Ert þú vel menntuð manneskja?

Jean+Jacques+Rousseau

 

"Um leið og við verðum meðvituð um tilfinningar okkar, höfum við tilhneigingu til að leita eftir eða forðast þá hluti sem valda þeim, í fyrstu vegna þess að þeir eru ánægjulegir eða óþægilegir, síðan vegna þess að þeir henta okkur eða ekki, og að lokum vegna dóma við byggjum á hugmyndum um hamingju og hið góða sem rökhugsunin gefur okkur. Þessar hneigðir styrkjast og festa rætur með vexti rökhugsunar, en hefðir sem meira eða minna eru vafðar úr fordómum okkar, hindra okkur." (Jean-Jacques Rousseau, Emile)

 

Hugtakið menntun speglar þroska manneskjunnar. Til að öðlast menntun þarf sérhver að ná valdi á þremur þroskastigum. Fyrst, að átta sig á því sem veldur henni ánægju eða óánægju og ná einhvers konar stjórn á þessum fyrirbærum, þannig að lífið verði ánægjulegt. Annað stig er að átta sig á því gagnlega, gagnslausa og skaðlega, fyrir okkur sjálf, og einbeita okkur að því gagnlega. Þriðja stigið er síðan tengt hinu góða, og hamingjunni, og þá þýðir hamingja ekki aðeins eigin ánægja, eða farsæld í eigin lífi, heldur er hún vafin inn í það samfélag sem einstaklingurinn byggir með öðru fólki. Hið góða byggir þá á tvenns konar rótum, því sem gerir samfélagið hamingjusamt, án þess að fórna heilindum sem fylgja góðum verkum.

Sú manneskja sem nær þessu hæsta stigi menntunar er þó ekkert endilega líkleg til að verða vinsæl eða vel metin af þeim sem ekki hafa náð sama stigi, og þó að hún reyni fyrst og fremst að hjálpa hinum að komast á þetta góða stig, þá segir sagan okkur að þeir sem fastir eru á stigunum fyrir neðan séu of fastir í viðjum eigin fordóma og venja að þeir átti sig á að góð gagnrýndi geti hjálpað þeim, þó svo að um stundarsakir geti hún virst óþægileg. Sagnfróðir menn geta fundið fjölmörg dæmi þessu til stuðnings.

Lítum aðeins á Ísland. Á Alþingi Íslendinga eru fjölmargar manneskjur, og virðast þær því miður ekki allar hafa náð valdi á þriðja stigi menntunar, þó að vissulega séu undantekningar á þessu greinilega til staðar. Þeir sem berjast fyrir sérhagsmunahópa eru á öðru stigi menntunar og kæra sig ekkert um þetta þriðja stig, því það er þeim framandi og engan gróða að finna í því. Og því miður má finna manneskjur á þingi sem virðast ekki einu sinni hafa náð valdi á fyrsta stiginu. Ég nefni engin nöfn.

Ekki misskilja mig. Háskólanám er ekki trygging fyrir að manneskja nái valdi á þessu þriðja stigi, því að viðkomandi getur haft áhuga fyrst og fremst, alla sína háskólatíð, á hvað honum eða henni þykir ánægjulegt eða gagnlegt fyrir sjálfa sig; án þess að velta því fyrir sér eitt augnablik hvað sé gott fyrir samfélagið. Og þá getur samfélagið verið, ekki einungis Ísland, heldur einnig alþjóðasamfélagið, og jafnvel félagasamtök. Samt verður að finna jafnvægi milli hamingju heildarinnar og hamingju einstaklings.

Hugsanlega getur sex ára barn verið vel menntað, búið að ná valdi á þessum þremur stigum, en fer svo inn í skólakerfi sem afnemur þessa menntun og villir barninu sýn. Slík menntun getur þó verið gagnleg fyrir flest börn, þó að réttast væri að hafa augun opin þegar kemur að mögulegum undantekningum. Og þá væri best að finna þessum undantekningum farveg sem hentar þeirra gáfum og lífssýn.

Helstu óvinir þeirrar manneskju sem leitar hamingju og hins góða er viðhaldið með venjum og hefðum. Þó að þessar venjur og hefðir virðist virðulegar í dag, eru margar þeirrar sprottnar úr fordómum sem við myndum varla með glöðu geðji samþykkja að byrja á í dag.

Til að mynda er þingmönnum skipað að ávarpa aðra þingmenn sem "hæstvirta", þrátt fyrir að viðkomandi þingmenn beri enga virðingu fyrir viðkomandi þingmanni, og geri ekkert til að ávinna sér slíka virðingu með verkum sínum. Það eina sem gefur virðingartitilinn er að vera kosinn inn á þing. Þarna má finna aragrúa fordóma í einu litlu hugtaki.

Fyrsti fordómurinn sem ég kem auga á hér, er sú skoðun að einhver geti verið meira virtur en aðrir. Þarna má finna hugmynd sem á rætur í hugmyndum um stéttarskiptingu, og þegar hugtakið er notað í sífellu, er hætt við að viðkomandi verði ónæmur fyrir þeim fordómum sem lita hugtakið. Kæmi bloggari inn á þing, bara í heimsókn, og væri talað við hann eða hana úr ræðustól, þá væri viðkomandi ekki áyrtur sem hæstvirtur. Það eitt er umhugsunarvert.

Annað, og það er þegar manneskja sem greinilega þolir ekki aðra manneskju, kallar hana "hæstvirta". Með þessu er viðkomandi að setja afar slæmt fordæmi, því að hún lýgur að öllum þeim sem eru að hlusta, hún gefur tvö ólík skilaboð, bæði einhvers konar hatur og einhvers konar ást. Þetta er í besta falli slæm fyrirmynd fyrir aðra þjóðfélagsþegna, og í versta falli skaðleg lygi sem grefur undan virði virðingarhugtaksins.

Í þriðja lagi, þá er virðing ekki eitthvað sem maður fær í hendurnar eða hefur, heldur eitthvað sem maður verður að ávinna sér í heiðarlegri samvinnu með öðru fólki. Og önnur manneskja getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir henni, aðeins vegna þess að hún hefur áunnið sér eitthvað sæti, heldur þyrfti að virða það við aðra manneskju sem ekki er tilbúin til að bera fyrir henni tilsetta virðingu.

Aftur á móti, getum við sagt sem svo, að ef forminu er sleppt, þá leysist stjórnsýslan upp í stjórnleysi, að grafið sé þannig undan undirstöðum skynsamlegrar umræðu. Ég held að þessu sé einmitt öfugt farið, að með því að viðhalda hefðum sem byggja á fordómum, þá séum við að grafa undan skynsamlegri umræðu, ekki öfugt. Geta fordómar verið grundvöllur fyrir góðar ákvarðanir? Ég leyfi mér að efast um það.

Ég vildi óska þess að á hverju einasta þingi heims væru einungis manneskjur sem náð hefðu valdi á öllum þremur þroskastigum menntunar. Ég veit að svo er ekki, og ólíklegt að þessi draumur rætist í mínu lífi, ekki einu sinni á litla Íslandi.

En það kostar ekkert að leyfa sér að dreyma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er gaman að hlusta á fólk sem hefur frumlegar og góðar hugmyndir og þorir að segja það sem býr í eigin brjósti og hvernig það sér heiminn. Aftur á móti misskilur þú ótrúlega margt, og þig skortir ákveðnar grundvallarupplýsingar (sem fáir þó hafa) um hvernig samfélagið og alheimurinn virkar. Og virðing skal borin fyrir öllum mönnum.

Gagnrýni? (IP-tala skráð) 30.9.2012 kl. 02:44

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gagnrýni?

Takk fyrir athugasemdina.

Hvað er ég að misskilja? Og hvaða grundvallarupplýsingar skortir?

Hrannar Baldursson, 30.9.2012 kl. 06:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband