Á að krossfesta íslenska rannsóknarblaðamenn fyrir að grafa upp sannleikann?

 

 

"Orðið 'leynd' er andstyggilegt í frjálsu og opnu samfélagi; og við sem fólk erum meðfætt og sagnfræðilega á móti leynisamfélögum, leynilegum loforðum og leynilegum ferlum." (John F. Kennedy)

Egill Helgason skrifar grein þar sem fullyrt er að verið sé að ákæra fimm íslenska blaðamenn fyrir að fjalla um lekann úr Kaupþingi sem varinn er með bankaleynd. Þessir blaðamenn hafa barist fyrir því að koma sannleikanum til skila, og lagt sig þannig í meðvitaða hættu - enda eru þeir sem hafa getu og vilja til að grafa upp og segja sannleikann oft litnir hornauga, þar sem að sannleikurinn getur verið ansi særandi hafirðu eitthvað að fela.

Ranglát reiði sprettur upp í garð þessara einstaklinga, sem koma í veg fyrir að svindl og svínarí sé haldið í felum, og með hverri uppljóstrun sem vekur athygli, eykst reiði þeirra sem vildu halda málinu leyndu. Helsti óvinur spillingar og svika er fólk sem leitar sannleikans, og svífst einskis til að afhjúpa sönnunargögn sem leiða okkur nær honum.

 

 

Það er aðeins ein gerð umburðarlyndis sem ætti að vera algjörlega skotheld og sett í forgang: gagnvart gagnrýnni hugsun og sannleiksleit. Þegar skortir á umburðarlyndi gagnvart gagnrýnni hugsun er það merki um að eitthvað mjög alvarlegt sé að.

Oft eru það trúarbrögð og stjórnvöld sem vilja takmarka gagnrýna hugsun, en þegar fyrirtæki eru komin í þann hóp og beita fyrir sér ríkisstofnunum, er hugsanlega rétt að endurmeta grundvallarskilning á hugsanlegum óvinum gagnrýnnar hugsunar. Sum fyrirtæki virðast vera að komast á stall trúarstofnanna hinna myrku miðalda, þar sem reynt var að stoppa fólk frá því að móta sér skoðun á heiminum sem byggð var á rökum frekar en trú. Þetta er hliðstætt.

Að vera ákærður fyrir að telja jörðina vera hnöttótta er ekki ólíkt því að vera ákærður fyrir að trúa ekki lygum sem ætlast er til að þú trúir af nefndum, almannatengslum og greiningardeildum, sem segja fyrst og fremst frá því sem hentar viðkomandi stofnun og leynir því sem gæti komið henni illa. Að ljóstra upp sannleikanum getur aldrei verið glæpur.

 

tree-of-knowledge

 

Hugtakið 'bankaleynd' er sambærilegt því að banna vísindamönnum að styðja aðrar kenningar en þær að heimurinn hafi verið skapaður af almáttugri veru, og ef sönnunargögn finnast sem benda til annars, þá skuli þau umsvifalaust grafin og hunsuð, enda augljóslega um svik að ræða fyrst þau passa ekki í hugmyndakerfið.

Bankaleynd virðist vera orðin að sönnum óvini íslensku þjóðarinnar, einhvers konar ofsatrú sem getur orðið heilum þjóðum að falli.

"Besta vopn harðstjórnar er leynd, en besta vopn lýðræðis er að vera opið."  (Niels Bohr) 

 

Þrumugóð ræða um þessi mál frá John F. Kennedy, 1961: 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég verð bara að dást að því enn og aftur hvað þú ert vandvirkur greinarhöfundur, unun að lesa hjá þér. Takk fyrir mig og góða helgi.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.8.2009 kl. 12:33

2 identicon

Sæll Hrannar,

Þó ég sé í grunninn sammála því að opin umræða sé af hinu góða og leynimakk af hinu illa þá langar mig að benda á að það eru til réttar og rangar leiðir í að fletta ofan af spillingu og svikum. Fyrir nokkrum mánuðum voru samþykkt lög sem gera einstaklingum kleift að upplýsa sérstakann saksóknara um brot í kjölfar bankahrunsins, sjá www.althingi.is/lagas/136b/2008135.html. Þó þessi lög gangi ekki jafnlangt og ég hefði kosið eru þau fyrsta skref í að auðvelda mönnum að fletta ofan af þessum málum á löglegan hátt. Hitt er svo annað mál hvort bankaleynd á rétt á sér eða ekki en ég ætla ekki að fara í það núna enda má færa rök fyrir hvoru sjónamiðinu sem er.

 

Magnús Jóhannesson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 21:52

3 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

En er fólk ekki sammála því að um ákveðna hluti gildir leynd hvort sem að okkur líkar betur eða verr. Er það of mikil krafa að fólk sem að heitir trúnaði um ákveðna hluti haldi þann trúnað. Út um allt, í bönkunum, í stjórnkerfinu bæði á vegum hins opinbera og sveitarfélaga er fólk sem að er ráðið í störf gegn því að það haldi trúnað um þau málefni sem að þau fjalla um í störfum sínum. Mér finns það ekki til of mikils mælst að þetta fólk haldi þann trúnað. Og flestir þessara starfsmanna gera það, það er aðeins einn og einn sem að gerir það ekki og þá er hann mærður af mönnum eins og þér. Litli maðurinn sem að verður hetja á einum degi fyrir að uppljóstra alls konar hlutum.

Í sambandi við bankaleyndina þá er þetta spurning hvort á að koma fyrst, eggið eða hænan. Þar lak starfsmaður gögnum  sem að átti að gilda trúnaður um, og var hrósað alveg hreint í hástert. Jú vissulega voru það hagsmunir almennings að þessi gögn voru gerð opinber en að sama skapi var sennilega um lögbrot að ræða. Það er alveg sama, lögbrot er lögbrot, óháð því hver hagnast á þeim. Ef að menn vilja fá öll þessi gögn upp á borðið, þá er það ekki hlutverk "litla mannsins" að ljóstra upp um þau. Þar eiga stjórnvöld að hafa frumkvæðið.

Jóhann Pétur Pétursson, 16.8.2009 kl. 00:58

4 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

En ef viðkomandi stjórnvölda ekki burði til að fletta almennilega ofan af spillingu Jóhann Pétur ?,  eða vilji jafnvel ekki af einhverjum misgæfulegum ástæðum ekki að sumt komist í hámæli? 

Held að flestum sé orðið ljóst að þjóðsagan um að minna væri um spillingu á Íslandi en annarstaðar í heiminum var kjánalegt bull, svo mikið blasir þó við, sú spilling nær líka til einhverra stjórnmálamanna landsin ekki síður en vafasamra athafnamanna...rétt eins og í öðrum löndum.

Vona fyrir mitt leyti að "litlu mennirnir" haldi áfram að koma upp um ósvinnu sem alldrei fyr, oft var þörf en nú er nauðsyn...sem stundum brýtur misviturleg lög. Að bíða eftir að stjórnvöld nái fram nauðsynlegum upplýsingum gæti reynst löng bið og því treystir maður því að fleyri eigi eftir að koma fram með upplýsingar sem skipta miklu í að fletta ofan af ruglinu, því fyrr því betra og spurning hversu mikið á að leggja upp úr trúnaði ef menn eru að misnota aðstöðu sína, jafnvel að svíkja og pretta á kostnað almennings þegar upp er staðið, reikningurinn sem honum og komandi kynslóðum er sendur er ekkert smáræði, tjónið gígantískt.

Georg P Sveinbjörnsson, 16.8.2009 kl. 03:35

5 identicon

af ávöxtunum skulið þér þekkja þá

Kerfið virðist léttara í sporum þegar kemur að 'trúnaðarbresti' heldur en stóru glæpunum. 

Hvers vegna?

Tilviljanir, vanhæfni, fjárskortur? 

Þeir sem trúa því eru einfaldir.  Þetta eru skilaboð til 4. valdsins, sem hefur sofið vært meðan stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og útrásarvíkingar áttu sitt góðæri: farið aftur að sofa, eða hafið verra af. 

Georg O. Well (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 07:53

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Áhugaverð umræða.

Mér sýnist menn yfirleitt ekki gera greinarmun á 'leynd' og 'yfirhylmingu'. Leynd á aðeins við þegar eðlileg viðskipti eiga sér stað, en ef lög hafa verið brotin, eða viðskiptaháttar hafa verið yfirmáta óeðlilegir, og slíku er enn haldið leyndu - þá er verið að tala um yfirhylmingu og hugsanlega samsekt að alvarlegum glæp.

Það á ekki að halda öllu leyndu skilyrðislaust, þó að trúnaður eigi að ríkja um málið, sérstaklega ef lögbrot, svik eða blekkingar hafa verið framin í viðkomandi máli.

Segjum að þú skutlir vini þínum út í banka, og þér að óvörum kemur hann til baka í bílinn með grímu yfir andlitið og fullar hendur fjár. Hann biður þig að segja engum frá. Ef þú samþykkir, ertu samsekur. Ef þú samþykkir ekki, og lætur lögregluna vita, ertu þá að rjúfa trúnað við vin þinn, eða einfaldlega gera það sem er rétt?

Hrannar Baldursson, 16.8.2009 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband