Færsluflokkur: Kvikmyndir
Clash of the Titans (2010) **1/2
19.4.2010 | 06:33
"Clash of the Titans" er endurgerð samnefndrar myndar frá 1981, en hefur flesta sömu gallana og fyrri myndin, þrátt fyrir uppfærðar tæknibrellur og að asnalega véluglan er ekki að þvælast fyrir, nema í stuttu atriði snemma í myndinni, sem virðist fyrst og fremst hafa verið hugsað til að láta áhorfendur vita að svo pirrandi persóna yrði ekki í þessari mynd. Það mistekst, því einn af félögum Perseusar er svona einhvers konar hávaxið galdratré sem áður var manneskja og kann ekki að segja nema eitt orð.
Vandamálið við upphaflegu myndina var að lítið var lagt í persónusköpun og því meira í tæknibrellur og hasar. Það sama á við hér. Það er synd, því styrkur grískra goðasagna felst einmitt í sterkri persónusköpun, og gaman væri að sjá hana vel útfærða.
Hades (Ralph Fiennes) er orðinn þreyttur á heljarvist sinni undir yfirborði jarðar og hefur sett af stað áætlun sem á að gefa honum meiri völd en Seifur (Liam Neeson). Hugmyndin er að gera mannfólkið afhuga Seifi, fá það til að berjast innbyrðis og síðan refsa þeim svo ógurlega að þeir verði hræddir við guðina í stað þess að lofa þá, en Hades nærist á ótta. Seifur á lofi.
Seifur barnaði drottningu fyrir einhverjum árum. Kóngurinn ætlaði að drepa bæði konu sína og barn, en tókst það ekki. Sonurinn, Perseus (Sam Worthington) lifði af, bjargað af sjómanni og einfaldri fjölskyldu.
Þegar Hades myrðir fjölskyldu Perseusar fyllist sá síðarnefndi heilagri reiði og ákveður að hefna sín á öllum guðunum, þar á meðal Seifi, sem hann fyrirlítur eins og alla aðra guði, þrátt fyrir að vera sonur hans.
Hades hefur fyrirskipað aftöku prinsessunnar Andrómedu (Alexa Davalos) til að stöðva skrímslið sem kallað er Krakki af einhverjum ástæðum, annars mun Krakkinn leggja borgina Argos í rúst. Eina von Andrómedu er Perseus, sem ákveður að fara á fund örlaganornanna eða véfréttarinnar (þessu er ruglað saman) og fá að vita hvernig hann geti drepið Krakkann.
Góður hópur fer með Perseus og lendir í ýmsum tölvuteiknuðum ævintýrum ásamt félögum sínum sem missa töluna ansi hratt fyrir minn smekk, og vængjaða hestinum Pegasus, sem eru, viðurkenni ég, afar vel gerð. Sérstaklega bardagar við sporðdreka og medúsu. Krakkinn sjálfur er aftur á móti frekar hlægilegur og engan veginn hægt að taka það skrímsli alvarlega.
Veikleikarnir felast í flatleika persónanna. Það er eins og ekkert skipti þær máli, þær séu bara til fyrir plottið og skipti í raun engu máli hvað um þær verður. Einnig eru sum bardagaatriðin svolítið ruglingsleg, því á tímabili hélt ég að hópurinn væri að berjast við einn risasporðdreka, á meðan þeir voru að berjast við tvo. Samböndin á milli persónanna eru algjörlega líflaus, og virðast leikararnir frekar hafa hugann við launaumslagið heldur en að skapa eftirminnilegar persónur, sambönd, og aðstæður sem gerir þær enn eftirminnilegri en áður.
Eftirminnilegasta persónan er Draco, hetja sem hefur heitið því að brosa ekki fyrr en honum hefur tekist að ná fram hefndum gagnvart guðunum. Hann er leikinn af Dananum Mads Mikkelsen, en hann fær ekki nógu mikinn tíma á skjánum til að gera eitthvað af viti við hlutverkið.
Það er svolítið skondið, að fantasía sem byggir á frjóum jarðvegi grísku goðsagnanna, skuli vera laus við innblástur og ímyndunarafl, og sína í stað heim sem mistekst að gera góð skil í þetta skiptið. Ég velti fyrir mér hvernig sama efni hefði spunnist í höndum einhverra eins og James Cameron, Steven Spielberg, Sam Raimi eða Peter Jackson, og er viss um að þeim hefði farnast margfalt betur.
Leikstjórinn, Louis Leterrier, hefur gert fjórar aðrar myndir: hasarmyndirnar "The Transporter" með Jason Statham og framhaldið "The Transporter 2", auk hinnar áhugaverðu "Danny the Dog" með Jet Li, Bob Hoskins og Morgan Freeman, og hina ágætu "The Incredible Hulk" sem Edward Norton gerði áhugaverða. Leterrier er einfaldlega ekki í þessum hágæðaklassa sem leikstjóri, þó að sjálfsagt eigi hann eftir að bæta sig í náinni framtíð.
Crazy Heart (2009) ****
18.4.2010 | 06:48
Stórgott drama um kántrýsöngvarann Bad Blake (Jeff Bridges) og baráttu hans við alkóhólisma. Þetta er hálfgerð endurgerð "Tender Mercies" þar sem Robert Duvall (framleiðandi Crazy Heart) leikur kántrýsöngvara sem berst við alkóhólisma, þarf að gera upp við fortíð sína og finnur von um betri framtíð í konu og barni. Það er samt allt önnur saga.
Ferill hins sívinsæla Bad Blake er ekki bara á niðurleið. Dag nokkurn nær hann loks botninum. Hann horfir löngunaraugum á uppáhalds viskýið sitt þar sem það situr uppi á hillu í kjörbúð. Vandinn er að hann á ekki fyrir flöskunni og íhugar að kaupa ódýrari drykk. Eigandi verslunarinnar er gamall aðdáandi hans og gefur honum flöskuna sem Bad Blake þráði. Blake er honum afar þakklátur.
Sama kvöld heldur Bad Blake tónleika í keiluhöll, þar sem verslunareigandinn og eiginkona hans eru meðal gesta. Hann tileinkar þeim eitt lag, en nær ekki einu sinni að byrja sönginn, og þess í stað hleypur út úr húsi og að næstu ruslatunnu þar sem hann ælir hinu ágæta viskýi. Þetta er samt ekki nóg til að hann átti sig á vandanum.
Til þess þarf hann að kynnast ungri móður, Jean Craddock (Maggie Gyllenhaal) og syni hennar Buddy (Jack Nation). Hann verður hrifinn upp fyrir haus og honum að óvörum hrífst hún af honum, þrátt fyrir gífurlegan aldursmun, en hann er 57 ára gamall og hún tæplega þrítug. Hann á fjögur hjónabönd að baki, sem áfengisneyslan og frægðarferillinn hafa lagt í rúst, en nú er eins og eitthvað sé að brjótast um í hausnum á honum, að kannski sé hann ekki endilega númer eitt, og allt í lagi þó að einhverjir aðrir séu það.
Bad Blake á góðan vin í kántrýsöngvaranum Tommy Sweet (Colin Farrell), en Bad þolir hann ekki vegna velgengni og vinsælda hans, á meðan ferill Blake hefur verið stöðugt á niðurleið. Hann kennir alltaf öðrum um eigin vanlíðan og óhamingju, en áttar sig ekki á hver hinn raunverulegi óvinur er.
Samt sér hann ekki af hverju hann þarf að hætta að drekka. Það þarf meira til. Og það augnablik kemur. Blake á fleiri vini sem vilja hjálpa honum upp úr hjólförunum, helstur þeirra er Wayne (Robert Duvall), kráareigandi sem þekkir vel og trúir á hinn sterka innri mann Bad Blake.
Jeff Bridges er mjög góður í aðalhlutverkinu. Reyndar hefur hann alltaf verið góður að mínu mati, síðan ég sá "Against All Odds" í Stjörnubíói forðum daga, og hann negldi sig eftirminnilega sem kvikmyndastjörnu í mínum huga þegar hann fylgdi henni snilldarlega eftir með "Starman", rómantískri vísindaskáldsögu sem John Carpenter leikstýrir. Hann var meira að segja frábær sem illmennið Obadiah Stane í "Iron Man", en það er svolítið óvenjulegt illmenni fyrir ofurhetjumynd, því hann var sérstaklega skapaður fyrir þá kvikmynd, í stað þess að nota illmenni úr teiknimyndasögunum.
Það sem Jeff Bridges gerir sérstaklega vel er að gera persónuna trúverðuga og áhugaverða samtímis. Þetta er það góð persóna að maður vill helst að ekkert slæmt komi fyrir hana, en maður veit að ekkert gott getur biðið manneskju sem er að eyðileggja sig með ofdrykkju. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa baráttu í afburðarleik Jeff Bridges.
Maggie Gyllenhaal er líka mjög góð sem móðirin unga, sem fellur fyrir honum og veit að það er ekki rétta skrefið í lífinu, bæði vegna aldursmunar, öryggi sonar hennar og því að náunginn er fyllibytta. Sá sem kom mér mest á óvart var Colin Farrell, í hlutverki Tommy Sweet, frammistaða hans hefur ekki verið umtöluð, en hann skín af manngæsku og velvilja sem gefur Bad Blake nákvæmlega þá dýpt sem hann þarf. Tommy Sweet er hálfgert afrit af Bad Blake og deilir sömu mannkostum, en ekki sömu göllum, að minnsta kosti ekki ennþá.
Það er ekki annað en hægt að vera ánægður með "Crazy Heart" hafirðu áhuga á drama sem virkar raunverulegt og skemmtilegt í senn. Líklega hefðu yngstu áhorfendur ekkert sérlega gaman að "Crazy Heart" því í raun springur ekkert í loft upp né eru þarna æsispennandi eltingaleikir á ofsahraða, heldur fylgjumst við með manni sem áttar sig smám saman á að lífið er ekki þess virði að lifa því sértu of fullur til að rannsaka það.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á að stofna sérstakan dómstól vegna Hrunsins?
17.4.2010 | 15:16
Hrunið er að einhverju leyti sambærilegt við nasisma í Þýskalandi. Á Íslandi kúventist siðferðið og allt virtist réttlætanlegt í nafni gróða og arðs, þessi hegðun átti jafnvel að koma þjóðinni vel, skapa góðæri, leysa öll okkar vandamál. Í Þýskalandi nasismans var svipað upp á teningnum, þar sem rutt var miskunnarlaust úr vegi öllum hindrunum sem gætu orðið á vegi þýsku þjóðarinnar. Það er þó eitt að drepa milljónir, og annað að valda hundruðum þúsunda varanlegum fjárhagslegum skaða.
Það er stigsmunur þarna, ekki eðlismunur, því að sama höfuðviðmið var leiðarljósið: tilgangurinn helgar meðalið. Og: það er í lagi að gera hið ranga því við komumst upp með það, og stjórnvöld leggja blessun sína yfir slíka hegðun. Það er ekkert siðferðiviðmið jafn mikilvægt og þroskuð samviska. Þegar fólk hefur ekki slíka samvisku og stendur á sama um siðferðileg viðmið og lögmál, þá erum við í vanda stödd.
Í kjölfar síðari heimstyrjaldar var settur á sérstakur dómstóll þar sem skýrt var að fyrning væri ekki inn í myndinni og allir þeir sem áttu hlut í máli skyldi draga til ábyrgðar. Þarna á ég við Nuremberg réttarhöldin.
Hrunið jafnast samt ekki á við nasismann í alvarleika, þó að alvarleiki Hrunsins sé mikill. Ég tel rétt að setja á sérstakan dómstól þar sem ákærðir verða þeir sem brutu af sér allt frá tímum einkavæðingar, það er að fyrningarákvæði muni ekki eiga við um Hrunið, þar sem um landráð, hryðjuverk eða síendurtekin rán er að ræða, nokkuð sem fyrnist ekki samkvæmt almennum hegningarlögum í íslenskri stjórnarskrá.
Annars gott að heyra Jóhönnu loks finna tóninn sem kom henni í stöðu forsætisráðherra.
Við hljótum að gera afdráttarlausa kröfu um uppgjör við refsivert athæfi. Þeir sem tæmdu bankanna verða dregnir fyrir dóm og allt gert til þess að þeir geri upp við samfélagið sem þeir fórnuðu á altari græðgi og skefjalausrar áhættusækni.
Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Allar flugsamgöngur stopp í Noregi vegna eldgoss í Eyjafjallajökli (myndir úr norskum dagblöðum)
15.4.2010 | 09:30
Flug í Noregi og á Englandi liggur niðri vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, og því spáð að askan muni dreifa sér yfir alla Evrópu á næstu klukkustundum. Líklegt er að allt flug muni leggjast af í Evrópu síðar í dag.
Vonandi tekst stjórnmálamönnum ekki að nota þetta til að sundra athyglinni frá rannsóknarskýrslunni góðu, þó að sjálfsagt sundrist athyglin sjálfkrafa þegar slíkar hamfarir ganga yfir.
Myndir: NRK.no, AftenPosten og VG.no
The Road (2009) ***1/2
6.4.2010 | 11:43
Jörðin er dauð eða í andarslitrunum. Allt líf á plánetunni er að veslast upp og deyja. Flest dýr horfin. Tré geta ekki lengur borið sig. Jörðin sjálf liðast smám saman í sundur. Ekki allar manneskjur deyja um leið og Jörðin. Þær lifa áfram árum saman, en nýtt líf verður ekki lengur til.
Þegar maturinn er búinn, þá eru tveir kostir eftir í stöðunni. Annar þeirra er að lifa áfram. Hinn er að gefast upp. Flestir gefast upp.
Þeir sem lifa áfram skiptast aftur í tvennt. Þá sem bera kyndil í brjósti, og eru hinir góðu, og þá sem lifa til þess eins að komast af, og eru hinir illu. Í það minnsta út frá sjónarhorni sögumanns. Hinir síðarnefndu rupla og ræna, og lifa á mannáti. Hinir eru á stöðugum flótta undan þessum illu öflum í von um að eitthvað betri bíði þeirra einhvers staðar. Það er borin von.
Viggo Mortensen leikur "Mann" sem er á slíkum flótta ásamt syni sínum, "Drengnum" (Kodi Smit-McPhee). Eiginkona hans, "Konan" (Charlize Theron), þoldi ekki lengur við og tók ákvörðun sem maðurinn neitar að samþykkja. "Það verður að láta ljósið skína", segir hann "það verður að halda í von, þó að allt virðist vonlaust." Hann lifir fyrir son sinn, sonur hans er Guð segir hann, meinar það og lifir eftir því.
Ferð feðganna gegnum auðn þar sem áður var líf, og fundi þeirra á þessari löngu leið suður að hafi, er áhugaverð en afar dapurleg. Á leiði þeirra verða mannætur og ræningjar, þjófar og flakkarar, sjúkdómar og hungur, hörmungar og fegurð í smáum hlutum.
"The Road" er ein af þessum myndum sem verður að horfa á í sérstökum stellingum. Maður verður að vera tilbúinn að gefa af sér á meðan maður horfir á. Ég mæli með að horfa á hana fjarri skarkala og látum og á stundu þegar þig langar til að hugsa um gildi lífsins. Áhorfandanum er hent í aðstæður sem taka á og eru ljótar. Þarna eru hryllileg atriði inn á milli sem sýna ömurleika mannsins í sinni verstu mynd, þegar fólki er safnað saman og geymt til slátrunar.
Þessi grimmd sálarlausra mannvera og þessi neisti þess sem vill ekkert annað gera en að verja eigið barn frá öllu illu, er kjarni sögunnar. Hún hitti næstum beint í mark hjá undirrituðum. Hvaða veg þú gengur er kannski ekki aðalatriðið. Aðal atriðið er að þú haldir áfram. Hvert sem ferðinni er heitið. Og þó svo þú vitir ekki hvert þú ert að fara.
Afar góð mynd sem hægt er að mæla með fyrir fólk sem hefur áhuga á pælingum um tilgang lífs og dauða. "The Road" hefði þess vegna verið hægt að kalla "Píslargönguna" og hægt væri að færa fyrir því rök að "Maðurinn" sé táknmynd Jesú og "Drengurinn" mannkynið sem fylgir í kjölfar hans. Sem dæmi um trúarlega táknmynd er þegar feðgarnir finna neðanjarðarbirgi fullt af dósamat, og eftir að hafa fengið sér góðan kvöldverð, tekur sonurinn upp á því að þakka fyrir sig, leggur lófana saman, horfir til himins og þakkar "Fólkinu" fyrir.
Úrvalsleikararnir Charlize Theron, Robert Duvall sem "Gamli maðurinn" og Guy Pierce leika smærri hlutverk, en sá síðastnefndi lék eitt aðalhlutverkið í síðustu mynd leikstjórans, John Hillcoat, "The Proposition".
The Blind Side (2009) ***1/2
29.3.2010 | 20:24
"The Blind Side" er kvikmynd sem virkar. Og hún virkar vel. Hún er mannleg án þess að vera væmin. Hún fjallar um viðkvæm mál tengd fátækt og kynþáttahatri og gerir það vel.
Big Mike (Quinton Aaron) er stór og mikill, hæfileikaríkur með bolta en virðist við fyrstu sýn beinlínis heimskur, trúirðu að slíkt sé til á annað borð, það er að segja, heimska. Réttu nafni heitir hann Michael Oher og einhvers staðar djúpt innan í þessum massaða líkama leynist viðkvæm og kjarkmikil sál. Til að fá notið sín í þessum heimi þar sem hann hefur verið umkringdur ömurlegustu mögulegu lífsskilyrðum, með móður sem dópar og selur sig og hefur eignast börn með hinum og þessum án þess að hafa hugmynd um hvað orðið hefur um þau.
Þegar þjálfarinn Burt Cotton (Ray McKinnon) við kristinn einkaskóla uppgötvar knatthæfileika Big Mike, ákveður hann mæla með honum sem nemanda við skólann. Í ljós kemur að Mike hefur greindarvísitölu sem mælist undir 80 og allar einkunnir hans falleinkunnir. Samt er honum gefið tækifæri. Kennarar styðja við bakið á honum og sjá að eitthvað er á seyði innan í þessum stóra dreng. Hvorki samnemendur né kennara grunar hver sannleikurinn er, hann á hvergi heima og gistir á næturnar í íþróttahúsi skólans, og smyglar nærfötum sínum í þvottavélar hjá öðru fólki.
Eitt kvöldið ráfar Big Mike úti í kaldri rigningu, enda heimilislaus, á leið í íþróttahúsið. Meðlimir Tuohy fjölskyldunnar hafa rekist á hann í skólanum. Sean yngri (Jae Head) hefur gefið honum heilræði og Sean eldri hefur tekið eftir honum hreinsa til eftir blakleik dóttur þeirra Collins (Lily Collins). En það er eiginkona þessa forríka eiganda Taco Bell veitingastaða sem ofbýður og fær Mike til að gista heima hjá þeim þessa nótt. Leigh Anne (Sandra Bullock) tekur strax ástfóstri við þennan unga og stóra mann, enda mannasiðir hans og hegðun til fyrirmyndar. Einnig er hann ljúfur sem lamb og reynist sannur vinur vina sinna.
"The Blind Side" sýnir tvær hliðar á einu samfélagi, sem báðar virðast blindar gagnvart hinni. Það þarf hins vegar tvær afburðarmennskur til að brjótast í gegnum múra fordóma og stéttarskiptingar til að sjá inn í heim hins aðilans, og ekki út frá sjónarhorni áhorfanda, heldur með innilegri væntumþykju og samúð. Árekstrar eru óhjákvæmilegir þegar slíkir heimar mætast, og það eina sem getur snúið slíkum árekstrum við, fyrirgefið fordóma og mistök, eru manngerðir sem eru tilbúnar að hafa augun opin gagnvart öðrum heimi en eigin. Slíkt er sjaldgæft í þessum heimi, en þessi kvikmynd fjallar um nákvæmlega þannig manngerðir.
Sandra Bullock á allan þann heiður sem hún hefur fengið fyrir þessa mynd, fyllilega skilið, og satt best að segja er Quinton Aaron henni engu síðri. Þetta er í raun óvenjuleg félagamynd, svona í anda "Lethal Weapon" og "Butch Cassidy and the Sundance Kid" með þeirri undantekningu að lítið er um ofbeldi í "The Blind Side", þó að vissulega séu ógnirnar nægar og stutt í að sjóði upp úr, sem reyndar gerist á óvæntan hátt í hreiðri glæpaklíku gamla hverfis Big Mike.
Michael Oher er raunveruleg manneskja. Hann er þekktur sem sóknarlínumaður í bandaríska ruðningsboltanum og er reyndar stórstjarna í þeirri íþrótt. Það gerir þessa sögu ekki verri. Það er ekki eitt leiðinlegt augnablik í þessari kvikmynd, þó að stundum eigi maður frekar erfitt með að sætta sig við alla þessa manngæsku og einlægni sem skín út úr mörgum persónum myndarinnar. Miðað við mína eigin upplifun af Bandaríkjunum, en ég hef verið viðloðinn því samfélagi síðustu 17 ár, þá er þetta ansi nálægt þeim Bandaríkjum sem ég þekki.
Manngæskan þarna er mikil, þó að öfgarnar geti verið það líka.
Kvikmyndir | Breytt 30.3.2010 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
ESB: Er aukið skrifræði af hinu illa?
13.3.2010 | 09:21
Skilgreining á skrifræði: Stjórnkerfi þar sem ferli eru sérhæfð, þeir hæfustu ráðnir í embætti, aðgerðir eru í samræmi við fastar reglur, skýr valdaskipting og miðlun valds.
Þannig ætti þetta að vera á Íslandi.
Vandinn felst í því að þegar skrifræðið er komið í fastan farveg og þeir valdameiri finna leiðir til að komast framhjá því, og nýta sér þessar leiðir óspart. Þannig verður spilling til. Lélegt skrifræði lætur menn komast upp með svona hegðun. Gott skrifræði kemur upp um svona hegðun.
Ef Ísland gengur í Evrópusambandið mun skrifræði aukast gífurlega. Þetta skrifræði er þungt og leiðinlegt í vöfum, en gerir spillingaröflum erfiðara fyrir, bæði smáum og stórum. Spillingin dafnar best þegar hægt er að taka ákvarðanir án þess að fara í stíf ferli, þegar hægt er að ráða vini og frændfólk til starfa án þess að auglýsa starfið laust fyrst eða fylla út skýrslur sem sanna að viðkomandi er sá hæfasti til viðkomandi starfs. Til að komast framhjá slíku við skriffinnskustjórnskipan þyrfti að ljúga, og lygarinn yrði síðan dreginn til ábyrgðar þegar lygin kemst upp.
Það sama á við um hagsmunaárekstra. Þingmönnum og ráðherrum getur verið settur stóll fyrir dyrnar þegar kemur að því að maka eigin krók með vafasömum ákvörðunum sem gagnast sumum en skaða aðra.
Málið er að lýðræðið sem slíkt er alls ekki fullkomið stjórnkerfi. Það hins vegar stuðlar að heiðarleika með því að gera ákvarðanir gagnsæjar. Gagnsæið kallar á skriffinnsku. Hægt er að halda vel utan um skriffinnskuna með nútíma upplýsingatækni, eða nota pappír og blýanta. Í dag höfum við slíkt val.
Segjum að upp komist um lygar og spillingu í stjórnkerfi þar sem ferli hafa verið skrásett. Þá verða ákveðin viðurlög og ábyrgð að taka við. Þetta virðist ekki virka rétt á Íslandi í dag, en væri hægt að kippa í lag með þátttöku í ESB þar sem viðurlög við reglubrotum eru vonandi strangari en á Íslandi.
Skriffinnska sem getur hjálpað og verndað þjóð gegn spillingu er ekki jafn slæm og andstæðan, þegar litið er til lengri tíma. Þegar málið um að ganga í ESB er farið að snúast um aukið skrifræði, er í raun verið að spyrja hvort við viljum fá farveg fyrir réttlæti.
Ég hef ekkert á móti slíkum farvegi.
Mynd: theinder.net
Ný stofnun kostar milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Shutter Island (2010) *1/2
11.3.2010 | 22:03
Leikararnir eru fínir. Leikstjórinn töff. Kvikmyndatakan flott. Tónlistin magnþrungin. Sagan slök. Gengur ekki upp. Oft fannst mér "Shutter Island" virka eins og tilgerðarlegur gjörningur og átti alveg eins von á að einhver leikaranna færi að dansa ballet upp úr þurru, bara af því að slíkt gæti verið svo þrungið merkingu og einhvern veginn passað.
Ég skil hvað Martin Scorcese reyndi að gera. Ég ætla samt ekki að segja það. Það gæti eyðilagt fyrir einhverjum sem hefði eftir allt gaman af því að sjá þessa kvikmynd. Gaman að Scorcese skuli gera tilrauninr. Fyrir hann. Leiðinlegt fyrir mig.
FBI lögreglufulltrúinn Teddy Daniels (Leonardo DiCaprio) siglir ásamt nýjum félaga sínum Chuck Aule (Mark Ruffalo) að eyju fyrir geðsjúka glæpamenn til að rannsaka hvarf konu að nafni Rachel (Patricia Clarkson og Emily Mortimer). Þeir koma á ferjubát gegnum þykka þoku og eyjan birtist þeim undir alltof dramatískri tónlist, í stíl við tónlistina úr "Cape Fear".
Í fangelsinu eru Max von Sydow og Ben Kingsley geðlæknaparið sem sinnir "sjúklingunum" með vafasömum aðferðum að mati Daniels, og ætlar hann að koma upp um þá, en það lítur hins vegar út fyrir að hann sé í erfiðri aðstöðu, vopnlaus, gefin "höfuðverkjalyf" á fyrsta degi og farinn að sjá sýnir sem hafa djúp áhrif á hann. Loks fer hann að spyrja hvort hann sé í raun sá sem hann heldur að hann sé.
Þessi söguþráður hljómar vel og hefði getað verið gerður ansi spennandi, en Scorcese klikkar illa í frásagnartækninni, þar sem hann beitir óáreiðanlegum sögumanni. Áhugaverð tilraun, en ekki tveggja tíma virði. Þessi saga hefði getað virkað ágætlega sem hálftíma "Twilight Zone" þáttur, og kæmi mér reyndar ekki á óvart þó það kæmi í ljós að svipaður þáttur hafi einhvern tíma verið settur saman.
Til að vera sanngjarn. Það er spennandi og flott atriði í myndinni þar sem Teddy leitar að fanga á hættulegustu geðdeild spítalans, og það atriði jafnast á við heila hrollvekju. Því miður tókst ekki að halda slíkum dampi alla myndina.
Tilfinningin sem ég sat uppi með eftir myndina kallaði á svona orð: tilgerðarleg, alltof löng, skildi hvað þá langaði að gera, hálf misheppnað. Mér leið nokkurn veginn eins eftir síðustu mynd sem ég sá eftir David Lynch "Inland Empire", en sú var reyndar enn steiktari en þessi.
Die Falscher (2007) ***1/2
28.2.2010 | 10:48
"Die Falscher" er vel heppnað helfarardrama um rússneska falsarann Salomon 'Sally' Sorowitsch (Karl Markovics) sem handtekinn er og stungið í þýskar fangabúðir nasista á upphafsárum seinni heimstyrjaldarinnar. Við fylgjumst með hvernig honum tekst að bjarga sér úr erfiðri nauðungarvinnu í störf sem henta honum betur, að teikna og falsa peningaseðla fyrir þriðja ríkið.
Meginþungi myndarinnar gerist í prentverksmiðju þar sem gyðingar eru látnir falsa milljónir breska punda og síðan bandarískra dollara fyrir nasistaforingjann Friedrich Herzog (Devid Striesow) sem reynist reyndar aðeins mannlegri en aðrir nasistar. Sally áttar sig á að hann getur hugsanlega lifað helförina af, og hefur áhuga á að taka félaga sína með sér, en skilur líka að afleiðingar fölsunarinnar geti hjálpað nasistum að vinna stríðið.
Togstreitan er vel sviðsett. Meðal félaga hans eru Kolya (Sebastian Urzendowsky) ungur rússi með berkla, en Sally hefur sett sér að koma honum lifandi gegnum stríðið, hvað sem það kostar. Meðal félaga hans er einnig hinn uppreisnargjarni Adolf Burger (August Diehl) sem áttar sig á hversu mikilvægt er að tefja áætlanir nasista, þó að það geti kostað hann og félaga sína lífið. Hinn afar skotglaði nasisti Holst (Martin Brambach) gefur svo áhorfendum góða ástæðu til að hata nasista innilega.
Það sem gerir söguna enn áhugaverðari en ella er aðalpersónan, sem er afar vel leikin af Karl Markovics og trúverðug. En sem falsari og glæpamaður er hann bæði útskúfaður af nasistum og gyðingum. Persónan reynist dýpri og betri en maður ætlar í upphafi, og ljóst er að átökin hafa gert hann að allt öðrum manni í lok myndar, en hann var í upphafi.
Það er hollt að horfa á góðar helfararmyndir. Þær minna okkur á hversu afvegaleidd heil þjóð getur verið þegar kemur að illa hugsaðri hugmyndafræði, sem er gjösneidd umhyggju gagnvart náunganum. Þannig var nasisminn illa hugsuð hugmynd, rétt eins og nýfrjálshyggjan og ýmsar fleiri kerfishyggjur, þar sem verðmætamat valdhafa snýst meira um kerfið en fólkið sjálft. Nasistar voru venjulegt fólk sem upplifði óvenjulegar aðstæður, og fylgdi leiðtogunum og kerfinu frekar en samviskunni. Sumir þeirra voru verri en aðrir, en allir tóku þeir þátt í hamförum sem valdið hafa óbætanlegu tjóni.
Samviskulausir kaupsýslumenn sem meta pening og fyrirtækjavöxt, arðgreiðslur og árangur, meira en velferð samfélagsins og hamingju fólks, eru einhvers konar nasistar. Eyðileggingin sem þeir valda eru þó ekki jafn augljós. Þeir skjóta ekki fólk í höfuðið fyrir að vera þeim ekki að skapi. Þeir loka fólk ekki inni í fangabúðum við ömurlegar aðstæður. Þeir taka hins vegar lifibrauð af fólki, húsnæði þeirra og möguleika til að komast af. Það að nasistar litu á það sem hermdarverk að rústa hagkerfi heimsins, vekur upp spurningar um hvort þeir sem rústuðu hagkerfi Íslendinga hafi verið einhvers konar nasistar.
Mynd: Rotten Tomatoes
A Serious Man (2009) ****
25.2.2010 | 19:46
"A Serious Man" er ein af þessum myndum sem maður annað hvort hatar eða elskar. Hún er miklu meira um ferðalagið en endirinn, miklu meira um örlögin en hversdagslífið, en gerist samt á fáeinum örlagaríkum dögum í lífi háskólaprófessors í eðlisfræði, sem veit allt og skilur allt, en ekkert af því sem hann veit eða skilur kemur honum að nokkru gagni í lífinu.
Lawrence Gopnik (Michael Stuhlbarg) lifir ósköp venjulegu fjölskyldulífi þar sem nákvæmlega ekkert gerist, nema betur sé gáð. Hann fer ekki að kíkja í kringum sig fyrr en besti vinur hans ýtir af stað atburðarrás sem skekkir verulega hið ofurreglusama líf Gopnik. Þessi vinur, að nafni Sy Ableman (Fred Melamed) er ein af ástæðum þess að orðtæki eins og "með vin eins og þig, hver þarfnast óvina?"verða til.
Sy þessi þykist vera umhyggjusamur vinur, en í raun er hann flagð undir fögru skinni, sem virðist öfunda Larry af lífi hans það ógurlega að hann setur af stað áætlun um að stela konu hans og fá hann rekinn úr vinnunni. Að sjálfsögðu grunar Larry ekki neitt, og heldur að Guð hafi snúist gegn honum, að líf hans sé bölvað, en það eru hugsanlega svör sem fólk finnur þegar það kemur ekki auga á sannleikann.
Larry er skrítnasta persónan af öllum, einfaldlega vegna þess að hann er heiðarlegur, umhyggjusamur og afburðargreindur einstaklingur. Dóttir hans stelur úr veski hans til að safna fyrir fegrunaraðgerð. Sonur hans stelur frá dóttur hans, og brýtur hegðunarreglur í skólanum frá a-ö. Nágranni hans á aðra hönd er einn af þessum hörðu gaurum sem tekur son sinn í veiðiferðir með haglara og reynir að eigna sér hluta af lóð Larrys. Nágranninn á hina höndina er hin eggjandi og hættulega tælandi frú Samsky, að ógleymdum bróðurnum Arthur sem býr inni á heimili þeirra, með krónískt þvagvandamál.
Fleiri áhugaverðar persónur, eins og eiginkonan, þrír rabbínar, kennari stráksins og síðan einhverjir forfeður hans og draugur úr löngu horfinni fortíð, að ógleymdum lögmanni, tannlækni og manni sem hefur orðin "Hjálpaðu mér" rituð á hebresku á gómhlið tanna sinna, kóreskum nemanda sem reynir að múta Larry til að hækka einkunnir sínar, og einn úr skólanefndinni sem ákveður hvort að Larry verði lífsráðinn eða ekki.
Allar eru þessar persónur eru trúverðugar og sérstakar. Allar kasta þær ljósi, eða kannski skugga, á líf Larry, og hjálpa honum eða ekki að átta sig á hvað er eiginlega að í lífi hans.
Ég skemmti mér yfir þessari mynd. Hún minnir á eldra verk þeirra Coen bræðra, "Barton Fink". Húmorinn er sá sami, en súrrealisminn er ekki lengur í myndmálinu, heldur því hvernig Larry upplifir lífið og tilveruna sífellt undrandi og óviss um hvað gerist næst.
Upphafsatriðið er svolítið spes og gefur tónninn, með draugasögu þar sem áhorfandinn er sjálfur látinn fylla í eyðurnar, og þá vonandi með eigin fordómum um drauga og hjátrú. Okkur líður illa þegar við fáum ekki útskýringu á einhverju sem skilur eftir tómarúm, og það er nákvæmlega þessi tilfinning sem aumingja Larry þarf að berjast við - að finna tilgang með lífinu til að fylla í þá ógurlega stóru eyðu sem allt í einu ýtir honum út af eigin heimili og skilur heimsmynd hans eftir í rjúkandi rústum.
Rotten Tomatoes: 87%
IMDB: 7,4