Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

7. Óskarsverðlaunin: It Happened One Night (1934) ****

ItHappenedOneNight19

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. It Happened One Night frá 1934 er sú sjöunda í röðinni. 

ItHappenedOneNight02

It Happened One Night fjallar um Ellie Andrews (Claudette Colbert), dóttur auðkýfingsins Alexander Andrews (Walter Connolly) sem reynir að stjórna lífi hennar. Hún hefur verið svolítið galin á næturlífinu, þannig að faðir hennar fer með hana á skútusiglingu til að halda henni frá landi og vandræðum. Hún stingur sér í sjóinn, kemst til Miami og tekur rútu áleiðis til New York, þar sem hún ætlar að hitta eiginmann sinn, konunginn Westley (Jameson Thomas), og staðfesta giftinguna; en faðir hennar vill ógilda þessa giftingu þar sem hann telur Westley konung ekki vera rétta manninn fyrir hana.

ItHappenedOneNight06

Í rútunni sest hún við hlið æsifréttamannsins Peter Warne (Clark Gable), og á við hann orðastað. Hann kannast strax við stúlkuna, en lætur ekkert á því bera. Þegar töskunni hennar er stolið sér hann aumur á henni og ákveður að hjálpa henni til New York, að því tilskyldu að hann fái einkarétt af sögunni.   

ItHappenedOneNight08

Á leiðinni laðast þau hvort að öðru, en vandamálið er að Peter vill að sjálfsögðu ekkert með gifta konu gera, og hún ber varla mikið traust til æsifréttamanns. Á leiðinni stoppa þau á móteli þar sem þau fá herbergi með tveimur rúmum. Peter hengir upp teppi á milli þeirra og kallar það Jeríkó, sem er að sjálfsögðu vísun í traustan vegg úr Biblíunni sem ekkert gat unnið á nema staðfast traust.

ItHappenedOneNight12

Bilið á milli þessara tveggja einstaklinga virðist í fyrstu óyfirstíganlegt, vegna bakgrunns, aldursmunar, skapgerðar og ekki síst vegna þess að Ellie er gift kóngi, - en þar sem þetta er rómantísk gamanmynd og áhorfandinn finnur fyrir sterku sambandi milli þeirra Peter og Ellie, og finnst að þau ættu að vera saman; vitum við nokkurn veginn hvað gerist.

ItHappenedOneNight24

Clark Gable og Claudette Colbert sýna ljómandi skemmtilegan samleik, enda fengu þau bæði Óskarsverðlaun sem besti leikari árið 1934. Frank Capra fékk einnig Óskarinn sem besti leikstjórinn.

 ItHappenedOneNight15

 Fín mynd þarna sem á jafnmikið erindi til okkar í dag og hún gerði árið 1934. Ég hafði mjög gaman að henni. It Happened One Night er klassísk rómantísk gamanmynd. Hún hefur engu tapað á þeim 73 árum sem liðið hafa síðan hún var tekin upp á filmu; og reyndar er svolítið gaman að sjá gamla bíla, klæðaburð og lest frá 1934 í fínu ástandi.

ItHappenedOneNight27

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

Grand Hotel (1932) ***

Cavalcade (1933) ***

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

10 uppáhaldslögum safnað saman á laugardagskvöldi

Í einu hádeginu um daginn var ég að ræða við félaga minn um tónleika. Vinur minn stakk upp á að við skelltum okkur á Rolling Stones í ágúst. Ég er ekki aðdáandi þeirra en var samt nokkuð heitur fyrir því að fara, en vinur minn er mikill aðdáandi þeirra og mér finnst einstaklega gaman að samgleðjast vinum mínum. Samt ákvað ég að fara ekki. Þetta varð til þess að ég íhugaði hverjir þyrftu að koma saman til að ná mér sem virkilegum aðdáanda á tónleika. Það eru bara tvær hljómsveitir sem koma til greina. Queen og The Beatles. Ljóst er að ekki á ég mikla framtíð fyrir mér á tónleikum. Ég á mér mörg uppáhalds lög með báðum hljómsveitunum, sem ég gæti auðveldlega fyllt listann með, en hef ákveðið að hver hljómsveit fái bara eitt lag á listanum. 

Queen var snilldar hljómsveit sem blandar röddum og rokki saman á einstakan hátt. Meistaraverk þeirra er og hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrsta lagið fjallar um glötun sakleysis og þegar þroski ryðst inn í líf manneskjunnar eins og óargadýr.

1. Bohemian Rhapsody, Queen



Bítlarnir hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það lag sem fastast situr og hefur gert það svo árum skiptir fjallar um þann trega sem fylgir glötuðum tækifærum; og kannski þeirri ósk að stundum væri gott að geta bakkað nokkrar klukkustundir, stundum daga, mánuði eða ár aftur í tímann til að leiðrétta eigin mistök.

2. Yesterday, The Beatles



Charlie Chaplin er þekktastur fyrir frábærar kvikmyndir sem ruddu brautina fyrir þeirri kvikmyndamenningu sem til er í dag. Það sem færri vita um Chaplin er hversu mikill snillingur hann var við sköpun tónverka. Eitt af lögum hans hefur lengi setið í mér. Það fjallar um þennan eiginleika okkar manneskjanna að við getum þraukað hvaða erfiðleika sem við lendum í, svo framarlega sem að okkur tekst að kreista fram eins og einu brosi, þó að súrt geti verið. Það virðist ekki skipta máli hver flytur lagið, það virkar alltaf. Rod Stewart, Michael Jackson og Robert Downey Jr. hafa sungið þetta, en mér finnst við hæfi að Josh Groban fái tækifæri til að flytja þetta fyrir okkur hérna á blogginu:

3: Smile, Charlie Chaplin 



Næsta lag finnst mér frábært í flutningi Gary Moore. Það fjallar um tregann sem fylgir minningum um brostna ást.

4. Still Got the Blues, Gary Moore

Fyrir mistök setti ég þetta lag sem er á eftir inn, en ég var einnig að kíkja eftir hvort að Friday On My Mind væri til á YouTube í flutningi Gary Moore - sem mér finnst alveg frábært. Í stað þess fann ég þetta lag (ekki sömu gæði):



Næsta lag get ég hlustað á endalaust. Sungið er um ástarlög og áhrif þeirra á þann sem hlustar, sérstaklega nostalgíu um það sem er liðið. 

5. Yesterday Once More, The Carpenters 

Næsta hljómsveit á fjölmarga smelli, en sá sem situr hæst í huga mér ákkúrat núna er þessi, sem fjallar um eina af þessum dygðum sem getur verið svo erfitt að ná stjórn á. Stundum þráir maður að geta farið aftur í tímann, en svo gerist það líka að maður getur varla beðið eftir einhverju sem maður þráir. Þá þarf maður þolinmæði. Ég er frekar óþolinmóður að eðlisfari, en get þó oftast stjórnað þessari hvöt nokkuð vel.

6. Patience, Guns N'Roses



Næst er annað lag sem tengist þolinmæði og þrá. Mér fannst þetta lag gífurlega flott þegar ég var unglingur, en í dag hefur það tekið á sig dýpri merkingu en mig hafði nokkurn tíma grunað, og ennþá finnst mér það flott.

7. Right Here Waiting, Richard Marx

Næsta lag kom mér gífurlega á óvart sem fínn inngangur í tónlist hljómsveitarinnar. Sungið er um mikilvægi sjálfsvirðingar og sjálfstrausts, og það hversu mikilvægt er að hlusta, meina hvað maður hefur að segja, láta aðra ekki hafa of mikil áhrifa á sig og að halda huganum opnum fyrir nýjum hugmyndum.

8. Nothing Else Matters, Metallica 



Næsta lag fjallar rétt eins og Smile eftir Charlie Chaplin um mikilvægi þess að þrauka þegar erfitt er.  Í stað þess að brosa er ráðið sem R.E.M. gefur að bíða eða halda sér fast

9. Everybody Hurts, R.E.M.



Síðasta lagið á listanum mínum er alltaf þægilegt áheyrnar. Píanóleikari situr á bar og syngur um fólkið sem er í kringum hann. Það biður hann um að syngja fyrir þau minningar, eða óskalög. Kannski rétt eins og þessi listi minn er.

10. Piano Man, Billy Joel



Þannig er listinn. Sérstakar þakkir til habbakriss fyrir að gefa mér hugmynd að góðri bloggfærslu sem gaman er að skrifa og safna saman á YouTube, en um daginn setti hún saman skemmtilegan lista um góða íslenska tónlist. Ég gerði mér far um að hlusta á þau lög og hafði gaman af. Vonandi hafið þið, lesendur mínir, gaman af að smella á þessi myndbönd og hlusta á einhver þeirra.


Handtaka Kasparovs: Dæmum ekki of fljótt


Myndband 1: AltaVista auglýsing með Kasparov 

Kasparov er ein skærasta skákstjarna allra tíma. Ég ber mikla virðingu fyrir honum sem slíkum. En ég held samt að þessi handtaka hafi verið réttlætanleg. Fréttin á mbl.is finnst mér ekki kafa nógu djúpt í staðreyndir málsins, þannig að ég kíkti á fréttavef BBC, og þar kemur fram hugsanleg ástæða fyrir handtökunni. 

Í fyrsta lagi hafði ekki fengist samþykki fyrir mótmælunum. Þarf ekki samþykki yfirvalda til að halda fjölmenn mótmæli á Íslandi líka? Ástæða þess að samþykki fékkst ekki voru óvarfærin orð Kasparovs í kynningum fyrir mótmælin um að koma þyrfti rússneskum yfirvöldum frá með valdi. Í fyrstu hélt ég að þetta væri afleikur, en áttaði mig svo á að þetta gæti einfaldlega verið eins og í skákum Kasparovs, óskiljanlegur leikur sem virðist ónákvæmur en hefur skýrt markmið sem leiðir til sigurs.

Óttuðust yfirvöld skiljanlega að mótmælin gætu orðið ofbeldisfull. Þau komu í veg fyrir það, meðal annars með handtöku Kasparovs. Hvað annað gátu þau gert?

Ég er viss um að Kasparov verði fljótlega látinn laus og að hann noti handtökuna sem dæmi um harðstjórn ríkisstjórnarinnar. Kasparov er peði yfir. Spurning hver er með þvingun  í gangi hérna. Ef rússneska ríkið væri eins og gamla Sovét væri Kasparov löngu kominn í Gúlag til Síberíu og jafnvel búið að taka hann opinberlega eða leynilega af lífi. Það hefur ekki verið gert. 

Kasparov mætti taka Ghandi eða Nelson Mandela sér til fyrirmyndar. 

Af vef BBC: "Accusing Mr Putin of creating an authoritarian regime, the tycoon (Kasparov) said that Russia's leadership could only be removed by force."


Myndband 2: Pepsi auglýsing með Kasparov

mbl.is Garrí Kasparov handtekinn í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húmor: Robot Chicken myndbönd á YouTube.

Varúð. Myndböndin í þessu bloggi eru fyndin og frekar ósmekkleg. Hafirðu ekki kímnigáfu skaltu sleppa því að skoða þetta. Móðgist þú auðveldlega fyrir hönd þeirra fórnarlamba sem gert er grín að á þessum myndböndum, skaltu stinga báðum vísifingrum inn fyrir varir; og draga þá síðan hægt í átt að eyrum. Klikkar aldrei. Í boði Robot Chicken.

1. Hér fræðumst við um hina raunverulega ástæðu þess að ráðist var inn í Írak, þar sem að W forseti hefur verið greindur sem mögulegur Jedi riddari. ***1/2


2. Í þessu stutta atriði fær Luke Skywalker alltof mikið af upplýsingum. ****



3. Fróðlegt atriði um fimm einkenni sorgar þegar gíraffi lendir í kviksyndi. ****



4. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér af hverju einhyrningar, hafmeyjur og drekar dóu út? Útskýringin finnst öll í sögunni um flóðið mikla og örkina hans Nóa. ***

 

5. Hefur þig einhvern tíma langað til að fá svar við hinum eilífu spurningum? Hugsaðu þér bók sem svarar öllum spurningum þínum satt. Hvers myndir þú spyrja? ***1/2



6. Útgáfa Robot Chicken af kvikmyndagagnrýni Roger Ebert: ***1/2



7. Sannleikurinn um Michael Jackson, honum var rænt af geimverum: ***1/2



8. Sjálf Björk Guðmundsdóttir birtist eitt augnablik í þessu myndbandi með sænska kokkinum í aðalhlutverki. Þegar Björk rímar við ork er ekki von á góðu. ***



9. Að lokum, útskýring á því hvernig seinni heimstyrjaldöldin braust út: ***1/2

 

Góða skemmtun! 


Nurse Betty (2000) ***1/2

Nurse Betty er gamanmynd sem inniheldur gróft ofbeldi. Henni mætti helst líkja við Fargo (1996), eftir Coen bræður, þar sem að mannlegri hlýju og húmor er fylgt eftir með kaldrifjuðum morðum og ofbeldisverkum.

Betty Sizemore (Renée Zellweger) er þerna á kaffistofu. Líf hennar snýst um að horfa á og láta taka upp fyrir sig nýjasta þáttinn úr sápuóperunni "A Reason to Live," en þessi þáttur ber nafn með rentu, hann virðist vera það eina góða sem hún fær út úr lífinu. Hún er yfir sig hrifin af aðalleikara þáttanna, George McCord (Greg Kinnear), sem leikur lækninn Dr. David Ravell í þáttunum sem hún dýrkar.

Hún er gift bílasalanum og skíthælnum Del Sizemore (Aaron Eckhart) sem heldur framhjá henni, stundar vafasöm viðskipti og kemur almennt illa fram við hana og alla aðra sem hann kemst í snertingu við. Á afmælisdegi sínum situr Betty ein inni í herbergi og horfir á upptökur af sjónvarpsþættinum þegar Del kemur heim með tvo skuggalega menn í eftirdragi. Annar þeirra er reynsluboltinn Charlie (Morgan Freeman) og hinn er sonur hans Wesley (Chris Rock). Del hefur stolið einhverju frá yfirmanni þeirra og þeim er ætlað að ná því til baka.

Áætlun þeirra fer út um þúfur þegar þeir ganga alltof langt og drepa Del á hrottalegan hátt. Betty verður vitni að morðinu, hallar aftur hurðinni og eitthvað gerist innra með henni. Hún hættir að gera greinarmun á veruleika og ímyndun, og trúir að Dr. David Ravell sé fyrrverandi unnusti hennar. Á meðan morðrannsóknin stendur yfir keyrir Betty úr bænum til móts við Dr. David Ravell. Lögreglustjóri bæjarins, Eldon Ballard (Pruitt Taylor Vince), blaðamaðurinn Roy Ostery (Crispin Glover) og glæpafeðgarnir hefja skipulega leit að henni.

Á meðan nýtur Betty lífsins. Hún fær vinnu sem hjúkrunarkona á spítala þegar henni tekst að bjarga mannslífi með aðferð sem hún lærði úr sjónvarpsþáttunum, enda telur hún sjálfa sig vera hjúkku. Hún eignast góða vinkonu í Rosa Hernandez (Tia Texada) sem býður henni skjól yfir höfuðið, og ákveður að hjálpa henni að hafa uppi á lækninum dularfulla. Áætlun hinnar veruleikafirrtu Betty gengur upp. Hún nær að hitta leikarann sem hún trúir að sé læknirinn Dr. David. Málin þróast áfram á skemmtilegan hátt.

Með leik sínum í Nurse Betty skaust Renée Zellweger upp á stjörnuhiminn Hollywood og á næstu árum lagði hún hann að fótum sér með smellum eins og Bridget Jones's Diary (2001), Chicago (2002) og Cold Mountain (2003). Einnig lék hún í hinni stórgóðu Cinderella Man (2005) ásamt Russell Crowe. Morgan Freeman nær einnig sterkum leik sem Charlie, hans besta hlutverki síðan hann lék Ellis Boyd Redding í Shawshank Redemption (1994).

Nurse Betty fjallar um þá firringu sem verður þegar sjónvarpspersónum er veitt meiri athygli en þeim manneskjum sem maður umgengst í daglegu lífi. Betty lifir það leiðinlegu og hörmulegu lífi að hún leitar stöðugt í sjónvarpsþættina; þar til að þessi þrá til að vera hluti af þeirri veröld breytist í trú. 

Nurse Betty er stórskemmtileg mynd. Tónlistin gefur henni ferskan blæ og kvikmyndatakan er sérstaklega skemmtileg. 


Teiknimyndir: Hellboy: Sword of Storms (2006) ***

Hellboy: Sword of Storms er ekki teiknimynd fyrir ung börn. Hún er aðgengilegri fyrir unglinga og eldri áhorfendur.

HellboySwordOfStorms02

Hellboy teiknimyndasagan hefur náð töluverðum vinsældum, en höfundur hennar, Mike Mignola, notar goðafræði og fornar sögur óspart til að skapa ný ævintýri handa hetju frá helvíti.

Guillermo del Toro leikstýrði kvikmyndinni Hellboy (2004), þar sem Ron Perlman fór með hlutverk hetjunnar sem lítur út eins og skrýmsli, en hagar sér eins og tólf ára strákur. Hellboy hefur fullan hug á að vernda mannkynið gegn öllum þeim ófreskjum sem spretta endalaust fram úr ólíkum menningarheimum. 

Nú taka þeir höndum saman, Mike Mignola og Guillermo del Toro, og framleiða teiknimyndina Hellboy: Sword of Storms. Hún hefur annan stíl og söguheim en frumgerðin; en fjallar um sömu persónur. Ron Perlman raddleikur titilhlutverkið og gerir það afbragðs vel, honum tekst að skjóta inn húmor á ólíklegustu augnablikum, sem alltaf virðist passa vel inn í aðstæður og ævintýri Heljarstráks.

HellboySwordOfStorms03

Hellboy kom í mannheima á lokadögum síðari heimstyrjaldar, en þá slysaðist lítill angi með horn á hausnum og gífurlega stóran handlegg sem minnir helst á hamar út úr vítisvíddum og í hendur bandarískra hermanna. Meðal þeirra var kaþólskur prestur sem tók Hellboy að sér, og ól hann upp við kaþólska trú. 

Það væri reyndar að skjóta sig í fótinn að taka trúarbrögð og goðsögur þær sem birtast í Hellboy heiminum alltof alvarlega. Ævintýrin sem Hellboy lendir í eru með ólíkindum. Hann er sífellt að berjast við ósigrandi skrýmsli og maður veit að hann mun samt sigra þau.

Sword of Storms fjallar um ungan Samúrai sem fyrir mörghundruð árum bjargaði unnustu sinni frá því að vera fórnað af föður hennar til guðanna Þrumu og Eldingar. Við þetta reiddust guðirnir, og í samráði við föðurinn eltu þeir hann uppi. En í stað þess að gefast upp, barðist samúrainn gegn guðunum með sérstaklega áletruðu sverði, sem hafði þann mátt að það gat fangað sál þess sem veginn var með því. Samúraianum tókst að fanga guðina í sverðinu, en hann sjálfur varð að steinstyttu og heitmey hans myrt af föður hennar.

HellboySwordOfStorms04

Í nútímanum les japanskur prófessor texta á papírus sem endurvekur guðina. Þeir ná valdi yfir prófessornum sem leitar sverðsins. Markmiðið er að brjóta það til þess að guðirnir sleppi aftur út. Þegar Hellboy finnur þetta sverð sogast hann inn í aðra vídd, þar sem hann þarf að berjast við alls kyns forynjur í leit sinni að sögunni um sverðið. Á sama tíma leita vinir hans annarra lausna í Japan. 

Síendurtekið þema Hellboy er það að hver og einn eigi sér val; að sama hvar þú fæddist og hvað þér var ætlað, þá er það einstaklingurinn sem á úrslitaorðið með ákvörðunum sínum. Hellboy átti að gjöreyða jörðinni, en gerði það ekki. Hann átti að vera óvinur mannkyns, en varð það ekki. Hann er að berjast vil ófreskjur sem hugsa ekki jafn sjálfstætt og hann, og það er einmitt það sem þeim verður oftast að falli. 

HellboySwordOfStorms01

Hellboy: Sword of Storms er vel teiknuð og ég hafði mjög gaman að henni. Sífellt spruttu fram frumlegar verur og aðstæður sem Hellboy þurfti að leysa úr. Hann þarf að berjast við köngulær, risa, vampírur, guði og fleiri skrýmsli, en vinir hans þurfa annars staðar að berjast við skrýmsli sem rís úr iðrum jarðar. 

Teiknimyndin grípur vel anda upprunalegu myndskreyttu skáldsögunum.  Þó að Hellboy sé kannski ekki fyrir alla, er hann skemmtileg afþreying fyrir þá sem gaman hafa að frumlegum ævintýrum.


Í bíó: Sunshine (2007) *

Sunshine er ein af þessum myndum sem manni ber siðferðileg skylda til að vara við. Hún er vel gerð tæknilega, en þegar kemur að sögu, persónusköpun og viti fellur hún flöt.

Í framtíðinni hefur sólin tapað orku. Jörðin verður sífellt kaldari. Reynt hefur verið að senda geimskipið Íkarus til sólar og því ætlað að koma af stað kjarnasamruna sem á að kveikja í nýrri sól innan í þeirri gömlu og vekja hana þannig til nýs lífs. Ekkert hefur spurst til þessa hóps, og því er Íkarus II sendur í sama leiðangur sjö árum síðar.

Hetjurnar sem ætla til sólar eru héðan og þaðan af hnettinum. Mér sýndist leikararnir koma frá öllum heimsálfum jarðar nema Afríku.

Mikilvægasti einstaklingurinn í hópnum er Robert Capa (Cillian Murphy) en hann er eðlisfræðingur sem hannaði sólarsprengjuna, og til að þjóna söguþræðinum, sá eini sem kann að setja hana í gang. Cillian Murphy er efnilegur leikari sem gerði mjög góða hluti í Batman Begins (2005) og Red Eye (2005). Hér hefur hann stjörnuútlitið og sjarmann með sér, en vantar aðeins á dýptina.

Aðrir leikarar sem mér hefur líkað við í öðrum hlutverkum eru Cliff Curtis í hlutverki sálfræðingsins og sólardýrkandans Searle, en hann lék eftirminnileg hlutverk í Once Were Warriors (1994) og Whale Rider (2002), en fær því miður mun flatara hlutverk í Sunshine, sem hann skilar reyndar ágætlega. Sjálf Hong-Kong og Kung-Fu stjarnan Michelle Yeoh er þarna í hlutverki Corazon, konu sem elskar plöntur, en fyrir utan það er hlutverk hennar mjög vanþakklát, og þar sem maður veit hvað hún getur miklu betur er maður vonsvikinn með hennar hlut. Aðra leikara kannaðist ég ekki við.




Þrátt fyrir þennan góða leikarahóp eru persónurnar einfaldlega illa skrifaðar og hver annarri flatari. Samt virðist leikstjórinn leggja meiri áherslu á persónurnar en söguna.

Þegar geimfararnir eru komnir dágóða leið og farnir að nálgast Merkúr nema þeir neyðarkall frá Íkarusi I. Þar sem að hópurinn er á leið að sólu sem eina von mannkyns hefði maður haldið að hópurinn væri meðvitaður um áhættuna sem fylgir því að breyta stefnu á geimskipi; og hópurinn virðist vera meðvitaður um það. Samt er ákveðið að í stað þess að fylgja heilbrigðri skynsemi eða jafnvel taka lýðræðislega ákvörðun, skal Capa, vísindamaðurinn í hópnum taka ákvörðun um hvort að stoppað skuli hjá Íkarusi I, og að gera þyrfti áhættumat til þess að ákveða hvort að það væri skynsamlegt.


Jæja, ég reiknaði áhættumat í höfðinu út frá almennri aðferðafræði um áhættumat, sem inniheldur mat á ógnum, veikleika, líkum á því að veikleikarnir verði að veruleika og mikilvægi áhættunnar. Ég gef hverjum lið einkunnina frá 1-4, þar sem fjórir þýðir mikið. Ef lokatalan er yfir 8, þá er áhættan það mikil að útilokað er að nokkur skynsamur maður samþykki hana.

Ógnin: geimferð á stað þar sem aðeins eitt skip hefur komið á, og það fórst: 4

Veikleikinn: Mannleg mistök geta átt sér stað þegar reynt er að leggjast upp að hlið öðru geimskipi, sérstaklega þegar skiptir máli hvernig skipið snýr gagnvart sólu: 4

Raunverulegar líkur á að eitthvað fari úrskeiðis: Þetta hefur aldrei verið gert áður:: 4

Verðmæti ferðar: björgun mannkyns:: 4

Samkvæmt einföldu áhættumati skorar áhættan 16 stig af 16 mögulegum, sem þýðir að áhöfnin ætti ekki einu sinni að íhuga möguleikann, og halda eigin stefnu sama hvað það kostar. Þar að auki ættu vísindamenn og verkfræðingar að þekkja lögmál Murphys: ef aðeins eitthvað eitt þarf að fara úrskeiðis til að eyðileggja verkefnið, þá gerist það, og ekki bara það, það gerist á versta mögulega augnabliki og síendurtekur sig.

Ég var tilbúinn að fyrirgefa þá ákvörðun vísindamannsins að fara til Íkarusar I, en þar sem að vísindahlutinn af vísindaskáldsögunni virkaði ekki lengur fyrir mig, þá þurfti henni að takast vel upp á öðrum sviðum. Hún mætti vera spennandi eða fyndin, eða sýna af einhverri dýpt almennan sannleika um mannveruna. Ég bið ekki um mikið.

Einhver vera fer úr Íkarusi I yfir í Íkarus II, og byrjar að útrýma áhöfninni áður en þeim tekst að ná alla leið til sólar, eins og gaurinn hafi villst úr The Texas Chainsaw Massacre 5 (2014) yfir í kolvitlausa mynd.

Ljóst er að Danny Boyle reynir að gera eitthvað listrænt, með því að stela stöðugt úr Alien (1979) og 2001: A Space Odyssey (1968), en mistekst það hrapalega. Einnig skýtur hann inn leiðinlegasta trikki kvikmyndasögunnar, einstaka römmum hér og þar sem sýna einhver andlit sem maður hefur ekki tíma til að greina af nákvæmni. Þetta á sjálfsagt að vekja hjá manni einhver hughrif, en þetta truflaði mig bara - fannst leikstjórinn einfaldlega reyna að gera allt til að hafa djúplæg áhrif á áhorfandann, án þess að hafa nokkuð bakland til að standa á.

Vonandi þurfa sem fæstir áhorfendur að þola þau leiðindi sem það er að sitja undir þessari kvikmynd. Danny Boyle hefur gert mun betur, þá sérstaklega Trainspotting (1996), sem er hrein snilld, Shallow Grave (1994) og 28 Days Later (2002).


Ég er þakklátur Danny Boyle fyrir eitt: hann fékk mig til að hugsa um hversu heimskulegar ákvarðanir þessara greindustu fulltrúa og helstu vonar jarðarinnar eru; en ég er hræddur um að þetta sé ekki það sem hann ætlaði sér með Sunshine. Mig grunar að hann hafi ætlað sér að splæsa saman Alien og 2001: A Space Odyssey og fá eitthvað djúpt og flott út úr því. Vissulega eru sum atriðin flott; en þarna er hvorki nokkuð djúpt né skemmtilegt að finna.

Sunshine er ein af þessum myndum þar sem sýnishornið er betra en myndin sjálf:


Um stjörnugjöf fyrir kvikmyndagagnrýni

Stundum fæ ég athugasemdir um hvernig ég gef kvikmyndum einkunnir. Þessari færslu er ætlað að svara því.

Einkunnagjöfin er hugsuð þannig:

SeeDickFly

****

Mynd sem mér finnst frábær og uppfyllir fyllilega mínar væntingar, hvort sem um drama eða aðra tegun mynda er að ræða. Þær myndir sem fá **** vil ég eiga í DVD safninu mínu og geta horft á aftur og aftur. Vel heppnaðar ævintýramyndir geta fengið fjórar stjörnur, enda uppfylla þær mínar væntingar um frábærlega heppnaða ævintýramynd; þrátt fyrir að aðrar myndir geti almennt séð talist betri. Til dæmis finnst mér Alien vera frábær vísindahrollvekja og gæfi henni hiklaust fjórar stjörnur. Til samanburðar er Hamlet frá 1948 stórkostlegt drama sem ég myndi líka gefa fjórar stjörnur. Þetta eru bara gjörólíkar tegundir kvikmynda, en báðar eru þær framúrskarandi á sinn eigin hátt.

ShineClub

***1/2

Mjög góð mynd, fyrir utan einhverja smágalla - eins og lélegan leik, villur í söguþræði, lélega tónlist, slaka klippingu á stöku stað, o.s.frv. Þarna er um að ræða kvikmynd sem ég væri svo sem til í að sjá aftur, en ekki tilbúinn að kaupa. Til dæmis gaf ég Ghost Rider ***1/2, en það var aðallega vegna þess að mér þótti aðalleikonan frekar stíf og leiðinleg - hins vegar fannst mér fantasían, leikur Nicolas Cage og tæknibrellurnar svo frábærar að ég gat ekki annað en mælt sterklega með henni.

riddick_diehard

***

Mynd sem ég get mælt með, en er ekkert endilega eiguleg eða frábær. Hún gæti einfaldlega verið vel gerð formúlumynd sem segir samt eitthvað nýtt. Mig grunar að ansi margar vel heppnaðar rómantískar gamanmyndir gætu fengið þennan dóm hjá mér.

BeingIndianaJones

**1/2

Mæli með henni, en með fyrirvara. Þetta eru myndir sem ég myndi ekki nenna að horfa á aftur. Það er ólíklegt að ég birti gagnrýni með þessa einkunn eða lægri á blog.is, þó að af nógu sé að taka.

Riddick_Hood

**

Meðalmynd sem ég mæli ekkert sérstaklega með.

Minna en ** 

Forðist þær.


Vínsmökkunarmyndin: Sideways (2004) ***1/2

Sideway02

Sideways fjallar um tvo vini sem ferðast um vínekrur Kaliforníu til þess að smakka rauðvín, spila golf og hitta konur. Til að vera nákvæmari: Miles (Paul Giamatti) vill spila golf og smakka vín, en Jack (Thomas Haden Church) vill hitta konur og helst sofa hjá þeim öllum.

Vandamálið er að Jack, sem er fyrrverandi sjónvarpsstjarna, ætlar að kvænast næsta laugardag en hittir konu; og þau eru ekkert að tvínóna við hlutina. 

Sideway03

Miles er hins vegar þunglyndur rithöfundur og enskukennari sem aldrei hefur fengið neitt birt eftir sig. Hann er fráskilinn og finnst hann ekki eiga nógu mikið inni til að segja vini sínum til syndanna. Samt finnst honum Jack stíga yfir línuna þegar hann heldur framhjá sinni tilvonandi, ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað.

Sideways er fyrst og fremst lýsing á persónum. Sögufléttan er algjört aukaatriði. Allar aðalpersónurnar eru eftirminnilegar, þá sérstaklega Jack, nautnaseggurinn með gullhjartað. Þrátt fyrir að haga sér eins og svín, er ekki annað hægt en að hafa ákveðna samúð með honum; þar sem að hann þarf heldur betur að horfast í augu við gerðir sínar og flýja afleiðingar þeirra.

Sideway04

Sideways fjallar um mikilvægi þess að virða og njóta þess sem lífið og náttúran hefur upp á að bjóða, án þess að traðka á öðrum manneskjum í leiðinni. Vínsmökkun og golf er leiðin sem Miles hefur valið, en hann reynir stöðugt að kynna Jack fyrir leyndardómum rauðvíns - en talar fyrir daufum eyrum. Það er ekki fyrr en hann hittir Maya (Virginia Madsen) sem hefur álíka djúpa ánægju af vínsmökkun að hann finnur manneskju sem hann trúir að sé sálufélagi hans. Þau geta rætt saman um dásemdir vínsins og með samtölum sínum afhjúpað af alúð eigin dýpt og persónuleika.

Sideways001Stóra vandamálið er það að Jack er farinn að sofa hjá bestu Stephanie (Sanda Oh), en hann fer að efast um eigin tilfinningar um tilvonandi brúðkop. Ennþá stærra vandamál er að Stephanie er besta vinkona Maya, sem er að móta djúpt samband með Miles. Miles veit sannleikann um Jack, og verður að gera upp við sig hvort hann muni láta Maya og Stephanie vita hann; því hann gerir sér fulla grein fyrir að ef hann leynir sannleikanum um slíkt mál, þá muni hann aldrei eiga von í raunverulegt samband með Maya.  

Alexander Payne leikstýrir þessari mynd skemmtilega og er greinilega leikstjóri fyrir leikara fyrst og fremst; því þeir fá svo sannarlega að njóta sín. Einnig skýtur hann inn skondnu nektaratriði sem minnir á hina óhugnanlegu stund sem Jack Nickolson upplifði í heitum potti með Kathy Bates í About Schmidt, sem Payne leikstýrði líka.

Fín skemmtun með áhugaverðum leikhóp. Ég mæli með henni.


Systir mín á forsíðu Fréttablaðsins um Internetsjónvarpsstöðina WaveTV

bilde?Site=XZ&Date=20070407&Category=LIFID01&ArtNo=104070078&Ref=V2&NoBorder

Þegar ég skoðaði forsíðu Fréttablaðsins í dag (Mogginn kom ekki út) fannst mér ég sjá kunnuglegt andlit. Ég lagfærði aðeins gleraugun og pýrði á myndina. Jú! Var þetta ekki systir mín á forsíðunni? Ég var fljótur að sækja símann og hringja í hana, en samtímis fletti ég upp á viðtalinu aftarlega í blaðinu.  Reyndar ætti ég ekki að láta svona lagað koma mér á óvart, myndir af henni hafa það oft birst í dagblöðum og sjónvarpi að þetta hlýtur að komast upp í vana einhvern daginn. Ekki fyrir mig samt. Wizard

Internetsjónvarpsstöðin WaveTV mun hefja útsendingar í maí árið 2007. Eins og nafnið gefur til kynna verða útsendingar fyrst og fremst á vefnum. Meðal dagskrárgerðarmanna er systir mín, Anna Brynja. Hún ætlar að halda utan um sjónvarpsþátt um afsnobbaða vínsmökkun. Þetta þýðir sjálfsagt að á morgun hendi ég á bloggið gagnrýni á Sideways, einni fyndnustu vínsmökkunarkvikmynd allra tíma.

Úr Fréttablaðinu 7. apríl 2007:

Á meðal þáttanna sem verða í boði á wave tv er vínþáttur í umsjón Önnu Brynju Baldursdóttur. Anna Brynja er lærð leikkona frá Rose Bruford College, og mun útskrifast sem leiklistarkennari frá LHÍ í vor. „Við ætlum svona að taka snobbið úr vínmenningunni. Hugmyndin er komin frá mér og kærastanum mínum. Hann er vínsérfræðingur, og ég er oft dálítið týnd í þessu," sagði Anna og hló. „Ég á eftir að koma með spurningarnar sem enginn þorir að spyrja. Þetta verður fræðsla í svona léttgeggjuðum dúr. Svo ætlum við líka að skoða hvernig vín er gert, ræða við alþingismenn um léttvínsfrumvarpið og heimsækja vínskólann, svo eitthvað sé nefnt," útskýrði hún. Anna segir þáttinn því verða tilvalinn fyrir fólk sem vill kynna sér grundvallarreglur í vínsmökkun og öðru, án þess að þurfa að fara alveg á kaf. „Þetta verður á mannamáli, sem vill nú oft á tíðum vanta í vínþætti. En þeir sem halda að þeir viti allt um vín munu líka hafa gaman af þessu," sagði hún.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband