Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Birgitta Jónsdóttir á forsíðu Wired.com
9.1.2011 | 06:11
Birgitta Jónsdóttir hefur vakið heimsathygli vegna sjálfboðaliðsstarfa fyrir Wikileaks og er grein um stefnuna gagnvart Twitter, þar sem krafist er aðgangs að öllum Twitterfærslum Birgittu frá 2009, á forsíðu Wired.com.
Það er merkilegt hvernig leynd er réttlætt til að vernda opinbera starfsmenn, á meðan íslenskur veruleiki segir okkur að leyndin hafi verið notuð til að vinna skuggaverk bakvið tjöldin, þá af einhverjum stjórnmálamönnum, opinberum starfsmönnum, útrásarvíkingum, eigendum banka og starfsmönnum þeirra.
Því miður hefur fólki sem fer með völdin ekki verið treystandi fyrir leyndinni, þó að þeim hafi verið treyst í blindni.
Leynd er frekar vandmeðfarið kvikyndi, getur verið mögnuð þegar vel er farið með hana, en stórskaðleg þegar hún er misnotuð. Eiginlega eins og kjarnorka.
Kíktu á fréttina um Birgittu í Wired hérna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Rannsóknarskýrslan er afar merkilegt plagg. Ég er rétt byrjaður að lesa. Strax rekst ég á stóra spurningu sem ég tel mikilvægt að taka fyrir. Það er sjálft umfangið.
Skýrslan fjallaði fyrst og fremst um orsakir Hrunsins 6. október 2008 þegar Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing drógu íslenskt efnahagskerfi í djúpan pytt.
Það sem ég hef séð af þessari skýrslu, er að hún er opinská, hlífir engum og mun gera mikið gagn þegar einstaklingar verða dregnir til ábyrgðar. Mér þætti eðlilegt að það sama væri gert fyrir aðrar fjármálastofnanir sem farið hafa á hausinn og íþyngt þjóðinni óbærilega.
"Þótt allar íslenskar fjármálastofnanir hafi orðið fyrir einhverjum skakkaföllum samhliða þeim áföllum sem gengu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008 eru vandamál sparisjóðakerfisins um margt sérstök.Vegna hins mikla umfangs verkefnis nefndarinnar, að skýra meginorsakir falls bankanna 2008, vannst ekki tími til að taka hin sérstöku vandamál sparisjóðakerfisins til umfjöllunar þótt þau hafi verðskuldað það. Það er því undir Alþingi komið hvort þau verða tekin til sérstakrar rannsóknar."
Ég sé ekki betur en að skynsamlegt væri að bjóða rannsóknarnefndinni áframhaldandi störf og taka næst fyrir Sparisjóðina og málin í kringum þá. Held að það geti verið viðkvæmt mál þar sem margir áttu til dæmis hlut í BYR sem ákveðið var að styrkja frekar en að fella af einhverjum ástæðum, þegar tilefni virtist til, frá sjónarhorni leikmanns eins og mín, að taka alvarlega á málum þar.
Mér þætti eðlilegt að rannsóknarnefndin fengi strax grænt ljós um að rannsaka sparisjóðina, ekki seinna en í dag.
Sjálfur er ég afar sáttur við skýrsluna sem kom út en hún staðfestir að tilfinning mín fyrir þessum hörmulegu málum voru á rökum reistar, þó að ekki hafi ég haft aðgang að upplýsingum. Það er merkilegt hvað hægt er að komast langt á brjóstvitinu, en að sjálfsögðu ómetanlegt að fá þann stuðning og sönnunargagn sem þessi skýrsla er.
Sama hvað pólitíkusar munu spinna um að hún innihaldi bara eitthvað sem fram hefur komið áður, þá hefur hún þá sérstöðu að hún er áreiðanlegt sönnunargagn, fyrir þá sem hafa þurft að hugsa afar gagnrýnið um upplýsingar sem frá fjölmiðlum koma.
Hófsemi virðist vera dularfullt fyrirbæri í hugarheimi Íslendingsins. Við höfum gífurlega þörf til að vera númer eitt. Ekki veit ég hvort það sé vegna óheflaðs mikilmennskubrjálæðis eða minnimáttarkennd vegna smæðar og fjarlægðar þjóðarinnar við umheiminn. Músin-sem-öskraði einkennið.
Nú hafa stigið upp á yfirborðið getgátur um að orsök mikils kynbundins ofbeldis felist í óhófsömu skemmtanalífi og drykkjuháttum Íslendinga, eins og sjá má hér í athugasemdum við grein Egils Óskars Helgasonar "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"
Ríkisstjórnin virðist heit fyrir þeirri leið að banna óæskilega hluti, þannig að það liggur beint við að annað hvort verði skemmtunum og áfengi sett höft í náinni framtíð, vegna þess kynbundna böls sem fylgir, eða þá að áfengi verði aftur bannað á Íslandi, en allt áfengi var bannað á Íslandi frá 1915-1935.
Það þótti sjálfsagt afar góð hugmynd á sínum tíma að banna áfengi á Íslandi, rétt eins og það hefur þótt góð hugmynd að banna súludans, vændi og annað slíkt. Ég er handviss um að þeir sem barist hafa fyrir þessum bönnum vilji vel og séu afar gott fólk, jafnvel sannkristið, sem er umhugað um samferðarfólk sitt á Íslandi. Hins vegar hafa bönn sem sett eru með lögum tilhneigingu til að snúast upp í öndverðu sína, þar sem þessar hneigðir verða hvort eð er uppfylltar í leyni og fundnar leiðir framhjá lögum og reglu til að svala þeim.
Þeim fylgir bara aukin spenna og kannski einhver sektarkennd, og hættustigið verður hærra.
Við slíkar aðstæður verður hættulegra fyrir fórnarlömb að gefa sig fram við lögreglu eða heilbrigðisyfirvöld, því að ólöglegri starfsemi gæti þá verið ógnað, og þeir sem standa að ólöglegri starfsemi svífast oft einskis til að verja hana, sérstaklega ef hún er arðbær. Þá eykst kúgun sjálfsagt í samræmi við það.
Vil ég minna á afleiðingar áfengisbannsins á Íslandi frá 1915-1935, en því var loks aflétt þegar í ljós kom að hún hafði aðeins skapað enn verra ástand en áður hafði ríkt í áfengismálum. Málið er að bann slekkur ekki á hvötum, heldur býr til nýjar aðstæður, þar sem fólk sækir í spíra, blandar landa, eða gerir annað verra. Stjórnleysi fylgir í kjölfarið. Það er þó ljóst að þessi málefni hverfa ekki, sama hvað við kreystum hnúana og vonum ofboðslega mikið, og erfitt verður að fylgjast með hinni nýju ólöglegu starfsemi og hegðun af lögreglu, nema þá kannski að lögreglumenn fengju bónus fyrir að leysa slík mál.
Þessi úrdráttur úr Morgunblaðinu frá desember 1925 er ágætis frétt sem hollt er að lesa, sérstaklega fyrir alla þá sem telja að hægt sé að leysa mannlegan breyskleika með boðum og bönnum. Mæli með rauðvínssopa eða köldum bjór eftir að þú hefur stækkað greinina og prentað út, nema þú sért undir tvítugu að sjálfsögðu eða viljir banna áfengi.
Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð.
Tilvísanir:
Egill Helgason: "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"
Mynd af áfengisbrotadeild Washington lögreglunnar 1922: OldPicture.com
Frétt úr Morgunblaðinu: Timarit.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Af hverju? Af hverju? Af hverju?
10.3.2010 | 22:24
- Af hverju kynjakvóta á stjórnir einkafyrirtækja?
- Af hverju fjölmiðlastofnun?
- Af hverju hækka skatta?
- Af hverju auka atvinnuleysi?
- Af hverju að taka ekki þátt í lýðræðislegri kosningu?
- Af hverju að svíkja eigin loforð?
- Af hverju ekki rétta heimilum hjálparhönd?
- Af hverju spyrja þegar fátt er um svör?
Þjóðaratkvæðagreiðslan: Stórsigur fyrir forseta Íslands og þjóðina, og vantraust á ríkjandi stjórnvöld?
7.3.2010 | 08:40
50-60% er verulega góð þátttaka, og um 93% af þeim atkvæðum segja NEI eða að minnsta kosti 115.000 manns af um 230.000 mögulegum taka skýra afstöðu, sérstaklega þegar eftirfarandi er haft í huga:
- Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar höfðu hvatt fólk til að nýta ekki lýðræðislegan rétt sinn og sitja heima, eins og á Íslandi væri nú einræði orðið málið.
- Fjöldi forsprakka talandi um að málið væri markleysa, en 50-60% þjóðarinnar fer ekki á kjörstað í leiðindaveðri til að kjósa um markleysu.
- Óljóst var fram á fimmtudag hvort að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin yfir höfuð, sem hefur örugglega virkað letjandi á einhverja.
Það er engan veginn hægt að bera þessar kosningar saman við alþingiskosningar eða forsetakosningar vegna alls þess spuna sem komið var af stað til að rugla fólk í ríminu og gera lítið úr gildi kosninganna sjálfra.
Ég var ekki á þeirri skoðun fyrir viku síðan að úrslit þessara kosninga þýddu stjórnarskipti, og er það ekki enn. En ég sé ekki annað en að Steingrímur og Jóhanna verði að víkja vegna afstöðu sinnar gegn sjálfu lýðræðinu. Þau eru rúin trausti. Svo einfalt er það. Þau munu ekki fara frá af eigin frumkvæði.
Þó að stjórnarflokkarnir hafi nokkra mjög hæfa einstaklinga, þá sérstaklega Liljurnar tvær og Ögmund, þá tel ég réttara að leggja íslenska pólitík af tímabundið og koma á þjóðstjórn. Það ætti að koma á einhvers konar neyðarstjórn með fólki sem lítur ekki á málin með pólitískum gleraugum, heldur með almannahag að leiðarljósi.
Forseti Íslands mætti taka virkan þátt í að mynda slíka tímabundna stjórn og fá sér vitra menn til ráðgjafar menn eins og Pál Skúlason og Njörð P. Njarðvík, enda hefur þjóðin greinilega stutt hann með þessu stóra NEI! og spurning hvort að þetta svar gefi þar með forsetanum aukin völd og umboð frá þjóðinni á þessum neyðartímum.
Þetta er fyrst og fremst stórsigur fyrir þjóð sem trúir á lýðræðisleg vinnubrögð og sem sýnt hefur aðdáunarverða, skýra afstöðu og siðferðisvitund fyrir framtíðarkynslóðir.
Þessi þjóð hefur kveikt von um bjartari framtíð.
Ég veit að pólitíkusar munu allir rífast um að túlka sér þessar kosningar sér í hag, en tími pólitíkusa fjórflokksins er liðinn og tími kominn til fyrir þjóðina að taka virkan þátt í hreingerningum eftir hrun. Fulltrúalýðræði á tímum sem þessum er markleysa og ljóst að þingmenn eru að koma í lög gæluverkefnum eins og um kynjakvóta, nokkuð sem er afar óviðeigandi fyrir þjóð sem vill kenna sig við jafnræði og er afar neyðarlegt bæði fyrir karla og konur sem vita að jafnræði felst í hugarfarsbreytingu, og að forsjárhyggjuvaldboð sem þetta eru ekki til þess fallin að breyta hugarfarinu til hins betra.
Beint lýðræði er að virka, og því verður að beita oftar, þó að ríkjandi stjórnvöld vilji eyðileggja fyrir.
Mynd: Portfolio.com
E.S. Þetta er bara örstutt frí frá bloggfríinu, en ég hef hugsað mér að sleppa greinarskrifum þar til í apríl, en mátti til í dag, vegna mikilvægis þessa máls.
Nær allir segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2010 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10 skilyrði sem stjórnmálaflokkur þarf að uppfylla til að fá atkvæðið mitt í næstu alþingiskosningum:
1. Þeir sem eru í framboði fyrir flokkinn, sama hvaðan af landinu þeir eru, mega ekki hafa verið tengdir spillingu á nokkurn hátt.
2. Flokkurinn verður að koma með raunhæfa og framkvæmanlega lausn vegna vanda heimila í landinu. Helst tengda niðurfellingu á skuldum og að verðtryggingar eins og þær eru í dag heyri sögunni til.
3. Flokkurinn verður að vera tilbúinn í viðræður um ESB aðild. Þetta þýðir að kvótaspilling sem og önnur spilling geti lent í uppnámi og að krónan verði aflögð sem gjaldmiðill.
4. Flokkurinn verður að hafa fjármál sín fyrir opnum tjöldum.
5. Flokkurinn verður að lofa að gagnrýnin hugsun verði að markmiði í íslensku menntakerfi, umfram hátæknivæðingu.
6. Flokkurinn verður að lofa að aðhlynning sjúkra verði að markmiði í íslensku heilbrigðiskerfi, umfram hátæknivæðingu.
7. Flokkurinn verður að hafna því algjörlega að greiða skuldir óreiðumanna, þar með talið Icesave, og stefna viðeigandi einstaklingum vegna ábyrgðar þeirra.
8. Flokkurinn verður að lofa raunverulegum stuðningi við rannsóknina á bankahruninu og því að öllum sakamálum sem rísa í kjölfarið verði fylgt eftir af hörku.
9. Flokkurinn ætti að koma með tillögu að sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga. Á grundvelli sjálfstæðisyfirlýsingar sem telur upp helstu gildi íslensku þjóðarinnar og allir flokkar hafa samþykkt, og einnig þjóðin í þjóðaratkvæðisgreiðslu, skal byggja nýja stjórnarskrá.
10. Flokkurinn verður að sýna fram á hvernig hann ætlar að fá þá Íslendinga aftur heim sem neyðst hafa til að flytja af landi vegna kreppunnar.
Gleymi ég einhverju sem skiptir máli?
Samkvæmt báðum erlendum gestum Silfurs Egils Helgasonar í dag, þeim Michael Hudson og John Perkins (smelltu á nöfn þeirra til að sjá myndskeiðin), á íslenska þjóðin í stríði, en berst ekki á móti árásarhernum því að hún veit ekki að stríð sé í gangi, enda er erfitt að trúa því, enda varla vilji eða nægur skilningur fyrir hendi hjá Íslendingum til að trúa slíkum fullyrðingum. Árásarherinn er bankakerfið og þessi her vill ekki drepa fólk og hirða síðan eigur þeirra, heldur fá fólkið til að gefa eigur sínar af fúsum og frjálsum vilja; náttúruauðlindir Íslendinga og mannauð.
Samkvæmt þessu er illt keisaraveldi til staðar sem stjórnar framgangi mála í heiminum, og þetta skuggaveldi er æðra öllum ríkisstjórnum og samsett af harðsvíruðum stjórnendum örfárra fyrirtækja, en þessir einstaklingar hafa nægileg völd til að geta hagað eftir eigin höfði hverjir ná lýðræðis- eða einræðisvöldum í hverju landi.
Her keisaraveldisins eru alþjóðlega hagkerfið með gjaldeyrissjóðinn í broddi fylkingar og bankastarfsmenn eru hermenn sem er hulið þeirra eigið hlutverk í stóru keðjunni. Fólk um heim allan er háð bankakerfinu og án þess kemst það ekki af. Her keisaraveldisins er nákvæmlega sama um þetta fólk, þó að bankastarfsmönnum sé það ekki - en það er bara hluti af blekkingunni. Sé andlit bankans fátt annað en gæskan sjálf, getur varla leynst úlfur í þeirri gæru?Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn er samkvæmt þessum kenningum ekki björgunarbátur þjóðanna, heldur miðstjórn keisarahersins - þeir sem negla niður fána á herteknum svæðum og krefjast að fá auðlindirnar í eigin hendur með tíð og tíma.
Ef þetta er satt og rétt, þá eiga Íslendingar einungis einn valkost: að skera sig úr þessum vítahring strax með því að neita að borga skuldirnar. Ekki aðeins ríkið þarf að neita að borga sínar skuldir gagnvart öðrum þjóðum, heldur þurfa einstaklingar á landinu að neita að borga bönkunum eigin skuldir.
Afleiðingin verður annað hvort sú að Ísland verður útilokað úr samskiptum við aðrar þjóðir eða þá að Íslendingum verður fyrirgefið vegna hrikalegra aðstæðna á fjármálamörkuðum heimsins. Hinn kosturinn er að samþykkja að borga þessi lán sem aldrei verður hægt að borga, og gjalda í stað penings með auðlindum þjóðarinnar. Það væru herfileg mistök sem myndu enda með því að allar eignir Íslendinga verða þjóðnýttar, og auðlindirnar enda í höndum keisaraveldisins.
Við erum á seinni leiðinni núna. Ef við stígum ekki á bremsuna og hættum að borga, segjum stopp, nóg komið - þá munum við smám saman glata öllu okkar. Ég held að okkur verði fyrirgefið að lokum ef við hættum að borga, en það gæti kostað reiði gagnvart okkur og gjaldþrot allra íslenskra fyrirtækja sem starfa á alþjóðavettvangi. Því væri kannski best að gefa alþjóðlegum íslenskum fyrirtækjum kost á að komast úr landi, og hætta síðan að borga.
Skuldarar eiga að hafna því algjörlega að taka á sig allan kostnað vegna lánanna. Kröfuhafar verða líka að taka á sig eitthvað af tapinu, í stað þess að skella skuldinni allri á skuldarana.
Þetta hljómar eins og samsæriskenning af verstu sort. Illt keisaraveldi ríkir yfir jörðinni og stýrir því hverjir halda völdum í hverju ríki fyrir sig, og takist þeim það ekki með góðu, gera þeir það með illu - með hjálp leigumorðingja og herja, en öll spor eru hulin með fjölmiðlum sem keisaraveldið sjálft stjórnar.
Það er allt í lagi að velta þessu fyrir sér, en hver er sannleikur málsins? Getum við komist að því hver sannleikurinn er, og ef við gerum það, getum við sannfært alla þjóðina um að Ísland eigi í stríði og hafi einfaldlega ekki búið sig til varnar þar sem að þjóðinni dettur ekki einu sinni í hug að verið sé að ráðast á hana?
Kannski við séum loks komin til ársins 1984 eins og George Orwell sá það fyrir sér?
"Þrjú slagorð Flokksins:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÞRÆLKUN
FÁFRÆÐI ER STYRKUR."
George Orwell, 1984
"Við sættum okkur ekki við neikvæðna hlýðni, né við auðmjúkustu undirgefni. Þegar þú gefur þig loks okkur á vald, verður það að vera af þínum eigin frjálsa vilja. Við eyðileggjum ekki heiðingjann vegna þess að hann streitist gegn okkur; því svo framarlega sem að hann streitist gegn okkur munum við aldrei eyða honum. Við snúum honum, við tökum hans innri hug, við endurmótum hann. Við brennum alla illsku og tálsýn úr honum; við fáum okkar yfir í okkar lið, ekki að útlitinu til, heldur virkilega, hjarta og sál. Við gerum hann að einum okkar áður en við drepum hann. Það er ólíðandi að rangar hugsanir skuli vera til einhvers staðar í heiminum, hversu leyndar og máttlausar þær geta verið. Jafnvel á dauðastund megum við ekki leyfa neina villu . . . við fullkomnum heilann áður en við sprengjum hann."
George Orwell, 1984
Myndir:
1984: Alternative Reel
Hermaður hins illa heimsveldis: Dark Roasted Blend
Hús í höndum bankamanns: Golden Lenders
Auga píramídans: The IP ADR Blog
Hvernig forgangsröðum við á krepputímum?
6.11.2008 | 09:19
Nú er svo komið að fjöldi fólks er að missa vinnu, fjöldi fólks getur ekki borgað af lánum sínum - lánum sem eru jafnvel hófleg - rétt fyrir þaki yfir höfuðið og fararskjóta. Þetta fólk er að upplifa stjórnvöld sem lömuð og aðgerðarlaus, og finna ekki að verið sé að koma nægilega til móts við þau. En það er reyndar skiljanlegt, því að það er svo margt í gangi og mörg verkefni fyrir höndum.
Væri ekki tilvalið að forgangsraða verkefnum?
Verkefnin að neðan eru ekki í ákveðinni röð, en þú vilt kannski hjálpa til við að forgangsraða.
- Finna bankaræningjana, reyna að fá peninginn til baka og hegna þeim.
- Losna við ríkisstjórnina af því að hún virðist ekkert gera við ástandinu, kallaði þetta yfir fólkið og er að gera illt verra. (Ég trúi ekki endilega að þetta sé allt satt).
- Reka seðlabankastjóra af því að hann byggði hagkerfið og hann gat ekkert gert við falli þess.
- Koma á stöðugleika og forgangsraða síðan.
- Finna leiðir fyrir fórnarlömb ránsins, þau sem eru að missa atvinnu og aðrar nauðsynjar.
- Afnema verðtryggingu. Þýðir að eigendur tapi hluta af eigum sínum en kemur í veg fyrir að skuldarar fari á hausinn.
- Mótmæla á laugardögum kl. 15:00 eða 16:00, og beina mótmælunum gegn einstaklingum frekar en að hafa þetta málefnalegt.
- Mótmæla á laugardögum kl. 15:00 eða 16:00, og mótmæla málefnalega frekar en gegn einstaklingum.
- Leggjast í þunglyndi og gera ekki neitt.
- Flýja land.
- Blogga um þetta og vona að það sé hlustað.
Hvers vegna allir VERÐA að lesa grein Einars Más Guðmundssonar um kröfu á óháða rannsókn fjármálakrísunnar... S T R A X !
28.10.2008 | 12:16
Einar Már Guðmundsson skrifar magnaða grein í Morgunblaðið um þá kreppu sem læðist yfir landsmenn þessa dagana. Þar sem að ég hef mikið pælt í og rannsakað þessi mál og einnig skrifað mikið um þetta sjálfur sé ég að þarna fer snilldarpenni sem skrifar beitt en með mannúð um ástandið sem ríkir í dag.
Ég vil endilega að sem flestir lesi þessa grein og leyfi mér að birta hana án samráðs við Einar Má, en fjarlægi hana að sjálfsögðu biðji hann mig um það:
Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs.
***
Vissulega er hinn frjálsi maður
ekki lengur veginn með vopnum,
ekki höggvinn í herðar niður
eða brenndur á báli.
Sem slíkur gæti hann öðlast samúð
sagnritara og orðið gjaldgengur
á myndbandaleigum framtíðarinnar.
Þess í stað er honum svipt burt
með snyrtilegri reglugerð
og málinu skotið til markaðarins
sem mállaus vinnur sín verk.
***
Ég byrja á smá ljóðabrotum, venjunni samkvæmt, en það er líka til mannætubrandari sem er einhvern veginn svona: Mannæta flýgur á fyrsta farrými. Flugfreyja kemur með matseðil, skrautlegan með nokkrum valkostum. Mannætan er afar kurteis, eins og mannætur eru víst við fyrstu kynni. Mannætan rennir augunum yfir seðilinn og segir svo við flugfreyjuna: Ég sé ekkert bitastætt á matseðlinum. Vilduð þér vera svo vingjarnlegar að færa mér farþegalistann?
Ég ætla ekki að fara að líkja auðmönnum Íslands, sem komið hafa okkur á kaldan klaka ásamt stjórnvöldum, við mannætur, ekki í bókstaflegri merkingu, en eftir að hafa fengið nánast allt upp í hendurnar, banka og ríkisfyrirtæki, virðast þeir samt hafa sagt við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir: Það er ekkert fleira bitastætt á matseðlinum. Vilduð þið vera svo vingjarnleg að rétta okkur þjóðskrána?
Og stjórnvöld ábyrgjast heilt spilavíti, rússneska rúllettu, og niðurstaðan er ónýtt mannorð heillar þjóðar og við sem vorum svo stolt og áttum stundum ekkert nema stoltið. Aumingja Jón Sigurðsson í nepjunni niðri á Austurvelli og Jónas Hallgrímsson, svo laglegur í frakkanum. Hvar er nú andi frönsku byltingarinnar og þýsku rómantíkurinnar þegar það hafa verið sett á okkur hryðjuverkalög þar sem við megum dúsa með skuggalegustu þjóðskipulögum heims og þjóðhöfðingjum sem enginn vill hitta í myrkri.
Hver Osama bin Laden er í þessu dæmi skal ósagt látið, en margir af auðjöfrunum eru flúnir land og láta ekki ná í sig eða aka um með lífverði sér við hlið. Verður ekki allt tal um turnana tvo í íslenskum stjórnmálum dálítið kaldhæðnislegt í þessu samhengi? Hafa þeir ekki orðið fyrir hryðjuverkaárás, jafnvel sjálfsmorðsárás? Eru þeir ekki hrundir og það af eigin völdum? Ég ætla heldur ekki að líkja neinum við feðgana Kim Yong Il og Kim Il Sung, en stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra virðast hafa sagt við auðmenn þessa lands þegar þeir báðu þau um þjóðskrána: Já, gjörið þið svo vel. Er ekki eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur?
Þetta eru auðvitað ekkert annað en landráð, hafi það orð einhverja merkingu lengur, og það er því skýlaus krafa okkar sem eigum ekkert nema sjálf okkur og börnin okkar að eignir auðmannanna verði frystar strax, og kerfið hætti að rannsaka sjálft sig. Almenningur vill að fjármálaeftirlitið sé sett af og það og aðrar eftirlitsstofnanir séu rannsakaðar; líka Seðlabankinn, líka ríkisstjórnin. Menn sem hafa haft hagsmuni af sukkinu eru látnir rannsaka sukkið, og fjármálaspillingin teygir sig jafnvel inn í ríkisstjórnina, en við sitjum uppi með risavaxinn reikning, tólf þúsund milljarða, og þeir ætlast til að við borgum, við, börnin okkar og barnabörnin og barnabarnabörnin líka.
Ég hirði ekki um að halda romsunni áfram, slíkur er glæpurinn sem framinn hefur verið, og þessi glæpur hefur verið framinn með vitund stjórnmálamanna, þeirra sem einkavæddu bankana, gáfu þá raunar pólitískum vildarvinum, já létu þá í hendur fjárplógsmanna sem veðsett hafa okkur langt fram í tímann og gert okkur að bónbjargarmönnum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum lánastofnunum.
Við erum gíslar á lögreglustöð heimskapítalismans, því reikningurinn sem skilinn var eftir á veitingahúsi hans er svo stór að enginn getur borgað hann og ríkisstjórnin segir ekki eins og strákarnir í Englum alheimsins: Við erum öll saman á Kleppi, það væri of gott til að vera satt, heldur segir hún: Þjóðin borgar. Við munum pína skrílinn. Já, ríkisstjórnin er alveg jafn ábyrgðarlaus og strákarnir sem snæddu á Grillinu í áðurnefndri sögu. Munurinn er bara sá að samfélagið var búið að taka af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin var kosin til að axla ábyrgð.
***
Marktækur hagfræðingur, sem var búinn að vara okkur við, segir að ríkisstjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútímahagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn. Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán og nú vita þau ekki hvernig unnt er að ná jafnvægi aftur þegar pappírsauðurinn er horfinn.
Og hagfræðingurinn bætir við: Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld.
Þarf frekari vitnanna við? Hvað segja stjórnvöld og hvað segja fjárplógsmennirnir? Þau segja ekkert og þeir segja ekkert. Enginn segir neitt. Það ætlar enginn af þessu fólki að axla ábyrgð. Sigurjón bankastjóri, sem lýsti ICESAVE-reikningunum sem tærri snilld, segist ekki bera neina ábyrgð, og Halldór Kristjánsson félagi hans ekki heldur, en þessum reikningum var komið á fót þegar engir marktækir bankar vildu lengur lána íslensku bönkunum. Já, þá var þeim komið á fót með ábyrgð í þjóðskránni. Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn, sagði Sigurjón bankastjóri hlæjandi við blaðamann einhvers viðskiptablaðsins. Það bættust við fimmtíu milljónir punda bara á föstudaginn! Þetta hafa verið skemmtilegir föstudagar sem við fáum nú í hausinn.
Bera slíkir menn enga ábyrgð? Ekki segja þeir, og allir meðvirku stjórnmálamennirnir taka undir. Það má ekki dæma, það má ekki hafa skoðun. Samt er enginn að æpa úlfur úlfur, þeir halda bara sjálfir eða heyra það löngu á undan öllum öðrum, en þegar jafnvel götunnar menn sem stela einum lifrarpylsukepp og koníaksfleyg þurfa að sæta ábyrgð er ekkert nema eðlilegt að þeir sem hafa komið þjóðinni á kaldan klaka geri grein fyrir máli sínu og reyni að bæta fyrir brot sín, jafnvel þótt brotin kunni að vera lögleg og hafi gerst með blessun stjórnvalda. Hér er einfaldlega svo miklu meira í húfi; þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengirnir eftir einhverri hvítbók, það væri eins hægt að syngja fyrir okkur gamla Flowers-lagið Slappaðu af, nema að verið sé að viðurkenna að við séum eins og Breiðavíkurdrengirnir, við höfum verið misnotuð í einhvers konar kennitöluflakki um öll hagkerfi heimsins og gott ef ekki sólkerfi.
***
Sú hagfræðibóla, sem stjórnvöld settu engar skorður, var svo augljós vitleysa og stjórnvöldum var margsinnis bent á það, nei ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur hvað eftir annað. En í stað þess að taka mark á þessum ráðleggingum fóru ráðherrarnir út í lönd sem kynningarfulltrúar bankanna. Héldu Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún virkilega að ástandið myndi lagast ef þau héldu blaðamannafundi? Hvaða stjórnspeki er þetta eiginlega? En þetta fólk ber auðvitað enga ábyrgð. Þau gátu ekki séð þetta fyrir, segja þau. Nei, þau hlustuðu bara ekki á neinar viðvaranir, þar liggur ábyrgðin, og þess vegna á að skylda þau til að hlusta á það sem við erum að segja.
Það voru orðin hálfgerð trúarbrögð að hægt væri að kjafta ástandið upp og niður, enda réð ríkisstjórnin einn aðalkjaftaskinn til sín sem ráðgjafa og hann hætti þegar hann komst að því að ráðgjafastörfunum fylgdi vinna. Við viljum líka sjá ábyrgð greiningardeildafólksins, sem virðist hafa verið í vinnu við að ljúga að okkur. Skoðið tekjublað Frjálsrar verslunar og sjáið hvað þetta fólk var með í laun! Sjaldan undir fimm milljónum á mánuði. Fyrir hvað? Fyrir að ljúga? Skoðið líka hvernig fólk nátengt ríkisstjórninni hefur makað krókinn, og nú ætlar þetta fólk að fara að rannsaka sjálft sig. Það er annars merkilegt að tekjublað Frjálsrar verslunar er allt í einu orðið eins og mögnuð heimildaskáldsaga. Fyrir hvað voru forstöðumenn greiningardeilda, fyrirtækjasviða og ég veit ekki hvaða sviða að fá sjö milljónir, átta milljónir, tíu milljónir, í mánaðarlaun? Ef Jóhann Páll Valdimarsson borgaði ljóðskáldum slík laun myndi Forlagið strax fara á hausinn. Samt virðast mér ljóð margra skálda margfalt verðmætari en pappírarnir sem þetta fólk var að sýsla með. Verður þetta fólk ekki líka að axla ábyrgð, reikna sér eðlileg laun og skila afganginum upp í skuldir? Öðruvísi verður engin sátt í þessu þjóðfélagi. Þannig er Ísland í dag.
Eða eigum við nú þegar skuldunum rignir yfir okkur að fara bara með reikningana okkar út í tunnu og halda síðan blaðamannafund? Hvað á fólkið sem nú missir húsin sín, vinnuna, að gera? Á það að halda blaðamannafund? Eins og stjórnvöld. Sjá menn ekki hvílík vanhæfni hér er á ferð? En þau bera enga ábyrgð. Samt stjórna þau landinu. Halló! Þetta er eins og að segja: Ég rústaði húsinu, en ég ber enga ábyrgð af því að ég gerði mér ekki grein fyrir að ég væri að rústa húsinu. Myndi einhver taka slíka röksemdafærslu gilda? Nei, en þetta er röksemdafærslan sem okkur er boðið upp á.
Geir Haarde átti að vita að hann var á hriplekum báti, en hann sagði: Við róum bara áfram og sjáum hvað gerist. Það er best að gera sem minnst. Það var speki frjálshyggjunnar, að gera ekki neitt. Aðspurð um vanda bankanna sagði hinn leiðtogi ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún: Þetta er fræðilegt vandamál, og bætti við: Ég fæ ekki betur séð en að bankarnir standi ágætlega.
Hún sagði ekki þetta er hræðilegt vandamál, heldur fræðilegt, og fór svo til Köben með Sigurði Einarssyni, fjármálafurstanum sem nú byggir sér níu hundruð fermetra sveitasetur í Borgarfirðinum og hefur nýverið látið bankann sem farinn er á hausinn kaupa handa sér hús í London upp á tvo milljarða. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún ætla kannski að sitja með Sigurði Einarssyni og dást að sólarlaginu í Borgarfirðinum og segja: Þetta er fræðilegt vandamál, þegar allir verða farnir úr landinu, og Sigurður Einarsson, varla ber hann ábyrgð, þessi mikli snillingur, sem fyrir örfáum vikum fékk hundruð milljóna í kaupauka. Fyrir hvað? Þetta var maðurinn sem hótaði að fara úr landi ef hann fengi ekki ofurlaun.
Já, Ingibjörg Sólrún, hvað varð af hinni hagsýnu húsmóður kvennalistans? Það eru ekki bara unglingar sem lenda í vondum félagsskap. Stjórnvöld hafa verið í vasanum á ábyrgðarlausum fjármálafurstum og nú ber þeim að taka ábyrgð á því.
Nei annars, þetta er ekki þeim að kenna. Þau bera enga ábyrgð. Geir Haarde forsætisráðherra segir að kreppan sé bara einhver óþægilegur vindur sem kom frá útlöndum, svipaður óveðrinu í síðustu viku, og ef það hefði ekki gerst, ef það hefði ekki blásið, þá væri allt í himnalagi. Það var sem sé ekkert að, bara ef bullið gat haldið áfram. Allt fjármálasukkið, ofurlaunin, kaupaukarnir, endalaus sala á verðlausum bréfum og endalaus niðurlæging á fólki sem vann heiðarleg störf. Laun Lárusar Weldings bara fyrir að byrja í bankanum voru hærri en ævitekjur flestra vinnandi manna. Rithöfundur þyrfti líklega að skrifa tugi metsölubóka til að vera andvirði eins fótspors hjá Lárusi Welding. Er þetta eðlilegt verðmætamat? Vita menn í hvað ICESAVE-peningarnir fóru? Er það satt að þeir hafi verið lánaðir til Baugsfyrirtækja sem nú skulda hundruð milljarða á meðan eigendur fyrirtækjanna monta sig af lystisnekkjum, einkaþotum, lúxusíbúðum, sveitasetrum og hótelum? Það virðist hafa verið samkomulag fjármálafurstanna að lána hver öðrum út á veð sem ekkert stóð á bak við. Og þetta finnst stjórnvöldum bara allt í lagi; og þau ætla að fara hægt í sakirnar og ekki að dæma.
Eini vandinn er sá að þetta fékk ekki að halda áfram. Það segir Geir Haarde. Nákvæmlega sama viðhorf birtist hjá Jóni Ásgeiri. Maðurinn heldur því blákalt fram, og virðist trúa því sjálfur, af svipbrigðum hans að dæma, að fyrst þeir fengu ekki meira lán til að halda vitleysunni áfram þá hafi bara allt stoppað og það sé allt Davíð að kenna. Maður gæti haldið að Jón Ásgeir væri alinn við einhverja sérstaka útgáfu af Davíðssálmum, svo hugleikinn er Davíð honum. Jón Ásgeir notar sömu rök og drykkjumaðurinn sem segir að það sé allt í lagi að keyra fullur, bara ef hann er ekki tekinn, og þegar hann keyrir á ljósastaur er það ljósastaurnum að kenna. Síðasti bankinn sem ekki gat lánað, hann gerði mig gjaldþrota! Eigum við að kaupa þetta bull? Það kann vel að vera að eitt og annað hafi verið óheppilegt við yfirtöku bankanna, til dæmis Glitnis, en hefði verið heppilegt að lána banka sem var kominn í þrot miklar fjárhæðir? Ef ég skuldaði Jóni Ásgeiri margar milljónir myndi hann þá lána mér fleiri milljónir? Skuldir banka og fyrirtækja voru einfaldlega orðnar svo miklar að dæmið gekk ekki upp. Talað er um að Stoðir skuldi 260 milljarða, Eimskip um 200 og þar fram eftir götum.
Þess vegna erum við orðin þreytt á öllu þessu bulli. Við þessar aðstæður er ríkisstjórnin rúin öllu trausti nema hún taki til hendinni og beri niður þar sem eitthvað er að sækja. Það er rétt, við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna, en við erum farin að heyra mjálmið og afneitunina. Stjórnmálamennirnir munu fylla eyru okkar af langlokum og afsökunum. Þeir vonast til að geta setið af sér storminn eins og þeir eru vanir að gera. Eins og Bjarni Ármannsson var sérfræðingur í. Hann hefur kannski kennt þeim trikkin. Var það ekki Pétur Blöndal sem uppgötvaði Bjarna, Pétur Blöndal sem sagði þessa skemmtilegu setningu í þættinum Mannamál í sjónvarpinu á sunnudag: Ég viðurkenni ekki neitt.
Eitt hafa stjórnvöld þó framkvæmt, það er að koma sér upp sérsveit lögreglu, en að við séum búin að missa landið út úr höndunum, að hér ljúki sögu lýðveldisins, og það allt af því að örfáum fjárplógsmönnum var gefinn allt of laus taumur, það er auðvitað þyngra en tárum taki, því satt best að segja hef ég alltaf kunnað vel við lýðveldið og ég geri ráð fyrir að sakna þess þegar fram líða stundir.
Nei, ég get ekki gert mikið fyrir ríkisstjórnina, en vil þó nesta hana með einu ljóði sem henni er frjálst að fara með næst þegar hún hittir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og önnur yfirvöld af veraldlegum toga, en það heitir einmitt Síðasta tilboð Íslendinga og er að finna í ljóðabók með því viðeigandi nafni: Í auga óreiðunnar.
Því miður, herra framkvæmdastjóri,
ég hef ekkert að bjóða
í þessum samningaviðræðum
nema þrjú tonn af kokteilsósu,
örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu
og allar hljómplötur Árna Johnsens.
Höfundur er rithöfundur.
Af hverju gaf viðskiptaráðherra loforð sem ekki var hægt að standa við? Erum við að renna sífellt hraðar niður hála brekku án þess að geta stoppað okkur?
27.10.2008 | 18:55
Ég sé ekki betur en að viðbrögð Breta vegna samtals Darling við Árna Matthiesen hafi verið réttlætanleg útfrá þessu bréfi sem sent var 5. október, eða tveimur dögum fyrir samtalið fræga, þar sem oft var vísað í þetta bréf.
Ef viðskiptaráðuneytið hefur verið búið að lofa skattpeningum Íslendinga margar kynslóðir fram í tímann hlýtur íslenska þjóðin að þurfa að standa við þá skuldbindingu. Eða hvað?
Ef við erum búin að gefa skjalfest loforð, hvernig getum við réttlætt að fara ekki eftir því tveimur dögum síðar? Þarna virðast alvarleg mistök hafa verið gerð, en alls ekki einu mistökin í þessu furðulega máli. Þetta er eins og að kaupa hús og tveimur dögum síðar tilkynna seljanda að hugsanlega getum við ekki borgað það.
Auðvitað fýkur í seljandann.
Annað mál og áhugaverðara
Reyndar erum við komin á svolítið merkilegan rökfræðilegan flöt, sem hægt væri að kalla rökvilluna hála brekku (slippery slope fallacy) sem þýðir að við höfum byrjað að renna niður hála brekku og í stað þess að hægja á okkur, aukum við sífellt hraðan, þó að við viljum helst vera efst í brekkunni. Ég er farinn að halda að stjórnmálamennirnir okkar séu einfaldlega ekki nógu klókir til að átta sig á því að eftir að maður hefur gert ein stór mistök, hefur maður tilhneigingu til að gera önnur enn stærri áður en maður vinnur sig út úr sjokkinu sem fylgdi því að gera fyrstu mistökin, en þannig halda mistökin áfram að vinda upp á sig. Eina leiðin út úr svona ísbrekku er að höggva í ísinn með haka og halda sér fast.
Það er ljóst að ísinn sem um ræðir er verðbólgan, gengið og fjármálaumhverfi okkar í dag, og að höggva verður í þó að það skilji eftir sig einhverjar rispur og göt. Það þarf til dæmis að uppræta verðtryggingu á lánum þegar allar forsendur verðtryggingar hafa gufað upp og sýnt er að skuldarar munu annars renna stanslaust með í brekkunni. Reyndar gæti það þýtt að eigendur renni þess í stað. Þetta er spurning um val: viljum við að eigendur tapi einhverju eða að skuldarar tapi öllu?
Ef það verður ekki gert verður að minnsta kosti að gefa fólki sanngjörn úrræði.
Það verður spennandi að heyra hvað verður gert fyrir þennan venjulega Íslending sem hefur aðeins gerst sekur um að kaupa sér húsnæði og kannski notaðan bíl, en aldrei vogað sér út í að kaupa flatskjá, risastórt einbýlishús með sundlaug og margra milljóna krónu jeppa.
Ég bíð spenntur eftir góðum fréttum.
Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)