Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

10 bestu ofurhetjumyndirnar: 7. sæti: Darkman (1990)

 398px-Darkman

Vísindamanninum Peyton Westlake (Liam Neeson) hefur tekist að þróa gervihúð sem notuð getur verið til lýtalækninga. Formúlan er þó ekki fullkomin, þar sem að eftir 99 mínútur bráðnar húðin og verður að engu. Kvöldið sem hann finnur ástæðuna fyrir þessum galla brjótast glæpamenn inn í rannsóknarstofuna til að ná skjölum sem kærasta hans, lögfræðingurinn Julie Hastings (Frances McDormand) skildi eftir, en þau geta sannað sekt mafíuforingjans Larry Drake (Robert G. Durant).

Glæpamennirnir misþyrma Westlake og sprengja rannsóknarstofu hans í loft upp. Það sem þeir vita ekki er að hann lifir sprenginguna af, en öll hans húð hefur brunnið. Til að lina sársauka hans klippa læknar á þær taugar sem bera sársaukaboð upp í heila. 

Eftir aðgerðina getur Westlake aðeins hugsað um tvennt, kærustuna sína og að ná fram hefndum. Þessi rólyndismaður hefur misst alla stjórn á eigin tilfinningum og er skapbráðari en nokkurn tíma fyrr. Hann notar tæknina sem hann hefur þróað til að búa til húð og andlit handa sjálfum sér, og uppgötvar að hann getur í raun sett á sig hvaða andlit sem honum dettur í hug og verið með það í 99 mínútur áður en það bráðnar af. Hann notar þessa tækni óspart til að hrella bófana.

Westlake er orðinn að Myrkramanninum og tekst á við tvö erfið verkefni; að gera út af við skúrkana og viðhalda sjálfum sér sem heilsteyptri manneskju, þó svo að húð hans sé alltaf að detta í sundur.

Sam Raimi leikstýrði Darkman, heilum áratug áður en hann tókst á við Spider-Man.

 


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 8. sæti: Ghost Rider (2007)


Faðir Johnny Blaze (Nicolas Cage/Matt Long) hefur greinst með lungnakrabba, enda reykir hann eins og strompur. Skrattinn (Peter Fonda) kemur til Johnny og býður honum upp á samning, hann muni komi í veg fyrir að faðir hans deyi úr krabbameini, en í staðinn eignist hann sál Johnny. Johnny samþykkir. Krabbameinið hverfur, en faðir Johnny deyr samt. Bara af öðrum orsökum.  

Til margra ára er Johnny bitur út í skrattann fyrir þessi svik. Hann hefur mótorhjólastökk sem atvinnu, og sama hversu illa hann lendir; alltaf lifir hann af.  Það er verk skrattans. Líður að þeim degi þegar skrattinn vill fá sál Johnny og nota hann sem verkfæri sitt á jörðu. Johnny breytist í logandi beinagrind á nóttunni, en lítur svo út eins og Nicolas Cage á daginn.

En Johnny er ekki sáttur við að vera verkfæri djöfulsins, enda góður strákur sem gaf sál sína í göfugum tilgangi - en ekki eigingirni eins og flestir sem selja djöflinum sál sína, og það gefur honum sjálfstæðan vilja og tækifæri til að berjast um eignina á eigin sál. Það er þessi hugmynd sem gerir Ghost Rider áhorfsins virði, og hvernig Nicolas Cage fer með hlutverkið. Einnig er Peter Fonda ágætur sem skrattinn, en Sam Elliot stelur hins vegar senunni sem eldri útgáfa af draugaþreytinum.

Tæknibrellurnar eru flottar, leikurinn la-la, og plottið sjálft frekar þunnt, illmennin grunn en flott, þó að aðalpersónan sé mjög vel heppnuð. Styrkur myndarinnar felst fyrst og fremst í kjarnahugmyndinni um að það er til lausn á öllum vandamálum, sama þó að maður hafi sjálfur skrifað undir að lenda í þeim, svona rétt eins og hjónaskilnaður.

Ghost Rider er ekki fyrir hvern sem er, en hún tekur persónurnar alvarlega og gerir heiðarlega tilraun til að skila góðu efni. Alls ekki fullkomin, en ef þér líst á rökin hér að ofan, kíktu þá endilega á hana. En ef þér finnst of mikið að sjá logandi beinagrind á mótorhjóli berjast við einhverja skrattakolla frá helvíti, þá er eins gott að sleppa henni. Mörgum finnst Nicolas Cage of gamall í þetta hlutverk, en mér finnst hann fínn.


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 9. sæti: Unbreakable (2000)


Í Unbreakable uppgötvar David Dunn (Bruce Willis), fjölskyldufaðir um fimmtugt sem starfar við öryggisvörslu, eftir að hann lifir af lestarslys sem verður 131 manni að bana; að hann er ekki eins og fólk er flest. Hann hefur ekki fengið á sig eina einustu skrámu og er óendanlega sterkur - það hafði bara aldrei reynt á það. Eins og flest ofurmenni, hefur hann einn veikleika, og í hans tilfelli er vatn það eina sem getur drepið hann.


David verður var við mann sem virðist elta hann út um allt. Þessi náungi er Eliah Price eða Mr. Glass (Samuel L. Jackson), maður sem er svo brothættur að nánast hvert einasta bein í líkama hans hefur einhvern tíma brotnað. Hann setti saman þá kenningu að eina útskýringin á veikum líkama sínum væri sú að æðri máttarvöld hlytu að hafa gert andstæðu hans sem væri jafn sterk og hann var veikur. Hann er tilbúinn til að sanna þessa kenningu sína, sama hvað það kostar.

Á meðan David leitar leiða til að nýta ofurkrafta sinna á hetjulegan hátt, reynir Price að ná sínum sjálfselsku markmiðum; og þannig verða til öfl sem berjast hvert gegn öðru, hið góða og hið illa.


Unbreakable er í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi mynd eða vel gerð, en hugmyndirnar á bak við hana eru góðar. Hvað ef Dabbi á götunni uppgötvaði einn góðan veðurdag að hann hefur ofurkrafta og ekkert geti unnið honum tjón? Hvað myndi Dabbi gera við þessa krafta? Væri hann skuldbundinn til að bæta samfélagið með verkum sínum, eða gæti hann lifað lífi sínu óbreyttu eftir að hafa öðlast þessa nýju þekkingu?

Þessar pælingar eru stórskemmtilegar og eru það sem gerir Unbreakable að fínni skemmtun. Ekki hasaratriði fljúgandi ofurhetja í latexbúningu, heldur pælingar um það hvort að allt hafi merkingu í veröldinni, og hvort að allt tengist einhvern veginn saman, og hvernig þá?

 Kíktu á kynningarmyndband um Unbreakable:


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 10. sæti: Hellboy (2004)

Nú langar mig að búa til lista yfir 10 bestu ofurhetjumyndir sem gerðar hafa verið fyrir bíó. Ef gerðar hafa verið fleiri en ein mynd um viðkomandi ofurhetju mun ég aðeins nefna þá sem mér finnst best í röðinni. James Bond, Indiana Jones og John MacClane flokkast ekki sem ofurhetjur í þessari upptalningu, þar sem að ofurhetjan þarf helst að hafa einhverja sérstaka krafta eða einkenni sem aðskilur hana frá öllum öðrum hetjum. Jones er fornleifafræðingur, Bond er njósnari og MacClane er lögga. Ofurhetjumyndir fjalla um þá sem eru fyrst og fremst ofurhetjur, og svo eitthvað annað; en ekki öfugt.

Ég ætla ekki að skrifa eiginlega gagnrýni fyrir hverja mynd, heldur draga fram þá þætti sem mér finnst gera viðkomandi mynd þess virði að kíkja á hana. 

