Mínar pælingar um stjórnarmyndun VG+D+S+B, Björn Bjarnason og Árna Johnsen

Ég er nú ekki mikill pólitíkus í mér, en hef verið að spá í spilin. Ég kaus samkvæmt minni sannfæringu eftir að hafa lesið vandlega yfir stefnur flokkanna; en hlustaði sem minnst á kosningaloforð gefin á síðustu stundu - sem eru í mínum augum ekkert annað en ryk.

En hér eru mínar pælingar um stöðu mála í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn + Framsókn

Gengur ekki upp. Það þarf ekki nema einn ósammála eða óheiðarlegan mann sem væri til í að þyggja mútur í öðrum hvorum flokknum til að hleypa öllu í bál og brand þegar um viðkvæm mál er að ræða. Einnig er hneykslanlegt hvernig Jón Sigurðsson margminntist á að skilaboð þjóðarinnar til Framsóknarflokksins væru skýr á kosninganóttunni, þar sem ósigur þeirra var fljótur að koma í ljós, og fullyrti hann að stjórnarsamstarf kæmi ekki til greina. Nú hefur hann bakkað frá þessum orðum, og virðist ekki lengur ætla að virða þann vilja sem hann taldi áður augljósan að þjóðin væri að tjá Framsóknarflokkinum. Það að Jón skuli vera að íhuga samstarf með Sjálfstæðisflokki eftir yfirlýsingar sínar á kosninganótt virðist vera ljótt dæmi um óheilindi (en þarf ekki að vera það), og eina leiðin út úr þessu, bæði fyrir hann og flokkinn er að hafna samstarfinu - en vissulega getur verið flókið hvernig það er gert, því að enginn virðist vita hver fær umboð til stjórnarmyndunar. Báðir flokkar og þjóðin öll myndi tapa á áframhaldandi stjórnarsamstarfi S og B.

Framsókn + Vinstri grænir + Samfylking

Gengur ekki upp af sömu ástæðum og áður voru nefndar, meirihlutinn er alltof lítill, og tilviljun eða prettir munu verða ofaná í viðkvæmum málum.  Það er mikið af klókum stjórnmálamönnum þarna á milli, en klókindi er ekki það sem til þarf til að leiða þjóðarskútuna. Allir viðkomandi flokkar og þjóðin öll myndu tapa á þessu samstarfi.

Sjálfstæðisflokkur + Vinstri grænir

Gengur ekki upp vegna þess hversu langt er á milli flokkana í pólitík. Þeir munu verða í stöðugum vandræðum með að koma sér saman um viðkvæm mál, nema Vinstri grænir  séu kannski laumuhægriflokkur. Þessi samsuða kæmu Vinstri grænum illa, því slíkt samstarf myndi gefa þeim svartan blett sem hentistefnuflokkur - rétt eins og Framsóknarflokkurinn fékk á síðasta tímabili; og myndi sjálfsagt vera bærilegur Sjálfstæðismönnum, rétt eins og ríkjandi stjórn þeirra er. Ég held að þessi stjórn hefði lítil mótandi áhrif á næstu fjögur árin, þar sem mesti krafturinn færi í að sætta gjörólík sjónarmið í stað þess að beina kröftunum að mikilvægum málefnum.

Sjálfstæðisflokkur + Samfylkingin

Mér líst best á þessa samsuðu, þó að ég sé engan veginn sáttur við Ingibjörgu Sólrúnu sem leiðtoga, vegna þess hversu illa hún hefur verið að tala um annað fólk og hversu erfitt hún virðist eiga með að vera samkvæm sjálfri sér. Aftur á móti hefur Samfylkingin fantagóða stefnu, og hefur fullt af góðu fólki innanborðs. Þar sem að hluti Samfylkingar hefur tilhneygingu til hægri, en hugar þó að samfélagsmálum, og virðast hæfilega skynsöm - sem verður aðeins styrkt af stöðugleika Sjálfstæðisflokksins - þá tel ég þessa stjórn verða bæði flokkunum og þjóðinni til heilla.

Aðeins um Björn Bjarnason og Árna Johnsen

Síðustu daga hefur mikið verið talað um þá Björn og Árna í sömu hendingu, sem mér finnst ósanngjarnt gagnvart Birni. Ég tel að hann hafi verið að gera skyldu sína í Baugsmálinu, en vandinn hafi verið sá að ákæruvaldið réði einfaldlega engan veginn við málið. Ég gæti trúað að vanhæfni og skortur á reynslu í slíkum máli hafi orðið ákæruvaldinu að falli. Að flokka þetta mál sem pólitískt einelti finnst mér tóm firra. Mér fannst það líka ósmekklegt af Jóhannesi í Bónus að auglýsa útstrikanir gegn Birni, þar sem að vonlaust er fyrir kjósendur að vita sannleikann í málinu; en eiga þó kannski auðvelt með að skipta sér í flykkingar um hver hann er. Minni á að Al Capone sjálfur, sem ábyrgð bar á fjölda morða í Chicago á sínum tíma var ekki stungið í steininn fyrir skipulagða glæpastarfsemi, enda hafði hann snjalla lögfræðinga til að verja sig í stóru málunum, heldur var hann hankaður á skattsvikum og stungið í steininn fyrir þau.

Ég gerði skoðanakönnun um Árna Johnsen fyrir nokkrum dögum. Í augnablikinu hafa 350 manns svarað henni, sem ég tel að geri hana marktæka.

Spurt var: Vilt þú sjá Árna Johnsen á þingi?

19.1%
Mér er sama 3.1%
Líklega ekki 6.0%
Alls ekki 71.7%
350 hafa svarað

Samkvæmt þessu er mál Árna Johnsen svartur blettur á Sjálfstæðisflokknum og ljóst að hann er maður sem þjóðin á erfitt með að treysta fyrir valdi. Ef Sjálfstæðisflokkurinn er í viðkvæmu stjórnarsamstarfi og getur ekki treyst öllum sínum mönnum 100%, þá er hætta á að skútan fari að vagga óbærilega. Mér finnst mikil skítalykt að þessu máli, sérstaklega þegar haft er í huga að Árni gat ekki einn komið því í kring að honum yrðu gefnar upp sakir til að hann kæmist aftur í framboð. Það þýðir að hópur manna stendur að baki spillingar, klíkuskapar og siðleysis. Það var óeðlilegt að gefa Árna uppreist æru. Eðlilegt er að gefa fólki uppreist æru sem veldur alvarlegu slysi og fær kannski dóm fyrir manndráp af gáleysi eða hefur verið handtekið vegna fjöldamótmæla, eða einhvern tíma fengið dóm á öðrum vettvangi - en aldrei fyrir misbeitingu valds.


mbl.is Vaxandi vantrú á framhald stjórnarsamstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

VG+D+S+B þýðir ekki 'Vigdís og börn' þó að auðveldlega megi lesa það út úr þessari stafaröðun.

Hrannar Baldursson, 17.5.2007 kl. 09:43

2 identicon

Ég er nú sammála mörgu sem þú segir en eitt finnst mér orðið frekar leiðinlegt að lesa og það er þessi gengdarlausa neikvæðni í garð Ingibjargar.. þetta er bara áróður sem íhaldið hefur haldið á lofti og virðist vera að síast inn í þjóðarvitundina.. hvernig er hún verri en aðrir stjórnmálaforingjar? Geir H hafnaði byggingu hjúkrunarheimila á sínum tíma og var varaformaður sjálfstæðisflokksins lengi, réð Jón Steinar í hæstarétt, studdi Íraksstríðið og svo mætti lengi telja.. Halldór Ásgrímsson Kvótakóngur.. Ingibjörg hefur verið lögð í einelti og mér er spurn.. afhverjum og fyrir hvern? Hver hefur hagnast á því?

kveðja.. ein sem ekki kaus hana en er hætt að lítast á blikuna..

Björg F (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 10:58

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vil biðja lesendur að taka þátt í skoðanakönnun um næstu stjórnarmyndun.

Björg: Má vera að tilfinning mín fyrir Ingibjörgu séu fordómar, en engu að síður er þetta tilfinning sem hefur vaxið með mér við það að hlusta vandlega á hana. 

Hrannar Baldursson, 17.5.2007 kl. 11:03

4 identicon

Sælir Don.

Ég er farinn að halda að þú hafir smellt eitt stk. x við D. Ef svo er veistu að ég er ánægður með það. Hvað Ingibjörgu varðar er ég sammála þér, hún virðirst ekki kunna að láta í minni pokann. Samfylkingarfólk virðist frekar blint á hennar persónugalla, hana skortir kjörþokka og viðkunnulegt fas. Ég geri fastlega ráð fyrir því að D & S nái samkomulagi um stjórnarmyndun, allavega vona ég það innilega, ríkisstjórnin væri stöndug og okkar menn fengu ticked to ride eftir 4 ár. Ingibjörg fær fínt ráðuneyti eins og t.d. utanríkisráðuneytið, Össur væri fínn í sjávarútvegsráðuneytið, Ólafur í félagsmálin og allir kátir og glaðir.

kv. Sancho

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 11:27

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Sancho,

Sammála þér að mestu aldrei þessu vant, en ég er svo mikill laumupólitíkus að þú kemst ekki að því hvern ég kaus fyrr en ég er búinn að bjóða mig fram. Annars er ég mjög hlynntur Öfgafullta skynsemisflokknum.

Hrannar Baldursson, 17.5.2007 kl. 11:32

6 identicon

Við förum e.t.v. fram saman eftir 4 ár undir merkjum öfgafullra skynsemissinna. X-Y og slagorðið yrði skynsemi smymsemi ...

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 11:35

7 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Sammála þér Hrannar um samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, það er örugglega besta stjórnin.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 17.5.2007 kl. 16:23

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ólafur: Góðar spurningar sem ég tek undir með. 

Hrannar Baldursson, 17.5.2007 kl. 16:34

9 Smámynd: arnar valgeirsson

segi eins og björg, sammála mörgu en sko ekki öllu. B+D er ekki sniðugt og þarf engar mútur til. Frammarar fengu skell en reyna að gera það besta úr því og þykjast vilja vera áfram með. sem er að grafa sína eigin gröf og því miður okkar flestra hinna líka.

ég sé ekki hvað er svona hræðilegt við D+V. þarna eru tveir ólíkir flokkar en þeir vita þó hvar þeir hafa hvorn annan. sem ekki er hægt að segja um aðra flokka sem flökta eins og strá í vindi. Held að þetta yrði sterk stjórn þar sem félagsmálin og umhverfismálin yrðu meira áberandi, allavega gert eitthvað í þeim, en nú er. Hef grun um að framkvæmdir yrðu verulegar en betur ígrundaðar og ekki blússandi uppgangur sem svo fylgir enn verri niðurgangur sem manni finnst jú hættan á akkúrat núna.

Það er nú líklegt að tveir stærstu flokkarnir muni haldast í hendur næstu árin og það yrði sterkur meirihluti og eins og þú segir margt gott fólk í samfylkingu, það vantar ekki. reyndar margt gott fólk i öllum flokkum. Hinsvegar eru alltof margir potarar í samfylkingu og liðsheildin virðist veik og ég bara treysti þeim ekkert of vel. Ekki spenntur fyrir þeirri stjórn.

Vinstri flokkarnir eru greinilega ekki hrifnir af því að bjóða framsókn í dans og skyldi engan undra. því miður æxlaðist þetta þannig að sjálfstæðisflokkur er í lykilstöðu því framsókn er svo veik og frjálslyndir eiginlega bara í neutralgír og geta ekkert gert.

Var búinn að spá D+VG og held mig við það fyrst kaffibandalagið náði ekki meirihluta. Mín spá. Mín skoðun.

arnar valgeirsson, 17.5.2007 kl. 17:23

10 Smámynd: arnar valgeirsson

ok, sé nu að stjórnarsamstarf er búið og geir og ingibjörg farin að tjatta saman.. en þó auglýsing jóhannesar hafi kannski ekki verið falleg og til eftirbreytni, þá voru samt yfir 20% kjósenda sjálfstæðisflokks sem strikuðu björn út. og ekki trúi ég því að  fólk hafi kosið flokkinn að gamní sínu..

Árni er sko umdeildur og ekki allra en hann er víst fjandanum duglegri og of duglegur sko, það er sannað.... hann er örugglega fínn i hin og þessi djobb en hann á ekki að fá að ráða yfir öðrum!

arnar valgeirsson, 17.5.2007 kl. 17:33

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég virði það, Arnar, að skoðanir okkar eru ólíkar um þessi mál; en ég er svona 97,5% viss þegar þetta er skrifað að S og D nái saman, og muni leiða farsæla ríkisstjórn.

Hrannar Baldursson, 17.5.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband