Færsluflokkur: Heimspeki

Af hverju gerum við kröfu um siðferðilega hegðun?

 


 

Síðustu daga hefur farið hátt að menn verði að víkja úr embættum og störfum, og axla ábyrgð. Er höfuðástæðan oft sú að siðferðileg hegðun viðkomandi hefur verið gagnrýnd og þykir óásættanleg, og viðkomandi jafnvel gagnrýndur fyrir spillingu, - sem er þá sjálfsagt ein höfuð andstæða siðferðilegar hegðunar.

 

Af hverju gerum við þessa kröfu um góða siðferðilega hegðun og hvað er eiginlega siðferðileg hegðun?

Fyrst ætla ég að gera tilraun til að svara seinni spurningunni, um hvað siðferðileg hegðun sé, og síðan hinni sem er enn dýpri um af hverju við krefjumst hennar.

Siðferði er nefnilega svolítið magnað. Til er fjöldi kenninga um siðferði og hafa heimspekingar krufið þær í mörg hundruð ár og eru enn ekki komnir að einni niðurstöðu - heimspekingar vilja nefnilega oft leita fleiri spurninga en svara. Samt virðast hugmyndir um gott siðferði alltaf skiptast í tvær fylkingar; annars vegar þá sem setur markmiðin á oddinn: nytjahyggjan (utilitarianism)- sem er nátengd efnishyggju, og hin sem metur meira ferðina að markinu en markmiðið sjálft: mannhyggja (transcendentalism) -  sem er nátengd hughyggju.

 

 


 

Mér dettur í hug að mótmælendur séu að gagnrýna siðferði nytjahyggjunnar, þar sem að hún er það sem ræður ríkjum í stjórnmálum, hagkerfi og framkvæmdum, en megin markmið nytjahyggjunnar er að heildin fái notið farsældar, þó að það geti kostað að einhverjum einstaklingum sé fórnað. Eftir stutta umhugsun kemst ég að þeirri niðurstöðu að mótmælendur séu ekki að gagnrýna nytjahyggjuna sem slíka, heldur að hún sé ríkjandi siðferðikerfi, og að einhver heilindi vanti til að lifa í samræmi við hana.

Hugsanlegar hefur fólk á tilfinningunni að verið sé að heildinni fyrir fáa einstaklinga, í stað þess að verið sé að fórna fáum einstaklingum fyrir heildinaþ Ef svarið er að fáum sé fórnað fyrir heildina, þá er viðkomandi siðferði gott og gilt og í samræmi við nytjahyggjuna, sama hversu vafasöm okkur gæti þótt það siðferðikerfi sem slíkt, en sé hins vegar verið að fórna heildinni fyrir fáa, er ljóst að um alvarlega siðferðilega bresti að ræða sem geta ekki endað með neinu öðru en ósköpum.

Rétt eins og þegar klippt er á línu línudansara.

 

Af hverju krefjumst við siðferðilegrar hegðunar?

Þegar við horfum á knattspyrnuleik og þekkjum reglurnar, og sjáum leikmann slá bolta í mark, þá ofbýður okkur og viðkvæmir einstaklingar gætu jafnvel orðið öskuillir ef dómarinn dæmir mark. Þarna gerist eitthvað ósanngjarnt - og við fáum engu við ráðið. Við verðum alveg brjáluð í skapinu, nema náttúrulega ef við höldum með þeim sem skoraði. Þá er þetta kannski réttlætanlegt. Ef við þekkjum ekki reglurnar og höfum engan áhuga á leiknum, þá stendur okkur sjálfsagt á sama.

 

 

Börn eru sérstaklega næm á réttlæti og sanngirni. Það þarf ekki mikið til að þau skynji þegar jafnvægið er ekki í lagi. Það þarf ekki meira en að í hópi þriggja barna að eitt þeirra fái fleiri liti í hendurnar en hin að upphróp um ósanngirni með réttlátri reiði tekur völdin.

Það er semsagt eitthvað djúpt innra með okkur sem dæmir hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við skynjum ósanngirni eða óréttlæti, þá truflar það okkur. Næm tilfinning gegn ranglæti er mikilvæg fyrir allar heilsteyptar manneskjur - og þegar þær sjá ranglæti bera sigur - þá ofbýður þeim. Sérstaklega ofbýður þeim þær manneskjur sem sjá ekki hið augljósa óréttlæti, og reiðast þessum manneskjum fyrir blindni þeirra og sinnisleysi.

Það vill heldur enginn sjá hetjuna, alla hans vini og fjölskyldu lúta í duftið fyrir illmennum í kvikmyndum eða skáldsögum, og hví ættum við þá að líða það í lífinu sjálfu? 

Þessi sterka trú okkar á réttlætinu er grundvöllur skilnings okkar á lífinu og tilverunni. Þessi frumhvöt getur reynst okkur illskiljanleg og hvatt okkur til að leita skýringa við henni og hvernig við tengjumst veröldinni á djúpan hátt, með ástundun heimspeki eða trúarleit. Þeir einstaklingar sem fara veg heimspekinnar verða að vera tilbúnir til að opna fyrir fleiri spurningar og kafa enn dýpra í leyndardóma tilverunnar, en þeir sem fara leið trúarinnar geta óhræddir lokað á spurningar því að svörin eru gefin með nokkuð áreiðanlegum kerfum. Hvort sem þau svör eru sönn eða ekki, þá líður fólki betur ef það hefur einhver svör sem rangt er að efast um.

Ég vil gera tilraun til að svara spurningu sem birtist í heiti bloggsins: Við gerum kröfu um siðferðilega hegðun einfaldlega vegna þess að við þurfum að halda jafnvægi í heiminum. Siðferðið er okkur jafn mikilvægt og að geta staðið á tveimur uppréttum, en við göngum að því vísu og áttum okkur ekki á mikilvægi þess fyrr en við getum ekki notað fæturna af einhverjum ástæðum, eða upplifum og verðum vitni að einhvers konar óréttlæti.

 

 

Mig grunar að heild Íslendinga þjáist í dag vegna fárra einstaklinga, sem er greinilegt brot gegn siðferði nytjahyggjunnar - en það kerfi er aðeins  hægt að réttlæta - og jafnvel það þykir vafasamt - ef fáum er fórnað fyrir heildina - en aldrei, aldrei, aldrei - að heildinni sé fórnað fyrir fáa einstaklinga - sem virðist þó hafa gerst og við þurfum að spyrna við með öllum tiltækum og uppbyggjandi ráðum, en þó án þess að grípa til leiða sem valda enn frekari óhamingju og jafnvel ófarsæld, rétt eins og er að gerast á Grikklandi í dag, þar sem ofsareiði og óeirðir gera stöðugt illt verra.

 

Myndir

Hugsuður: Richastic!

Ímynd nytjahyggjunnar - Hamingjusamt svín: Utilitarianism.com

Hönd Guðs eða Maradonna: Soccerfansnetwork.com

Jafnvægi og fíll: Starstore.com


Heimilislíking Don Hrannars

 


 

Næst, sagði ég, berðu saman áhrif menntunar og skorts hennar á eðli okkar gagnvart reynslu eins og þessari: Ímyndaðu þér manneskjur sem búa í íbúum sem liggja inn af göngum upp tröppur, einnig eru stundum lyftur í þessum byggingum. Þetta fólk hefur búið þarna frá barnæsku, alltaf á sama stað, þar sem þau sitja uppi í sófa með háls og fætur hlekkjaða við vegg.

Allir hafa samt farsíma og fjarstýringu í höndunum, sem þau geta notað til að skipta um sjónvarpsrásir, velja bíómyndir eða sjónvarpsþætti, eða til að spila tölvuleiki á stórum flatskjá fyrir framan þau. Þau sjá aðeins fram á við, því þau eru bundin það rígföst að þau geta ekki litið til hliðar. Þau fara heldur aldrei út úr húsi.

Eina ljósið kemur frá sjónvarpsskjánum, sjálflýsandi tökkum fjarstýringarinnar og af smáskjá farsímans.  Ímyndaðu þér að það eina sem þetta fólk sér eru þessi þrjú tæki, og eina hljóðið sem það heyrir er einnig úr tækjunum. Þau geta haft samskipti hvert við annað gegnum símann, og reyndar hafa þau líka aðgang að Internetinu á skjánum, svo þau komast í tölvupóst og á Facebook.

Já, ég ímynda mér þetta.

Ímyndaðu þér líka að fréttatímar eru þvingaðir inn í dagskrána, þannig að fólkið neyðist allt til að fylgjast með sömu fréttunum. Stundum eru fluttar góðar fréttir, stundum vondar, en oftast samt nógu vondar fréttir til að fólk langi síður til að komast út úr íbúðunum og inn í heim ofbeldis og sturlunar.

Þetta er undarleg mynd sem þú lýsir og undarlegir fangar.

Þeir eru eins og við. Heldur þú að þeir geti séð hvern annan?

Hvernig ættu þeir að geta það ef höfuð þeirra hafa verið tjóðruð föst allt þeirra líf?

Hvað um hlutina sem birtast á skjánum? Er það sama ekki satt um þá?

Vissulega.

Og heldurðu að þegar þau tali saman gegnum netið og símann að þau noti ekki sömu nöfnin um hlutina sem þau sjá á skjánum?

Þau yrðu að gera það. 

Og þegar mynd af manneskju birtist á skjánum, myndu þau ekki halda að þetta væri alvöru manneskja og þegar hún talaði að hún væri að tala til þeirra?

Það myndu þau sjálfsagt gera.

Þannig að fangarnir myndu trúa á allan hátt að sannleikurinn væri ekkert annað en myndirnar og hljóðin sem berast þeim af skjánum?

Þeir myndu sannarlega trúa því. 

Hugleiddu þá, hvernig færi fyrir þeim ef fangarnir væru leystir úr fjötrunum og þeir læknaðir af fáfræði sinni, hvað ef eitthvað slíkt ætti sér stað. Hugsum okkur að einn íbúinn sé leystur úr fjötrunum og neyddur til að standa á fætur, snúa höfðinu, ganga og horfa til dyra, þaðan sem dauf birta berst. Fjarstýringin og síminn eru tekin af honum og slökkt á sjónvarpstækinu.

Segjum að fangaverðir drægju hann út um dyrnar, og hentu honum inn í lyftu sem skilaði honum á jarðhæð. Þegar lyftudyrnar opnuðust sæi hann út í fyrsta sinn á ævinni. Honum yrði illt í augunum, honum myndi svima, hann yrði ringlaður og ætti erfitt með að átta sig á öllu því sem hann sér í fyrsta skipti berum augum, undir sólinni.

Hann áttar sig á þegar hann lyftir steini að hann er ekki bara ímynd, heldur raunverulegur hlutur, rétt eins og hönd hans. Yrði hann ekki undrandi? Ef þú segðir honum að uppgötvun hans skipti engu máli, heldurðu að hann myndi trúa þér? Hann áttar sig á að allt hans líf hefur verið blekking, hann hefur aðeins séð myndir af veruleikanum en ekki upplifað veruleikann sjálfan. Ef þú spyrðir hann hvort væri sannara, það sem hann hafði áður séð og það hann sér núna, hverju myndi hann svara?

Að það sem hann sér núna væri sannara.

Og ef vörður neyddi hann til að horfa beint í sólina, myndi hann ekki fá ofbirtu í augum og yrði honum ekki illt? Myndi hann ekki vilja forða sér og flýja til hluta sem hann gæti séð, og frekar leitað til hluta sem hann getur snert en í flatskjái?

Það fer kannski eftir því hvað hann er að horfa á. Ef það er Braveheart eða James Bond...

Svaraðu mér af einlægni.

Jú, vissulega. Hann myndi leita í hlutina fyrst. 

Eftir að hafa horft í sólina um stund er fanginn blindur, en svo jafnar hann sig þegar fer að rigna í augu hans. Hann lítur í kringum sig og sér poll á jörðinni. Hann stingur tánni í pollinn og skelfur af fögnuði þegar hann sér vatnið bregðast við hreyfingunni. Tíminn líður og nóttin skellur á. Hann sér tunglið og stjörnubjartan himinn. Hann hefur verið heilt ár úti og áttað sig á hvernig sólin hefur áhrif á árstíðirnar, og áttar sig á hvernig hún virðist stjórna öllu lífi. 

Skiljanlega.

Nú hefur fanginn sloppið úr augsýn varðanna og áttað sig á að annað fólk eins og hann, mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir, eru hlekkjuð við veggi fyrir framan sjónvarpstæki, eins og hann var. Heldurðu að hann hefði áhuga á að bjarga þeim?

Auðvitað.

Segjum að fanganum takist að ná valdi á fréttastofu sjónvarpsins og segi fólki sannleikann, að það sem þau horfi á sé ekki veruleikinn, heldur lygar. Heldurðu að þau myndu trúa honum?

Líklega ekki.

Hvað ef hann hefði leið til að sanna mál sitt, með því að taka myndir af öllu því sem hann hefur séð og upplifað. Myndi það trúa að hlutirnir sem hann sýndi og segði þeim að væru snertanlegir, væru það í raun og veru?

Ég er hræddur um að þau gætu ekki gert það sér í hugarlund, án þess að hafa haft slíka reynslu. Það þyrfti mjög sérstaka manneskju til að trúa ekki því sem hefur virst eini möguleikinn allt lífið. 

Verðirnir umkringja sjónvarpsstöðina, aftengja hana, ná fanganum og hlekkja hann aftur við vegg. Hann fær aftur fjarstýringu og farsíma, og enn flottari flatskjá. Heldurðu að hann muni reyna að losna úr prísundinni aftur og frelsa alla hina?

Vissulega.

Gæti hann nokkurn tíma sannfært fólkið, þó að hann hefði símasamband og netsamband, um að veruleikinn væri annar en það tryði?

Líklega ekki. 

Til hvers er ég þá að blogga þetta?

Í þeirri von að fleiri rumski?

 

 

 

 

Innblásari: Platón

Mynd: Worth 1000


Um undirstöður hamingjunnar: Sköpun, þjónusta og þekking

 


 

 

Svanur Gísli Þorkelsson skrifaði flottan pistil í gær: Það sem ég held um hamingjuna; heimatilbúin heimspeki.

Ég reyndi að byggja aðeins á honum og tengja hugmyndir hans hugmyndum Matthew Lipman um barnaheimspeki og hverju hún skilar manneskjum út í lífið, en Lipman heldur því fram að heimspekileg ástundun barna hjálpi þeim að móta gagnrýna og skapandi hugsun, sem þyrfti að vera stutt af umhyggju til að vera einhvers virði í veruleikanum, (og leiða þar af leiðandi til raunverulegrar lífshamingju, en ekki hamingju úr stöðlum og plasti).

Ég setti saman þennan stutta lista og teiknaði mynd til að sýna samsvörun milli þess sem Svanur var að velta fyrir sér og þessara kenninga. Mér finnst hugtakanotkun hans afar góð, og enn betri en mínar eigin þýðingar á þessum hugtökum.

 

 

  • Sköpun = Skapandi hugsun = Creative Thinking
  • Þjónusta = Umhyggja = Caring Thinking
  • Þekking = Gagnrýnin hugsun = Critical Thinking

Svanur hugsar með sér að sköpun, þjónusta (ást) og þekking séu undirstöður hamingjunnar.

Jón Steinar Ragnarsson svarar með þeirri kenningu að best sé að lifa í núinu (sem er reyndar liðið þegar þú lest þetta - hvað tekur þá við, annað nú? Felir núið í sér fortíð og framtíð á einhvern hátt?)

Óskar Arnórsson bendir á þá fegurð sem felst í því að gefa sér tíma til að velta svona löguðu fyrir sér. Er lykillinn að betri heimi kannski einfaldlega sá að fólk þarf að vilja betri heim og nenna að velta honum fyrir sér?

 

Hvað segir þú?

 

 

Mynd af brosum: The Doc Whisperer


Er Guð til?

Áður en hægt er að svara spurningu um hvort að eitthvað eða einhver sé til eða ekki, er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað það er sem við spyrjum hvort sé til eða ekki.

Þegar ég spyr hvort að stólar séu til þarf ég ekki annað en setjast á stól til að vera sannfærður um tilvist hans. Þegar ég spyr hvort að hundar séu til þarf ég ekki annað en klóra hundi bakvið eyrað til að sannfærast um að hann sé til. Þegar ég spyr hvort að vinur minn sé til, þarf ég ekki annað en að hringja í hann og hann svara til að ég sé sannfærður um tilvist hans. 

Til hafa verið margir stólar, hundar og manneskjur handan minnar reynslu. Ég efast ekki um það. Hins vegar vandast málið þegar kemur að nákvæmari þekkingu þar sem þarf að auðkenna ákveðinn stól, hund eða manneskju.

Stólum sem hefur verið hent og þeim eytt, hundar og manneskjur sem hafa dáið og orðnar eru að mold, hvernig get ég vitað að þær hafi verið til? Ég get vitað að Shakespeare var til af því að hann skrifaði Hamlet, ég á erfiðara með að greina hunda og stóla sem horfið hafa í tímans fljót.

hamlet800011

Ég get vitað að forfeður mínir hafa verið til, og er ég einhvers konar sönnun þess, þó að þessi þekking risti reyndar ekkert alltof djúpt. Ég hef til dæmis ekki hugmynd um hvaða skoðanir langafar mínir og langömmur mínar höfðu á tilvist guðs.

Þegar þekking okkar tengd reynslu reynist svo skammvinn sem reyndin er, leitum við annarra leiða til að njörva hana niður. Við skrifum sögur um atburði og fólk sem við viljum muna eftir. Best skrifuðu sögurnar njóta virðingar og fólk reynir að læra þær, á meðan þær verr skrifuðu, sem eru hugsanlega nákvæmari og sannari hverfa í gleymskufljót tímans.

Skrifaðar hafa verið sögur um merkar manneskjur sem mörg okkar hafa aldrei hitt: móður Teresu, Jesús, Múhameð, Búdda, Sókrates og þannig má lengi telja. Það er auðvelt að efast um tilvist þeirra, en kannski erfiðast að efast um tilvist móður Teresu, þar sem að hún er nýfallin frá. Hins vegar er hægt að efast um að sögurnar um þetta fólk séu sannar, rétt eins og hægt er að efast um að sagan um Hamlet hafi verið sönn í frásögn Shakespeare. Var þessi danski prins, Hamlet, einhvern tíma til?

Hvernig stendur annars á því að við þekkjum miklu betur sögupersónu heldur en raunverulegar persónur sem til voru á 16. öld? Af hverju eru sögupersónurnar meira lifandi í okkar augum? Er það vegna þess að þær voru hannaðar fyrir ímyndunaraflið, frekar en fyrir minnið, og þess vegna er okkur auðveldara að sjá þær fyrir okkur?

Og hvað um Guð? Ég veit varla hvað 'Guð' þýðir, annað en að hann hafi skapað himinn og jörð á sjö dögum, og að efast megi um hvort að sjö dagar fyrir Guð sé það sama og sjö dagar fyrir manneskju, þar sem að einn dagur fyrir Guð er sem þúsund ár fyrir manneskjur. Ef Guð er veran sem olli því að heimur okkar varð til, þá er allt eins hægt að segja að náttúrulögmálin og Guð séu eitt og hið sama. 

Spurningin verður þó sú hvort að Guð hafi valdið náttúrulögmálunum eða náttúrulögmálin valdið Guði. Þar sem að Guð skapaði allt hlýtur hann að hafa skapað náttúrulögmálin og látið síðan náttúrulögmálin sjá um sig sjálf. En ef þetta er rétt, er Guð vera sem hefur vilja?

Ef Guð hefur vilja, hver getur hann þá verið annar en að láta náttúrulögmálin ráða ferðinni, rétt eins og hefur verið raunin síðan elstu menn muna? Getur virkilega verið að Guð líti á suma menn með vanþóknun og aðra með velþóknun, og að þeir sem þóknast honum fari til himnaríkis en þeir sem gera það ekki fari til helvítis?

Ef þetta er satt, þá finnst mér þetta heldur ósanngjarn leikur, sem ég neita að taka þátt í. Ég hef engan áhuga á að þóknast einum eða neinum, heldur hef ég djúpan áhuga fyrir því að gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða í þessu lífi.

Af hverju vil ég gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða, ef mér er sama um himnaríki og helvíti? 

Málið er að ég trúi því að hamingja sé góð. Og þá á ég ekki við bara hamingju fyrir mig eða mína, heldur fyrir alla. Því fleiri manneskjur sem eru hamingjusamar í heiminum, því betra verður að lifa í þessum heimi, og því líklegra að mín eigin börn verði hamingjusöm og börn þeirra.

Málið er að ég virði verk forfeðra minna. Þeir hafa lifað og dáið, en alltaf skilið eftir sig mannveru sem síðan skilar af sér öðrum mannverum. Forfeður mínir hafa alið börn sín upp í þeirri von að eitthvað rætist úr þeim, að þau vaxi úr grasi og verði eitthvað. Þannig ræktum við fjölskyldu okkar eins og tré, við gróðursetjum það og hlúum að því þar til það er nógu sterkt til að þola hvaða veður sem er. Og þó að við föllum frá heldur tréð áfram að vaxa og vonandi dafna.

Við munum öll deyja. Börn okkar munu fara sömu leið. Svo og börn þeirra. Það sem börn okkar taka með sér inn í lífið er sú viska sem við getum fengið þeim, og hjálpað þeim að rækta með sér. Þau læra af þessari visku, og kenna hana sínum börnum á sinn hátt. Þessi viska getur haft áhrif á samferðarfélaga þeirra og hjálpað til við að leggja veginn að hamingjunni. 

Við gefum þessar örsmáu agnir vonar með börnum okkur, vonar um að við séum að rækta eitthvað sem mun gefa eitthvað gott af sér með tíð og tíma. Við sættum okkur mörg við að við höfum ekki hugmynd um hvað þetta góða er, sem við vonum að verði til, en það kæmi mér ekki á óvart þó að margir freistuðust til að kalla það Guð.

Er Guð til?

Út frá þessum pælingum get ég ekki sagt annað en að spurningin sé í sjálfri sér röng, þar sem að við getum aldrei vitað neitt um veru sem við getum ekkert vitað um, og þar af leiðandi er ómögulegt að staðfesta eða ekki um tilvist hennar.

Aftur á móti getum við trúað því að Guð sé til, og byggt þá trú á þeim hugmyndum sem við ræktum með okkur um hann, hana eða það. Þessar hugmyndir sem við ræktum um Guð eru hugsanlega eina vísbendingin sem við fáum nokkurn tíma um tilvist Guðs.

yggdrasil2

Er Guð til?

Svari ég játandi er ég að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Svari ég neitandi er ég einnig að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Því maður getur hvorki játað né hafnað öðru en því sem maður skilur. Þar af leiðandi sætti ég mig við óvissusvarið, að ég veit ekki hvort að Guð sé til eða ekki, því að ég veit ekki í fullri hreinskilni hvað Guð er.  

Ég veit að fólk hefur ólíkar kenningar um hvað og hver Guð er, og fjöldi trúarbragða hefur sprottið upp til að svara þeirri spurningu. Hins vegar er ég sáttur við að vita að ég viti ekki svarið, en samt hef ég áhuga á að vita það - ég held það se´bara ofan mannlegum skilningi, og þegar við færum eitthvað sem er ofan mannlegum skilningi í mannlegan skilning verður ekkert úr annað en tómur misskilningur og ósætti þar sem okkur virðist eðlislægt að vera ósátt við að vera ósammála, og sumir fyllast jafnvel heift við slíkar aðstæður.

Svarið mitt í dag er einmitt svar sem að mætti teljast til veikleika, vegna þess að svar sem þetta vekur grunsemdir um vanþekkingu og leti, en það er svarið: "Ég veit það ekki." 

Málið er að þetta er svarið sem að hvergi má nota, því að með svari eins og "Ég veit það ekki" er hægt að hanka okkur á vanþekkingu, fella okkur á prófum og fullyrða að við séum vanhæf. 

"Ég veit það ekki," getur aftur á móti, að mínu mati verið fullgilt og gott svar eftir vel grundaða íhugun, en ég skil líka vel að fólk vogi sér ekki að svara nokkurri spurningu á þennan hátt, því að við höfum verið vanin á að svara frekar því sem við höldum heldur en að viðurkenna að við vitum ekki þegar við vitum ekki eða getum ekki vitað. 

Aftur á móti er ég fyllilega sáttur við að fólk fylgi sinni sannfæringu og veit ég vel að þó ég telji mig ekki vita sannleikann í þessu máli, getur vel verið að einhverjir aðrir viti betur. Ég er einfaldlega ekki tilbúinn að samþykkja hvaða trúarskoðun sem er, og veit að rök duga skammt þegar trú er annars vegar. Trúarsannfæring er nefnilega dularfull og ógreinanleg mannlegum skilningi, en það þýðir samt engan veginn að hún sé án gildis eða gæða.

 

R.E.M. Tapandi trúarbrögðum mínum:

 

Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði? 

Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu. 

 


Alger

Hvað er það að vera algerlega maður sjálfur? Hvernig veistu hvaða eiginleikar eru sannarlega þínir og einskis annars? Eru öll sjálf í þessum heimi algerlega aðskilin frá hverju öðru, eða erum við öll samofin í vef þekkingar og samskipta, og verðum aldrei algerlega aðskilin?

Hið algera eru allir þeir hlutir og allar þær hugmyndir sem við getum hugsað okkur og þekkt. Vel getur verið að veruleikinn hafi eitthvað að geyma handan okkar þekkingar, eða handan hinnar algeru þekkingar mannkyns.

Ég hef heyrt barn segja við annað barn: "Þú ert alger asni."

Merkingin er skýr, en samt er einhver greinarmunur á því að kalla einhvern 'asna' og að kalla viðkomandi 'algeran asna'. Málið er að alger asni felur í sér að viðkomandi hafi alla hugsanlega eiginleika asna, á meðan sá sem kallaður er asni hefur hugsanlega eitthvað í fari sínu sem einkennir asna.

Felst merkingin í 'alger asni' um skilning þeirra einstaklinga sem eiga þessi orðaskipti, sem er hugsanlega ekki eins í huga þeirra beggja, þar sem þeir hafa sjálfsagt misjafnlega mikla þekkingu á ösnum, eða hvort að viðmiðið sé öll sú þekking sem mannkynið hefur safnað saman um asna.

Það sama á við þegar einhver manneskja er kölluð 'alger draumur', 'alger sveppur' eða einfaldlega 'alger'.

Hvernig tökum við þátt í hinu algera? Getur ein manneskja öðlast alla þá þekkingu sem mannkynið hefur öðlast í framþróun aldanna, eða er slík þekking ómöguleg einni manneskju?

 

Er hið algera alltaf nauðsynlegt og skilyrðislaust, eða er hið nauðsynlega og skilyrðislausa alltaf algert? 

spiderweb2

Hvort er 'ég' algert fyrirbæri, eða bara hluti af einhverju margfalt stærra fyrirbæri? Hvernig er þitt 'ég' öðruvísi en mitt 'ég'? Eru þessi 'ég' okkar kannski eins?

Er tungumálið alger vefur sem tengir saman alla okkar þekkingu og vitund? Getur verið að hið algera sé tengt tungumálinu, þannig að hið algera fyrir þann sem skilur aðeins íslensku sé annað en fyrir þann sem skilur aðeins kínversku eða aðeins spænsku? Getur þá verið að með aukinni þekkingu á eigin tungumáli og öðrum málum, að hið algera vaxi þannig með okkur?

language-courses-abrod_secr

Nú get ég hugsað jafnt og flæðandi á íslensku, ensku og spænsku; en hef samt ólíka tilfinningu fyrir sjálfum mér eftir því á hvaða tungumáli ég hugsa. Þegar ég hugsa á íslensku finnst mér ég stöðugt þurfa að velta fyrir mér beygingum og því hvort ég beiti málfari rétt, á meðan slíkar pælingar eru mér fjarri þegar ég hugsa á ensku - sem mér finnst í raun mun auðveldari leið til að hugsa rökrétt um hlutina. Og svo er það spænskan, en þar finnst mér ég breytast í meiri tilfinningaveru en þegar ég hugsa á annað hvort íslensku eða ensku - það er eins og heimurinn taki á sig ólíka liti eftir því hugtakasafni sem maður notar til að átta sig á honum.

Hið algera getur ekki verið Guð, því að Guð er hugtak handan mannlegrar þekkingar, held ég. Hið algera er varla manns eigið sjálf, heldur hugsanlega öll sú vitund sem við komumst í snertingu við og er okkur á einhvern hátt sameiginleg. 

Hið algera er óháð öllu öðru, því það einfaldlega er í sjálfu sér. En ef það er óháð öllu öðru, getur hið algera þá breyst? Ef eitthvað getur ekki breyst, er það þá ekki háð hinu óbreytanlega? Og ef það getur breyst, er það ekki breytingum háð?

Getur eitthvað mögulega verið algerlega óháð öllu öðru? Er einhver eining möguleg í þessum heimi sem að tengist ekki einhverju öðru á einhvern hátt?

Getur nærvera eða fjarvera verið alger? 

Hvað er hið algera? 

Female-Floating-in-Crystal-Waters-in-Front-of-Seaplane-Bahamas-Photographic-Print-C10258343

Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði? 

Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu.  

 

Algerir byrjendur - David Bowie: 


Hver hefur aldrei rangt fyrir sér?

Uppáhalds heimspekilegu augnablikin mín eru ekki leiftrin þegar manni finnst eitt augnablik að maður skilji allt í einu allan heiminn, reynir að skrá niður hvernig hann er og svo hverfur þessi sterka sýn eins og draumur, - heldur eru það augnablikin þegar ég er að skoða hugtök og uppgötva allt í einu að ég veit hvorki upp né niður, að viðfangsefnið er margbrotnara en ég hafði áður gert mér í hugarlund - að heimurinn er þannig stærri og meiri en ég hafði áður áttað mig á.

Oft hef ég á tilfinningunni að ég viti gífurlega mikið um heiminn sem við lifum í, og gerist jafnvel svo djarfur að telja mig vita svarið við tilgangi lífsins. En það eru bara stutt augnablik sem ég veit innst inni að eru tálsýnir, því ég skil það eitt að þegar maður telur sig vera búinn að festa hönd á hvernig hlutirnir eru, þá er sú festing manns eigið sköpunarverk, og þar af leiðandi ófullkomið eins og ég, eins og allar manneskjur. 

Sumir opna aldrei lófann til að sjá hvernig veruleikinn hefur bráðnað undan gripinu, og þrjóskast við til dauðadags, því að það að sjá mynd af veruleikanum einu sinni í föstu formi, það getur verið nóg fyrir suma. Það dugar hins vegar ekki lengi fyrir þetta fólk sem þarf alltaf að spyrja af hverju þetta og hvers vegna hitt. Það vill bara þannig til, og ég hef ekki hugmynd um hvorki af hverju né hvers vegna, að ég er síðarnefnda manngerðin.

Einn af mínum eftirlætis heimspekingum og sálufélögum er Charles Sanders Peirce. Undirstöðuhugtak heimspeki hans er sú trú að það eina sem er áreiðanlegt þegar um þekkingu er að ræða, sama af hvaða toga hún er, hvort sem hún er vísindaleg, guðfræðileg, byggð á reynslu eða hugsunum, þá er aðeins eitt sem tengir þær allar saman. Og það er að okkur getur skjátlast.  Eða til að vera nákvæmari: okkur hlýtur að skjátlast.

Reyndar hélt Peirce því fram að því öruggari sem við værum um að við vissum sannleikann um eitthvað ákveðið fyrirbæri, einmitt þá skjátlaðist okkur mest, og það er einmitt af þessum sökum sem mikilvægt er að halda leitinni áfram - öll stöðnum og föst trú bindur lífið við hugmyndir skapaðar af mönnum, en vitundin um óvissuna frelsar okkur undan fjötrum eigin trúar. Ég er ekki að tala gegn trúarbrögðum eða vísindum, því að trúað fólk getur vissulega verið leitandi rétt eins og vísindamenn. Það eru hins vegar þeir sem eru hættir að leita sem eru villtir.

Peirce gagnrýndi af mikilli hörku heimspekinga sem dældu heimspekilegum fróðleik í nemendur sína, þar sem að þeir væru búnir að finna réttu svörin, og létu eins og þeim gæti ekki skjátlast um nokkurn skapaðan hlut. Málið er að sama hversu flott kenningarkerfi heimspekingar skapa, það finnst alltaf einhver glufa í þeim, alltaf eitthvað sem passar ekki alveg saman við veruleikann, eða er í mótsögn við sjálft sig eða heilbrigða skynsemi.

Heimspekin, erum við Peirce sammála um, er einmitt eilíf leit að þekkingu og visku, ekki útdeiling. Heimspekingur sem segir öðrum hvernig heimurinn er með fullri vissu og endanleika, er sölumaður gallaðrar vöru.

 


Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?"


Í gær og í dag hef ég fengið mörg áhugaverð svör við grein sem ég skrifaði um kvikmyndina Fitna, sem er áróðursmynd gegn múslimum og með myndum af staðreyndum fullyrt að allir múslimar sér hryðjuverkamenn. Sumir einstaklingar virðast ekki átta sig á að slíkur fordómafullur áróður er hættulegur, og sumir átta sig ekki á að þetta er áróður sem fer með rangt mál, sem er nokkuð alvarlegt mál í mínum huga. Svona fordómafullur áróður væri ekki hættulegur ef allt fólk áttaði sig á að þetta er fordómafullur áróður.

 

"Það að birting þessarar myndar særi tilfinningar einhvers manns er að mínu viti ekki nógu sterk rök og ég var ekki meðvitaður um að hægt væri að móðga fyrirbæri á borð við trúarbrögð eða siðferðiskennd." (salb)

 

Málið snýst ekki um móðganir eða særðar tilfinningar, heldur um rétt hópa eða einstaklinga til að æsa upp fordóma og hatur gegn ákveðum hópi fólks. 

Fullyrðing kvikmyndarinnar eru sú að múslimar bera ábyrgð á hryðjuverkum. Það er einfaldlega ekki satt. Það er hins vegar satt að sumir einstaklingar sem trúa á Íslam beri ábyrgð á hryðjuverkum. Þessi yfirfæring sumra yfir á alla er fordómurinn ósanni.

Það vill svo til að leiðtogi öflugustu hryðjuverkasamtaka heims er öfgafullur múslimi, og að öfgafullir múslimar nota smávægilegustu rangfærslur sem olíu á eld hatursfullra fordóma, til að hafa áhrif á þá hófsömu og æsa þá til verka. Ég er ekki að segja að það sé rétt hjá öfgafullum múslimum að hóta kvikmyndagerðarmönnum lífláti, frekar en það er rétt hjá nokkrum einstaklingi að senda hótunarbréf til nokkurrar manneskju.

Kristnir öfgatrúarhópar eru lítið skárri, þar sem þeir ofsækja einstaklinga fyrir skoðanir sínar, brenna bækur, brenna hljómplötur, ofsækja fólk af öðrum trúarbrögðum, fremja jafnvel fjöldasjálfsvíg. Ég hef margoft verið vitni að umræðum þar sem allir kristnir eru sagðir klikk út af svona atriðum. Það þýðir samt ekki að allir kristnir séu klikk.

Dæmi: Ef gerð væri kvikmynd sem flokkaði alla Evrópubúa sem nasista og fasista, þar sem að það voru vissulega hópar innan evrópskra þjóða sem voru forsprakkar þessara öfga. Ísland væri tekið sem dæmi um land þar sem nasismi grasseraði vegna þess að til er hópur á Íslandi sem er gegn innflytjendum, og þar af leiðandi séu allir Íslendingar nasistar. Segjum að gerð yrði kvikmynd sem fengi mikla útbreiðslu og mælti með því að Íslendingar yrðu helst skotnir á færi þar sem þeir sæjust utan Evrópu, vegna þess að þeir eru nasistar og þar af leiðandi hryðjuverkamenn, væri þá rangt fyrir Íslendinga að vilja gera einhverjar ráðstafanir gegn slíkri kvikmynd?

 

Í mínum huga (á þessum tímapunkti) er varla hægt annað en að líta á umrædda klippu sem áróður ætlaðan til að æsa upp og vekja hatur á muslimum og/eða islam í heild... og það merkilega er, að það virðist vera að virka !  Það er ótrúlegt sem  fólk lætur útúr sér í kommentum víða á netinu (og þá er eg ekkert sérstaklega að meina hér á mbl bloggum)  Ekkert óalgengt að maður sjái:  "nuke them" "hefjum krossferð"  "útrýmum þeim" o.s.frv. o.s.frv.  Óhugnarlegt.  

Þetta er alveg komið í þvílíkt rugl. (Ómar Bjarki Kristjánsson)

 

Sammála.


Á að hengja boðbera válegra tíðinda? (Helga Guðrún Eiríksdóttir)

 

Nei. En boðberar válegra tíðinda verða að fara með satt og rétt mál, annars er hætta á að ráðist verði að saklausum. Er slíkt réttlætanlegt?

 

það þarf ekkert að (gera) í þessum málum nema fjarlægjar hömlur af tjáningarfrelsi og hafa þær svipaðar og eru í Bna (Alexander Kristófer Gústafsson)

 

Bandaríkjamenn hafa ekki samþykkt að fara eftir mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna, þó að upphaflegur höfundur þeirra hafi verið Bandaríkjamaður. Mannréttindarsáttmálinn ver til að mynda hópa gegn óábyrgum áróðri. Frelsi er ekki það að mega gera hvað sem er án afleiðinga. Frelsi er fyrir þá sem geta höndlað það, vonandi alla, en þeir sem misnota það verða að standa taka afleiðingum eigin máls og gerða. Ég vil frekar styðja mannréttindin en vinna gegn þeim. Hvað um þig?

 

Treð því hér inn - að í stað þess að taka svínakjöt og önnur matvæli sem ekki neytt af trúarástæðum - úr mötuneyti t.d. Austurbæjarskóla, hefði e.t.v.átt að  bæta við  daglegt úrval.

Væri nokkuð slæmt að leyfa "öllum trúar og/eða vantrúarhópum" að hafa sitt tákn/skjaldarmerki/píslarvott/ á skólagangaveggjum, í stað þess að banna það sem fyrir kann að hafa verið (t.d. krossinn)? (Beturvitringur)

 

Sammála því að almennt sé skynsamlegra að leyfa fleirum að vera með en að útiloka alla.

 

Þessi stuttmynd á sama rétt á sér og meistaraverk Richard Dawkins "Root of all Evil?"God that wasn't there, bara hina sjokkerandi "Deliver us from Evil" sem Amy Berg gerði. Ég kannast hins vegar ekki við að kaþóikkar, aðrir kristnir eða samkynhneigðir hafi hótað því að strádrepa þá sem stóðu að þessum kvikmyndum. sem og  ágæta pæling Brian Flemming um the

Á að taka eitthvað sérstakt auka-tillit til þeirra sem lesa einhvern kóran? (Víðir Ragnarsson)

 

Kannski tökum við ekki eftir slíkum ummælum frá öfgafullum kristnum trúarhópum af því að við þekkjum slíka hópa aðeins betur en öfgafulla múslímska trúarhópa, og vitum að ekki borgar sig að taka mark á slíku rugli. Hljómar undarlega, en pældu í þessu. Sumt sem er frétt fyrir kristna er ekki frétt fyrir múslima og sumt sem er frétt fyrir múslima er ekki frétt fyrir kristna. Við erum ólík og okkur ber að virða það. Við þurfum að átta okkur á að mannvirðing skiptir máli, og hluti af mannvirðingu er að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum, sama hver á í hlut.

 

Ég er nú ekki alveg að skilja þennan pistil - eftir svo hámenntaðan mann. Mynd Fitna fjallar um tengsl Islamstrúar við hryðjuverk, kúgun þegna Íslamskra ríkja og svo framvegis.

Í ljósi þess að allir helstu trúarleiðtogar Islamstrúar hafa í áratugi boðað og hvatt til að meðlimir annarra trúarbragða væru myrtir og heilu þjóðunum útrýmt, í ljósi þess að heilu ríkjunum er stjórnað í samræmi við Sharia lög og þar eru almenn mannréttindi einskis virt og það í nafni trúarinnar og í ljósi þess að hvar sem stórir hópar múslima hafa sest að og komið sér upp moskum og trúarbragðakennslu skapast ótrúleg vandamál sem við kannski heyrum minnst um - í ljósi alls þessa er myndin fullkomlega eðlilegt innlegg í umræðu og í anda þess lýðræðis og skoðanafrelsis sem við eigum að venjast. (salb)

 

Það skiptir nú ekki neinu máli hversu mikla eða litla menntun ég hef, allir hafa rétt á sínum skoðunum sama í hvaða stöðu þeir eru, ríkir sem fátækir, ómenntaðir sem hámenntaðir, Íslendingar sem fólk af erlendum uppruna, þú sem ég.

Geturðu nefnt hverjir þeir eru þessir helstu trúarleiðtogar Íslamstrúar sem hafa mælt með þjóðarmorðum og morðum á einstaklingum, og hversu margir þeir eru í samanburði við alla trúarleiðtoga Íslams? Rétt er að í sumum ríkjum er ekki aðskilnaður á milli ríkis og trúar. Það vandamál er til staðar víðar. Myndin er ekki eðlilegt innlegg, þar sem hennar markmið er að æsa upp fólk gegn múslimum, ekki að ræða hlutina á sanngjörnum forsendum. 

Ég veit að mín orð hafa lítið að segja, smárödd sem fellur eins og stakur vatnsdropi á olíubál fordóma, gleyptur af hatrinu og offorsinu sem fylgir þeirri trúarsannfæringu sem tengd er slíkum áróðri.

Ég veit að það sem ég hef að segja er eins og lágvært hvísl í herbergi þar sem sjötíu öskrandi einstaklingar hrópa sama slagorðið, en í stað þess að fylgja straumnum, þá hef ég fullan rétt til að snúast gegn honum. Þann rétt hefur þú líka. Það er nokkur sigur unnin í því að fylgja ekki flæðinu hugsunarlaust.

 

Hvenær brýtur eitthvað gegn rétti okkar? Ef ég tel einhvern hafa á röngu að standa, má ég þá ekki gagnrýna hann t.d.? Væri það brot gagnvart öðrum? Eða á þetta einungis við um málefni eins og kynhneigð og trúarbrögð? Má ekki tala um eða gagnrýna þau? (Þorsteinn Ásgrímsson)

 

Tabú er allt annað mál. Mín skoðun er að ræða megi hvað sem er, en það verður að gera vel og af ábyrgð, en ekki hrauna út úr sér hverju sem er.

 

Flokkast teiknimyndin hér fyrir neðan sem áróður? Ef svo er, er um ábyrgan eða óábyrgan áróður að ræða? Skiptir þessi greinarmunur máli?

 

Allir myndir fengnar af síðunni Propaganda (áróður) á wikipedia.org. 


Erum við virkilega hamingjusamasta þjóð í heimi?


Flest setjum við okkur það markmið að verða hamingjusöm í lífinu, og jafnvel eftir lífið. En til þess að nálgast markmiðið verðum við að miða á rétta skotmarkið. Er mögulegt að einhver okkar séu að miða á rangt skotmark? Það held ég. Sumir halda að þeir séu að miða á hamingju þegar þeir í raun eru að miða á farsæld. Leyfðu mér að útskýra: 

Undanfarin ár hefur verið í tísku að mæla það hversu hamingjusamar þjóðir eru. Samkvæmt þessu eru þjóðir hamingjusamari eftir því sem að þær uppfylla fleiri félagsleg skilyrði. Nú er talað um að þjóðir Norðurlanda séu hamingjusamir vegna félagslega kerfisins sem þeir fengu í arf frá forfeðrum sínum, og í fyrra sprengdi íslenska þjóðin alla skala sem hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt alþjóðlegri rannsókn á högum þjóða.

Ég get ekki að því gert. Ég hristi hausinn yfir svona fréttum. Það er ekki verið að tala um hamingjuna, heldur farsæld.


Ég trúi ekki að hægt sé að mæla hamingju þjóðar. Það er hægt að mæla farsæld þjóðar en ekki hamingju. Farsæld er mikil eða lítil eftir því hvernig gengur að uppfylla skilyrði og framkvæma verkefni sem bæta ytri aðstæður í lífinu. Farsæld má ekki rugla saman við hamingju. Alls ekki. Manneskja sem tekur sín fyrstu spor í hinu harða lífi og heldur að farsæld sé það sama og hamingja, sér farsældina fyrir sér og eyðir mörgum árum í að öðlast hana, áttar sig hugsanlega ekki fyrr en of seint eða aldrei að hún setti sér ónákvæmt markmið.

Það eru til ýmsar kenningar um hamingjuna, hvað hún er og hvernig best er að öðlast hana. En í grundvallaratriðum skiptast skoðanir fólks í tvennt, annars vegar eru það þeir sem telja að hamingja sé eitthvað sem hægt er að höndla, telja og mæla - en þetta kalla ég farsæld, á meðan hinn hópurinn sér hamingjuna sem eitthvað handan okkar skilnings, ósnertanlegt og ómælanlegt - þetta kalla ég hamingju. Ég held að við séum samt í grunninn flest sammála um hvað hamingja er en ruglum bara saman hugtökum af því að við höfum ekki hugsað þau af sömu dýpt. Málið er að þegar við höfum eitthvað tvennt til að velja um, annað þeirra er sýnilegt og áþreifanlegt, en hitt ekki, þá höfum við tilhneigingu til að velja það sem við getum höndlað og jafnvel eignast, heldur en eitthvað sem við vitum ekki einu sinni hvort við getum snert.


Sumir einstaklingar virðast þurfa að setja sér áþreifanleg markmið í lífinu sem er raunhæft fyrir þá að ná, og þannig verði þeir hamingjusamir; og svo þegar markmiðinu hefur verið náð, þá þarf að setja sér nýtt og hærra markmið, komast lengra, og í stað þess að vera í góðu standi, vera í betra standi en allir hinir. Þetta er lýsing á farsæld.

Sumir einstaklingar virðast hins vegar setja sér markmið í lífinu sem erfiðara er að mæla. Til er fólk sem setur sér markmið eins og 'Ég stefni á að verða betri manneskja', og þá meina ég ekki betri í hinu og þessu heldur en allir hinir, heldur einfaldlega manneskja sem bætir sig dag frá degi, verður ekkert endilega meiri manneskja, heldur meira manneskja. Það er einmitt það sem menntun snýst um. Ég held einmitt að eftir því sem að maður getur orðið meira manneskja, nálgast maður það að vera hamingjusamur, og í raun muni maður aldrei vita fyrir víst hvort að maður sjálfur sé hamingjusamur - það er aukaatriði - heldur er maður einfaldlega hamingjusamur eða ekki.

Hugsum okkur unga manneskju á Íslandi í dag. Hún fer út í lífið með þann vilja að verða hamingjusöm - en ég held að líkurnar séu töluvert meiri á að manneskjan leiti sér farsældar frekar en hamingju. Svo er auðvitað hægt að leita sér að hvoru tveggja, en þá verður maður að skilja þennan greinarmun og átta sig á að þó að maður sé sáttur og ánægður, þá þýðir það ekkert endilega að maður sé hamingjusamur.

Hér fyrir ofan sérðu þarfapýramída Maslow. Þegar þú hefur uppfyllt allar þessar þarfir, þá er spurningin sú hvort að þú sért farsæl manneskja eða hamingjusöm.

Til að vera farsæll þarftu einfaldlega að uppfylla eigin markmið, til dæmis að eignast nauðsynjar, búa við virðulega samfélagsstöðu, vera í góðu starfi, vera heilbrigð, eða lifa lífi þar sem þér líður vel og þér finnst möguleikar opnir til að gera ýmislegt sem þig langar til að gera. Ég tel þetta vera afar mikilvægt.

Það þarf samt meira til. Þeir farsælu geta nú valið um hvort að þeir vilji verða ennþá farsælli - setja sér fleiri markmið - eða nálgast hamingjuna (eða fá hamingjuna til að nálgast þá) - þar sem líf okkar snýst um að nálgast hið góða eða gefa hinu góða aðgang að okkur sjálfum.

Farsæld er gagnleg til að ná frekari markmiðum, en hamingja er markmið í sjálfu sér. 

Getur manneskja sem á ekki neitt, ekki einu sinni góð börn eða góða heilsu, gott öryggi eða gott starf, getur sú manneskja verið hamingjusöm í því ástandi sem hún er? Er hamingjan eitthvað sem býr innra með okkur, eitthvað sem þarf að virkja, eitthvað sem þarf að varðveita, eitthvað sem við gerum og erum, eða er hamingjan eitthvað sem við nálgumst eða eitthvað sem nálgast okkur?

Endum þetta með tilvísun í Aristóteles, þar sem hann veltir fyrir sér sams konar hlutum, en er kominn aðeins dýpra, búinn að hafna því að hamingjan felist í auði, virðingarstöðu eða einhverju slíku sem getur verið gagnlegt, heldur eitthvað sem er eftirsóknarvert sjálft sín vegna:

Vissulega er sjón fyrir líkamann eins og rökhugsun fyrir sálina. (Aristóteles - Siðfræði Nikómakkusar) 



mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er heiðarleiki? (53 tilvitnanir)

Þegar ég var pjakkur sagði móðir mín mér að segja alltaf satt, og faðir minn að vernda það sem er gott. Ég áleit sannleikann vera eitthvað gott og ákvað því að bæði vernda hann og segja alltaf satt. Þessi heiðarleiki kom mér oft í vandræði, því að ekki var vinsælt þegar einn daginn skólastjórinn kom inn í stofu og spurði hvort einhver hefði séð hver kastaði grjóti gegnum rúðu á skólastofu, og ég rétti upp hönd og sagði satt frá, enda hafði ég séð atburðinn.

Varð ég fyrir ofsóknum næstu frímínútur og þurfti að leggja á flótta undan stórum hópi af krökkum, sem töldu mig hafa gert rangt með því að segja satt. Það var ekki fyrr en ég hætti að flýja og tók upp grjót, og hótaði að henda í þann sem nálgaðist mig að þau hættu þessum ofsóknum. Þetta gerðist allt á tveimur klukkustundum fyrir mörgum árum, en ég man það eins og gerst hefði í gær og er enn stoltur af að hafa náð að segja satt og verndað sannleikann, eins og foreldrar mínir höfðu kennt mér. Samt er spurning hvort að gott sé að finna til stolts vegna slíkra hluta.

Árin liðu og enn trúði ég þessu. Einn af félögum mínum dó þegar við vorum unglingar og fólk í kringum mig talaði um hversu tilgangslaus þessi dauði var. Ég trúði því ekki að nokkur dauði væri tilgangslaus, nema við lifðum í samræmi við þá trú að hann væri tilgangslaus. Því ákvað ég á þessu augnabliki að lfia mínu lífi með það til hliðsjónar að tilgangur verði með lífi og dauða þess fólks sem tengist mér á einhvern hátt.

Í námi í Bandaríkjunum bjó ég í fátæklegu New Jersey hverfi á Orange Road, sömu götu þar sem Thomas Edison hafði verið með rannsóknarstofu hundrað árum áður. Ég leigði íbúð ásamt Íranum Ken, eiginkonu hans Felicity frá Zimbabwe, Finnanum Hannu, og Brasilíumanninum Rigoni. Við vorum allir nema Felicity að nema kennslufræði í heimspeki fyrir börn. Okkur varð tíðrætt um sannleikann og fengum oft fjörugar samræður út úr þeim. Ken hélt því fram að ekki væri til heiðarleg manneskja í heiminum, og ég svaraði honum því að sú manneskja væri til, og að ég viss það enda væri ég það og það væri nóg fyrir mig til að vita að heiðarleg manneskja væri til í heiminum. 

Spólum nokkrum árum fram í tímann, þar sem ég er að kenna heimspeki í FB. Einn af nemendum mínum, Jens, hefur komið með fullyrðingu sem hann síðan áttar sig á að hann getur ekki staðið við. Hann réttir upp hönd og viðurkennir að hafa haft rangt fyrir sér. Hann gerði þetta tvisvar sinnum í námskeiðum hjá mér og fannst það greinilega mjög erfitt í bæði skiptin, en launin voru ríkuleg. Hann komst aðeins nær sannleikanum.

Í dag er ég að velta fyrir mér dygðum. Í gær tók ég fyrir virðingu, og í dag er það heiðarleikinn. Ég tel allar þessar dygðir vera forsendur fyrir góðu lífi sem hefur merkingu útfyrir líf og dauða, ríkidæmi og fátækt, og málefni líðandi stundar.  

Ég er með tíu grundvallardygðir í huga sem mig langar að velta fyrir mér á næstu dögum.

 

Heiðarleiki 

 

"Ef þú segir alltaf satt þarftu ekki að muna neitt." (Mark Twain)

 

 

"Heiðarleiki er fyrsti kaflinn í bók viskunnar." (Thomas Jefferson)

 
 
"Heiðarleikinn er lofaður en síðan skilinn eftir skjálfandi." (Juvenal)
 
 
"Heiðarleiki er góður en ekki hagkvæmur fyrir notandann nema honum sé vel stjórnað." (Don Marquis)
 
 
"Þú skalt ekki byggja heiðarleika þinn á trúarbrögðum og reglum. Bæði trúarbrögð þín og reglur skulu byggja á heiðarleika þínum." (John Ruskin)
 
 
 "Spilling er ekki sigursælari en heiðarleiki." (William Shakespeare - Henry VIII)
  
 
"Hugsanlega eru engar aðstæður jafn hættulegar fyrir heilindi eigin heiðarleika en þær... að vita að maður er elskaður af stúlku sem maður næstum því elskar sjálfur." (Anthony Trollope.)
 
 
"Heiðarleiki er besta reglan, en sá sem lætur stjórnast hugsunarlaust af þessari reglu er ekki heiðarleg manneskja." (Richard Whately)
 
 
"Það er erfitt að trúa því að manneskja sé að segja satt þegar þú veist að þú myndir ljúga í hans sporum." (Henry Louis Mencken)
 
 
"Sá sem lýgur fyrir þig mun ljúga gegn þér." (Bosnískt spakmæli)
 
 
"Engin manneskja er með nógu gott minni til að ná góðum árangri sem lygari." (Abraham Lincoln)
 
"Hálfur sannleikur er heil lygi." (Jiddískt spakmæli) 
 
 
"Þeir sem telja ásættanlegt að nota hvítar lygar verða fljótlega litblindir." (Austin O'Malley)
 
 
"Hættulegustu lygarnar eru smávægilegar hagræðingar á sannleikanum." (Georg Christoph Lichtenberg)
 
 
"Með lygum kemstu kannski áfram í lífinu - en þú kemst aldrei til baka." (Rússneskt spakmæli) 
 
 
"Lygar hafa hraða, en sannleikurinn hefur úthald." (Edgar J. Mohn)
 
 
"Sannleikurinn er það dýrmætasta sem við höfum, því reyni ég að varðveita hann." (Mark Twain)
 

"Við ljúgum þegar við erum hrædd... hrædd við það sem við þekkjum ekki, hrædd við hvað aðrir hugsa, hrædd við hvað uppljóstrast um okkur. En í hvert sinn sem við ljúgum, verður þetta sem við óttumst enn öflugra." (Tad Williams)
 
 
"Sannleikurinn óttast engar spurningar." (NN)
 
 
"Stundum hrasa menn yfir sannleikanum, en flestir eru fljótir að koma sér á fætur og flýta sér í burtu eins og ekkert hefði í skorist." (Winston Churchill) 
 
 
"Sannleikurinn er mikilvægari en staðreyndirnar." (Frank Lloyd Wright)
 
 
"Ef lygar, eins og sannleikurinn, hefðu aðeins eitt andlit, þá værum við í sömu stöðu. Því að við myndum álíta andstæðu þess sem lygarinn segir sem fullvissu. En andstæða sannleikans hefur hundrað þúsund andlit og óendanlegan völl." (Michel de Montaigne)
 
 
"Þegar manneskja lýgur, myrðir hún hluta af heiminum." (Rospo Pallenberg og John Boorman)
 
 
"Þeir sem eru heiðarlegir af hörku fá meira út úr hörkunni en heiðarleikanum." (Richard J. Needham)
 
 
"Ef við fengjum öll þann töframátt að geta lesið hugsanir hvert annars, reikna ég með að fyrstu áhrifin yrðu þau að öll vinátta yrði að engu." (Bertrand Russell)
 

"Gættu þín á hálfum sannleikanum. Þú gætir verið með ranga helminginn." (NN)
 
 
"Sannleikur er svo sjaldgæfur, það er unaður að segja hann." (Emily Dickinson)
 

"Sannleikurinn er mikill og mun sigra að lokum. Það er ekkert að þessu, nema að svona er þetta ekki." (Mark Twain) 
 
 
"Veruleikinn er nógu slæmur. Af hverju ætti ég að segja sannleikann?" (Patrick Sky)
 
 
"Segðu sannleikann, en flýttu þér í burtu strax og þú ert búinn." (Slóvenskt spakmæli)
 
 
"Grimmilegustu lygarnar eru oft sagðar í þögn." (Adlai Stevenson)
 

"Það er ekki án góðrar ástæðu sagt að sá sem hefur slakt minni skuli aldrei venja sig á lygar." (Michel de Montaigne)
 
 
"Manneskja er síst hún sjálf þegar hún talar frá eigin hjarta. Láttu hana fá grímu og hún mun segja þér sannleikann." (Oscar Wilde)
 

"Lygi getur ferðast yfir hálfan heiminn á meðan sannleikurinn er enn að setja á sig skóna." (Mark Twain)
 
 
"Smá ónákvæmni getur stundum komið í veg fyrir heljarinnar útskýringar." (Saki)
 
 
"Sumt fólk þolir ekki tilfinningalegan heiðarleika í samskiptum. Það myndi frekar verja óheiðarleika með þeim rökum að heiðarleikinn geti sært aðra. Þar af leiðandi, eftir að hafa rökstutt fals sem eitthvað göfugt, sættir það sig við yfirborðskennd sambönd." (NN)
 

"Það þarf tvo til að ljúga. Einn til að ljúga og annan til að hlusta." (Matt Groening - Hómer Simpson)
 

"Það er hægt að komast að því hvort að manneskja sé heiðarleg - spurðu hana. Ef svarið er "Já", þá veistu að hún er það ekki." (Groucho Marx)
 
 
"Segðu alltaf sannleikann. Ef þú getur ekki alltaf sagt sannleikann, ekki ljúga." (NN)
 
 
"Samkvæmni er að segja sjálfum mér sannleikann. Heiðarleiki er að segja öðrum sannleikann." (Spencer Johnson)
 
 
"Ef það er ekki rétt, gerðu það ekki. Ef það er ekki satt, segðu það ekki." (Markús Árelíus)
 

"Heiðarleg hjörtu framkvæma heiðarlega." (Brigham Young)
 
 
"Allar athafnir framkvæmdar af óheiðarleika hafa að minnsta kosti tvö fórnarlömb: þann sem maður telur að sé fórnarlambið, og gerandann líka. Sérhver ögn af óheiðarleika býr til annan rotinn blett einhvers staðar í sál gerandans." (Lesley Conger)
 
 
"Heiðarleiki er hornsteinn alls árangurs, en án heiðarleika myndu traust og geta til framkvæmda verða að engu." (Mary Kay Ash)
 

"Besta leiðin til að lifa með heiðri í þessum heimi er að vera sá sem við þykjumst vera." (Sókrates)
 
 
"Baktal og níð geta ekki eyðilagt heiðarlega manneskju - þegar flóðið gengur til baka er kletturinn ennþá til staðar." (Kínverskt spakmæli)
 
 
"Að vera ósammála á heiðarlegum forsendum er oft merki um góða þróun." (Mahatma Gandhi)
 
"Ég hræðist ekki hótanir þínar, Cassius, því að ég er vel undirbúinn, með heiðarleikann að vopni, þannig að hótanir þínar fjúka framhjá mér eins og stefnulaus vindur, nokkuð sem ég ber enga virðingu fyrir." (Williams Shakespeare - Julius Caesar)
 
 
"Öll lifum við aðeins einu sinni; ef við erum heiðarleg, þá er nóg að lifa einu sinni." (Greta Garbo)
 
 
"Ég á mér sex heiðarlega þjóna: þeir kenndu mér allt sem ég kann. Þeir heita Hvað og Hví og Hvenær og Hvernig og Hvar og Hver." (Rudyard Kipling)
 
 
"Eitt af því erfiðasta í þessum heimi er að viðurkenna þegar þú hefur rangt fyrir þér." (Benjamin Disraeli)
 
 
"Við þurfum að gera heiminn heiðarleikann áður en við getum af heiðarleika sagt við börn okkar að heiðarleiki sé besta reglan." (George Bernard Shaw)
 
 
"Heiðarleiki er að mestu leiti óhagkvæmari en óheiðarleiki." (Platón)
 
Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.

Skipta trúarbrögð einhverju máli?

Í dag var ég gagnrýndur fyrir að efast um nokkuð sem ég gat ekki vitað.

Mér finnst sjálfsagt að efast um hluti sem ég veit að ég þekki ekki. Þetta á sérstaklega við um hluti sem hægt er að sanna eða afsanna með sönnunargögnum. Þegar kemur að stærri málum, eins og tilvist Guðs, óendanleika alheimsins, eðli sálarinnar, náttúru mannsins, og slíku, þá leyfi ég mér líka að efast, án þess að það þýði endilega að ég sé trúlaus.

Trú er persónulegt fyrirbæri. Þegar um ósannanlega hluti er að ræða, sem eru jafnvel handan mannlegs skilnings - ekki það að ég þykist þekkja takmörk mannlegs skilnings - þá duga rök skammt og þar af leiðandi er tilgangslaust að rökræða slík mál. Þegar þú reynir að sannfæra einhvern um þína eigin trú þarftu að beita mælskulist þar sem markmið orðræðunnar er að sannfæra, en ekkert endilega að leiða hið sanna í ljós. Sumir virðast halda að sannleikurinn felist í kappræðu, að sá sem hefur betur í kappræðu hafi vald á sannleikanum. Eðli sannleikans er bara ekki svo einfalt.

Hins vegar tekst mönnum með ýmsum brögðum að sannfæra fólk um að vera hluti af hópi fólks sem trúir á sambærilega hluti. Þannig verða trúarbrögðin til, stofnanir um trú. Þessar stofnanir líta stundum svolítið stórt á sig og sumar þeirra telja jafnvel þá sem tilheyra ekki hópnum, einskis virði og glataðar sálir eða jafnvel sem sálarlaus skrímsli. Þetta getur gengið út  í öfgar.

Til er fólk sem hefur ákveðna trú en finnur engan samhljóm með trúarbrögðum, og svo eru líka til einstaklingar sem trúa því að Guð sé ekki til, og finna því heldur ekki samhljóm með trúarbrögðum. Þetta fólk er trúarbragðaleysingjar, en er oft misnefnt sem trúleysingjar.

Trúleysingjar eru nefnilega undarlegt fyrirbæri, og leyfi ég mér að efast um tilvist þeirra. Trúleysingi er manneskja sem engu trúir. Sú manneskja trúir ekki að mjólkin sem hún er að drekka sé útrunnin eða ekki, né heldur hvort hún er að drekka mjólk yfir höfuð eða ekki. Sú manneskja trúir ekki á þörf þess að drekka, né á þörf þess að lifa. Ég leyfi mér að efast um að algjörlega trúlaus manneskja sé til.

Aftur á móti eru til manneskjur sem trúa ekki á tilvist Guðs, og spurning hvort að það fólk mætti ekki kalla Guðleysingja. Reyndar væri það vafasamt, því að ef Guð er til og er algóður, þá myndi hann sjálfsagt sjá aumur á þeim sem trúa ekki að hann sé til, og ekkert verða sár út í þau. Því hver getur verið sár út í þá sem hafa ekki forsendur til þekkingar?

Samt skil ég vel mikilvægi trúboðs. Málið er að trúarbrögð geta hjálpað við að stjórna hópum af fólki til betra lífs. Trúarbrögð getur komið hlutum í reglu þar sem engin regla var fyrir. Trúarbrögð geta hjálpað við að leiða siðferðilega fötluðu fólki til betri vegar, fólki sem er ekki tilbúið til að átta sig á hvað er gott eða illt, rétt eða rangt, satt eða ósatt, út frá eigin forsendum, og finnst betra að treysta á yfirvald til að segja sér hvað er gott eða illt, rétt eða rangt og satt eða ósatt.

Ekki ætla ég að fullyrða um hvernig best er að lifa lífinu, tel best að hver og einn fái nógu góða menntun sem gefi forsendur til að meta hlutina út frá eigin forsendum. Við erum líkleg til að lifa eftir þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.

Það væri óskandi að til væru kúrsar í gagnrýnni hugsun á öllum skólastigum sem gerðu þetta mögulegt. Ég held að slíkir kúrsar séu nauðsynlegir hvort sem að þjóð er á flótta undan trúarbrögðum eða tekur þeim fagnandi.

Hvað finnst þér?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband