Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021

Hraunið og tíminn

eldgos

Um daginn gekk ég að gosinu í Geldingadölum og fannst það tilkomumikið. Við förunautur minn ræddum aðeins um kraftinn í þessari jörðu og hvernig mannlegur máttur gæti engan veginn staðið í vegi fyrir flæði hraunsins. Það minnir mig á tímann, hvernig hann silast áfram og ryður öllu öðru úr vegi, er kraftmeiri en allt sem reynir að standa í vegi fyrir honum. Ekkert stenst tímans tönn. 

Svo fer ég að velta fyrir mér því sem skiptir máli. Er hægt að gera greinarmun á því sem annars vegar kemur fljótt inn í þennan heim og hverfur svo fljótt aftur, eitthvað eins og tískubylgja, líf dægurflugu, lítið lag eða heitur hraunmoli og hins vegar einhverju sem kemur seint og hverfur seint, eða hugsanlega einhverju sem varir alltaf í þessum heimi? 

Af því sem líður hægt inn í þennan heim og svo hægt út úr honum aftur getum við talið hluti eins og tré, fjöll, fjölskyldur, samfélög, lönd, plánetur, sólina, stjörnuþokur og jafnvel alheiminn. 

En er eitthvað sem varir að eilífu? Getum við sagt að alheimurinn vari að eilífu þar sem kenningar eru til um hvernig hann varð til úr mikla hvelli og mun síðan á endanum skreppa saman inn í svarthol, sem síðan springur sjálfsagt aftur út síðar með öðrum miklum hvelli, eða eins og einhver húmoristi sagði, með smá væli? 

Í þessum heimi er erfitt að finna eitthvað varanlegt. Það er að segja þegar við tölum um hluti. En þegar við förum yfir í andlegu hliðina, þá finnum við fullt af hugmyndum sem virðast varanlegar, og stinga upp höfðinu í ólíkum menningarheimum, óháð trúarbrögðum eða siðum.

Til dæmis virðum við visku, góðmennsku og hugrekki umfram fáfræði, illmennsku og heigulshátt hvert sem farið er. Svo eru það þeir sem trúa á eilífan Guð og ódauðleika sálarinnar. Eins og gefur að skilja verður fátt sannreynt um slíka hluti, enda eiga vísindi fyrst og fremst við um hinn efnislega heim, þó að ýmis fræði snerti á þeim andlega. Og það kæmi mér alls ekki á óvart þó að öll hin andlegu gæði hverfi þegar mannkynið er horfið á brott. 

Og ég velti svolítið fyrir mér, þúsund árum eftir að mannkynið er horfið af jörðinni, og þá ekkert endilega í geimskipum, heldur hefur liðið undir lok eins og svo margar aðrar dýrategundir, verður þá eitthvað eftir sem hægt væri að kalla sál mannkynsins? Mun eitthvað lifa okkur af? Verða borgir okkar og byggingar étnar upp af gróðri og tímanum sjálfum?


Af hverju er svona erfitt að skilja heiminn og sjálfan sig?

sisyphus-4309051_1920

Sá sem reynir að skilja sjálfan sig og heiminn áttar sig fyrr eða síðar á þeim vanda að allt er stöðugt að færast úr stað, að þegar maður nær loks tökum á einhverju fyrirbæri, sama hvort það er hlutur eða skilningur, þá breytist eitthvað sem veldur því að hann rennur milli fingra okkar og hverfur út í tómið. Bæði er heimurinn stöðugt að breytast og við líka.

Það sérstaka við sjálfskilninginn er að þegar við höfum loksins öðlast innsæi í sjálf okkur, þá erum við ekki búinn að höndla endanlega hvernig við erum, heldur höfum við færst upp um stig, við skiljum aðeins meira sem þýðir að heimur okkar stækkar aðeins meira, sem þýðir að við þurfum að leggja meiri vinnu á okkur til að ná utan um hið breytta sjálf. 

Og þannig gengur þetta, rétt eins og í goðsögninni um Sísýfos sem stöðugt ýtir stórum grjóthnullungi upp brekku, og þegar hann komst loks á toppinn rann hann alltaf niður hinumegin. Nema að þegar við lítum til baka upp brekkuna eftir að hafa elt hnullunginn niður hlíðina, þegar við höfum öðlast meiri skilning, hefur hóllinn stækkað og svo eftir nokkur skipti til viðbótar orðið að svo háu fjalli að enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi, og þannig verður þrautin sífellt þyngri og erfiðara að ljúka henni. 

Málið er að til að skilja okkur sjálf og heiminn þyrftum við að frysta tímann. Ef við gætum fryst tímann myndum við hætta að lifa lífinu og breyttum því sem við erum. Það hefur áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar ef rannsóknin sem slík breytir okkur í eitthvað annað, nokkuð sem gerist alltaf þegar við öðlumst dýpri skilning á sjálfum okkur.

Málið er að við þurfum tíma til að öðlast þennan skilning og við þurfum líka að lifa lífinu, öðlast dýpri skilning á meðan við lifum því og framkvæmum. Við þurfum að átta okkur á að við erum ekki fullkomnar verur, að okkur mun alltaf skorta einhvern skilning eða þekkingu, sama hvað það er sem við tökum okkur fyrir hendur, og að við þurfum stöðugt að læra eitthvað nýtt, sem er viðeigandi fyrir nýjar aðstæður.

Ef við ákveðum að hætta að læra á einhverjum ákveðnum tímapunkti, höldum að við höfum lært nóg, klárað allt nám, þá munum við ekki ná góðum árangri í störfum okkar. 

Þar sem við erum alltaf að læra og alltaf að framkvæma gefst lítill tími til að skilja heiminn og mann sjálfan. Þó eru til undantekningar á þessu. Einn besti fjárfestir í heimi, Warren Buffett, er þekktur fyrir að vera stöðugt í námi, hann lokar sig inni á skrifstofu sinni og les gegnum ársskýrslur fyrirtækja, les bækur og spilar heilmikið brids á netinu. Hann hefur öðlast djúpan skilning á fyrirtækjarekstri og sjálfum sér með þessum stöðugu pælingum í fjölmarga áratugi. En jafnvel hann viðurkennir að mistök hans eru mörg og þekking hans takmörkuð, reyndar það takmörkuð að hann skoðar aðeins fyrirtæki sem hann getur skilið. Einn af hans mestu styrkleikjum er að átta sig á hvað er ofan hans skilningi og hvað hentar honum. Ef honum finnst of erfitt að skilja rekstur fyrirtækis, hendir hann skjölum viðkomandi í hólf sem segir ‘of erfitt’, og flest af því sem hann skoðar lendir reyndar í þeim bunka. Það gerist öðru hverju, kannski einu sinni á ári, að hann finnur eitthvað nýtt og spennandi.

Þessi viska Warren Buffets minnir svolítið á visku Sókratesar, sem komst að því að hann væri vitrari en flestir aðrir samferðamenn hans gegnum tíma og rúm vegna þess að hann áttaði sig á takmörkunum eigin þekkingar, hann áttaði sig á hvað hann vissi ekki, en flestir aðrir töldu sig vita eitthvað sem var utan þeirra sérfræðisviðs, og Sókrates hafði lag á að sýna þessu fólki að það vissi ekki jafn mikið og það taldi sig vita. Þannig safnaði hann að sér óvinum sem á endanum dæmdu hann til dauða. En það er önnur saga.

Kannski er málið að það er ómögulegt að skilja allt sem tengist okkur og allt í heiminum. Kannski getum við bara skilið einhvern einn hlut. Ekkert annað. Vandinn getur verið að velja þennan eina hlut og verja lífinu í að rannsaka hann, og átta sig á að allt annað en þessi eini hlutur er utan okkar skilnings, og jafnvel hluturinn sjálfur, sérstaklega ef við lærum sífellt meira um þennan eina hlut - námið á honum lýkur ekki frekar en nokkuð annað nám.

 

Mynd eftir Gordon Johnson frá Pixabay

 


Stöndum gegn auðræði og með þeim kúguðu

cafe-4769677_1920

Í sérhverju samfélagi eru manneskjur sem styðja við þá sem standa höllum fæti, fólki sem skortir hluti eins og menntun, fjármuni, heilsu eða atvinnu. Í heilbrigðu samfélagi styðja stjórnvöld slíkar manneskjur með stofnunum og kerfum, til dæmis með skólum og miðlum til að vernda sannleikann, spítala og heilbrigðiskerfið til að vernda heilsuna, lögreglu og slökkvilið til að vernda öryggi, og svo fram eftir götunum.

Þessar stofnanir eru svo rótgrónar um víða veröld að okkur getur þótt þær vera sjálfsagður hlutur. En þær eru það ekki. Þær eru stofnaðar til að vernda okkur gegn ýmsum ógnum, og þessar ógnir eru sífellt á ferðinni.

Í sumum samfélögum þar sem siðferði er ábótavant er þekkt að fjársterk fyrirtæki noti áhrif sín til að múta embættismönnum í stofnunum til að ná sínu fram. Þetta er þekkt í heimi alþjóðaviðskipta og þess vegna ber fyrirtækjum skylda til að mennta eigið starfsfólk í siðfræði og lögum, sem sýnir þeim að slík hegðun er ekki ásættanleg. Samt eru sum fyrirtæki spillt, einhverjir siðlausir einstaklingar eru ráðnir inn sem ráða síðan fleiri siðlausa einstaklinga sem hvorki virða lög né almennt siðferði. Þetta er fólkið sem býr til ógn gegn heilum samfélögum.

Í traustum samfélögum geta embættismenn sem reynt er að kúga, til dæmis með mútum og ef það gengur ekki, hótunum eða öðrum slæmum meðölum, staðið í fæturna og treyst á að samfélag þeirra standi með þeim gegn ógnvaldinum. Í veikari samfélögum fá þessir einstaklingar engan slíkan stuðning og þeim rutt í burtu af miskunnarleysi. 

Ekki má gleymast að þessir einstaklingar eru þeir sem eru að verja þá sem verr standa í samfélaginu, og þeir geta stutt þá með því að hafa stofnun í kringum þá sem ver þá gegn slíkum ógnum. En þegar stofnanirnar bregðast þessu fólki og þegar samfélagið bregst þeim, þá er harmleikur vís. 

Þeir sem vilja sölsa undir sig völdin í samfélaginu (þetta fólk er til), reyna að gera ríkjandi stofnanir tortryggilegar. Hugtök eins og ‘falsfréttir’ eru búin til einmitt í þeim tilgangi. Í slíkum samfélögum er lítið fé lagt í menntun fólks, og oft meira í vopnabirgðir og heraga, þannig verða manneskjur gerðar að tækjum fyrir þeim sem völdin hafa, í stað lýðræðislegra þegna sem beita gagnrýnni hugsun af frjálsum vilja.

Við þurfum að vernda embættismenn okkar, þessar hetjur sem eru það róttækar að verja lífi sínu í að verja sannleikann, heilbrigði og öryggi okkar, í að verja þessar þarfir okkar og gildi sem gefa lífi okkar sérstöðu og merkingu. Mikill fjöldi þessara hetja starfa bakvið tjöldin og enginn þekkir þau, og sum eru þau í sviðsljósinu og þurfa að þola mikla hríð árása, einfaldlega vegna þess að þau eru að vinna vinnuna sína.

Stöndum með þessu fólki. Stöndum gegn auðræði og með þeim kúguðu.

 

Mynd eftir kirillslov frá Pixabay

 


Hvernig getum við komist hjá því að spillast?

global-warming-2958988_1920

Þegar ég var krakki man ég eftir að börn töluðu svolítið um að eitthvað barn spillti öðru barni, þannig að barnið hætti að haga sér eins og það átti að haga sér, en fór að haga sér meira eins og hitt barnið sem spillti því. Þetta heyrðist nokkuð oft á mínum æskuslóðum, og ég held svei mér þá að ég hafi tekið þetta sem alvarlegan möguleika og ákveðið að láta aldrei spilla mér.

Það má reyndar spyrja að því hverju var verið að spilla, í þessu dæmi var verið að spilla hegðunarmynstri, en sjálfsagt væri hægt að setja alls konar viðmið. Til dæmis þegar trúuð manneskja hættir að trúa, gæti hið trúaða samfélag talað um að búið væri að spilla viðkomandi. Á sama hætt gætu hinir trúlausu talað um að einhverjum hafi verið spillt ef viðkomandi snýr frá trúleysi yfir í trú. 

Einu sinni spillti starfsfélagi minn á bensínstöð Egils appelsíni með tvígengisolíu. Ég veit og man þetta því ég drakk drykkinn úr glasi og var með ógeðsbragð lengi á eftir. Það væri reyndar hægt að snúa þessu við og segja að appelsínið hafi spillt tvígengisolíunni, því varla var hún nothæf eftir að hafa verið blandað í appelsín. Sláttuvélar og trabantar hefðu sjálfsagt brugðist svipað við og ég eftir að kyngja þessu drykk.

En þegar við tölum um að eitthvað spillist erum við að ræða um eitthvað sem fer úr góðu ástandi yfir í verra ástand. Sjúkdómur getur spillt heilbrigði okkar og gert okkur veik. Fíkn getur spillt geðheilsu okkar og við getum bæði henni og sjálfum okkur. Slæm hegðun getur spillt menntun okkar og gert okkur að verri manneskjum. Flest þetta góða sem við höfum í lífinu er eitthvað sem við höfum byggt, og því getur öllu verið spillt og hægt er að leggja það í rúst. 

Eru til manneskjur sem ekki er hægt að spilla? Þó að engin manneskja sé nógu öflug til að sigrast á öllu illu, enda erum við víst þannig að við töpum öll á endanum fyrir tímanum og dauðanum, eru til manneskjur það sterkar að þær geti staðist einhverjar tegundir spillingar? Að þegar tvígengisolían blandast í huga þeirra, sál eða líkama, að þær getir sigrast á spillingunni, drukkið hana í sig og spýtt henni út?

 

Mynd eftir Chris LeBoutillier frá Pixabay


Af hverju að halda barninu í okkur lifandi?

girl-535251_1920

Stundum heyri ég frasann að mikilvægt sé að halda barninu í sjálfum sér lifandi. Yfirleitt játa ég því bara, finnst það sjálfsagður sannleikur, eitthvað svo augljóst, en þegar maður veltur því fyrir sér er merkingin kannski alls ekki augljós og síðan spurning hvort að þetta sé yfir höfuð satt.

Þegar við tölum um barnið í sjálfum okkur hljótum við að túlka þetta svolítið eftir eigin höfði. Mér dettur ekki fyrst í hug krakki með kúk í bleyjunni öskrandi að hann langi í sleikjó, heldur eitthvað dýpra, að þetta sé þessi eiginleiki að skima sífellt umhverfið, vera alltaf til í að læra eitthvað nýtt og undrast yfir nýjum hlutum.

Við erum þá að tala um þessa barnslegu forvitni, þennan áhuga fyrir að spyrja um hlutina af einlægni, og fylgja spurningunum eftir með því að spyrja nánast hverja einustu lífveru sem á vegi manns verður, og ekki síst af öllu spyrja sjálfan sig.

Ég hef í sjálfum mér reynt að viðhalda þessari forvitnu, þessari undrun, í stað þess að dæma hlutina út frá eigin stöðu í veruleikanum, reyna að átta mig á fyrirbærunum út frá ólíkum sjónarhornum. Til dæmis þegar vinur minn í Dubai var að fræða mig um Ramadan, þar sem fólk má ekki borða á meðan sólin skín í heilan mánuð, þá spurði ég hann hvort að fólk yrði ekki svakalega pirrað við þessar kringumstæður. Hann sagði mér að vissulega væri fólk pirrað yfir daginn en hakkaði sig svo í sig mat á nóttunni. Stundum væri fólk svolítið pirrað þessa dagana, en samt hafði fastan ákveðið gildi, að sýna hefðbundnum gildum virðingu með því að breyta eigin hegðun í ákveðið tímabil. Mér finnst þetta mjög áhugavert.

Það sama gerist þegar maður heimsækir ólíka menningarheima, eða jafnvel skoðar aðeins betur okkar eigin, og jafnvel þegar maður skoðar eigin hug aðeins betur, eða les bækur og greinar, horfir á sjónvarpsþætti og bíómyndir, allt getur þetta hleypt í gang þessari undrun sem mér finnst ómetanlegt að hafa. Stundum reyndar finn ég hjá sjálfum mér að ég hef ekki tíma til að gefa hlutunum gaum, hef ekki tíma til að láta tímann standa kyrr, ekki tíma til að stoppa aðeins í núinu, því ég er meðvitaður um að ég er á leiðinni eitthvert annað. Og það að vera alltaf á leiðinni eitthvert annað getur stolið bita af þessari barnslegu forvitni, og ef maður er alltaf of upptekinn, þá endar maður á því að missa af því sem aðeins á sér stað í núinu.

Öll þessi augnablik eru eitthvað dýrmætt. Þetta geta verið augnablik með nánum vinum eða fjölskyldu, eitthvað sem við missum af því við erum upptekin við að sinna skyldum okkar, sjá fyrir fjölskyldu okkar, vinna vinnuna okkar, standa sig. En þetta kostar allt. Við þurfum að vega og meta hvað er einhvers virði í lífinu, og stundum þurfum við að hægja aðeins á okkur, finna barnslegu forvitnina, barnið í sjálfum okkur, leyfa okkur að sitja inni í bíl þegar rignir og horfa á dropana leka niður rúðuna.

En hugsaðu þér hvað verður um þá sem tapa þessu barni í sjálfum sér. Ég velti fyrir mér hvað verður um slíkt fólk. Er það fólkið sem getur ekki hætt að eltast við veraldleg gæði? Er það barnið í okkur sem sættir sig einfaldlega við þá djúpu ánægju og þakklæti sem fylgir því að vera meðvituð um að við höfum fengið tækifæri til að vera til og deila lífinu í þessum tíma og þessu rúmi?

 

Mynd: Rudy og Peter Skitterians á Pixabay 


Hvernig tapar maður sjálfum sér?

consumes-3664792_1920

Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard skrifaði um það hvernig það að tapa sjálfum sér gerist hægt og hljótt, þannig að jafnvel enginn tekur eftir því, hvorki aðrir né maður sjálfur. Hins vegar ef maður tapaði veraldlegri hlutum, eins og til dæmis hálfri milljón króna, handleggnum eða símanum, þá gerist það með látum, það fer leit í gang og fólk gefst ekki upp fyrr en sökudólgur er fundinn.

En að tapa sjálfum sér, að hætta að vera sú manneskja sem maður er, að breytast í eitthvað annað, það er ekkert endilega eitthvað sem aðrir taka eftir né maður sjálfur. Þegar fjölskyldumeðlimur eða vinur sér þig er hann ekki að horfa inn í sál þína, heldur hefur einhverjar minningar sem hann tengir við, tengir við útlit þitt, rödd þína, hegðun þína þá og nú, tengir við hvað þú hefur að segja. En ef þú ert ekki lengur til staðar, það er ekki eitthvað sem flestir taka eftir. Tækir þú eftir því ef þú tapar þér?

Það er hægt að tapa sjálfum sér á ýmsan hátt, til dæmis í veikindum. Alzheimer sjúklingar byrja oft á að tapa hugtökum og orðum, og smám saman hverfur skammtímaminnið. Loks virðist vera eins og þau sjálf hafi verið þurrkuð út úr heiminum, en aðeins skelin standi eftir, án manneskjunnar sem byggði hana. Til eru alls konar sjúkdómar sem herja á minnið, ekki bara Alzheimer.

Sams konar hlutir geta gerst ef fólk breytir sér með hegðun sinni, til dæmis með misnotkun fíkniefna og áfengis, stera og hormónalyfja, geðlyfja og verkjalyfja. Hugsanlega getur fólk líka tapað sér með slæmri hegðun eða með því að gera ekki neitt.  Það er eitthvað sem gerist, áhrif lyfjanna eða ávanans verða sterkari sjálfsins. Þegar það gerist getur vel verið að viðkomandi tapi sjálfum sér.

Það sama getur gerst við mikinn sársauka og veikindi.Eftir því sem sársaukinn og veikindin eru alvarlegri, því erfiðara verður fyrir manneskjuna að viðhalda sjálfri sér, að vera hún sjálf, óháð veikindum sínum. Sársaukinn og veikindin geta yfirtekið allt annað.

Þetta getur gerst þegar fólk einangrast frá öðrum, verður huldufólk í lifanda lífi, ákveður að vera bara heima hjá sér og hafa samskipti við sem fæsta. Samskiptin við aðra er nefnilega ein af þeim leiðum sem við förum til að viðhalda eigin sjálfi. 

Spurningin er þó hvort að hægt sé að spyrna við þessu, hvort við getum viðhaldið okkar eigin sjálfi með því að viðhalda heilbrigðum huga. Hvort að við gætum gert hugann sterkari en öll þau utanaðkomandi áhrif sem geta bugað hann.

Þegar við sofnum hverfum inn í heim þar sem við virðumst hvergi vera, þó að við vitum að líkaminn sé bara í hvíldarstöðu. En á meðan við sofnum töpum við okkur tímabundið. Ég velti stundum fyrir mér hvort að dauðinn sé á þennan hátt líkur svefninum, að þegar við deyjum sé það eins og að sofna. Munurinn er sá að við vöknum ekki aftur, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem við erum vön. Enginn veit hvað gæti tekið við, gæti sjálfið lifað dauða líkamans af? Ef svo, hvað yrði um það? Gæti það ímyndað sér einhverja eilífðartilvist og tapað sér í heimi sem hún skapar sjálf? Og væri þá sá heimur mótaður eftir heimspeki viðkomandi á meðan hann eða hún lifði lífinu?

Trúarbrögðin tala um sálina. Að hún gæti farið til himna eða helvítis, eða á stað sem kallast Limbó sem er á milli tilvisvarstiga, að við gætum endurfæðst sem hlutur, skordýr, dýr eða manneskja, eða færum á einhvern annan stað þar sem líkar sálir safnast saman og njóta lífsins eftir lífið. Hugsanlega tekur ekkert við, en þá vaknar spurningin hvað ‘ekkert’ getur verið því það er eitthvað sem við getum ekki upplifað. Þarf sjálfið á líkamanum að halda til að vera áfram til, eða verðum við bara til og höldum áfram að vera til óháð líkamanum, eða hættum við einhvern veginn að vera til?

Hverfum við bara hljótt út í myrkrið?

 

Mynd: Pixabay


Getum við útrýmt illsku, fáfræði og heimsku úr heiminum eða okkur?

stormtrooper-1343877_1920

Það er margt sem getur pirrað við heiminn. Eitt af því er fólk sem er á ólíkri skoðun um lífið og tilveruna, sérstaklega þegar það eru stjórnmálamenn eða predikarar sem reyna að yfirfæra eigin skoðanir yfir á alla aðra í samfélaginu. Annað er COVID-19 sem hefur alltof lengi fengið að grassera um allan heim. Enn eitt er fólk sem ber ekki virðingu fyrir lögum um sóttvarnir og hafa hamlandi áhrif á líf fjölda manns. Og annað er fólkið sem fordæmir alla þá sem tilheyra ákveðnum menningarheimi og halda uppi hatursumræðu um hópa fólks.

Allt þetta er illt og getur verið pirrandi. En eitt virðist sameiginlegt með allri illsku heimsins, hún virðist eiga sér upphaf í fáfræði og heimsku, grunnum skoðunum og fordómum, slæmu skapi og leiðindum.

En þessi illska, rétt eins og fáfræðin og heimskan, er endalaus í eðli sínu og útilokað fyrir eina manneskju eða jafnvel allt mannkynið að útrýma henni. Þó að það takist í eina sekúndu um alla veröld, þá myndi þetta augnablik vera fljótt að glatast þar sem tímanum tekst að rústa öllu á endanum, bæði góðu og illu.

Það er samt hægt að taka á illsku, fáfræði og heimsku að einhverju leyti, í smáum hluta heimsins, í okkur sjálfum. Ef við í stað þess að kenna öðrum um eitthvað slæmt sem hefur gerst og lítum frekar í eigin barm, veltum fyrir okkur hvað við gætum hafa gert betur til að koma í veg fyrir þessar aðstæður, þá gætum við kannski fundið eitthvað sem mögulegt er að lagfæra. Það sama með fáfræði og heimsku, í stað þess að kvarta yfir fordómum og hleypidómum annarra, hvernig væri þá að leggja á sig þá vinnu sem það kostar að skoða eigin hug? Hvernig væri að nota tímann til að læra, til að hrista aðeins upp í þessu lífi sem við lifum, koma okkur út fyrir þægindarammann og lifa aðeins?

Ég fyrir mitt leyti skrifa þetta blogg, les mikið og reyni að koma mér í krefjandi aðstæður. Ekki held ég að það muni breyta heiminum. Ekki held ég að það muni breyta skoðunum einhvers sem les þetta blogg. Hugsanlega kveikir það einhverjar hugmyndir og getur verið tilefni til spjalls á föstudagskvöldi. Hins vegar gerir það mér gagn. Það gefur mér færi á að hugsa upphátt og hrópa þessar hugsanir út í heiminn, svipað og að standa út í fjöru og öskra að ólgandi öldusjó, nógu hátt til að ég hlusti sjálfur, án þess að það hafi nokkur áhrif á hafið og vindinn.

Það er nefnilega svolítið merkilegt sem gerist þegar maður færir eigin hugsanir í orð, þessar hugsanir sem voru kannski grófar og út um allt, slípast aðeins til og verða skarpari. 

 

Mynd: Pixabay


Að læra um okkur og heiminn

mars-67522_1920

Eins og rætt hefur verið erum við öll gallagripir. Við höfum fordóma sem okkur ber skylda til að losna við, því þeir trufla okkur frá því að finna rétta stefnu í lífinu. Fordómar eru eins og skuggar. Þeir liggja á bak við upplýsta hluti, og þegar þú telur þig hafa loksins fest hendur á honum er hann horfinn. Og ef þú heldur að hann sé farinn hefur þú líklega rangt fyrir þér, hann hefur bara færst úr stað. 

Hugur okkar er magnað fyrirbæri. Hægt er að nota hann eins og fjölda ljósa. Þegar þú hefur öðlast nýja þekkingu kviknar á nýju ljósi, og gefur nýja sýn og skuggar hverfa. Það er nefnilega þekkingin á einhverju sönnu sem getur skinið svo skært og frá svo mörgum hliðum að fordómar hverfa, að minnsta kosti um stund.

En það er alltaf sama hvað við öðlumst mikla þekkingu, hvað við lærum mikið, hvað við erum upplýst, alltaf laumast skuggarnir inn í hugann, og sífellt er eina ráðið að öðlast frekari þekkingu og skilning til að lýsa upp staðina þar sem nýju skuggarnir mynduðust. 

Stóra spurningin er hvort einhver geti verið upplýstur að fullu, og hvað það myndi þýða. Gæti einhver haft raunverulega þekkingu á sjálfum sér og eigin eðli, á heiminum og eðli hans, á veruleikanum og möguleikum handan efnisheimsins? Það er auðvelt að ímynda sér veru sem hefur slíkt ímyndunarafl, fjöldi þjóða hafa stofnað trúarbrögð í kringum slíkar verur, hvort sem þær eru til eða ekki. Það sem skiptir máli hérna er ekki tilvist verunnar, heldur það að við getum ímyndað okkur hana og trúað á hana. Það eitt gefur okkur hugmynd um hvert við getum stefnt í þessum heimi, sýnir okkur að við séum ekki bara mold og ryk, heldur mögulega eitthvað meira, eitthvað sem getur lýst upp heiminn, þó ekki nema væri rétt eins og augnablik eldspýtu.

Óðinn fórnaði öðru auga sínu til að hafa slíka þekkingu, og Guð Biblíunnar, Kóransins og Tórunnar er alvitur og fullur þekkingar, sér allt sem hefur gerst, er að gerast og mun gerast, einn dagur fyrir hann er þúsund ár og þúsund ár einn dagur. Það sama á við um Búdda sem fann Nirvana, hina endanlegu uppljómun og því sama má halda fram um Sókrates, sem taldi að skynsöm manneskja sem hugsaði skýrt gæti mögulega komist á æðra tilverustig og hitt þar fólk til eilífðar sem komist hafa jafn langt.

En er þetta mögulegt fyrir ófullkomnar manneskjur eins og okkur? Getum við verið það góðar, heilar í gegn, skynsamar og skýrar að við öðlumst þekkingu á því sem er raunverulegt, í stað þess að sífellt rúlla okkur upp úr drullu sýndarveruleikans, eða þess áþreifanlega, þess sem við teljum vera hinn eina sanna veruleika, aðeins vegna þess að við getum skynjað hann með skynfærum okkar?

Við sjáum sífellt lengra út í heim. Okkur tókst að fjarstýra þyrlu á fjarlægri plánetu. Pælið í því. Og þessi þyrla getur aflað upplýsinga um það sem er þarna úti. Hefur það einhver áhrif á það sem er hérna inni? Mun þessi nýja þekking hafa áhrif á allt sem við vitum? Þurfum við kannski að byrja að meta veruleikann upp á nýtt í hvert sinn sem við lærum eitthvað nýtt um heiminn eða okkur sjálf? Og þegar við lærum eitthvað nýtt um okkur sjálf, þýðir það að þekking heimsins er að einhverju leyti uppfærð?

Besta tækið sem við höfum til að læra um okkur sjálf er nákvæmlega sama tækið og við notum til að læra um heiminn. Þetta tæki er rökhugsunin. Rökhugsun snýst ekki bara um að átta sig á að tveir plús tveir séu fjórir. Hún er gagnrýnin, skapandi og reynir að sjá til endamarka hugsunarinnar og veruleikans. Þessi rökhugsun kveikir ljósin og fælir burtu skuggana. Og nú er hún byrjuð að lýsa upp gamla skugga á plánetunni mars, en þó ekki án þess að bæta við einum nýjum skugga, skugganum af þyrlunni, skugganum sem tilheyrir okkur, mannkyninu.

 

Mynd: Pixabay


Er fordómafullt líf einhvers virði?

bronze-610837_1920


Einhvern tíma hafði Sókrates á orði að líf sem ekki er rannsakað sé ekki þess virði að því sé lifað. Þetta hljómar frekar hart og kalt. 

Hvers eiga þeir að gjalda sem vilja bara slaka á, fljóta gegnum lífið með því að láta það gerast, vera bara hluti af því, taka samt þátt? Hver er Sókrates að halda því fram að slíkt líf sé einskis virði?

Er hann að halda því fram að líf gæludýra okkar séu ekki þess virði að þeim sé lifað? Eða líf búfénaðar? Bara vegna þess að þau rannsaka ekki lífið og tilveruna?

Eða meinar hann kannski að lífið væri ekki þess virði að lifa því, út frá hans eigin sjónarhorni, að það væri frekar innantómt ef hann gæti ekki stöðugt spurt spurninga og reynt að átta sig á eðli heimsins og allra þeirra viðmiða og hugtaka sem við lifum eftir?

Sókrates áttaði sig á að samtímamenn hans, þeir virtustu og þeir sem taldir voru vitrastir allra, voru ekkert sérstaklega vitrir að því leyti að þeir þóttust vita hluti sem þeir vissu ekkert um. Fólk lifði eftir hugmyndum sem það einhvern veginn hafði lært á ævinni og meðtekið, en ekkert endilega kafað djúpt í grundvallar merkingu þeirra. 

Þetta fólk vissi ekkert endilega hvort að hugmyndir þeirra voru byggðar á fordómum sem höfðu síast inn í vitund þeirra gegnum menningu,siðvenjur, orðatiltæki, skoðanir eða þáverandi reglur og lög samfélagsins, eða hvort þær voru reistar á traustum rökum, frekar en sannfærandi tilfinningu. 

Sókrates áttaði sig á þessu með því að spyrja fólk um grundvallar gildi þess, og oft kom í ljós að þetta fólk hefði ekki mótað hugmyndir sínar jafn vel og það taldi sig hafa gert og þannig gat Sókrates sýnt fólki þegar það var í mótsögn við eigin hugmyndir. Hann var ekki vinsæll fyrir að gera þetta, og samtímamenn áttuðu sig ekki á hvaða gildi það hafði að hann móðgaði mann og annan, en við sjáum þetta í dag, rúmum tuttugu öldum seinna, við áttum okkur á að við erum gallagripir og ekki allar okkar hugmyndir fullmótaðar frekar en hinnar forngrísku, og við vitum að það er aðeins ein leið til að vera ekki sífellt í mótsögn við sjálf okkur, og það er einmitt að vera sífellt rannsakandi. 

Ef við rannsökum ekki líf okkar og tilveru, hugmyndir okkar og samfélagsins, þá getum við auðveldlega fest okkur í hugarheimi fordóma og blekkinga. Að lifa lífinu þannig, sem fordómafullur einstaklingur, ætli það hafi eitthvað gildi í sjálfu sér?

 

Mynd: Pixabay


Að horfast í augu við eigin galla

bulls-eye-1044725_960_720

Ekkert okkar er fullkomið. Við höfum einhverja galla og langanir sem við felum, ekki bara fyrir öðrum, heldur sjálfum okkur líka. Fátt er erfiðara en að horfast í augu við sjálfan sig, átta sig á eigin göllum, eigin ófullkomleika, og af hugrekki takast á við þá, í stað þess að fela þá.

Við göngum mörg í grímubúningum gegnum lífið. Látum eins og við sjálf séum ekki til, enda er flest það sem við framkvæmum á yfirborðinu, sem og flest það sem við segjum. Djúpa sjálfið birtist ekkert endilega öðrum en okkur sjálfum og þeim sem við treystum mest, og hugsanlega ekki einu sinni okkur sjálfum eða þeim sem við treystum, því við getum farið að trúa að við séum aðeins það sem við gerum, hvernig við högum okkur og það sem við segjum, en ekki þetta mikla djúp sem býr öllu þessu að baki.

Þessi djúpa manneskja bak við tjöldin. Galdrakarlinn í Oz. Við þekkjum hann öll. Hann býr innra með okkur. Stundum getum við gleymt að hann sé til, en samt er hann þarna. Stundum spyr hann spurninga sem við þurfum að fá svör við. Sum finnum við svörin á þægilegum stöðum, í ferlum sem samfélagið og menningin hefur búið til, en sum okkar erum tilbúin að kafa dýpra, horfa í okkar eigið sjálf og deila með öðrum.

Ég hef ferðast mikið um heiminn og sífellt undrast hvað manneskjan er djúp. Ég furða mig á öllum þeim furðuverkum sem við höfum þróað: skýjakljúfa, flugvélar, internetið, snjallsíma, tungumál sem henta hverjum menningarheimi, sóttvarnir og margt fleira. Við sjáum þessa snilligáfu sem býr innra með okkur öllum í þeirri merkilegu sköpun sem mannkynið framkvæmir. Þessi dýpt liggur á borðinu, yfirborðinu. Við getum virkjað hana í okkur sjálfum.

Á Íslandi er leiðin greið að slíkri virkjun. Við höfum öll aðgang að einu besta skólakerfi sem hægt er að hugsa sér. Sama hvar við erum stödd, óháð aldri og fyrri menntun, þá er alltaf leið fyrir okkur til að virkja þennan huga okkar og kafa dýpra í hvað það hugðarefni sem okkur langar til. Við öðlumst slíka menntun einnig með að leggja á okkur í starfi eða sem foreldri, eða jafnvel sem vinur eða sjálfboðaliði í björgunarsveit. 

Við erum gríðarlega klók sem heild, en stundum gleymum við okkur í göllum okkar sem einstaklingar, og föttum ekki eða viljum ekki viðurkenna að hvorki heimurinn né við sjálf getum verið fullkomlega það sem við viljum að hann eða við séum. 

Fyrirgefðu þér þína eigin galla, samþykktu að þeir séu til staðar, skoðaðu þá, reyndu að kynnast þeim, þekktu þá, láttu þér ekki standa á sama um þá, og þá verða þeir smám saman að styrkleikum. En gallarnir innan með okkur eru endalausir, og þó gott sé að læra um þá og átta sig á þeim, og breyta þeim í styrkleika, er alls ekki gott að velta sér upp úr þeim og láta þá lama sig.

Bestu listamenn okkar ná þessu. Þeir finna þessa galla og þessa löngun, og án þess að skammast sín draga þeir þá fram í dagsljósið og eru sterkari fyrir vikið. Við erum hrædd við að láta dæma okkur, bæði af öðrum en ekki síst að dæma sjálf okkur, því ef þú veltur því fyrir þér, þegar einhver fellir dóm um þig eða frammistöðu þína, þá er ekki verið að dæma þig sem manneskju, þessa djúpu þig, því aðeins ein manneskja er fær um að dæma þig, og það ert þú sjálf.

 

Mynd: Pixabay


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband