflum gegn þjóð sem hefur lengi dreymt um að vera sterkasta þjóð í heimi, og á sama tíma við aðrar þjóðir. Við erum kannski í fjöltefli, ein á móti mörgum, en verðum í stað þess að gefast fyrirfram upp, einfaldlega læra fljótt að tefla vel þó að það sé gegn mörgum í einu.

Það er ekki aðalatriðið hvort að Íslandingar geti borgað, heldur hvort þeir eigi að borga. 

Ljóst er að eina leiðin til að Ísland geti borgað er með því að taka gífurlega hátt lán - sem er reyndar sönnun á því í sjálfu sér að Ísland getur ekki borgað. Þú býðst ekki til að borga pizzu og biður svo vin þinn um að lána þér þar til seinna, því að í augnablikinu sértu blankur.

Þó að athugasemd Hrannars hafi kannski verið skrifað í hugsunarleysi og þó að þetta séu hans persónulegu skoðanir um málefni sem varða alla þjóðina, enda er hann í stöðu aðstoðarmanns sjálfs forsætisráðherra, þá er það kannski fyrst og fremst þetta hugsunarleysi, og þessi afstaða að persónulegar skoðanir hans skipti ekki máli, sem veldur mér áhyggjum. 

Stórmeistari sest við hlið þér og bíðst til að kenna þér að tefla. Skákin er farin í gang og andstæðingurinn búinn að leika fyrsta leiknum. Ísland er að falla á tíma. Loks svarar Ísland með góðum leik, en það er ekki Íslendingur sem leikur honum, heldur Eva Joly og sýnir að hún hefur áhuga á að berjast með kjafti og klóm fyrir réttlætinu, enda sér hún Íslendinga sem fórnarlamb risavaxinnar svikamyllu. 

Í stað þess að þakka fyrir aðstoðina frá Joly og haft samband við hana og hún beðin að tefla áfram með okkur, er kvartað yfir frekjunni í henni að leika leiknum áður en Ísland fellur á tíma, og horft á andstæðinginn með lotningu: skákin gefin án þess að hún sé tefld. 

Þetta minnir mig á þegar ég einu sinni settist við skákborð í móti, og á móti mér sat sex ára gamall strákur. Það fyrsta sem hann sagði, eftir að hafa rekið upp stór augu, var: "Ég verð fljótur að tapa þessari skák."

"Af hverju heldurðu það?" spurði ég.

"Af því að þú ert svo stór."

Drengurinn var greinilega skelfingu lostinn og tefldi líka þannig. Hann var því miður sannspár, en hugsanlega meira vegna eigin vantrúar á eigin getu, heldur en vegna eigin getu. Hann stóð sig nefnilega ágætlega gegn smávaxnari, en samt ágætum skákmönnum.

Þetta er sú tilfinning sem ég fæ eftir að Eva Joly byrjaði skákina með nýjung í fyrsta leik. Við höfum svart. Ráðamenn virðast skelkaðir yfir að það þurfi yfir höfuð að tefla þessa skák og átta sig kannski ekki á að tíminn sé farinn að ganga á þá. Jafnvel áður en andstæðingnum hefur tekist að svara, hefur Hrannar B. leikið afleik, að gagnrýna okkar fyrsta leik í stað þess að huga að framhaldinu, því að vonandi er löng og ströng skák framundan frekar en fyrirfram uppgjöf.

Vonandi hefur ríkisstjórnin ekki gefist upp fyrirfram, því þá erum við í margfalt verri málum en mig hefur áður grunað, og mig grunar að málin séu töluvert slæm.


Af hverju skjóta þeir fótbrotna hesta, lóga hundum sem hafa bitið frá sér, en gefa spilltum bönkunum eilíft líf?

"Of mikil miskunnsemi... leiðir oftast til frekari glæpa sem reynast banvænir saklausum fórnarlömbum sem hefðu ekki þurft að vera fórnarlömb ef réttlætið hefði verið sett í forgang og miskunnsemi í annað sæti. (Agatha Christie)

Áður fyrr voru hestar einfaldlega skotnir í hausinn ef þeir voru svo óheppnir að fótbrotna. Í dag eru þeir í flestum tilfellum svæfðir. Ástæðan er einföld: það mun reynast of erfitt að bæta skaðann. Það yrði of mikið vandamál að sinna honum. Hann yrði til einskis nýtur.



Gömlum og veikum hundum er oft lógað, sérstaklega ef þeir eru farnir að þjást vegna veikinda eða elli. Það er vitað mál að þeir munu aldrei aftur verða frískir og skemmtilegir hvolpar. Óþægindin fyrir eigandann verða engu minni en fyrir hundinn. Því er þessi ákvörðun oft tekin, þó að hún sé ekki algild. Það má segja að hún sé réttlætanleg.



Einnig tíðkast það á Íslandi, rétt eins og fóstureyðingar, að eldra fólk sem þjáist mikið er hjálpað að nálgast dauðann á sársaukalítinn hátt, sérstaklega ef viðkomandi hefur ólæknandi krabbamein og fyrirsjáanlegt er ekkert annað en sársaukafullur tími til dauðadags. Viðkomandi verður þó að ákveða slíkan dauðadag sjálfur.



Íslensku bankarnir reyndust gjörspilltir og hafa gert þjóðinni meira ógagn en gagn. Samt á að halda þeim á lífi á kostnað almennings, sem veit ekki einu sinni hvað er í gangi innandyra, og þegar brotabrot af upplýsingum lekur út kemur í ljós að það er verið að vinna meira gegn almenningi heldur en með honum, og að allt skuli gera til að fela slíkar upplýsingar.

Af hverju er þessum bankastofnunum ekki einfaldlega lógað, enda eru þær ekki bara gamlar, fótbrotnar og veikar, heldur fullar grimmd og miskunnarleysis gagnvart viðskiptavinum sínum sem minna mega sín, og nýr ríkisbanki stofnaður sem byrjar einfaldlega á núlli?

Af hverju sýnir þjóðin og ríkið þessum bönkum og kúlulánaauðmönnum fyrst og fremst miskunnsemi og umburðarlyndi, en leita ekki réttlætis af sanngjarnri reiði?

Ef einhvern tíma hefur verið tími þar sem viðhorfið 'þetta reddast' á ekki við, ef einhvern tíma hefur þurft að verja þá sem minna mega sín, ef einhvern tíma hefur þurft að berjast gegn illu böli sem ógnar almannheill, bæði innanlands og erlendis frá, þá er það í dag.


Er rangt að segja það sem satt reynist?

Frjálsir fjölmiðlar geta verið góðir eða slæmir, en það er nánast öruggt að án frelsis verða fjölmiðlar aldrei neitt annað en slæmir. (Albert Camus) 

Þessar upplýsingar máttu ekki leka út úr Kaupþingi, og fréttastofu RÚV bannað að nota þær til að upplýsa þjóðina. 

Þegar sett er lögbann á fréttaflutning fréttastofu Ríkisútvarpsins, hlýtur maður að velta fyrir sér hvaða hagsmunir eru settir í forgang. Eru það sömu hagsmunir og hafa kerfisbundið verið í forgangi síðan bankahrunið átti sér stað og hinn almenni íslenski launamaður á að borga möglunarlaust?

Ríkjandi stjórnvöld hafa að mínu mati ekki starfað með almannahag í forgangi frekar en síðasta ríkisstjórn, heldur hafa þau með eða óvitað styrkt stoðir undir áframhaldandi fjármálasvik og pretti, með því að setja ekki nógu mikinn kraft í rannsóknir á landráði því sem átt hefur stað, og með því að berjast ekki með kjafti og klóm fyrir orðspori þjóðarinnar erlendis - og í stað þess að þakka Evu Joly fyrir góða grein um ástandið, hallmæla henni fyrir skoðanir hennar. 

Ljóst að þörf er á endurmati lífsgæða og gilda á Íslandi, og hugsanlega regluverkinu öllu, og einhvern veginn frelsa almenning undan oki þeirra sem skófla takmörkuðum auði þjóðarinnar til sín og sinna án þess að bera nokkuð skynbragð eða áhuga á almannahag. 

Hugsaðu sjálfstætt og leyfðu öðrum að njóta sömu forréttinda. (Voltaire) 

mbl.is Lögbanni mögulega hnekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið og dómstóll götunnar: Hverjir eru sekir og hverjir saklausir?

Davíð Oddsson - fórnarlamb nornaveiða - tek hann fyrir þar sem stöðugar og miskunnarlausar árásir hafa verið gerðar á hans persónu, vegna þess að hann vann að uppsetningu frjálshyggjukerfis. Hann gerði það vel. Vandinn er að hugmyndafræðin gengur ekki upp. Hann gat ekki vitað það, enda gerði enginn af hugmyndafræðingum frjálshyggjunnar um víða veröld sér grein fyrir því. Trú á ranga hugmyndakerfi - nokkuð sem stjórnmálamennska gengur útá. Saklaus.

Fjármálaeftirlitið - fámönnuð stöfnun sem hafði eftirlit með einkabönkunum. Hafði ekki innra skipulag og þekkingu til að taka á þeim glæpum sem framdir voru fyrir framan nefið á þeim í nafni eðlilegra viðskipta. Stofnunin hafði einfaldlega ekki tíma til að þróast í öflugt stjórntæki. Spilað var með hana. Hennar sekt var að geta ekki ráðið til sín þá þekkingu sem þurfti til að skilja og keppa við svikin sem grasseruðu út um allt - hugsanlega vegna slaks eftirlits. Saklaus.

goldglobemain

Eigendur banka, bankastjórnendur og bankastarfsmenn sem högnuðust gífurlega til skamms tíma á meðan bankinn sjálfur tapaði gífurlega til langs tíma. Þarf að rannsaka. Krefjast þarf endurgreiðslu, þar sem að arðurinn var ekki rétt reiknaður - þú átt ekki að geta reiknað arð af lánum sem þú tekur eða veitir. Sekir.

Bankar og lánastofnanir sem krefjast veðs umfram verðmæti eigna, eftirbankahrunið. Algjörlega siðlaust. Þær stofnanir sem hafa fellt niðurskuldir eigin starfsmanna, eiga einnig að fella niður skuldirviðskiptavina sinna, sem eru umfram veðsetta eign. Verði það gert, munreyndar efnahagskerfið á Íslandi hrynja aftur og algjörlega til grunna.En væri ekki rétt að raða upp aftur. Þessi skák er töpuð hvort eð er.Hvernig væri að byrja nýja skák þar sem allir gætu byrjað meðfullskipað lið?

Lánveitingar upp á marga milljarða án veðs eða með veði í verðlausum eignum: vítavert kæruleysi. Kanna þarf hagsmuni lánveitanda í viðkomandi lánum. Erfitt að meta sekt. Krefst rannsóknar.

Politicians-meeting-their-end

Ákvarðanir stjórnmálamanna í bankahruninu. Af hverju voru sumir bankar felldir og aðrir ekki? Hvernig spiluðu hagsmunaárekstrar inn í? Sjálfsagt ekki sekt, en áhugavert rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga.

Björgólfsfeðgar og Jón Ásgeir sem leiðtogar og fyrirmyndir annarra íslenskra auðmanna. Misnotkun á fjölmiðlavaldi? Kennitöluflakksvik? Undanskot ábyrgða? Þarf djúpa og mikla rannsókn hæfra saksóknara. Sekt eða sakleysi þarf að sanna á ótvíræðan hátt.

Ég efast ekki um að fjöldi fólks hafi auðgast með því að lifa eftir hugmyndafræðileysi frjálshyggjunnar, og tína upp brauðmylnur af borði stórfyrirtækja og auðmanna. Ekkert við þetta fólk að sakast, en það þarf að horfast í augu við breytta tíma og sjálfsagt munu lífsgæði viðkomandi minnka til muna. Séu þessar manneskjur sjálfum sér nægar og hafa ekki þörf til að sýnast meiri og merkilegri en aðrar manneskjur vegna eigin ímyndaðrar þjóðfélagsstöðu eða efnahags, mun þetta fólk pluma sig á endanum. 

Hang+em+High+Rare+French+45+Hugo+Montenegro

Þeir sem eru þegar komnir í vandræði hafa flestir fengið frest á vandanum, og hugsa sér ef til vill að það sé einhver lausn. Því miður er það ekki raunin. En það að hengja einhvern með silkiklút um hálsinn frekar en grófum kaðli, og svæfa viðkomandi fyrst með einhverri ólyfjan, er líklegri til að kæfa öll mótmæli eða aðgerðir í fæðingu. 

Málið er að fólk trúir að hlutirnir muni lagast að sjálfu sér.

Hvað ef það gerist ekki?

Þó er von.

Fólkið í Hagsmunasamtökum heimilanna, þar sem stjórnmálamenn fá ekki að vera í stjórn, og hugmyndin er að venjulegt fólk standi saman gegn þeim ógnum sem að heimilum steðja. Innritun og þátttaka í samtökum er ókeypis, en fólk getur greitt félagsgjald hafi það efni á því eða áhuga. Það er ekki skilyrði.

Svo er það náttúrulega Eva Joly sem hefur þegar reynst Íslendingum afar góður vinur, og sérstök krafa fyrir þá sem vilja taka þátt í samræðinni að lesa þessa grein hennar sem birtist í dag og Egill Helgason hefur birt á bloggi sínu.

Það er því von, en við þurfum að vinna saman. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband