Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Spurning 1: er réttlætanlegt að flytja fólk úr landi af þeirri ástæðu einni að það er ekki fætt á landinu og hefur ekki alist upp á svæðinu?

Mér finnst rétt að spyrja þessarar spurningar af þeirri einföldu ástæðu að dýpst inni er ég alltof mikið mannúðarpakk. Mér finnst að fólk ætti að geta flutt til þess lands sem það langar til og hafa strax sömu réttindi og þeir sem fæddust í landinu.

Kannski er það vegna þess að ég sé heiminn í svolítið rómantísku ljósi. Ef mig langaði að flytja til Indlands, Afríku eða Argentínu þætti mér eðlilegt að lenda ekki strax í lágstétt, bara vegna uppruna míns. Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna er skrifaður í þeim anda að það sem skiptir allra mesta máli er að við séum öll manneskjur og að okkur beri að sýna mannvirðingu. Árás á æru okkar og sjálfsvirðingu er álíka alvarleg, ef ekki alvarlegri en árás á líf manns, því þekkt er að sumir fórni lífi sínu fyrir æruna. Um það getum við lesið í Íslendingasögum.

En af hverju í ósköpunum erum við að búa til þessar reglur, um að öllum þeim sem koma til landsins megi án rökstuðnings senda aftur til síns heima? 

Eru þessar reglur settar til að vernda okkur gegn hervaldi annarra þjóða eða hryðjuverkamönnum, eða vel menntuðum einstaklingum sem leita sér friðsæls lífs? 

Af hverju þurfum við að apa hugsunarlaust eftir alþjóðlegum reglum um að verja landamærin erlendum öflum, hvort sem að um fólk eða vörur er að ræða? 

Til hvers þurfum við þessi landamæri?

Mér finnst virðingarvert þegar manneskja flyst til þessa erfiða lands og ætlar að búa hérna. Þarf slíkt fólk ekki einfaldlega sýnilegan stuðning og hlýju frekar en kalt lögregluvald sem hlustar ekki á einstaklinginn, bara vegna þess að lögin eru skýr? Mér finnst það ekki góð ástæða.

Af hverju þurfum við endilega að flokka okkur í stéttir? 

Af hverju höfum við meiri tilhneigingu til að loka heiminum heldur en opna hann? Mér finnst eins og þessu hafi verið öfugt farið fyrir um tíu árum, og þá fór allt að blómstra. Nú höfum við snúið blaðinu við, ætlum að loka okkur af og deyja í friðsælli eyðimörk einsleitrar menningar.

Ég bið þig um að svara spurningunni, annað hvort í athugasemd eða með því að smella á skoðunarkönnunina hér til hliðar.

51XC7B5N5WL

Um daginn keypti ég mér spurningabók í Bandaríkjunum, sem mér finnst svolítið sniðug. Ég notaði tvær spurningar úr henni um daginn, en ég hef hugsað mér að þýða spurningar úr bókinni og leggja fyrir íslenska bloggheiminn. Þessi bók heitir "The Book of Questions" og er eftir Gregory Stock.

Reyndar er þessi spurning mín eigin, því að ég hef verið að velta þessu fyrir mér að gefnu tilefni: "Er réttlætanlegt að flytja fólk úr landi af þeirri ástæðu einni að það er ekki fætt á landinu og hefur ekki alist upp á svæðinu?"

 

Myndir:

The Book of Questions: Amazon.com

Frelsisstyttan: Healey Library

Litað handaband: Freytag Family Web Page

Apartheit: MGraphX


Þögnin og svefninn (smásaga um ofbeldi og ást)

1.

Ég bauð mig fram í pólitískt embætti og tapaði. Mig grunar að þeir hafi svindlað. Ég mótmælti. Barátta mín fyrir betri menntun og hjúkrun var á enda. Sjálfur hafði ég unnið við þróunarstarf og kynntist þar ljúfasta fólki í heimi, frá smáeyju við Norðurpólinn, Íslandi. Íslendingar völdu að hjálpa okkur frekar en að standa aðgerðarlaus eins og hinar þjóðirnar. Ég kann þeim miklar þakkir fyrir.

Ég mótmælti kosningasvindlinu opinberlega, og fyrir vikið var ég hnepptur í varðhald hjá ríkislögreglunni og pyntaður í heila viku. Mig langar ekki til að lýsa þessum kvalarfullu dögum og nóttum, en þegar ég gaf loks eftir og sagðist ætla að þegja var mér sleppt. Málið er að þeir sem hafa völdin í dag, eru þeir sem vilja bara völd, ekki betra líf fyrir þjóðina. Þeim stendur á sama svo framarlega sem þeirra eigin hagsmunum er borgið. Þetta eru villidýr sem nærast á okkur jurtaætunum, því þeir vita að við munum aldrei grípa til vopna gegn þeim. Þetta er sjúkt. Þeir vilja bara völd og peningana sem koma frá skattinum.

Soffía beið eftir mér heima. Á meðan ég sat á þessum trékolli í 7 daga og 7 nætur hafði hún farið í apótek og keypt óléttupróf. Það skilaði bleiku. 

 

2.

Nótt eina vakti Soffía mig og spurði hvort ég hefði heyrt eitthvað. Svo var ekki, en ég læddist niður til að sjá hvað væri í gangi. Útidyrahurðin stóð opin. Áður en ég lokaði horfði ég út í myrkrið. Ég sá ekki neinn, en fannst eins og einhver væri að fylgjast með mér. Hárin risu á hnakkanum.

Ég fór aftur inn og greip símann. En hikaði. Ég gat ekki hugsað mér að hringja í lögregluna. Þess í stað hringdi ég í Samúel, hann hafði verið félagi minn frá barnaskóla. Eiginkona hans Júní svaraði. Hún sagði lögregluna hafa tekið hann fyrir tveimur vikum. Hún hafði á tilfinningunni að hann væri farinn, fyrir fullt og allt. Hún sagði mér frá fleirum sem höfðu horfið sporlaust.

Þegar hún lagði á stóð ég stjarfur um stund, en heyrði þá andað í símtólið. Ég passaði að draga ekki andann, en hlustaði því betur. Jú, þetta var greinilegur andardráttur.

"Hver er þetta?" spurði ég.

"Klikk" var eina svarið. Einhver hafði lagt á.

Ég hringdi í gamlan samstarfsfélaga minn, Stefán. Hann er frá Íslandi, landi hinna frjálsu og góðu, landi þar sem fólk getur gengið úti bæði að nóttu sem og degi án ótta við að fá kúlu í bakið, landi þar sem lýðræði og kærleikur ríkir, mannúð og gæska. Þar eru næstum allir kristnir og lifa eftir fordæmi Krists í einu og öllu. Íslendingar fara samt ekki mikið í kirkju. Þeir líkna sjúka, þeir fræða fáfróða, þeir umbera hina óumburðarlyndu. 

Þegar ég útskýrði ástandið fyrir Stefáni var hann fljótur að redda mér flugi næsta dag. Sólarhringi síðar vorum við lent í Mílanó, og ekki nema 36 stundum eftir að hafa fengið þennan óvænta gest heim vorum við lent á litlum og vinalegum flugvelli í Keflavík, smábæ sem er í klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík, höfuðborg Íslands. 

 

3.

Við Soffía höfðum aldrei séð svona mikið hvítt, en maðurinn sem tók á móti okkur, Kjartan frá Þróunarsamvinnustofnun, stoppaði í vegakantinum og leyfði okkur að ganga um í snjónum og snerta hann. Þetta fyrirbæri er að sjálfsögðu ískalt og blautt, en það er svo mikið af því að það virðist þekja allt landið. Ímyndið ykkur bara ef blá rykkorn féllu yfir allt landið okkar og á einni nótt yrði allt blátt, og gula slikjan hyrfi.

Stefán tók á móti okkur, fann fyrir okkur íbúð og lét mig fá pening fyrir mat. Hann ráðlagði okkur að sækja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Hann setti okkur í samband við lögmann. Hún heitir Ragnheiður. Okkur yrði örugglega tekið vel. 

Það er sárt að skilja eftir húsið og allar okkar eigur heima. Nú höfum við flutt í litla íbúð sem er álíka stór og sjónvarpsherbergið okkar var. En það er samt betra að vera öruggur með lífið, heldur en fangi óttans.

 

4.

Ég fékk vinnu við að aðstoða fatlaða einstaklinga við vinnu. Ísland er stórkostlegt land. Konur hafa mikil völd og fatlaðir fá störf við hæfi. Soffía hefur hins vegar ekki fundið neitt starf, og leigan er heldur dýr. Við eigum rétt fyrir mat eftir leigu og skatta. Það er útilokað að kaupa íbúð hérna, því lítil kytra á Íslandi kostar á við 10 einbýlishús með sundlaug heima. Reikningar mínir voru frystir, þannig að ekki get ég notað það sem ég hef aflað mér um ævina.

Ragnheiður lögfræðingur sagði mér að hún hafi sótt um hæli fyrir okkur sem pólitískir flóttamenn. Hún var bjartsýn á góðar niðurstöður í fyrstu, en nú hafa liðið 3 mánuðir og hún hefur ekki fengið nein svör. Hún hefur farið niður í ráðuneyti, sent þeim tölvupósta og bréf, en við fáum engin svör. Skriffinnskan er bara svona. Ég kannast við þetta að heiman, suma daga getur maður þurft að bíða heilan dag bara til að ganga frá einhverjum pappírum. Svona er þetta bara.

 

5.

Í gær var hamingju varpað inn í líf okkar. Dóttir mín er fædd. Hún er með augu móður sinnar og krullaða lokka pabba síns. Hún er þó óhult, þar sem að samkvæmt alþjóðlegum lögum fær barn ríkisborgararétt í því landi sem það fæðist. Mér léttir mikið.

 

6.

Í fyrradag var bjöllunni hringt heima snemma um morguninn. Ég fór til dyra. Þar stóð kona í lögreglubúningi sem rétti mér bréf og spurði hvort að ég væri ég. Ég sagði svo vera, og þá var hurðinni sparkað upp og mér ýtt upp að veggnum. Dóttir mín byrjaði að gráta og Soffía kom fram með tárin í augunum og spurði hvað væri að gerast. Ég hef aldrei séð hana hrista höfuðið jafn lengi í vantrú og nákvæmlega á þessari stundu, þetta var verra en þegar lögreglan tók mig og pyntaði mig. Þeir höfðu þó ekki handjárnað mig og höfðu gefið mér tíma til að kveðja.

Mér var ýtt út í lögreglubíl og ég heyrði Soffíu hrópa á eftir mér. Hvað átti hún að gera? Við höfðum ekki farið í Bónus. Hún var ekki með pening og lítill matur til heima. Ég reyndi að biðja lögreglumann númer 142 um að fara með pening til hennar. Hann hlustaði ekki á mig, lokaði bara hurðinni eins og ég væri ekki þarna.

Þessi nótt í fangaklefanum var erfiðari en allt sem erfitt er. Ég fékk ekki að hringja og fékk engar skýringar á því af hverju mér var haldið þarna, aðrar en að ég hafði gert eitthvað ólöglegt. Ég vissi bara ekki hvað það gat verið.

Síðan skildi ég þegar leiðin lá til Keflavíkur að verið var að færa mig á flugvöllinn. Það átti að senda mig úr landi. Heim!

Ég bið til Guðs að Soffía og Lovísa verði öruggar á Íslandi, að einhver komi þeim til hjálpar, að einhver hjálpi þeim að borga leiguna, mat og fæði. Ég bið til Guðs að þeir loki mig frekar í fangelsi en senda mig aftur heim, því ég veit að þar verð ég pyntaður aftur og stungið í dýflissu og látinn rotna þar, nema ég verði það heppinn að þeir spanderi byssukúlu handa mér.

Ég bið um það eitt að þögnin verði rofin og að fólkið í heiminum vakni.


Hancock (2008) *1/2

Ég reyni að hafa það sem reglu að ef ég ætla að gagnrýna eitthvað eða einhvern, þá verð ég að byrja á að því að segja eitthvað jákvætt og gott.

Sýnishornin fyrir Hancock eru flott.

Já. Ansi flott. Reyndar meðal flottustu sýnishorna sem ég hef séð fyrir bíómynd.

Kvikmyndin Hancock er ekki góð. Það er ekki nóg með að leikstjórinn hafi tekið þá ákvörðun að hrista myndavélina til í öllum tökum, þannig að það truflar áhorfandann, heldur er handritið samansuða af grínmynd, drama, rómantískri ástarögu, ofurhetjumynd, og dogma mynd - sem reyndar býr yfir skemmtilegum möguleikum. Úrvinnslan er bara slök.

Will Smith er reyndar góður í sínu hlutverki framan af og mér var farið að lítast ágætlega á myndina eftir fyrstu fimmtán mínúturnar, en eftir það lá leiðin niður á við. 

Komið hafa út tvær góðar ofurhetjumyndir í sumar: Iron Man og The Incredible Hulk.

Hancock kemst ekki nálægt þeim. Ef hægt er að líkja henni við einhverja ofurhetjumynd væri það helst Spider-Man 3, nema hvað Hancock er ekki jafnvel gerð tæknilega, og er jafnvel enn væmnari og leiðinlegri.

Einhverjir sætta sig kannski við að horfa á þetta í bíó, og sumum finnst þetta kannski skemmtun, en ekki mér. Ég var hálf vandræðalegur eftir sýninguna og sagði við vin minn á leiðinni út: 

"Ég verð að viðurkenna, ég fékk meira út úr Pathfinder í fyrra, þó að sú mynd hafi verið hörmung."

Hann kinkaði brosandi kolli.

En fulla gagnrýni mína á Hancock má finna með því að smella hérna, á ensku.


20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 9. sæti: Gattaca

Loksins er komið að stundinni sem allir hafa beðið eftir. Aðeins 9 kvikmyndir eftir á listanum.

9. besta vísindaskáldsaga allra tíma í kvikmyndum er kvikmynd sem tókst að hrífa mig með í ferðalag víðáttumikið ferðalag manns með hjartagalla, Gattaca (1997).

Gattaca snýst um frelsi einstaklingsins, þrælkun og fullkomnun. Hún reynir að svara því hvað fullkominn einstaklingur er, og auðvitað eins og góðum vísindaskáldsögum er lagið, svarar hún ekki öllum spurningum heldur fær mann til að spyrja enn meira. 

Gattaca gerist í nálægri framtíð þar sem fóstrum er erfðabreytt í móðurkviði til að koma í veg fyrir sjúkdóma, erfitt skap, ljótt útlit og annað þar eftir götunum. Allir þeir sem fæðast með einhvers konar fæðingargalla eru annars flokks borgarar og fá engin tækifæri í lífinu. 

Vincent Freeman (Ethan Hawke) fæðist með hjartagalla, slaka sjón og ófullkomna skapgerð. Foreldrarnir fylgjast með honum alla daga í ótta við að hann slasist vegna eigin ófullkomleika, en þau höfðu slysast til að eignast hann með náttúrulegum hætti, níu mánuðum eftir æsilega stund í aftursæti.

Foreldrar Vincents, Antonio (Elias Koteas) og Marie (Jayne Brook) ákveða að eignast annað barn, en ætla í þetta skiptið að gera það rétt. Þau fá erfðalækni til að útvega þeim son með góða heilsu og aðlögunarhæfni. Þeim fæðist drengur, sem fær nafnið Anton (Loren Dean). Þau leyna því ekki hversu stolt þau eru af Anton, og hversu mikil vonbrigði felast í tilvist Vincents.

Vincent hinn hjartveiki hefur þrátt fyrir veikburða líkama stóra drauma. Hann dreymir um að komast út í geim, en er sagt að gleyma þessum draumórum sínum, þar sem að hann er fyrirfram annars flokks borgari. 

Eftir mikilvæga sundkeppni við bróður sinn ákveður Vincent að yfirgefa foreldra sína og bróður, taka sér nýtt nafn og gera allt sem í hans valdi stendur til að láta drauminn rætast.

Vincent þykist vera annar einstaklingur til að fá fyrsta flokks starf og möguleika til að komast út í geim. Til þess að það takist þarf hann aðstoð hins fatlaða en fullkomna í alla aðra staði Jerome Eugene Morrow (Jude Law), og síðan verður hann hrifinn af samstarfskonu sinni Irene Cassini (Uma Thurman).

Það stefnir í að dæmið ætli að ganga upp þegar starfsmaður á skrifstofunni er myrtur, og Vincent liggur undir grun af lögregluforingjanum Hugo (Alan Arkin). Ljóst er að vandamálin hrannast upp og draumurinn sem er svo nálægt því að verða veruleiki fjarlægist hratt. Eina von Vincent er að þrauka í gegnum vandamálin á agaðan hátt.

Það eru mörg áhrifarík atriði í Gattaca, sérstaklega sundkeppni bræðranna og ferð Jerome Morrow upp DNA stigann til að bjarga vini sínum frá vörðum laganna.

 

Leikstjóri: Andrew Niccol

Einkunn: 10

Myndir: Sci-Flicks.com

 

9. sæti: Gattaca

10. sæti: Abre los Ojos

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Hvernig geturðu deilt ljósmyndum á Netinu án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar?

Hefur þér einhvern tíma dottið í hug að sniðugt væri að setja ljósmyndir þínar á vefinn og deila með fjölskyldum og vinum, en hætt við þegar þú áttaðir þig á að myndirnar færu inn á vefsvæði í eigum annarra, og viðkomandi gætu því nýtt myndirnar eins og þeim sýnist?

Ég var að prófa lausn á Lunarpages sem virkar vonum framar.

Til þess að geta gert þetta þarftu að kaupa pakka hjá Lunarpages fyrir um kr. 400 á mánuði í eitt eða tvö ár þar sem eftirfarandi fylgir:

Þitt eigið lén til lífstíðar með endingunum .com, .net, .org, .biz, .info, .name, eða .us (ég sting upp á .net þar sem það hljómar frekar íslenskt eða .com sem er góð alþjóðleg ending. Ég hef stofnað mörg svæði með Lunarpages, það nýjasta er seenthismovie.com, og einnig á ég heimspeki.net, og mörg fleiri sem ég ætla ekki að telja upp.

Geymslupláss upp á 1500 gígabæt. Til samanburðar kostar flakkari hjá att.is með 250 GB geymslurými kr. 10.950,- og til að fá sama geymslurými og hjá Lunarpages margaldarðu einfaldlega með 6.

Forrit til að setja saman alls konar veflausnir með fáeinum smellum, þar á meðal myndaalbúmið.

Auka forritapakki með alls konar lausnum eins og t.d. logogerð fylgja líka frítt með. Svona pakkar kosta yfirleitt nokkra tugi þúsunda.

En nú langar mig að kenna þér að setja upp myndagallerí á vefnum með Lunarpages tólunum CPanel og Fantastico, sem ég hef kynnt í fyrri greinum. 

Eftir að hafa loggað þig inn á CPanel, velurðu 4Images Gallery.

Í kjölfarið velurðu einfaldlega 'New Installation', og þarft að samþykkja skilmála auk þess að fylla út í staðlaðar upplýsingar um notendanafn, lykilorð og staðsetningu á myndakerfinu.

Þegar þessu er lokið er myndavefurinn kominn í gang, en svona lítur hann út þegar þú hefur loggað þig inn í fyrsta sinn:

Til að komast inn í kerfið og byrja að hlaða inn myndum, velurðu 'Admin Control Panel' sem er neðarlega á síðunni. Þá færðu upp þennan glugga:

Til að komast í gang, mæli ég með að þú búir til einn efnisflokk, eða 'category' og setjir síðan myndir sem eiga við um þann flokk undir hann. Það er lítið mál að gera þetta, en það tók mig um tvær  mínútur að læra þetta án þess að leita í leiðbeiningar. 

Eftir fáeinar mínútur er komin upp myndasíða sem þú getur farið að sýna vinum og fjölskyldu. Það er einnig hægt að loka aðgangi fyrir óviðkomandi aðila.

Svona lítur svæðið mitt út eftir um tíu mínútur (með uppsetningu):

Þú getur kíkt á myndasvæðið mitt hérna. Veldu 'Movie Posters' flokkinn þar sem ég hef einungis sett myndir í hann.

Ég vona að þú setjir þetta upp. Það er gaman að þessu.

 

Upplýsingatækni á vefnum

 

Kafli 1: Veistu hvernig þú kaupir eigið lén og vefsvæði fyrir kr. 370 á mánuði?

Kafli 2: Hvernig notarðu Fantastico til að skapa vefsíður?

Kafli 3: Hvernig seturðu upp hágæða vefumsjónarkerfi á 5 mínútum?

Kafli 4: Hvernig popparðu upp Joomla vefsíðu og gerir hana nothæfa?

Kafli 5: Hvernig seturðu upp þitt eigið bloggkerfi?

Kafli 6: Kauptu þér ódýrt .com eða .net vefsvæði og settu upp faglegan vef á stuttum tíma!

Kafli 7: Hvernig seturðu upp þína eigin vefverslun fyrir lítinn pening?

Kafli 8: Settu sumarmyndirnar á Netið án mikillar fyrirhafnar

 

Eini kostnaðurinn felst í að smella á Lunarpages til að kaupa lén, geymslupláss upp á 1,5 terrabæt, hraða nettengingu frá vefþjóninum, auk aðgangs að CPanel og Fantastico fyrir kr. 400,- á mánuði, miðað við eins eða tveggja ára plön.

 

Ljósmyndir: Big Sky Montana, Skooogle.com


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband