Færsluflokkur: Íþróttir
Æsispennandi jafntefli Íslendinga og Dana 32:32
16.8.2008 | 14:23
Ég er bókstaflega stjarfur og skjálfandi eftir æsispennandi lokamínútur. Það var beinlínis öskrað með okkar mönnum í stofunni heima. Snorri Steinn Guðjónsson jafnaði úr víti á síðustu sekúndu og kemur þannig Íslendingum í 8 liða úrslit á Ólympíuleikunum.
Sænsku dómararnir sýndu furðulega dómgæslu á báða bóga. Gáfu Loga Geirssyni rautt spjald fyrir litlar sakir og hentu leikmönnum beggja liða stöðugt út af þrátt fyrir prúðmannlegan leik. Þeim tókst samt ekki að gjöreyðileggja leikinn, þó að ég hefði viljað sjá betri dómgæslu.
Rosaleg spenna og frábær skemmtun!
Takk fyrir þetta strákarnir okkar!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hörkuspennandi leikur í gangi - íslenska liðið byrjar afar stressað og illa en endar fyrri hálfleikinn snilldarlega
16.8.2008 | 13:34
Hugarfarið sem virst hefur vera í góðu lagi til þessa hjá íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum virðist ekki alveg vera jafn gott í dag og áður, en vonandi hressast þeir í leikhléinu.
En leikurinn er spennandi og gaman verður að fylgjast með seinni hálfleik. Aðal spurningin er hvort að íslenska liðið smelli saman og vörnin fari að virka eins og hún hefur gert í fyrri leikjum - ef það gerist erum við í góðum gír.
Jæja, hálfleikurinn búinn og leikurinn byrjaður aftur. Yfir og út!
Áfram Ísland!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er handboltalandsliðið að meika það á Ólympíuleikunum?
13.8.2008 | 19:26
Íslendingar hafa aldrei byrjað betur á stórmóti í handknattleik. Fyrst leggja þeir Rússa og svo Þjóðverja, en hvorugt liðið hafði nokkurt svar við öflugri íslenskri vörn.
En það var ekki bara vörnin sem var að virka. Liðið var óvenju samstillt og agað í leik sínum. Eftir leikinn gegn Þjóðverjum gaf Ólafur Stefánsson okkur sýn inn í hugarfar liðsins, það þeir léku hvern leik eins og hann væri undirbúningur fyrir þann næsta.
Þetta er hrein snilld!
Hugarfarið er númer eitt, tvö og þrjú til að ná góðum árangri, bæði í íþróttum og öðru. Það er hins vegar erfitt að festa fingur á hvað þetta hugarfar er. Ég held að það sé nákvæmlega svona hugarfar sem skilar árangri, sem felst í því að njóta leiksins og spila í núinu frekar en að velta sér stanslaust upp úr mögulegum úrslitum.
Sá sem hugsar of mikið um úrslitin stressast upp og er líklegur til að missa einbeitinguna og gera mistök á mikilvægu augnabliki.
Þetta er nákvæmlega sú hugsun sem ég lagði upp með þegar Salaskóli varð heimsmeistari í grunnskólaskák, ég lagði enga áherslu á að þau þyrftu að vinna sínar skákir - heldur hafa fyrst og fremst gaman af að vera þau sjálf og tefla eins og þau langar til á heimsmeistaramóti. Þetta þýddi að í fyrri hluta mótsins hugsuðu þau ekkert um vinninga og höluðu þeim inn, en þegar þau sáu að þau gátu hugsanlega orðið heimsmeistarar heltist stressið yfir þau og mistökum fór að fjölga. Þeim tókst þó að sigra á endasprettinum.
Ef íslenska landsliðinu tekst að halda í þetta góða hugarfar og taka þannig hvern leik fyrir sig eins og um æfingaleik sé að ræða, og ef þeir geta sigrast á þeirri freistingu að gera alltof miklar væntingar til sjálfs sín og finna til ímyndaðrar pressu frá þjóðinni, þá geta þeir unnið þetta mót.
Mín fjölskylda fylgist alltaf spennt með íslenska landsliðinu í handbolta, og nú fylgjumst við með enn spenntari en áður, en ég vona samt að þessi spenna nái ekki í herbúðir okkar. Svona spenna er lúxus sem aðeins áhorfendur mega leyfa sér.
Íslenska landsliðið í handbolta hefur fundið hugarfar sem fleytir þeim áfram og vonandi yfir allar þær öldur samkeppninnar sem þeirra bíður.
Áfram Ísland!
Mynd: sport.is
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ætlar RÚV að endursýna sigur Íslands gegn heimsmeisturum Þjóðverja á boðlegum tíma?
12.8.2008 | 14:26
Það er ekki á hverjum degi sem að Ísland tekur heimsmeistara í karphúsið.Ég lít á það sem beinlínis skyldu RÚV að hliðra öðrum dagskrárliðum fyrir svona viðburði.
Ég, eins og líklega flestir Íslendingar er við vinnu og gat því ekki fylgst með leiknum þrátt fyrir brennandi áhuga, en svo er endursýning skipulögð kl. 0:30 þegar venjulegt fólk er farið að blunda. Má biðja um endursýningu hjá RÚV einhvern tíma milli 17:00 og 23:00 í kvöld?
Loksins hefur maður tilefni til að kveikja á imbakassanum. Ég kveikti á honum á meðan leikurinn við Rússa var í gangi og langar virkilega að sjá þennan leik.
Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hann er nýfermdur og hefur sigrað á sterkum skákmótum víða um heim: orðið heimsmeistari í Tékklandi, Namibíumeistari 20 ára og yngri, Íslandsmeistari, Kópavogsmeistari, sigraði undir 1700 flokki Boðsmóts Taflfélags Reykjavíkur með fullu húsi og hefur oft verið Salaskólameistari. Í dag varð hann Íslandsmeistari í eldri flokki á landsmótinu í skólaskák og lagði alla sína andstæðinga, þrautþjálfaða skákmenn af öllum landshornum.
Patrekur Maron er frekar rólegur unglingur með óvenju lítinn áhuga á athygli fjölmiðla, góður drengur og óeigingjarn, ansi stríðinn - sérstaklega í návígi við banhungruð ljón og stygga fíla. Hann styður vel við bakið á félögum sínum og á það til að hugsa fyrst um hag annarra og síðan um sjálfan sig. Með virki sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun sýndi hann mikla leiðtogahæfileika fyrir hæfileika sína í Tékklandi þegar hann leiddi sveitina til sigurs og þjappaði hópnum saman þegar þjálfarinn reyndist hópnum heldur grimmur, þó að hann hafi teflt á öðru borði.
Ég vil óska Patreki innilega til hamingju með verðskuldaðan Íslandsmeistaratitil og vona að íslenska skáksamfélagið verði virkt í að styrkja þennan stórefnilega ungling til frekari afreka á skáksviðinu.
Áfram Patti!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bless. Við gengum saman farsæla braut, sigruðum heiminn saman, en nú skilja leiðir.
20.12.2007 | 17:04
Úr Einn kemur, þá annar fer (Davíð Stefánsson)Og fæsta þeirra grunar, sem fellur þyngst að hverfa,
hve fáir leggja á minnið að þeir hafi verið til.
Þeir gleyma, hverjir sáðu, sem uppskeruna erfa,
og æskan hirðir lítið um gömul reikningsskil.
Eftir að hafa þjálfað börn og unglinga til taflmennsku við Salaskóla síðustu þrjú ár hef ég sagt starfi mínu lausu. Árin með Salaskóla hafa verið ánægjuleg og gefandi.
Frá Íslandsmóti grunnskólasveita, stúlknaflokkur 2007: 2. sæti.
Á þessum þremur árum hafa krakkarnir náð nokkrum Íslandsmeistaratitlum og fjölda annarra verðlauna á skólamótum, auk þess sem að þau hafa slegið þátttökumet á grunnskólamótum, bæði í aðalmótum og stúlknamótum. Þau náðu 3. sæti á Norðurlandamóti í Danmörku 2006, 5. sæti á Evrópumóti í Búlgaríu 2006 og fyrsta sæti á Heimsmeistaramóti 2007, sem var formlegt heimsmeistaramót grunnskólasveita í skák 14 ára og yngri, sem skipulagt var af alþjóðlega skáksambandinu (FIDE).
Frá Íslandsmóti grunnskólasveita 2007, besta D-sveitin.
Eftir að heimsmeistaratitli var náð hefur hópnum verið boðið í nokkrar keppnir á erlendri grundu, og hafa nemendur meðal annars skroppið til Grænlands í boði Hróksins og Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Einnig var hópnum boðið í samsæti hjá bæjarstjóra Kópavogs, Gunnari Birgissyni, sem studdi okkur vel allan tímann, og Þorgerður Katrín bauð okkur einnig í heimsókn þar sem hún hélt býsna góða og eftirminnilega ræðu og bauð svo upp á spjall, kökur og fínt.
Frá móttöku Menntamálaráðherra eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil alþjóðaskáksambandsins FIDE í grunnskólaskák 14 ára og yngri, 2007.
Ég hef farið óhefðbundnar leiðir í skákkennslu; en á æfingum legg ég mikið upp úr því að nemendur ræði saman á meðan þeir eru að tefla til að skapa létt og skemmtilegt andrúmsloft (sem verður reyndar stundum þögult og þrungið þegar spennandi stöður eru á borðum) og að ræða saman um hvernig betur mætti fara í skákum sem voru nýkláraðar, og hvernig hægt væri að gera betur, og hvað var sérstaklega flott eða gott. Auk þess að lögð var áhersla á góða hegðun og séð til að nemendur skildu af hverju slík hegðun er mikilvæg fyrir góðan árangur, í stað innantómrar mötunar.
Íslandsmót grunnskólasveita 2007, besta C-sveitin.
Til að halda takti á æfingum með börnum þýðir lítið að vera með langar og fræðilegar útskýringar á hugtökum skáklistarinnar, heldur reyndist best að nota hraðskákir til að halda stöðugt athygli, skipulagi og spennu, en það gefur tækifæri til að smygla inn hugmyndum á réttu augnabliki og við aðstæður sem nemendurnir skilja. Mikilvægt er að fá nemendur til að uppgötva hugmyndirnar á eigin forsendum.
Frá móttöku Menntamálaráðherra eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil alþjóðaskáksambandsins FIDE í grunnskólaskák 14 ára og yngri, 2007.
Fjöldi móta býður hópsins á komandi ári og óska ég börnunum velfarnaðar í þeim. Þarna er mikill og góður hópur, og reyndar er hægt að gera það sama í hvaða skóla sem er, það þarf einfaldlega teymi fólks til að tryggja að aðstæður þjálfunar séu fyrir hendi.
Tómas Rasmus vinnur enn með yngri börnunum og er duglegur sem endranær að blása í þau áhuga. Hann hefur verið góður félagi í þessu gæfuríka samstarfi. En einhvern tíma verða allir góðir hlutir að enda. Núna er að mínu mati rétti tíminn fyrir mig að kveðja. Það getur verið ágætt að hætta á toppnum.
Á verðlaunapalli í Tékklandi með fulltrúum frá FIDE á báða bóga. Í sveitina vantaði Eirík Örn Brynjarsson, Ragnar Eyþórsson og Ómar Yamak, sem allir höfðu teflt fyrir a-sveit Salaskóla, annars vegar á Íslandsmóti barnaskólasveita (2. sæti) og Íslandsmóti grunnskólasveita (3. sæti) en þeir komust ekki með á mótið.
Ég vona innilega að skólinn finni hæfan þjálfara til að taka við þeim hæfileikaríku börnum sem mætt hafa á æfingar hjá mér síðustu árin, og láti þennan fyrirtaks efnivið ekki fara til spillis.
Íslandsmót grunnskólasveita 2007 (16 ára og yngri), 3. sæti. Í sveitina vantaði Guðmund Kristinn Lee sem var erlendis á meðan mótið fór fram.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Patrekur Maron Magnússon sigrar á fjölmennu ungmennameistaramóti Namibíu undir 20 ára
17.9.2007 | 08:50
Börnin úr Salaskóla tóku þátt í 20 ára og yngri. Sú keppni var æsispennandi fram á síðustu stundu. Sterkustu keppendurnir frá Namibíu voru þeir Fares Fani, Goodwill Khoa og Ralph Uri-Khob, en 17 þátttakendur voru í þessum flokki.
Patrekur Maron Magnússon stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa leyft tvö jafntefli, við Guðmund Kristinn Lee og Fares Fani, en Patrekur sigraði Jóhönnu í spennandi skák snemma móts. Jóhanna tapaði fyrir Fani Fares en sigraði hins vegar Goodwill Khoa, þann sem vann Patrek í sveitakeppninni. Birkir Karl Sigurðsson náði stórgóðum árangri, þar sem að hann náði 5 vinningum af 7 mögulegum. En mest spennandi skákin var í næstsíðustu umferð, þegar Páll Andrason fékk Fares Fani með hvítu.
Gummi og Patti voru búnir að gera jafntefli þannig að ef Fari næði að vinna Palla væri sigurinn í mótinu hans; en Palli tefldi enska leikinn á mjög frumlegan hátt; og tókst að finna fjöldan allan af skemmtilegum möguleikum í mjög þröngri stöðu. Loks tókst honum að ná í peð andstæðingsins og sigraði af miklu öryggi, án þess að leika nokkrum ónákvæmum leik. Þetta er besta skák sem ég hef séð Palla tefla. Fyrir vikið komst Patrekur einn í fyrsta sætið og hélt því með öruggum sigri í síðustu umferð gegn Fritz Namaseb. Þar sem að Salaskólabörnin voru gestir á mótinu fengu þau engin verðlaun, en fengu viðurkenningu þegar klappað var fyrir þeim í lok verðlaunaafhendingar.
Lokatölur mótsins voru þannig:
1. Patrekur Maron Magnússon - 6 vinningar af 7
2.-3.
Fares Fani (Namibíumeistari 20 ára og yngri) - 5,5 vinningar
Páll Andrason
4.-7.
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 5 vinningar
Goodwill Khoa
Engelhardt Nowaseb
Birkir Karl Sigurðsson
8.-10
Guðmundur Kristinn Lee 4 vinningar
Armin Diemer
Ralph Uri-Khob
o.s.frv...
Glæsilegur sigur hjá Patreki.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Salaskóli sigrar á Namibíumeistaramóti skólasveita 2007
15.9.2007 | 16:53
Í dag tók heimsmeistarasveit Salaskóla þátt í Namibíumeistaramóti skólasveita sem gestasveit, þar sem þátt tóku grunnskólar, gagnfræðaskólar og menntaskólar frá Namibíu. Börnin sýndu og sönnuðu styrk sinn enn einu sinni með því að leggja alla andstæðinga sína, sjö að tölu, og hlutu 27 vinninga af 28 mögulegum. Namibíumeistarinn náði 19.5 vinningum, og 2.-3. sætið náðu 19 vinningum. 36 sveitir alls staðar að frá Namibíu tóku þátt.
Lokastaðan:
- Salaskóli, 27 vinningar af 28
- Ella Du Plessis High School A, 19,5 v.
- Okahandja Secondary School A, 19 v.
- Ella Du Plessis High School B, 19 v.
Vinningar Salaskóla skiptust þannig:
1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir - 7 vinningar af 7
2. borð: Patrekur Maron Magnússon 6 vinningar af 7
3. borð: Páll Snædal Andrason 7 vinningar af 7
4. borð: Guðmundur Kristinn Lee 5 vinningar af 5
1. varamaður: Birkir Karl Sigurðsson 2 vinningar af 2
Glæsilegur árangur!
Íþróttir | Breytt 17.9.2007 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Namibíuferðin - Færsla 1
12.9.2007 | 17:37
Á myndinni eru: Aftari röð - Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þórunarsamvinnustofnunarinnar, Davíð Ólafsson, Hellismaður og fyrrum Namibíufari, Kristian Guttesen, Hróksmaður og fyrrum Namibíufari, Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs; Fremri röð: Páll Snædal Andrason, Birkir Karl Sigurðsson, Guðmundur Kristinn Lee, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Patrekur Maron Magnússon
Þróunarsamvinnustofnun Íslands bauð heimsmeisturum grunnskóla í skólaskák undir 14 ára aldri, Salaskóla, í ferð til Namibíu, þar sem hópurinn mun meðal annars heimsækja nokkra skóla, eignast vinaskóla, kenna skák, halda fjöltefli, tefla á skákmótum og kynnast landi og þjóð.
Við lögðum af stað í morgun með British Airways frá Keflavíkurflugvelli. Ekki byrjaði ferðin gæfulega þar sem við fengum ekki miðana afgreidda fyrr en 15 mínútum fyrir brottför og halda þurfti vélinni. Málið er að flugmiðarnir okkar voru allir keyptir í einni greiðslu með VISA korti í Namibíu og þar sem upphæðin þótti grunsamlega stór tók fjármálaeftirlitið í Namibíu sig til og setti kortið á svartan lista; þannig að þó að búið væri að borga ferðina var ekki hægt að fá hana afgreidda, eða greiða með einu korti. Þetta þýddi um tveggja tíma töf, sem börnin stóðu af sér eins og sönnum heimsmeisturum sæmir; með stóískri ró þrátt fyrir sívaxandi áhyggjur.
Við erum stödd á Gattwick flugvelli á Englandi, en tökum næstu vél beinustu leið til Namibíu kl. 21:30. Hegðun barnanna er algjörlega til fyrirmyndar, en þau kusu Patrek sem liðsforingja ferðarinnar; sem ber þá ábyrgð á öllum samskiptum milli fararstjóra og barnanna; og tekur þátt í að viðhalda góðum aga.
Þeir sem fara til Namibíu:
1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
2. borð: Patrekur Maron Magnússon
3. borð: Páll Snædal Andrason
4. borð: Guðmundur Kristinn Lee
5. borð: Birkir Karl Sigurðsson
Fararstjórar: Tómas Rasmus og Hrannar Baldursson
Við förum til Namibíu með gjafir frá Skáksambandi Íslands, Kópavogsbæ, Þróunarsamvinnustofnun Ríkisins, Salaskóla og foreldrum barnanna; sem staðið hafa traust við bakið á sínum börnum. Taflfélagið Hrókurinn, undir traustri stjórn Hrafns Jökulssonar átti frumkvæðið að þessu samvinnustarfi sem hefur verið í gangi síðustu þrjú árin. Íslenski stórmeistarinn Henrik Danielsen og egypski skákmeistarinn Omar Salama, eiginmaður Lenku, norðurlandameistara kvenna; bíða eftir okkur í Namibíu.
Edda Sveinsdóttir, móðir Jóhönnu, hefur sýnt mikið frumkvæði og drifkraft við skipulag bæði ferðarinnar á Heimsmeistaramótið í júlí og núna til Namibíu, og sendi ég henni þakkarkveðju; svo og öllum þeim sem staðið hafa við bakið á okkur, samfagnað árangrinum og tekið þannig þátt í þessu ógleymanlega ævintýri.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Íslendingar heimsmeistarar í grunnskólaskák!
18.7.2007 | 11:39
Lengstu tveimur klukkustundum í lífi mínu lauk núna rétt áðan. Salaskóli þurfti að vinna S-afríska sveit 3-1 til að tryggja sér titilinn, en það væri ef hin sveitin sem var að keppa við okkur um 1. sætið næði 4-0 sigri á Qatar U-14.
Þetta var æsispennandi.
Páll Snædal Andrason vann sína skák á 20 mínútum. Þá þurftum við aðeins tvo til viðbótar og sigurinn í höfn. Stuttu síðar sigraði Qatar á 1. borði mjög örugglega, en Birkir Karl Sigurðsson, hinn snjalli varamaður Salaskólaliðsins hafði heitið á 1. borðsmann Qatar að ef honum tækist að vinna gæfi hann honum ísbjarnarleikfang. Snjallræði hjá Birki! Mætti kalla þetta ísbjarnabragð! Nú þurftum við bara einn vinning til að tryggja okkur sigur.
Þá tapaði Guðmundur Kristinn Lee eftir miklar flækjur á 4. borði. Staðan hjá Qatar og S-Afríku var jöfn á þeirra 4. borði, en Qatar drengurinn tefldi betra endatafl mjög illa og koltapaði þeirri skák. Spennan hékk ennþá í loftinu.
Nú var komið að Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur. Hún hafði í upphafi skákar náð fínni stöðu, var peði yfir; en tapaði því svo aftur. Andstæðingnum tókst að koma hrókunum innfyrir vörn Jóhönnu, en samt tókst henni að standa í honum. Eftir að hafa loks snerið á hann og komin með frípeð og öruggt jafntefli, þar sem andstæðingurinn þurfti að þráskáka hana til að hún fengi ekki drottningu, þá var hún aðeins of bjartsýn, ætlaði sér að vinna frekar en ná jafntefli; lék af sér peðinu og tapaði. Nú var okkar helsta von að Patrekur næði að knýja fram sigur.
Í þá mund tókum við eftir að Qatar voru manni yfir á þriðja borði. Þegar þeirri skák lauk með sigri Qatar var heimsmeistaratitillinn í höfn. Patti þurfti ekki að vinna síðustu skákina. Sigurinn var gulltryggður.
Patrekur Maron Magnússon lauk sinni skák með jafntefli, og tryggði Íslendingum vinnings forskot á næstu sveit. Þar með var heimsmeistaratitillinn í höfn. Qatar tapaði á 2. borði, en það skipti ekki lengur máli.
Úrslit í U-14
1. sæti: Salaskóli, Ísland, 17 vinningar
2. sæti: Gene Louw Primary, S-Afríka, 16 vinningar
3. sæti: Uitkyk Primary, S-Afríka, 13,5 vinningar (8 stig)
4. sæti: Qatar: 13,5 vinningar (6 stig)
Einstaklingsárangur:
1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2 vinningar / 9)
2. borð: Patrekur Maron Magnússon (6 vinningar / 9)
3. borð: Páll Snædal Andrason (5 vinningar / 9)
4. borð: Guðmundur Kristinn Lee (3,5 vinningar / 7)
Varamaður: Birkir Karl Sigurðsson (0,5 vinningur / 2)
Keppendur vilja þakka eftirtöldum stuðninginn:
- Kópavogsbæ
- Glitni
- Skáksambandi Íslands
- Salaskóla
- Tómasi Rasmus
- Eddu Sveinsdóttur
- Hafrún Kristjánsdóttur
- Sigurði Braga Guðmundssyni
- Eiríki Erni Brynjarssyni
- Ragnari Eyþórssyni
- Ómari Yamak
- Foreldrum og aðstandandum keppenda og þjálfara
- Öllum þeim Íslendingum sem studdu okkur og hvöttu í orði og verki
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)