Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021

Af hverju lærum við meira þegar við erum saman heldur en þegar við erum ein?

girl-1641215_1920

Ég er kennari. Bæði hef ég lesið töluvert um kennslu, rætt við aðra kennara og sérfræðinga og lagt mig fram við að læra ennþá meira til að skara fram úr sjálfum mér í þessu starfi. Það er margt sem ég hef lært í mínum fræðslustörfum sem var mér alls ekki augljóst þegar ég sat sjálfur á skólabekk. Sem krakki og unglingur taldi ég að best væri að læra með því að einbeita mér að viðfangsefninu, gera æfingar og endurtaka þær, lesa texta það vandlega að skilningur um málefnið yrði skýr og hafði aldrei tröllatrú á að leggja allt mögulegt á minnið. Það er ekki vegna þess að það er eitthvað slæmt, heldur einfaldlega eitthvað sem hentaði mér ekki. Við lærum á ólíkan hátt, sumir þurfa að skilja merkinguna bakvið það sem þér eru að læra, aðrir þurfa aðeins að leggja hlutina á minnið stundarkorn. Ef þú lærir merkinguna ertu líklegri til að muna þekkinguna lengur en ef þú leggur hana samhengislaust á minnið er hún líkleg til að hverfa fljótt.

Ég er líka skákmaður. Finnst æðislegt að sitja á móti annarri manneskju og tefla. Í undirbúningi fyrir skákmót les ég bækur um byrjanir, skipulag, taktík og allskonar, auk þess æfi ég mig að tefla á netinu og á skákæfingum með félögum. Ég hef áttað mig á að sama hvað ég les mikið og stúdera sjálfur, þá læri ég hvergi meira en þegar ég tefli við annað fólk. Það er eitthvað sem gerist, einbeitingin eykst, spennan verður raunveruleg og maður þarf að vanda sig meira. Að tefla er í raun prófið sem maður þarf að standast. Stundum nær maður góður árangri, stundum ekki. Það getur verið erfitt að átta sig á af hverju eitthvað klikkar þegar það klikkar. Ein góð leið er að fara heim og leggjast yfir eigin taflmennsku og skoða eigin mistök, ennþá betra væri að fara yfir eigin skák með annarri manneskju. Það er nefnilega eitthvað sem gerist þegar við lærum saman, eitthvað sem gerist ekki þegar maður lærir einn.

Þegar kemur að kennslu í skólastofu hef ég löngu áttað mig á að ein besta leiðin til að deila þekkingu og skilningi, að minnsta kosti í þeim fögum sem ég hef kennt, er að hvetja nemendur til að ræða saman, deila reynslu sinni og pælingum. Þá er mikilvægt að vera skýr um að samræðan sé ekki eins og kappræða, en kappræða snýst um að sannfæra aðra, ná vinsældum og að keppast um að vera bestur á meðan samræðan snýst um að ræða saman, átta sig á hugmyndum, bæði eigin og annarra, og reyna að komast nær eigin skilningi, ekkert endilega sameiginlegum skilningi, um ýmis mál. 

Þegar ég les heimspekitexta, til dæmis eitthvað eftir Platón, Aristóteles, Descartes, Hegel eða Kant, þá á hugur minn til að flakka eitthvert annað, ekki í einhverja tilviljunarkennda draumóra, heldur eltandi uppi hugmyndirnar sem spretta fram þegar ég les, svolítið eins og hundur á eftir beini. Þegar ég les þessa sömu texta með öðrum, stundum aðeins einni manneskju, stundum hópi, þá gerast undur og stórmerki. Textinn öðlast nýtt líf í ólíkri túlkun þeirra sem lesa hann og í ólíkum spurningum sem við spyrjum og í samræðunum áttum við okkur á hliðum sem okkur hefði aldrei dottið í hug sitjandi alein við arineldinn heima, í hægindastólnum með lampann yfir höfðinu.

Einhver galdur á sér stað. Heimspekin, sem áður var kannski eitthvað fjarlægt og óraunverulegt, sprettur lifandi upp úr textanum og dansar um huga okkar og málbönd, og við getum ekki annað en heillast með því við þurfum ekki annað en að snerta hana til að hún fari á flug.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég skrifa þessa texta, meðal annars þennan texta, mig langar að pæla í heimspeki og þegar ég sé að einhver er að lesa þetta (ég sé það á heimsóknartölum og stundum athugasemdum), þá finnst mér ég ekki vera einn að velta þessum hugmyndum fyrir mér, heldur í félagsskap. Þessi tilfinning er nógu mikils virði til að setjast við bloggskrif á hverju einasta kvöldi þegar tími gefst, og ekki aðeins reyna að átta mig á eigin hugmyndum, heldur koma þeim í orð, og kannski átta mig á þeim með því að koma þeim í orð. Hugsanlega væri hægt að nota eitthvað af þessum textum til að koma í gang samræðum um heimspeki, í einhverri framtíð sem ekki er ennþá ljós. Kannski núna.

 

Mynd: Pixabay


Um sannfæringu

handshake-3139227_1920

Við höfum öll einhverja sannfæringu í lífinu og stundum eru þær andstæðar sannfæringum annarra. Þessi staðreynd er ein forsenda lýðræðis, þar sem að ólíkar hugmyndir koma saman og yfir ákveðinn tíma verða sumar þeirra ofan á en aðrar ekki. Þetta er óneitanlega betra stjórnarfar en þegar einvaldur ræður öllu, þar sem einungis ein sannfæring ræður hvernig allir þegnar lifa lífinu, hverju þeir eiga að trúa, hvernig þeir eiga að hugsa, og þrælbindur þannig bæði huga og líkama, en kannski ekki sál, hvers manns. Það er svipað þegar auðræði ræður ríkjum, þá miðast lífsgæðin við að þeir sem eiga auðinn, eiga landið og þannig starfskraftinn sem þjóðin býður upp á. Sannfæring auðræðisins snýst um hvernig hægt er að hámarka hagnað fyrir þá sem eru þegar við völd. Þannig eru bæði einræði og auðræði andlýðræðislegar hugmyndir.

Í lýðræðisríki þurfum við að flétta saman öllum okkar sannfæringum, og bera hæfilega virðingu fyrir öllum þeim ólíku skoðunum sem fram koma, þó helst ekki með sannfæringum sem leiða til hörmunga, en slík sannfæring er oftast byggð á misskilning eða röngum upplýsingum. Vandinn vex þegar fólk fer að trúa slíkri sannfæringu og er ekki tilbúið að endurskoða forsendur eigin trúar.

Það er til fólk sem er sannfært um að best sé að lifa lífinu í samræmi við það sem yfirvaldið segir, hvort sem að yfirvaldið sé falið í skikkju trúarbragða eða pólitíkur. Þegar kemur að trúarbrögðum eru það yfirleitt foreldrar sem velja leiðina fyrir barnið, sem síðan þarf að staðfesta trú sína með manndómsvígslu eins og fermingu, veiða eitthvað dýr úti í skógi eða kaupa fulla búðarkerru úti í búð. Ef manneskja kemst til valda í samfélaginu, og verður þannig yfirvald, óháð því hvort að hann náði völdum löglega eða með svikum og prettum, þá er sumt fólk sannfært um að það sé þeirra skylda að fylgja honum sem yfirvaldi í einu og öllu.

Svo er annað fólk sem heldur að blind trú og hlýðni séu hræðileg mistök, að betra sé að hugsa sjálfstætt og beita gagnrýnni hugsun þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir, að það sé eðlilegt að efast um gildi trúarstofnanna og verk stjórnmálamanna sem eru við völd. 

Enn annað fólk festir sig við ákveðnar sannfæringar og velur sér trúarbrögð og stjórnmálaflokka sem passa við þær. Þannig eru sumir sem leggja áherslu á að vernda umhverfið, aðrir sem leggja áherslu á velmegun og ríkidæmi, enn aðrir sem leggja megin áherslu á jöfnuð, sumir vilja ganga í Evrópusambandið og aðrir vilja það alls ekki, sumir vilja gæta að öldruðum og öryrkjum á meðan öðrum finnst það lítilvægt mál. Sumir vilja vernda hag bænda og sjómanna, en aðrir vilja vernda hag allra þegna þjóðarinnar, óháð störfum eða skuldbindingum. Sumir vilja að landið sé aðeins fyrir þá sem fæddust í landinu og geti rekið ættir sínar ellefu ættliði innanlands, en öðrum finnst eðlilegt að engu máli skiptir hvaðan þú kemur, svo framarlega sem þú ert tilbúinn að leggja þitt af mörkum þar sem þú býrð. Þessi flóra er mikil og misjafnlega skemmtileg og stundum hættuleg, stundum skaðleg og stundum það sem heimurinn þarf. 

Stefnan sem við veljum á Íslandi er ráðin í kosningum á fjögurra ára fresti. Stundum veljum við vel, stundum veljum við illa. Stundum eru þeir sem hafa rétt fyrir sér í minnihluta, stundum í meirihluta. En enginn virðist nokkurn tíma hafa rétt fyrir sér í einu og öllu.

Þeir sem ná völdum þurfa líklegast að vera listamenn að einhverju leyti. Þetta er fólk sem þarf að geta tjáð eigin skoðanir og sannfæringu, og safnað fólki saman í kringum málstaðinn, í kringum sannfæringuna.

Í allri þessari ringulreið sannfæringa getur gleymst að sannleikurinn kemur ekki úr sannfæringunni, heldur utan frá, við uppgötvum hann með vísindum og fræðum, innsæi í mannlegt eðli og skilningi á heiminum. Og sannleikurinn kemur hægt í ljós á meðan sannfæringin getur skotist hundrað sinnum kringum heiminn. Sannfæringin þarf að vera vinsæl til að verða almenn, en sannleikurinn er yfirleitt frekar leiðinlegur og sumum virðist finnast betra að hunsa hann bara.

Sannfæring mín er þannig: heimsmynd okkar allra er í mótun og ég er stöðugt að læra eitthvað nýtt eða átta mig betur á hvernig málunum er háttað. Ég hlusta á ólíkar hliðar, reyni að skoða þær vandlega, og tek svo mínar ákvarðanir og held þeim möguleika opnum að ég geti haft rangt fyrir mér og gert mistök. Ég reikna reyndar með að þekking hverrar einustu manneskju sé svo takmörkuð að allir hafi margoft rangt fyrir sér og geri margoft mistök. Harmleikurinn felst í því þegar maður er ekki tilbúinn að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður hafi rangt fyrir sér eða hafi gert mistök. 

Einnig held ég að slíkar sannfæringar séu einkamál, og að hver og einn megi hafa sína eigin sannfæringu og ef þú hefur ólíka sannfæringu um lífið og tilveruna, þá er það bara í fínu lagi, en ég er tilbúinn að rökræða við þig og móta áfram mínar eigin hugmyndir um þína og mína eigin sannfæringu á grundvelli skynsamlegra raka. Ef ég dæmi sannfæringu þína sem skaðlega eða til þess gerð að hún bæti heiminn, þá er það algjörlega mitt mál, og þitt mál hvort þú hlustir á mig eða ekki.

Í þessari leit minni krefst ég þó almennrar kurteisi og að fólk ræði saman af einlægni og sé tilbúið til að skoða forsendur eigin sannfæringar. Ef þú ert ekki tilbúinn til þess, og ég verð var við hegðun sem mér líkar ekki, þá gæti ég misst áhugann á að kynnast þér betur, enda vex maður aðeins og dafnar í samskiptum við heilsteyptar manneskjur.

 

Mynd: Pixabay


Versta hugsanlega refsingin?

chains-19176_1920

Hver ætli væri versta hugsanlega refsins sem manneskja gæti fengið? Líkamlegur sársauki? Löng fangelsisvist? Dauðadómur? Einelti?

Hvað um það að vera látinn algjörlega afskiptalaus í þessum heimi? Hvað ef þegar þú ferð út í búð tekur enginn eftir þér, hvorki annað fólk í bænum né afgreiðslufólkið. Ekki einu sinni sjálfsalarnir. Þú tækir vörurnar sem þú þarft og ferð út úr búðinni án þess að borga því enginn afgreiðir þig, enginn tekur eftir þér.

Hvað ef þú færir í partý hjá vinum þínum, og enginn virti þig viðlits? Þegar þú talaðir, svaraði enginn. Þegar þú segðir brandara, myndi enginn hlæja, ekki einu sinni brosa. Þegar þú færir heim, kveddi þig enginn.

Þú leitar að starfi og enginn svarar umsóknum þínum. Þú sækir um í skóla, en engin svör. Heimurinn væri bara eins og þegar Palli var einn í heiminum, fyrir utan það að það væri fullt af fólki, en enginn tæki eftir þér. Eins og þú værir vofa, ósýnileg vera sem flakkar á mörkum lífs og dauða.

Segðu mér, væri einhver refsing verri en þessi? Að skipta nákvæmlega engu máli í samfélaginu? 

Ef það er eitthvað til í þessu, að þetta væri jafnvel verra en að vera dæmdur í fangelsi eða á geðdeild, og jafnvel verra en að vera dæmdur til dauða, því að minnsta þá fengi maður einhverja athygli, af hverju gerum við ekki meira af því að gefa öllum athygli?

Eftir að hafa verið fjarri Íslandi í meira en tíu ár, og kem aftur heim, sé ég í sjónvarpinu og heyri í útvarpinu allt sama fólkið og var í fjölmiðlum áður fyrr, fyrir utan að nokkrir nýir hafa bæst í hópinn. Það er eins og þetta sé einhver elíta, fólk sem er sýnilegt, á meðan annað fólk er það ekki. Og þetta fólk sem er sýnilegt, það fær athygli, það er nóg að það sé frægt til að vera spurt spurninga sem þau hafa ekkert erindi til að svara. Þetta er ekki bara svona á Íslandi. Þessi skrípaleikur á sér stað um alla veröld. Þetta er eitthvað mannlegt, en samt í grunninn svo grimmt, eitthvað svo geimverulegt og klikkað. Athyglin er nefnilega einhvers konar næring sem er okkur flestum holl, nema þegar við förum að girnast hana og viljum eignast hana alla fyrir sjálf okkur eins og Narsissus í gömlu sögunni.

En aftur að pælingunni, ef að vera látinn afskiptalaus er svona hræðilega vont, gætum við gert eitthvað til að hinir ósýnilegu verði sýnilegri, eða fengju rödd, val til að vera með í heimi hinna sýnilegu? Væri heimurinn eitthvað betri fyrir vikið?

Eru okkur kannski takmörk sett fyrir því hvað við getum gefið mikla athygli? Kostar hún eitthvað?

 

Mynd: Pixabay


Aðeins um vináttu

children-1149671_1920

Það er fátt skemmtilegra en að eiga góða vin og vera í slíkum félagsskap. Vinátta er eitt af því dýrmætasta sem við getum fundið á lífsleiðinni, ef ekki það dýrmætasta, sama á hvaða aldri við erum og óháð aðstæðum.

Hún gerir okkur að betri manneskjum, hún hjálpar okkur að tengjast öðru fólki, hún er vörn gegn ógnum og uppspretta hreinnar gleði. Hvar líður okkur betur en þegar við erum með góðum vin, getum verið nákvæmlega eins og við erum, sagt það sem okkur sýnist, og verið í sambandi sem er eins eðlilegt og fljót sem rennur til sjávar?

Börn læra með vináttu, þau fá úr henni skemmtun, nýja sýn á veruleikann, þjálfun í talmáli, og þau kynnast djúpri ást á einhverju sem er gott í sjálfu sér, ekki aðeins manneskjunni sem er vinur, heldur á vináttunni sjálfri. 

Í gegnum lífið áttum við okkur á því sem er okkur einhvers virði og höfum vináttuna sem dæmi um eitthvað gott sem við höfum kynnst, eitthvað gott sem við getum ræktað og jafnvel búið til frá grunni þegar okkur tekst að “smella” með réttu manneskjunni.

Góð vinátta getur kennt okkur siðferðileg gildi eins og hugrekki, því við erum líkleg til að vilja vernda vini okkar, gjafmildi, því við viljum taka þátt í að líf vina okkar verði gott og farsælt, heiðarleika og hreinskilni, því með þessum gildum ræktum við vináttuna.

Á gamals aldri er vináttan ennþá mikils virði, þegar við erum orðin of veik fyrir til að lifa því lífi sem við lifðum, hætt að vinna þau störf sem gerðu okkur að stoltum borgurum. Vinátta er góð þegar húmar að, þegar við höfum einhvern sem hlustar og gefur okkur tækifæri til að hlusta. 

Eitt það allra besta við vináttu er að þó við missum vin, nokkuð sem er sárt og getur valdið djúpri sorg, enda getur enginn komið í stað góðs vinar, þá getum við samt ennþá kynnst nýrri manneskju, eignast nýjan vin.

 

Mynd: Pixabay


Hvaða gagn gera óþægindi og efasemdir?

alone-513525_1920

Hefurðu tekið eftir hvað það er æðislegt að borða nánast hvað sem er eftir að maður hefur verið glorhungraður? Og hvað heitt kakó getur verið bragðgott í miklu frosti, sérstaklega ef maður er þyrstur? Finnurðu fyrir ánægju þegar þú losnar við sársauka sem þú hefur fundið fyrir? Þegar þú hefur tapað einhverju, segjum síma þínum eða veski, upplifirðu ánægju þegar þér tekst að finna týndu hlutina?

Ef þetta er satt, þýðir það að auðmýktin sem kemur með fávisku verður að ánægju þegar við höfum öðlast þekkingu? Er þetta ástæðan fyrir því að við sækjumst frekar eftir þekkingu, því við vitum hversu óþægilegt er að vera fávitur í þessum heimi?

Þegar liðið sem við höldum með í knattspyrnu tapar leik finnum við fyrir óþægindum, en verðum svo glöð þegar það sigrar. Myndum við ekki finna fyrir þessari ánægju ef liðið sem við höldum með sigraði alla sína leiki, alltaf? Væri það kannski bara leiðinlegt?

Við leggjum á okkur gríðarlega vinnu við að læra og æfa okkur, förum oft út fyrir þægindarammann til að bæta við þekkingu okkar, skilning og færni. Ef við gerðum það ekki, myndum við aldrei bæta okkur. Ef við höfum metnað til að bæta okkur, er skýrt að við þurfum að æfa okkur og læra á einbeittan hátt til að það skili árangri. Nám og æfing er alls ekki þægileg reynsla, en því mun meiri verður ánægjan þegar við náum loks árangri.

Þegar kemur að sóttvörnum og COVID-19 reyni ég að vera auðmjúkur gagnvart eigin vanþekkingu á þeim vísindum sem felast í sóttvörnum og er tilbúinn að hlusta á og gefa þeim vald yfir mér sem vita betur en ég þegar sú staða kemur upp. Rétt eins og ég er tilbúinn að ferðast með flugvél án þess að fljúga sjálfur og treysta á flugmanninn sem þekkir þetta starf betur. Ég er tilbúinn að hlusta á fólk sem ég vil læra af, og sem ég veit að veit betur en ég. Þess vegna einmitt les ég bækur og greinar. Kemst oft yfir eina bók á viku með því að hlusta á meðan ég keyri í vinnuna, fer í göngutúra eða skokka nokkra kílómetra. Þannig læri ég stöðugt, og reyni að halda auðmýkt gagnvart þeirri gríðarlegu þekkingu og færni sem til er í heiminum, en ég hef ekki á eigin höndum, hef ekki aðgang að nema að takmörkuðu leyti.

Okkur finnst óþægilegt þegar við erum veik, og þegar veikindin eru mikil leitum við okkur lækninga, kannski á netinu, kannski með að fara til læknis, manneskju sem getur annað hvort greint hvað er að eða sent mig til sérfræðings sem veit enn betur. Þannig er hægt að átta sig á meininu og með því að gefa lækninum leyfi til að sinna manni, getur hann hugsanlega læknað meinið. Lækningaferlið getur verið óþægilegt, en þegar því er lokið og meinið farið, þá er það ansi ánægjuleg tilfinning.

Þegar við finnum fyrir óþægindum gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að losna við þau, og þegar við finnum fyrir efa gerum við allt sem við getum til að sefa hann. Sumir sefa líkamleg óþægindi með lyfjum og jafnvel fíkniefnum, og slá þannig vandanum á frest, og sumir sefa efann með því að taka trú eða ímynda sér einhverja sögu sem þarf ekkert endilega að vera sönn, og slá þannig efanum á frest. Slíkt er líklegt til að leiða okkur í ógöngur.

Góð þekking og færni eru betri en kukl og samsæriskenningar. Samt virðist sumt fólk velja kukl og samsæriskenningar umfram þekkingu og færni, nokkuð sem er líklegt til að valda meiri óþægindum til lengri tíma, einfaldlega vegna þess að skynsemi og góð rök eru af skornum skammti.

 

Mynd: Pixabay


Reynsluvélin

ah_photo-film-total-recall-ok-1500x844

Ímyndaðu þér að til væri reynsluvél sem þú gætir keypt í næstu raftækjaverslun, vatnsþéttur hjálmur sem þú setur á hausinn og hylur bæði augu og eyru á meðan þú liggur uppi í sófa. Í hjálminum eru rafsegulbylgjur sem hafa samskipti við bylgjurnar í heila þínum.

Þú getur valið alls konar reynslu með því að forrita hjálminn. Eftir því sem reynslan er yfirgripsmeiri og flóknari er hún dýrari. Ódýru pakkarnir eru eitthvað einfalt eins og strætóferð, hjólreiðatúr, skokk eða yoga-æfingar. Eftir því sem þú kaupir meiri viðbætur, geturðu bætt við manneskjum, gæludýrum, landslagi, jafnvel geimferðum til annarra pláneta og sögum þar sem þú getur farið í hvaða hlutverk sem þig langar í. Allt þetta virðist jafn raunverulegt og að opna ísskáp og fá sér sopa af Mysu.

Þú heldur, finnur og trúir að þú sért úti að hjóla á meðan þú liggur uppi í sófa. Hugsanlega kaupirðu þér göngutúr að eldgosi, þú kemst nálægt hrauninu, heyrir snarkið, drunur úr undirdjúpunum, finnur hitann, og jafnvel svimar þegar þú vindurinn blæs á þig gasi. Þú gætir gert eins og í kvikmyndinni "Total Recall" (sem reyndar var gerð eftir skáldsögu Philip K. Dick), keypt þér upplifun og hlutverk þar sem þú ert njósnari hennar hátignar að leysa pólitísk vandamál á plánetunni Mars. Og upplifun þín verður svo raunveruleg að þú hefur ekki hugmynd um lengur að þú sért bara í gamla góða sófanum þínum. Þú gætir jafnvel lengt í þessari reynslu með þjónustu þar sem séð væri fyrir líkamlegum þörfum þínum.

Ef þessi reynsluvél væri til og virkaði jafnvel og veruleikinn á reynslu þína, væri þá heimurinn sem þú upplifir í reynsluvélinni jafn raunverulegur og sá veruleiki sem þú upplifir utan vélarinnar? 

Við erum kannski að nálgast slíka vél með sýndarveruleika en það er ennþá langt í land. Það að við upplifum eitthvað með sjón, heyrn, snertingu og jafnvægisskyni færir okkur mun nær slíkri reynsluvél, en við erum ekki enn komin það langt að við teljum reynsluna í sýndarveruleika vera á sama stigi og reynsluna utan hans. 

Ef þú hefðir aðgang að alvöru reynsluvél, vissir að þú gætir algjörlega tapað þér í þeim veruleika og hugsanlega gleymt þeim veruleika sem þú upplifir utan vélarinnar, myndirðu samt vilja tengjast og upplifa þennan vélræna veruleika? Myndir þú standast freistinguna? Myndir þú leyfa forvitninni að ráða, sérstaklega ef heilbrigðisyfirvöld hefðu lagt blessun sína yfir notkun tækisins?

Væri þetta sniðugt fyrir fólk sem líkar ekki við veruleikann eins og hann er? Væri gott að gefa fólki færi á að flýja inn í slíkan veruleika, jafnvel nota slíka reynsluvél til að refsa glæpamönnum, kenna nemendum um fjarlæga hluti - til dæmis sögulega atburði eða upplifa skáldsögu frekar en lesa hana, gefa sjúklingum tækifæri til að lifa frekar en að láta sér leiðast á sjúkrabeði, gefið dauðvona fólki tækifæri til að sjá heiminn í síðasta sinn og leyft ofurhugum að upplifa hættulega hluti án þess að það ógni lífi þeirra og limum?

Myndir þú vilja tengjast þessari reynsluvél? Ef já, hver væri reynslan sem þú vildir geta keypt þér, reynsla sem þú myndir trúa að væri jafn raunveruleg og allt það sem þú ert að upplifa hér og nú? Ef þú hefðir aðgang að vélrænum reynsluheimi sem þú hreinlega elskaðir, væri það þá áfall að hverfa frá honum og öllum þeim sem þú hefur kynnst þar, sérstaklega ef þú gætir ekki vistað veruleikann og komist til baka í hann seinna?

 

Mynd: Úr kvikmyndinni "Total Recall" (1990) eftir Paul Verhoeven


Hvort er skárra að vera vansæll vitringur eða ánægður fáviti?

art-3084157_1920

Heyrst hefur að fólk sé fífl. Eða fáviti.

Þetta segjum við stundum þegar við hneykslumst á hvernig fólk hagar sér, þegar það til dæmis kemur illa fram við annað fólk eða vanvirðir náttúruna með rusli. 

Þetta fólk virðist oft ekki kunna að skammast sín og virðist bara ánægt með sjálft sig, ef það kemst upp með hegðunina, ef hún brýtur ekki beinlínis lög, þá halda viðkomandi að þetta sé kannski allt í lagi, og jafnvel þó að hegðunin brjóti lög, þá finnur það ekki nauðsynlega auðmýkt þegar það hefur verið dæmt af dómstólum, og jafnvel ekki heldur eftir að hafa setið inni í einhver ár. Þetta fólk virðist lifa lífinu í sjálfskaparhelvíti.

En þetta fólk virðist oft vera sátt við lífið og tilveruna. Jafnvel ánægt. 

Á sama tíma eru til staðar vitringar sem gerir sitt besta við að lifa dyggðugu lífi, sýnir dugnað og ábyrgð, ljúga hvorki né svíkja, stelur ekki eða féfletta, viturt fólk sem reynir að byggja eitthvað sem skiptir máli fyrir samfélagið. 

Þessir vitringar geta verið þetta fólk sem missir stundum út úr sér að fólk sé fífl eða fávitar. Og þessir vitringar sjá og skilja hversu gott lífið gæti verið fyrir flesta ef allir vildu stefna á hið góða, lifðu dyggðugu lífi. Þegar þessir vitringar sjá og skilja hvernig heimurinn gæti orðið betri, og sjá að fullt af fólki stendur á sama, þá gæti vel verið að þeim líði svolítið illa út af þessu, verði jafnvel vansælir.

Hvort ætli sé betra, að vera fáviti sem telur sig vera snilling, og er nokkuð ánægður með lífið og tilveruna, eða vitringur sem er af einhverjum ástæðum vansæll og leiður? 

Getur verið að vitringar telji betra að vera vansæll vitringur, en fávitar telji betra að vera ánægður fáviti? Þetta verður nokkuð augljóst þegar þú bætir við smá pælingu um hvort betra sé að vera ánægður vitringur eða vansæll fáviti.

 

Mynd: Pixabay


Aðeins um sjálfstæði okkar og frelsi

crown-2284849_1920

Við fögnum sjálfstæði okkar sem þjóðar, höldum þjóðhátíðardag þar sem við fögnum með blöðrum, fánum, skrúðgöngum og tónlist. Þjóðir sem upplifa slíkt frelsi undan stjórn annarra þjóða, eiga það sameiginlegt að fagna slíkum dögum. Okkur finnst ekki gott að láta utanaðkomandi stjórna því hvernig við lifum lífi okkar, hverju við trúum, hvað við borðum, hvaða tungumál við tölum, hvernig við hugsum og hvernig við ákveðum að búa sundur eða saman. Við fögnum þessu frelsi.

En það er ekki bara eitt frelsisstríð í lífi okkar, þessi barátta um sjálfstæði þjóðar, þær eru margfalt fleiri. Við þurfum líka að berjast fyrir frelsi okkar sem einstaklingar innan samfélags, og þá einatt þau okkar sem eru ólík flestum, hvort sem það er vegna trúar, húðlitar, fyrri menningar, heilsu eða hvernig við hugsum. Við fögnum þannig í lífi okkar dögunum sem marka hærri aldur, sem einhvern tíma þótti merki um meiri virðingu, þroska og jafnvel visku. Hvort það sé ennþá merkingin, hér og nú, er önnur saga. 

En af einhverjum sökum þurfum við alltaf að hafa einhverja sem drottna yfir okkur í þessu lífi, það geta verið lánardrottnar, yfirmenn og stjórnvöld, en þessi yfirvöld eru hlutar af samningum sem við göngum að. Við förum fæst tilneydd út í slíkar aðstæður, þó að fólk vissulega gæti fagnað þeim degi þegar það skuldar ekki neitt, stendur á eigin fótum og finnst það engum háður. 

En það er samt sumt innan með okkur sem drottnar yfir okkur, nánast sama hvað við gerum. Þetta eru tvíburarnir sársauki og nautn. Við sækjumst eftir nautninni sem kemur í margs konar formi, sem góður matur eða drykkur, góð bíómynd, góður elskhugi, gott páskaegg eða gott ferðalag, jafnvel ganga að gosi. Sársaukinn getur líka verið allskonar, það er sífellt eitthvað sem veldur honum, annað hvort innan frá eða utanfrá. Innri sársauki getur komið úr depurð, stressi, svefnleysi og kvíða á meðan sá ytri getur komið frá sködduðum taugum, sárum, meiðslum eða átökum við eitthvað sem er harðara en við ráðum við.

Stóra spurningin er hvort við séum þrælar þessara tilfinninga, sársaukans og óttans, eða er þetta eitthvað sem við getum ráðið við? Ennþá stærri spurning er hvort að þetta sé eitthvað sem við ættum að ráða við.

Stóuspekingurinn Epíktet reyndi að lifa lífi sínu þannig að hvorki sársauki né nautn hefðu áhrif á hvernig hann lifði lífinu eða hugsaði um lífið og tilveruna. Hann taldi sig geta náð hamingju óháð þessum tilfinningum. Sagan segir að hann hafi lifað góðu lífi í Grikklandi þar til Rómverjar ruddust þar inn, aðskildi hann frá eiginkonu og börnum og drógu hann nauðugan til Rómar. Hann sá fjölskyldu sína aldrei aftur. Samt gat hann sætt sig við þetta og lifað góðu og hamingjusömu lífi, en hann lifði ekki lífinu sem hann vildi lifa, heldur því lífi sem hann lenti í að lifa. Hann fagnaði frelsinu gegn eigin hvötum, og taldi að með því að geta stjórnað því láta ekki eigin hvatir stjórna sér, aðeins þannig gæti hann fagnað alvöru frelsi. 

Það getur verið hollt að velta fyrir sér sjálfstæðisbaráttunni sem gerist innan með okkur og sem einungis okkar eigin gagnrýna hugsun getur tekið á.

 

Mynd: Pixabay


Er hægt að spilla góðum vilja?

Getur manneskja sem hefur góðan vilja ekki verið vond á neinn hátt? Slík manneskja getur ekki unnið illverki, getur ekki stungið fólk í bakið með lygum og prettum eða hnífum, getur ekki lagt á ráðin um heimsyfirráð sem geta kostað milljónir lífið, getur ekki einu sinni rænt banka, nema það sé til að gefa hinum fátæku. 

Hugsum aðeins um aðra mannkosti, þá má alla nota til góðs eða ills. Þannig er farið með greind, snilligáfu, dómgreind, hugrekki, ákveðni og þrautseigju, það er hægt að snúa því öllu á hvolf. Hugrekki er aðeins eitthvað sem notað er til að framkvæma þegar við erum hrædd, óháð því hvort það sem við ætlum að gera er af hinu góða eða illa. Greind getur verið notuð til að setja saman geggjuð Excel skjöl sem síðan eru notuð til góðs eða ills, hugsanlega í almannaþágu, hugsanlega í þágu einkahagsmuna. Þrautseigja getur verið aðdáunarverð, en þegar hana skortir gagnrýna hugsun, umbreytist hún í þrjósku sem auðvelt er að misnota til ills.

Það má kannski prófa aðeins frekar þessa fullyrðingu að góður vilji leiði alltaf til góðs. Getur manneskja viljað vel en verið svo afvegaleidd að henni takist ekki að framkvæma í samræmi við vilja sinn? Gæti einhvern skort svo mikla þekkingu að góður vilji hans snúist upp í andhverfu sína? Getur góður vilji með falskri trú leitt til einhvers ills? 

Hugsum okkur þýska alþýðu sem lifði gegnum nasisma Hitlers. Þó að nasisminn sem slíkur hafi augljóslega verið illur í sjálfum sér, þar sem fólk var miskunnarlaus aðgreint út frá kynþætti, trú og heilsu, og komið verr fram við það en nokkurri skepnu. Ég get ímyndað mér að fólk sem lifði í þessu vonda ríki hafi ekki getað trúað því sem gekk á, óháð því hvort að vilji þeirra var góður eða illur. Spurningin vaknar hvort að þegar fólk uppgötvaði þessa illsku, þegar það varð upplýst, ef það var ennþá með góðan vilja, hefði það getað látið þetta líðast áfram?

Niðurstaða mín hérna er sú að góður vilji getur aðeins verið nýttur til ills ef sá sem hefur þennan góða vilja skorti nauðsynlega þekkingu til að átta sig á veruleikanum.

Þetta þýðir að góður vilji og góð menntun fara hönd í hönd. Góður vilji stendur ekki einn og sér. Sjálfsagt væri betra að manneskja með góðan vilja hefði líka mannkosti eins og greind, snilligáfu, dómgreind, hugrekki, ákveðnu og þrautseigju, til að áhrif hennar yrðu sem mest og best.

 

Mynd: Pixabay


Cocoa Puffs, ekkert og Brexit

7DB883F1-F558-4E15-A09D-719F0AE51A6B

Tók eftir fjarveru Cocoa Puffs í Bónus í gær og varð hugsað til hugtaksins einskis, en í fyrirbærafræði getur það merkt eitthvað sem við höfum vanist og hverfur síðan úr lífi okkar. Það er dæmi um eitthvað raunverulegt sem ekki er áþreifanlegt.

Nú hefst langt sorgarferli Cocoa Puffs kynslóðarinnar nema einhver hefji innflutning á bandaríska pöffsinu.

Ég var vanur að taka með nokkra Cocoa Puffs pakka í ferðatöskunni til Noregs, enda var hvergi hægt að finna vöruna í Evrópu nema á Íslandi. Reyndar var hægt að finna hana í USA verslunum á Bretlandi á um 10 pund pakkann.

Ég reikna með að þetta sé dæmi um höft frá Evrópusambandinu sem leiddi loks till Brexit. Bretar vildu ekki láta aðrar þjóðir taka svona ákvarðanir fyrir þá.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband