Færsluflokkur: Heimspeki

Hver er skylda lögreglumannsins?

1. október 2011 var lögregluliði stillt upp sem skjaldborg yfir þingheim til að verjast mótmælendum sem hafa fengið sig fullsadda á skilningsleysi, hroka og áhugaleysi (eða lélegum framkvæmdum) stjórnvalda til leiðréttingar á skuldum heimila, sem rokið hafa upp úr öllu valdi vegna áhrifa verðtryggingar. Þau skilaboð hafa borist að lögreglan var ekki sátt við sitt hlutverk, en fulltrúar lögreglunnar fullyrða að þeir hafi þurft að sinna skyldum sínum.

Þá vaknar spurningin um  hver skylda lögreglumannsins er. Að verja þingheim gegn mótmælendum, verja mótmælendur gegn þingheimi, eða átta sig á hvort að myndin sé hugsanlega stærri?

Þegar þýskir hermenn og nasistar voru spurðir eftir síðari heimstyrjöld af hverju þeir unnu þau voðaverk sem þeir unnu, tóku þátt í tilraun til útrýmingar á fólki sem stjórnvöldum voru ekki þóknanleg, þá var svarið einatt að þeir þurftu að sinna skyldum sínum.

"Ég hef elskað mína þýsku þjóð og föðurland mitt með hlýju hjarta. Ég hef gert skyldu mína með því að framfylgja lögum þjóðar minnar og þykir leitt að þjóð mín var leidd á þessum tíma af mönnum sem voru ekki hermenn og að glæpir voru framdir sem ég hafði enga vitneskju um."

- Ernst Kaltenbrunner, nasisti, rétt fyrir eigin aftöku eftir Nuremberg réttarhöldin, 1. otkóber 1946 (fyrir nákvæmlega 65 árum)

Nasistarnir höfðu rangt fyrir sér, og voru margir dæmdir fyrir það, til dauða. Þeir skildu nefnilega skylduhugtakið ekki nógu vel. Skylduna sáu þeir sem skipun að ofan, frá yfirboðurum sínum og lögum, þrátt fyirr að bæði lögin og yfirboðararnir voru fjandsamleg mannlegu eðli og mannlegum fjölbreytileika. Þeir töldu skyldu sína vera gagnvart yfirboðurum sínum, en ekki gagnvart heildinni; gagnvart eigin þjóð; og sáu ekki mikilvægi þess að framfylgja skyldu til almannaheilla. Þess konar skylda fyrirfinnst ekki í lögum, boðum eða skipunum, heldur í huga og hjarta hvers og eins. Stundum köllum við þessa tilfinningu fyrir hinni raunverulegu skyldu samvisku eða réttlætiskennd. Hugsanlega hlustum við ekki nógu vel á þessa grundvallartilfinningu og skilning okkar á mannlegri tilveru.

Lögreglumenn á Íslandi virðast telja skyldu sína einungis vera að hlíða yfirboðurum og lögum, enda vita þeir að annars fengju þeir áminningu eða gætu jafnvel misst störf sín vegna óhlíðni. Það er miklu erfiðara að framkvæma í samræmi við raunverulega skyldu gagnvart manneskju og þjóð, heldur en að hætta eigin atvinnuöryggi og ógna þannig eigin framtíð.

Lögreglumenn sjá, eins og mótmælendur flestir, að stjórnmálamenn og fjármálakerfið hafa verið að vinna fólki mein, og þessir lögreglumenn ættu að hafa ríka réttlætiskennd, annars væru þeir varla í þessu starfi né starfi sínu vaxnir. Þeir ættu að hlusta á eigin samvisku og ræða við félaga sína um hver þeirra raunverulega skylda er, óháð því sem ráðningarsamningur þeirra segir. Það er þessi mannlega skylda sem þarf að hafa í huga, hún er yfir samninga og skipanir misviturra yfirboðara hafin.

Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglumönnum, og þeim vinum mínum sem hafa ákveðið að starfa fyrir lögregluembættið, og ég veit að þetta er besta fólk, og með djúpri áherslu á besta. Hins vegar þurfa þeir kannski að velta fyrir sér hvar hin raunverulega skylda þeirra liggur; hjá þeim sem skipa þeim fyrir og hafa völd yfir framtíð þeirra (stjórnmálamönnum og yfirmönnum), eða hjá þeim sem borga launin þeirra og þurfa á þeim að halda (þjóðinni)?

 

Hér á eftir fylgja nokkrar pælingar um skyldu sem ég mæli með að lesendur velti fyrir sér og ræði sín á milli:

"Margar skyldur þvingaðar fram með lögum eru óvinvættar náttúrunni."
- Antiphon

 

"... það gæti hugsanlega verið álitið betra, jafnvel skylda okkar, til að viðhalda sannleikanum að jafnvel eyðileggja það sem snertir okkur náið, sérstaklega þar sem við erum heimspekingar; því, á meðan hvort tveggja er okkur mikilvægt, hvetur dygðin okkur til að virða sannleika umfram vináttu."
- Aristóteles

 

"Tvennt fyllir hugann, með stöðugt nýrri og vaxandi aðdáun og undrun, því oftar og betur sem við hugsum um það: stjörnuhiminninn fyrir ofan og siðferðilögin að innan."
- Immanuel Kant

 

"Ef við beinum athyglinni að reynslu okkar af hegðun fólks, finnum við oft sanngjarnar ábendingar um að ekki sé hægt að finna eitt einasta áreiðanlegt dæmi um einhvern sem framkvæmir verk sín út frá hreinni skyldu. Þó að margt sé gert í samræmi við það sem skyldan boðar, má samt efast um hvort framkvæmdin sé beinlínis skylda, þannig að hún hafi siðferðilegt gildi.
- Immanuel Kant


Hin fordómafulla manneskja

Fordómar eru þegar manneskja hefur skoðun á heiminum, skoðun sem hafin er yfir allan vafa og getur í hennar huga ekki verið annað en hin eina heilbrigða leið til að sjá heiminn, skoðun sem er fullmótuð og getur ekki lengur vaxið. Hún er stopp.

Hin fordómafulla manneskja gerir ráð fyrir að hennar sýn á heiminum sé sú eina rétta, og að aðrar skoðanir sem stangast á við hana séu einfaldlega rangar.  Hin fordómafulla manneskja sér sig ekki sem fordómafulla, heldur sem skilningsríka veru, hugsandi veru, manneskju með reynslu, sem hefur rannsakað eigin hug og heiminn gaumgæfulega, komist að ákveðinni niðurstöðu og fest hana sem ófrávíkjanlega trú.

Hin fordómafulla manneskja samþykkir ekki aðrar forsendur en hennar eigin, og því getur verið afar erfitt að ræða við slíka manneskju um rót fordómanna. Sé hin fordómafulla manneskja hins vegar tilbúin til að skyggnast inn í eigin fordóma, er hætta á að trúverðugleiki eigin skoðanaheims geti hrunið; því er slíkur vafi hættulegur fyrir þá sem vilja standa fast á sínu, en nauðsynlegur fyrir þá sem vilja finna sannleika.

Vandinn er að það er auðveldara að skilja heiminn þegar maður hefur rammað hann inn í eigin skoðanir. Og öll verk eru réttlætanleg í huga þess sem vill bæta það sem passar í rammann. Því miður áttar hin fordómafulla manneskja sig ekki á því að ramminn passar bara á einn vegg og fyrir eina mynd, á meðan heimurinn sjálfur hefur óteljandi veggi og myndir. 

Fátt er meira pirrandi en þegar fordómafull manneskja fær völd og getur tekið ákvarðanir sem hafa djúp áhrif á líf annarra. Hitler, Mússolini, Franco, Stalin; þeir voru þannig. Fjöldamorðinginn í Osló og Útey er þannig. Og þannig er fjöldi Íslendinga sem er við völd í dag. Þannig er fjöldi fólks við völd víða um heim.

Opið samfélag er ekki samfélag án fordóma. Opið samfélag er samfélag sem tekst á við fordóma með skilvirkum hætti, samfélag sem er tilbúið að læra og skilja, bæta sig stöðugt - en halda ekki fast í gamlar kreddur.


Gleðilegt nýtt ár

clock-complex

Ég vil óska þér góðs árs og þakka bloggsamskipting á því liðna.

Til að sigrast á vandamálum þarf að þekkja þau, skilja þau og vinna sig svo út úr þeim með dugnaði og samviskusemi. Fyrsta og erfiðasta skrefið getur verið að losna við þá valdastétt sem lokar leiðum í stað þess að opna þær, og þá sem enn eru að hirða eigur þeirra sem minna mega sín, án minnsta samviskubits.

Með von um bjartari tíð.


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 330 - Verður vondur maður aldrei sáttur við sjálfan sig þrátt fyrir að vera auðugur?

Þessi blaðsíða úr Lýðveldi Platóns passar eins og flís við rass við Kastljósþátt gærkvöldsins þar sem fjallað var um svikafléttur Milestone og Sjóvár. Maður hlýtur að spyrja hvort að þessir einstaklinga trúi því að hægt verði að komast hjá ellinni og kaupa sér kannski eilíft líf og hamingju. Ljóst að ég mun halda áfram að þýða þetta stórmerkilega rit í stað þess að skrifa um alla þá spillingu og það ranglæti sem fram hefur farið á Íslandi og enn er í gangi, en Lýðveldi Platóns fjallar um nákvæmlega þessa hluti, bara í stærra samhengi. Það sem Platón skráði fyrir um 2400 árum um borgríkin í Grikklandi og sérstaklega Aþenu, eiga vel við í dag.

Það má reikna með smávægilegum villum í þessum færslum, enda hafa þýðingarnar ekki verið prófarkarlesnar, en ég geri mitt besta að halda merkingunni skýrri og þýðingunni á hversdagslegri íslensku sem allir ættu að skilja án vandræða.

 

 

 

Herkúles berst við Cerberus, þríhöfða hund Hadesar,
sem stjórnaði einhvers konar Milestone grískrar goðafræði.

 

330a

"Sama lögmál á við um þá sem ekki eru ríkir og eiga erfitt með háan aldur. Það er satt að góðum manni þætti hár aldur ekki sérstaklega auðveldur væri hann fátækur, en það er einnig satt að vondur maður yrði aldrei sáttur við sjálfan sig þó að hann væri ríkur."

"Erfðir þú mest af auðæfum þínum, Cefalus," spurði ég, "eða aflaðirðu þeirra sjálfur?" 

330b

"Hvað ertu að segja, Sókrates?" spurði hann. "Aflaði þeirra sjálfur? Sem kaupsýslumaður kem ég á milli afa míns og föður. Afi minn (sem ég er nefndur eftir) erfði eignir sem eru nánast jafn verðmætar þeim sem ég á í dag, og hann bætti töluvert við þær; faðir minn Lysanias, hins vegar, minnkaði þær í minna en það sem þær eru núna. Ég verð ánægður ef synir mínir erfa frá mér ekki minna, heldur aðeins meira en ég erfði sjálfur."

"Ég skal segja þér af hverju ég spyr," sagði ég. "Það er vegna þess að mér sýnist þú ekki hafa neinn sérstakan áhuga á peningum, og þetta á yfirleitt við um þá sem hafa ekki aflað þeirra sjálfir. Á meðan fólk sem hefur aflað þeirra þykir tvisvar sinnum vænna um þá en nokkur annar."

330c

"Skáldum þykir vænt um eigin ljóð, feðrum þykir vænt um syni sína; á sama hátt bera kaupsýslumenn hug til peninga sinna, ekki vegna gagnsemi þeirra (sem er ástæða þess að allir aðrir hafa áhuga á þeim), heldur vegna þess að þeir eru afurð þeirra eigin vinnu. Þetta verður til þess að pirrandi verður að umgangast þá, þar sem peningar eru það eina sem þeir meta mikils."

"Þú hefur rétt fyrir þér," sagði hann.

330d

"Já," sagði ég. "En mig langar að spyrja þig annarrar spurningar. Hver heldur þú að sé mesti hagurinn sem þú hefur öðlast af ríkidæmi þínu?"

"Nokkuð sem mörgum þætti líklega ósennilegt," svaraði hann. "Sjáðu til, Sókrates, þegar hugsanir um dauðann byrja að reka á huga manns, finnur hann fyrir ótta og áhyggjum um hluti sem honum hafði aldrei áður dottið í hug. Áður fyrr hafði hann hlegið að sögum sem segja frá því sem gerist hjá Hades - um hvernig einhver sem hefur athafnað sig ranglega í þessum heimi er bundinn til refsingar hinumegin - en nú trufla þessar hugmyndir huga hans, og hann veltir fyrir sér hvort þær geti verið sannar."

330e

"Þetta gæti verið vegna veikleika sem felst  í ellinni eða þetta gæti verið vegna þess að nú þegar hann er kominn nær næsta heimi sér hann skýrar; og afleiðingin er sú að hann fyllist af streitu og ótta, og byrjar að reikna út og greina hvort hann hafi brotið af sér gagnvart einhverjum á einhvern hátt. Hver sá sem uppgötvar að hann hefur í lífinu framið fjölda glæpa, vaknar stöðugt í skelfingu upp frá draumum sínum, eins og börn gera, og lifir einnig við kvíða; en á hinn bóginn, hver sá sem er meðvitaður um ekkert rangt í eigin fari horfir til framtíðar með trausti og bjartsýni sem, eins og Pindar segir svo vel, 'veitir honum þægindi í ellinni'."


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 329 - Manngerð, elli og ríkidæmi

 


 

329a

"Auðvitað mun ég deila með þér minni skoðun, Sókrates," sagði hann. "Sjáðu til, samkomur meðal okkur gömlu mannanna sem eru á svipuðu reki eru ekki óalgengar (og sanna þannig gamla máltækið!). Þessar samkomur eru án undantekninga notaðar fyrir nöldur af þeim sem sakna ánægjunnar sem fylgir æskunni. Þeir minna sjálfa sig á ástarlífið, drykkju, veislur og slíka hluti, og kvarta í framhaldinu yfir því að þeir hafi verið rændir þeim hlutum sem eru mikilvægir og halda því fram að áður hafi þeir lifað góðu lífi, á meðan þeir eru varla meðal lifanda í dag.

329b

Aðrir kvarta yfir hvernig fjölskyldur þeirra koma fram við þá gömlu eins og óhreinindi; og í raun er þetta megin ástæða þess að þeir kvarta endalaust yfir öllu því böli sem ellin hefur valdið þeim. En í mínum huga, Sókrates, eru þeir að ásaka saklausan aðila. Ef þetta væri ellinni að kenna, hefði reynsla mín verið eins - í það minnsta svo framarlega sem það á við um ellina - og þannig væri um alla þá sem hafa komist á þennan aldur. En ég hef hitt aðra, sem eins og ég, deila ekki þessari tilfinningu. Sérstaklega þegar ég var einu sinni með skáldinu Sófóklesi og einhver spurði hann, "Hvað finnst þér um kynlíf, Sófókles? Hefurðu ennþá getu til að stunda kynlíf með konu?"

329c

Hann svaraði, "Þegiðu, maður! Til allrar hamingju hefur mér tekist að losna undan slíku, eins og þræll sem hefur sloppið undan ofstækisfullum og grimmum herra." Á þeirri stundu þótti mér þetta svar gott, og ég hef ekki skipt um skoðun. Ég meina, það er enginn vafi á því að í ellinni færðu frið og frelsi frá hlutum eins og kynlífi. Þegar þráin linast í ákafa sínum og róast, þá gerist nákvæmlega það sem Sófókles lýsti - þú öðlast frelsi frá mörgum snarbiluðum herrum. 

329d

Samt sem áður, þá er hár aldur manneskjunnar ekki það sem ber ábyrgð á þessu, né sambandi manns við ættingja, Sókrates, heldur manngerðin. Ef viðkomandi er sjálfagaður og vel skapi farinn, íþyngir ellin ekki mikið; fyrir aðra felst orsök óánægjunnar ekki bara í háum aldri, Sókrates - heldur mun slíkri manneskju líka þykja lífið erfitt í æsku.

329e

Ég fylltist aðdáunar á honum og orðum hans, og vegna þess að ég vildi að hann héldi áfram, reyndi ég að eggja hann áfram með því að segja, "Cefalus, mig grunar að flestir myndu bregðast við því sem þú ert að segja með miklum efasemdum; þeir myndu telja að þér finnist hár aldur auðveldur ekki vegna manngerðar þinnar, heldur vegna ríkidæmi þíns. Hinir ríku fá mikla huggun, segja þeir."

"Rétt hjá þér," sagði hann, "þeir efast. Og það er mikið til í þessu, en þó er þetta ekki jafn mikilvægt og þeir ímynda sér. Sagan um Þemístókles er mikilvæg í þessu samhengi - um það hvernig maðurinn frá Serifus sagði á óforskammaðan hátt að frægð hans væri ekki honum sjálfum að þakka, heldur borginni, svaraði hann, "Það er satt að ég hefði ekki verið frægur væri ég frá Serifus, en það er einnig satt að þú værir það ekki ef þú værir frá Aþenu."


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 328 - Meiri ánægja af kynlífi eða samræðum í ellinni?

 

BÓK I

1. kafli - Árás á hefðir

 

328a

"Hva," bætti Adeimantus við, "veistu ekki að í kvöld verða kyndla-kappreiðar fyrir gyðjuna?"

"Kappreiðar?" sagði ég. "Það er óvenjulegt. Meinarðu að það verði kappreiðar þar sem keppendur skila af sér kyndlum til félaga sinna?"

"Nákvæmlega," sagði Pólemarkús. "Þeir eru einnig að undirbúa næturskemmtun sem þú mátt ekki missa af. Við ætlum að fara og sjá hana eftir kvöldmat, og þar verður líka fullt af ungmennum sem við getum talað við. Þannig að þú verður að gera eins og við segjum og vera hérna áfram."

328b

"Það lítur út fyrir að við ættum að vera áfram," sagði Glákon.

"Nú, ef þér finnst það," sagði ég, "þá ættum við að gera það."

Þannig að við fórum heim til Pólemarkúsar þar sem við fundum bræður hans Lysias og Euþýdemus, og líka Þrasímakkos frá Chalcedon, Charmantides frá Paeania, og Cleitophon son Aristonymusar. Faðir Pólemarkúsar Cefalus var líka í húsinu;

328c

mér fannst hann mjög ellilegur í útliti, en ég hafði ekki séð hann í langan tíma. Hann sat á stól með púða og með blómsveig á höfðinu, enda hafði hann verið að færa trúarfórnir í garðinum. Öðrum stólum hafði verið komið fyrir í hring, þannig að við settumst niður við hlið hans.

Þegar Cefalus sá mig, sagði hann halló og hélt áfram, "Sókrates, því miður fyrir okkur, venur þú ekki komur þínar til Piraeus. Þú ættir, þú veist. Ég meina, ef ég hefði nógu mikinn styrk til að fara bæjarferð án erfiðleika, þyrftir þú ekki að koma hingað, því að þá myndi ég heimsækja þig. En eins og staðan er, ættir þú að koma hingað oftar.

328d

"Í mínu tilfelli, sjáðu til, hefur sífellt minnkandi áhugi minn á líkamlegum nautnum jafnast nákvæmlega á við aukna ánægju mína á samræðum. Vinsamlegast farðu því að óskum mínum: verðu endilega tíma þínum með þessum ungu mönnum sem eru félagar þínir, en komdu einnig fram við okkur eins og vini - sem mjög nána vini - og heimsæktu okkur."

"Það mun ég örugglega gera, Cefalus," svaraði ég. "Ég hef í raun mjög mikla ánægju af að ræða við mjög gamalt fólk, því við ættum að læra af þeim. Það er komið lengra en við, má segja, á vegi sem við munum líklega einnig þurfa að ferðast, og við ættum að komast að því hvernig vegurinn liggur - hvort hann sé grófur og harður, eða auðveldur og sléttur. Og ég hefði sérstaklega gaman af því að spyrja um skoðanir þínar á honum, þar sem að þú hefur náð þeim tímamótum sem skáldin kalla "þröskuld hárrar elli". Myndir þú segja að það sé erfitt tímabil í lífinu, eða hvað?

  1. Frelsar ellin okkur frá líkamlegum nautnum?
  2. Eykst áhugi okkar á samræðum með aldrinum?
  3. Er ljóst að við þroskumst á æviskeiðinu eða fer okkur aftur?
  4. Er ellin eitthvað sem ber að kvíða eða hlakka til?
  5. Af hverju kvíða sumir ellinni?
  6. Af hverju hlakka sumir til ellinnar?
  7. Tengjum við saman dauða og elli?
  8. Tengjum við veikindi og elli?
  9. Höfum við góða ástæðu til að kvíða dauðanum?
  10. Er eðlilegt að óttast sjálfan óttann fyrir dauðanum?

 

Mynd: National Gallery of Art, Jan Lievens (Dutch, 1607–1674), Head of an Old Man, 1640


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 327 - Hvernig get ég fengið þig til að hlusta á mig ef þú hefur engan áhuga á því?

 

BÓK I

1. kafli - Árás á hefðir

 

327a

Í gær fór ég til Piraeus með Glákoni, syni Aristons, til að tilbiðja gyðjuna og líka vegna áhuga mínum á að sjá hvernig þeir stjórna hátíðarhöldunum, fyrstu sýningunni. Ég var vissulega hrifinn af glæsileika skrúðgöngu bæjarbúa, en ég verð að segja að Þrasíumenn stóðu sig jafnvel og bæjarbúar í þeirri göngu.

327b

Þegar tilbeiðslu okkar og áhorfi lauk lögðum við aftur af stað til bæjar, þegar Pólemarkús sonur Sefalusar, tók eftir okkur úr fjarlægð og sendi þræl á eftir okkur. Drengurinn kom aftan að mér, greip í jakka minn, og sagði, "Pólemarkús vill að þú bíðir eftir honum."

"Allt í lagi, við skulum gera það," sagði Glákon.

327c

Pólemarkús var fljótur að ná okkur. Í för með honum voru bróðir hans Adeimantus, Níkeratus sonur Níkíasar, og nokkrir fleiri; þeir höfðu greinilega allir verið í skrúðgöngunni. 

"Sókrates," sagði Pólemarkús, "mér sýnist þið tveir vera að leggja af stað í bæinn."

"Það er rétt," svaraði ég.

"Nú," sagði hann, "sérðu hvað við erum margir?"

"Auðvitað."

"Þú ættir því að velja," sagði hann, "á milli þess að yfirbuga okkur og vera hérna áfram."

"Nú, það er enn einn möguleiki til staðar," benti ég á. "Við gætum sannfært ykkur um að leyfa okkur að fara."

"Geturðu sannfært fólk sem hlustar ekki?" spurði hann.

"Ómögulegt," svaraði Glákon.

"Þú ættir að gera þér grein fyrir að við munum ekki hlusta á þig."

 

Spurningar:

  1. Þegar einhver vill ekki hlusta, er vit í að þvinga viðkomandi til hlustunar?
  2. Hvaða afleiðingar ætli það hafi að þvinga eigin skoðunum upp á annað fólk?
  3. Hefur stjórnarþingmaður rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á þjóð sína?
  4. Hefur trúfélag rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á meðlimi sína?
  5. Hefur kennari rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á nemendur sína?
  6. Hefur foreldri rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á börn sín?
  7. Hafa börn rétt til að þvinga eigin skoðunum yfir á jafnaldra sína?
  8. Hefur skólakerfi rétt á að þvinga námsskrá yfir á nemendur?
  9. Hefur ríkisstjórn rétt á að þvinga eigin úrlausnum yfir á þegna sína?
  10. Hafa fréttastofur rétt til að takmarka sjónarhorn á sannleikann?


Mynd: Jim Guittard's Place

Hvað er þekkingarfræði?

Ég hef haldið áfram þróun á heimspekihandbók, þar sem upplýsingar um heimspeki eru að verða til, en ég held í þá veiku von að þetta framtak muni gagnast sérstaklega við fræðslu í gagnrýnni hugsun - nokkru sem virðist skorta sérstaklega meðal jámanna í stjórnmálaheiminum. Smám saman stækkar vefurinn og verður áhugafólki um heimspeki gagnlegt uppflettirit. 

Ég vil taka það sérstaklega fram hversu sorglegt mér þykir að heimspeki sé ekki kennslugrein í grunnskólum og framhaldsskólum landsins, en með ástundun heimspeki, sem er móðir allra vísinda og að sögn guðfræðinga þerna guðfræðinnar, hefur fólk tækifæri til að kynnast betur eigin hugmyndum og annarra, og hefur kost á því að sjá hversu margbrotnar skoðanir okkar eru, og hversu djúpstæður eða grunnur ágreiningur um mikilvæg málefni getur verið.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði (Enska: epistemology, Gríska: episteme = þekking, logos = fræði) spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

Rannsóknir þekkingarfræðinnar skiptast í þrjár greinar:

  1. Skilgreining þekkingar
  2. Öflun þekkingar
  3. Efasemdir um þekkingu (efahyggja)

 

Stöðluð skilgreining á þekkingu

Þekking er réttlætanleg og sönn trú.

Til að þekkja eitthvað verðum við að trúa því og það sem maður trúir verður að vera satt. Ástæður trúarinnar verða að vera réttlætanlegar út frá einhverjum stöðlum, þar sem að maður getur ekki ákveðið allt í einu að trúa einhverju að þar af leiðandi verði viðkomandi satt. Þannig að skilgreining þekkingarfræðinnar skiptist í þrjár megin rannsóknir, um:

  • Réttlæting
  • Sannleikur
  • Trú

 

Öflun þekkingar

Hefðbundnar rannsóknir á hvaðan þekking kemur skiptist í tvo ólíka skóla, en svo einkennilega vill til að þeir virðast ekki samræmanlegir, þar sem að annar þeirra telur þekkingu koma úr hugsun, en hinn úr reynslu.

  • Hughyggja (rationalist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst með notkun rökhugsunar.
  • Raunhyggja (empirist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst gegnum skynfæri sín.

Heilbrigðast er að sjá hughyggju og raunhyggju sem samvirkandi þætti í sama ferlinu. Ef þú hugsar um það hvernig hugmyndir verða til, geturðu séð í hendi þér að það skiptir í raun ekki máli hvar hugmyndin kviknar, hvort það er vegna einhvers sem þú hefur séð, dreymt eða hugsað. Hins vegar þegar ný hugmynd er komin upp, þá þarf fyrst að velta henni fyrir sér, og þá eru bestu tækin til þess gagnrýnin hugsun og stærðfræði, sem taka á mótun hugmyndarinnar, þannig að fyrst aðgreinum við hana frá öðrum hugmyndum, síðan reynum við að skilja hana, og þar á eftir tengja hana við aðrar hugmyndir. Tengingin við aðrar hugmyndir getur verið huglæg eða raunlæg, sem hefur þá áhrif á næstu skref hennar. Verði hugmyndin áfram huglæg er sjálfsagt hægt að greina hana betur, skilja betur forsendur hennar og samband við önnur hugtök; en verði hún raunlæg er hún komin út fyrir hið huglæga og hægt að rannsaka út af fyrir sig með skynfærum og tækjum sem bæta skynjun okkar, eins og smásjár, sjónaukar, og slíkt. En það allra besta fyrir hverja hugmynd er samþætting kenningar og veruleika - þannig að báðir þættir lifi áfram. Þannig verður til sífellt öflugri þekking.

Ætli það séu ekki fyrst og fremst mannlegar takmarkanir sem valda heiftarlegum aðgreiningi á hughyggju og raunhyggju, þar sem sumir sjá meira gildi í hugmyndum, en aðrir í nýtingu, á meðan hvort tveggja í samvinnu er orðið að öflugu tæki til hugmyndaþróunar og þekkingaröflunar.

 

Efahyggja

Efahyggja er ómissandi hluti þekkingarfræði. Þar sem efasemdir vakna um örugga þekkingu, þar þarf réttlætingin fyrir trúnni að vera því öflugri. Skorti efasemdir eða sé bannað að efast um viðkomandi trú, þá er ekki um þekkingu að ræða, heldur trúarbrögð.

Efinn er prófsteinn á þekkingu, spyr þráðbeint og kafar í hjarta hverrar trúar. Ekki má gleyma því að efahyggjan á fyrst og fremst við um mannlega þekkingu, og hefur ekkert umboð þegar kemur að trúarbrögðum, þar sem trúarbrögð fjalla ekki um þekkingu, heldur er um enn margbrotnara fyrirbæri að ræða sem tengist meira lífsspeki, gildum og trú sem krefst ekki formlegrar réttlætingar.

 

Athugið að eftirfarandi myndband er töluverð einföldun á þekkingarfræði, en samt skemmtilegur inngangspunktur í fræðin.

 

 


Hvað er gagnrýnin hugsun? (Með myndböndum)

 


 

Hugmyndinni um gagnrýna hugsun er ósjaldan varpað fram í umræðu heimspekinga, en hún er leit að kjarna hvers máls fyrir sig, að geta greint á milli vel og illra framsettra hugmynda og skilja hvers vegna, að finna hið sanna í hverju máli. Formleg gagnrýnin hugsun er heil fræðigrein út af fyrir sig, þar sem rýnt er í rökvillur, mælskulist, áreiðanleika heimilda, forsendur málsaðila, og margt fleira.

En stundum gleymist að gagnrýnin hugsun krefst meira en þess eins að kryfja mál á gagnrýninn hátt. Góð gagnrýnin hugsun þarf einnig á sköpunargáfu og frumleika að halda, sem og umhyggju fyrir viðfangsefninu og þeim sem að því koma.

Til dæmis, þegar verið er að rannsaka forsendur fóstureyðinga, þá er ekki nóg að deila um hvort að fóstureyðingar séu réttar eða rangar og rökstyðja með tilvísun í trúarbrögð, tilfinningar og læknavísindi, það þarf einnig að hlusta á rök fólksins sjálfs sem ákveður að framkvæma fóstureyðingar, og jafnvel þó að það telji það stýra gegn grundvallarskoðunum þeirra. Hvernig getur staðið á því að fólk sem trúir að fóstureyðingar séu í eðli sínu rangar, gangist undir þær?

Eina skýringin sem ég sé fyrir mér er að eitthvað annað siðferðilegt mál hljóti að vega þyngra í huga þessa fólks, sem tengist hugsanlega þeirri ábyrgð að framfleyta og koma barni til manns við þær forsendur sem viðkomandi upplifir.

Málið er að upplifun og reynsla fólks af lífinu er oft gjörólík hugmyndum heimspekinga, stjórnmálafræðinga og trúarbragðaleiðtoga um tilveruna - og að oft sé stórt bil á milli þess hvernig heimurinn er og hvernig hann ætti að vera, og jafnvel getur vel verið að heimurinn ætti alls ekki að vera eins og meirihlutinn hugsanlega telur að hann ætti að vera - hugsanlega gæti manneskjan sem hefur ábyrgðina haft eigin hugmyndir um hvernig heimurinn ætti að vera og því tekið ákvarðanir byggðar á þeim grunni.

Af þessum sökum er afar mikilvægt að umhyggja fyrir manneskjum við ólíkar aðstæður séu til staðar, í stað þess að gagnrýni falli í kerfi þar sem hlutleysi er krafist. Hver segir að gagnrýnin hugsun þurfi að vera hlutlaus? Af hverju má gagnrýnin hugsun ekki taka mið af aðstæðum, og þeir sem meta málin dæma samkvæmt bæði rökum og tilfinningum, enda um heilsteyptar manneskjur að ræða?

Gagnrýnin hugsun er oft svarið við spurningunni: "Hvað er heimspeki?" En kjarni gagnrýnnar hugsunar felst í því að hún kryfur sjálfa sig og er vel lýst með orðunum: "Hugsun um hugsun".

Staðlar fyrir gagnrýna hugsun samkvæmt Richard Paul:

  1. Skýr hugsun
  2. Nákvæmni
  3. Samræmi
  4. Mikilvægi
  5. Dýpt
  6. Víðsýni
  7. Rökrétt

Nákvæmni óskar til dæmis eftir tölulegum niðurstöðum. Ef einhver segir að það sé heitt, viljum við vita í samræmi við aðstæður hversu heitt er.

Nákvæmni er ekki það sama og samræmi, þar sem að nákvæmar upplýsingar um einstaka þætti gætu verið notaðar til að villa um og flækja málin, og þannig sýnt eitthvað annað en skýrt samræmi upplýsinganna við veruleikann.

Upplýsingar gætu verið nákvæmar og í samræmi við veruleikann, en ef þær upplýsingar sem eru gefnar upp eru ekki mikilvægar, þá fellur málið um sjálft sig.

Flóknar spurningar krefjast djúpra svara - sé svarið einfaldara en spurningin, þá er það einfaldlega rangt.

Hugsunin þarf ekki aðeins að kafa djúpt, heldur einnig vera víðsýn og forðast þannig að þrengja málefnið við eina hlið, heldur reyna að sjá minnst tvær hliðar hvers máls og helst þær allar.

Hver einasta mikilvæg hugsun og skoðun þarf einnig að fylgja lögmálum rökhugsunar, og halda þó að spurt sé vítt og djúpt út í forsendur svarsins.

Spurningar til að auka nákvæmni, sérstaklega áhrifaríkt þegar viðmælandi er óskýr og fer í hringi:

  • Gætirðu útskýrt betur?
  • Gætirðu lýst betur?
  • Gætirðu gefið dæmi?

Áhugavert efni: Staðlar gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti með Richard Paul og 2. hluti

 

Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti




Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 2. hluti


Hvað er heimspeki?

Í morgun settist ég við tölvuna og bjó til nýja heimspekisíðu sem ég kalla Heimspekihandbók. En hún er wiki síða undir Heimspekiblogginu mínu. Ég hafði einhverja þörf til að skrá niður hvernig ég sé grundvöll heimspekinnar fyrir mér og býð einnig áhugamönnum í heimspeki til að taka þátt og bæta við greinum á síðuna langi þá til.

Þannig er inngangurinn:

 

Heimspeki

Heimspeki er ákveðið vinsamlegt viðhorf til hugsunar, þekkingar, lífsins, manneskja og heimsins, sem miðast að því að dýpka skilning og bæta dómgreind þess sem ástundar hana. Því fleiri sem ástunda heimspeki, því betra. Ein af grundvallarforsendum lýðræðissamfélags er að þegnar og stjórnendur hugsi skýrt og vel, og taki ákvarðanir byggðar á traustum rökum, og láti ekki blekkjast af mælskulist eða sannfærandi rökvillum. Hægt er að læra slíka hugsun með heimspekilegri ástundun. Kjarni virkar heimspeki er samræðan, hvort sem að henni er deilt í rituðu máli eða á fundum heimspekinga. Það er afar líklegt að heimspekingar sjái fyrirbærið heimspeki fyrir sér á ólíkan hátt, enda er hún tengd hverjum heimspekingi gegnum hans eigin uppgötvanir um heim og huga - og fléttuð inn í reynsluheiminn sem hluti af órjúfanlegri heild.


Rökfræði

Rökfræði er grundvallartæki heimspekilegrar hugsunar. Rökhugsun er fyrir heimspeking eins og hamar og sög fyrir trésmið. Meginmunurinn er hins vegar sá að hamar og sög beinast alltaf að ytra viðfangi, en meginviðfang rökfræðinnar er hún sjálf. Þannig að hugsun um rökfræði er einnig að miklu leiti eins og að horfa í spegil, þú getur áttað þig á ákveðnum útlínum, forsendum og lögmálum, en trúir þú þegar þú ert að horfa í spegil að þú sért að horfa á þig sem manneskju, þá gleymirðu að þú ert ekki að horfa á þig, heldur speglun á fleti. Þannig er rökhugsunin margbrotnari en þau lögmál sem við höfum uppgötvað, enda endurspeglar hún aðeins fyrirbæri, en er ekki fyrirbærið sjálft. Það er hins vegar vel þess virði að rannsaka takmarkanir og lögmál rökhugsunar, sem getur hjálpað einstaklingum að mynda sér traustari skoðanir um hvað sem er, svo framarlega sem það átti sig á því að þekking okkar á rökhugsun er ekki 100% áreiðanleg og af þeim sökum getum við haft rangt fyrir okkur, auk þess að okkur gæti hafa orðið á mistök innan leikreglna rökhugsunar.

 

Siðfræði

Siðfræði er grundvallartæki mannlegrar hegðunar og samskipta. Siðfræðin rannsakar hið góða og rétta, og reynir til dæmis að átta sig á hvort að eitthvað geti alltaf verið gott eða alltaf verið rétt, og hvort allt gott sé rétt, eða allt rétt sé gott. Málin flækjast fljótt þegar inn í spurningar um hið góða spinnast ólíkar skilgreiningar á því hvað hið góða er, og enn flóknara verður að finna eitt rétt svar, þegar við áttum okkur á því að öll trúarbrögð heimsins hafa reynt að svara þessari spurningu - og að trúarbrögð eru í raun leiðarvísir að hinu góða samkvæmt skoðun sem einhver leiðtogi trúarbragðanna hefur uppgötvað, annað hvort með dýpri sýn á lífið og tilveruna, guðlegri uppljómun, heilbrigðri skynsemi eða einhverjum snert af brjálæði. Heimspekingurinn veit að hann veit ekki, og getur því kafað dýpra í átt að góðum svörum, en hann veit að þegar eitt rétt svar finnst og það neglt niður af þrjósku sem eina rétta svarið, þá glatast þessi hæfileiki til að kafa dýpra.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

 

Frumspeki

Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fjallar um hið mögulega og hið raunverulega, og með frumspekilegum rannsóknum fær sá sem ástundar hana tækifæri til að þroska viðhorf sitt til heimsins, með skýrari á takmarkanir okkar gagnvart heiminum. Það getur stundum verið ansi erfitt að greina þegar við hugsum um heiminn til dæmis hvort að heimurinn sé óaðskiljanlegur hluti af manneskjunni sem hugsar um hann, eða hvort að manneskjan sé óaðskiljanlegur hluti af heiminum. Þegar við áttum okkur til dæmis á hliðstæðum sjálfrar Jarðar og mannslíkamans, þá gætum við velt fyrir okkur hvernig þessu sambandi er háttað. Getur verið að Jörðin sé líkami mannkyns, og að hvert okkar sé aðeins lítil fruma í þessum líkama? Hvernig getum við haft áhrif þegar við sjáum að mannkynið hefur ákveðið að taka upp sjúklega áráttu, eins og að drekka eins og svín eða reykja eins og strompur - getur lítil fruma breytt því?

 

Fagurfræði

Fagurfræði er oft vanmetin grein heimspekinnar, en hún lítur að því sem vekur athygli okkar. Hvað er fegurð og getur það sem okkur finnst ljótt vera samrunið í fegurðarhugtakið? Fegurð er eitthvað sem við sjáum okkur neydd til að virða fyrir okkur og meta, hvort sem að það er einstaklingur eða atburður. Til dæmis vakti árásin á tvíburaturnana í New York 11.9.2001 mikla athygli, en okkur þykir erfitt að velta fyrir okkur hvort að einhver fegurð hafi tengst eins hrykalegum atburði. En það er margt sem vekur upp hrifningu við pælingar á því sem gerðist. Til dæmis talan 11, er hún merki fyrir turnana tvo? Og sú staðreynd að neyðarsímanúmerið í Bandaríkjunum er 911 og atburðurinn átti sér stað 11.9, en Bandaríkjamenn telja hins vegar mánuðinn fyrst í dagsetningum, þannig að út kemur 9.11; og sú staðreynd að margar af þeim hetjum sem mest hefur verið minnst voru einmitt lögreglumenn og slökkviliðsmenn sem svöruðu kallinu 9.11. Þetta er atburður sem allir tóku eftir og gjörbreytti heiminum, hafa fréttamiðlar sagt, en hvernig þessi atburður hefur haft áhrif á okkur er enn að töluverði leiti órannsakað mál.

 

Heimspekingar

Heimspekingar er fólk sem hefur rætt allar þessar greinar í fjölmargar aldir. Þessar pælingar hafa haft mikil áhrif á heiminn, hvort sem þú leitar til vísinda, trúarbragða, samfélaga, hagkerfa. Það er sama hvert þú lítur, heimspekin hefur alls staðar komið nálægt. Hins vegar hefur misjafnlega vel verið hlustað á heimspekinga, og stundum eru hugmyndir þeirra teknar og skældar, og misnotaðar til að fullnægja þörfum einstaklinga eða hópa. Í vestrænni menningu er Þales frá Miletus (fæddur um 637 fyrir Krist) almennt viðurkenndur sem fyrsti heimspekingurinn, en lítum við aðeins lengra til austurs komumst við að því að þar er hægt að rekja heimspekina til Yi Jing (Bókin um Breytingar) um 1000 fyrir Krist, en talið er að King Wen hafi skrifað hana. Fjöldi heimspekinga hefur lifað á jörðinni á þessum síðustu 3000 árum. Sumir þeirra þykja sérstaklega framúrskarandi og áhugaverðir en aðrir hafa gleymst. Þessi síða er fyrir þá alla. Líka þig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband