Alger

Hvað er það að vera algerlega maður sjálfur? Hvernig veistu hvaða eiginleikar eru sannarlega þínir og einskis annars? Eru öll sjálf í þessum heimi algerlega aðskilin frá hverju öðru, eða erum við öll samofin í vef þekkingar og samskipta, og verðum aldrei algerlega aðskilin?

Hið algera eru allir þeir hlutir og allar þær hugmyndir sem við getum hugsað okkur og þekkt. Vel getur verið að veruleikinn hafi eitthvað að geyma handan okkar þekkingar, eða handan hinnar algeru þekkingar mannkyns.

Ég hef heyrt barn segja við annað barn: "Þú ert alger asni."

Merkingin er skýr, en samt er einhver greinarmunur á því að kalla einhvern 'asna' og að kalla viðkomandi 'algeran asna'. Málið er að alger asni felur í sér að viðkomandi hafi alla hugsanlega eiginleika asna, á meðan sá sem kallaður er asni hefur hugsanlega eitthvað í fari sínu sem einkennir asna.

Felst merkingin í 'alger asni' um skilning þeirra einstaklinga sem eiga þessi orðaskipti, sem er hugsanlega ekki eins í huga þeirra beggja, þar sem þeir hafa sjálfsagt misjafnlega mikla þekkingu á ösnum, eða hvort að viðmiðið sé öll sú þekking sem mannkynið hefur safnað saman um asna.

Það sama á við þegar einhver manneskja er kölluð 'alger draumur', 'alger sveppur' eða einfaldlega 'alger'.

Hvernig tökum við þátt í hinu algera? Getur ein manneskja öðlast alla þá þekkingu sem mannkynið hefur öðlast í framþróun aldanna, eða er slík þekking ómöguleg einni manneskju?

 

Er hið algera alltaf nauðsynlegt og skilyrðislaust, eða er hið nauðsynlega og skilyrðislausa alltaf algert? 

spiderweb2

Hvort er 'ég' algert fyrirbæri, eða bara hluti af einhverju margfalt stærra fyrirbæri? Hvernig er þitt 'ég' öðruvísi en mitt 'ég'? Eru þessi 'ég' okkar kannski eins?

Er tungumálið alger vefur sem tengir saman alla okkar þekkingu og vitund? Getur verið að hið algera sé tengt tungumálinu, þannig að hið algera fyrir þann sem skilur aðeins íslensku sé annað en fyrir þann sem skilur aðeins kínversku eða aðeins spænsku? Getur þá verið að með aukinni þekkingu á eigin tungumáli og öðrum málum, að hið algera vaxi þannig með okkur?

language-courses-abrod_secr

Nú get ég hugsað jafnt og flæðandi á íslensku, ensku og spænsku; en hef samt ólíka tilfinningu fyrir sjálfum mér eftir því á hvaða tungumáli ég hugsa. Þegar ég hugsa á íslensku finnst mér ég stöðugt þurfa að velta fyrir mér beygingum og því hvort ég beiti málfari rétt, á meðan slíkar pælingar eru mér fjarri þegar ég hugsa á ensku - sem mér finnst í raun mun auðveldari leið til að hugsa rökrétt um hlutina. Og svo er það spænskan, en þar finnst mér ég breytast í meiri tilfinningaveru en þegar ég hugsa á annað hvort íslensku eða ensku - það er eins og heimurinn taki á sig ólíka liti eftir því hugtakasafni sem maður notar til að átta sig á honum.

Hið algera getur ekki verið Guð, því að Guð er hugtak handan mannlegrar þekkingar, held ég. Hið algera er varla manns eigið sjálf, heldur hugsanlega öll sú vitund sem við komumst í snertingu við og er okkur á einhvern hátt sameiginleg. 

Hið algera er óháð öllu öðru, því það einfaldlega er í sjálfu sér. En ef það er óháð öllu öðru, getur hið algera þá breyst? Ef eitthvað getur ekki breyst, er það þá ekki háð hinu óbreytanlega? Og ef það getur breyst, er það ekki breytingum háð?

Getur eitthvað mögulega verið algerlega óháð öllu öðru? Er einhver eining möguleg í þessum heimi sem að tengist ekki einhverju öðru á einhvern hátt?

Getur nærvera eða fjarvera verið alger? 

Hvað er hið algera? 

Female-Floating-in-Crystal-Waters-in-Front-of-Seaplane-Bahamas-Photographic-Print-C10258343

Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði? 

Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu.  

 

Algerir byrjendur - David Bowie: 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Leitaðu ekki lengra hér er ég GUÐ.

Ómar Ingi, 11.5.2008 kl. 00:17

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Er þetta að hugsa upphátt, eða hugsa blaðlægt.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.5.2008 kl. 12:43

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þorsteinn: Kannski þetta sé að hugsa með puttunum... ?

Ómar: Hmmm...

Hrannar Baldursson, 11.5.2008 kl. 12:58

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Virkilega skemmtileg pæling....kannski er þetta algera ekki tengt tungumálinu heldur eitthvað enn dýpra þar á bak við. Svona þögul tjáning sem tengir okkur öll saman á einhvern algeran hátt. En við bara finnum sjaldnast fyrir því þar sem það er svo mikill ytri og innri hávaði í lífi okkar svona dagsdaglega...svo við högum okkur eins og við seúm algerlega aftengd hvort öðru, náttúrunni, veröldinni..alheiminum..guði..eða hvað?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.5.2008 kl. 13:39

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta, Katrín. Þó að við högum okkur kannski eins og við séum aftengd hvert frá öðru, erum við það hugsanlega alls ekki í raun. Spurning hvernig bloggið þjónar þessu algera okkar?

Hrannar Baldursson, 11.5.2008 kl. 15:12

6 Smámynd: Ómar Ingi

Hvað Don , hugsaðu ég er GUÐ.

Ómar Ingi, 11.5.2008 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband