Valda samviskulausir stjórnmálamenn óbætanlegum skaða?

"Undan öflugasta drifkrafti okkar, harðstjóranum í okkur, víkur ekki aðeins rökhugsun okkar, heldur einnig samviskan." (Friedrich Nietzsche)

Það er aðeins eitt viðmið sem ég krefst skilyrðislaust af sérhverri manneskju, og sérstaklega af þeim manneskjum sem eru við völd. Valdhafa virðist oft skorta þetta eina fyrirbæri sem gerir þá sannarlega að verðskulduðum valdhöfum.

Þetta er samviskan.

Hér má ekki ruglast á samvisku og samviskusemi. Samviskusemi er það kallað þegar fólk vinnur vinnu sína af eljusemi. Samviska er hins vegar ögn dularfyllra og erfiðara hugtak.

Í örstuttu máli má segja að manneskja með samvisku beri skilyrðislausa virðingu fyrir réttlæti. Mannkynið hefur í margar aldir reynt að binda réttlætið í lagabókstaf, en virðist enn ekki hafa náð að tjóðra réttlætisskepnuna niður, án þess að fórna einhverju í staðinn. Samviskan getur hins vegar náð valdi á réttlætisskepnunni með því að leyfa réttlætinu að ná valdi á sér.

Þegar stjórnmálamenn flykkjast um leiðtoga, stefnu, ákvörðun, lög, ferli eða hvað það er sem þeim dettur í hug, án þess að hafa almannaheill, réttlæti og samvisku efst í huga verður viðkomandi stjórnmálamaður strax vita gagnslaus þjóðfélagsþegn og reyndar meira til ógagns en gagns. Slíkum stjórnmálamanni ætti að koma strax í betra hlutverk, eins og að þrykkja númeraspjöld fyrir bíla, lagfæra sprungur í malbiki eða skipta um ljósaperur í götuvitum.

Samviskan er það sem gerir okkur mennsk. Hún er það sem kallar til okkar þegar okkur ofbýður eitthvað. Hún er það sem bítur okkur þegar við sjáum fólk þjást að óþörfu. Vandinn er að samviskan er ekki hávaðasöm, hún brýst ekki inn í líf hinna samviskulausu með ofbeldi og látum, heldur kemur hún innanfrá, og annað hvort er viðkomandi nógu mennskur til að hlusta á eigin samvisku eða ekki.

Ef samviskan hefði verið hæsta viðmið allra stjórnmálaflokka á 20. öld, hefði mannkynið aldrei þurft að þola nasisma, fasisma, kommúnisma, kapítalisma og alla hina tilgerðarlegu ismana sem eiga það sameiginlegt að hitta ekki í hjartastað þess sem gerir okkur göfug, velviljug, hjálpsöm, dugleg, því sem gefur okkur sjálfsvirðingu, eða því sem gerir okkur að sönnum manneskjum.

Ég hef orðið var við fólk sem hefur djúpa réttlætiskennd. Slíkt fólk virðist vera til staðar á Alþingi í dag, en því miður í afgerandi minnihluta, máttlaust og raddlaust, sama í hvaða flokki viðkomandi kann að vera. Samviskan er nefnilega ekki flokksbundin, og ef hún væri það, myndi hún samstundis hætta að vera samviska.

Grundvallarviðmið sérhverrar manneskju sem hefur einhver völd ætti að vera góð samviska. Þegar meginmarkmið viðkomandi snúast hins vegar um framapot, atkvæðaveiðar, hagsmunaplott, vinsældir; sama hvað það kann að heita, ef viðkomandi hefur ekki samvisku, þá eru völd hennar verri en engin.

Því miður lítur út fyrir að samviska íslenskra þingmanna sé ekki góð, frekar en þeirra einstaklinga sem virðast komast til valda um heim allan. Þeir virðast flestir ætla sér auðveldu leiðirnar að eigin markmiðum, en eru ekki tilbúnir að spyrja sig af djúpri alvöru hvort að þessi markmið séu réttlát og góð, óháð þeirra eigin hugmyndafræði, flokkslínum og skoðunum.

Gallinn við þá sem hafa ekki samvisku er að þeir sjá samviskuna sem hindrun til að koma eigin markmiðum í framkvæmd og skora mark. Þeir vilja ekki hafa samvisku. Hún er gagnslaus fyrir viðkomandi. Hún tefur. Hún er leiðinleg. Hún er ekki inn. Viðkomandi verður hins vegar verri en gagnslaus án hennar.

Er samviska þín í lagi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð greining hjá þér og alveg hárrétt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2009 kl. 11:31

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Geysigóður pistill hjá þér - hverju orði sannara.  Eins vil ég nota tækifærið hér og taka undir grein þína um bandarísk sjúkrahús, mín reynsla frá árinu 2007 er sú að þar fékk konan mín slíka afburða þjónustu í alla staði - að allir fordómar mínir gagnvart heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna (sem ég reyndar hafði aðeins lesið um og dæmt útfrá) hurfu sem dögg fyrir sólu.  Þar get ég svo sannarlega staðfest frásögn þína og verið þér sammála.

Sigurður Sigurðsson, 29.11.2009 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband