Leitin að hinu óþekkta

lestkristiansand.jpg
 
Ég sit í lest og ferðast frá Stavanger til Kristiansand, í Noregi. Það er myrkur þarna úti. Ég veit að tré, fjöll, vötn og fjöldi fólks streymir framhjá mér, eða þá að ég streymi framhjá því. Og ég veit að þetta eru allt tré, fjöll, vötn og fólk sem ég þekki ekki. Jafnvel þó að ég þekki eitthvað til einhverra þeirra.
 
Og ég átta mig á að ferðalagið í gegnum þetta líf er svolítið eins og að sitja í þægilegu sæti við lestarglugga og horfa á allt hið óþekkta streyma framhjá, og ég átta mig á að þegar við ferðumst svona hratt, þurfum við eitthvað til að halda okkur í, við þurfum á einhverju að halda sem við þekkjum. Kannski þess vegna logga ég mig inn á bloggið mitt með iPadnum mínum og byrja að skrifa. Og ég skrifa þér þó að ég þekki þig ekki neitt, og kannski vegna þess að ég tel mig þekkja þig að einhverju leiti. Og innst inni veit ég að þessi þú sem ég skrifa, er ég sjálfur, einhvers staðar í framtíðinni, einstaklingur sem man ekki til þess að hafa skrifað þessi orð, en gerði það samt. 
 
Þannig verð ég sjálfur jafn ókunnugur og hver annar sá sem les þessi skrif.  
 
Reyndar þarf ég ekki að hugsa lengi til að sjá að jafnvel hugur minn er umhverfi fullt af trjám, fjöllum vötnum og fjölda fólks sem ég þekki ekki. Því að hver einasta manneskja sem ég hef kynnst, ég gæti kynnst henni betur; hvert einasta tré sem ég hef séð, gæti ég snert; og hvert einasta fjall sem ég hef klifið, gæti ég klifið aftur. 
 
En alltaf staldra ég við það sem ég þekki, þegar tími gefst til þess. Hugsanlega vegna þess að ég vil kynnast því betur. Sem þýðir kannski í raun að vilji ég þekkja það betur, sé ég svolítið heillaður af hinu óþekkta. Og ég veit að það litla sem ég veit er eitthvað sem ég get þekkt betur, og því er ég umkringdur hinu óþekkta. Af hverju ætli við leitum svo stíft af þekkingu, þegar svo lítið er af henni að hafa, og svo lítið af vanþekkingu okkar sjálfra, þegar úr svo miklu er að moða?
 
Við ferðumst gegnum þetta líf og stærum okkur af því sem við þekkjum, því við teljum okkur vera það sem við vitum, vera þær prófgráður sem við höfum náð í skólum lífsins. En kannski erum við einmitt ekki það sem við þekkjum, heldur nákvæmlega það sem við ekki þekkjum, því að lífið er ekki eitthvað sem stendur í stað, heldur streymir áfram og afmáir allar minningar, þannig að það eina sem eftir stendur er eitthvað sem ekki fæst afmáð. Og hvað er það? Kannski þekkingarleysið sjálft? Nakinn skilningur? Eða kannski það sem við erum innst inni og yst úti?
 
Við erum ekki það sem við höfum, við erum það sem við leitum. Við erum það sem við beinum athygli okkar að á hverri stundu. Og athygli mín er stöðugt á námi, á því hvernig við lærum, og ég heillast af augnablikum þar sem ég uppgötva mig sem fáfróðan, þegar ég geri mistök, þegar ég geri eitthvað heimskulegt, eitthvað sem ég skammast mín fyrir, og reyni síðan að átta mig á hvaðan mistökin koma. 
 
Góður vinur minn telur að þetta sé stöðug leit að afsökunum, en ég tel mig vita að  að þetta er leit að skýringum, skilningi á sjálfum mér og heiminum, því að oft veit ég ekki af hverju ég geri mistök - þau bara gerast, og ég hef þessa þörf til að setja saman kenningar um hvaðan mistökin spretta. Og þá helst til að koma í veg fyrir að þau gerist aftur af mínum völdum.
 
Stundum geri ég mistök þegar ég er veikur fyrir, stundum vegna  hugarfars - því ekki er ég fullkominn þar frekar en nokkur annar - stundum finn ég til hroka, þeirri hugmynd að ég geti gert hlutina betur en allir aðrir, og stundum finnst mér ég hafa lífið í hendi mér, en það er á slíkum augnablikum sem mistökin koma í heimsókn og minna mig á að auðmýktin skili meiru en hrokinn. 
 
Ég er alltaf í leit að þessu augnabliki þar sem allt stendur í stað, þar sem allt er fullkomið, þar sem ekkert getur orðið betra, en svo átta ég mig á að þetta augnablik finnst ekki í lífinu, þar sem lífið stendur aldrei í stað. Kannski finnast þessi augnablik í þeim verkum sem maður skilur eftir sig. Eins og þessari bloggfærslu, til dæmis.
 
En hvaða verk skil ég eftir mig, þar sem ég þýt gegnum heiminn í þessari hraðlest? Er ég eitthvað meira en gufa sem líður upp í andrúmsloftið? Eru þessi skrif eitthvað meira en bókstafir sem birtast örfáum augum og gleymast svo á troðfullri lestarstöð, fullu af fólki sem getur varla beðið eftir að komast inn í lestina sem ég er að fara úr? Við þurfum nefnilega alltaf að kíkja á næsta blogg, lesa næstu grein, gera eitthvað annað.
 
Við erum alltaf á leiðinni út í buskann.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Takk fyrir hugleiðinguna og ferðalaginu með huganum. Tíminn er einsog vindurinn. Getum aldrei fangað hann en getum verið í faðmi hans. Kveðja.

Bjarni Hjartarson (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 06:51

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Manni er farið vinur minn komin tími á bók frá umvfin skák lísins einnig,þú ert flottur,og þínar hugleyðingar/kveðja

Haraldur Haraldsson, 11.10.2012 kl. 18:33

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa hugleiðingu.  Þetta er einmitt ástæðan fyrir því þegar maður r að ferðast á puttanum um ókunnugar slóðis, sér í lagi stóra bæi, að þá vill maður alltaf fara aftur til baka leiðina sem maður kom en ekki halda áfram í hið ókunna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.10.2012 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband