Hræðilegar skoðanir fylgja okkur eins og skugginn

Auswitch

Við höfum öll einhverjar skoðanir. Þær eru misjafnlega góðar, þær bestu eru byggðar á þekkingu, reynslu og skilningi, þær verri geta komið úr ólíkum áttum, og skortir yfirleitt yfirvegaða umhugsun. Stundum eru slæmar skoðanir vel rökstuddar og sannfærandi, en betri skoðanir illa rökstuddar og ósannfærandi. 

Hvernig tökum við þá ákvörðun að fallast á ákveðna skoðun? Er það tengt einhverri tilfinningu sem maður hefur þegar maður heyrir hana, líkar við tóninn, getur tengt við eitthvað úr lífinu, eða samþykkjum við einungis skoðanir sem eru byggðar á rökfestu? Getum við krafist þess að við hugsum það vel að geta alltaf áttað okkur á hver rétta skoðunin er, skoðunin sem að maður ætti að hafa?

Ég velti þessu fyrir mér í sambandi við söfnuði trúarbragða, félagsmenn stjórnmálaflokka og aðdáendur íþróttaliða. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að þeir eru sannfærðir um að fylgja ákveðnu liði í gegnum þykkt og þunnt, og finna ákveðin gildi í því að ákveða hvað verður fyrir valinu. 

Það er eins og þessi ákvörðun sé hafin yfir rök, og að geðþótti sé bara fínasta ástæða fyrir ákvörðuninni. Þessi geðþótti getur verið tengdur þeim menningarheimi, fjárhagsaðstæðum eða jafnvel hverfinu þar sem maður ólst upp. 

Það að taka réttu ákvarðanirnar skiptir gríðarlegu máli í lífinu öllu. Þegar maður verður ástfanginn og þarf að ákveða hvort þú viljir vera lífsförunautur viðkomandi það sem eftir er ævinnar. Það er svolítið stór ákvörðun, og mörg okkar veljum rangt. En hvernig vitum við að hann eða hún sé hin eina rétta manneskja fyrir okkur? 

Auswitch2

Á sama hátt þarf að taka ákvarðanir þegar maður velur sér feril? Ég stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun fyrir löngu síðan að ákveða hvort ég vildi frekar ástunda hugvísindi eða verkfræði. Eftir langa og erfiða umhugsun valdi ég í samræmi við þær spurningar sem leituðu á mig, það sem væri meira í samræmi við hver ég er, heldur en hver ég vildi verða. Maður veit aldrei hvort að valið sé það eina rétta, maður verður bara að standa við það, eða skipta um leið.

Það sama þegar við leitum okkur að starfi. Hvernig vitum við hvernig störf henta okkur, hvar við yrðum ánægð, hvar við gætum gefið sem mest af okkur? Er betra að hafa mótað skýra skoðun um þetta áður en farið er í starfsleit?

Hvað ef maður hefur tekið afdrifaríka ákvörðun og svo áttað sig á því að hún var röng? Hvað er best að gera? Getum við alltaf lagt á vegarkantinum, hugsað okkur aðeins um og skipt svo um stefnu?

Ein stærsta skoðun sem ég hef breytt á minni ævi hafði með lántöku að gera. Þegar ég var yngri taldi ég lán vera af hinu góða, en komst svo að því í hruninu að þau voru ekkert annað en ólán, eitthvað sem át upp allan minn tíma og skapaði gríðarlegar áhyggjur og varð loks til þess að ég sá mig tilneyddan til að flytja af landi brott. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að taka ekki lán aftur, borga þau upp, byrja á því smæsta og enda á því stærsta. Það var gæfuspor.

Auswitch4

Maður lærir nefnilega ýmislegt á lífsleiðinni. Við komumst að því að eitthvað sem okkur þótti einhvern tíma rétt, þykir okkur ekki lengur rétt, og þannig er því einmitt farið með slæmar skoðanir, þær byggja á því sem okkur finnst, ekkert endilega á vel ígrunduðum pælingum og þekkingu, einhverri speki sem er rökrétt og skilar sér í betra lífi.

Ég velti fyrir mér öllum þeim sem studdu nasisma og fasisma í upphafi síðustu aldar, sem síðan þurftu að horfa upp á afleiðingar þessarar öfgaskoðana sem leiddu til hörmunga fyrir margar milljónir manna. Rétt áður en COVID-19 skall á heimsótti ég Auschwitz og Birkenau, þar sem hægt var að sjá afleiðingarnar með eigin augum, hvernig slæm skoðun hafði valdið því að milljónir manna sem höfðu aðra lífsskoðun voru færð í útrýmingarbúðir þar sem þau voru á skipulagðan og grimman hátt drepin fyrir það eitt að hafa hugsanlega ólíkar skoðanir.

Auswitch3

Hvar ætli svona skoðanir verði til og hvernig ná þær framgangi? Þær eiga það sameiginlegt að tengjast tilfinningum okkar, og þá allra verstu tilfinningunum, hatri, vantrausti, öfund, ágirnd, allt sem tengist fáfræði, fljótfærni og skort á góðri umhugsun. 

Það að svona hlutir gerast einu sinni þýðir þeir gerast aftur, á hverjum degi, út um allt. Kannski í smærri mynd, og kannski aðeins meðal fólks í lokuðum hópum, en það gerir hugmyndirnar ekkert betri. Hræðilegar skoðanir fylgja okkur, hugsanlega allt lífið, eins og skugginn, sérstaklega ef við erum ekki tilbúin að skipta þeim út fyrir betri skoðanir þegar þær birtast okkur.

 

Myndir: úr ferðalagi til Auschwitz og Birkenau í febrúar 2020.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband