Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 3. sæti: Spider-Man (2002-2007)
21.8.2007 | 23:26
Í Spider-Man (2002) kynntumst við Peter Parker (Tobey Maguire), vísindanörd sem sífellt var undir þegar kom að því að vera svalur, eða einfaldlega sýnilegur þegar kom að stúlkunni sem hann hafði verið skotinn í frá 6 ára bekk, Mary Jane Watson (Kirsten Dunst). Þetta breytist allt þegar Peter er bitinn af erfðabreyttri kónguló. Fyrir vikið fær hann alla helstu eiginleika kóngulóar, fyrir utan kannski að fá fjórar aukalappi og sex viðbótaraugu. Hann öðlast ofurkrafta, getur klifrað upp veggi, skotið vef út úr úlnliðum sínum og umfram allt er hann sneggri en andskotinn.
Það veit á vel þegar þú ert ofurhetja, því að þá fyrst birtast andskotarnir. Norman Osborn (Willem Dafoe) er þekktur vísindamaður sem vinnur að lausnum fyrir herinn, hann er líka pabbi Harry Osborn (James Franco), besta vini Peter. Þegar vísindatilraun fer úrskeiðis breytist kallinn í geðveikt ofurmenni sem verður að erkióvini Peter þegar hann ógnar lífi Mary Jane.
Sagan fjallar svo um það hvernig Spider-Man berst gegn þessum erkifjanda sínum. Inn í söguna fléttast morð á Ben, frænda Peter, sem Peter hefði getað afstýrt. Fyrir vikið finnur hann til mikils samviskubits sem nagar hann það sem eftir er, og birtist helst í samskiptum hans við Mæju frænku., eða allt fram í lok Spider-Man 3, þegar Peter kemst að því að hann hefði kannski ekki getað afstýrt morðinu á frænda sínum (2007).
Sama þemað gengur í gegnum allar myndirnar. Það virkar ferskt í fyrstu myndinni, enda passar það vel inn í söguna, að mikil ábyrgð fylgi í kjölfar mikilla krafta. Spider-Man 2 (2004) hélt vel utan um persónurnar og gaf fyrri myndinni ekkert eftir í persónusköpun, spennu og tæknibrellum.
En svo kom Spider-Man 3, sem eyðilagði allt. Í stað þess að halda uppi dramatískri spennu tókst leikstjóranum að klúðra góðum möguleikum með Harry Osborn, Venom varð að næstum engu, og sandmaðurinn var einfaldlega illa skrifaður. Einnig varð Peter frekar asnalegur og leiðinlegur þegar meiningin var að hann yrði illur og svalur. Ekki nóg með það, skemmtilega sambandið við Mary Jane snérist upp í að vera væmið og leiðinlegt.
Spider-Man 1 og 2 banka harkalega upp á sem bestu ofurhetjumyndirnar; en það eru samt tvær til sem mér finnst ennþá betri.
10 bestu ofurhetjumyndirnar:
3. sæti: Spider-man (1999-2003)
4. sæti: The Matrix (1999-2003)
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
Transformers (2007) **1/2
19.8.2007 | 10:54
Transformers er byggð á teiknimyndaseríu sem var byggð á japönskum leikföngum. Leikföngunum var auðveldlega hægt að umbreyta úr vélmenni í einhvers konar fararæki og aftur í vélmenni. Þessar breytingar voru leystar á mjög flottan hátt í teiknimyndunum; en mér fannst þessar umbreytingar ósannfærandi og frekar slakar í kvikmyndinni, auk þess að vélmennin eru frekar illa hönnuð og beinlínis ljót, en samt er gert mikið upp úr því að breytingarnar séu svakalega flottar og fólk ætti að segja, "vá! en flott!"; það virkaði bara öfugt á mig.
Fyrir utan það eru tæknibrellurnar afbragsgóðar, sem og kvikmyndatakan þar sem að lykilskot gerast nákvæmlega við sólarupprás, þar sem vélar fljúga yfir aðalhetjurnar sem eru sýndar hægt, eins og í öllum kvikmyndum eftir Michael Bay; það mörgum að þetta er löngu orðin klisja, sem var reyndar eitt af skotmörkum Hot Fuzz (2007).
Sam Witwicky (mjög vel leikinn af Shia LaBeouf) er hormónagraður unglingur sem hefur bara eitt takmark í lífinu; að sofa hjá ofurskvísunni Mikaela Banes (Megan Fox) fallegustu stelpunni í skólanum, sem finnst ekkert skemmtilegra en að halla sér undir vélarhlífar bifreiða til að vekja losta hormónagraðra unglinga. Það eru bara tvö vandamál, hann vantar bíl til að heilla stelpuna og svo persónuleikann til að laða hana að sér. Það reddast þegar bíllinn sem hann kaupir sér er Bumblebee, einn af góðu umbreytunum (Autobots) sem hefur það hlutverk að vernda Sam gegn vondu umbreytunum (The Decepticons), vegna þess að sam hefur undir höndum gleraugu frá afa sínum sem inniheldur kort sem sýnir hvar sköpunarkubburinn er falinn; en sköpunarkubburinn breytir öllum tækjum sem hann snertir í illa umbreytinga.
Í Quatar eyðimörkinni ræðst illur umbreytingur á bandaríska herstöð til þess eins að hakka sig inn í tölvukerfið þeirra. Það tekst að eyðileggja tölvubúnaðinn áður en vélmenninu tekst að klára verkefnið. Síðar smyglar annað vélmenni sér inn í Air Force One, einkaflugvél bandaríkjaforseta, og tekst að stela nógu miklu af upplýsingum til að finna nafnið Witwicky í tengslum við uppgötvum sem afi Sam gerði á Norðurpólnum einhverjum hundrað árum áður; en það var staðsetning sköpunarkubbsins og Megatron, hins illa foringja þeirra umbreytinga sem gerðu uppreisn gegn hinum góðu og drepa allt sem þeir geta. Semsagt klassísk barátta góðs og ills; þar sem að þeir góðu eru verndarar alls lífs, en hinir illu vilja eyða því. Þeir góðu breyta sér alltaf í bíla og trukka og berjast með sverðum og í návígi; enda göfugir riddarar þar á ferð, en þeir vondu breyta sér í nýtísku hernaðartæki; skriðdreka, orustuþotur, þyrlur, og alls konar flottar græjur; með nýjustu vopnum og endalausum forða af skothylkjum, og ættu samkvæmt því að taka þá góðu í nefið.
Þó að persóna Sams sé vel skilgreind, þá eru umbreytingarnir það ekki. Maður veit hverjir þeir eru og þekkir persónuleika þeirra nokkurn veginn ef maður hefur séð teiknimyndirnar. Annars eru umbreytingarnir eins og þeir birtast í myndinni bara sálarlaus vélmenni sem annað hvort vernda eða eyðileggja. Persónuleikar þeirra eru klisjur og útlit; og ekkert lagt upp úr að gera þá trúverðuga; sem ég held að hefði sýnt frumefninu meiri virðingu og getað bætt myndina.
En við hverju býst maður af Michael Bay? Hann hefur gert eina frábæra bíómynd (The Rock, 1996), eina góða (Bad Boys, 1995) og fullt af miðlungsmyndum með flottum tæknibrellum og myndatöku. Það að hann gerði hina ógurlega löngu og leiðinlegu Pearl Harbor (2001) er næstum ófyirgefanlegt, því að sýnishornin fyrir þá mynd voru hrein snilld; en myndin sjálf var síðan grunn og flöt.
Transformers er fyrst og fremst Michael Bay mynd. Hasaratriðin eru glæsileg, en persónurnar grunnar. Ef það er þetta sem maður býst við frá Michael Bay, þá fær maður þetta. Reyndar bjóst ég við þessu og því kom myndin mér skemmtilega á óvart með sögunni um hormónagraða unglinginn sem var svo vel leikinn. Sum hasaratriðin eru mjög flott; en lætin eru svo gífurleg og bardagarnir svo tilgangslausir og yfirgnæfandi; og svo lítið um augnablik til að ná andanum; að ofgnótt hennar dregur úr áhrifamættinum.
Ef þú ferð á Transformers og býst við einhverju í líkingu við teiknimyndirnar, þá verðurðu fyrir vonbrigðum, því að þó umbreytingarnir heiti sömu nöfnum og hagi sér á svipaðan hátt og hafi samræmt útlit; þá vantar algjörlega persónuleika þeirra inn í myndina og það sem gerði þá heillandi. Það er mikið og lengi spilað inn á fórnarvilja Optimus Prime um að fórna lífi sínu til að eyðileggja kubbinn, sem er reyndar vísun í teiknimyndina Transformers: The Movie (1986), og reiknar vélmennið með að Sam, sem heldur á kubbnum geti hlaupið með hann yfir nokkrar götur og farið upp á efstu hæð byggingar til þess eins að láta einhverja þyrluflugmenn fá kubbinn; á meðan illu vélmennin hafa sýnt að þau geta lagt byggingar í rúst með því að klessa á þær og lagt hverfið í rúst með eins og einni sprengju.
Kubburinn er það sem gagnrýnandinn Roger Ebert kallar MacGuffin, hugtak sem Alfred Hitchcock notaði til að lýsa einhverjum hlut sem allir eru að eltast við en skiptir engu máli. Spielberg notaði þetta hugtak í Raiders of the Lost Ark (1981), en örkin var þar þessi MacGuffin. Þetta er tilvalin leið til að skapa persónum einhvern tilgang með því að vera þarna á skjánum; en yfirleitt er hún bara til að sýnast, rétt eins og í þessu tilfelli.
Snillingurinn John Torturro leikur lítið og skemmtilegt hlutverk í myndinni sem kaldrifjaður FBI fulltrúi sem hefur það verkefni að fylgjast með ferðum geimvera á jörðinni, og gefur nokkrum atriðum ferskan blæ, eins og reyndar í flestum þeim myndum sem hann tekur þátt í. Jon Voight gengur hins vegar í svefni gegnum sitt hlutverk sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Skilaboðin sem leikstjórinn sendir áhorfandanum eru nokkuð ljós. Það er ekkert flottari en bandaríski herinn og bandarískir hermenn. Þeir eru nógu öflugir til að sigrast á öllu illu, bæði á jörðinni sem og utan hennar. Þannig að segja má að Transformers sé fyrst og fremst öflugt áróðurstæki fyrir bandaríska herinn.
Ég mæli aðeins með Transformers fyrir aðdáendur Michael Bay og bandaríska hersins. Hún er ekki illa gerð, bara hávaðasöm og með grunna persónubyggingu. Aðrir geta sleppt henni án þess að þurfa að finnast þeir hafa misst af nokkru merkilegu.
"Þetta var lélegt hjá þér!" eða "Ég sé hvernig þú hefðir getað gert betur!" Undirstöðuatriði gagnrýnnar hugsunar: uppbyggileg gagnrýni
17.8.2007 | 22:06
Torfi Stefánsson hefur oft verið gagnrýndur á Umræðuhorni íslenskra skákmanna fyrir að vera of harður við börn og unglinga í gagnrýni sinni. Reyndar er erfitt að finna ummæli Torfa, því að svo virðist vera sem að þeim sé eytt samdægurs; en þau sem ég hef séð hafa oft verið með kaldhæðnislegu yfirbragði, sem reyndar getur verið erfitt að þýða yfir í tölvutexta og gæti sumum þótt sem um illkvittni væri að ræða.
En oftast eru þeir sem gagnrýna gagnrýni Torfa ekkert skárri, og gagnrýna hann með ofsa, sem ég veit reyndar ekki hvort að hann hafi sjálfur sýnt. Hann hefur í þeirri gagnrýni sem ég hef lesið eftir hann í mesta lagi gerst sekur um óvarkárni.
Í dag skrifaði hann á Skákhornið:
Ef stjórn eða þjálfari nær ekki árangri er eðlilegt að farið sé fram á afsögn viðkomandi og að aðrir fái að spreyta sig. Annað hef ég nú ekki gert að ég best veit sjálfur . . .
. . . Gagnrýni minni er ætlað að vera uppbyggjandi og skákinni til framdráttar. Því miður hafa nokkrir áhrifaaðilar innan skákhreyfingarinnar ekki þann þroska til að bera að geta tekið þeirri gagnrýni né tekið þátt í málefnalegri umræðu.
Ég kalla t.d. enn og aftur eftir dæmum um að ég hafi gengið of langt í gagnrýni minni - og vísa því algjörlega til föðurhúsana að ég hafi gengið of hart fram með skrifum mínum gagnvart ungum og viðkvæmum sálum. Það er bara fyrirsláttur þeirra fullorðnu sem þola ekki gagnrýni og reyna því að koma höggi á mig á mjög svo ómálefnalegan hátt.
Ég skil hvað Torfi er að fara, og skil líka hans afstöðu. Ég var á sínum tíma sömu skoðunar um gagnrýni; þar til ég uppgötvaði í samræðuhóp að fólk tók það grafalvarlega þegar maður felldi harða dóma um skoðanir þeirra. Í námi mínu í Bandaríkjunum varð mér á að segja þegar mér fannst einn nemandinn ekki skilja hvað ég var að meina, og rangtúlkaði gjörsamlega mínar skoðanir; þá varð mér á að segja,
"This is stupid." Drengurinn trompaðist og talaði ekki við mig í mánuð. Ég botnaði ekkert í þessu. Það var ekki eins og ég væri að kalla hann heimskingja, bara segja honum að skoðun hans væri út í hött. En það var ekki málið. Málið er að maður þarf að sýna ákveðna varkárni þegar rætt er við annað fólk og skoðanir þess eða vinna gagnrýnd.
Einn kennari minn ráðlagði mér að stundum væri gott að umgangast fólk eins og gengið væri á eggjum sem mættu ekki brotna. Það fannst mér gott ráð, og varð til þess að ég bætti til muna samskiptahæfni mína, sem ég er þó stöðugt að uppgötva að megi enn bæta. Reyndar bætir maður slíka hæfni aðeins með mikilli æfingu og meðvitund um að þörf sé á virku viðhaldi og frekari uppbyggingu.
Svarið sem ég sendi Torfa á Skákhorninu var svohljóðandi:
Blessaður Torfi,
Hér er smá gagnrýni á gagnrýniskrif þín.
Þú ert góður penni Torfi, en mér sýnist þú reyndar vera að misskilja svolítið hugtakið 'uppbyggileg gagnrýni'.
Ef einhver einföld formúla væri til fyrir slíku þá væri hún einhvern veginn svona:
1. Þú verður alltaf að meina það sem þú segir.
2. Byrja á að benda á eitthvað sem vel er gert.
3. Benda á það sem má bæta (sem hefur verið illa gert eða vanhugsað).
4. Benda á eitthvað annað sem vel er gert.
Gagnrýni á störf skákhreyfingarinnar og alls þess sem henni viðkemur, og gagnrýni á árangur skákmanna í skákmótum; þetta á allt rétt á sér; en gagnrýnin verður að vera vel uppbyggð eigi hún að vera til að hjálpa þeim sem verður fyrir gagnrýninni.
Hvort heldurðu að þú værir líklegri til að læra betur af manneskju sem þú finnur að berð virðingu fyrir þér, eða af einhverjum sem þú heldur að sé sama um þig vegna þess að framkoman virðist ruddaleg (þó að hún sé það samt ekki í raun)?
Fólk er ekki pöddur sem hægt er að skera í sundur og skoða hlutlaust. Lífið væri kannski auðveldara ef svo væri. En það verður að bera virðingu fyrir viðkomandi og sýna það að virðing sé borin. Annars verður ekki hlustað. Þetta er miklu erfiðara að framkvæma á netinu heldur en maður á mann, því að orðin tjá miklu frekar hugsanir okkar en tilfinningar. Uppbyggileg gagnrýni er einfaldlega erfiðari en beinskeitt gagnrýni, þar sem að hún krefst meiri varúðar og þar af leiðandi meiri vinnu.
Ég ákvað að Gúggla snöggvast hugtakið 'Constructive Criticism' og fann eftirfarandi:
Þó að Wikipedia sé ekki traustasta heimild í heimi, þá er þessi grein nokkuð góð.
Af Wikipedia:
Constructive criticism (often shortened to 'CC' or 'concrit') is the process of offering valid and well-reasoned opinions about the work of others, usually involving both positive and negative comments, in a friendly manner rather than an oppositional one. In collaborative work, this kind of criticism is often a valuable tool in raising and maintaining performance standards.
Because of the overuse of negative, nagging criticism, some people become defensive even when receiving constructive criticism given in a spirit of good will. Constructive criticism is more likely to be accepted if the criticism is focused on the recipient's work or behavior. That is, personality issues must be avoided as much as is possible. Critical thinking can help identify relevant issues to focus on.
Especially sensitive individuals may adopt a passive, defeated attitude if they view a situation as personal, pervasive, or permanent (see learned helplessness). Others may adopt an aggressive response. In an online forum lacking face-to-face contact, constructive criticism can be easily misinterpreted and online exchanges often spiral out of control, becoming flamewars. Effective interpersonal communication skills can be helpful to assess the recipient's frame of mind. During initial exchanges or when encountering defensive individuals, effective criticism calls for softer language and inclusion of positive comments. When the recipient strongly identifies with contentious areas (such as politics or religion), non-offensive criticism becomes challenging.
On the other hand, stronger language can sometimes break through a defensive shell. Further, many people (both as providers and even recipients of criticism) appreciate a blunt style. They see bluntness as honest and efficient while viewing softer approaches as manipulative, condescending, tedious, or confining. Often, such people view stronger exchanges as lively and engaging.
Adopting the most effective style of criticism should be tempered by the cultural context, the recipient's personality, and nature of the relationship between provider and recipient. To assess a situation, one should put out exploratory feelers and initially adopt a perceptive rather than judgmental attitude; conflict resolution skills can be helpful.
As a recipient of criticism, one can benefit by focusing on the constructive elements of the criticism and by attributing charitable interpretations to those who use strong language. By adopting an open attitude to criticism, one may achieve greater personal development and help uncover blind spots. Alternatively, such openness may be subjected to ridicule especially in a cynical or honor-based culture.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Chavez gegn frjálshyggju
16.8.2007 | 08:20
Chavez þyrfti að kíkja á bíómyndir eins og "The Last King of Scotland" og "Der Untergang" til að sjá hversu flókið það getur verið að vera einræðisherra. Samt telur hann sig vera að gera rétt; að þetta sé eina leiðin til að komast út úr samfélagi gegnsýrðu af auð- og frjálshyggju, sem er heldur ekki góður kostur. Vonandi hafnar þingið þessari tillögu frá honum, en samt skil ég að hann meinar vel.
Vandinn er að frjálshyggjan leggur minni áherslu á mikilvæga þætti eins og menntun, listir og almenn manngildi; en stefnir frekar á að búa til aðstæður þar sem fólk getur hagnast sem mest.
Eftir situr samt spurningin: hvað er hægt að gera við þeirri andlegu fátækt sem auðvaldshyggjan boðar, annað en að gera algjöra uppreisn gegn ríkjandi stefnu?
Er lausnin sú að búa til enn stærra vandamál svo að þau fyrri gleymist; að skapa slíkt hörmungarástand og þjáningar að fólk fari að meta meira það að komast hreinlega lífs af en spá í hvert auðurinn fer?
Einræði getur skerpt sýnina á ákveðin gildi í skamman tíma; en til lengri tíma litið skerðist réttur þegnanna þegar örfáir verða hafnir yfir lög og reglu; og börn þeirra alast upp við það sama og vilja verða kóngar og drottningar. Slíkt getur gengið upp í áratugi, jafnvel aldir; en fórnarkostnaðurinn er frelsi þegnanna.
Chavez boðar stjórnarskrárbreytingar sjálfum sér í hag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Segjum að ég kaupi mér gervihnattadisk og móttakara hjá EICO, og fengi mér áskrift að enska boltanum; gæti ég þá átt von á því að lögreglan vaði inn á heimili mitt og geri búnaðinn upptækan, vegna þess að ég væri að horfa á höfundarvarið efni.
Ég skil ekki hvernig sjónvarpsgláp getur verið lögbrot.
Höfundarréttur er ætlaður til að verja höfund efnis; ekki endursöluaðila. Þó að keypt sé frá upprunalegum höfundi, er ekki verið að skaða hann með slíkum kaupum; því get ég engan veginn séð hvernig þetta svokallaða lögbann getur staðist heilbrigða skynsemi eða lög.
Ef eigendur EICO sjá um endursölu á kortum sem notuð eru til að fá áskrift að SKY sjónvarpsstöðinni; hvað með það? Hvernig getur það skaðað nokkurn? Þegar verið er að tala um íslenska útsendingu, er þá ekki talað um útsendingu um íslenskar stöðvar? Þó að ég stundi viðskipti við fyrirtæki í Englandi, hver getur vogað sér slíkan hroka að banna mér það?
365 miðlar hafa síðustu daga gengið langt útfyrir skynsamleg mörk. Í stað þess að líta í eigin barm; lækka alltof hátt verð hjá sér og bæta þjónustu, eru þeir farnir að ráðast á fólk fyrir að leita annarra úrræða. Ég á ekki til orð. Þeir ættu að skammast sín.
Ég tek fram að ég á ekki gervihnattadisk og horfi reyndar lítið sem ekkert á sjónvarp, en borga afnotagjöld af því að ég á sjónvarpstæki.
Mér finnst þetta einfaldlega stórfurðulegt mál.
Ég er feginn að hafa engan áhuga á enskri knattspyrnu.
Til umhugsunar:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. (úr Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands)
Frétt í heild sinni af Eyjan.is um afleiðingar þessarar lögbannskröfu:
Lögreglan á Selfossi gerði húsrannsókn og lagði hald á tölvur og búnað hjá fyrirtækinu Skykort.com fyrr í vikunni vegna gruns um ólöglega sölu á áskriftum að sjónvarpsstöðvum Sky. Forsvarsmaður fyrirtækisins var handtekinn og yfirheyrður en látinn laus að því loknu.
Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi, er tölvubúnaðurinn nú í rannsókn og er þar leitað upplýsinga um málið og starfsemi Skykort.com. Rannsókn á tölvunum lýkur væntanlega eftir helgi og verður framhald rannsóknarinnar og hvaða stefnu málið tekur ákveðið að því loknu.
Rannsóknin byggist á því að starfsemin brjóti gegn vernduðum réttindum höfundarréttarhafa - þ.e. íslenskra sjónvarpsstöðva sem keypt hafa einkarétt til að sýna á Íslandi sama efni og Sky sjónvarpsstöðvarnar hafa rétt til að sýna á Bretlandi og Írlandi, m..a. ensku knattspyrnuna. Talið er að 5-7000 íslensk heimili hafi búnað til að taka á móti sendingum Sky en áskrifendur eru líklega færri því að með búnaðinum er einnig hægt að taka á móti fjölmörgum stöðvum sem ekki læsa útsendingum sínum, svo sem CNN og Discovery.
Ætla að tryggja að enski boltinn berist um allt land á hagstæðum kjörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 02:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Aðför að tjáningarfrelsi hjá íslensku smásamfélagi. Er frelsið til skrauts? Skulu hinir óþægilegu þegja?
11.8.2007 | 01:42
Það eina rétta er að beina valdinu gegn þeim sem misnotar tjáningarfrelsi sitt; en ekki gegn miðlinum sem slíkum og þar með samfélaginu öllu. Frelsi er vald og öllu valdi fylgir ábyrgð.
Áður en lengra er haldið, þá vil ég taka fram að ég er ekki að gagnrýna persónur, heldur skoðanir þeirra og athafnir sem ég tel vinna gegn gildi sem ég met mikils; ritfrelsi, tjáningarfrelsi, hugsunarfrelsi, með öllum þeim bólum og ljótleika sem fylgir.
Á Skákhorninu í dag, sem hefur verið umræðuhorn skákmanna á netinu til margra ára, stofnað af Daða Erni Jónssyni, sem hefur forritað það meðal annars til að geta skráð og sýnt skákir á gagnvirkan hátt, skrifar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands þennan stutta en stórmerkilega pistil:
Nýverið kom fram fyrirspurn frá skólastjóra Skákskóla Íslands, Helga Ólafssyni, um afstöðu stjórnar S.Í. til þess hvort linkur á skákhornið ætti að vera til staðar á nýju skákfréttasíðunni, þar sem m.a. væri að finna niðrandi og ósæmandi ummæli í garð barna og unglinga jafnt sem annarra. Helgi verður væntanlega einn pistlahöfunda á nýju fréttasíðunni, en í vinnslu er m.a. að skákdálkar Morgunblaðsins birtist þar reglulega.
Áhyggjur og ábendingar frá fleiri aðilum hafa einnig borist til eyrna stjórnarmanna S.Í., bæði frá foreldrum og öðrum, vegna meiðandi skrifa sem hér fari fram, en umræðuhornið er hvorki á vegum Skáksambandsins né aðildafélaga þess.
Stjórn Skáksambandsins hefur í framhaldinu fjallað sérstaklega um málið og tekið þá ákvörðun að vera ekki með link á skákhornið á nýju fréttasíðunni.
Mat stjórnar Skáksambandsins er þetta: Reynslan sýnir ítrekað að siðareglum og framfylgd þeirra er alvarlega ábótavant á skákhorninu. Börn og unglingar verða hér fyrir barðinu á meiðandi umfjöllun og niðurrifi, og persónubundin meiðyrði og svívirðingar birtast hér hvað eftir annað. Skáksambandið vill ekki tengja nafn sitt við slíkt á opinberum fréttasíðum sem það ber ábyrgð á og vísar því ekki í skákhornið.
F.h. stjórnar S.Í.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Vísað er sérstaklega í skrif einnar manneskju sem hefur að mínu mati vissulega skrifað ósanngjarnan texta um börn og unglinga; sem einnig hefur skaðað orðspor skákarinnar, en fyrir vikið hefði mér þótt rétt að viðkomandi einstaklingur fengi umfjöllun hjá siðanefnd SÍ og erindið jafnvel sent til alþjóðlega skáksambandsins FIDE. Þess í stað er ákveðið að sníða hjá allri þeirri umræðu sem á sér stað meðal annarra skákmanna. Þessu var fylgt eftir af umsjónarmanni hornsins sem sagði meðal annars:
Í framhaldi af þessu er rétt að geta þess að ég hef nú ákveðið að taka upp mun hertari ritstjórn hérna á Skákhorninu enda hefur umræðan á köflum farið út í algjöra vitleysu. Þessi herta ritstjórn hófst í morgun og mun verða framfylgt í framtíðinni og mun ég ekki hika við að henda út skeytum og setja menn í bönn ef þurfa þykir. (Sigurbjörn Björnsson)
Þetta finnst mér köld og hörð skilaboð, sem vekja spurningar.
Þarna er í tveimur erindum verið að mæla með notkun ritskoðunnar. SÍ vill óbeina ritskoðun með því að sníða hjá þessum síðum af vefnum skak.is, sem var á sínum tíma þekktur sem hlutlaus fréttamiðill um skák á Íslandi; en hefur allt í einu orðið að málpípu Skáksambands Íslands, sem reyndar hefur tilheyrt heimasíðu SÍ til þessa; en hlutleysinu er sjálfsagt fórnað vegna þess að SÍ borgar ritstjóra skak.is laun. Þar með eru forsendur fréttamiðilsins foknar út í veður og vind.
Hin skilaboðin finnst mér jafnslæm, en þar er beinni ritstýringu hótað. Ég játa að eftir að hafa lesið þetta hef ég ekki lengur áhuga á að skrifa neitt á Skákhornið, þar sem að stjórnandi gæti auðveldlega fjarlægt það sem honum líkar ekki, enda hefur hann hótað því.
Alvarlega málið er að lýðræðisleg samræða hefur tapað ákveðinni baráttu í þessum míkróheimi sem skákheimurinn á Íslandi er. Vegna þess að einn maður hefur verið óþægilegur og stingur aðra með athugasemdum sem svíða, og oft á ósanngjarnan hátt, þá finnst fólki að lýðræðislegi samræðugrundvöllurinn megi hverfa. Ég er sannfærður um að þessi einstaklingur telur sig vera í fullum rétti; að gera athugasemdir út frá eigin skoðunum og gildismati; hann er bara svo klaufalega óvarkár gagnvart tilfinningum annarra, og virðist algjörlega sama um þær, að það gerir hann mjög óvinsælan, og jafnvel hataðan og fyrirlitinn - sem mér finnst reyndar alltof langt gengið fyrir ummæli á skákvef.
Það er engum greiði gerður með að þagga niður í þessum manni eða Skákhorninu. Þar hafa birst góðar umræður um skák og skákmót, Hornið hefur verið notuð til þess að hrósa fólki þegar vel gengur, og verið mikið lesin af skákmönnum almennt. Það að allir hafa rétt til að tjá sig án hömlunar og án þess að eiga á hættu að skrif þeirra verði strokuð út af ritskoðara; er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðissamfélaginu Íslandi; en ekki forréttindi eins og umsjónarmaður Hornsins virðist álíta.
Ég skora á Skáksamband Íslands og umsjónarmann Skákhornsins að endurskoða hug sinn.
- Viljum við búa í samfélagi þar sem opin samræða er heft að einhverju marki?
- Viljum við lifa í samfélagi sem tekur þannig á málunum þegar hitnar í kolunum; að ekki allir fái að tjá sig, að ekki allir fái að láta í sér heyra; einfaldlega vegna þess að það særir hugsanlega tilfinningar einhverra einstaklinga?
Ritskoðun tilheyrir aðeins einræði. Kommúnistaríki hafa lengi verið gagnrýnd fyrir ritskoðun á pólitískum skoðunum, Kínverjar hafa verið gagnrýndir fyrir að ritskoða Internetið, repúblikanar í Bandaríkjunum hafa verið gagnrýndir fyrir að ritskoða allt sem gagnrýnir ríkisvaldið, Chavez í Venesúela hefur verið gagnrýndur fyrir að loka sjónvarpsstöðvum sem hann var ósáttur við; og nú gagnrýni ég skákyfirvöld, sem sækja vald sitt til íslenska lýðveldisins og félagsmanna sinna, fyrir að ritskoða Skákhornið.
Nokkrar tilvitnanir:
Ég er ósáttur við það sem þú segir, en ég mun verja fram í dauðann rétt þinn til að mæla hug þinn. (Voltaire 1694-1778)
Ef ekkert má birta nema það sem yfirvöld hafa fyrirfram samþykkt, hlýtur vald að staðla sannleikann. (Samuel Johnson 1709-1784)
Skoðanir fólks eru ekki undir stjórnvöld komin eða yfirráðasvæði þeirra. (Thomas Jefferson, 1743-1826)
Ef eitthvað er til staðar sem þolir ekki frjálsa hugsun, leyfið því að brotna. (Wendell Phillips 1811-1884)
Ritskoðun endurspeglar skort samfélagsins á sjálfstrausti. (George Bernard Shaw 1856-1950)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvernig vitum við hvað er draumur og hvað er veruleiki?
7.8.2007 | 22:54
Gerðar hafa verið kvikmyndir sem fjalla um hversu erfitt getur verið að átta sig á veruleikanum. Meðal bestu myndanna sem fjalla um þetta eru stórsnilldin Waking Life, Abre los Ojos, Memento, Brasil, The Matrix og Dark City. Þessar hugmyndir eru alls ekki nýjar. Descartes velti fyrir sér á 17. öld hvernig maður gæti nokkurn tíma þekkt muninn á veruleika og draumi, og benti á hversu vonlaust er að treysta eingöngu á skynjanir til að sjá það sanna. Hellislíking Platós bar einnig keim af þessari hugmynd, þar sem heil þjóð fanga situr hlekkjuð við vegg og telur skugga sem varpað er á vegg fyrir framan þá frá varðeldi vera veruleikann; ekki ólíkt þeim sem telja sig öðlast sanna þekkingu úr sjónvarpi eða af Internetinu. Einn fanginn sem fór út í sólarljósið áttar sig á að svo er ekki.
Spurningin er, hvernig vitum við hvað er draumur og hvað er veruleiki? Og hverjum er ekki sama?
Hefur þig einhvern tíma dreymt draum sem þú trúðir að væri veruleiki, en aðeins þegar þú vaknaðir, áttaðirðu þig á að einungis um draum var að ræða? Hvernig veistu fyrir víst að þessi draumur var aðeins draumur; og ef þetta var aðeins draumur, hvað þýðir það fyrir þig í raun og veru? Getur verið að draumar þínir segi eitthvað um merkingu veruleikans sem þú lifir í, þó að veruleikinn segi fátt um drauma?
Þarna sést strax að draumar eru kannski ekkert 'bara'. Það er hugsanlega eitthvað meira spunnið í þá.
Hvernig svo sem veruleikinn og draumar spinnast saman, þá vitum við að veruleikinn er eitthvað áþreifanlegt. Við vitum það einfaldlega vegna þess að við getum ekki efast um eigin tilvist og þarmeð um tilvist veruleikans. En hvaðan fáum við upplýsingar um veruleikann? Við skynjum hann, höfum tilfinningu fyrir honum og metum hann. En hvernig vitum við hvort að þessar upplýsingar séu sannar? Hvenær er skilningur okkar á veruleikanum trú og hvenær er hann þekking?
Ef einungis er farið eftir skynjun, tilfinningu og gildismati; þá er ljóst að við finnum eitthvað sem lítur út fyrir að vera sannleikur, hljómar eins og sannleikur, lyktar eins og sannleikur, bragðast eins og sannleikur, er viðkomu eins og sannleikur, og okkur finnst vera sannleikur og við viljum að sé sannleikur vegna þess að það væri gott; og þessi trú verður svo rótföst að ekkert mun fá henni haggað; ekki einu sinni sannleikurinn sjálfur.
Það er samt ljóst að við þurfum ekki að hafna þessum skynjunum, tilfinningum og gildum til að komast að því hvað er satt og rétt; og finna mynd af stærri sannleik. Það sem við þurfum að beita er gagnrýnin hugsun; ferli sem getur hjálpað okkur að melta okkar fyrri skilning og ná enn dýpri þekkingu á því sem er og því sem ekki er.
Veruleikinn er ekki bara það sem kemur fram í fréttaþáttum og gerist í heiminum, og ekki bara sögur sem við heyrum af öðru fólki. Veruleikinn er líka allt það sem við sjálf upplifum, trúum og heyrum; segjum og vitum; og jafnvel það sem okkur dreymir. Getur verið að draumar séu ein af mörgum uppsprettum upplýsinga um veruleikann?
Það er fólk sem telur svona pælingar einskis virði; að þær flæki bara málin, að við vitum hvað skiptir máli án þess að þurfa nauðsynlega að flækja það með einhverjum pælingum. Svo er líka til fólk sem telur svona pælingar ekki bara einhvers, heldur mikils virði; að þær gagnist við að ná tökum á eigin skilningi á veruleikanum og jafnvel tilgangi okkar hér á jörð. Hvað um þig?
Ef þú trúir að tilgangur okkar sé enginn, segðu mér þá hvað þetta ekkert er. Ef þú trúir að tilgangurinn sé tengdur því hvað við gerum, segðu mér þá hvað þarf að gera til að ná þessum tilgangi. Ef þú trúir að tilgangurinn sé tengdur því hlutverki sem við gegnum, segðu mér þá hvert hlutverk þitt er. Ef þú trúir að tilgangurinn sé einfaldlega sá að vera maður sjálfur, segðu mér þá hver þú ert.
Er það rétt að gagnrýnin hugsun geti hjálpað okkur að komast framhjá sýndinni og að veruleikanum sjálfum? Ég trúi því. En sjálfsagt þyrfti ég þá að útskýra hvað ég tel gagnrýna hugsun vera og hvað ég tel hana ekki vera.
Meira um gagnrýna hugsun síðar...
Myndir: Úr Waking Life
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Abre los Ojos (1997) ****
6.8.2007 | 09:59
César (Educardo Noriega), sjálfselskur og ríkur glaumgosi, heldur afmælisveislu heima hjá sér og bíður meðal öðrum sínum besta vini, Pelayo (Fele Martinéz) í veisluna. Pelayo gerir þau mistök að taka kærustuna sína, Soffíu (Penélope Cruz) með, en César verður strax hrifinn af henni og grípur tækifærið þegar vinur hans hefur drukkið of mikið, og fylgir stúlkunni heim. Eftir nóttina, þegar César heldur heim á leið, keyrir Nuria (Najwa Nimmi) upp að honum og býður honum far. Hann sest upp í hjá henni. Hún keyrir bílnum vísvitandi útaf veginum á ofsahraða, drepur sjálfa sig en César lifir af, með ónýtt andlit.
Þar sem að César metur ytri fegurð en telur allt tal um innri fegurð tóma vitleysu hrynur líf hans. Hann trúir ekki að nokkrum geti líkað við hann með þetta afmyndaða andlit. Hann trúir ekki að Soffía geti elskað hann og efast um vináttu Pelayo. César leitar ráða hjá bestu lýtalæknum í heimi, en enginn getur lagað andlit hans. Síðasta úrræðið er að láta frysta sig og lifa í draumaheimi í stað veruleikans.
Eftir kaldrifjað morð situr César í fangaklefa og er í stöðugum viðtölum með sálfræðingi, sem reynir að grafast fyrir um hvers vegna César myrti manneskju og leitar leiða til að finna honum hugarró. César felur andlit sitt með grímu, enda trúir hann að andlit sitt sé afmyndað undir henni. Eftir dáleiðslutíma hjá sálfræðingnum fer César að gruna veruleikann vera annan en það sem hann upplifir. Hann fer að gruna að hann sé hvorki staddur í veruleikanum né draumi; heldur martröð og sjálfskaparvíti sem hann verður að sleppa úr.
Abre los Ojos er spænsk mynd, leikstýrð af Alejandro Amenábar, sem meðal annars hefur einnig gert hinar stórgóðu The Sea Inside og The Others. Abre los Ojos var endurgerð af leikstjóranum Cameron Crowe undir nafninu Vanilla Sky. Endurgerðin er ekki jafngóð frumgerðinni, þar sem að leikur Eduardo Noriega er óviðjafnanlegur og Tom Cruise kemst ekki með tærnar þar sem Noriega hefur hælana.
Abre los Ojos fjallar um hugtök og spurningar sem hverjum og einum er mikilvægt að skilja og velta fyrir sér.
- Veltur hamingjan á fegurð og ríkidæmi, eða trú manns á eigin ágæti; eða sannleikanum sjálfum?
- Getur nokkur einstaklingur þekkt sjálfan sig og verið sáttur við það sem hann finnur; og ekki bara sáttur, heldur hamingjusamur?
- Hefur það illa sem við framkvæmum áhrif á eigin hamingju, eða skiptir það engu máli þegar á heildina er litið?
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 4. sæti: The Matrix (1999-2003)
5.8.2007 | 12:18
Tölvuforritarinn og hakkarinn Thomas A. Anderson (Keanu Reeves) uppgötvar að í heiminum er ekki allt sem sýnist, og að í raun sé heimurinn ekkert annað en sýndarveruleiki, hannaður í risastórri tölvu sem keyrð er af manneskjum sem ræktaðar eru til að vera ekkert annað en rafhlöður alla ævi. Sumar af þessum manneskjum vakna til lífsins og átta sig á að þær geta haft áhrif á sýndarveruleikann, og meðal annars vakið til lífsins áhugaverða einstaklinga.
Morpheus (Laurence Fishburne), leiðtogi þeirra sem hafa vaknað, grunar að Anderson sé öðruvísi en allir aðrir; og sendir hann einn af sínum bestu útsendurum, Trinity (Carrie-Anne Moss) til að vekja hann áður en vírusvarnarforritin, eða Agent Smith (Hugo Weaving) ná honum. Semsagt, manneskjur sem vakna til vitundar eru tölvuvírusar sem kerfið reynir að stoppa.
Morpheus nær sambandi við Anderson, segir honum sögu The Matrix og býður honum að taka bláa eða rauða töflu; eina sem gerir honum fært að lifa áfram í sýndarveruleikanum, en hina sem sýnir honum heiminn eins og hann er. Anderson velur raunveruleikann og verður að Neo, ofurhetju í sýndarveruleikanum sem er sá eini sem hefur nokkur tök á að berjast við Agent Smith og gengi hans.
Á sama tíma og Neo leitar upplýsinga í sýndarveruleikann um hvernig hægt er að bjarga mannkyninu frá því að vera eintómar rafhlöður, fréttir hann af borg í raunveruleikanum sem heitir Síon, þar sem allar þær manneskjur sem hafa vaknað til lífsins búa.
The Matrix er hrein snilld. Frábær mynd í alla staða. En í kjölfar hennar fylgdu lakari myndir, The Matrix Reloaded (2003) og The Matrix Revolutions (2003) sem ljúka sögunni, þar sem Neo tekst að auka enn frekar krafta sína og yfirfæra þá yfir í veruleikann, auk þess sem að við kynnumst borginni Síon, útþynntri útgáfu af undirheimum hvaða stórborgar sem er, og stóra spurningin verður hvort að hún sé þess virði að henni verði bjargað frá gervigreindarheiminum; spurning sem að Neo spyr sjálfan sig í lokin.
Reyndar er The Matrix á mörkunum að geta kallast ofurhetjumynd, en þar sem Neo getur flogið, hægt á tímanum og barist eins og ofurhetja í sýndarveruleikanum, þá rétt sleppur hún.
10 bestu ofurhetjumyndirnar:
4. sæti: The Matrix (1999-2003)
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Death Proof (2007) ***1/2
4.8.2007 | 10:08
Þegar Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gáfu út að þeir væru að gera bíómynd saman sem kallaðist Grindhouse, varð ég strax spenntur og gat varla beðið eftir útkomunni. Grindhouse var sett upp sem kvikmyndakvöld sem enginn átti að geta gleymt. Fyrst var uppvakningamyndin Planet Terror (2007) sýnd, í leikstjórn Rodriguez, og sú seinni Death Proof í leikstjórn Tarantino. Það eina sem átti að skilja myndirnar að voru sýnishorn úr myndum sem eru ekki til. Þótti þessi upplifun sérstaklega vel heppnuð og er Grindhouse sem ein kvikmynd með einkunnina 8.4 á Internet Movie Database, sem þýðir að hún er 98. besta kvikmynd sem gerð hefur verið samkvæmt því kerfi.
Vandamálið er að Grindhouse náði ekki inn nógu miklu af peningum. Hinn almenni kvikmyndagestur fattaði ekki hvað Tarantino og Rodriguez voru að gera, og margir fóru heim í hlénu og misstu af kvikmynd Tarantinos. Þetta þýddi að þegar til Íslands kom var Grindhouse einfaldlega ekki í boði. Þess í stað eru myndirnar sýndar í sitthvoru lagi og í ólíkum kvikmyndahúsum, þannig að manni er jafnvel gert erfitt fyrir með að horfa á þær í röð.
Ég var búinn að ákveða að fara ekki á þessar myndir í bíó, né kaupa þær á DVD. Ég var virkilega svekktur yfir að fá ekki að sjá bíómyndina eins og leikstjórarnir ætluðu upphaflega að hafa hana, og skil ekki hvers vegna kvikmyndahúseigendum dettur ekki í hug að halda Grindhouse kvöld a.m.k. einu sinni til að gera þetta mögulegt. Ljóst er að græðgishyggjan er að drepa íslenskt bíó; það kostar 900 kall í bíó sem fólki finnst einfaldlega alltof mikið (álíka mikið og kostar í bíó á dýrustu sýningar í stærstu höfuðborgum heims), og þannig eru Íslendingar vandir af því að stunda þessa mikla skemmtun. Þess í stað virðist fólk annað hvort bíða eftir myndinni á DVD eða hlaða þeim niður af netinu, sem er ekki góð hugmynd þegar um sjóræningjaútgáfur er að ræða, aðallega vegna þess að gæði slíkra mynda jafnast sjaldan á við að sjá flotta mynd í bíó. Reyndar hafa fyrirtæki víða um heim tekið upp á að bjóða löglegt niðurhal á myndum gegn gjaldi, sem er reyndar varla raunhæfur kostur á Íslandi þar sem rukkað er ansi stíft fyrir megabætið í erlendu niðurhali. Þar að auki, fyrir 900 kall í bíó ætlast maður til að fá einhverja þjónustu, en það bregst ekki; gólfið í íslenskum bíóhúsum er með því ógeðslegasta sem maður upplifir í heiminum; klístrug og skítug, og það sama má segja um sætin. Þau lykta oft ansi illa og eru ekkert endilega þægileg. Svo eru líka alltaf þessi andskotans hlé sem klippa bíómyndirnar í sundur hvort sem að maður vill eða ekki. Það er engin furða að heimabíóin eru orðin vinsælli en kvikmyndahúsin.
Vissulega vandist ég á góða hluti í Mexíkó, þar sem kvikmyndahúsin eru snyrtileg, það kostar ekki nema um kr. 250 á hverja sýningu, engin hlé, stólarnir eru þægilegir og bæði mynd- og hljóðgæði eins góð og hægt er að hugsa sér; og svo er spænskur texti með myndunum, sem maður kippir sér reyndar ekkert upp við. Á Íslandi eru flest bíó því miður þriðja flokks. Ég fór oft tvisvar í viku á bíó, en þegar ég kom heim til Íslands nánast hætti ég bíóferðum af öllum þeim ástæðum sem að ofan greinir. Það er nánast búið að venja mig af þessari fíkn. Þess í stað leigi ég og kaupi fleiri myndir á DVD, en að kaupa eina DVD mynd er oft ódýrara en einn bíómiði.
Út af öllu þessu ætlaði ég ekki að fara á Death Proof í bíó. Mér finnst alltof mikið vaðið yfir mig sem bíógest á Íslandi, en ég er bara ekki sterkari persóna en svo að ég stóðst ekki freistinguna. Mig langaði í bíó og Death Proof gat orðið að góðri skemmtun.
Jæja, hvað um það.
Death Proof fjallar um hóp kvenna sem skuggalegur maður, kallaður Stuntman Mike (Kurt Russell) eltir á röndum. Persónurnar eru sérstaklega vel byggðar. Manni finnst þær vera til. Tarantino tekst í þessari mynd að gera það sem gerði Pulp Fiction (1994) að svo frábærri skemmtun, hann fylgir gamalreyndri formúlu, snýr svo uppá hana og gengur lengra en nokkur myndi þora að vona. Hann er meistari í því að koma áhorfandanum á óvart, og það að honum skuli takast það í mynd sem segir allt sem segja þarf í titlinum, er mikið afrek. Tvisvar snýr hann myndinni upp á rönd og mölvar formúluna í spað á áhrifaríkan hátt.
Kurt Russel nær að skapa besta karakter síðan hann var Snake Pliskin í John Carpenter myndunum Escape from New York (1981) og Escape from L.A. (1996) Hann á heima á sama stalli og Vincent Vega úr Pulp Fiction og Mr. White úr Reservoir Dogs (1992). Hefði mátt kalla hann Stuntman Vega. Konurnar eru líka góðar, sérstaklega Pam (Rose McGowan), Abernathy (Rosario Dawson) og Zoe Bell sem leikur sjálfa sig.
Langbesti bílaeltingaleikur sem ég hef séð í kvikmynd birtist á tjaldinu þar sem Tarantino tekst að slá við myndum eins og Bullit (1968) og French Connection (1971) með æsilegasta eltingaleik sem gerður hefur verið, þar sem ein aðalpersónan hangir lengi á húddi bílsins sem verið er að elta.
Ekki má gleyma því að Tarantino tekst að lauma inn sígerattutegundinni Blue Apple, og minnist á hamborgarastaðinn Big Kahuna, nokkuð sem gladdi mikið Sancho félaga minn sem fór með mér á myndina. Einnig vísar hann töluvert í gamlar bílaeltingamyndir, eins og Vanishing Point (1971), sem ég einfaldlega hef ekki séð, en Sancho dásamaði mikið.
Ég mæli tvímælalaust með Death Proof, en hún inniheldur gífurlega mikið af samtölum, eins og Tarantino er von og vísa, sem sumum gæti leiðst ef þeir leita bara eftir spennu og hasar. Aftur á móti tekst með samtölunum að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur sem manni stendur ekki á sama um þegar hasarinn byrjar. Það er svona sem ég vil hafa spennumyndirnar mínar; með smá dýpt og persónum sem lögð er vinna í.
Þrátt fyrir að fá Death Proof ekki sem hluta af Grindhouse veislunni, stendur hún sterk ein og sér.