Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
Vanþekking er ekki vandamál; hún heillar
29.7.2007 | 11:40
Í veikindum mínum ákvað ég að stytta mér stundir við að kíkja á síðustu þætti Jon Stewart. Stewart er einn af þeim fáu húmoristum sem geta kitlað hláturtaugar mínar inn að beini, nokkuð sem maður þarf á að halda í leiðinda veikindum. Einn af viðtalsþáttum hans kveikti svolítið í mér, og ég held að hann gæti kveikt áhuga hjá fleirum sem horfa á.
Jon Stewart er fyrirtaks þáttarstjórnandi, þar sem allt kemur honum við, sérstaklega hlutir sem snerta stjórnmál og lykta af hræsni og spillingu. Hann er vanur að sneiða slík mál með hárbeittum húmor og satíru. Hann gerir samt fleira en að gagnrýna stjórnvöld. Hann reynir einnig að benda á hluti sem eru vel gerðir. Hann á það til að stjórna viðtölum við framúrskarandi fólk á ýmsum sviðum. Eitt af skemmtilegustu viðtölum sem ég hef séð hjá honum er við stjarneðlisfræðinginn Neil deGrasse Tyson, stjórnanda Nova Science.
Smelltu á myndina til að skoða myndbandið á Comedy Central:
Hugleiðingar eftir áhorfið:
Ég held að kennarar hefðu gott af því að skoða þetta myndband og muna að þegar nemendur komast í námunda við jafn mikinn áhuga á viðfangsefninu og Tyson sýnir, þá geta þeir ekki annað en smitast af honum. Málið er að komast eins nálægt því óþekkta og við komumst; því þar finnum við þverhnípi sem þarf að brúa. Það getum við gert með því að spyrjast fyrir um grunnforsendur þekkingar okkar og með þvi að skoða þau svör sem við lifum við í dag.
Vísindin koma ekki með nein endanleg svör við spurningum, heldur aðeins stökkpalla í átt að nýjum vísbendingum um það sem við þekkjum ekki. Vísindaleg þekking verður fyrst til þegar við höfum tekist á við þessar spurningar í eigin persónu. Ef einhver segir þér hvernig hlutirnir eru og útskýrir það fyrir þér, verður ekki til þekking; aðeins trú. Ef þú leggur á þig nógu mikla vinnu til að uppgötva þá af eigin raun, þá fyrst verður raunveruleg þekking til. Þetta á við um öll svið þekkingar, ekki aðeins vísindalega.
Það getur verið ógurleg vinna fyrir hvern einstakling að grafa sig inn í öll möguleg mál til að öðlast sanna þekkingu. Það virðist ógerningur. Þess vegna lifum við flest eftir annars stigs þekkingu og trú frekar en sannri þekkingu; að öðlast sanna þekkingu er tímafrekt og krefjandi. Okkur getur einnig þótt erfitt að átta okkur á muninum. Sá sem þekkir muninn á trú og þekkingu er betur staddur en þeir sem ekki gera það.
- Þekkir þú muninn á trú og þekkingu?
- Hvernig greinum við skilin á milli þess sem við þekkjum og þess sem við trúum?
- Er munur á að 'trúa' einhverju og að 'trúa á' eitthvað?
- Er vanþekking vandamál eða blessun?
- Þegar þú uppgötvar að þú veist ekki eitthvað, hvernig bregstu við? Með því að hylma yfir eigin vanþekkingu og skammast þín eða taka á vanþekkingunni með jákvæðum hætti, sem spennandi viðfangsefni?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ekki hættur að blogga.
25.7.2007 | 22:31
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að heyra þessa spurningu nokkuð oft upp á síðkastið: "ertu nokkuð hættur að blogga?". Svarið er nei, ég er ekki hættur. Aftur á móti hef ég verið veikur í nokkra daga og einbeiti mér að því að ná aftur fullum styrk, þannig að næsta bloggfærsla sem vit er í fær að bíða fullrar heilsu.
Þá mun ég halda áfram með upptalningu á uppáhalds ofurhetjukvikmyndum mínum, segja meira frá heimsmeisturunum, taka upp þráðinn með Óskarsverðlaunamyndirnar og sitthvað fleira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Íslendingar heimsmeistarar í grunnskólaskák!
18.7.2007 | 11:39
Lengstu tveimur klukkustundum í lífi mínu lauk núna rétt áðan. Salaskóli þurfti að vinna S-afríska sveit 3-1 til að tryggja sér titilinn, en það væri ef hin sveitin sem var að keppa við okkur um 1. sætið næði 4-0 sigri á Qatar U-14.
Þetta var æsispennandi.
Páll Snædal Andrason vann sína skák á 20 mínútum. Þá þurftum við aðeins tvo til viðbótar og sigurinn í höfn. Stuttu síðar sigraði Qatar á 1. borði mjög örugglega, en Birkir Karl Sigurðsson, hinn snjalli varamaður Salaskólaliðsins hafði heitið á 1. borðsmann Qatar að ef honum tækist að vinna gæfi hann honum ísbjarnarleikfang. Snjallræði hjá Birki! Mætti kalla þetta ísbjarnabragð! Nú þurftum við bara einn vinning til að tryggja okkur sigur.
Þá tapaði Guðmundur Kristinn Lee eftir miklar flækjur á 4. borði. Staðan hjá Qatar og S-Afríku var jöfn á þeirra 4. borði, en Qatar drengurinn tefldi betra endatafl mjög illa og koltapaði þeirri skák. Spennan hékk ennþá í loftinu.
Nú var komið að Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur. Hún hafði í upphafi skákar náð fínni stöðu, var peði yfir; en tapaði því svo aftur. Andstæðingnum tókst að koma hrókunum innfyrir vörn Jóhönnu, en samt tókst henni að standa í honum. Eftir að hafa loks snerið á hann og komin með frípeð og öruggt jafntefli, þar sem andstæðingurinn þurfti að þráskáka hana til að hún fengi ekki drottningu, þá var hún aðeins of bjartsýn, ætlaði sér að vinna frekar en ná jafntefli; lék af sér peðinu og tapaði. Nú var okkar helsta von að Patrekur næði að knýja fram sigur.
Í þá mund tókum við eftir að Qatar voru manni yfir á þriðja borði. Þegar þeirri skák lauk með sigri Qatar var heimsmeistaratitillinn í höfn. Patti þurfti ekki að vinna síðustu skákina. Sigurinn var gulltryggður.
Patrekur Maron Magnússon lauk sinni skák með jafntefli, og tryggði Íslendingum vinnings forskot á næstu sveit. Þar með var heimsmeistaratitillinn í höfn. Qatar tapaði á 2. borði, en það skipti ekki lengur máli.
Úrslit í U-14
1. sæti: Salaskóli, Ísland, 17 vinningar
2. sæti: Gene Louw Primary, S-Afríka, 16 vinningar
3. sæti: Uitkyk Primary, S-Afríka, 13,5 vinningar (8 stig)
4. sæti: Qatar: 13,5 vinningar (6 stig)
Einstaklingsárangur:
1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2 vinningar / 9)
2. borð: Patrekur Maron Magnússon (6 vinningar / 9)
3. borð: Páll Snædal Andrason (5 vinningar / 9)
4. borð: Guðmundur Kristinn Lee (3,5 vinningar / 7)
Varamaður: Birkir Karl Sigurðsson (0,5 vinningur / 2)
Keppendur vilja þakka eftirtöldum stuðninginn:
- Kópavogsbæ
- Glitni
- Skáksambandi Íslands
- Salaskóla
- Tómasi Rasmus
- Eddu Sveinsdóttur
- Hafrún Kristjánsdóttur
- Sigurði Braga Guðmundssyni
- Eiríki Erni Brynjarssyni
- Ragnari Eyþórssyni
- Ómari Yamak
- Foreldrum og aðstandandum keppenda og þjálfara
- Öllum þeim Íslendingum sem studdu okkur og hvöttu í orði og verki
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Áfram Ísland!! Enn möguleiki á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga, en tæpt er það og spennandi!
17.7.2007 | 19:56
Í dag tefldum við gegn sterkustu sveit mótsins, tékkneska U-16 sveit. Patti gerði stutt jafntefli, en Jóhanna, Palli og Gummi töpuðu öll.
Þrátt fyrir 3.5-0.5 tap erum við ennþá efst í U-14 flokki. Á morgun verður tefld hrein úrslitaviðureign gegn S-afrískri sveit. Það eru tvær S-Afríkusveitir í mótinu. Í annari sveitinni eru bara einstaklingar með hvítan húðlit, og hinni aðeins einstaklingar með dökkan. Apartheit á skákborðinu?
Við teflum gegn hörundsdökku S-Afríkubörnunum í fyrramálið, en hörundsljósa S-Afríkusveitin er að keppa við okkur um fyrsta sætið. Við þurfum að vinna viðureignina 3-1 til að tryggja okkur titilinn, en það er séð veiði en alls ekki gefin; því að taflmennska og einbeiting okkar manna hefur verið að taka dýfur. Þau telja það vera vegna mikils hita; en ég held að það sé vegna þess að þau eru yfir sig spennt yfir stöðu mála og eiga erfitt með að halda ró sinni þess vegna. Megin keppinautar okkar tefla hins vegar gegn Qatar U-14.
Mikið liggur undir. Heiðurinn. Metnaðurinn. Gleðin.
Dramatísk lokaumferð hefst kl. 9:00 í fyrramálið. Börnin eru mjög þakklát yfir stuðningnum og kveðjunum sem rignt hefur yfir okkur, hér á blogginu, í tölvupósti og á Skákhorninu. Það er ljóst að slíkt bakland eins og Íslendingar eru og að finna fyrir slíkum algjörum stuðningi er ómetanlegt þegar á hólminn er komið.
Meira á morgun...
Áfram Ísland!!
Forustu á heimsmeistaramóti haldið þrátt fyrir erfiðan dag
16.7.2007 | 20:57
Í dag voru tefldar tvær umferðir, sú fyrri gegn Qatar U-16 og sú síðari gegn Qatar U-14. Fyrri viðureignin gekk betur en við áttum von á en sú síðari verr; þannig að þetta jafnaðist út.
Við gerðum 2-2 jafntefli við Qatar U-16. Patti og Palli sigruðu báðir af miklu af öryggi, en Jóhanna tapaði eftir byrjunarmistök, og Birkir Karl tapaði eftir að hafa byggt upp trausta stöðu, en síðan leikið af sér á viðkvæmu augnabliki þar sem hann gat unnið heilan mann af andstæðingnum, en yfirsást það. Birkir Karl rakst utan í kóng sinn sem féll; hann reisti hann strax við, en adnstæðingur hans krafðist þess að hann hreyfði manninn þar sem hann var snertur. Birkir Karl mótmælti hástöfum og skákdómarar komust að þeirri niðurstöðu að krafan var ósanngjörn þar sem Birkir hafði aðeins rekist utan í manninn. Má segja að þetta hafi verið hluti af sálfræðihernaði Qatar gegn Íslendingum; sem leggjast ekki það lágt að stunda skotgrafarhernað, heldur gera einfaldlega sitt allra besta.
Kl. 15:00 byrjaði svo seinni umferðin kl. 15:00, en þá var hitinn orðinn nánast óbærilegur fyrir börnin; þau gátu varla setið kyrr vegna hita; drukku mikið vatn, og reyndu að sigrast á aðstæðum. Það var erfitt. Þau töpuðu sinni fyrstu viðureign í mótinu gegn U-14 sveit, 2.5-1.5 gegn Qatar U-14. Gummi, Palli og Patti gerðu allir jafntefli, en Jóhanna tapaði eftir slæma afleiki í mjög vænlegri stöðu.
Þrátt fyrir okkar fyrsta tap erum við með 4 vinninga forystu, og aðeins 2 umferðir eftir (8 mögulegir vinningar). Þannig að spennan er gífurleg, og ljóst að mikilvægt er að geta brosað og hlegið almennilega fyrir 8. og næststíðustu umferð.
9 umferða kappskákmót án hvíldardags er mikil þolraun. Nú vonar maður bara að þau haldi út síðustu tvær umferðir.
8. umferð er kl. 13:00 að íslenskum tíma á morgun; og mun ég senda inn fréttir eins fljótt og ég get þegar þeirri umferð er lokið.
Baráttukveðjur velkomnar!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Raunverulegur möguleiki á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga
15.7.2007 | 21:52
Góðir möguleikar á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga, en mér finnst nóg um hversu mikið er lagt á börnin. (Sigurður Bragi Guðmundsson)
Dagur 5:
Í dag fengu Íslendingar tékknesku U-14 sveitina og lögðu hana 4-0. Jóhanna Björg vann sinn andstæðing eftir laglega sókn á kóngsvæng. Patti sigraði af miklu öryggi. Palli vann með einstakri heppni, og Gummi lagði sinn andstæðing létt.
Á morgun verður teflt við Qatar, fyrst U-16 sveitina og síðan U-14. Ljóst er að þetta eru lykil viðureignir þar sem heimsmeistaratitill liggur undir.
Ég mun senda inn fréttir á morgun af gengi okkar manna.
Staðan er þannig í U-14 flokki:
- 1. sæti: Salaskóli 11,5
- 2. sæti Qatar - 8,5
- 3. sæti Portugal 8,0
Fyrir utan að hafa verið að tefla allt að tvær skákir í dag, allt að fjóra tíma í senn, hafa börnin verið að stúdera þrjá til fjóra tíma á dag eftir skákirnar til að læra af þeim. Þau sýna einstaklega mikinn áhuga og dugnað, við erfiðar aðstæður, enda hótelið ekki loftkælt og hitinn 35 gráður. Börnin halda enn góðri einbeitingu þrátt fyrir bæði mikinn klið og læti í skákhöllinni, auk mikils hita. Hitinn gæti verið Qatar í hag; en spáð er um 37 stiga hita á morgun, en börnin úr Salaskóla eru vel undirbúin, hafa borðað vel, sofið vel og haldið góðum aga, þannig að þetta verður æsispennandi.
Mér finnst gott hvað Hrannar heldur góðum aga á svefnvenjum, mataræði, kurteisi, stundvísi, og góðri háttsemi. (Sigurður Bragi Guðmundsson)
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tékkland: HM í Pardubice # 3 - efst eftir fjórar umferðir
14.7.2007 | 22:27
Dagur 4:
Teflt var við skóla frá Portúgal (U-14) í 3. umferð. Jóhanna og Patrekur sigruðu af öryggi, en Palla var boðið jafntefli þegar hann var heilum manni undir, en andstæðingur hans eitthvað tæpur á tíma; sem hann að sjálfsögðu þáði fegins hendi. Birkir Karl tefldi sína fyrstu skák á heimsmeistaramóti og var greinilega mikill skrekkur í honum, en skák hans lyktaði með jafntefli. Andstæðingur hans bauð honum jafntefli þegar hann var peði yfir, og Birkir þáði það án umhugsunar.
Eftir þennan sigur, 3-1, var Salaskóli kominn í efsta sætið. Ég misskildi skákstjóra fyrir 1. umferð og hélt að sigur þýddi einfaldega 2 stig, jafntefli 1 stig og tap 0 stig. Það var leiðrétt í gær; en það eru vinningarnir sem telja fyrst og fremst.
Í 4. umferð fengum við grískan skóla (U-16), þann allra stigahæsta í mótinu. Jóhanna átti enn í vandræðum með byrjunina og lék illa af sér snemma í skákinni. Eftir það fékk hún stöðu sem erfitt var að tefla vel, og tapaði fljótt. Patti náði góðri stöðu á 2. borði en tapaði eftir að hafa gerst aðeins of sókndjarfur; en andstæðingi hans tókst að loka riddara og drottningu inni.
Palli fékk mjög góða stöðu á 3. borði, en vanmat eigin stöðu og skipti upp þar til staða hans var orðin verri. Hann lék nokkra ónækvæma leiki og skákinni í tap. Gummi sigraði aftur á móti með máti á 4. borði, eftir frekar flókna fléttu þar sem nauðsynlegt var að leika alltaf rétta leiknum; andstæðingurinn misreiknaði sig. Þannig að við náðum einum vinningi gegn þeim andstæðingum sem eru stigahæstir á pappírnum, og okkur tókst að halda 1. sætinu, þó að tæpt sé, því Kvatar kemur í humátt á eftir okkur.
Ekkert hræðilegt kom upp á í dag annað en að hitinn hefur aukist mjög; kliðurinn í salnum er jafnmikill og áður; en börnin halda einbeitingu nokkuð vel.
Á morgun verður tefld ein umferð, og rétt eins og allar aðrar umferðir er hún úrslitaumferð. Metnaður barnanna er mikill, þau leggja sig öll 100% í skákirnar, en hafa ekki alltaf jafn mikla þolinmæði þegar kemur að náms- og rannsóknarvinnunni eftir hverja skák.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tékkland: HM í Pardubice # 2 - sigur, einbeiting og ásakanir
13.7.2007 | 22:26
Dagur 3:
Á myndinni, frá vinstri: Guðmundur Kristinn Lee, Páll Andrason, Patrekur Maron Magnússon, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Birkir Karl Sigurðsson stendur og fylgist með.
Dagurinn í dag var viðburðarríkur fyrir börnin. Í gærkvöldið og í morgun píndi ég þau til að fara yfir allar skákirnar sínar í hóp; sem var mjög lærdómsríkt, þó að sumum hafi þótt það heldur leiðinlegt til lengdar. En svona er þetta, árangur er einungis á undan erfiði í orðabókum.
Andstæðingarnir voru skóli frá Suður-Afríku (U-14). Þetta var æsispennandi umferð, því að ég sá ekki betur en að við vorum með tapað bæði á 3. og 4. borði; en þeim Páli Andrasyni og Guðmundi Kristni Lee tókst samt báðum að snúa á andstæðingana eftir erfiðar stöður. Patrekur var lengi með mun betra á 2. borði en lék ónákvæmum leik í um 30. leik, sem þýddi að hann tapaði peði og var nánast kominn með tapað. Honum tókst þó að koma upp þráskáksstöðu, en andstæðingur hans vildi alls ekki þráskák og lék þess í stað af sér heilum hrók; og eftir það var eftirleikurinn auðveldur fyrir Patta. Jóhanna misreiknaði sig aðeins í byrjuninni og átti mjög erfitt uppdráttar mest alla skákina. Það kom upp staða þar sem hún hélt sig vera að tapa manni, en átti mjög fallegan leik sem gat bjargað stöðinni algjörlega. Henni yfirsást því miður þessi leikur og tapaði skákinni. Krakkarnir eru að standa sig vel, halda hópinn og hafa gaman af hverju öðru. Þeim finnst erfitt hvað ég píni þau mikið í stúderingar, en inn á milli hleypi ég þeim þó í knattspyrnu og verslanir.
Á morgun keppa þau tvær umferðir. Ég legg mikið upp úr því að þau njóti skákanna og hafi gaman af, og læt þau vita að mín vegna skiptir ekki máli hvort þau vinni eða tapi skákum. Þau eru búin að vinna sér inn ferð á heimsmeistaramót, og hvatningin kemur þaðan sem hún verður að koma til að ná árangri, innanfrá.
Eitt af foreldrum andstæðinga okkar taldi sig sjá okkur svindla í dag, þar sem að krakkarnir stóðu stundum upp frá skákum og spjölluðu saman. Þessi kona skapaði mikla ringulreið þegar hún krafðist þess af skákstjóranum að börnunum yrði refsað á einhvern hátt. Börnin hafa vanist því á Íslandi að hægt er að standa upp frá skákum, fara fram og spjalla aðeins saman um annað en skák; en allt spjall er harðbannað hérna, a.m.k. á meðan skákir standa yfir; og mér sem liðstjóra var einnig harðbannað að tala við þau á meðan skákirnar stæðu yfir. Þetta vakti mikla umræðu hjá börnunum og eru þau staðráðin í því að tala ekki oftar saman á meðan skákir þeirra eru í gangi.
Það var mikill kliður í skáksalnum og jafnvel töluvert um það að fólk talaði saman háum rómi örfáum metrum frá keppendum. Sumir eiga auðveldara en aðrir með að aðlagast slíkum aðstæðum. Skipuleggjendur mótsins eru engan veginn að standa sig í að gera aðstæður boðlega keppendum á alþjóðlegu skákmóti, þar sem nauðsynlegt er að ró og friður ríki til að menn geti haldið einbeitingu sinni. Því finnst mér það hreint afrek hjá börnunum að ná þessum góða sigri, þrátt fyrir óvenju mikið áreiti á skákstað.
Sendum sérstakar þakkarkveðjur til Hafrúnar Kristjánsdóttur sem hitti hópinn fyrir ferðina og kenndi okkur leiðir til að bæta einbeitingu og keppnisskap. Sá fyrirlestur var mjög gagnlegur og ljóst að börnin eru að tileinka sér leiðbeiningar hennar í verki.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tékkland: HM í Pardubice # 1
13.7.2007 | 08:06
Dagur 1:
Hópurinn fríði lagði af stað kl. 4:30. Flug til Kaupmannahafnar kl. 7:00 og til Prag kl. 14, og svo rúta til Pardubice kl. 17:00.
Ferðin var tíðindalaus að mestu, sem er gott fyrir svona ferðir. Börnin borðuðu góðan kvöldmat og ættu að vera sæmilega stillt fyrir 1. umferð heimsmeistaramóts barnaskólasveita sem hefst k. 15:30 á morgun.
Sveitin er þannig skipuð:
- Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
- Patrekur Maron Magnússon
- Páll Snædal Andrason
- Guðmundur Kristinn Lee
- Birkir Karl Sigurðsson
Dagur 2:
Allir eru orðnir vel þreyttir núna kl. 20:00. Kominn tími til að fara í háttinn.
Þegar á skákstað var komið daginn eftir hafði umgjörð mótsins verið breytt. U-14 og U-16 eru að keppa í sama hollli, og umferðum hefur verið fjölgað úr 7 í 9. Við erum U-14 og lentum á móti U-16 sveit frá Prag í fyrstu umferð. Ég er ekki viss um að þeir hafi verið neitt sterkari skákmenn en okkar krakkar, sem tefldu ekki alveg eins og þau eiga að sér, nema þá kannski Patti á 2. borði, en hann var sá eini sem náði jafntefli. Þannig að 1. umferð töpuðum við 3.5-0.5.
Það skiptir ekki máli hversu stórt er sigrað eða tapað, því að liðið fær aðeins stig fyrir sigur eða jafntefli. Það eru tvö stig í pottinum. 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir jafntefli.
Semsagt Ísland U-14 gegn Tékklandi U-16: 0-1
Krakkarnir kvörtuðu svolítið yfir látum á skákstað, en keppt er í stórri skautahöll, ófrystri, og var mikið af fólki inni í höllinni sem var ekki að tefla og hugsaði ekkert um mikilvægi þagnar fyrir skákina. Margoft heyrði maður háværar gemsahringingar og ekkert gert við því. Ég talaði við skipuleggjendur um þetta, en þeir sögðust ekkert geta gert við þessu, en að þetta myndi skána því að fleira fólk sem ber virðingu fyrir skák verður í salnum næstu daga, því fjöldi skákmóta mun fara fram þar.
Það á eftir að reyna á þetta. Þetta pirrar mig ekki persónulega, því að ég er vanur miklum klið í skákmótum á Mexíkó; en skil vel að þetta trufli börnin. Þau þurfa bara að læra mikilvægi þess að láta ekki ytri aðstæður trufla sig.
Við fórum yfir þrjár af skákunum í gærkvöldi, og börnin lærðu mikið af þeim rannsóknum. Ljóst að þau voru ekki að átta sig á mikilvægi þess að taka vald á hálfopnum og opnum línum. Einnig var svolítið um að drottningar færu á flakk í byrjuninni og farið í sókn áður en byrjuninn var lokið, nokkuð sem kemur varla fyrir á æfingum hjá okkur. En þessu er auðvelt að kippa í lag og mikilvægast af öllu að börnin bæði hafi gaman af og læri á reynslunni.
Næsta umferð er í dag kl. 15:00.
Heimasíða heimsmeistaramóts barnaskóla í skák 2007
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
10.7.2007 | 20:14
Í upphafi X-Men skilja nasistar drenginn Eric Lensherr frá foreldrum sínum. Drengurinn tryllist og uppgötvast að hann getur stjórnað málmi með hugarorkunni einni saman. Nasistar halda honum á lífi. Síðar er þessi drengur betur þekktur sem Magneto (Ian McKellen) höfuðóvinur X-manna, sem reyna að lifa friðsælu lífi, og rannsaka sjálfa sig og eigin ofurkrafta.
Magneto heldur að mannkynið sé allt nasistar, að það muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útrýma stökkbreyttum einstaklingum með ofurkrafta. Þess vegna vill hann útrýma mannkyninu áður en það fær tækifæri til að útrýma honum og hans líkum.
Charles Xavier (Patrick Stewart) er leiðtogi X-manna og hann sér að mannkynið stefnir einmitt í þá átt að ógna tilvist þessara stökkbreyttu einstaklinga. Xavier hefur ógurlega hugarorku, hann getur lesið hugsanir annarra, náð hugarsambandi við annað fólk og staðsett hverja einustu mannveru í heiminum, eins og væri hann gríðarlegur GPS nemi. Xavier vill ekki útrýma mannkyninu. Hann vill leita friðsamlegra lausna með samræðum og auknum skilningi.
Stjórnmálamenn vilja krefjast þess að stökkbreytt fólk skrái sig sérstaklega svo að hægt verði að fylgjast með því. Magneto getur engan veginn sætt sig við þetta; en Xavier er tilbúnari til að gangast við þessu. Þetta þýðir að ofurhetjurnar hjá X-mönnum lenda í átökum gegn ofur-illmennum Magneto.
Wolverine (Hugh Jackman) fer fremstur í flokki hetjanna, en beinagrind hans er gerð úr fljótandi, sem gerir honum mögulegt að skjóta fram stálhnífum milli hnúa sinna þegar hann reiðist, og öll sár hans gróa fljótt, sama hversu alvarleg þau kunna að vera. Félagar hans og óvinir eru of margir til að telja upp; en sagan tekur á sig skemmtilegan krók í upphafi X2: X-Men United, þegar hershöfðinginn William Stryker (Brian Cox) finnur nýjar leiðir til að etja óvinunum saman, og laumar á leyndarmáli um uppruna Wolverine.
Það er nauðsynlegt að minnast aðeins á X-Men: The Last Stand, niðurlagið á þríleiknum; en sú mynd nær engan veginn með tærnar þar sem fyrstu tvær höfðu hælana, þrátt fyrir góðar tæknibrellur. Sú mynd er algjörlega sálarlaus; nokkuð sem einkennir ekki fyrstu tvær X-Men myndirnar, aðalpersónur eru drepnar og ein er í það mikilli tilvistarkreppu að hún spáir í að rústa heiminum öllum, það má segja að hún sé myrkari en fyrri myndirnar, en það má líka segja að hún sé töluvert heimskulegri.
Tæknibrellur eru óaðfinnanlegar í þessum myndum; og gífurlega stór og misjafnlega góður leikarahópur nær vel saman. Allra verst finnst mér þó Halle Berry sem Storm, en bestur finnst mér Hugh Jackman sem Wolverine; en einhvern veginn tekst honum að vera jarðtenging og hjarta fyrstu tveggja myndanna, en gefur aðeins eftir í þeirri þriðju, þrátt fyrir að vera grófur og ruddalegur persónuleiki sem þykist vera sama um allt og alla, - honum er samt alls ekki sama.
X-Men
X2: X-Men United
X-Men: The Last Stand
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)