Geturðu ímyndað þér allt og ekkert án þess að bresta í hljóðan grát?

wal-2722172_1920

Hefurðu einhvern tíma velt af alvöru fyrir þér hugtökunum ‘allt’ og ‘ekkert’? Hefur það hvörflað að þér að þessi hugtök eru ekki jafn augljós og þau virðast við fyrstu sýn? Hugmyndirnar um algjörlega allt og algjörlega ekkert eru til staðar í hugum okkar án þess að við höfum nokkurn tíma upplifað þau, enda bæði hugtökin handan mannlegs skilnings. Þetta eru hugtök sem renna okkur úr greipum nánast um leið og okkur finnst við hafa náð tökum á þeim.

Ef þessi hugtök koma ekki úr reynsluheimi okkar, hvaðan koma þau þá? Hvernig stendur á því að okkur reynist svona auðvelt að sjá þau fyrir okkur eitt augnablik, en jafnframt svo erfitt að sjá þau fyrir okkur og skilja til lengri tíma?

Sumir segja að eftir dauðann taki ekkert við. Aðrir segja að eftir dauðann taki allt við. Og enn aðrir að það sé sumt, og svo einhverjir sem segja að það sé ekki sumt. Margar af þessum hugmyndum eru stórskemmtilegar og frjóar, auðga mannlífið með margbreytileika sínum og gildishlöðnum sögum, sem reyndar geta líka valdið vandræðum sérstaklega ef trúað er á þessar sögur bókstaflega. Það nefnilega getur nefnilega reynst sannleikur frásögnin sem ekki er sönn.

Allt og ekkert taka aðeins á sig merkingu ef við stillum þeim upp í ímynduðum aðstæðum. Þegar til dæmis enginn hlutur er á borði, þá getum við sagt að ekkert sé á borðinu, þó að sjálfsögðu sé það ekki satt, enda einhver rykkorn, sápa eða ljósgeislar sem hvíla á því, allt eftir því af hversu mikilli nákvæmni og hversu vel við skoðum borðið.  Og ef við segjum að allt sé á borðinu, þá meinum við líkast til í ákveðnu samhengi, til dæmis ef kvöldmaturinn er tilbúinn og búið er að leggja á borðið, en ekki að allar heimsins plánetur, sólir og skósólar séu ofan á borðinu ásamt öllum öðrum mögulegum hlutum.

Við sjáum þannig allt og ekkert sem óskynjanleg hugtök, eitthvað sem við getum ekki skilið í sjálfum sér heldur einungis sem hluta af stærra samhengi. Samt getum við gert okkur í hugarlund hugmyndina um þau að þau séu algjör, rétt eins og við getum gert okkur í hugarlund Guð og ódauðleikann, alheiminn og tímaflakk óháð hvort að þau lýsa einhverju í efnislegum veruleika okkar eða eru hugarburður einn.

Þessir hliðstæðu veruleikar efnis og huga eru gríðarlega áhugaverðir. Líkast til getum við einungis nálgast mörkin milli þeirra með skýrri hugsun, góðu ímyndunarafli og slatta af þolinmæði til að fylgja hugmyndum okkar eftir til ystu marka. 

Hvort að þessir hliðstæðu veruleikar séu til eða ekki er algjört aukaatriði, það að við getum gert okkur þá í hugarlund er það sem skiptir máli. Það má svo spyrja hvort að hinn huglægi veruleiki sé eitthvað annað en það sem á sér stað í heila okkar, það sem gerist þegar við höfum gleypt allt sem við getum með skynjunum okkar og reynslu, eða hvort að hann lifi sjálfstæðu lífi á einhverjum stað og tíma sem ekki eru til.

 

Mynd eftir Sarah Richter frá Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þorleifur Kolbeinsson ríki á Stóru-Háeyri   sagði um tengdason sinn Guðmund Ísleifsson.

Eini munurinn á Guði og honum Guðmundi mínum væri sá að Guð gerði allt af engu en Guðmundur gerði allt engu.       

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 26.5.2021 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband