Að læra um okkur og heiminn

mars-67522_1920

Eins og rætt hefur verið erum við öll gallagripir. Við höfum fordóma sem okkur ber skylda til að losna við, því þeir trufla okkur frá því að finna rétta stefnu í lífinu. Fordómar eru eins og skuggar. Þeir liggja á bak við upplýsta hluti, og þegar þú telur þig hafa loksins fest hendur á honum er hann horfinn. Og ef þú heldur að hann sé farinn hefur þú líklega rangt fyrir þér, hann hefur bara færst úr stað. 

Hugur okkar er magnað fyrirbæri. Hægt er að nota hann eins og fjölda ljósa. Þegar þú hefur öðlast nýja þekkingu kviknar á nýju ljósi, og gefur nýja sýn og skuggar hverfa. Það er nefnilega þekkingin á einhverju sönnu sem getur skinið svo skært og frá svo mörgum hliðum að fordómar hverfa, að minnsta kosti um stund.

En það er alltaf sama hvað við öðlumst mikla þekkingu, hvað við lærum mikið, hvað við erum upplýst, alltaf laumast skuggarnir inn í hugann, og sífellt er eina ráðið að öðlast frekari þekkingu og skilning til að lýsa upp staðina þar sem nýju skuggarnir mynduðust. 

Stóra spurningin er hvort einhver geti verið upplýstur að fullu, og hvað það myndi þýða. Gæti einhver haft raunverulega þekkingu á sjálfum sér og eigin eðli, á heiminum og eðli hans, á veruleikanum og möguleikum handan efnisheimsins? Það er auðvelt að ímynda sér veru sem hefur slíkt ímyndunarafl, fjöldi þjóða hafa stofnað trúarbrögð í kringum slíkar verur, hvort sem þær eru til eða ekki. Það sem skiptir máli hérna er ekki tilvist verunnar, heldur það að við getum ímyndað okkur hana og trúað á hana. Það eitt gefur okkur hugmynd um hvert við getum stefnt í þessum heimi, sýnir okkur að við séum ekki bara mold og ryk, heldur mögulega eitthvað meira, eitthvað sem getur lýst upp heiminn, þó ekki nema væri rétt eins og augnablik eldspýtu.

Óðinn fórnaði öðru auga sínu til að hafa slíka þekkingu, og Guð Biblíunnar, Kóransins og Tórunnar er alvitur og fullur þekkingar, sér allt sem hefur gerst, er að gerast og mun gerast, einn dagur fyrir hann er þúsund ár og þúsund ár einn dagur. Það sama á við um Búdda sem fann Nirvana, hina endanlegu uppljómun og því sama má halda fram um Sókrates, sem taldi að skynsöm manneskja sem hugsaði skýrt gæti mögulega komist á æðra tilverustig og hitt þar fólk til eilífðar sem komist hafa jafn langt.

En er þetta mögulegt fyrir ófullkomnar manneskjur eins og okkur? Getum við verið það góðar, heilar í gegn, skynsamar og skýrar að við öðlumst þekkingu á því sem er raunverulegt, í stað þess að sífellt rúlla okkur upp úr drullu sýndarveruleikans, eða þess áþreifanlega, þess sem við teljum vera hinn eina sanna veruleika, aðeins vegna þess að við getum skynjað hann með skynfærum okkar?

Við sjáum sífellt lengra út í heim. Okkur tókst að fjarstýra þyrlu á fjarlægri plánetu. Pælið í því. Og þessi þyrla getur aflað upplýsinga um það sem er þarna úti. Hefur það einhver áhrif á það sem er hérna inni? Mun þessi nýja þekking hafa áhrif á allt sem við vitum? Þurfum við kannski að byrja að meta veruleikann upp á nýtt í hvert sinn sem við lærum eitthvað nýtt um heiminn eða okkur sjálf? Og þegar við lærum eitthvað nýtt um okkur sjálf, þýðir það að þekking heimsins er að einhverju leyti uppfærð?

Besta tækið sem við höfum til að læra um okkur sjálf er nákvæmlega sama tækið og við notum til að læra um heiminn. Þetta tæki er rökhugsunin. Rökhugsun snýst ekki bara um að átta sig á að tveir plús tveir séu fjórir. Hún er gagnrýnin, skapandi og reynir að sjá til endamarka hugsunarinnar og veruleikans. Þessi rökhugsun kveikir ljósin og fælir burtu skuggana. Og nú er hún byrjuð að lýsa upp gamla skugga á plánetunni mars, en þó ekki án þess að bæta við einum nýjum skugga, skugganum af þyrlunni, skugganum sem tilheyrir okkur, mannkyninu.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eitt sinn kenndi undirritaður erlendum háskólanemum á heimili mínu hér á Íslandi að nota ostaskera, sem þeir höfðu báðir snúið upp á rönd til að skera ostinn. cool

"Ostaskeri er áhald notað til að skera ost og hönnunin er byggð á heflinum eins og smiðir nota.

Norski trésmiðurinn Thor Bjørklund frá Lillehammer fékk einkaleyfi á ostakerum árið 1925 og byrjað var að selja þá árið 1927."

One giant leap for mankind:

Þorsteinn Briem, 20.4.2021 kl. 00:45

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta innlegg Þorsteinn. :)

Hrannar Baldursson, 20.4.2021 kl. 08:52

3 identicon

Samkv. Darwin þá er öll okkar færni og viska bundin við það hvernig við getum sem best staðið okkur í lífsbaráttunni, eignast afkomendur og séð þeim farborða.

Öll viska okkar umfram það stafar af "tilviljanakenndum" stökkbreytingum í genum okkar, einhverju líffræðilegu "slysi".

Eða höfum við einhverja líffræðilega þörf fyrir þekkingu á því hvernig hægt er að senda menn til tunglsins eða mars?

Kannski eiga eftir að verða einhverjar "tilviljanakenndar" stökkbreytingar í genum mannsins sem gefa honum greind til að sjá veröldina í miklu víðara samhengi heldur en hann sér hana nú. Þó þykir mér það ákaflega ólíklegt. Frekar trúi ég að það verði á hinn veginn.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 20.4.2021 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband