Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 5. sæti: Superman (1978-2006)
1.8.2007 | 18:17
Superman: The Movie (1978) stuðlaði að byltingu í ofurhetjukvikmyndum. Þetta var fyrsta bíómyndin byggð á teiknimyndapersónum sem þorði að taka sjálfa sig alvarlega. Salkind feðgarnir sem fjármögnuðu myndina tóku gífurlega áhættu með því að fá til liðs við sig Marlon Brando til að leika föður Superman, stærsta nafnið í Hollywood eftir The Godfather (1972) og The Last Tango in Paris (1972), og Gene Hackman, sem var eitt stærsta nafnið í Hollywood á 7. áratug 20. aldar, sérstaklega eftir stórmyndirnar The French Connection (1971), The Poseidon Adventure (1972), The Conversation (1974) og Young Frankenstein (1974).
Ef Marlon Brando hefði ekki fyrstur samþykkt til að leika í myndinni, þá er ólíklegt að ofurhetjumyndir hefðu náð þeim vinsældum sem þær hafa náð í dag. Það sérstaka við ofurhetjumyndir er að þær eru kvikmyndaútgáfan af nútíma goðsögum; en Superman er að sjálfsögðu endurímyndun Herkúlesar úr grísku goðafræðinni og Þórs úr þeirri norrænu. Það sem gerði þessar fornu hetjur heillandi er nákvæmlega það sem kveikir áhuga fólks á Superman.
Vísindamaðurinn Jor-El og eiginkona hans Lara hafa tekið virkan þátt í að mynda fyrirmyndaríki á plánetunni Krypton. Þegar Jor-El verður var við geimfyrirbæri sem ógnar tilvist plánetunnar, og ráðamenn standa í veg fyrir að hann bjargi Kryptonkyninu frá tortýmingu, ákveður hann að senda son sinn, Kal-El, með geimskipi til Jarðar. Þar sem að frumeindir í líkama Kryptonbúa eru mjög þéttar, verður Kal-El gífurlega sterkur á jörðinni. Drengurinn er tekinn í fóstur hjá Kent fjölskyldunni. Hann vex úr grasi og flytur til Metropolis, þar sem hann lifir hversdagslífinu sem blaðamaðurinn Clark Kent, en tekur af sér gervið þegar nauðsyn krefur og bjargar manni og öðrum sem Superman.
Sagan snýst um ástarævintýri Clark/Superman og Luis Lane annars vegar; og um glæpsamlegar áætlanir snillingsins Lex Luthor um að sökkva hluta af Bandaríkjunum til þess að geta selt landsvæði sem hann hefur fjárfest í, en er aðeins eyðimörk. Superman bjargar að sjálfsögðu öllum málum, en þó ekki án þess að breyta sjálfum náttúrulögmálunum (sem er að mínu mati eini gallinn við myndina).
Christopher Reeve varð að stjörnu í hlutverki Superman, og átti eftir að sýna í lífinu sjálfu, eftir að hafa hálsbrotnað eftir fall af hestbaki, að hann var ofurmannlegur þegar kom að baráttunni fyrir eigin bata; og þegar hann áttaði sig á að hann myndi aldrei ná fullum bata, varð hann ofurmannlegur í baráttunni fyrir betri lífsgæðum lamaðra.
Superman II (1980) er svolítið merkileg. Megnið af henni var tekin upp á sama tíma og fyrsta myndin, en þegar kom að því að klára hana, var leikstjóranum Richard Donner rekinn frá störfum; og það þrátt fyrir geysilega vel heppnaða fyrstu mynd. Þetta varð til þess að Richard Lester tók við keflinu og stóð sig bærilega. Hann notaði mikið af því efni sem Donner hafði tekið upp, en bætti einnig við fjölda atriða sem höfðu meiri 'húmor'; og fyrir vikið tók hann myndina ekki jafn alvarlega og þá fyrri, og úr varð mun lakari framhaldsmynd.
En Richard Donner fékk hins vegar tækifæri til að púsla saman sinni útgáfu á síðasta ári; og þó að ekki hafi tekist að ljúka henni fullkomlega, af tæknilegum ástæðum, þá er um mun betri mynd að ræða; þar sem Marlon Brando endurtekur hlutverk sitt - en hann birtist ekkert í Richard Lester útgáfunni. Það má segja að Richard Donner útgáfan hafi sál, en Lester útgáfan þynni hana út.
Í þessari mynd losna þrír uppreysnarmenn frá Krypton úr fangelsi sem Jor-El hafði fundið upp; og hefur foringi þeirra heitið því að uppræta fjölskyldu Jor-El. Því er sjálfsagt að hópurinn heldur með ofurkrafta til jarðar, leggur allt í rúst og ætlar að drepa Superman; en á sama tíma hefur Superman ákveðið að hafna kröftum sínum til að geta lifað sem manneskja með Luis Lane.
Þegar hann uppgötvar að jörðin er orðin að vígvelli sem enginn getur bjargað nema Superman, þarf hann að taka mikilvæga ákvörðun: að fá ofurkraftana aftur og verða aldrei mennskur aftur, eða deyja fljótt á hertekinni jörð með konunni sem hann elskar.
Superman III (1983) var leikstýrð af Richard Lester. Richard Pryor leikur eitt aðalhlutverkið, og kannski þess vegna er myndin nánast einn skopleikur. Pryor leikur tölvusnilling sem getur stjórnað gervihnöttum og haft áhrif á hvað sem er á jörðu niðri, auk þess að hann finnur leið til að skapa ofurtölvu með öfluga gervigreind. Superman þarf að stoppa þennan snilling og illmennin sem toga í strengi hans.
Mest af þessari mynd er drasl. Samt er hluti af Superman III hrein snilld. Það er þegar Superman hefur fengið gervi-kryptonít loftstein að gjöf, sem hefur þau áhrif á Superman að honum verður nákvæmlega sama um allt, sem verður til þess að hann mótast smám saman í hreint illmenni. Þessi sena er myndarinnar virði. Annað ekki.
Superman IV: The Quest for Peace (1987) er mistök frá A til Ö. Það er ekki nóg með að sagan sé hallærisleg, um tilraun Superman til að eyða öllum kjarnorkuvopnum á jörðinni, sem verður svo til þess að Lex Luthor misnotar skortinn á kjarnorkuvopnum til að græða pening og búa til Kjarnorkumanninn til að berjast við Superman, heldur eru tæknibrellurnar svo skelfilega lélegar að það er varla horfandi á myndina. Þetta varð til þess að ekki var gerð ný Superman mynd í 20 ár.
Superman Returns (2006) er nýjasta afurðin um ofurmennið Superman. Hún er tæknilega frábær og leikstýrð af miklu öryggi. Aftur á móti er hún frekar sálarlaus; þ.e.a.s. leikurinn og handritið eru ekkert framúrskarandi, en klára samt sína vinnu.
Superman hefur verið í rannsóknarleiðangri í fimm ár til að finna út hvað varð um plánetuna Krypton. Hann snýr aftur með þá vitneskju að allir á Krypton fórust. Þegar hann mætir aftur til vinnu í Metropolis hefur Luis Lane eignast barn og er trúlofuð syni ritstjóra Daily Planet. Hans fyrsta verk er að sjálfsögðu að bjarga lífi hennar; en nú er staðan aðeins flóknari, því að hann yfirgaf hana fimm árum fyrr - og getur ekki reiknað með að verða sjálfkrafa hluti af lífi hennar aftur.
Þessi tónn virkaði alls ekki á mig þegar ég sá Superman Returns í bíó. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Svo sá ég hana um daginn á DVD, og væntingarnar voru þá vissulega ekki jafn miklar; en ég áttaði mig þá á að myndin er mun betri en mér hafði upphaflega fundist; hún er bara svo allt öðruvísi en ég vonaðist til, þess vegna hafði ég dæmt hana af hörku. Í dag finnst mér Superman Returns vera feikigóð mynd, þ.e.a.s. eftir að ég hafði sætt mig við tóninn.
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)