Hvaða gagn gera óþægindi og efasemdir?

alone-513525_1920

Hefurðu tekið eftir hvað það er æðislegt að borða nánast hvað sem er eftir að maður hefur verið glorhungraður? Og hvað heitt kakó getur verið bragðgott í miklu frosti, sérstaklega ef maður er þyrstur? Finnurðu fyrir ánægju þegar þú losnar við sársauka sem þú hefur fundið fyrir? Þegar þú hefur tapað einhverju, segjum síma þínum eða veski, upplifirðu ánægju þegar þér tekst að finna týndu hlutina?

Ef þetta er satt, þýðir það að auðmýktin sem kemur með fávisku verður að ánægju þegar við höfum öðlast þekkingu? Er þetta ástæðan fyrir því að við sækjumst frekar eftir þekkingu, því við vitum hversu óþægilegt er að vera fávitur í þessum heimi?

Þegar liðið sem við höldum með í knattspyrnu tapar leik finnum við fyrir óþægindum, en verðum svo glöð þegar það sigrar. Myndum við ekki finna fyrir þessari ánægju ef liðið sem við höldum með sigraði alla sína leiki, alltaf? Væri það kannski bara leiðinlegt?

Við leggjum á okkur gríðarlega vinnu við að læra og æfa okkur, förum oft út fyrir þægindarammann til að bæta við þekkingu okkar, skilning og færni. Ef við gerðum það ekki, myndum við aldrei bæta okkur. Ef við höfum metnað til að bæta okkur, er skýrt að við þurfum að æfa okkur og læra á einbeittan hátt til að það skili árangri. Nám og æfing er alls ekki þægileg reynsla, en því mun meiri verður ánægjan þegar við náum loks árangri.

Þegar kemur að sóttvörnum og COVID-19 reyni ég að vera auðmjúkur gagnvart eigin vanþekkingu á þeim vísindum sem felast í sóttvörnum og er tilbúinn að hlusta á og gefa þeim vald yfir mér sem vita betur en ég þegar sú staða kemur upp. Rétt eins og ég er tilbúinn að ferðast með flugvél án þess að fljúga sjálfur og treysta á flugmanninn sem þekkir þetta starf betur. Ég er tilbúinn að hlusta á fólk sem ég vil læra af, og sem ég veit að veit betur en ég. Þess vegna einmitt les ég bækur og greinar. Kemst oft yfir eina bók á viku með því að hlusta á meðan ég keyri í vinnuna, fer í göngutúra eða skokka nokkra kílómetra. Þannig læri ég stöðugt, og reyni að halda auðmýkt gagnvart þeirri gríðarlegu þekkingu og færni sem til er í heiminum, en ég hef ekki á eigin höndum, hef ekki aðgang að nema að takmörkuðu leyti.

Okkur finnst óþægilegt þegar við erum veik, og þegar veikindin eru mikil leitum við okkur lækninga, kannski á netinu, kannski með að fara til læknis, manneskju sem getur annað hvort greint hvað er að eða sent mig til sérfræðings sem veit enn betur. Þannig er hægt að átta sig á meininu og með því að gefa lækninum leyfi til að sinna manni, getur hann hugsanlega læknað meinið. Lækningaferlið getur verið óþægilegt, en þegar því er lokið og meinið farið, þá er það ansi ánægjuleg tilfinning.

Þegar við finnum fyrir óþægindum gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að losna við þau, og þegar við finnum fyrir efa gerum við allt sem við getum til að sefa hann. Sumir sefa líkamleg óþægindi með lyfjum og jafnvel fíkniefnum, og slá þannig vandanum á frest, og sumir sefa efann með því að taka trú eða ímynda sér einhverja sögu sem þarf ekkert endilega að vera sönn, og slá þannig efanum á frest. Slíkt er líklegt til að leiða okkur í ógöngur.

Góð þekking og færni eru betri en kukl og samsæriskenningar. Samt virðist sumt fólk velja kukl og samsæriskenningar umfram þekkingu og færni, nokkuð sem er líklegt til að valda meiri óþægindum til lengri tíma, einfaldlega vegna þess að skynsemi og góð rök eru af skornum skammti.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband