Færsluflokkur: Bloggar
Viltu heyra sannleikann?
30.4.2010 | 07:46
Ég var aldrei góður í Morfís, hvorki sem keppandi né þjálfari. Af sömu ástæðu yrði ég aldrei góður stjórnmálamaður innan íslenskrar umræðuhefðar. Ég ber of mikla virðingu fyrir sannleikanum og hversu erfitt er að nálgast hann, til þess að ég geti gert lítið úr öllu því ferli með þeim hætti sem gerður er í þing- og hátíðarsölum.
Reyndar þjálfaði ég sæmilega sigursælt lið til ræðukeppni þegar ég kenndi við mexíkóskan framhaldsskóla, en í þeirri keppni voru reglurnar svolítið öðruvísi en í Morfís og dómararnir afar harðir og þekktu vel flestar rökvillubrellurnar í bókinni. Keppendur voru dregnir niður fyrir að nota sannfærandi áherslur frekar en staðreyndir eða góð rök.
Það var lögð mest áhersla á að koma raunverulegri þekkingu til skila og undantekningarlaust voru málefnin sem rætt var um byggð á raunverulegum málefnum í nútímasamfélagi, og þurfti að ræða málin af dýpt. Ég man að eitt umræðuefnið var "Morðin í Juarez" þar sem keppendur þurftu að grafast fyrir um hverjar orsakirnar voru fyrir því að mikill fjöldi kvenna hafði verið myrtur í Juarez. Þetta var ekki með eða á móti, heldur þurftu liðin að rannsaka málið, koma með kenningu og standa við hana sem hópur. Reyndar var passað upp á að ólík lið væru ekki með sömu kenningu.
Einnig var lögð áhersla á að keppni og alvara væru tvennt ólíkt, að þessi ræðuhöld voru fyrst og fremst gerð til leiks og þjálfunar á rökhugsun, og góður undirbúningur fyrir leiðtogastörf.
Morfís er keppni í ræðuhöldum. Stjórnmálaumræðan á Íslandi er í kappræðustíl. Alls ekki ósanngjarn samanburður. Kappræður snúast um að taka afstöðu og nota öll tiltæk rök til að standa við þá afstöðu, óháð því hvort afstaðan sé í raun heilbrigð, góð eða rétt. Sá vinnur sem rökstyður betur, ekki endilega sá sem hefur rétt fyrir sér.
Vandamálið vex þegar fólk hættir að greina muninn á kappræðu og samræðum, en í samræðum er niðurstaðan ekki gefin fyrirfram, frekar en hún ætti að vera þegar leitað er góðra markmiða út frá sanngjörnum kröfum, og unnar lausnir út frá markmiðunum með því að átta sig á veruleikanum, en ekki þeim sýndarveruleika sem kappræðustíllinn skapar.
Þegar þú ræðir málin út frá fyrirfram gefinni skoðun ertu dæmd(ur) til að standa við þá skoðun og berjast við að fylla upp í rökholur með öllu tiltæku. Þar sem ekkert rökvillueftirlit er til á Íslandi, þá er ofgnótt af slíkri notkun í umræðunni. Algengastar virðast vera þær villur þegar málefni er dæmt fyrirfram útfrá skoðunum á einstaklingi eða hópi. Tilfinningarnar í slíkri umræðu yfirgnæfa alltaf hina hógværu og hljóðlátu skynsemi, sem fæstir virðast sjá, enda á umræðan til að gruggast eftir stöðugt skítkast.
Mælskulist er að sjálfsögðu ekki illt fyrirbæri þegar henni er tekið sem leik. Hún verður hins vegar að afar öflugu tæki í höndum þeirra sem eru færir að nota það, og sérstaklega þegar áheyrendur kunna ekki að greina rök frá rökvillu, gilda röksemdafærslu frá ógildri, áreiðanlegar heimildir frá óáreiðanlegum, sannsögli frá lygum, heilindi frá klækjum, kjarna frá hismi.
Þetta fyrirbæri er þekkt meðal vísindamanna sem kannast vel við að vísindalegar kenningar eru opnar fyrir stöðugri gagnrýni, og reyndar er þörf á slíkri harðri gagnrýni til að sannreyna vísindalega þekkingu, sem þó telst aldrei fullkomlega örugg. Þegar fræðimenn koma hins vegar fram með kenningar sem þeir eru sannfærðir um að séu 100% öruggar, sannar og réttar, það er einmitt þá sem rétt er að hafa varann á og kanna vel rökin sem liggja á bakvið, hverjar forsendurnar eru og af hverju þeim er haldið fram.
Ef þú heyrir einhvern fullyrða að eitthvað sé staðreynd sem vísindin hafa endanlega sannað, þá þarftu að hlusta vandlega og velta fyrir þér hvort það geti verið rétt. Ég hef ekki enn rekist á þá vísindalegu kenningu sem allir fræðimenn viðkomandi sviðs eru sammála um. Og þó þeir væru það, hvernig gætu þeir vitað með fullvissu að kenningin sé sönn?
Það virðist lítið ekkert pláss fyrir efasemdir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það virðist vera lítið umburðarlyndi gagnvart óvissu og sannleiksleit. Ef viðkomandi hefur ekki öll svör tilbúin, helst í gær, þá fellur viðkomandi hratt í áliti og verður ekki hlustað á hann. Því verður hinn athyglisþurfandi stjórnmálamaður að vera fljótur að sjóða saman svör, hvort sem þau innihalda þekkingu eða bara sannfæringu, því eitthvað er betra en ekkert í þeim heimi.
Það þarf ekki bara að breyta stjórnmálamönnum og ræðutækni þeirra, heldur þurfum við að læra virka hlustun og taka þátt í umræðunni. Eigin skoðanir þroskast betur með þátttöku í heldur en með hljóðlátri hlustun.
Kannski fjölmiðlar hafi ýtt undir menningu þar sem fáir útvaldir eru þjálfaðir til ræðumennsku og tjáningar, en gífurlegur meirihluti situr þögull heima í stofu og tekur við skilaboðum frá þessum þjálfuðu einstaklingum í formi frétta eða skoðanaskipta, án þess að taka sjálfir virkan þátt í umræðunni. Ætli múgurinn og margmennið sem situr heima í stofu átti sig á hversu mikið vald getur falist í því að láta eigin rödd heyrast, þó ekki sé nema með athugasemd á bloggsíðu, eða kjósa með veskinu?
Fyrir hvert andlit sem birtist á sjónvarpsskjá og tjáir eigin skoðun eða flokksins sitja þúsund manns þögulir heima í stofu og koma eigin rödd aldrei út til þjóðfélagsins, nema kannski á óbeinan hátt með kaffistofurabbi og öðru spjalli. Þannig er íslenskur veruleiki í dag. Þannig er þetta um allan heim. Kerfið er til staðar og við látum stjórnast af því án þess að hafa val um hvaða áhrif það hefur á líf okkar og ákvarðanir, framtíð þjóðar okkar og sjálfsmynd.
Mér hefur oft blöskrað, sérstaklega þegar flokksfélagar flykkjast fyrir framan sjónvarpsmyndavélar til að réttlæta glötuð málefni með orðskrúði og bulli, og komast upp með það.
![]() |
Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Af hverju þykir í lagi að múta ríkisstarfsmönnum á Íslandi?
27.4.2010 | 16:21

Í Noregi mega starfsmenn á vegum ríkisins ekki þiggja gjafir í neinu formi. Ekki veiðiferðir, vínflösku, konfektkassa eða flugferð. Hvað þá styrki í formi peninga!
Þar er ríkisstarfsmönnum stranglega bannað að taka á móti styrkjum eða gjöfum í hvaða formi sem er. Þetta þykir eðlilegur hugsunarháttur, til þess gerður að koma í veg fyrir spillingu. Það sama á við um stjórnmálamenn, enda eru þeir annað hvort að sækjast eftir stöðu hjá ríkinu eða þegar komnir í hana.
Komist það upp að norskur stjórnmálamaður eða embættismaður hafi þegið gjöf frá viðskiptavini eða fyrirtæki, er viðkomandi neyddur til uppsagnar strax, en viðtaka á slíkum styrkjum og gjöfum er grunnforsenda spillingar.
Þó ég sé ekkert sérlega hrifinn af öllu banntalinu sem hefur verið í gangi, finnst mér að banna ætti styrki og gjafir til opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna algjörlega.
Það þætti mér gott fyrsta skref í endurreisn íslensks siðferðis, frekar en að bölsóttast út í forseta Íslands sem hefur sér eitt til saka unnið að segja satt og vekja þannig aukinn áhuga ferðamanna á Íslandi, en það hef ég heyrt af fólki erlendis að þeim þyki Ísland einmitt spennandi fyrir hversu óútreiknanlegt það er, og þeir sem ég hef rætt við um orð forsetans, finnst það hinn eðlilegasti hlutur að forsetinn segi frá slíkum hlutum.
Þegar ég segi þeim að fulltrúar ferðaþjónustu og ríkisstjórnar hafi gagnrýnt forsetann harðlega fyrir orð sín, þá fyrst birtist hneykslunarsvipurinn. Fólk leitar ekkert endilega í þægindi og öryggi á Íslandi. Ævintýramennskan heillar meira.
Siðferðisvitund okkar virðist því miður vera í duftinu.
- ICESAVE 3 samþykkt af leiðtogum ríkisstjórnar þrátt fyrir skýr skilaboð frá þjóðinni
- Sparifjáreigendum bætt tap, en heimili settur úrslitakostur
- Mútur eru í lagi, bara óþægileg staðreynd
Hvað er að?
Mynd: Mirror.co.uk
![]() |
Óþægilegt fyrir Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hvenær skal gagnrýna manninn og hvenær málefnið?
26.4.2010 | 17:15

Undanfarna mánuði hefur nafn Davíðs Oddssonar varla mátt birtast í fjölmiðlum án þess að maðurinn á bakvið nafnið sé gagnrýndur eða honum hælt, fyrir það eitt að vera sá maður sem hann er og að eiga sér þá sögu sem hann á. Sams konar hróp eru gerð að Ólafi Ragnari, Steingrími Joð, Jóni Ásgeiri, Björgólfsfeðgum, Pálma í Fons, Árna Páli, Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi, Bjarna Ármanns og þannig má lengi telja. Þetta virðist eiga helst við um stjórnmálamenn og auðglæframenn.
Sama hvað fólk hefur miklar tilfinningar gagnvart manneskju, hvort sem þessar tilfinningar eru jákvæðar eða neikvæðar, er afar varasamt að láta þær hafa afgerandi áhrif á samræður sem eru í gangi. Ég hef heyrt fólk nota orðalag eins og "nú óx hann í áliti hjá mér" eða "nú féll hún í álit hjá mér", eins og það komi málefnum eitthvað við.
Þegar gagnrýni er beint að manneskju frekar en málefni er verið að útskúfa viðkomandi úr samræðunni. Þó að viðkomandi hafi tækifæri til að svara fyrir sig, hefur þegar verið vegið að orðspor hans. Það getur dugað til að gera málið marklaust. Sé manneskjum fyrirfram útskúfað, glatar samræðan mikilvægum eiginleika gagnrýninnar: að taka öll sjónarhorn og allar skoðanir til athugunar, sama hvaðan þau eða þær koma, og svo framarlega sem þau koma málinu við og séu vel rökstudd.
Hróp að manneskju er merki um skort á hæfni til gagnrýnnar hugsunar. Stundum er þessi hæfileikaskortur tímabundinn og þá oft tengdur sterkum tilfinningum, eða langvarandi og hefur meira með slaka menntun, þroska eða uppeldi að gera heldur en skap. Gagnrýnir hugsuðir þurfa nefnilega ekki alltaf að vera yfirvegaðir og rólegir, þó að það sé oft æskilegt þegar verið er að ræða málin. Reiði er hægt að beita bæði á réttan hátt og rangan.
Rangur farvegur er að gagnrýna manneskjuna frekar en málefnið.
Gagnrýni á manneskju er alvarlegt mál. Slíkt á aðeins við ef manneskjan hefur sannarlega brotið af sér, og þá verður gagnrýnin að ásökun og jafnvel ákæru fyrir dómi. Slíkt þarf að vera afar vel rökstutt, og helst þyrfti áreiðanlegur dómstóll að vera búinn að dæma í viðkomandi máli. Þegar reiði finnur sér hins vegar engan farveg, þegar ekki er hægt að gera upp mál, þegar dómstólar og lögin virka ekki, þá er eðlilegt að reiði brjótist fram gegn þeim manneskjum þar sem ekki tekst að ljúka málum. Sú umræða hefur fullan rétt á sér í samfélagi manna, en sú umræða verður aldrei gagnrýnin.
Svar mitt við spurningunni hér að ofan er: aldrei. Það skal aldrei gagnrýna manneskju á kostnað málefnis, sé þér annt um að málefni leiði til skynsamlegra ákvarðana eða skoðana, og sé þér annt um að málin endi í góðum farvegi. Hins vegar er skiljanlegt þegar engar úrlausnir eru til að reiði brýst út sem gagnrýni á manneskjur.
Á sama hátt er öll umræða þar sem stjórnmálaflokkur er gagnrýndur á kostnað málefnis, tilgangslaus fyrir gagnrýna hugsun. Gagnrýnin hugsun snýst um málefni. Ekki ætti að gagnrýna manneskjur á meðan málefnin eru rædd, jafnvel þó svo að málefnið sé manneskjan sem rætt er um.
Það þarf að finna jafnvægi á milli tilfinninga og hugsunar. Til að koma á þessu jafnvægi þurfum við að finna leiðir til að réttlætið nái fram að ganga. Réttlætið er nefnilega ekki bara eitthvað óraunverulegt hugtak sem skiptir engu máli þegar lög eru annars vegar, heldur undirstaða bæði laga og siðferðis. Án réttlætis eru engin lög, án sanngirnis ekkert siðferði.
Mig grunar að réttlæti sé einhvers konar hugtak um jafnvægi í mannlegum samskiptum, en að sanngirni sé tilfinning um jafnvægi í mannlegum samskiptum. Grundvöllur samfélagssáttar felst í að jafnvægi verði á milli hugmynda fólks um sanngirni og réttlæti. Og til að samfélagssátt verði til þarf að finna útrás fyrir reiði fólks gagnvart einstaklingum sem talið er að hafi brotið alvarlega af sér gagnvart eigin þjóð.
Best er að þessar leiðir séu löglegar og framkvæmdar af opinberu valdi. Verði það ekki gert, mun þessi reiði auka ójafnvægi og vantraust þegna gagnvart bæði hinu opinbera valdi og þeim einstaklingum sem ekki þurfa að svara til saka fyrir gerðir sínar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kemst ríkisstjórnin upp með að brjóta gegn skýrum vilja þjóðarinnar?
19.4.2010 | 09:53
Um 93% kjósenda sem þátt tóku í þjóðaratvæði um ICESAVE kusu gegn því að gengið yrði að ICESAVE 2 samningnum. Nú kemur í ljós að forsprakkar ríkisstjórnarinnar eru búnir að skrifa undir ICESAVE 3 án umræðu. Hugmyndin er að borga Bretum og Hollendingum skuldir einkafyrirtækjanna úr vösum alþýðunnar að fullu og með vöxtum!
Þægilegt fyrir ríkisstjórn að fela svona stórfréttir í skjóli eldgoss og rannsóknarskýrslu.
Þekkt taktík. Þetta minnir svolítið á smáfréttina um daginn þegar lögreglan á Suðurlandi tók eftir þekktum innbrotsþjófum sem virtust ætla að laumast inn í tóma bæi í skjóli eldgoss. Mikilvægt að hafa augun opin þegar stórfréttir skyggja á minni fréttir.
Kemst ríkisstjórnin upp með þetta?
Er íslenska þjóðin jafn heimsk og spunameistarar stjórnmálaflokka virðast reikna með?
Hefur þar með tekist að reisa skálkaskjól eða skjaldborg yfir þingmenn, útrásarvíkinga og bankamenn, undir eldfjallinu?
Þeir sem skrifuðu undir þessa viljayfirlýsingu til að fá í gegn lán frá AGS:
- Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
- Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
- Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra
- Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Svar mitt við spurningunni sem ég spyr er "Já". Ríkisstjórninni mun takast að brjóta gegn skýrum vilja þjóðarinnar vegna þess að fólk er orðið leitt á ICESAVE, nennir þessu ekki lengur, stutt í sumarið og þá hverfa öll vandamál að sjálfu sér.
Það væri óskandi að ég hefði rangt fyrir mér í þetta skiptið og að alþýðan bregðist við á viðeigandi hátt.
En hversu líklegt er það á þessu augnabliki?
Sjá nánar ágæta grein Guðmunds Ásgeirssonar sem vakti athygli á þessu síðasta laugardag.
E.S. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að skrifa ekki oftar um ICESAVE, en mér finnst þetta mál svo skuggalegt og grimmt, að ég stóðst ekki mátið.
![]() |
Ábyrgjast Icesave- greiðslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hverjir eiga að víkja?
17.4.2010 | 07:08

Íslenska stjórnkerfið er ónýtt. Hefur verið mótað til að atvinnupólitíkusar geti setið á þingi alla ævi og fengið síðan ljómandi eftirlaun. Þessu kerfi hefur tekist að gleypa lýðræðishugsjónina, sem gengur út á það að fólk spillist við völd, og því verði að skipta fólki reglulega inn og út. Miklu oftar en gert er á Íslandi. Til dæmis mætti takmarka hámarkssetu á þingi við 8 ár. Bara sú regla gæti stórbætt kerfið.
Það þýðir aftur á móti að reynsluboltar í pólitík yrðu ekki lengur til og sífellt viðvaningar við völd. Það er varla eðlilegt að tvíhöfði ríkisstjórnarinnar hafi setið samtals um 60 ár á þingi? Erfitt að segja hvort sé betra: spilling eða reynsluleysi. Ég kýs reynsluleysið og minni völd ríkisins.
Lýðræðið varð til sem svar við einræði og spillingu sem slíku tengist. Eftir því sem stjórnmálamenn sitja lengur, færist lýðræðið nær einræði. Kerfið seilist sífellt til einræðis, því það virkar svo miklu betur, er hraðvirkara og þarf ekki mikla skriffinnsku. Lýðræðið er hins vegar afar þungt í vöfum, en það er einmitt til þess að koma spillingunni fyrir kattarnef, gera henni eins erfitt fyrir og mögulegt er. Gagnsæi og allt upp á borði. Það er hin lýðræðislega hugsjón. Lýðræði er ekki skemmtilegt. Það er hundleiðinlegt, og fólk sækist ekkert sérstaklega í það. En það virkar þegar grundvallarreglum er fylgt eftir: að stokka reglulega upp (fyrir alvöru) og skrásetja öll embættisverk.
Íslenskir stjórnmálamenn eru eins og strætóbílstjórar sem keyra vélarlausan vagn á tréhjólum sem dreginn er áfram af embættismönnum, skattborgurum og farþegum.
Mynd: I Want A Volkswagen Bus
E.S. Þannig hófst færslan upphaflega en ég ákvað að klippa hana svolítið til:
Loksins þegar sannleikurinn er kominn í ljós á þá Þorgerður að víkja?
Er Þorgerður ekki manneskja sem sjálfstæðismenn kusu á þing? Eiga þeir ekki að standa við bak hennar gegnum þykkt og þunnt? Væri ekki einnig betra að Björgvin og Illugi yrðu áfram á þingi til að viðhalda þeim pirringi sem nærvera þeirra veldur?
Einmitt að leyfa Þorgerði að sitja áfram og sjá hvernig málið leggst í kjósendur. Það væri verra að fá manneskju í staðinn sem enginn veit neitt um. Svona rannsóknarskýrslur verða líklega ekki gefnar út á hverju ári, en nóg er af efnivið í tug sambærilegra skýrsla á næstu tiu árum, reikna ég með.
![]() |
Vilja að varaformaðurinn víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsfrægar myndir af gosskýinu og ein úr gervihnetti
16.4.2010 | 05:49
Þessi glæsilega mynd, þegar orðin heimsfræg, eftir Ólaf Eggertsson á Þorvaldseyri prýðir forsíður flestra helstu netmiðla heims:
Smelltu á myndirnar til að sjá stærri útgáfu.
Mynd: Aftenposten
Önnur flott mynd, tekin af Brynjari Gauta:
Mynd: The Seattle Times
Á myndinni fyrir neðan sést öskuskýið úr Eyjafjallajökli sem er að lama flugsamgöngur til og frá Evrópu læðast yfir Bretland.
Mynd: BBC News, fengin frá NEODAAS/University of Dundee/AP
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað eru hryðjuverk, landráð og ítrekuð rán?
14.4.2010 | 06:00
Samkvæmt rannsóknarskýrslunni virðast hafa verið framin landráð og hryðjuverk gagnvart íslensku þjóðinni með skipulögðum og leyndum hætti, þar sem mikill fjöldi manna er samsekur.
Ég velti jafnvel fyrir mér hvort að einkavinavæðing bankanna flokkist undir landráð.
Í þessu frumvarpi til laga frá 2005 kemur fram að landráð fyrnist aldrei samkvæmt íslenskum lögum. Ætli það gæti flokkast sem landráð að breyta þessu?
Í núverandi refsilöggjöf fer lengd fyrningarfrests eftir lengd hámarksrefsingar sem lögð er við viðkomandi broti. Aðeins þeir glæpir þar sem hámarksrefsing er ævilangt fangelsi fyrnast aldrei skv. IX. kafla almennra hegningarlaga. Þetta eru landráð skv. 86. gr. og 87. gr. laganna, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess skv. 98. gr. og 100. gr., hryðjuverk skv. 100. gr. a, manndráp skv. 211. gr., mannrán skv. 226. gr. og ítrekuð rán skv. 255. gr.
Mér þótti þetta afar áhugavert, þar sem í umræðunni er talað um ráðherrafyrningu sem telst til 3ja ára eða glæpi þar sem viðurlög eru meira en 2 ár, á þetta ekki við. Gerist ráðherra sekur eða samsekur um hryðjuverk, landráð eða ítrekuð rán, ætti fyrning ekki að vera til staðar.
Það væri fínt að fá þessi fyrningarmál á hreint, sem og eðli þeirra glæpa sem framdir hafa verið.
Mér sýnist að flestir muni sleppa vegna fyrningarákvæða, nema þeir verði sóttir til saka fyrir hryðjuverk, landráð, eða ítrekuð rán.
Ég þykist ekki vita hver hin eina rétta lögfræðilega túlkun á þessum málum er, en umræða um þetta er nauðsynleg.
Heimildir:
131. löggjafarþing 20042005. Þskj. 72 72. mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað eru íslensk stjórnmál?
13.4.2010 | 20:29

Stjórnmálaaflið er ofmetið tæki. Það er risastórt tannhjól sem bifast löturhægt og verður aldrei neitt annað, sama hvað við ímyndum okkur að það eigi að vera gagnlegt og flott, endurnýjað og gáfað.
Íslenska tannhjólið er tannlaust og spólar eins og jeppi í drullusvaði.
Mynd: How Stuff Works
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Riftum samningum vegna forsendubrests?
13.4.2010 | 15:26
Húsnæðislán hafa hækkað mikið síðustu árin, sérstaklega rétt fyrir og eftir Hrun. Húsnæðisverð hefur fallið. Skýrar ástæður er hægt að finna í rannsóknarskýrslunni.
Bankamenn undir slöku eftirliti tóku stöðu gegn krónunni og ollu margvíslegum efnahagslegum hermdarverkunum í samfélaginu, sem hafa skilað sér í gengisfellingu, hækkun vöruverðs, hækkun verðtryggðra lána, og þar fram eftir götunum.
Væri óeðlilegt að rifta lánasamningum við banka, á þeim forsendum að bankinn hefur ekki staðið við sína hlið skuldbindingarinnar og hefur markvisst grafið undan þeim grunni sem upphaflegur samningur var byggður á?
Hver er réttur einstaklinga gegn þessum ferlíkjum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðasta málsgrein 1. kafla rannsóknarskýrslu um efnahagshrunið endar á sérkennilegum, en skiljanlegum nótum. Þar er fólki bent á að auðvelt sé að vera vitur eftirá, og það þurfi að hafa í huga þegar skýrslan er lesin.
"Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin." (Úr fyrsta kafla rannsóknarskýrslunnar)
Er hins vegar ekki þeim sem taka ábyrgð borgað sérstaklega vel fyrir þessa visku, og þeim treyst til að vera vitrir fyrirfram, þannig að þeir skapi ekki ástand þar sem nauðsynlegt verður að vera vitur eftirá?
Það er ljóst að upplýsingar voru til og stjórnendur höfðu aðgang að þeim, sem sýndu skýrt og greinilega í hvað stefndi; og má segja að það þyrfti ansi þrjóska þverhausa til að loka eyrunum þegar viðvörunarbjöllur klingja yfir hausamótum þeirra. Kannski þeir hafi verið að hlusta á eitthvað allt annað en viðvaranirnar? Eitthvað sem hentaði betur?
Þegar ljóst er að fjöldi viðkomandi aðila hafði beinan fjárhagslegan gróða af þeim ákvörðunum sem "mistök eða vanræksla í starfi" höfðu áhrif á, þá er ekki við hæfi að benda á visku eða heimsku viðkomandi, heldur spyrja hvort að brotavilji hafi verið til staðar.
Smáþjófar fá varla sömu tækifæri til að vera vitrir eftirá og þeir sem eru gómaðir í meiri virðingarstöðum? Þessi viska rannsóknarnefndarinnar er sönn, en ég spyr hvort að hún sé viðeigandi. Eigum við að vera varkár eða vantreysta þeim sönnunargögnum sem felast í skýrslunni, eða nota þau til að mynda okkur traustar skoðanir á stöðu mála?
Eigum við að krefjast réttlætis þegar við sjáum að lög hafa verið brotin, sem beint og óbeint hafa komið öllum Íslendingum illa, og jafnvel orðið til þess að sumir örvænta og framkvæma í kjölfarið hluti sem aldrei er hægt að draga til baka. Eigum við að fyrirgefa fyrr en þeir sem eru að missa heimili sín vegna þessara voðaverka, hafa misst störf, hafa misst eigur; eigum við að fyrirgefa þrjótunum fyrr en búið er að laga hag þessa fólks?
Eiga þrjótarnir ekki að vinna samfélagsvinnu og beinlínis hjálpa með eigin vinnu öllu því fólki sem þjáist vegna þeirra? Fólki á Íslandi, í Hollandi, á Bretlandi, og víðar?
Sumar ákvarðanir er hægt að fyrirgefa, aðrar ekki, fyrr en búið er að bæta fyrir þær, leita fyrirgefningar og sýna raunverulega iðrun í verki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)