Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hófst stærsta bankarán aldarinnar fyrir nákvæmlega sjö mánuðum og lauk því fyrir tveimur vikum?
24.10.2008 | 21:36
Þessa grein skrifaði ég fyrir 7 mánuðum. Þá hafði ég sterka tilfinningu fyrir að eitthvað alvarlegt væri að gerast í fjármálaheiminum og grunaði að stærsta bankarán sögunnar væri í gangi - og að það væri svo stórt að enginn sæi það - ég byrjaði að rannsaka málið upp á eigin spýtur, og leitaði mér upplýsinga víða um heim með Google að vopni.
Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?
25.3.2008 | 22:14
Eru einhverjir að taka mikla fjármuni út úr bönkunum og skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil, alltof hratt? Ef svo er, þá gæti eins verið komið fyrir Íslandi og fyrir Argentínu árið 1999, þegar fjárfestar hættu að treysta argentínska hagkerfinu, tóku allan pening úr bönkum, skiptu þeim yfir í dollara og sendu úr landi. Argentína var sem sviðin jörð í mörg ár á eftir.
Árið 1994 lenti Mexíkó í hrikalegri niðursveiflu, nokkuð sem ég upplifði af eigin raun og skuldir margfölduðust á örfáum dögum. Forsendur málsins voru reknar til þáverandi forseta Mexíkó sem var að ljúka sínu síðasta ári á forsetastól, en hann dró sér gífurlegar upphæðir úr hagkerfinu, skipti yfir í erlenda mynt og flutti til Írlands.
Er eitthvað samskonar að gerast hér á landi undir sofandi augum stjórnvalda, sem eru kannski að horfa of mikið út á við þegar mikilvægt er að við lítum aðeins í eigin barm?
Samkvæmt frétt mbl.is segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri að "hugsanlega hafi einhverjir verið að hafa meiri áhrifa á gengi krónunnar að undanförnu en eðlilegt getur talist".
Þetta er stórfrétt í sjálfu sér, að minnsta kosti fyrir mig, því að ég hélt að ómögulegt væri fyrir fáa einstaklinga að leika sér með gengi krónunnar, og trúði að við værum í landi þar sem hlutirnir eru í föstum skorðum og gegna ekki frumskógarlögmálum, en nú hafa hagfræðingar og sjálfur Seðlabankastjóri fullyrt að það sé mögulegt. Athugið: "Að það sé mögulegt!"
Hvort að möguleikinn hafi verið nýttur er annað mál, og hugsanlega sakamál. Einnig má spyrja hversu lengi þessi möguleiki hafi verið til staðar og hvort að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað hefur hugsanlega verið gert á Íslandi, eða hvort að þetta sé líkari almennri reglu og bara fattast vegna tæknilegra mistaka?
Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 1.25 prósent og eru því komnir í 15%. Það er mikið miðað við að stýrivextir hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum eru um 2%, sem þýðir að lán verða ekki jafndýr fyrir almenning á endanum.
Ég ákvað að lesa mér til og reyna að fræðast um hvað stýrivextir þýða. Svo velti ég þessu fyrir mér, og þrátt fyrir að stundum hafi allt farið í hnút komst ég loks að þessari niðurstöðu:
Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta að ef fjármálastofnanir taka lán frá Seðlabanka Íslands verði vextir á þeim 15%. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir taki þessi lán, því að þau geta ekki verið annað en óhagsstæð. Segjum samt að fjármálastofnanir taki þessi lán á þessum kjörum, hvað þýðir það fyrir almenna neytendur í landinu. Það er ekki um bein áhrif að ræða, þannig að spekingar geta fullyrt að þetta hafi engin áhrif á neytendur.
Aftur á móti getur þetta verið eins og tvíeggja sverð: ef fjármálastofnanir voga sér að taka lán á þessum kjörum er ljóst að þær verða að fá peningana til baka, og hvar annars staðar en hjá borgurum landsins - ef ekki í gegnum fasta vexti, þá í gegnum verðtrygginguna, - þar sem að verðtryggingar, verðbólga og stýrivextir haldast í hendur. Ef fjármálastofnanir taka hins vegar ekki lán á þessum kjörum, þá eru þær sjálfsagt ekki að endurfjármagna sig og munu þá áhrif þessara stýrivaxta vera skammvinn, og gengið byrja aftur í frjálsu falli, jafnvel innan viku.
Vinsamlegast leiðréttið mig með útskýringum sem venjuleg manneskja skilur fari ég með rangt mál.
Einhverjir kunna að hafa haft óeðlileg áhrif á gengið | |
Hvar finnast tækifærin í fjármálakreppunni?
20.10.2008 | 19:35
Á síðustu árum hafa bankarnir sogað til sín margt af besta vinnuafli landsins. Nú þegar bankarnir eru fallnir hlýtur þetta fólk að velta framhaldinu alvarlega fyrir sér. Sumir vilja kannski flýja af landi brott enda með góð viðskiptatengsl í öðrum löndum og eiga ekki í miklum vandræðum með að fá góð störf. Aðrir vilja sjálfsagt halda sig á heimaslóðum.
Það má ekki gleyma því að fyrir ofurþenslu bankanna, þá var pláss fyrir allt þetta fólk á Íslandi í störfum sem hentaði þeim. Stærðfræðingar voru yfirleitt sáttir við að grafa djúpt í leyndardóma stærðfræðinnar - frekar en leyndardóma vísitölunnar, eðlisfræðingar höfðu ekkert á móti því að stunda rannsóknir á eðli heimsins - frekar en eðli áhættunnar, kennarar höfðu ekkert á móti því að kenna - frekar en að stýra færslum í einhverju kerfi. Þetta fólk er loksins frjálst á nýjan leik.
Ef það hefur áhuga, bíður þeirra gífurlega mikið af tækifærum á Íslandi. Öll sú þekking sem orðið hefur til í bankaheiminum er ekki að engu orðin eins og peningurinn, þekkingin er ennþá til staðar og hún er mun traustari grundvöllur en hlutabréf og sjóðir. Fyriræki og stofnanir vantar svona fólk. Þetta fólk hefur bara ekki verið til viðtals á meðan það var djúpt sokkið í bankaheiminn.
Það má bjóða þau velkomin heim.
Kannski þýðir þetta að stressið í þjóðfélaginu taki að hjaðna, að foreldrar finni tíma til að sinna börnum sínum, og fjölskyldan verði aftur að undirstöðu íslenskt þjóðfélags.
Er eitthvað að því?
E.S. Hlustið á þetta viðtal sem var á Rás 2 í morgun:
Morgunútvarp Rásar 2
Hjálmar Gíslason bjartsýnismaður
Mynd: Algiz
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um ræðu Jóns Baldvins í Silfri Egils: Er samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðin eina leið okkar út úr vandanum?
19.10.2008 | 14:52
Í Silfri Egils átti Egill Helgason samtal við Jón Baldvin Hannibalsson, en Jón heldur því fram að eina skynsama leiðin út úr krísunni sé samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Það myndi þýða að skilyrði væru sett á stjórnsýsluna, að bruðl og agaleysi væri stoppað - og einnig hélt hann að það þýddi að íslenska þjóðin yrði ekki gerð ábyrg fyrir ástandinu, heldur þeir einstaklingar sem græddu hvað mest á útþenslunni. Þeir þyrftu að greiða til baka það sem þeir hafa tekið (ó)frjálsri hendi.
Verkefni dagsins hlýtur að vera rannsókn á því hvort að þetta sé satt og mögulegt, og finna upplýsingar um hvort að þetta sé þýðing slíks samnings.
Annað jafn mikilvægt verkefni sem má ekki bíða með er að rannsaka hvað gerðist í raun og veru, og finna út af hverju það gerðist sem gerðist, og finna hina seku í málinu (en ekki sökudólga sem hengdir eru af dómstólum götunnar). Tvær leiðir til slíkrar rannsóknar komu fram í þættinum: annars vegar sú hugmynd að allir sem upplýstu um hvað gerðist í raun og veru fengju fyrirfram sakaruppgjöf, og hin að fá erlenda og hlutlausa aðila í rannsóknina vegna þeirrar gríðarlegu spillingar og hagsmunatengsla sem lama íslensk stjórnmál. Báðar hugmyndirnar er vert að skoða.
Ef ljóst er að samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eina leiðin til að bjarga komandi kynslóðum frá óviðráðanlegum skuldum næstu áratugina, eða koma í veg fyrir að sjálfstæði okkar glatist, þá hlýtur að vera eðlileg krafa að allir Íslendingar standi saman í tiltektinni. Þeir sem standa gegn henni mætti ákæra sem landráðsmenn.
Þjóðin á ekki að bera ábyrgð á einkareknum fyrirtækjum. Ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skilur þetta og er sammála þessu, og mun taka tillit til þjóðarinnar og hjálpa til við að stokka upp hérna heima, er augljóst að rétta skrefið er að ganga að þessum samningum, þó að það þýði sjálfsagt að Ísland þurfi að fara í nánari samstarf við aðrar þjóðir.
Hefur Jón Baldvin rétt fyrir sér?
Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra og afar fróður um þessi mál enda með mastersgráðu í hagfræði frá Edinborgarháskóla. Hann ræddi hlutina af skynsemi, og virðist hafa séð leið út.
Hann vill skipta út bankastjórn Seðlabankans og færði góð rök fyrir sínu máli, að stjórnin væri rúin trausti bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Þó að ástæður þess að Seðlabankinn hafi tapað traustinu séu líkast til runnar úr harðvítugum árásum frá Baugsmönnum, þá er staðan í dag einfaldlega sú að traustið er horfið. Þess vegna væri rétt að skipta um áhöfn, hvort sem að ástandið er þeim að kenna eða ekki.
Er önnur leið fær?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?
18.10.2008 | 22:10
500 gegn 1 er einelti og ekkert annað. Sama hver á í hlut, fjöldamótmæli gegn einni manneskju er óréttlætanlegt. Það má minna á að Davíð hefur þrátt fyrir mikla og ósanngjarna gagnrýni varað við því sem gerðist, og það með góðum fyrirvara. Það voru einfaldlega alltof fáir sem hlustuðu á hann.
Hér eru nokkrar hugmyndir um mótmæli sem gætu verið heilbrigðari:
- Mótmæli gegn slakri stjórnun seðlabanka
- Mótmæli gegn slakri stjórn Ríkisins
- Mótmæli gegn framferði Breta
- Mótmæli gegn slökum viðbrögðum gegn framferði Breta
- Mótmæli gegn ofureyðslu og of mikillar áhættutöku fjármálafyrirtækja í útrás
- Mótmæli gegn heimsku
- Mótmæli gegn því að einkavæddu einkafyrirtækin sem bankarnir voru, sem fara í gjaldþrot séu á ábyrgð hins íslenska almennings og framtíðarkynslóða
- Mótmæli gegn bölsýni
- Mótmæli gegn mótmælum
Aðstandendur þessara "mótmæla" mega skammast sín. Ég mótmæli þeirra mótmælum, en ekki þeim sjálfum sem manneskjunum.
Þar liggur munurinn.
Sérstaklega vil ég taka fram að ég er ekki sjálfstæðismaður, þetta finnst mér einfaldlega andstyggileg aðför að einstaklingi.
Mótmæla Davíð Oddssyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
Fellur ríkisstjórnin?
16.10.2008 | 10:53
Samfylkingarmönnum fjölgar ört sem sárnar að ekki sé rætt um mögulega aðild að Evrópusambandi, þrátt fyrir gjörbreyttar forsendur.
Verður þetta stjórninni að falli?
Ef svo er, hvernig verður næsta Ríkisstjórn skipuð og hversu traust verður hún?
Pabbi minn er ríkari en pabbi þinnStjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þarf sérstaklega að rannsaka hnitmiðaðar gengisfellingar, ofurlaun, hagsmunatengsl, gjaldþrot og spillingu vegna fjármálakreppunnar?
15.10.2008 | 20:32
Björn Bjarnason vill láta rannsaka hvort að tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli opinberra mála, og fagna ég því.
Af hverju fær efnahagsbrotadeild ríkislögreglunnar ekki einfaldlega hærri fjárhæðir til að rannsaka málin, í stað þess að stofna nýja nefnd til að rannsaka hvort að tilefni sé til rannsóknar?
Nokkur atriðið sem mér dettur í hug á augnablikinu að þurfi að rannsaka:
- Það þarf sérstaklega að rannsaka af hverju gengið féll þrívegis rétt fyrir árfjórðungsuppgjör á þessu ári og hvort að eitthvað svipað hafi verið í gangi fyrir fyrri uppgjör, og hverjir hafi þá verið að stýra þessu - hvort sem um innlenda eða erlenda aðila var að ræða.
- Það þarf sérstaklega að rannsaka hvort að fengin lán hafi verið reiknuð sem árangurstengdur hagnaður í bankakerfinu og því greiddur út sem ofurlaun. Lán og laun sem ætlast er til að almenningur borgi til baka næstu árin. Einnig má rannsaka hversu mikið af þessum upphæðum fór til eigenda.
- Það þarf sérstaklega að rannsaka hagsmunatengsl milli stjórnmálamanna, greiningarstofnana, auðmanna og banka, og hvort að óeðlilegar ákvarðanir hafi verið teknar vegna þessara tengsla.
- Það þarf sérstaklega að rannsaka hvort að Glitnir hafi sannarlega verið gjaldþrota þegar Seðlabankinn lýsti hann gjaldþrota.
- Það þarf sérstaklega að rannsaka og koma í veg fyrir spillingu hjá íslenska Ríkinu, sama þó að hún mælist lítil í samanburði við alþjóðamælikvarða. Lítil spilling er of mikil spilling.
Er eitthvað fleira sem þarf að rannsaka?
Af ruv.is:
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, boðaði sérstaka rannsókn á fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins á Alþingi í dag. Til stendur að stofna sérstakt rannsóknarembætti til að skoða kærur um meinta refsiverða verknaði sem tengjast falli bankanna.
Markmiðið er að kanna, hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrsla mun liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2008. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn.
Dómsmálaráðherra hefur fundað með ríkissaksóknara og óskað eftir því bréflega að embættið afli staðreynda um starfsemi bankanna þriggja, útibú þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið er að kanna hvort tilefni sé til lögreglurannsókna.
Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar á að liggja fyrir í árslok. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn. Ríkissaksóknari verður í samstarfi við Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóra. Ráða þarf sérstaka starfsmenn til að vinna skýrsluna og því þarf að tryggja verkinu fjármagn, sem Björn hét á Alþingi að gera. Hann sagði jafnframt að unnið væri að lagafrumvarpi í dómsmálaráðuneytinu um umgjörð þessarar rannsóknar.
Björn segir að stofnað verið til tímabundins rannsóknarembættis sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir séu af eða tengist falli bankanna. Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinberu stofnun, innanlands eða utan, sem geti lagt lið við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem, gæti ásamt forstöðumanni að ákvarða hvaða rannsóknarverkefni falli til þess, sagði Björn á Alþingi í dag.
Björn sagði mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum, gefa sér ekki fyrirfram að lög hafi verið brotin. Hann sagði jafnframt að eðlilegt væri að velta fyrir sér að koma á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hefði eftirlit með rannsókninni.
Hvort eigum við að standa saman og borga skuldir einkavæddra banka, eða standa saman og neita að borga skuldir sem aðrir bera ábyrgð á?
14.10.2008 | 20:20
Þrír einkavæddir bankar fara á hausinn og skilja eftir sig skuldahala sem jafnast á við tólffalda ársframleiðslu íslensku þjóðarinnar.
Þjóðin mun borga fyrir ballið og hreingerningarnar sem skildu samkomuhúsið eftir sem rjúkandi rústir. Annars myndi enginn gera það, og fólk sættir sig ekki við að búa í brunarústum.
Talað er um að hin skuldlausa þjóð þurfi að taka lán til að borga skuldir. Lán af Hollendingum til að borga Hollendingum. Lán af Bretum til að borga Bretum. Lán frá Rússum til að borga öllum hinum. Lán frá IMF sem enginn veit hvað þýðir.
Við erum að tala um lán fyrir þúsundi milljarða og lán þarf að borga til baka. Af hverju á ég og mín fjölskylda að taka lán til að borga fyrir mistök og glæpi annarra einstaklinga?
Ég spái því að þetta muni kosta eins og eitt skólakerfi, íbúðalánasjóð, heilbrigðiskerfi, félagslegt velferðarkerfi og nokkrar orkuauðlindir, auk hærri skatta í nokkur ár.
Samviskuspurning:
Hvort eigum við að standa saman og borga skuldir einkavæddra banka, eða standa saman og neita að borga skuldir sem aðrir bera ábyrgð á?
Er efnahagskreppan kosningaútspil Bush og McCain?
13.10.2008 | 21:20
Sú kenning barst í tal fyrir nokkrum mánuðum að forvitnilegt væri að sjá sveiflur í efnahagslífinu rétt fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum. Mig grunaði að repúblikanaflokkurinn ætti eitthvað svakalegt útspil, annað hvort í tengslum við olíuverð eða húsnæðismarkaðinn. Mig óraði samt aldrei fyrir að staðan yrði eins og hún er í dag.
Nú er sú staða komin upp að heimskreppa blasir við. Ef repúblikönum tekst að koma í veg fyrir hana, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, eru þá ekki góðar líkur á að þeir taki kosningarnar?
Ég er einfaldlega að pæla í hvort að hugsanlegt sé að einn af sökudólgunum á bakvið fall allra íslensku bankanna geti verið kosningabrella í vestri. Allt leikur á reiðiskjálfi, en svo mun eldsneytisverð lækka gífurlega, hlutabréf rjúka upp, og þeim Bush og McCain þakkað fyrir vegna þeirra 700.000.000.000 dollara sem dælt var inn í kerfið og ná að treysta hagkerfið ytra rétt fyrir kosningarnar í nóvember.
Langsótt samsæriskenning?
Mesta dagshækkun Dow Jones | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hverjir eru sökudólgarnir? Ert það kannski þú?
12.10.2008 | 09:13
Margir hafa þegar verið stimplaðir (hengdir af fjölmiðlum án dóms og laga): Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Jón Ásgeir, Björgúlfsfeðgar, Darling og Brown, Árni Matt, Pétur Blöndal, og þannig heldur runan endalaust áfram.
Ég hef heyrt að ekki sé rétt að leita uppi sökudólgana vegna hruns fjármálaundursins, og velti fyrir mér hvers vegna ekki. Á meðan hinir raunverulegu sökudólgar hafa ekki verið dregnir til saka, verða áberandi embættismenn og heiðarlegt fólk stimpluð sem sökudólgar, á meðan hinir seku fá góðan tíma til að fela slóðina og koma sér undan.
Væri ekki skynsamlegt að hafa upp á raunverulegum sökudólgum til þess að hlífa þeim saklausu? Og þá meina ég fólk sem sannarlega hefur verið að selja sjálfu sér eignir til þess eins að blása upp verð þeirra, fólk sem hefur leikið sér að íslenska hagkerfinu til að láta ársfjórðungsútkomu líta vel út á kostnað gengis og verðbólgu? Fólk sem hefur haft alvarleg áhrif á heildina til eigin hagnaðar?
Ef ekki er rétti tíminn til að hafa uppi á sökudólgunum núna, hvenær er þá rétti tíminn til þess?
- Þegar þjófur hefur farið um er best að hafa sem fyrst upp á honum til að hann steli ekki meiru eða komi sér ekki undan.
- Þegar brennuvargur hefur brennt nokkur hús þarf að stöðva hann. Ef honum hefur tekist að brenna heila borg, þarf þá ekki að refsa honum?
Getur samt verið að sökudólgurinn sé ekki persóna, heldur hugmyndafræði? Að við höfum lifað í útópíu og hún einfaldlega ekki gengið upp frekar en aðrar útópíur, þrátt fyrir að okkur hafi virkilega langað til að hún væri sönn? Er sökudólgurinn þá við sjálf fyrir skort á gagnrýnni hugsun og viðeigandi aðgerðum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Af hverju má ekki lækka tekjuskatta í 10% og stýrivexti í 5% ?
11.10.2008 | 08:58
Ég bara spyr.
Mér þætti þetta eðlileg neyðarlög við ástandinu í dag, sem gæti hjálpað fólki að rétta sig við.
Hins vegar segir efasemdarmaðurinn einhvers staðar í huga mínum að ástandið yrði einfaldlega misnotað til að keyra upp verðlag enn frekar, rétt eins og gert var í tilraun til skattalækkana fyrir ári.
Það mætti lækka skatta tímabundið í einhverja mánuði og frysta verðlag á meðan. Mér finnst vanta töluvert af frumkvæði til að gera svona góða hluti, og hef á tilfinningunni að ekkert sé gert fyrr en í óefni er komið. Ríkisstjórnin hefur staðið sig vel síðustu dagana, þegar hún loks greip inn í ástand sem hefði þurft að grípa inn í fyrir mörgum mánuðum, en hún framkvæmdi loks og gerði það vel. Nú væri óskandi að hún framkvæmdi aðeins meira, en drægi sig síðan í hlé.
Lækkun stýrivaxta er náttúrulega nauðsynleg og óskiljanlegt af hverju hún hefur ekki þegar verið framkvæmd.
Ég veit að það er mikil einföldun að taka þá Geir Haarde og Davíð Oddsson sérstaklega fyrir sem mennina sem ráða, enda eru þeir einfaldlega að stjórna, sem þýðir að þeir verða að vinna í samvinnu með sínu fólki. Slíkt tekur skiljanlega tíma. Það væri áhugavert að heyra rætt um kosti og galla þessara hugmynda, og góða ástæðu fyrir af hverju þetta er ekki gert strax.
Að lækka tekjuskatta og stýrivexti væri góð leið til að létta undir með þeim sem tapað hafa miklu og skulda enn mikið.
Leiðréttið mig fari ég með rangt mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)