Færsluflokkur: Heimspeki

Hvers virði væri lífið án gagnrýnnar hugsunar?

Í síðustu grein minni, Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?, setti ég fram nokkrar spurningar um viðhorf til gagnrýnnar hugsunar. Af einhverjum ástæðum fóru athugasemdir að snúast um trúarbrögð og guðleysi eða trúarbragðaleysi, þar sem einn nafnlaus aðili gaf sér meðal annars mína afstöðu til trúarbragða, án þess að þekkja til hennar. Annar aðili, Haukur Kristinsson, lagði fram nokkrar frumspekilegar spurningar sem dæmi um hvað áhugavert væri að "vita og skilja". Ég er sammála því að þetta séu góðar og spennandi spurningar, þó að frumspeki sé aðeins ein af mörgum hliðum heimspekilegrar þekkingar um heiminn. 
 
Til gamans íslenskaði ég spurningar Hauks, sem hann lagði í athugasemdareitinn á ensku:
  1. Af hverju er eitthvað frekar en ekkert?
  2. Af hverju erum við til?
  3. Af hverju þessi ákveðnu lögmál og ekki einhver önnur? (Sjálfsagt átt við náttúrulögmál)
  4. Hvert er upphaf náttúrulögmálanna?
  5. Eru einhverjar undantekningar á náttúrulögmálunum, til dæmis kraftaverk?
  6. Er aðeins ein gerð lögmála möguleg?
  7. Albert Einstein: Það óskiljanlegasta við alheiminn er að hann er skiljanlegur. 
Hægt er að byrja að svara þeim á ólíka vegu, útfrá ólíkum forsendum sem þarf að gefa sér í upphafi, með því að (1) gera ráð fyrir að guðleg öfl séu til (guðfræði), (2) gera ráð fyrir að við vitum ekkert um guðleg öfl án þess að útiloka þau eða hampa þeim (heimspeki), eða (3) gera ráð fyrir að guðleg öfl geti ekki verið til (guðfræði).
 
Þessar þrjár forsendur eru afar ólíkar og mun sá sem svarar þessum spurningum fá afar ólík svör, eftir því hvaða forsendur viðkomandi gefur sér. Guðfræðin rannsakar af dýpt (1) og (3), en viðfangsefni heimspekinnar er að rannsaka (2), og leyfir sér að sjálfsögðu að gefa sér (1) og (3) líka þegar það á við, eftir því um hvað er fjallað og hver það er sem rannsakar efnið.
 
Ef þú ætlar að takast á við þær spurningar sem þú leggur til, þarftu að rannsaka möguleg svör út frá ólíkum forsendum. Ef þú gefur þér að einungis ein af þessum forsendum sé möguleg, að guðleg öfl geti ekki verið til, geturðu misst af mikilvægum vísbendingum og hugmyndum sem gætu skipt máli, hvort sem guðleg öfl eru til eða ekki. Algjör afneitun á mögulegri tilvist guðlegra afla (hvað svo sem getur verið túlkað sem guðlegt afl), og flokka þá sem taka þá afstöðu sem andstæðinga, gengur þvert á grundvöll gagnrýnnar hugsunar, sem krefst þess að maður endurmeti eigin afstöðu, og rannsaki málin frá sem flestum hliðum með opnum hug. 
 
Guðleysi án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem trú án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem hugsunarleysi, er svolítið eins og að keyra á fyrirfram gefinn áfangastað, og gefa sér að ekkert annað en áfangastaðurinn skipti máli. Þannig er hætta á að viðkomandi missi af þeim möguleikum, þeirri fegurð og mögulegu uppgötvunum, sem felast í sjálfu ferðalaginu.

Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?

Hér fyrir neðan fylgja nokkrar spurningar sem þú getur spurt þig, og getir þú svarað þeim öllum játandi, með hreinni samvisku, þá ertu gagnrýninn hugsuður, eða réttara sagt, manneskja sem getur verið gagnrýninn hugsaður hafirðu sankað að þér þeirri hæfni sem nauðsynleg er til að verða slíkur. Að hafa viðhorf í rétta átt er fyrsta skrefið, og sjálfsagt það síðasta líka.

Auðvelt er að rugla saman "gagnrýnni hugsun" og "gagnrýni". Gagnrýnin hugsun er viðhorf sem leitar sannleikans á uppbyggilegan hátt, en gagnrýni má stundum túlka sem hreinan efa, verkfæri til að rífa í sundur án þess að líma saman á ný. Ég hef meiri áhuga á gagnrýnni hugsun en hreinni gagnrýni sem slíkri.

Ef þú sérð fyrir þér tvær manneskjur, einni sem beitir gagnrýnni hugsun, og annarri sem beitir hreinni gagnrýni, geturðu auðveldlega fengið í hugann afar ólíkar manngerðir.

Hinn gagnrýni hugsuður hlustar vandlega á þann sem talar, veltir fyrir sér eigin viðhorfum um málið, og reynir að skilja málstað hinnar manneskjunnar af dýpt. Hinn gagnrýni hugsuður hefur minni áhuga á að komast að einni niðurstöðu, heldur en að rannsaka  málið frá sem flestum hliðum, og komast þannig nær altækri þekkingu á viðkomandi málefni, án þess kannski að höndla slíka þekkingu endanlega. Hinn gagnrýni hugsuður stingur upp á hugmyndum sem geta dýpkað skilningsleitina.

Hinn hreini gagnrýnandi er ekki jafn gefandi manneskja. Hún dæmir út frá þeim hugmyndum sem hún hefur, og er ekkert endilega til í að rannsaka hvort að eigin dómgreind sé í góðu lagi eða ekki; þar sem það kemur gagnrýni á viðfangsefninu ekkert við að hennar mati. Slíkur gagnrýnandi er sannfærður um að eigin málstaður er hinn eini rétti, og að öndverðar skoðanir hljóti að vera rangar. 

Og hér eru spurningarnar:

  1. Leyfirðu ímyndunaraflinu að njóta sín?
  2. Er hugur þinn opinn?
  3. Finnst þér nýjar og gamlar hugmyndir spennandi?
  4. Ertu til í að endurskoða eigin viðhorf?
  5. Kannastu við að hafa einhverja fordóma?
  6. Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir frá öðru fólki?
  7. Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir úr eigin huga?
  8. Ertu til í að leggja á þig rannsóknarvinnu til að finna áreiðanlegar upplýsingar?
  9. Ertu til í að meta þau sönnunargögn sem þú hefur og dæma í samræmi við þau, þó þau séu í andstöðu við fyrri skoðanir þínar og trú? 
  10. Ertu til í að fresta ákvörðunum ef nægilegar upplýsingar eru ekki til staðar?

Ættu þingmenn að fylgja forystu flokksins í blindni eða ástunda gagnrýna hugsun í sérhverju máli?

Á Íslandi, séð utanfrá, virðist flokkapólitík einkennast af skorti á gagnrýnni hugsun. Hópur fólks setur ákveðnar línur, markmið, reikna ég með, og síðan eiga allir þingmenn viðkomandi flokks að fylgja þessum línum. Eftir að hafa fylgt þessum línum blindandi í einhvern tíma, geta þeir farið að trúa meira á línuna sjálfa heldur en eigin dómgreind. Það er hættulegt og getur orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar og jafnvel barist af hörku til að eigin lína nái að halda. Sérstaklega slæmt er þegar línan verður afstæð og tengd hag flokksins fyrst og fremst: til dæmis er línan "að ná völdum" mun verri en að "vernda hag þjóðarinnar". Hversu göfug sem þessi lína getur orðið, má aldrei gera hana að tabú, einhverju sem ekki má gagnrýna.

Ég velti fyrir mer hvort að alþingismenn spyrji sig gagnrýnna spurninga fyrir hverja einustu lagasetningu, eða hvort þeir nenni kannski ekki að pæla í öllum þessum lögum og langi frekar að gera eitthvað annað. Spyrja þeir sig þessara grundvallarspurninga þegar kemur að nýrri lagasetningu?

 

  1. Eru nýju lögin sanngjörn?
  2. Hvert er markmið þeirra?
  3. Eru þau líkleg til að ná tilsettum árangri?
  4. Gætu þau óvart verið einhverjum skaðleg? 
  5. Ef þau gætu verið skaðleg, getum við borið saman mögulegan skaða og mögulegt virði? 
Umræður um ný lög ættu að snúast um slíkar spurningar, kafa djúpt í málið. Ekki bara þrasa og síðan láta meirihluta þings ráða. Það hlýtur að vera mögulegt að komast að skynsamlegum niðurstöðum þegar kemur að lögum, án þess að tengja þau flokkspólitík. 
 
Vandinn við stjórnmálin er að stjórnmálamenn þurfa sífellt að hugsa um eigin stöðu innan flokksins. Segi þeir eða meti eitthvað sem ekki er í samræmi við flokkslínur, er það líklegt til að skapa óvild gagnvart persónu þeirra. Mótsögnin hérna er sú að hópur er líklegri til að ná árangri ef allir stefna að sama marki, en ef markmiðið gefur gagnrýnni hugsun ekkert svigrúm, þá eru litlar líkur á að vinnan verði á endanum til góðs.  
 
Markmið, hins vegar, sem gera ráð fyrir gagnrýnni hugsun, hvetja flokksmenn til að rannsaka og meta hvert mál á þeim forsendum sem málið stendur á, í stað þess að setja flokkslínuna sem forsendu, væri líklegra til árangurs en flest þau stjórnmálaöfl sem við upplifum í dag, þar sem nauðsynlegt virðist vera að slá fram hugmynd og standa við hana í gegnum þykkt og þunnt.
 
Mér líkaði við Borgarahreyfinguna þegar hún fyrst kom fram, því í grundvelli stendur hún fyrir gagnrýna hugsun. En ekki eitt ár leið eftir að fjórir meðlimir komust á þing, að á ársfundi samtakanna var reynt að koma flokkslínuhugsuninni inn í flokkinn. Þess vegna varð Hreyfingin til. Það er eins og íslensk stjórnmálahefð vinni gegn gagnrýnni hugsun, sjálfsagt án þess að átti sig á að hún geri það. Af þessum sökum grunar mig að flokkur sem nefnir sig "Samstaða" eða "Samfylking" standi illa, því að í nafni flokkanna felst veikleiki þeirra, að betra sé að standa saman heldur en að hugsa gagnrýnið um hvert mál. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó gott hugtak í heiti sínu, en virðist því miður ekki fylgja því eftir í reynd, heldur fellur í sömu gryfjuna, að fylgja flokkslínu, heldur en að kafa djúpt í sérhvert mál.
 
Þannig lítur þetta út frá mínu sjónarhorni.
 
Gagnrýnin hugsun krefst töluverðrar sjálfskoðunar af þeim sem ástundar hana. Sá sem heyrir nýja hugmynd gæti hugsað með sér "þetta hljómar vel", "þessi þingmaður flytur málið af sannfæringu", eða "þessi þingmaður er svo flottur að málið hlýtur að vera vel unnið", eða "hvílíkt hneyksli!" 
 
Gagnrýnin hugsun kemur ekki í veg fyrir þessa fyrstu tilfinningar, heldur krefst þess að við hugsum dýpra, að við metum ekki aðeins virði viðkomandi hugmyndar, heldur einnig virði okkar eigin gildisdóms á hugmyndunum. Við getum nefnilega haft rangt fyrir okkur, sama hversu hrifin eða hneyksluð við getum verið við fyrstu kynni. 
 
Með því að efast ekki aðeins um flokkslínuna, heldur einnig um okkar eigin persónulegu línu, og með því að rannsaka ekki aðeins báðar, heldur allar hliðar viðkomandi máls, þá stundum við gagnrýna hugsun. Ef okkur finnst eitthvað augljóslega rétt, og gefum sjálfum okkur ekki færi á að meta hvort okkar eigin dómur sé réttur eða rangur, þá stundum við ekki gagnrýna hugsun.
 
Það er nefnilega tvennt ólíkt: að vera gagnrýninn á andstæðar skoðanir, og að hugsa gagnrýnið.
 
Út frá þessu ætti að vera ljóst að hinn gagnrýni hugsuður þarf að hafa frjótt ímyndunarafl, til að ímynda sér ólíkar mögulegar aðstæður sem geta komið upp vegna lagasetningarinnar, verður að vera rökfastur, til að sjá útfyrir eigin skoðanir og gildisdóma, og þarf að geta endurmetið málið eftir að hafa öðlast þann skilning á málinu sem nauðsynlegur er.
 
Með því að hugsa á slíkan hátt, værum við ekki aðeins líkleg til að vera með eða á móti lagasetningunni, eða flokkinum sem flytur hana, heldur átta okkur á hvort hún sé góð eða slæm, og þá finna betri leiðir til að ná því markmiði sem lagasetningunni er ætlað.  

 


Hver er munurinn á hugsun, gagnrýnni hugsun og umhugsun?

Hugsun er kallað það fyrirbæri sem á sér stað þegar við tökum ákvarðanir. Þessar ákvarðanir geta verið misjafnlega góðar, og virðast tilviljunarkenndari eftir því sem hugsunin á bakvið þær er minni. Þannig mætti segja að við hugsum á þrjá ólíka vegu. Við getum sleppt hugsunarleysinu, sem yfirleitt birtist sem innsæi, fordómar, þrjóska eða jafnvel heimska, hvað svo sem það er.

Hugsun án umhugsunar virðist vera sem streymandi fljót, tengt þeim áreitum sem skynfæri okkar taka við í sífellu, og í athöfnum okkar renna hugsanir okkar saman við þessi áreiti. Dæmi um slíka hugsun er þegar við tökum manneskju algjörlega til fyrirmyndar, við hermum eftir því sem hún gerir, ekki vegna þess að það sem hún gerir er eitthvað gott eða merkilegt, heldur einfaldlega vegna þess að ef einhver gerir eitthvað ákveðið, þá er viðkomandi búinn að opna möguleikann fyrir því að aðrir geri það sama.

Umhugsun er næsta stig hugsunar, þegar manneskja sem horfir á aðra manneskju gera eitthvað, eða segja eitthvað, og í stað þess að apa eftir fyrri manneskjunni, þá staldrar viðkomand við og veltir hlutunum fyrir sér. Þetta getur orðið til þess að betri ákvarðanir eru teknar, og ekki apað eftir öllu frá hverjum sem er.

Gagnrýnin hugsun er ennþá æðra stig hugsunar. Munurinn á gagnrýnni hugsun og umhugsun er sú að umhugsunin á það til að vera tilviljunarkennd, á meðan gagnrýnin hugsun er kerfisbundin, að ákveðnu marki. Hinn gagnrýni hugsuður gerir sér grein fyrir hvort hann hafi þekkingu eða skilning á fyrirbæri, lætur þekkingu sína og skilning tala í gegnum eigin verk, getur einnig rannsakað og rýnt betur í eigin skilning, þekkingu og verk. Hann getur einnig tengt þessar hugmyndir öðrum hugmyndum og áttað sig þannig á óvæntum hliðum eigin þekkingar, og loks eftir slíka rannsókn verður viðkomandi tilbúinn til að taka ákvörðun sem byggir á viðkomandi þekkingu, skilningu og verkum. Og ekki nóg með það, hann áttar sig á að honum getur skeikað, þó að hann hafi unnið rannsókn sína vel, og er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin dóma, sem og dóma annarra.

Það er fyrst þegar gagnrýnin hugsun er unnin í hópi fólks, sem hún verður að mögnuðu verkfæri, ekki aðeins til að bæta þekkingu sérhvers þátttakenda, heldur einnig til að mynda samræðu sem getur þróað þekkingu, skilning og verk sem framkvæmd fyrirtækis eða stofnunar.  

Ég veit ekki hvort til sé enn æðra stig hugsunar eða hugsunarleysis, einhvers konar uppljómun eða innsæi; og er satt best að segja ekki viss um hver munurinn er á innsæi, fordómum, þrjósku og heimsku.   

Í daglegu lífi reikna ég með að manneskjur stundi afar takmarkað gagnrýna hugsun, einfaldlega vegna þess að það kostar mikla vinnu og aga. Gagnrýnin hugsun er grundvallarstarfsemi í hátæknifyrirtækja og háskólum, í kennslu, þróun, forritun, verkfræði, og þar fram eftir götunum. 

Ætli fólk almennt nenni að beita gagnrýnni hugsun? Er ekki miklu auðveldara að fylgja félögunum, eða staldra við og skoða hlutina aðeins betur, og taka síðan ákvörðun? Nennum við að kafa nógu djúpt til að taka vitrar ákvarðanir, nennum við að ræða saman af viti, rannsaka okkar eigin hugmyndir, eins og til dæmis fyrir lýðræðislegar kosningar á þingflokkum eða forseta?

Er það ástæða þess að almenningsálitinu er meira stjórnað af trú og pólitík en gagnrýnni hugsun? Leti? Skortur á aga? Þá er ég ekki aðeins að tala um íslenskt samhengi, heldur alþjóðlega þrælkunarhneigð til leti, agaleysis og skilyrðislausrar hlíðni gagnvart yfirvaldi, hvaða yfirvaldi sem er. 


Hvaðan sprettur illskan?

Minningarathöfnin um fórnarlömbin 22. júlí 2012 á Útey var falleg og einlæg. Þetta var í miðbæ Stavanger. Í lok athafnarinnar fleytti fjöldi fólks rósum á tjörninni til minningar um fólkið sem missti lífið í þessari grimmu, köldu og þaulskipulöguðu árás. 
 
Aðeins eitt orð virðist geta lýst því sem við upplifum við umhugsun um slík voðaverk: illska
 
Illsku er hægt að skilgreina sem vísvitandi og samfellda ætlun til að valda skaða, og fylgja þessari ætlun eftir í verki, oftar en einu sinni.  
 
Hvaðan ætli slík illska spretti?
 
Spinoza sagði í siðfræði sinni: "...ef mannshugurinn hefði ekkert annað en nógu góðar hugmyndir, þá myndi hann ekki forma neina hugmynd um illsku."
 
Þá mætti hugleiða, hvort að menntun sé meðal annars ætlað að útrýma hugmyndum um illsku, þar sem menntun vinnur að innleiðingu góðra hugmynda í huga sérhverra manneskju á heildstæðan hátt, hugmynda sem byggja á þekkingu, hinu sanna, hinu góða, hinu fagra og heilsteyptri heimsmynd.
 
Þegar heimsmyndin skekkist í hugum okkar, þegar hún er löguð að einfölduðum hugmyndum um heiminn, í stað þess að vera í takt við veruleikann og heilbrigt samfélag, þá getur hvað sem er gerst. Það er þá sem við gerum mistök. Ef við áttum okkur ekki á að mistök okkar voru mistök, og endurtökum þau, erum við þá ekki ill?
 
Illskan sprettur upp bæði í heilbrigðum og spilltum samfélögum. Einhvern veginn virðist illskan vera sjálfsagðari þar sem spillingin er meiri. En í heilbrigðu samfélagi, þar sem spilling fær ekki að skjóta rótum, verður illskan meira áberandi og erfiðari viðfangs, enda engar auðveldar lausnir til á illsku í samfélagi sem gerir ekki ráð fyrir henni.
 
Sjálfsagt er mörgum spurningum ósvarað í þessari stuttu hugleiðingu um forsendur voðaverkana í Útey fyrir ári og Bandaríkjunum fyrir fáeinum dögum, en ég er viss um að svarið er ekkert einfalt. Í mörg þúsund ár hefur mannvonska, grimmd, og hrein illska verið mannkyninu ráðgáta, sem engin vísindi eða fræði geta svarað endanlega.

Á að þagga niður í óþægilegum röddum eins og Snorra í Betel og blaðamönnum Vikunnar?

Íslensk stjórnvöld og réttarkerfi virðast ekki átta sig á eðli málfrelsis. 
 
Tvær blaðakonur Vikunnar voru sakfelldar fyrir að hafa rétt eftir viðmælendum sínum og birta það á prenti. Mannréttindadómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi dómur er á skjön við mannréttindi. 
 
Manni er vikið úr kennarastarfi fyrir að telja og skrifa um skoðun sína um samkynhneigð, sem virðist á skjön við íslenskan rétttrúnað. Ég get ekki skilið að þessi skoðun réttlæti brottvikningu, þó að hún virðist stríða gegn pólitískri réttsýni Íslendinga árið 2012. Mig grunar að þessi aðför að Snorra verði túlkuð sem brot á mannréttindum af sama mannréttindardómstóli.
 
Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna fjallar um tjáningarfrelsið sem nauðsynlegan rétt, að við höfum öll rétt til að hugsa og tjá skoðanir okkar, sama hverjar þær eru, og sama þó að skoðanir okkar séu óvinsælar, þá á ekki að vera hægt að snúa þeim niður með lögum, svo framarlega sem að þessar skoðanir séu ekki beinlínis hættulegar öryggi manneskju eða hópi. Og þá á ég ekki við hvort að þær særi tilfinningar einhverra út í bæ.
 
Það er mikilvægt að virða rétt hvers og eins til að hafa eigin skoðanir og tjá þær, hversu ljótar og andstyggilegar manni getur þótt þær, því að þaggaðar skoðanir, séu þær ljótar og andstyggilegar, grassera miklu betur þegar þær fá að krauma undir niðri en þegar þær eru beinlínis tjáðar og gagnrýndar.
 
Það er mikilvægt að leyfa óþægilegum röddum að komast að. Óþægileg gagnrýni getur stuðað okkur til að hugsa málin upp á nýtt. Án slíkrar gagnrýni nær heimskan að skjóta rótum. Gagnrýni getur ekki blómstrað án þess að allar hliðar málsins fái að heyrast. 
 
Þurfum við ekki frekar að hugsa um það sem við heyrum og upplifum, frekar en að útiloka það sem við heyrum og upplifum? 

Er góðmennskan að hverfa úr heiminum?

Í dag hitti ég manneskju sem yfirleitt er kát, glöð og svolítið hávær. Ég spurði hana hvernig hún hefði það. Hún leit á mig, þögul. Depurðin blikaði í augum hennar. Ég settist niður og hlustaði.
 
Eftir samtalið sagði hún:
 
"Veistu hvað? Þú ert eina manneskjan sem spyr mig hvernig ég hef það, enginn annar gerir það, og ég finn að þú meinar það. Þakka þér fyrir."
 
Mér fannst þetta frekar óhugnanlegt hrós. Getur verið að fólk almennt sé svo sinnulaust gagnvart náunganum? Er einhver samfélagslegur sjúkdómur að herja á okkur, að éta okkur innanfrá, eitthvað sem segir okkur að betra sé að skipta sér ekki af öðru fólki frekar en að sýna umhyggju?
 
Samfélög hafa stofnanir sem eiga að verja góðmennskuna, styðja við siðferðilega gott líf, að við hugsum hvert um annað. Yfirleitt eru þetta trúarstofnanir, enda virðast aðrar stofnanir með tímanum verða að einhvers konar vélum þar sem starfsmenn sinna skyldum sínum vélrænt frekar en með alúð. Kannski það sé ekki rétti leiðin til að styðja við góðmennsku.
 
Ætli sé hægt að kenna fólki að vera gótt við náungann? Er það lærdómur sem nútímamaðurinn kærir sig um? 
 
Er góðmennskan kannski í hættu? 

Hver er munurinn á herskárri gagnrýni og gagnrýnni hugsun?

Ekki aðeins á þessu bloggi, heldur í umræðum víðs vegar um vefinn, og í samfélaginu, bæði því íslenska og alþjóðlega, virðast tvær ólíkar merkingar vera lagðar í hugtakið gagnrýni. Önnur merkingin virðist líta á gagnrýni sem einhvers konar herskáan íþróttaleik, þar sem einn keppandi eða lið er gegn öðrum keppanda eða öðru liði. Þannig snýst kappræðan um það hver er meira sannfærandi og á endanum verður einhver að vera númer eitt: sigurvegari kappræðunnar. Hin merking gagnrýnihugtaksins, er mér meira hugleikin, en þá er gagnrýnin mikilvægur þáttur í samræðu þar sem sannleika málsins er leitað.  

Afskræmi málefnalegrar umræðu á sér stað þegar að minnsta kosti einn aðili í samræðunni er herskár, þar sem þeir sem umræðan er tekin í gíslingu og ekki gefist upp fyrr en aðrir eru komnir á þeirra skoðun, eða gefast upp á að ræða málin á þeirra kappræðuforsendum. Þá telja hinir herskáu gagnrýnendur sig sjálfsagt hafa sigrað í umræðunni, eins og það að geta haldið í sér andanum lengur en hinn geri viðkomandi að fiski. Vandinn er sífellt sá að í slíkri tegund gagnrýni hefur gagnrýnandinn valið sína skoðun og ákveðið að verja hana, frekar en að leita skoðunarinnar með gagnrýnni aðferð. Þannig er kappræðumaðurinn viss um réttmæti eigin skoðunar, en gagnrýni hugsuðurinn er það ekki, og áttar sig á að óvissa getur verið nær sannleikanum en fullvissa. 

Herská gagnrýni þarf að vera vel römmuð inn til þess að hún fari ekki úr böndunum. Gagnrýnin hugsun, aftur á móti, gerir út á að rannsaka forsendur hugtaka, fullyrðinga og hugmynda, og finni hún galla, reynir hún að lýsa gallanum af nákvæmni og alúð, og þar að auki reynir hún að finna forsendur gallans og hvort aðrar betri leiðir séu hæfar. Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart einum eða neinum, og er nákvæmlega sama hvort hún sé sannfærandi eða ekki, þar sem leiðarljós hennar er að leita sannleikans.

Öfgamenn eiga það sameiginlegt að þeir beita sjaldan gagnrýnni hugsun, því að slík hugsun krefst þess að viðkomandi setji sig í spor annarra aðila, gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér, en í hugum öfgamanna eru alltaf einhverjir andstæðingar á kreiki, og einhverjir áheyrendur, sem þarf að sannfæra um hvor aðilinn hefur réttara fyrir sér. Í það minnsta man ég ekki eftir einu einasta atviki þar sem öfgamaður taldi sig ekki eiga andstæðing eða andstæðinga.


(Hvernig) veistu það sem þú veist?

Þessar vikurnar sit ég með unglingum í skólastofu og ræði með þeim heimspekilegar pælingar með beitingu gagnrýnnar hugsunar. Margt áhugavert hefur komið út úr samræðunum, og þá sérstaklega hvernig þau mynduðu sér skoðun um áreiðanleika upplýsinga. Til að mynda fannst þeim kóraninn og Biblían áreiðanlegri en fréttamennska nútímans, og þá erum við að tala um fjölmiðla eins og dagblöð eða sjónvarpsfréttamennsku.

Áreiðanlegast finnst þeim:

  1. Náttúran
  2. Landakort
  3. Alfræðiorðabækur
  4. Viska

Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvernig við veljum hverju við trúum. Það má flokka aðferðirnar í fimm leiðir:

  1. Duttlungar viðhaldið með þrjósku 
  2. Kennivald viðhaldið með áróðri
  3. Gervivísindi viðhaldið með skoðunum
  4. Vísindaleg aðferð viðhaldið með efasemdum
  5. Gagnrýnin hugsun viðhaldið með spurningum

Mig grunar að þrjár fyrstu leiðirnar séu þær sem flestir velja, af þeirri einföldu ástæðu að þær leiðir eru auðveldar og þægilegar, sérstaklega leið duttlunga og kennivalds. Þeir sem velja leið duttlunga skýra val sitt með orðum eins og "af því bara" og "það er mín skoðun". Þeir sem velja leið kennivalds skýra val sitt með orðum eins og "vísindamaður X sagði það og við hljótum að treysta honum", "það stendur í Biblíunni og þar sem hún er rit Guðs verðum við að treysta því" eða "pabbi sagði það og pabbi minn er miklu gáfaðri en pabbi þinn."

Við höfum öll fasta heimsmynd. Við sjáum heiminn út frá okkar eigin sjónarhorni. Sumir víðara en aðrir. Og heimurinn er sá sem við höldum að hann sé. Ef við lifum í takt við tímann og tökum þátt í sömu heimsmynd og "allir" hinir, þá hljótum við að lifa í samræmi við réttu heimsmyndina. Eða hvað? Sá sem velur leið gervivísinda skýrir val sitt með orðum eins og "annars gengi dæmið aldrei upp" eða "það er örugg staðreynd" eða "það er vísindalega sannað", eða "allir aðrir möguleikar eru bull".

Vísindaleg aðferð færir okkur enn nær sannleikanum, þar sem innbyggt í hana er sú kenning að við getum ekki vitað neitt með fullri vissu, og verðum að vera leitandi í leiðangri okkar að réttu svörunum, og góðum spurningum sem leiða okkur vonandi enn lengra. Vísindaleg aðferð er ekki algjörlega ólík samviskunni og efanum, sem biður okkur að staldra aðeins við og íhuga áður en við framkvæmum, í stað þess að hrinda okkur út í örlagadans athafna. Sá sem velur leið vísindalegrar aðferðar skýrir val sitt með orðum eins og "ef við gefum okkur að..." eða "hafi mér ekki yfirsést neitt, þá..." eða "að gefnum forsendum, þá..."

Gagnrýnin hugsun er ekki æðri öðrum aðferðum, en er vel til þess fallin að spyrja nýrra spurninga, halda þekkingarleitinni ferskri. Vísindin leitast við að svara spurningum sem upphaflega voru gagnrýnar, og jafnvel heimspekilegar, eða þróa traustar aðferðir til að svara þeim áreiðanlega, en þó aldrei af fullri vissu. Og gagnrýnin hugsun heldur áfram leit sinni að spurningum sem skipta máli fyrir mannkynið, fyrir samfélagið, fyrir mann sjálfan, og vísindin halda áfram að þróa aðferðir til að svara þeim spurningum sem vísindin finna leiðir til að nálgast.

Vitur manneskja sagði mér í vikunni sem leið að greinarmunurinn á vísindum og gagnrýnni hugsun væri sá að vísindin leituðu að "hvernig", á meðan heimspeki og gagnrýnin hugsun leitaði að "af hverju". Það er nokkuð til í því. Trúarbrögð eru ólík gagnrýnni hugsun að því leiti að þau, rétt eins og vísindin, eru að svara spurningum í stað þess að spyrja spurninga. Gagnrýnir hugsuðir finna ekkert endilega svör við öllum sínum spurningum, en þeir geta velt þeim fyrir sér og fundið ólíkar leiðir gegnum skóginn.

Sá sem velur gagnrýna aðferð skýrir val sitt með orðum eins og "af hverju?" "hvað er þetta?" og "hvað er hitt?" og lýkur ekki leit sinni þar, heldur gerir sitt besta til að finna svörin, án þess að hætta leitinni. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun veit að svörin eru ekki annað hvort og eða, heldur er einnig mögulegt að fresta því að fella dóm.

Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?


Hvað tekur við þegar við deyjum?

en svo deyr mofi; slökknar á heilanum.. og það sama tekur við og áður en mofi fékk sjálfsvitund.. EKKERT, NÚLL, ZERO; Mofi verður dauður, alveg eins og ég og þú og allir hinir...  (DoctorE) (sjá athugasemdir við bloggfærsluna: Er ekkert til sem ferðast hraðar en ljósið?)

Skoðanasystkinin Mofi og DoctorE eru sammála um að "EKKERT, NÚLL, ZERO" taki við þegar lífinu lýkur, og þannig hafi þetta einnig verið fyrir líf. Þeir hafa rangt fyrir sér í alhæfingunni. Ástæðan er sú að fólk deyr og lífið heldur samt áfram. Þeir hafa hugsanlega rétt fyrir sér út frá afar sjálfsmiðuðu sjónarmiði, en samt eru þetta bara getgátur, enda engin lifandi manneskja sem hefur upplifað "ekkert" og getur útskýrt hvað "ekkert" er eða er ekki. Samt er alltaf gaman að heyra tilraunir um þá skilgreiningu og reyndar hægt að læra margt af slíkum tilraunum.

Það væri áhugavert að heyra útskýringu á hvað þetta "EKKERT, NÚLL, ZERO" er, eða er ekki? Er kannski verið að tala um algleymi, eða Nirvana skv. Buddhafræðum?

Samkvæmt mínum skilningi er ekkert hugtak sem notað er um fjarveru, það er að segja ef við gerum ráð fyrir að einhver manneskja bíði okkar á kaffihúsi, sem reynist síðan ekki vera þar þegar við mætum, þá upplifum við fjarveru hennar, eða það að hún er ekki þar. Það er ákveðin upplifun á engu. "Það var enginn á staðnum." Þannig að ekkert í þessum skilningi fjallar um eftirvæntingu og hvernig sú eftirvænting á ekki samleið með veruleikanum.

Hins vegar grunar mig að þeir félagar hafi verið að tala um ekkert í ákveðnum skilningi, út frá því hvað við sjálf upplifum eða upplifum ekki þegar við deyjum. Þá er verið að takmarka framhaldslíf við manns eigið egó, og gert ráð fyrir að ekkert sé til ef við getum ekki upplifað það. Sem er fjarstæða.

Við vitum að fjöldi fólks og heimurinn var til áður en við fæddumst, og við getum gert ráð fyrir að heimurinn haldi áfram eftir að við deyjum. Hvernig við skiljum við heiminn að endalokum, getur skipt miklu máli fyrir þá sem eftir lifa, rétt eins og innkoma okkar í heiminn skipti miklu máli fyrir þá sem tóku á móti okkur. 

Aðal atriðið við enda lífsins er ekki endilega hvað við munum sjálf upplifa "þegar ljósin slökkna", heldur það að heimurinn heldur áfram þrátt fyrir fjarveru okkar. Þessi upplifun, "þegar ljósin slökkna" er hins vegar afar áhugaverð. Ég velti fyrir mér hvað við upplifum, og hvort sé yfir höfuð mögulegt að upplifa "ekkert" á endanum. Þegar vitund hættir að vera til, hættir hún þá að vera sjálfsvituð, eða mun þessi vitund upplifa eitthvað ákveðið þegar slökknar á henni? Skiptir máli fyrir þessa sjálfsvitund það ástand sem hún er í þegar "ljósin slökkna"?

Hefurðu velt fyrir þér hver þú vilt að síðasta upplifun þín verði, á augnablikinu þegar þú deyrð? Skiptir máli hvort það sé eftirsjá, sorg eða von?

Núll og Zero eru svo að sjálfsögðu stærðfræðileg hugtök, og erfitt að sjá hvernig þau tengjast lífi og dauða, enda er stærðfræðin aðeins sönn í sjálfri sér, rétt eins og rökfræðin. Hugtökin ekkert og allt eru rökfræðileg hugtök sem einnig eiga við um hugtök í ramma sem aðeins er sannur í samræmi við sjálfan sig. Ekkert er alhæfingarhugtak sem hjálpar okkur að ná tökunum á heiminum. Dæmi: "engin manneskja er kafbátur" og "engin kengúra er agúrka". Nokkuð sem við sjáum að er satt, vonandi. Hins vegar finnum við það ósanna eða jafnvel ljóðræna ef við segjum "allar manneskjur eru kafbátar" eða "allar kengúrur eru agúrkur".

Það sem tekur við þegar við erum deyjum er svo magnað og dularfullt, og það eina sem ég veit um það er að ég hef ekki hugmynd um hvað verður, og reyndar tel ég mig einnig vita að ég geti ekki vitað hvað verður, og að þegar við höfum fest okkur trú um hvað verður eða ekki verður, þá séum við á villigötum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband