Hvernig geturðu látið bloggið þitt rísa í efstu sæti vinsældarlistans?

 

award_cup_blue

 

Ég ákvað að lesa mér til um leiðir til að gera blogg vinsælt, framkvæma í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar, og það skilaði don.blog.is í 3. sæti á vinsældarlistans blog.is. Það var sumarið 2008 sem ég gerði þessa tilraun í um tvær vikur.

Þetta krafðist mikillar vinnu, og ég var í sumarfríi, og fékk náttúrulega engan pening fyrir greinarnar sem ég skrifaði, en bloggið er skemmtilegt áhugamál.

Það eru nokkrar reglur sem ég setti mér:

1. Vanda fyrirsagnir

Það er afar mikilvægt að fyrirsagnir fjalli um efni greinarinnar, svíki ekki lesandann og séu það áhugaverðar að lesandi getur varla staðist freistinguna að smella á hana. Mér hefur alltaf líkað við spurningar sem form til að kveikja áhuga og oft enn skemmtilegra þegar mér tekst að vekja spurningar með greinum mínum heldur en að svara spurningum. Svo er það líka eitthvað við spurningar sem gerir fólk forvitið. Því meira sem hægt er að hneyksla með fyrirsögninni, án þess að gera hana falska, því betra.

2. Skrifa um mál sem höfða til tilfinninga frekar en hugsunar

Greinarnar sem ég skrifaði miðuðu við 'heit' málefni líðandi stundar, ekkert sem ég hafði endilega áhuga á, en auðvelt var að læra um og koma á prent. Greinar um vinsæl málefni eins og fótbolta, kynlíf og ofbeldi virðist vekja mestu athygli.

3. Birta nokkrar greinar á dag.

Þegar hægjast fer á teljaranum, eða fyrri grein ekki nógu vel heppnuð, birta sem fyrst aðra grein, þangað til þér tekst að birta grein sem vekur mikinn áhuga og teljarinn rýkur í gang.

4. Skrifa athugasemdir við önnur blogg.

Það er mikilvægt að fylgjast með öðrum bloggum. Ég geri það reyndar daglega, en það skilar miklu að skrifa athugasemdir hjá öðrum bloggurum og bloggvinum, og jafnvel fjalla um einhver af þeim málum sem aðrir bloggarar eru að skrifa um og vísa í þá.

Þetta eru aðferðirnar sem ég notaði til að koma blogginu í 3. sætið, og er nokkuð viss um að ef ég hefði ekki þurft að fara í vinnu og hugsa um aðra hluti að á endanum hefði bloggið endað í 1. sæti. Mig reyndar grunar hvernig ég hefði getað komið blogginu enn hærra á þessum tíma, en vildi ekki fara þá leið. Það er nefnilega hægt að skrifa um afar persónulega hluti til að fá bloggið til að rjúka upp úr öllu valdi, gefa lesandanum innsýn í eigið líf. Ég hleypi fáum það nálægt. Wink

Til dæmis skrifa ég nánast ekkert um fjölskyldu mína, vini, vinnu, eða vinnufélaga; ekki vegna þess að mér sé sama um þau, heldur vegna þess að ég vil ekki rjúfa friðhelgi þeirra fyrir eigin hégóma, sem væri þá að komast í 1. sætið. Það er gaman að komast í 1. sætið þegar maður er að keppa, en ég lít ekki á bloggið sem keppni, heldur sem samræðugrundvöll, stað þar sem hægt er að velta fyrir sér málefnum líðandi stundar og fá athugasemdir, sem er sérstaklega holt þegar maður er ekki alveg viss í sinni sök. 

Svo er það oft þannig að þegar maður er handviss í sinni sök og ekki tilbúinn að hlusta á athugasemdir, það er einmitt þá sem maður er líklegastur til að hafa rangt fyrir sér.

Það hefur tekið mig 30 mínútur að skrifa þetta. Verð að skella í mig morgunmat og stökkva upp í lest. Fer inn í miðbæ Osló til að tefla á páskamóti.

Oft er talað um að gott sé að sérhæfa sig í einhverju ákveðnu til að auka vinsældir. Ég er ekki alveg á þeirri línu, heldur hef ákveðið að sérhæfa mig í því sem vekur mesta athygli mína hverja stundina, og þá að fjalla um málið og íhuga það, passa mig á að falla ekki í rökvillur og reyna að átta mig á fleiri skoðunum en bara mínum eigin. Reyndar geri ég það ekki í bíómyndagagnrýninni, sem fjalla yfirleitt um hvað mér fannst um einhverja kvikmynd, og hefur lítið með skoðanir annarra að gera, því fegurðin er metin á ólíkan hátt í hverjum huga fyrir sig.

 

Ég gerði tilraun í gær. Fyrir ári síðan skrifaði ég aprílgabb sem var mikið lesið. Ég afritaði það inn í grein gærdagsins og hafði sömu fyrirsögn. Áhrifin voru þau sömu og fyrir ári síðan, fyrir utan það að í fyrra fékk ég 9 athugasemdir en í ár bara 8. Og ég skrifaði sumar þeirra sjálfur. 

 

Súlurit yfir síðasta mánuð. Sjáðu hvernig aprílgabbið sló í gegn!

 

 

 

Súlurit yfir síðasta ár.

Ég hef greinilega slysast til að skrifa einhverjar vinsælar greinar með um þúsund lesendur og sé að í apríl í fyrra hefur ein grein náð athygli yfir 2000 manns. Ég man ekki hver þessi grein var en kíki kannski á það í kvöld þegar ég hef tíma. Mér koma þessar tölur svolítið á óvart og sé að oft er fínn lestur á greinunum. 

Þar sem ég ber mikla virðingu fyrir mínum lesendum og er þeim þakklátur fyrir að taka þátt í pælingum mínum, verð ég greinilega að halda áfram að vanda mig við skrifin. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér að mörgu leyti en ekki öllu. Slæmt að láta þessar ímynduðu (eða raunverulegu) vinsældir ráða of miklu um skrif sín. Mín aðferð er frekar sú að skrifa oft og um hvað sem er en ekki það sem ég held að sé best til vinsælda fallið. Lesendur falla mjög í tvö horn. Þeir sem kommenta og þeir sem kommenta aldrei. Ímynda mér að það sé yfirleitt sama fólkið sem les bloggin mín. Á mínum súluritum eru sveiflurnar minni en hjá þér.

Sæmundur Bjarnason, 2.4.2010 kl. 08:16

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Athyyglisverð grein. Ég lít þó ekki á bloggið sem keppni, þó vissulega sé gaman að vita að fólk lesi það sem maður er að bulla. Sjálfur skrifa ég um það sem mér liggur á hjarta hverju sinni. Stundum eru það málefni sem annað fólk hefur áhuga á, mál sem eru "heit".

Eftir lestur þessarar greinar fór ég að leita að þessu súluriti, það sem kom mér á óvart var að þegar ég var að skrifa um mál sem voru mikið í ummræðunni, t.d. undanfari kosningarinnar í vetur, þá rauk ég upp listann.

Það er hinsvegar mjög gaman að skrifa athugasemdir hjá öðrum. Ég geri mikið af því.

Gunnar Heiðarsson, 2.4.2010 kl. 09:47

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góð saman tekt og mikill sannleikur þarna á ferð. Ég slysaðist til að skrifa um Úlfar Eysteinsson og hvalkjötið sem hann sagðist hafa geymt í frystigámi í 17 ár og vísaði í síðasta söludag. Þann dag rauk súlan hærra en nokkru sinni, það met hefur ekki verið toppað aftur, á níunda hundrað. Ég skrifa oft um mál sem mér finnst skipta miklu máli, en varla nokkur maður lítur á. Það er svo margt skrítið í kýrhausnum, eða þannig

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.4.2010 kl. 11:13

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Athyglisvert hjá þér, ég hef hins vegar þá útskýringu á óvæntum vinsældum mínum síðustu vikur að þeim fari fækkandi góðu bloggurunum, hef ekki háleitar skoðanir á eigin ágæti.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.4.2010 kl. 12:44

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Les allt frá þér og hef gaman og fróðleik af/Kveðja og gleðilega Páska/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 2.4.2010 kl. 17:48

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Takk fyrir þennan fróðlega pistil Hrannar de Breiðholt. Pistlar þínir eru í sérflokki. Ég blogga þegar mér finnst ég eitthvað hafa til málanna að leggja í lýðræðislegri umræðu og ,,andinn" kemur yfir mig. Það hafa verið ærinn tilefni til þess frá hruninu.

Mér finnst grundvallaratriði að hafa opið fyrir athugasemdir til að fá fram viðbrögð netverja. Bloggheimur eru lýðræðislegur vettvangur og þarf þess vegna að vera opinn fyrir alla að því gefnu að menn hegði sér við hæfi. Hér iðka menn tjáningarfrelsið.

Jón Baldur Lorange, 2.4.2010 kl. 19:44

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir fyrir góðar athugasemdir og virkri þátttöku í umræðunni.

Ég náttúrulega blogga af því að ég elska að skrifa. Kann bara ekki að búa til pening úr þessu áhugamáli. 

Sæmundur: Ég hef svo endalausan hafsjó hugmynda um þúsundir greina sem ég á eftir að skrifa að ég sé fram á að þurfa að framlengja lífinu um þúsund ár til að komast yfir verkefnið. :) Samt hef ég eiginlega ekkert að segja, en fullt að rannsaka.

Gunnar: Jamm, fyrir kosningar er eins og þjóðarsálin fari að hugsa meira saman. Vonandi verður bloggið til að hún fari líka að hugsa betur saman.

Hólmfríður: Þessi hvalkjötssaga var náttúrulega hrein snilld. Að detta þetta í dag, að frysta hval til margra ára og selja smám saman í hamborgara eða eitthvað slíkt. Ætli MacDonalds viti af þessu?

Ásdís: Þinn tími er bara kominn.

Halli gamli: Alltaf gaman að kíkja til þín líka. 

Jón Baldur: Innilega sammála þér. Bloggið er orðinn að helsta vettvangi lýðræðislegrar umræðu, stundum stjórnvöldum til ama, sem er merki um að verið sé að gera eitthvað rétt, því gagnrýnin hugsun á að vera óþægileg þegar hægt er að gera hlutina betur.

Gleðilega páska öll saman!

Hrannar Baldursson, 2.4.2010 kl. 21:01

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki nenni ég að blogga oft á dag, eða reyna eitthvað að komast á lista yfir mest lesnu bloggarana.  Ég man samt að þann dag sem ég fékk flestar heimsóknir var ég að blogga um einhvern hund, eða frétt tengda hundum.  Ég hef alltaf gaman að því að lesa bloggið þitt, eins og margra annarra frábærra bloggara hérna á moggablogginu, ég nenni ekki að lesa blogg annarsstaðar því miður. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.4.2010 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband