Færsluflokkur: Heimspeki
Hvers virði væri lífið án gagnrýnnar hugsunar?
10.8.2012 | 05:56
- Af hverju er eitthvað frekar en ekkert?
- Af hverju erum við til?
- Af hverju þessi ákveðnu lögmál og ekki einhver önnur? (Sjálfsagt átt við náttúrulögmál)
- Hvert er upphaf náttúrulögmálanna?
- Eru einhverjar undantekningar á náttúrulögmálunum, til dæmis kraftaverk?
- Er aðeins ein gerð lögmála möguleg?
- Albert Einstein: Það óskiljanlegasta við alheiminn er að hann er skiljanlegur.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?
8.8.2012 | 19:32
Hér fyrir neðan fylgja nokkrar spurningar sem þú getur spurt þig, og getir þú svarað þeim öllum játandi, með hreinni samvisku, þá ertu gagnrýninn hugsuður, eða réttara sagt, manneskja sem getur verið gagnrýninn hugsaður hafirðu sankað að þér þeirri hæfni sem nauðsynleg er til að verða slíkur. Að hafa viðhorf í rétta átt er fyrsta skrefið, og sjálfsagt það síðasta líka.
Auðvelt er að rugla saman "gagnrýnni hugsun" og "gagnrýni". Gagnrýnin hugsun er viðhorf sem leitar sannleikans á uppbyggilegan hátt, en gagnrýni má stundum túlka sem hreinan efa, verkfæri til að rífa í sundur án þess að líma saman á ný. Ég hef meiri áhuga á gagnrýnni hugsun en hreinni gagnrýni sem slíkri.
Ef þú sérð fyrir þér tvær manneskjur, einni sem beitir gagnrýnni hugsun, og annarri sem beitir hreinni gagnrýni, geturðu auðveldlega fengið í hugann afar ólíkar manngerðir.
Hinn gagnrýni hugsuður hlustar vandlega á þann sem talar, veltir fyrir sér eigin viðhorfum um málið, og reynir að skilja málstað hinnar manneskjunnar af dýpt. Hinn gagnrýni hugsuður hefur minni áhuga á að komast að einni niðurstöðu, heldur en að rannsaka málið frá sem flestum hliðum, og komast þannig nær altækri þekkingu á viðkomandi málefni, án þess kannski að höndla slíka þekkingu endanlega. Hinn gagnrýni hugsuður stingur upp á hugmyndum sem geta dýpkað skilningsleitina.
Hinn hreini gagnrýnandi er ekki jafn gefandi manneskja. Hún dæmir út frá þeim hugmyndum sem hún hefur, og er ekkert endilega til í að rannsaka hvort að eigin dómgreind sé í góðu lagi eða ekki; þar sem það kemur gagnrýni á viðfangsefninu ekkert við að hennar mati. Slíkur gagnrýnandi er sannfærður um að eigin málstaður er hinn eini rétti, og að öndverðar skoðanir hljóti að vera rangar.
Og hér eru spurningarnar:
- Leyfirðu ímyndunaraflinu að njóta sín?
- Er hugur þinn opinn?
- Finnst þér nýjar og gamlar hugmyndir spennandi?
- Ertu til í að endurskoða eigin viðhorf?
- Kannastu við að hafa einhverja fordóma?
- Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir frá öðru fólki?
- Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir úr eigin huga?
- Ertu til í að leggja á þig rannsóknarvinnu til að finna áreiðanlegar upplýsingar?
- Ertu til í að meta þau sönnunargögn sem þú hefur og dæma í samræmi við þau, þó þau séu í andstöðu við fyrri skoðanir þínar og trú?
- Ertu til í að fresta ákvörðunum ef nægilegar upplýsingar eru ekki til staðar?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Ættu þingmenn að fylgja forystu flokksins í blindni eða ástunda gagnrýna hugsun í sérhverju máli?
29.7.2012 | 08:36
Á Íslandi, séð utanfrá, virðist flokkapólitík einkennast af skorti á gagnrýnni hugsun. Hópur fólks setur ákveðnar línur, markmið, reikna ég með, og síðan eiga allir þingmenn viðkomandi flokks að fylgja þessum línum. Eftir að hafa fylgt þessum línum blindandi í einhvern tíma, geta þeir farið að trúa meira á línuna sjálfa heldur en eigin dómgreind. Það er hættulegt og getur orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar og jafnvel barist af hörku til að eigin lína nái að halda. Sérstaklega slæmt er þegar línan verður afstæð og tengd hag flokksins fyrst og fremst: til dæmis er línan "að ná völdum" mun verri en að "vernda hag þjóðarinnar". Hversu göfug sem þessi lína getur orðið, má aldrei gera hana að tabú, einhverju sem ekki má gagnrýna.
Ég velti fyrir mer hvort að alþingismenn spyrji sig gagnrýnna spurninga fyrir hverja einustu lagasetningu, eða hvort þeir nenni kannski ekki að pæla í öllum þessum lögum og langi frekar að gera eitthvað annað. Spyrja þeir sig þessara grundvallarspurninga þegar kemur að nýrri lagasetningu?
- Eru nýju lögin sanngjörn?
- Hvert er markmið þeirra?
- Eru þau líkleg til að ná tilsettum árangri?
- Gætu þau óvart verið einhverjum skaðleg?
- Ef þau gætu verið skaðleg, getum við borið saman mögulegan skaða og mögulegt virði?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hver er munurinn á hugsun, gagnrýnni hugsun og umhugsun?
27.7.2012 | 18:57
Hugsun er kallað það fyrirbæri sem á sér stað þegar við tökum ákvarðanir. Þessar ákvarðanir geta verið misjafnlega góðar, og virðast tilviljunarkenndari eftir því sem hugsunin á bakvið þær er minni. Þannig mætti segja að við hugsum á þrjá ólíka vegu. Við getum sleppt hugsunarleysinu, sem yfirleitt birtist sem innsæi, fordómar, þrjóska eða jafnvel heimska, hvað svo sem það er.
Hugsun án umhugsunar virðist vera sem streymandi fljót, tengt þeim áreitum sem skynfæri okkar taka við í sífellu, og í athöfnum okkar renna hugsanir okkar saman við þessi áreiti. Dæmi um slíka hugsun er þegar við tökum manneskju algjörlega til fyrirmyndar, við hermum eftir því sem hún gerir, ekki vegna þess að það sem hún gerir er eitthvað gott eða merkilegt, heldur einfaldlega vegna þess að ef einhver gerir eitthvað ákveðið, þá er viðkomandi búinn að opna möguleikann fyrir því að aðrir geri það sama.
Umhugsun er næsta stig hugsunar, þegar manneskja sem horfir á aðra manneskju gera eitthvað, eða segja eitthvað, og í stað þess að apa eftir fyrri manneskjunni, þá staldrar viðkomand við og veltir hlutunum fyrir sér. Þetta getur orðið til þess að betri ákvarðanir eru teknar, og ekki apað eftir öllu frá hverjum sem er.
Gagnrýnin hugsun er ennþá æðra stig hugsunar. Munurinn á gagnrýnni hugsun og umhugsun er sú að umhugsunin á það til að vera tilviljunarkennd, á meðan gagnrýnin hugsun er kerfisbundin, að ákveðnu marki. Hinn gagnrýni hugsuður gerir sér grein fyrir hvort hann hafi þekkingu eða skilning á fyrirbæri, lætur þekkingu sína og skilning tala í gegnum eigin verk, getur einnig rannsakað og rýnt betur í eigin skilning, þekkingu og verk. Hann getur einnig tengt þessar hugmyndir öðrum hugmyndum og áttað sig þannig á óvæntum hliðum eigin þekkingar, og loks eftir slíka rannsókn verður viðkomandi tilbúinn til að taka ákvörðun sem byggir á viðkomandi þekkingu, skilningu og verkum. Og ekki nóg með það, hann áttar sig á að honum getur skeikað, þó að hann hafi unnið rannsókn sína vel, og er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin dóma, sem og dóma annarra.
Það er fyrst þegar gagnrýnin hugsun er unnin í hópi fólks, sem hún verður að mögnuðu verkfæri, ekki aðeins til að bæta þekkingu sérhvers þátttakenda, heldur einnig til að mynda samræðu sem getur þróað þekkingu, skilning og verk sem framkvæmd fyrirtækis eða stofnunar.
Ég veit ekki hvort til sé enn æðra stig hugsunar eða hugsunarleysis, einhvers konar uppljómun eða innsæi; og er satt best að segja ekki viss um hver munurinn er á innsæi, fordómum, þrjósku og heimsku.
Í daglegu lífi reikna ég með að manneskjur stundi afar takmarkað gagnrýna hugsun, einfaldlega vegna þess að það kostar mikla vinnu og aga. Gagnrýnin hugsun er grundvallarstarfsemi í hátæknifyrirtækja og háskólum, í kennslu, þróun, forritun, verkfræði, og þar fram eftir götunum.
Ætli fólk almennt nenni að beita gagnrýnni hugsun? Er ekki miklu auðveldara að fylgja félögunum, eða staldra við og skoða hlutina aðeins betur, og taka síðan ákvörðun? Nennum við að kafa nógu djúpt til að taka vitrar ákvarðanir, nennum við að ræða saman af viti, rannsaka okkar eigin hugmyndir, eins og til dæmis fyrir lýðræðislegar kosningar á þingflokkum eða forseta?
Er það ástæða þess að almenningsálitinu er meira stjórnað af trú og pólitík en gagnrýnni hugsun? Leti? Skortur á aga? Þá er ég ekki aðeins að tala um íslenskt samhengi, heldur alþjóðlega þrælkunarhneigð til leti, agaleysis og skilyrðislausrar hlíðni gagnvart yfirvaldi, hvaða yfirvaldi sem er.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvaðan sprettur illskan?
22.7.2012 | 19:17
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Á að þagga niður í óþægilegum röddum eins og Snorra í Betel og blaðamönnum Vikunnar?
12.7.2012 | 21:35
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Er góðmennskan að hverfa úr heiminum?
5.7.2012 | 15:27
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hver er munurinn á herskárri gagnrýni og gagnrýnni hugsun?
2.7.2012 | 16:58
Ekki aðeins á þessu bloggi, heldur í umræðum víðs vegar um vefinn, og í samfélaginu, bæði því íslenska og alþjóðlega, virðast tvær ólíkar merkingar vera lagðar í hugtakið gagnrýni. Önnur merkingin virðist líta á gagnrýni sem einhvers konar herskáan íþróttaleik, þar sem einn keppandi eða lið er gegn öðrum keppanda eða öðru liði. Þannig snýst kappræðan um það hver er meira sannfærandi og á endanum verður einhver að vera númer eitt: sigurvegari kappræðunnar. Hin merking gagnrýnihugtaksins, er mér meira hugleikin, en þá er gagnrýnin mikilvægur þáttur í samræðu þar sem sannleika málsins er leitað.
Afskræmi málefnalegrar umræðu á sér stað þegar að minnsta kosti einn aðili í samræðunni er herskár, þar sem þeir sem umræðan er tekin í gíslingu og ekki gefist upp fyrr en aðrir eru komnir á þeirra skoðun, eða gefast upp á að ræða málin á þeirra kappræðuforsendum. Þá telja hinir herskáu gagnrýnendur sig sjálfsagt hafa sigrað í umræðunni, eins og það að geta haldið í sér andanum lengur en hinn geri viðkomandi að fiski. Vandinn er sífellt sá að í slíkri tegund gagnrýni hefur gagnrýnandinn valið sína skoðun og ákveðið að verja hana, frekar en að leita skoðunarinnar með gagnrýnni aðferð. Þannig er kappræðumaðurinn viss um réttmæti eigin skoðunar, en gagnrýni hugsuðurinn er það ekki, og áttar sig á að óvissa getur verið nær sannleikanum en fullvissa.
Herská gagnrýni þarf að vera vel römmuð inn til þess að hún fari ekki úr böndunum. Gagnrýnin hugsun, aftur á móti, gerir út á að rannsaka forsendur hugtaka, fullyrðinga og hugmynda, og finni hún galla, reynir hún að lýsa gallanum af nákvæmni og alúð, og þar að auki reynir hún að finna forsendur gallans og hvort aðrar betri leiðir séu hæfar. Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart einum eða neinum, og er nákvæmlega sama hvort hún sé sannfærandi eða ekki, þar sem leiðarljós hennar er að leita sannleikans.
Öfgamenn eiga það sameiginlegt að þeir beita sjaldan gagnrýnni hugsun, því að slík hugsun krefst þess að viðkomandi setji sig í spor annarra aðila, gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér, en í hugum öfgamanna eru alltaf einhverjir andstæðingar á kreiki, og einhverjir áheyrendur, sem þarf að sannfæra um hvor aðilinn hefur réttara fyrir sér. Í það minnsta man ég ekki eftir einu einasta atviki þar sem öfgamaður taldi sig ekki eiga andstæðing eða andstæðinga.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
(Hvernig) veistu það sem þú veist?
17.6.2012 | 21:54
Þessar vikurnar sit ég með unglingum í skólastofu og ræði með þeim heimspekilegar pælingar með beitingu gagnrýnnar hugsunar. Margt áhugavert hefur komið út úr samræðunum, og þá sérstaklega hvernig þau mynduðu sér skoðun um áreiðanleika upplýsinga. Til að mynda fannst þeim kóraninn og Biblían áreiðanlegri en fréttamennska nútímans, og þá erum við að tala um fjölmiðla eins og dagblöð eða sjónvarpsfréttamennsku.
Áreiðanlegast finnst þeim:
- Náttúran
- Landakort
- Alfræðiorðabækur
- Viska
Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvernig við veljum hverju við trúum. Það má flokka aðferðirnar í fimm leiðir:
- Duttlungar viðhaldið með þrjósku
- Kennivald viðhaldið með áróðri
- Gervivísindi viðhaldið með skoðunum
- Vísindaleg aðferð viðhaldið með efasemdum
- Gagnrýnin hugsun viðhaldið með spurningum
Mig grunar að þrjár fyrstu leiðirnar séu þær sem flestir velja, af þeirri einföldu ástæðu að þær leiðir eru auðveldar og þægilegar, sérstaklega leið duttlunga og kennivalds. Þeir sem velja leið duttlunga skýra val sitt með orðum eins og "af því bara" og "það er mín skoðun". Þeir sem velja leið kennivalds skýra val sitt með orðum eins og "vísindamaður X sagði það og við hljótum að treysta honum", "það stendur í Biblíunni og þar sem hún er rit Guðs verðum við að treysta því" eða "pabbi sagði það og pabbi minn er miklu gáfaðri en pabbi þinn."
Við höfum öll fasta heimsmynd. Við sjáum heiminn út frá okkar eigin sjónarhorni. Sumir víðara en aðrir. Og heimurinn er sá sem við höldum að hann sé. Ef við lifum í takt við tímann og tökum þátt í sömu heimsmynd og "allir" hinir, þá hljótum við að lifa í samræmi við réttu heimsmyndina. Eða hvað? Sá sem velur leið gervivísinda skýrir val sitt með orðum eins og "annars gengi dæmið aldrei upp" eða "það er örugg staðreynd" eða "það er vísindalega sannað", eða "allir aðrir möguleikar eru bull".
Vísindaleg aðferð færir okkur enn nær sannleikanum, þar sem innbyggt í hana er sú kenning að við getum ekki vitað neitt með fullri vissu, og verðum að vera leitandi í leiðangri okkar að réttu svörunum, og góðum spurningum sem leiða okkur vonandi enn lengra. Vísindaleg aðferð er ekki algjörlega ólík samviskunni og efanum, sem biður okkur að staldra aðeins við og íhuga áður en við framkvæmum, í stað þess að hrinda okkur út í örlagadans athafna. Sá sem velur leið vísindalegrar aðferðar skýrir val sitt með orðum eins og "ef við gefum okkur að..." eða "hafi mér ekki yfirsést neitt, þá..." eða "að gefnum forsendum, þá..."
Gagnrýnin hugsun er ekki æðri öðrum aðferðum, en er vel til þess fallin að spyrja nýrra spurninga, halda þekkingarleitinni ferskri. Vísindin leitast við að svara spurningum sem upphaflega voru gagnrýnar, og jafnvel heimspekilegar, eða þróa traustar aðferðir til að svara þeim áreiðanlega, en þó aldrei af fullri vissu. Og gagnrýnin hugsun heldur áfram leit sinni að spurningum sem skipta máli fyrir mannkynið, fyrir samfélagið, fyrir mann sjálfan, og vísindin halda áfram að þróa aðferðir til að svara þeim spurningum sem vísindin finna leiðir til að nálgast.
Vitur manneskja sagði mér í vikunni sem leið að greinarmunurinn á vísindum og gagnrýnni hugsun væri sá að vísindin leituðu að "hvernig", á meðan heimspeki og gagnrýnin hugsun leitaði að "af hverju". Það er nokkuð til í því. Trúarbrögð eru ólík gagnrýnni hugsun að því leiti að þau, rétt eins og vísindin, eru að svara spurningum í stað þess að spyrja spurninga. Gagnrýnir hugsuðir finna ekkert endilega svör við öllum sínum spurningum, en þeir geta velt þeim fyrir sér og fundið ólíkar leiðir gegnum skóginn.
Sá sem velur gagnrýna aðferð skýrir val sitt með orðum eins og "af hverju?" "hvað er þetta?" og "hvað er hitt?" og lýkur ekki leit sinni þar, heldur gerir sitt besta til að finna svörin, án þess að hætta leitinni. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun veit að svörin eru ekki annað hvort og eða, heldur er einnig mögulegt að fresta því að fella dóm.
Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Hvað tekur við þegar við deyjum?
11.6.2012 | 12:29
en svo deyr mofi; slökknar á heilanum.. og það sama tekur við og áður en mofi fékk sjálfsvitund.. EKKERT, NÚLL, ZERO; Mofi verður dauður, alveg eins og ég og þú og allir hinir... (DoctorE) (sjá athugasemdir við bloggfærsluna: Er ekkert til sem ferðast hraðar en ljósið?)
Skoðanasystkinin Mofi og DoctorE eru sammála um að "EKKERT, NÚLL, ZERO" taki við þegar lífinu lýkur, og þannig hafi þetta einnig verið fyrir líf. Þeir hafa rangt fyrir sér í alhæfingunni. Ástæðan er sú að fólk deyr og lífið heldur samt áfram. Þeir hafa hugsanlega rétt fyrir sér út frá afar sjálfsmiðuðu sjónarmiði, en samt eru þetta bara getgátur, enda engin lifandi manneskja sem hefur upplifað "ekkert" og getur útskýrt hvað "ekkert" er eða er ekki. Samt er alltaf gaman að heyra tilraunir um þá skilgreiningu og reyndar hægt að læra margt af slíkum tilraunum.
Það væri áhugavert að heyra útskýringu á hvað þetta "EKKERT, NÚLL, ZERO" er, eða er ekki? Er kannski verið að tala um algleymi, eða Nirvana skv. Buddhafræðum?
Samkvæmt mínum skilningi er ekkert hugtak sem notað er um fjarveru, það er að segja ef við gerum ráð fyrir að einhver manneskja bíði okkar á kaffihúsi, sem reynist síðan ekki vera þar þegar við mætum, þá upplifum við fjarveru hennar, eða það að hún er ekki þar. Það er ákveðin upplifun á engu. "Það var enginn á staðnum." Þannig að ekkert í þessum skilningi fjallar um eftirvæntingu og hvernig sú eftirvænting á ekki samleið með veruleikanum.
Hins vegar grunar mig að þeir félagar hafi verið að tala um ekkert í ákveðnum skilningi, út frá því hvað við sjálf upplifum eða upplifum ekki þegar við deyjum. Þá er verið að takmarka framhaldslíf við manns eigið egó, og gert ráð fyrir að ekkert sé til ef við getum ekki upplifað það. Sem er fjarstæða.
Við vitum að fjöldi fólks og heimurinn var til áður en við fæddumst, og við getum gert ráð fyrir að heimurinn haldi áfram eftir að við deyjum. Hvernig við skiljum við heiminn að endalokum, getur skipt miklu máli fyrir þá sem eftir lifa, rétt eins og innkoma okkar í heiminn skipti miklu máli fyrir þá sem tóku á móti okkur.
Aðal atriðið við enda lífsins er ekki endilega hvað við munum sjálf upplifa "þegar ljósin slökkna", heldur það að heimurinn heldur áfram þrátt fyrir fjarveru okkar. Þessi upplifun, "þegar ljósin slökkna" er hins vegar afar áhugaverð. Ég velti fyrir mér hvað við upplifum, og hvort sé yfir höfuð mögulegt að upplifa "ekkert" á endanum. Þegar vitund hættir að vera til, hættir hún þá að vera sjálfsvituð, eða mun þessi vitund upplifa eitthvað ákveðið þegar slökknar á henni? Skiptir máli fyrir þessa sjálfsvitund það ástand sem hún er í þegar "ljósin slökkna"?
Hefurðu velt fyrir þér hver þú vilt að síðasta upplifun þín verði, á augnablikinu þegar þú deyrð? Skiptir máli hvort það sé eftirsjá, sorg eða von?
Núll og Zero eru svo að sjálfsögðu stærðfræðileg hugtök, og erfitt að sjá hvernig þau tengjast lífi og dauða, enda er stærðfræðin aðeins sönn í sjálfri sér, rétt eins og rökfræðin. Hugtökin ekkert og allt eru rökfræðileg hugtök sem einnig eiga við um hugtök í ramma sem aðeins er sannur í samræmi við sjálfan sig. Ekkert er alhæfingarhugtak sem hjálpar okkur að ná tökunum á heiminum. Dæmi: "engin manneskja er kafbátur" og "engin kengúra er agúrka". Nokkuð sem við sjáum að er satt, vonandi. Hins vegar finnum við það ósanna eða jafnvel ljóðræna ef við segjum "allar manneskjur eru kafbátar" eða "allar kengúrur eru agúrkur".
Það sem tekur við þegar við erum deyjum er svo magnað og dularfullt, og það eina sem ég veit um það er að ég hef ekki hugmynd um hvað verður, og reyndar tel ég mig einnig vita að ég geti ekki vitað hvað verður, og að þegar við höfum fest okkur trú um hvað verður eða ekki verður, þá séum við á villigötum.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (90)