Aðeins um vináttu

children-1149671_1920

Það er fátt skemmtilegra en að eiga góða vin og vera í slíkum félagsskap. Vinátta er eitt af því dýrmætasta sem við getum fundið á lífsleiðinni, ef ekki það dýrmætasta, sama á hvaða aldri við erum og óháð aðstæðum.

Hún gerir okkur að betri manneskjum, hún hjálpar okkur að tengjast öðru fólki, hún er vörn gegn ógnum og uppspretta hreinnar gleði. Hvar líður okkur betur en þegar við erum með góðum vin, getum verið nákvæmlega eins og við erum, sagt það sem okkur sýnist, og verið í sambandi sem er eins eðlilegt og fljót sem rennur til sjávar?

Börn læra með vináttu, þau fá úr henni skemmtun, nýja sýn á veruleikann, þjálfun í talmáli, og þau kynnast djúpri ást á einhverju sem er gott í sjálfu sér, ekki aðeins manneskjunni sem er vinur, heldur á vináttunni sjálfri. 

Í gegnum lífið áttum við okkur á því sem er okkur einhvers virði og höfum vináttuna sem dæmi um eitthvað gott sem við höfum kynnst, eitthvað gott sem við getum ræktað og jafnvel búið til frá grunni þegar okkur tekst að “smella” með réttu manneskjunni.

Góð vinátta getur kennt okkur siðferðileg gildi eins og hugrekki, því við erum líkleg til að vilja vernda vini okkar, gjafmildi, því við viljum taka þátt í að líf vina okkar verði gott og farsælt, heiðarleika og hreinskilni, því með þessum gildum ræktum við vináttuna.

Á gamals aldri er vináttan ennþá mikils virði, þegar við erum orðin of veik fyrir til að lifa því lífi sem við lifðum, hætt að vinna þau störf sem gerðu okkur að stoltum borgurum. Vinátta er góð þegar húmar að, þegar við höfum einhvern sem hlustar og gefur okkur tækifæri til að hlusta. 

Eitt það allra besta við vináttu er að þó við missum vin, nokkuð sem er sárt og getur valdið djúpri sorg, enda getur enginn komið í stað góðs vinar, þá getum við samt ennþá kynnst nýrri manneskju, eignast nýjan vin.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband