Færsluflokkur: Bloggar
Hvað eru draumar?
24.5.2010 | 07:40

Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri á gangi yfir brú með fulla appelsínugula poka og vinur minn gekk á eftir mér. Sjónarhornið var reyndar eins og frá mávi sem væri á flugi yfir, en undir brúnni baulaði kraftmikið fljót. Ég heyrði hróp og sneri mér við og sá þá að brúin hafði brotnað og vinur minn fallið í ána. Ég hljóp að handriðinu. Og sá vin minn öskra í örvæntingu og appelsínugula pokann belgjast út, en síðan hvarf hann hratt ofan í djúpið. Mig langaði að stökkva fram af brúnni og bjarga honum en gat ekki lengur séð hann og sá ekki betur en að þú myndi beljandi fljótið grípa mig með.
Áður en mér datt nokkuð í hug vaknaði ég.
Nú velti ég fyrir mér hvort að draumar þýði eitthvað. Og ef þeir þýða eitthvað, hvað þýða þeir?
Á síðunni draumur.is er til dæmis hægt að lesa hvað tákn í draumum eiga að merkja, en ég sé ekki betur en að merkingin sé frekar mótsagnakennd:
Það er álitið mikið gæfumerki að dreyma að maður sé að drukkna. Þó segja sumir að ef drukknunin er í sjó sé vissara að gæta sín á viðskiptalífinu, þú munir ekki ráða við hlutina. Ef þér þykir sem einhver bjargi þér, máttu reiða þig á að þínir nánustu eru þér hliðhollir. Að sjá einhvern annan drukkna er fyrir alvarlegum fréttum eða að þú lendir í vandræðalegri aðstöðu, gættu að öðrum táknum draumsins og þá sérstaklega nöfnum.
Hvernig túlkar maður þetta? Gæfumerki sem gefur til kynna að maður ráði ekki við hlutina, alvarlegar fréttir eða vandræðalegri aðstöðu? Þetta segir mér minna en draumurinn sjálfur.
Hvað eru annars draumar?
Ég hef heyrt þá kenningu að draumar séu skilaboð til manns sjálfs frá manni sjálfum. Gallinn er að ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef haft áhuga á að segja sjálfum mér með þessum draumi.
Ég hef heyrt þá kenningu að suma dreymi fyrir atburðum. Dreymi um hluti sem eru að gerast einhvers staðar annars staðar, eða dreymi fyrir um eitthvað sem mun gerast. Ég veit varla hvað það þýðir. Þýðir það að maður væri þá einhvers konar spámaður sem sér inn í framtíðina, eða hugartengsl (ESP) við einhvern fjarlægan vin?
Draumar um framtíðina væru þá þess eðlis að maður man eftir drauminum þegar atburðurinn gerist í raun og veru, svona Deja-Vu, en ég hef upplifað það nokkrum sinnum, sem og flestir aðrir sem ég hef talað við um þetta fyrirbæri. Það er svona tilfinning sem maður fær um að atburður sem er að gerast hafi gerst áður og þú getir séð fyrir hvað mun gerast næst, og það gerist. Ég man skýrt eftir Deja-Vu upplifun sem ég hafði þegar ég var nítján ára gamall, á þríhjólaleigubíl í miðborg Bangkok, þar sem ég fór að versla mér gleraugu. Merkileg upplifum, bílar og hjól allt í kring á mikilli ferð, og næstum allir að pústra á bílflauturnar, og þarna voru þessi gríðarstóru ljóslogandi auglýsingaskilti, enda var þetta þegar myrkrið hafði skollið á.

Seinna sagði ég mínum ágæta ritlistarkennara, Nirði P. Njarðvík frá þessu, en ég ber mikla virðingu fyrir hvernig hann hefur lag á að segja nákvæmlega kjarnann í því sem hann meinar. Honum fannst frekar heimskulegt af mér að fara einsamall út í miðborg Bangkok, borg sem ég þekkti ekki neitt, að nóttu til að kaupa mér gleraugu. Ég get ekki annað en samþykkt þann dóm, en hvað get ég sagt? Sumir lifa lífinu á svona. Og ég fékk góð gleraugu.
Aftur að draumum: getur verið að draumar séu ekkert annað en melting á því sem við höfum skynjað? Að allt sem við höfum séð lendi í þessari gríðarstóru hrærivél sem hugurinn er og sem varpar fram furðumyndum sem samansulli úr reynslu okkar?
Ég á góðan vin frá Simbabve. Við þekktumst þegar ég var við nám í Bandaríkjunum. Hún er eiginkona eins samleigjanda míns. Eitt sinn barst talið að draumum, og ég sagði henni frá draum þar sem ég hafði verið á flótta undan hoppandi háhýsi og síðan þegar blokkin lenti, dregið upp sverð og stokkið inn í aðaldyr þess, inn í lyftuna og ráðist á hnappaborðið með sverðinu þannig að lyftan skaust upp í gegnum þakið þannig að blokkin drapst.
Þá minntist hún á að hún ólst uppi í þorpi þar sem var gamall og vitur seiðkarl. Hann hafði fundi með börnum þorpsins þar sem þau sátu í kringum varðeld og hann sagði þeim sögur. Eitt sinn hafði hann sagt börnunum frá merkingu drauma, að draumarnir segðu væru tákn um hugarástand, að í draumi gætirðu komist að því hvort þú sért hugrökk manneskja eða huglaus. Hann tók dæmi um ljón sem réðst á dreymanda, en slíkt var algengur draumur meðal barna í þessu þorpi, og hann sagði að það sem skipti mestu máli í þessum draumi væri hvort dreymandinn snerist gegn ljóninu og berðist við það eða héldi áfram á huglausum flótta undan því. Mikilvægt væri að takast á við vandann sem upp kemur í draumnum sjálfum, því þar væri til staðar persónulegt og sálrænt vandamál sem þyrfti að sigrast á til að þroskast.
Mér þótti þetta merkilegt.
Sem unglingur tók ég mig til og skrifaði niður drauma sem mig dreymdi. Fyrst mundi ég ekki draumana, en eftir um viku voru þeir farnir að standa ljóslifandi fyrir mér, og það sem meira var, mér tókst að stjórna dreymandanum. Af einhverjum ástæðum hætti ég þessu. Leit á þetta eins og marklausa iðju, enda fannst fólki þetta ansi asnalegt, að maður væri að grúska í eigin draumum eins og maður væri einhver merkileg vera.
Og jú.
Við erum merkilegar verur. Hvert og eitt.
Myndir
Drukknun: Mocoloco.com
Bangkok: inewscatcher.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Er Jón Gnarr og flokkur hans bestur?
23.5.2010 | 11:02

Besti flokkurinn er ekki bara grín. Hann er líka háð. Háð er ekki bara grín. Háð er gagnrýnið grín.
Jón Gnarr hefur háð stríð með háði gegn fjórflokknum. Hann er að sigra.
Fjórflokkurinn svarar fyrir sig með skotum á Jón Gnarr um að einhvern tíma hafi hann skráð sig á lista til stuðnings sjálfstæðismönnum, hann sé trúaður, sé ekki alltaf fyndinn, sé ekki hægt að taka hann alvarlega og þar fram eftir götunum.
Ég ólst upp í Breiðholtinu. Í fellahverfinu. Mér þykir vænt um Reykjavík. Síðasta kjörtímabil var óhugnanlegt. Þeir sem komust að kjötkötlum borgarinnar stálu ekki bara öllu kjötinu úr kötlunum, heldur seldu líka katlana og skepnurnar sem nota áttu til næstu áratuga. Þeim fannst þeir bara standa sig nokkuð vel.
Hefðbundinn kosningaáróður hófst með innihaldslausum loforðum, sæmilega mjúkum og loðnum, einhverju sem hægt væri að geyma þar til stutt væri í næstu kosningar og sýna þá einhvern lit til að setja verkefni í gang sem hægt væri síðan að slá á frest eftir næstu kosningar.
Nú kemur Jón Gnarr fram og gefur verstu hugsanlegu kosningaloforð sem hægt er að gefa. Þau snúa að hlutum sem fáir vilja, en loforðin eru það fáránleg að enginn trúir að manninum sé alvara. Ég trúi því ekki heldur. En hvað ef honum er alvara?
- Hvað ef hann vill tollahlið frá Garðabæ til Reykjavíkur?
- Hvað ef hann vill slátra skepnum í húsdýragarðinum til að gefa ísbirni að éta?
- Hvað ef hann vill láta ættleiða róna?
Væri ekki fyndið ef hann stæði við öll kosningaloforðin, fyrsti stjórnmálamaður Íslendinga til að gera slíkt?
Mig grunar að markmið framboðsins sé að sýna fram á fáránleika flokka og hefðbundinna kosninga, en hvað ef ég hef rangt fyrir mér? Hvað ef Jón Gnarr vill einfaldlega fá það sem hann hefur sagt, þægilegt skrifstofustarf þar sem hann hefur nóg af frítíma og getur gert það sem honum sýnist?
Hvað ef markmiðið er að styrkja leikhúslíf í Reykjavík? Hvað ef raunveruleg uppspretta bakvið framboðið er atvinnuleysið sem bíður listafólks þar sem Páll Magnússon sjónvarpsstjóri hefur boðað niðurskurð á íslensku sjónvarpsefni? Hvað ef þetta er svarið við þeim niðurskurði, og hefur í raun ekkert með gagnrýni á pólitík að gera?
Ég myndi kjósa Besta flokkinn umfram allt hitt sem í boði er, aðallega vegna þess að þetta er eini flokkurinn sem inniheldur engan atvinnupólitíkus. Það er nóg fyrir mig, því ég tel atvinnupólitíkusa vera eina mestu meinsemd þjóðarinnar og starfstétt sem ætti ekki einu sinni að vera til.
Svo er svolítið skondið að þegar fólk kýs Besta flokkinn er það í raun að kjósa Jón Gnarr, og er nokkuð sama um alla þá sem geta streymt inn í stjórnkerfið í kjölfar hans. Það virðist nóg fyrir heilan flokk að hafa eina fyndna manneskju í framboði. Ekkert annað skiptir máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Geturðu treyst siðblindum lygurum til að segja satt?
16.5.2010 | 08:03
Hvernig greinum við á milli siðblindra lygara, þeirra sem segja næstum alltaf satt en eru siðblindir og þeirra sem segja alltaf satt og eru ekki siðblindir?
Þegar yfirlýstur siðblindur lygari fullyrðir að hann sé siðblindur lygari, eigum við að trúa honum frekar en yfirlýstum sannindamanni sem er hugsanlega siðblindur lygari sem segist ekki vera siðblindur lygari?
Þverstæða lygarans er ein af áhugaverðustu og ríkustu uppsprettum samræðna um lygar og sannleika. Hún er til í mörgum myndum. Mín uppáhalds útgáfa er þannig:
"Þessi setning er ósönn."
Hvert barn sér að ef þessi setning er ósönn, þá er hún sönn, en sé hún sönn, þá er hún ósönn. Þannig heldur vítahringurinn áfram að eilífu.
Það væri hægt að vekja sams konar áhrif með setningunni:
"Allir Íslendingar eru lygarar."
En þar sem ég er Íslendingur og held þessu fram, hvernig geturðu greint út frá setningunni hvort ég sé að segja satt eða ljúga? Samt liggur þarna einhvers staðar á bakvið spurningin um hvort ég sé að meina þetta sem dæmi, bókstaflega eða í raun og veru við allar aðstæður.
Það undarlega við þetta er að afstæðan til sannleikans og hins ósanna fer meira eftir því hvernig þér hefur tekist að mynda þér skoðanir um þessi hugtök.
- Felst sannleikur í orðum eða meiningu?
- Hvernig veistu hvenær sannleikurinn er í meiningunni og hvenær í orðunum?
- Er sannleikurinn þess eðlis að orð geti gripið hann?
- Er sannleikurinn þess eðlis að mannshugurinn geti höndlað hann?
Þegar ég held því fram að þessi setning sé ósönn, þá eru bara fjórir möguleikar til staðar.
- Setningin er sönn
- Setningin er ósönn
- Setningin er bæði sönn og ósönn
- Setningin er hvorki sönn né ósönn
Er eitt af þessum svörum hið eina og rétta?
Þegar út í það er farið, getum við komist að hinu rétta án þess að rannsaka hvað sannleikurinn er, óháð birtingarformum hans eða dæmum um hann?
- Þekkjum við lygar frá sannsögli?
- Þekkjum við setningar?
- Hvernig eru ósannindi ólík sannindum?
- Er munur á sannleikanum og sannri setningu?
Þessa dagana þarf sérstakur saksóknari og teymi hans að glíma við svona spurningar. Þeir þurfa að átta sig á hinum afar litla mun sem getur verið á sannleikanum og lygakryddaða sannleikanum. Það getur verið afar erfitt að greina á milli örlítið kryddaðs sannleiks og sannleiks, sérstaklega ef við höfum í huga að 'ekkert nema sannleikurinn' þýðir í raun ósköp lítið ef ekki er litið á allar hliðar málsins, á alla þá smáu þræði sem spinnast út og suður. Stundum tekst að klippa á óþægilega þræði.
![]() |
Stein Bagger segist vera siðblindur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dóttir mín um lífið eftir dauðann
15.5.2010 | 08:26
Dóttir mín sagði svolítið skemmtilegt í gær:
"Ég hef kenningu um hvað gerist þegar við deyjum. Það erum ekki við sem förum til himna, heldur aðeins það góða í okkur. Þess vegna er mikilvægt að við séum eins góð í þessu lífi og mögulegt er. Þá förum við vonandi sem heild til himna."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sjálfsmark Sigurðar Einarssonar?
14.5.2010 | 10:26

Þetta eru eðlilegar tafir sé maðurinn sekur. Sigurður ræður stjörnulögmann á kolvitlausum tíma og í stað þess að almenningur nú gruni hann um að hafa kannski eitthvað gruggugt að fela, trúir almenningur að hann hafi eitthvað gruggugt að fela. Eðlilegra væri fyrir saklausan mann að ráða lögfræðing eftir að ákærur hafa verið birtar, ekki á meðan rannsókn stendur enn yfir.
Pressan er öll á þeim sem þurfa að verja sig gegn þungum sökum. Pressan er verri fyrir þá sem vita upp á sig sökina. Það má búast við að sérstaklega þeir sem hafa mest að fela og versta samvisku, munu gera allt sem þeir geta til að tefja og gera saksókn tortryggilegra.
Með þessu skoti er Sigurður að skora sjálfsmark, enda hefur hann fengið íslensku þjóðina upp á móti sér með því að hindra framsókn mikilvægustu rannsóknar Íslandssögunnar.
![]() |
Sigurður ræður breskan lögmann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Verður Íslendingum einhvern tíma bættur skaðinn?
12.5.2010 | 06:04

Nú þegar vel rökstuddar saksóknir eru farnar í gang gegn bankamönnum og auðmönnum sem misnotuðu aðstöðu sína til að ryksuga peninga landsmanna úr bönkunum, og meira að segja mynda fjandsamlega gjá á milli lántakenda og fjármagnseigenda; hvað verður gert til að bæta Íslendingum allan þann stórskaða sem skollið hefur yfir þjóðinni.
Það hafa margir tapað gífurlegum fjármunum. Aðallega lántakendur húsnæðislána og bílalána.
Verður þeim skaðinn einhvern tíma bættur eða verður ætlast til að þeir staulist um á mjóum fótum og beri fjöll á herðum sínum út ævina og komi smám saman þunganum yfir á börn sín?
Mynd: The Peace, Freedom & Prosperity Movement
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Borga glæpir sig?
11.5.2010 | 15:55
Mér finnst þetta stórmerkileg frétt, enda hef ég aldrei áður séð jafn skýra skilgreiningu á skipulagðri glæpastarfsemi. Feitletraði textinn eru vangaveltur mínar. Ég þykist ekki vita þessa hluti með vissu, enda ekki með aðgang að sömu upplýsingum og sérstakur saksóknari. Sannleikurinn mun vonandi koma í ljós og réttlætinu framfylgt samkvæmt íslenskum lögum, og vonandi fær það fólk sem hefur tapað fjármunum vegna þessara glæpa skaðabætur, en allir Íslendingar sem búa á Íslandi eða hafa þurft að flytja úr landi eru fórnarlömb þessara glæpa.
- Til þarf að koma samvinna fleiri en tveggja einstaklinga.
JÁ - stjórnendur í efstu lögum virðast hafa unnið saman að þessu - Starfsemin þarf að standa yfir í langan eða óskilgreindan tíma.
JÁ -hugsanlega hafa allir bankarnir eftir einkavæðingu hagað sér eins - Grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot.
JÁ - einnig þarf að rökstyðja gruninn - Markmið viðkomandi eru auðgun og/eða völd.
JÁ -markmiðin voru auðgun
- Hver þátttakandi þarf að hafa fyrirfram ákveðið verkefni.
Hef ekki hugmynd. Starfsmenn hljóta að fá starfslýsingu og þar af leiðandi verkefni. - Starfsemin lúti einhvers konar skipulagi og stjórnun.
JÁ - enginn vafi.
- Starfsemin þarf að vera alþjóðleg.
JÁ - enginn vafi.
- Þátttakendur þurfa að beita ofbeldi eða öðrum aðferðum sem henta þykja til ógnunar.
KANNSKI - spurning hvort að hótanir lögfræðinga gagnvart skuldurum um að upptöku eigna eða annað verra teljist til andlegs ofbeldis?
- Skipulag starfseminnar þarf að vera svipað því og þekkist í viðskiptum og rekstri.
JÁ - þetta var heldur betur svipað, þar sem fæstir gerðu sér grein fyrir að þetta voru ekki eðlileg viðskipti og rekstur.
- Viðkomandi þurfa að stunda peningaþvætti.
LÍKLEGA - sjálfsagt flokkast það undir peningaþvætti að lána gífurlegar upphæðir til valdra aðila sem síðan nota peninginn til að kaupa gervieignir án þess að borga lánin til baka, og út á gervieignirnar fá þeir enn meiri lán.
- Viðkomandi leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið eða hagkerfið.
JÁ - greiningardeildirnar höfðu mikil áhrif á fjölmiðla, stjórnmálamenn fengu styrki sem útilokað er að réttlæta og þessi banki var einn af þremur sem taldir voru til undirstöðu íslenska hagkerfisins.
Já, þetta virðast sannarlega vera banksterar. Nú er það hlutverk réttarkerfisins að finna sönnunargögn og sanna þennan grun án vafa. Saksóknari, lögfræðingar og dómkerfið eru með stærsta mál Íslandssögunnar í höndunum, og það er sjálfsagt ekki bara tengt einum banka, heldur hugsanlega miklu fleirum.
Verði hámarksrefsing eitt ár fyrir sakfellingu, munu sakborningar þjást eitthvað í eitt ár, en uppskera svo ríkuleg laun eftir afplánun þar sem þýfið verður grafið upp úr skattaskjólum.
Kostnaður: æran, samviskan og eitt ár í fangelsi, hamingjan, smánarblettur á fjölskylduna
Laun: óteljandi milljarðar, áhyggjulaus elli, marklaust líf
Spurningin sem alþjóð spyr: borga glæpir sig?
Mynd: Surf Nation
![]() |
Skipulögð glæpastarfsemi Kaupþingsmanna? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fjölgum ráðuneytum?
10.5.2010 | 05:24
Þulur: Á fundi ráðherra þar sem til stóð að fækka ráðuneytum gerðust óvæntir hlutir. Ákveðið var að fjölga ráðuneytum í stað þess að fækka þeim. Við höfum náð tali af nýjasta ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar, Jóni Hreggviðssyni, en það snilldarbragð var farið að fá vinsæla skáldsagnapersónu til að stjórna hinu nýja "Kreppuráðuneyti". Til að leysa það vandamál að Jón Hreggviðsson er ekki til, var ákveðið að gera samning við Þjóðleikhúsið sem mun semja við hæfustu leikara þjóðarinnar í hlutverkið. Stefnt er að því að hver leikari hafi hlutverkið einn mánuð í senn og að kynjakvóti verði virtur.
Fréttamaður: "Til hamingju með nýja starfið Jón."
Jón Hreggviðsson: "Ingvar heiti ég, Jón er karakterinn, en takk fyrir."
Fréttamaður: "Má ég tala við Jón."
Jón Hreggviðsson: "Nú er ég Jón."
Fréttamaður: "Geturðu sagt okkur frá hvers vegna ákveðið var að fjölga ráðuneytum?"
Jón Hreggviðsson: "Það er eldgos í Eyjafjallajökli ef þú hefur ekki tekið eftir því. Sérðu ekki öskuna í skýjunum yfir okkur? Ef við horfum beint upp í loftið með munninn opinn og tunguna út úr okkur fáum við öskubragð í munninn og sjálfsagt öskuslikju í augun."
Fréttamaður: "Af hverju var ákveðið að fjölga ráðuneytum?"
Jón Hreggviðsson: "Ég bara veit það ekki. Ég var ekki á fundinum."
Fréttamaður: "Nú?"
Jón Hreggviðsson: "Ég var bara pantaður hingað til að mæta í viðtalið, fæ fínt borgað fyrir þetta gigg."
Fréttamaður: "Hvað á hið nýja ráðuneyti að gera?"
Jón Hreggviðsson: "Skipuleggja sumarfrí. Hafa þetta skemmtilegt. Koma með hugmyndir að fleiri ráðuneytum. Og stoppa eldgosið."
Fréttamaður: "Fleiri ráðuneyti?"
Jón Hreggviðsson: "Já, það er mikilvægt á þessum krepputímum að vera skapandi. Væri til dæmis ekki frábært að stofna Atvinnuleysisráðuneyti, þar sem öllum atvinnulausum er reddað starfi og yrði þannig að stærsta ráðuneyti landsins. Það þarf að leysa atvinnuleysið. Og við erum jú öll skyld, ekki satt, og þú verður að gera vel við þína, eða hvað?"
Fréttamaður: "Hvernig ætlar ríkisstjórnin að borga fyrir fjölgun ráðuneyta?"
Jón Hreggviðsson: "Við ráðum alla til starfa sem tókst að stækka bankana margfalt á örfáum árum. Hugsaðu þér hvað þeir geta gert fyrir Ríkið. Þessir menn kunna að taka hagstæð lán og fá þau út um allan heim. Hugsaðu þér veislurnar sem hægt verður að halda."
Fréttamaður: "En komu þeir ekki þjóðinni á hausinn?"
Jón Hreggviðsson: "Nei, nei. Það er misskilningur. Fólk keypti stóra flatskjái. Svo keypti það bíla. Líka íbúðir. Sumir jafnvel hús. Við höfum ákveðið að banna kaup á efnislegum hlutum og viljum bara leyfa kaup á andlegum hlutum hér eftir."
Fréttamaður: "Eins og?"
Jón Hreggviðsson: "Til dæmis bænum. Það hefur mikið vantað að Íslendingar fari í kirkju og biðji bænir. Við höfum ákveðið að gefa út bænabók ríkisstjórnarinnar og koma henni í sölu, og skylda fólk til að kaupa hana, annars gæti það lent í gæsluvarðhaldi."
Fréttamaður: "Það hljómar eins og það sé ekki heil brú í þessari ríkisstjórn."
Jón Hreggviðsson: "Það þarf enga brú. Við reddum okkur með þyrlu."
Fréttamaður (myndavélin hverfur af Jóni Hreggviðssyni, en Jón eltir rammann og stillir sér upp við hlið fréttamanns, og brosir svartlituðum tönnum framan í myndavélina, með góðlátu augnaráði): "Þetta er lafði Macbeth, með nýjustu fréttir frá Ráðherrabústaðnum."
Að alvöru málsins:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7 leiðir til að höndla einelti á netinu
1.5.2010 | 07:00
Þessar leiðir eiga ekki bara við um bloggið. Þetta eru ráð sem hægt er að nota í lífinu, bæði innan og utan netsins.
Hvernig höndlarðu það þegar einhver skrifar neikvæða athugasemd undir grein sem þú hefur skrifað? Hvernig höndlarðu það ef einhver böggar þig stöðugt með rugl athugasemdum.
Sumir fjarlægja athugasemdirnar og aðrir loka á IP númer þess sem sendi hana. Þessar aðferðir virka, en eru eins fasískar og hugsast getur séu þær notaðar af reglusemi.
Á vafri mínu um vefinn fann ég ágæta grein sem fjallar um þetta mál: 7 Great Principles for Dealing with Haters eftir Tim Ferriss. Hérna fyrir neðan er listinn hans.
- Það skiptir ekki máli hversu margir skilja þig ekki. Það sem skiptir máli er hversu margir skilja þig.
- 10% fólks finnur leiðir til að taka hvað sem er persónulega. Reiknaðu með því.
- "Að leita vinsælda frá öllum er merki um meðalmennsku." (Colin Powell)
- "Ef þú hefur veruleg áhrif, mun 95% af því sem er sagt um þig vera neikvætt." (Scott Boras)
- "Ef þú vilt bæta þig, sættu þig við að vera álitinn kjánalegur og heimskur." (Epíktet)
- "Að lifa góðu lífi er besta hefndin." (George Herbert)
- Haltu ró þinni og haltu áfram.
Það er hægt að læra af þessum lista.
Síðan ég byrjaði að blogga á blog.is hef ég einu sinni lokað á athugasemdir eins einstaklings, og hálfpartinn sé eftir því í dag. Þó að athugasemdirnar hafi verið hatursfullar og dónalegar, er hugsanlega betra að leyfa þeim að hanga inni til merkis um sögu viðkomandi manneskju, og einnig til að maður átti sig betur á hvernig fólk hugsar ólíkt um það sem manni dettur í hug að blaðra um á netinu.
Mig langar að velta fyrir mér hvort ég geti verið sammála þessum 7 leiðum Tim Ferriss.
1. Ég hef til þessa gert ráð fyrir að maður geti ómögulega náð til allra þegar maður skrifar greinar. Þess vegna verður maður að ímynda sér lesanda. Minn ímyndaði lesandi er ég sjálfur einhvers staðar í framtíðinni, jafnvel eftir hundrað ár. Ef einhver annar lesandi skilur ekki hvað ég er að fara, þá þarf ég hugsanlega að endurmeta eigin skrif, og jafnvel eigin hugmyndir, sem er bara jákvætt, og stundum missir gagnrýnin marks, en maður verður bara að meta það sjálfur hafi maður á annað borð áhuga á að bæta sig.
2. Ég hef rekist á það, sérstaklega í skrifum um trúmál eða stjórnmál, ekki endilega eigin skrifum, að á netinu hafa bæði stjórnlausir og trúlausir gífurlega sterkar raddir. Þetta er yfirleitt frekar gáfað fólk sem hugsanlega er félagslega einangrað af einhverju leyti og leitar því á náðir vefsins til að tjá sig. Eftir því sem vefurinn verður vinsælli, verða raddir þeirra háværari. Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér: ef Biblían er orð Guðs, er hann þá ekki líka með einhverja IP tölu og kemur visku sinni fyrir einhvern veginn eða einhvers staðar á Netinu?
3. Ég játa mig sekan um slíka meðalmennsku. Mér hefur þótt gaman að skrifa greinar sem eiga að henta öllum. En það er ekki vegna þess að ég vil að öllum líki við mig eða það sem ég skrifa, heldur geri ég mitt besta til að átta mig á sem flestum sjónarhornum sérhvers máls, og reyni að setja mig í spor þeirra sem eru með ólíkar skoðanir en ég sjálfur. Þannig getur litið út fyrir að ég sé stundum skoðanalaus, en í raun er ég bara að dýpka eigin skilning með því að ganga um í skóm frá hinum og þessum. Þetta hefur síðan áhrif á þær ákvarðanir sem ég tek í lífinu sjálfu, hvort ég sé hugrakkur þegar þess er þörf, hvort ég geti tekið erfiðar ákvarðanir af visku frekar en eigingirni, og þar fram eftir götunum. Bloggið er þannig ákveðinn skóli.
4. Mér dettur í hug stjórnmálamenn sem eru stöðugt á milli tanna fólks. Þeir eru milli tanna fólks vegna þess að þeir hafa áhrif. Hins vegar sýnist mér þeir hunsa algjörlega gagnrýni á þeirra störf og halda áfram sína leið sama hvað hver segir. Þetta er þrjóskuleið. Hún er öruggust allra leiða. En ég er viss um að hún er röng, því hún útilokar meðtöku á gagnrýni og þeim möguleika að viðkomandi hafi hugsanlega rangt fyrir sér. Þarna verður mikilvægara að sýnast meiri en aðrir með því að þykjast alltaf hafa rétt fyrir sér og skipta aldrei um skoðun, á meðan raunveruleg stórmenni eru þeir sem geta viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér, og geta skipt um skoðun þegar þeir sjá að þeir hafa málað sig út í horn.
5. Það elska allir trúða, en það tekur þá enginn alvarlega þegar þeir hafa eitthvað mikilvægt að segja, er það sem mér dettur í hug núna, og verður hugsað til nokkurra blogga á vefnum þar sem bloggari gerir grín að öllum sköpuðum hlutum og skrifar síðan einhverja grein sem skiptir hann miklu máli. Hann áttar sig ekki á að hann hefur safnað að sér húmoristum sem í athugasemdum geta ekki stillt sig um að skrifa eitthvað fyndið um hans hjartans mál. Móðgast viðkomandi? Að sjálfsögðu.
Ég hef þá stefnu í eigin bloggi að þegar ég skrifa um hluti, þá er ég að skrifa til að læra af þeim. Ég safna mér eins mikillar þekkingar og ég get um viðkomandi málefni, og með þá vitneskju í farteskinu að ég er ekki alvitur einstaklingur, geri ég ráð fyrir að hafa misst af einhverju, og þá hugsanlega mikilvægum þáttum, misskilið einhverja merkingu eða túlkun, hugsað ekki nógu djúpt eða verið þjakaður af eigin fordómum, sem eðlis þeirra vegna er eitthvað sem maður getur ekki séð auðveldlega í eigin ranni. Ég skrifa til að læra. Það að aðrir læri á því sem ég skrifa er bara launauppbót.
6. Ég átti samtal við föður minn um daginn, um útrásarvíkinga og hvernig þeim hlýtur að líða þessa dagana. Hann telur að þeir séu bara sáttir við lífið og tilveruna, njóti þess að vera ennþá ríkir og haldi áfram, en ég er svo einfaldur að telja þá vera það samviskulausa að þeir geti lifað sáttir einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki lengur samvisku. Þegar manneskja er samviskulaus er hún orðin að dýri, slík manneskja er ekki lengur manneskja. Þannig að þeir sem geta lifað sáttir við eigin glæpi, hljóta að hafa tapað því dýrmætasta sem ég hef sjálfur fundið í þessu jarðlífi, það að vera mennskur. Það má lengi deila um þetta.
En þetta er satt. Ef einhver vill skaða þig og þú sýnir merki um að þú hafir tekið illa við högginu, liggur á gólfinu með glóðarauga á eftir að hafa dottið yfir skrifborð í fallinu, þá fær sá sem höggið veitti miklu meira út úr því heldur en ef þér tekst að standa á sama stað og gera högg viðkomandi að vindhöggi einu og hlæja jafnvel góðlátlega að viðkomandi fyrir að reyna.
7. Það er ágætt að horfa fram á veginn með jafnvægisgeði. Að bæta mig stöðugt og vinna vel, og hafa góð áhrif út á við er mikilvægt fyrir mig, og ég veit að ef ég færi að sökkva mér í hatursfullar athugasemdir, þá myndi það hindra mig frá því. Það er betra að þoka sig áfram á veginum gegnum lífið en að horfa stöðugt um öxl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hasar í réttarsölum Reykjavíkur
30.4.2010 | 14:52
Í dag berast tvær merkilegar fréttir úr réttarsölum í Reykjavík.
Annars vegar streymir hópur lögreglumanna inn í réttarsal til að fjarlægja menn sem vildu ekki setjast, og afleiðingarnar handtökur og ofbeldi; og það í máli sem sjálft Alþingi höfðar gegn níu þegnum sem voru að mótmæla á þingpöllum. Ef eitthvað mál ætti að vera opinbert, er það mál ríkis gegn þessum einstaklingum. Þetta mál er farsi. Það átti að fella það niður strax. Það er ekki lengur hægt. Þetta mál gæti jafnvel orðið upphafið að nýjum mótmælum og endað með falli núverandi ríkisstjórnar.
Einnig er stórmerkileg fréttin um að gengistryggð lán séu ekki bara ólögleg, heldur hafi fyrirtækin sem lánuðu peninginn ekki rétt til að umbreyta lánunum yfir í aðrar gerðir verðtryggingar og halda þannig höfuðstólnum uppi á sama ósanngjarna hátt og hefur verið við lýði um nokkurt skeið. Verði þessi dómur staðfestur í hæstarétti þýðir það að blaðið snýst algjörlega við. Þar sem að lánafyrirtækin hafa rukkað inn langt umfram upphaflegan höfuðstól og vexti síðustu árin, er ekki ólíklegt að nú skuldi þau mörgum þeirra sem hafa borgað of mikið til baka af lánum sínum.
Á sama tíma er ríkisstjórnin að leggja fram til samþykkis lög sem gera lánafyrirtækjum mögulegt að umbreyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán, sem þýddi þá að verið væri að færa lánafyrirtækjunum vopn í hendurnar sem þeir hafa ekki í dag samkvæmt gildandi lögum.
Frekar seinheppin ríkisstjórn.
![]() |
Ekki heimilt að gengistryggja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)