826813~Hellboy-Gold-Door-Posters

10. besta ofurhetjumyndin að mati Donsins er Hellboy frá 2004, sem leikstýrð var af snillingnum Guillermo del Toro. Ég viðurkenni fúslega að þetta er engan veginn fullkomin ofurhetjumynd og hefur þónokkuð af göllum, en hún er samt frumleg og vel gerð. Möguleikarnir eru miklir og hún leyfir sér að sýna sérstakan karakter.

Það eru nokkrar ofurhetjur í þessari mynd, en aðal gaurinn er Heljarguttinn, eldrauður náungi með horn á hausnum sem hann hefur sorfið af, því hann vill ekki líkjast skrattanum um of. Hann kom inn í mannheima gegnum hlið sem nasistar opna til heljar; og rétt áður en bandamönnum tekst að loka hliðinu og stoppa illmennin, skríður Heljarguttinn, sem lýkist helst rauðum apa með gífurlega stóra krumlu út úr hliðinu. Prestur tekur guttann að sér og elur hann upp í kaþólskri trú. Þannig er strax orðin til nokkuð þversagnarkennd persóna; skrattakollur úr helvíti sem langar að enda í himnaríki og ætlar að vinna sér inn fyrir ferðinni þangað með því að berjast gegn illum öflum sem herja á jarðarbúum. 

Ron Perlman er stórgóður og bara nokkuð fyndinn sem Heljarguttinn, og er hann bara nokkuð sannfærandi sem góða skrýmslið sem lúskrar á vondu skrýmslunum. Tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar, en helsti veikleiki myndarinnar er frekar slakt handrit og klisjukenndur söguþráður (þrátt fyrir frumleika) og slakar aukapersónur og leikarar, fyrir utan Ron Perlman og John Hurt í hlutverki prestsins. Illmennin eru líka skemmtilega gerð, en samt ekki nógu klók til að skapa neina almennilega spennu.


Vil líka láta vita að því að hægt er að fá 4 DVD diska útgáfu af Superman The Movie (sem verður reyndar ofar á topp 10 listanum mínum) á um kr. 400 (með sendingarkostnaði), sem með tolli og skatti ætti að kosta í mesta lagi um kr. 1000,- í heildina þegar heim er komin. Ég hef sett hlekk á þetta góða verð á forsíðu síðunnar Philosophy in the Movies, og verður þetta tilboð þar, uns verðið hækkar. Götuverð á þessari útgáfu er kr. 2400,- í Bandaríkjunum, þannig að ég tel þetta vera einstaklega gott tilboð.

Kíktu á sýnishorn úr Hellboy hérna:





The Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer (2007) *


Reed Richards, sem opinberlega er kallaður hinu hógværa nafni, herra frábær (Ioan Gruffudd) og Sue Storm sem kölluð er ósýnilega konan (Jessica Alba) ætla að giftast. Mikið fjölmiðlafár er í kringum giftingu þeirra enda eru þau frægasta par í heimi, eða því sem næst. Bróðir Sue, eldmaðurinn Johnny Storm (Chris Evans) er fúll út í kærustuparið fyrir að vilja giftast og skilja sig eftir í ofurhetjusúpunni með hlunkinum Ben Grimm (Michael Chicklis), sem er jafnfúll yfir þessum áformum parsins. Þroski hetjanna frábæru er semsagt á við fimm ára krakka og hugsanlega er það markhópur myndarinnar, því hún nær engan veginn til mín.


Samband þeirra Reed hins teygjanlega og Sue hinnar ósýnilegu er áhorfandanum svo gjörsamlega ósýnilegt að hann hlýtur að teygja kjammann í geispa. 

Yfirmenn í bandaríska hernum nálgast Reed Richards og segjast hafa áhyggjur af fljúgandi furðuhlut sem er að skilja hálfa heimsbyggðina rafmagnslausa og frosna. Reed segist hafa lítinn tíma í svona heimsendapælingar enda gifting á næsta leiti og ekkert getur truflað hann frá henni, nema kannski gemsinn sem hann gleymir að slökkva á við athöfnina.


Óvætturinn utan úr geymnum er silfurlitaður gaur sem lítur út nákvæmlega eins og T-1000 úr Terminator 2, nema hvað líkami hans er leikinn af Doug Jones, þeim hinum sama og lék skrýmslin í hinni frábæru Pan's Labyrinth, og rödd hans er leikinn af engum öðrum en Morpheus úr The Matrix, eða Laurence Fishburne. Ástæða komu hans til jarðar er að undirbúa málsverð fyrir Galactus, mikið skrýmsli sem lítur út eins og þrumuský í myndinni - en er mikill og ógurlegur risi í teiknimyndasögunum. 

Ég get ekki annað en viðurkennt að tæknibrellurnar eru flottar. The Silver Surfer er vel gerður og skemmtilegt hvernig hann þeytist út um hittinn og dattinn; einnig er skemmtilegt þegar Thames fljótið í London tæmist. Fyrir þessi atriði fær myndin eina stjörnu. Og jú, Doktor Doom blandast inn í atburðarrásina og flækist eitthvað smá fyrir, drepur einhverja hermenn, stelur bretti og hverfur svo þegar ofurhetjunum tekst að ná aftur brettinu sem hann stal.


Allt hitt er drasl. Sagan er hrein hörmung, og þá sérstaklega með tilliti til þess hversu vel henni er komið til skila í teiknimyndasögunum sjálfum.  Leikararnir standa sig hörmulega, fyrir utan þá Doug Jones og Laurence Fishburne í sama hlutverkinu sem Silfurvafrarinn. Gamanleikurinn sem aðallega birtist á milli hlunksins og eldmannsins er klunnalegur. Það sem mér finnst allra verst er að þessar hetjur haga sér alls ekki eins og hetjur; þær haga sér eins og fórnarlömb aðstæðna frá upphafi til enda. Maður reiknar alveg eins með því að þeir setjist á götuna og skæli.

Þetta hefði getað verið góð mynd, jafnfvel frábær, ef aðeins hefði verið lögð lágmarks vinna í handritsgerðina. Handritið er uppistaða góðrar kvikmyndar, án góðs handrits verður aldrei til góð kvikmynd. Ég viðurkenni þó að sumt fólk virðist njóta þessarar myndar. Þegar ég sá hana í kvikmyndahúsi í Bandaríkjunum um daginn, klöppuðu þónokkrir gestir í lok myndarinnar. Mér varð hálf hverft við. Svo gaf Mogginn henni þrjár stjörnur. Varla lýgur Mogginn?


Reyndar var svolítið merkileg auglýsing í bíóinu áður en myndin hófst; þar sem bandaríski herinn kom með skilaboð til barna og unglinga, en þar var auglýst eftir sjálfboðaliðum í bandaríska herinn, með loforði um stuðning á móti til góðrar menntunnar og fjárhagslegrar velgengni í lífinu. Við lok þeirrar auglýsingar heyrðist í tveimur félögum á fertugsaldri sem sátu fyrir aftan mig: 'Bullshit!'

Ég vil bæta við tilvitnun í gagnrýni Sæbjörns Valdimarssonar, sem reyndar gaf myndinni þrjár stjörnur; nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt fyrir jafn slaka mynd, og er reyndar þvert á niðurlag greinar hans. En svona eru manneskjur ólíkar, sitt finnst hverjum:

Ff-2 er bærileg afþreying, sem er meira en hægt er að segja um aðrar stórmyndir sumarsins, sem hafa tekið sig alltof alvarlega og maður hefur setið uppi með þriggja tíma meiri og minni leiðindi. Ekki svo að skilja að Ff-2 sé annálafær á nokkurn hátt, gallarnir eru aðeins flestir þeirrar gerðar sem er fastur hluti hefðbundinnar sumarafþreyingar. Heimskulegur söguþráður, götótt framavinda, slök persónusköpun, allt er þetta til staðar, en leiðindi bætast ekki í hópinn. Við þökkum fyrir lítilræði á sumrin og útkoman er besta sumarafþreyingin til þessa.

(Sæbjörn Valdimarsson, Morgunblaðið, 16.06.2007)

Rocky Balboa (2006) ***1/2


Rocky (Sylvester Stallone) lifir í fortíðinni. Eiginkona hans Adrian er látin, syni hans finnst vandræðalegt að vera sonur hans, og hann lifir fyrir að segja fólki sögur af bardögum sínum á veitingastaðnum Adrian's, sem hann rekur sjálfur.

Hann syrgir eiginkonu sína djúpt og hefur byrgt inni mikla reiði og vonbrigði gagnvart tilverunni sjálfri, sem hann kann einfaldlega ekki að losa um á annan hátt en með hnefaleikum. Þegar tölvugert líkan af bardaga milli Rocky og núverandi heimsmethafa, Mason Dixon (Antonio Tarver) sýnir Rocky rúlla yfir kappann, fá umbjóðendur heimsmeistarans þá hugmynd að bjóða Rocky til keppni um heimsmeistaratitilinn. Hann grípur tækifærið og í leiðinni lappar hann upp á samband sitt við son sinn, besta vin sinn Pauly (Burt Young); um leið og hann finnur leið til að koma skrýmslinu út úr kjallaranum sem býr innra með honum.

Við taka miklar æfingar í Philadelphia, þar sem Rocky tekur meðal annars tröppurnar frægu. En það sem telur allra mest er það hvernig lífssýn Rocky hefur áhrif á fólkið í kringum hann. Hann minnir son sinn á að vera hann sjálfur, hann sýnir Pauly hversu góður vinur hann er í raun; og á allan hátt sýnir Rocky í verki að hann er ekki bara einhver meðalgaur í hversdagslífinu; hann er hálfgerður Ghandi. 


Hins vegar umbreytist Ghandi þegar Rocky mætir í hringinn og tekst á við heimsmeistarann sjálfan, sem veit að þetta verður leikur einn fyrir hann. En Rocky er vanur að vera vanmetinn og er mættur til að vinna. Ljóst að bardaginn verður eftirminnilegur.

Stallone skrifaði handritið, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í Rocky Balboa, og  tekst snilldarlega vel til. Sérstaklega er handritið vel skrifað, með eftirminnilegum ræðum og samtölum. Málið er að allt hversdagslífið er hann að boxa í aðstæðum sem eru á móti honum, en hann tekur endalaust við höggunum þar til aðstæðurnar verða þreyttar; og þá snýr hann vörn í sókn og gefur ekkert eftir fyrr en bjallan slær. Þannig sigrar hann.


Rocky Balboa er Sylvester Stallone, og Sylvester Stallone er Rocky. Leikferill Stallone hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin tíu ár, en hann ákveður að taka málin í sínar hendur, og lyftir grettistaki við gerð þessarar stórgóðu myndar. Það voru allir búnir að afskrá Stallone nema Stallone sjálfur, rétt eins og allir eru í myndinni búnir að afskrá Rocky nema Rocky sjálfur. Stallone leikur þann snilldarleik að í stað þess að rembast við að gera bardagann töff, og lagfæra útlit Rocky með tölvugrafík, sýnir hann manninn í öllu sínu veldi; með hrukkum, örum og grettum. Leikararnir sem bæst hafa í hópinn sýna allir mjög góða takta - persónur þeirra eru trúverðugar og skipta miklu máli fyrir ferlið sem Rocky karlinn þarf að fara í gegn um til að sætta sig við lífið og tilveruna.


Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir kjarna myndarinnar í samtali Rocky við son sinn, Robert Jr. (Milo Ventimiglia úr Heroes). Mæli eindregið með þessari. Hún er jafngóð fyrstu myndinni og mun betri en Rocky 2-5, þó að vissulega séu þær nokkrar ansi skemmtilegar. Rocky Balboa er meira drama en sportmynd, en dramað er afar gott og sportið er líka ágætlega útfært.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband