Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Hver er áhættan fyrir þjóðina og ábyrgð okkar há í milljörðum fari Glitnir á hausinn?
30.9.2008 | 21:19
Fari Glitnir á hausinn, tekur fyrirtækið þá íslenska Ríkið og þjóðina með sér í fallinu, nú þegar við höfum yfirtekið og gengist í ábyrgð við 75% allra skulda fyrirtækisins, hvað svo sem þær eru háar?
Ef rétt er að Glitnir hafi verið við það að fara á hausinn, fyrirtæki sem hefur haft yfir gífurlegu fjármagni að ráða og sýnt hefur hagnað upp á marga milljarða síðustu ársfjórðunga, getur þá ekki vel verið að þessir 84 milljarðar sem þjóðin er að leggja til fyrir bankann gufi upp eins og allir hinir milljarðarnir sem hafa verið að gufa upp fyrir augum Glitnismanna?
Án þess að ég sé nokkuð að spá að það gerist, er ég knúinn til að spyrja hvað muni gerast ef Glitnir fer á hausinn í þessari stöðu. Tapar þjóðin einfaldlega þessum 84 milljörðum eða verður hún einnig skuldbundin til að greiða alla þá tugi eða hundruði milljarða sem Glitnir hugsanlega skuldar til viðbótar?
Þýða þessi kaup að héðan í frá sé þjóðin ábyrg fyrir öllum viðskiptum Glitnis?
Ég bara verð að spyrja. Mér finnst þetta knýjandi spurningar og hef ekki nógu miklar upplýsingar til að svara þessu sjálfur.
Moody's lækkar einkunn Glitnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvernig útskýrum við kaup Ríkisstjórnar Íslands á Glitni fyrir 84 milljarða króna?
29.9.2008 | 12:00
COPY / PASTE
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld afrita hugmyndir eða gleypa hrátt það sem kemur frá George W. Bush og riddurum hans.
Ég hefði frekar viljað sjá íslenskar fjölskyldur í forgangi sem hafa reynt að eignast þak yfir höfuðið, heldur en þá sem hafa verið að eyða um efni fram með óskynsamlegum fjárfestingum og smásukki.
Til hamingju Ísland!
Heimildir:
CNN: Bush Confident 'bold' bailout will pass
Myndir:
Ríkið eignast 75% í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
BLEKKING
Venjulegt fólk sem ekkert vit hefur á fjármálaheiminum og treyst hefur 'sérfræðingum' í bönkum er allt í einu komið í þá stöðu að það hefur málað sig út í horn. Þrátt fyrir að fylgja eftir áætlun um afborganir á lánum hækkar höfuðstóllinn margfalt á við það sem þeim var lofað í upphafi.
Á áætlunum er yfirleitt reiknað með 2.5% verðbólgu, sem þýðir að lán upp á 5% vexti verður að 7.5% láni. Þar sem verðbólgan verður líkast til 14% um áramót eða meiri, þýðir það að vextir á húsnæðislánum verða að minnsta kosti 19% og munu þessi 19% leggjast á höfuðstól lánsins.
Þar sem að fólk fékk lán í samræmi við greiðslugetu, þýðir þetta að greiðslubyrðin verður um 19% meiri á næsta ári ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig. Þetta gerist án þess að laun hækki, og á meðan flestallar vörur og þjónusta hafa hækkað um 30%.
Úr bönkunum heyrast gáfuleg ummæli eins og "Hver er sinnar gæfu smiður," og maður hefur á tilfinningunni að mönnum standi nokkuð á sama um þessa greiðsluerfiðleika. Því það sem gerist ef fólk getur ekki borgað lánin, þá eignast bankinn húsnæðið, sem á endanum verður hægt að selja aftur eða leigja út, þannig að sá gróði verður einfaldlega tvöfaldur. Hugsanlega lítur þetta svona út í reiknilíkani, en veruleikinn getur orðið allt annar ef fjöldi fólks fer á höfuðið vegna skulda sinna og áttar sig á að aleigan hefur verið hafin af þeim með blekkingum.
RÍKI
Þegar svona er komið, að skrímsli hefur tekið á sig mynd og ógnar undirstöðum fólks, þá leitar það hjálpar. Helst er litið til ríkisins, en því miður virðist hefðin á Íslandi vera sú að ekkert er gert fyrir fólkið nema það muni líta vel út fyrir næstu kosningar. Fólk á Íslandi er nefnilega svo fljótt að gleyma. Það er nefnilega snjallt að bíða með bestu útspilin þar til á síðustu stundu. Það er svosem allt í lagi að fjöldi fjölskylda fari á hausinn, bara að útspilið komi þegar allir skilja að neyð sé í gangi þannig að það verði ekki gagnrýnt af hörku.
Þessi hugsanagangur gengur því miður upp, sé farið eftir leiðbeiningum Machiavelli um hvernig halda skal völdum, en er þetta það sem gera skal fyrir fólkið á 21. öldinni? Af hverju ekki að bregðast við áður en Titanic skellur á ísjakann? Af hverju auka hraðann og sýna veikasta punktinn? Hafa stjórnvöld virkilega efni á því?
Stærsti veikleiki ríkisstjórnarinnar virðist felast í mesta styrk hennar. Hún situr nokkuð örugg í sessi, með mikinn meirihluta sem erfitt er að rjúfa. Þetta þýðir að allir eru öruggir í sínum sætum og enginn vill rugga bátnum. Hins vegar er sá möguleiki í stöðunni að stjórnin verði rofin af öðrum flokkinum og henni komið saman undir mörgum flokkum, en það er einfaldlega enn verri staða, því að duttlungar fárra gætu þá ráðið framtíð þjóðarinnar, rétt eins og gerst hefur hjá Reykvíkingum í borgarstjórnarmálum síðustu misseri. Að slíta samstarfi væri að fara úr öskunni í eldinn.
Það er samt augljóst að mikil spilling ríkir hjá ríkisstjórninni. Menn eru frýjaðir ábyrgð af glæpum, tengdu fólki er komið í þægilegar stöður, þingmenn og ráðherrar eiga jafnvel stóra hluti í bönkunum, og vilja því ekkert gera gegn þeim. Ríkisstjórnin gerir ekkert af viti þegar á reynir, og virðist ekki skilja að fólkið þurfi á henni að halda - að hún sé ekki bara stöður upp á punt, heldur úrræði til að setja góð lög og leysa vandamál þjóðarinnar þegar þau knýja dyra.
SÖNN DÆMISAGA
Ríkisstjórnin minnir mig á skák sem ég tefldi eitt sinn við einn af núverandi ráðherrum hennar. Þegar ég hafði unnið skákina nokkuð auðveldlega vegna passívrar taflmennsku ráðherrans, þá rauk hann á dyr og hætti í skákmótinu. Hann tefldi illa og var tapsár, en hefur sjálfsagt verið sagt af vinum sínum að hann tefldi ágætlega, og hann virðist hafa trúað því. Ég er hræddur um að sami einstaklingur sé einmitt að tefla pólitíska skák sína jafn illa, og muni einfaldlega gefast upp í stað þess að berjast til þrautar og ganga á dyr. Skákin á það til að opinbera innri karakter fólks á skemmtilegan hátt. Mér var ekki skemmt þegar ég sá hinn sama komast til valda á Íslandi. Gott stjórnmálavit kemur ekki að sjálfu sér frekar en góð taflmennska.
Staðan er semsagt þannig: ríkisstjórnin er í þægilegri stöðu. Þarf ekkert að óttast. Ráðamenn eru á nógu góðum launum til að vera skuldlausir, og sjá því varla ástandið eins og það er í raun og veru. Þeir eru vanir gagnrýnisröddum og vita að þær líða hjá, enda hafa þær alltaf gert það, og helsti vandinn sem steðjar að þjóðinni er fallandi króna og há verðbólga. Alltof fáir ráðherrar og þingmenn virðast skilja hvað það þýðir til lengri tíma litið.
VANDAMÁL
Ég held að stærsta vandamálið í dag sé það að ríkisstjórnin sér ekkert vandamál. Hún sér bara fullt af fólki blogga af krafti um málin og stjórnarandstöðuna kvarta. Sama hvernig staðan er, það eru alltaf einhverjir að kvarta.
Jæja. Ég er ekki að kvarta.
Það er stórt vandamál í uppsiglingu og því fyrr sem gripið er inn í af ríkisvaldinu, því betra fyrir fólkið. En það verður að viðurkennast að ríkið mun fá miklu meira kredit ef það bregst ekki við vandamálinu fyrr en það er orðið nánast óviðráðanlegt, og gerir eins og Bush ætlaði að gera núna rétt fyrir kosningar, að grípa ekki inn í fyrr en á elleftu stundu og sjá þannig til að repúblikanar vinni kosningarnar þar sem fólk verður honum svo þakklátt. Þetta er vel útreiknað plan, sem getur reyndar snúist í höndunum á honum. Ég vona bara að ráðamenn okkar séu ekki að hugsa á þessum nótum.
ÚRRÆÐI
Við höfum úrræði til staðar, en erum ekki að nýta þau. Úrræðið felst meðal annars í íbúðalánasjóði og gífurlega öflugri stöðu ríkisins, sem er algjörlega skuldlaust. Í stað þess að eyða á hefðbundinn hátt í fleiri störf og stofnanir, auk sendiherrabústaða í fjarlægum löndum upp á einhverja milljarða, gæti Ríkið brugðist við vandanum áður en hann verður raunverulegur, og hjálpa þeim sem vilja hjálpa sér sjálfir?
Ég er ekki að benda á neina töfralausn, heldur raunverulega von og möguleika fyrir skuldsetta Íslendinga. Okkar mesti styrkur gegnum aldirnar hefur falist í samvinnu og stuðningi hvert við annað, en þessi gildi eru í hættu.
Hvernig væri að gefa fólki tækifæri á að borga upp bankalánin og fá hagstæðari lán hjá ríkissjóði í staðinn, helst án verðtryggingar og á föstum vöxtum, eins og 7%? Og tryggja það í leiðinni að fjármálahákarlarnir misnoti ekki úrræðin til að finna fleiri smugur í kerfinu til að hagnast enn frekar, heldur gefa raunverulegum fjölskyldum sem hafa keypt sitt fyrsta húsnæði þetta tækifæri, því að þetta fólk er fólkið sem þarf hjálpina fyrst.
Síðar væri hægt að færa úrræðin til fólks sem hefur verið að stækka við sig húsnæði, en þó koma þeim einnig til aðstoðar ef stærð húsnæðis er í samræmi við stærð kjarnafjölskyldunnar, en reynslan sýnir að hafa skal ofarlega í huga ráðstafanir til að koma í veg fyrir að húsnæðisbraskarar og aðrir fjármálasnillingar sem virðast geta nýtt sér minnstu breytingar í eigin hag á kostnað þeirra sem þörfina hafa, geti misnotað þetta úrræði.
GRUNNÞARFIR
Það er nú þannig að eign á húsnæði er ekki lúxus.
Það er þrennt sem allir þjóðfélagsþegnar ættu að geta gengið jafnt að: húsnæði, klæðum og fæði. Aðrar þarfir eru til staðar, en þessum grunnþörfum þarf að fullnægja áður en farið er út í aðrar þarfir.
Það ættu allir þjóðfélagsþegnar að geta átt húsnæði án þess að þurfa í áratugi að hafa áhyggjur af síhækkandi afborgunum. Því miður hefur þessi grunnþörf fyrir húsnæði verið misnotuð á Íslandi, og ætlast er til þess af komandi kynslóðum að þær eigi ekki sitt húsnæði, heldur leigi það bara. Þegar fólk er ekki öruggt um grunnþarfir sínar er stutt í óhamingju og böl.
VON
Skuldlaus ríkisstjórn hlýtur að geta hjálpað fólki að eignast eigið húsnæði skuldlaust.
Eftir að hafa fylgst náið með ríkisstjórninni síðan hún tók við völdum, fær sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig falleinkunn, sérstaklega fyrir að taka þátt í mörgum spillingarmálum fyrir opnum tjöldum og reyna svo að fela gjörninginn með orðskrúði jámanna. Samfylkingin fær líka falleinkunn, en henni til vorkunnar, ekki fyrir spillingarmál sem ekkert hefur borið á hjá þeim til þessa, heldur fyrir agaleysi æðstu stjórnenda.
Hins vegar eru tveir einstaklingar í ríkisstjórninni sem ég bind vonir við, en sérstaklega þau Jóhanna félagsmálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra hafa verið að gera góða og sýnilega hluti, á meðan formaður flokksins hefur verið á vappi um allan heim sem utanríkisráðherra, í stað þess að einbeita sér að mikilvægum málum heima fyrir.
Mér sýnist reyndar að Ingibjörg Sólrún taki starf sitt sem utanríkisráðherra mjög alvarlega og að hún sé frábær utanríkisráðherra, en því miður er það starf að fá alla athygli hennar og hún virðist hafa gleymt öðrum skyldum sínum, þar sem að hennar mikilvægasta starf er sem formaður stjórnmálaflokks sem þarf nauðsynlega á styrkri stjórn að halda, frekar en veraldarvafri.
Ég bind von mína við alþingismenn og ráðherrar sem vilja vinna fyrir kaupi sínu og er ekki sama um þjóðina sem kaus þau, og hvet þau til að finna leiðir til úrlausna, og vonandi í anda þeirra sem ég mæli með í þessum stutta pistli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Heimskreppan og Íslandskreppan eru ekki sami hluturinn, en það hentar vel þeim sem bera ábyrgð á Íslandskreppunni að benda á heimskreppuna sem aðal orsakavald. Sú er samt ekki raunin, þó að heimskreppan hafi vissulega einhver áhrif á Íslandskreppuna.
Græðgin
Þetta er náttúrulega afar flókið mál allt saman, sem mér finnst reyndar frekar einfalt í eðli sínu, en það er svo mikið af misvísandi upplýsingum á fleygiferð að fólk getur ekki annað en ruglast í rýminu og týnt áttum. Þessi grein fjallar einfaldlega um það hvernig ég sé þetta útfrá bæjardyrum leikmanns sem hefur engra hagsmuna að gæta, en er forvitinn um þessi mál og hef áhuga á að fá skýra mynd af stöðunni, þannig að venjulegt fólk eins og ég geti dregið betri ályktanir.
Ég held að megin orsakavaldurinn felist í óstjórnlegri græðgi og aðstæðum sem hafa verið skapaðar þar sem fáum er gert mögulegt að hafa gífurlegt fé af mörgum, á hátt sem mér sýnist óheiðarlegur, þrátt fyrir að vel geti verið að hann sé löglegur. Það fannst einfaldlega glufa í kerfinu.
Fyrst þurfum við að hafa í huga að hvað gerist þegar viðskiptavinur banka fær lán, en hann þarf að taka á sig ábyrgð til að endurgreiða lánið, ef honum tekst það ekki verða allar eigur hans gerðar upptækar og hann lýstur gjaldþrota. Afarkostir heitir þetta á dramatísku máli.
Þetta þýðir í raun að viðskiptavinur hefur lagt inn ákveðna upphæð, en verður að standa við innlögnina smám saman. Fyrir þessa innlögn gat bankinn, áður en heimskreppan skall á, tekið lán sem er tíu sinnum sú upphæð sem hann lánar sjálfur. Þannig verða meiri peningar til í fjármálakerfinu - og því miður án innistæðu, nema hægt verði að knýja þá sem skulda til að greiða á réttum tíma.
100% húsnæðislán og ofurlaun
Ég geri ráð fyrir því að hluti af hagnaðartölum bankans eru af þeim lánum sem hann hefur útistandandi, og að lánin sem bankinn fær inn teljist til hagnaðar. Ég sé ekki hvernig hægt er að borga ofurlaun á öðrum forsendum. Því meira sem bankinn lánar, því meira getur hann fengið lánað. Ekki má gleyma að laun fjölmargra bankamanna eru árangurstengd, þannig að eftir því sem að bankinn fær meiri lán, fá viðkomandi meiri pening í eigin vasa.
Af þessum sökum er varhugavert að treysta greiningardeildum banka, því að starfsmenn þeirra geta haft mikilla hagsmuna að gæta. Þeir eru sjálfsagt líka greiðendur skulda og þurfa sitt.
Þegar 100% lán fóru í gang og leikreglurnar voru svona, þá græddu þeir einstaklingar gríðarlega sem fengu bónus af hagnaði bankans, þó að hægt sé að deila um það hvort að fengið lán sé hagnaður. Viðkomandi starfsmenn gátu tekið út hreinar krónutölur fyrir sinn árangur, án þess að þurfa að hafa nokkrar áhyggjur af endurgreiðslu lánanna.
Viðkomandi geta hætt í sínum störfum eftir að hafa þegið einhverjar milljónir eða hugsanlega milljarða sem prósentur af hagnaðartölum og geta eftir það verið lausir alla mála, og jafnvel flutt erlendis til að þurfa ekki að lifa við óþægilega fortíð. Hins vegar stendur bankinn og skuldarar eftir með þá ábyrgð að greiða upp lánin, og uppgötva þá að það getur verið erfitt vegna þess að peningurinn er farinn úr bankanum með árangurstengdum launum.
Þetta er ennþá í gangi, því að fjölmargir starfsmenn hjá bönkum eru á bónusgreiðslum og fá greitt í samræmi við þann hagnað sem viðskiptaferli þeirra sýna. Þannig getur óbreyttur, og jafnvel ómenntaður bankastarfsmaður verið á kr. 200.000 í grunnlaun en náð yfir milljón í laun á mánuði eða meira ef viðkomandi ferli sýnir nægilegan hagnað.
Það er eins og við föttum ekki hvaðan þessi peningur kemur og hvert hann fer, því að hann fer fyrst og fremst beint í vasa einstaklinga sem eru að maka krókinn, en úr vösum skuldara sem verða sífellt órólegri vegna hækkandi höfuðstóla og reglulegum greiðslum af lánum, og þeir vita að takist þeim ekki að borga, tapa þeir öllu. Það er engin undankomuleið fyrir skuldara.
Komið að skuldadögum
Nú þarf bankinn að finna leiðir til að borga upp þessi lán, og þeir sjá að vandi stendur fyrir höndum þegar leikreglum hefur verið breytt, og þeir geta ekki lengur fengið tífalt lán fyrir öll lán sem þeir veita. Því neyðast þeir til að hætta að greiða út lán og finna aðrar leiðir í staðinn.
Þessar aðrar leiðir sem farnar hafa verið er það sem valdið hefur kreppunni, því að engin leið jafnast á við þá fyrri. Bankarnir hafa starfsmenn á launum sem eru 10 sinnum klókari í þessum málum en ég get nokkurn tíma vonast til að verða, og þeir verða að finna leiðir til að sýna hagnað á hverjum og einasta ársfjórðungi til að vernda ímynd bankans og greiða eigendum hagnað.
Þeim tekst að finna þessar leiðir, en fólkið í landinu finnur fyrir þeim með sífellt léttari pyngju. Afleiðingar aðgerðanna má finna til dæmis í hærri stýrivöxtum, meiri verðbólgu, lægra gengi; sem veldur hærri afborgunum skuldara mánaðarlega, og stærri höfuðstól um næstu áramót heldur en um þau síðustu, þó að ekki hafi verið tekið frekari lán. Þetta gæti einnig valdið því að verð á húsnæði falli, en ef það gerist, þá verður fjöldi einstaklinga bundinn við að borga lán sem eru miklu hærri en verðmæti eigna þeirra - og þegar sú staða er komin upp gæti fólk valið frekar gjaldþrot en að lifa við þrælkun. Einhvern tíma brestur boginn, sem hefur þegar verið þaninn til ýtrasta.
Stutt minni
Fáum einstaklingum hefur tekist að hafa mikið af íslensku þjóðinni og komist upp með það. Við eigum þetta líklega skilið, því að minni okkar er frekar stutt og gagnrýnin hugsun okkar frekar lin, og svo hefur okkur bara langað til að vera með í braskinu til að skera okkur væna sneið.
Það er ennþá von
Eftir stendur þó von sem Íslendingar eiga í öflugum framleiðslufyrirtækjum sem orðin eru ráðandi á heimsmarkaði og afla raunverulegra tekna með því að skapa raunveruleg verðmæti, og sem geta raunverulega komið í veg fyrir hrun. Þetta eru fyrirtæki eins og Össur, Bakkavör, CCP, Actavis, Latibær og Marel Food Systems. Fjármálafyrirtækjum er ætlað að tryggja þann auð sem þessi fyrirtæki skapa, en hafa því miður verið að dreifa sem hagnaði því sem er ekkert annað en lánsfé.
Á endanum er ljóst að við þurfum að standa saman. Það þarf að hjálpa skuldurum að komast á réttu brautina og koma í veg fyrir alltof mikinn áhætturekstur fjárfestingafyrirtækja. Skuldurum er hægt að hjálpa með því að bjóða þeim óverðtryggð lán á lágum vöxtum í stað þeirra verðtryggðu, sem eru að skila af sér lánum upp á 19-25% okurvöxtum í dag, og hægt er að setja reglur um það að starfsmenn banka geti ekki hagnast á lánum sem bankinn tekur án þess að taka þátt í að borga þau til baka.
Getur þetta verið rétt hjá mér?
Forsenda þessarar greinar felur í sér þá hugmynd að lán sem banki fær erlendis frá teljist til hagnaðar við ársfjórðungsskýrslu og að af þessum hagnaði fái sumir starfsmenn vænan bónus og eigendur góðan skerf. Ég óska eftir að þessi grunnforsenda þessarar greinar sem rituð er snemma á sunnudagsmorgni verði leiðrétt sé hún röng, og staðfest sé hún rétt.
Reyndar hefur mér þótt áhugavert hversu oft ég hef átt kollgátuna í málum sem þessum þrátt fyrir að vera hvorki sérfræðingur á þessu sviði né þátttakandi í slíkum viðskiptum, og fengið sterkar undirtektir frá fólki sem vinnur við þessa hluti, sem og frá öðrum leikmönnum og aðeins með gagnrýna hugsun, dómgreind og skilning að vopni, auk Google leitarvélarinnar sem er ómetanleg til að finna lykilupplýsingar úr ársskýrslum og fréttum bæði á Íslandi og víðar, sem leiða að forsendum þessarar sunnudagshugvekju.
Myndir:
Minnislausi fiskurinn: Wallpaperlink.com
Bjargvætturinn: Sanity, Insanity, and Moi
E.S. Ég er annars ennþá í bloggfríi, tók mér bara smá frí frá bloggfríinu á þessum fagra sunnudagsmorgni.
Blogghvíld
11.9.2008 | 21:35
Jæja, þá er komið að blogghvíld um óákveðinn tíma. Þetta hefur verið gaman og áhugavert, en þessum tíma sem ég hef varið í bloggskrif verður hér eftir varið í önnur skrif.
- Ég held samt áfram að henda reglulega inn greinum á http://seenthismovie.com
- Munið að kaupa ykkur lén hjá Lunarpages
- Hættið ekki að hugsa á gagnrýninn hátt um það sem er að gerast í kringum okkur og munið að ekkert gerist að sjálfu sér, það er alltaf eitthvað sem býr að baki, hvort sem um náttúru, þjóðfélag eða fólk er að ræða sem frumafl atburða.
Mig langar í blálokin að minnast á áhugaverða manneskju með gildin á réttum stað: Lara Logan
Viðtal Jon Stewart við Lara Logan um fréttamennsku í Bandaríkjunum.
Og aðeins meira um þessa fréttakonu.
Mynd: Don Pedro
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Hvernig tengjast trúarbrögð og stjórnmál í hugum Sarah Palin, John McCain, Barack Obama og Joe Biden?
10.9.2008 | 22:56
Það er til fólk sem telur að kosningarnar í Bandaríkjunum snúist fyrst og fremst um það hvort að Bandaríkin sé Kristið ríki eða ekki. Repúblikanar standa vörð við Kristna trú, og það af slíku offorsi að sumum þykir nóg. Demókratar aftur á móti halda því fram að Bandaríkin séu ekki lengur Kristin þjóð, að runnir séu upp nýir tímar með nýjum áherslum.
Þetta held ég að verði sá þáttur sem skilur á milli sigur og ósigurs í næstu kosningum: trúmálin. Þannig að mig langar að skoða aðeins hvað frambjóðendur hafa að segja um trú. Sarah Palin virðist vera öfgafyllst frambjóðendana, sem er stolt yfir því að hafa son sinn með tattóveraðan Jesús á holdi sínu á meðan hann berst í miðausturlöndum, og viðurkennir að hún hafi verið frelsuð, rétt eins og George Bush.
Ljóst er að allir frambjóðendurnir eru Kristnir, en repúblikanar vilja þvinga trúarbrögðum sínum yfir á alla þjóðina og hafa siðferðilegt vit fyrir henni með forsjárhyggju; á meðan Obama virðist vera trúlaus þó að hann sé opinberlega Kristinn, og Biden er Kristinn en innilega opinn til að bera virðingu fyrir öðru fólki, og tjáir það skýrar en ég hef áður heyrt frá forsetaframbjóðenda.
Sarah Palin (*)
Áhugaverð myndbönd sem sýna trú Sarah Palin, en hún virðist meðal annars trúa því að stríðið í Írak sé undir verkefnastjórn hjá Guði.
Ræða Sarah Palin um kirkju sína (1. hluti)
Ræða Sarah Palin um kirkju sína (2. hluti)
John McCain (***)
John McCain skilgreinir kosningabaráttuna sem baráttu Kristni gagnvart öðrum trúarbrögðum, og virðist taka nokkuð skynsamlega nálgun á trúmálin.
John McCain viðurkennir þróunarkenninguna án þess að afneita Guði.
John McCain telur mikilvægt að kenna börnum ólíka strauma hugsunar, og með því meinar hann að kenna börnum kenninguna um sköpun heimsins jafnframt þeim að kenna þeim vísindaleg sjónarmið. Ég er sáttur við þetta viðhorf, svo framarlega að sjónarmiðum sé ekki þröngvað upp á börn og fjölskyldur þeirra. McCain veit nákvæmlega hvað hann er að gera.
Barack Obama (**)
Barack Obama bendir á að Bandaríkin séu ekki einfaldlega Kristið ríki lengur. Reyndar sýnist mér á lestri hans að hann sé ekki að lesa sín eigin orð, heldur eitthvað sem hefur verið skrifað fyrir hann. Ég velti fyrir mér hvort að hann sé einfaldlega góður flytjandi af ræðum, og lítið annað?
Joe Biden (****)
Joe Biden, varaforsetaefni demókrata er strangtrúaður kaþólikki, en trúir að mikilvægt sé að virða trú allra, sama hverrar trúar þeir eru, og það væri rangt af honum að yfirfæra eigin trú yfir á aðra í krafti stjórnmála. Joe Biden er minn maður, enda virkilega skýr í sínum gildum, annað en ég hef séð hjá öðrum frambjóðendum. Hann minnir mig töluvert á John Kerry og Al Gore.
Myndbönd: Youtube
Myndir:
Krossfesting:Religion-Cults.com
Frambjóðendur: Wikipedia
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2008 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Í morgun kveikti ég aðeins á Bylgjunni á leið í vinnu og heyrði hluta af viðtali þar sem talað var um gott hugarfar, og mikilvægi þess að líta hlutina jákvæðum augum frekar en að sökkva ofan í þunglyndi vegna vandamála þeirra sem knýja á dyr vegna gengisfellingar, hárrar verðbólgu og kreppunnar.
Mér fannst samtalið vera svolítið á villugötum, því að í raun var ekki verið að ræða um gott hugarfar, heldur andlega vellíðan, en það eru tvö hugtök sem virðast oft víxlast í daglegri umræðu á Íslandi.
Andleg vellíðan er það þegar fólk ákveður að líta lífið björtum augum og takast á við vandamál með jákvæðum hug og safna þannig orku gegn þeim. Gott hugarfar er mikilvægt þegar tekist er á við erfið verkefni, en gott hugarfar er samt ekki það sama og andleg vellíðan.
Hugurinn ber mann kannski hálfa leið til Húsavíkur, en það má alls ekki vanmeta hvað gott hugarfar er.
Gott hugarfar felur í sér og krefst töluverðrar vinnu, en gott hugarfar er ekki bara það að brosa framan í heiminn þannig að heimurinn brosi framan í þig. Nokkur af einkennum góðs hugarfars eru:
- Eftirtekt
- Viðurkenning
- Tæklun
- Lausn
- Þekking
- Skilningur
- Greining
- Samantekt
- Rannsókn
- Mat
- Niðurstaða
- Agi
- Framkvæmd
- Eftirtekt
- Viðurkenning
- Og þannig heldur hringurinn áfram...
Ég kafa hugsanlega dýpra út í þessa greiningu eins og ég sé hana fyrir mér og slípa meira til með tíð og tíma.
Stóra spurningin sem hvílir annars á manni þessa dagana er hversu há gengisfellingin og verðbólgan verður fyrir uppgjör þriðja ársfjórðungs, þar sem að bankarnir verða enn sem áður að skila eigendum sínum afar miklum hagnaði, og alls ekki minna en 20 milljörðum hver, sem þjóðin þarf síðan sjálfsagt að borga með verðfellingu krónu og eigna.
Þessi fjárglæfraleikur hættir ekki fyrr en ríkið grípur inn í, bankarnir fara á hausinn eða þjóðin gerir uppreisn. Munum við sjá hetjur ríða um héruð í líki alþingismanna sem átta sig á plottinu, eða þarf almenningur einfaldlega að sökkva enn dýpra í skuldafenið, en nú með bros á vör vegna andlegrar vellíðunar, eða með spurnar- og áhyggjusvip vegna óskiljanleikans sem felst í þeirri hugmynd að sumu ráða- og efnafólki geti hugsanlega verið nákvæmlega sama um alla hina?
Myndir:
Broskall: The People's Press
Kort af mennskri þekkingu: Knowledge Map of Information Science...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
The Dark Knight (2008) (IMAX Experience) ***1/2
7.9.2008 | 10:44
Ómar bloggvinur Friðleifsson hvatti mig til að sjá The Dark Knight aftur, af því að mér fannst hún ekki frábærasta ofurhetjumynd í heimi og frá upphafi.
Í þetta skiptið gerði ég mér grein fyrir að ég ofmat hana í fyrsta áhorfi, hún er ekki meðal 5 bestu ofurhetjumynda sem gerðar hafa verið, en kemst hins vegar inn á topp 10 listann.
Mér fannst til dæmis Iron Man mun betri. Ég stend við allt annað úr upphaflegri gagnrýni minni.
Ég fór í IMAX kvikmyndahúsið í London og sá The Dark Knight á miðnætursýningu. Það er reyndar mjög skemmtileg stemmning í þessu bíóhúsi, en öll sæti eru merkt, poppið gott og þægilegt að sitja í salnum. Einnig var notalegt að finna ekki fyrir neinu klístri undir skósólum eins og er alltof títt heima.
Í IMAX kvikmyndasal er tjaldið miklu stærra en í venjulegu bíóhúsi, og sum atriði eru sérstaklega hönnuð fyrir þetta bíó, en þetta eru aðallega hasaratriðin. Þá stækkar skermurinn þannig að meira sést upp við loft og einnig alveg niður í gólf. Þetta er mjög áhrifaríkt og flott, og maður veltir fyrir sér hvernig klassískar myndir eins og Lawrence of Arabia, litu út í IMAX.
IMAX býður upp á skemmtilega kosti, og sérstaklega ef um þrívíddarbíó er að ræða. SAMbíóin í Kringlunni koma næst þessu með Digital sal, en það vantar algjörlega IMAX bíó á Íslandi.
Þó að mér hafi ekki þótt myndin neitt betri en áður, þá var gaman að hafa loksins upplifað alvöru IMAX. Næst verð ég að kíkja á IMAX í 3D.
Myndir:
IMAX bíóið í London: Wikimedia Commons
Ed Wood er meistari kvikmyndaformsins í samanburði við Uwe Boll, sem virðist fá snilldarleikara hvað eftir annað til að gera sig að algjörum fíflum fyrir framan myndavélina og láta áhorfendum leiðast meira en hægt er að hugsa sér. Þú verður að sjá þessar hörmungar til að trúa þeim. Nóg að horfa á eina mynd eftir hann í tíu mínútur, þá ertu búinn að sjá þær allar. Hann kemst einhvern veginn upp með þetta með því að nota titla úr vinsælum tölvuleikjum og virðist vera með fólk á launum til að gefa kvikmyndum sínum háar einkunnir á kvikmyndasíðum Netsins.
"Góðir" leikarar sem fallið hafa í Uwe Boll gildruna:
Ray Liotta
J.K. Simmons
Jason Statham
John Rhys-Davies
Ron Perlman
Burt Reynolds
Michael Madsen
Meat Loaf
Billy Zane
Michelle Rodriguez
Ben Kingsley
Christian Slater
Stephen Dorff
Jurgen Prochnow
Sýnishorn úr In The Name of the King: A Dungeon Siege Tale, einni af nýjustu afurðum Uwe Boll, og nokkrar umsagnir um hana:
I would like to think that Uwe Boll is not a mentally-challenged individual. However, the incompetence of his movies speaks otherwise.(Brian Orndorf, eFilmCritic.com)
Sort of like watching Lord of the Rings through a smudged television screen. (Josh Larsen, Sun Publications)
Is this movie so god-awful bad that it's hilariously good? Can't be bothered deciding. Figure that's an answer in itself. (Rick Groe, Globe and Mail)
Myndir sem Uwe Boll hefur leikstýrt:
# Zombie Massacre (2010) (in production)
# Sabotage 1943 (2009) (in production)
# Stoic (2009) (post-production)
# Far Cry (2008) (post-production)
# Tunnel Rats (2008)
... aka 1968 Tunnel Rats (USA: new title)
# BloodRayne II: Deliverance (2007) (V)
... aka Bloodrayne 2: Deliverance (Germany: DVD title)
# Postal (2007)
... aka Postal: Der Film (Germany)
... aka Postal: The Movie (USA: alternative transliteration)
# Seed (2007)
# In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale (2007)
... aka Schwerter des Königs - Dungeon Siege (Germany)
# BloodRayne (2005)
# Alone in the Dark (2005)
# House of the Dead (2003)
... aka House of the dead: Le jeu ne fait que commencer (Canada: French title)
# Heart of America (2003)
... aka Home Room (Australia)
# Blackwoods (2002)
# Sanctimony (2000) (TV)
# Erste Semester, Das (1997)
... aka The First Semester (International: English title)
# Amoklauf (1994)
# Barschel - Mord in Genf? (1993)
# German Fried Movie (1991) (V)
Netverjar settu saman undirskriftarlista með þeirri kröfu að Uwe Boll hætti að búa til kvikmyndir upp úr góðum tölvuleikjum og eyðileggja þannig nafn þeirra. Svona svaraði hann:
Myndir:
Ben Kingsley úr Bloodrayne: MySpace
Jason Statham úr The Name of the King: Collider.com
Svo lélegar að þær eru góðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geymdu gögnin þín á öruggum stað
3.9.2008 | 21:17
Upp á síðkastið hefur nokkuð verið talað um mikilvægi þess að geyma gögn eins og ritgerðir á öruggum stað, á Netinu. Það er að sjálfsögðu hægt að læsa möppum til að þær verði aðeins aðgengilegar þeim sem þú vilt að geti séð þær. Þessu er hægt að redda með ódýrum reikningi hjá Lunarpages, en ég hef fjallað nokkuð um kosti þessarar þjónustu í öðrum pistlum.
Lunarpages bjóða upp á ftp tengingu við vefþjóninn, sem gerir notendum fært að tengjast honum eins og hörðum diski.
Einfalt er að tengjast með ókeypis ftp forriti eins og Filezilla, og geyma síðan dýrmætustu gögnin á 1500 gígabæta svæðinu.
Smelltu hérna til að kaupa þér svæði hjá Lunarpages.
Í dag kostar þjónustan hjá Lunarpages $6.95 á mánuði, en það eru kr. 590,- Það er best að kaupa eins eða tveggja ára plan.
Kíktu á aðrar greinar sem ég hef skrifað um Lunarpages til að kynnast einhverju af því sem hægt er að gera með þessari öflugu og ódýru veftækni.
Myndir:
George Mason University: Technology Services Gateway
Upplýsingatækni á vefnum:
Kafli 1: Veistu hvernig þú kaupir eigið lén og vefsvæði fyrir kr. 370 á mánuði?
Kafli 2: Hvernig notarðu Fantastico til að skapa vefsíður?
Kafli 3: Hvernig seturðu upp hágæða vefumsjónarkerfi á 5 mínútum?
Kafli 4: Hvernig popparðu upp Joomla vefsíðu og gerir hana nothæfa?
Kafli 5: Hvernig seturðu upp þitt eigið bloggkerfi?
Kafli 6: Kauptu þér ódýrt .com eða .net vefsvæði og settu upp faglegan vef á stuttum tíma!
Kafli 7: Hvernig seturðu upp þína eigin vefverslun fyrir lítinn pening?
Kafli 8: Settu sumarmyndirnar á Netið án mikillar fyrirhafnar
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)