Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
Hverju getum við stjórnað og hverju getum við ekki stjórnað?
14.3.2021 | 09:59
Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er sem við ráðum yfir í þessum heimi og kemst jafnan að því að það er út frá ákveðnu sjónarhorni gríðarlega mikið, öll manns innri tilvera, og á sama tíma gríðarlega lítið, öll manns ytri tilvera.
Það er svo margt sem ég hef ekkert vald á og líf snýst að miklu leyti um. Til dæmis hef ég frekar lítil áhrif á eigin líkama. Ég hef ekkert um það að segja hvenær hann kemur inn í þennan heim eða hvenær hann hverfur úr þessum heimi. Á meðan ég lifi lífinu get ég þó byggt upp venjur og lífshætti, ef ég geri það af skynsemi er ég líklegri til að hafa heilbrigðari líkama, en sum okkar hafa þó alls enga stjórn yfir því. Sumir fá sjúkdóma sem enginn ræður við, en við reynum þó að finna leiðir til að sigrast á þeim og höfum heilar vísindagreinar sem einbeita sér að því, en það er varla á valdi einstaklingsins. Það eina sem einstaklingurinn getur gert er að átta sig á hverju hann eða hún hefur vald yfir og hafa áhrif á það.
Það sem við stjórnum algjörlega eru til dæmis viðhorf okkar, hvort við þróum með okkur húmor, hvernig við metum lífið og tilveruna, hvar við finnum gildin. Það virðist vera sama hvað ytri takmarkanir eru miklar, það er alltaf pláss fyrir innra frelsi, þar sem við finnum leiðir til að njóta lífsins.
Sjálfur hef ég gengið gegnum ýmislegt í þessu lífi og kynnst vel hverju ég hef stjórn á og hverju ekki. Ég hef til dæmis engin völd yfir því hvernig þú, lesandi góður, tekur því sem þú ert að lesa, né ræð ég yfir miðlinum sjálfum sem þú ert að lesa. Ég ræð hins vegar í hvaða átt ég horfi og hvernig ég tjái mig (eftir bestu getu), og ég vel að horfa inn á við, út frá því hvernig heimspekingar gegnum aldirnar hafa skráð niður upplýsingar um eigin innviði, heim hugsana sem skipta í raun aðeins þá máli sem meta slíkar pælingar.
Með lestri á heimspeki lendi ég stöðugt í því að uppgötva eitthvað nýtt innra með mér, og finnst stundum svolítið leitt að hugsa til þess að ekki allir finni þessa hluti hjá sér, en man svo að gleðjast yfir því aftur að ég sjálfur hef þó þessa gáfu. Reyndar held ég að við getum þetta öll, en svona pælingar krefjast áhuga, og hugsanlega kemur þessi áhugi á því sem við erum ekki fyrr en eitthvað alvarlegt bjátar á, að við upplifum ástvinamissi, verðum alvarlega veik eða liggum fyrir dauðanum. Þannig hófust mínar heimspekilegu pælingar á unglingsaldri, og þær festu rætur þegar ég áttaði mig á að á þeim tíma réð ég ekki við að hugsa hlutina rökrétt til enda. Enn þann dag í dag er þessi takmörkun til staðar, en rökhugsunin verður sífellt traustari með góðri ástundum og meiri þroska.
Þetta er einmitt það sem heillar mig við skák. Þar er maður að leita hugmynda innan 64 reita og möguleikarnir eru endalausir. Við að tefla lærir maður allskonar hugmyndir um hvernig hægt er að tefla betur, en það að tileinka sér þessar hugmyndir, koma þeim inn í taflið á meðan maður teflir, koma þeim fram í fingurgómana, krefst mikillar þjálfunar og ástundunar. Sífellt hefur verið skemmtileg togstreita í sjálfum mér, því ég tefli bæði til að skemmta mér og til að læra, en vandinn er sá að þegar ég tefli með því hugarfari að skemmta mér, læri ég ósköp lítið, og þegar ég tefli til að læra, skemmti ég mér ekki mikið. Það þarf að finna eitthvað jafnvægi þarna eins og í öllu.
Hugsanlega er þetta líka ástæðan fyrir því að ég hef algjörlega heillast af fræðslu og námi í sjálfu sér, og þessari tvískiptingu um fagmennskuna sem felst í að útvega góða fræðslu, og svo þann innri heim nemandans sem felst í að nýta sér þessa fræðslu. En þarna þarf maður einmitt að hafa í huga leiðbeiningar stóuspekinnar, að maður hefur í raun takmarkað vald sem fræðari - þar sem það er eitthvað í sjálfu sér utan okkar valdsviðs, við getum þó gert okkar besta. Valdið í námi er hjá nemandanum sem nýtir sér fræðsluna, hann hefur einmitt völd til að hafna henni algjörlega, jafnvel með óbeit, og ákveða að læra ekki neitt, eða taka hinn pólinn og nýta sér hana af fullum krafti, átta sig á að þetta er tækifæri til að rækta eigin eiginleika, og gera það.
Jarðskjálftarnir sem skekja landið okkar þessa dagana er dæmi um eitthvað sem er utan okkar valdsviðs, og ef við trúum að við getum gert eitthvað við þeim erum við að blekkja okkur sjálf. Við getum hins vegar haft áhrif á hvernig jarðskjálftarnir hafa áhrif á okkur. Við getum stjórnað stressinu sem við upplifum þegar hillur hristast í kringum okkur og við hoppum hægindastólnum. Til þess þurfum við að gera greinarmun á því sem er að gerast og hvernig við tökum því sem er að gerast. Ef við áttum okkur á að við þolum ekki að lifa við slíkar aðstæður, getum við flutt eitthvað í burtu, kannski tímabundið, á meðan ástandið varir, eða við getum gert eins og margir á Suðvesturhorninu hafa gert undanfarið, bitið í skjaldarrendurnar og gert sitt besta til að þola ástandið. Það skiptir nefnilega máli frá degi til dags að átta sig á hverju við getum stjórnað og hverju ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðeins um það mikilvægasta í lífinu
12.3.2021 | 21:34
Á meðan við fetum okkur gegnum lífið reynum við að skilja heiminn í kringum okkur, samfélagið sem við búum í og okkur sjálf. Það magnaða við okkur sjálf, er hvað maður á sífellt mikið ólært. Bara það eitt, að langa til að vera góður í einhverju, hvort sem það er að skrifa, að læra, að tefla, að spila handbolta, að stýra verkefnum, að stýra hóteli, að elda góða máltíð; allt er þetta eitthvað sem við getum lært að gera, sama hvort við höfum áhuga á því eða ekki.
Eitt af því sem er magnað við frjálsan vilja okkar, er að við getum valið okkur áhugamál. Við getum lært ekki bara nýja þekkingu og færni, heldur einnig viðhorf. Það er sífellt auðveldara að leita sér þekkingar, en vandinn er að viðhalda áhuga til að þjálfa sig vísvitandi til að ná árangri í því sem maður tekur sér fyrir hendur, og síðan að verja tímanum í að þjálfa sig á réttan hátt.
Við getum lært það sem okkur langar, en til að læra hraðar er skynsamlegt að velja okkur góðan kennara, einhvern sem getur hjálpað okkur að yfirstíga hindranir á vegi okkar. Og það magnaða er að við höfum þetta frelsi. Við getum gert þetta.
Það er samt alls ekkert þægilegt að læra. Til að læra þarf maður að stíga út fyrir þægindarammann, aga sjálfan sig til að gera það sem kennarinn mælir með, og leggja á sig vinnu til að ná tilætluðum árangri.
En hvernig veljum við vel í hvað við viljum verja tíma okkar? Er mikilvægast af öllu að byrja á því að vinna í okkar eigin þörfum, og síðan þegar okkur hefur tekist að sigrast á þeim, takast á við það sem fangar huga okkar og hjarta? Eða getum við gert hvort tveggja samtímis, tekið á lífinu og þörfum okkar, og samtímis byggt okkur sjálf upp með þeim hætti sem við viljum?
Á Íslandi höfum við gríðarlega traustan ramma í kringum okkur, samfélag sem gætir að þörfum okkar flestra, og okkur þykir leitt þegar sumir gleymast, eins og kann að gerast. En samfélagið reynir af besta megni að flétta saman leiðir fyrir alla í samfélaginu, reynir að hjálpa okkur öllum að læra, reynir að hjálpa okkur öllum að vinna, reynir að hjálpa okkur öllum að lifa lífinu með sem minnstum áhyggjum. Samfélaginu tekst jafn misjafnlega upp með að gefa og einstaklingum tekst að þiggja.
Þetta gerir okkur fært að átta okkur á því sem er okkur mikilvægast. Stundum eru persónulegir erfiðleika það miklir af ólíkum ástæðum að við komum okkur aldrei að verki. En þegar við náum að finna okkar fjöl og blómstra getum við fundið leið að hamingju í því sem við gerum og sinnum.
Galdurinn er að uppfylla allar þínar nauðsynlegustu þarfir og síðan finna það sem þér þykir mikilvægast að rækta í lífinu. Og síðan rækta það af alúð, þekkingu og færni, og gleyma alls ekki að njóta þess af dýpt í leiðinni.
Bloggar | Breytt 14.3.2021 kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fangelsi fordómanna
11.3.2021 | 22:00
Sá sem hefur engan snefil af heimspeki fer í gegnum lífið fangelsaður af fordómum sem hann fær úr almenningsáliti, frá hefðbundinni trú hans tíma eða þjóðar og frá sannfæringum sem hafa vaxið í huga hans án samvinnu eða samþykkis skynsamlegra raka. - Bertrand Russell
Fordómar er fyrirbæri sem virðist fylgja okkur mönnunum eins og skugginn. Sama hversu vel við reynum að hrista þá af okkur, þegar birta skín úr nýrri átt í formi nýrra upplýsinga, þá verður það fyrsta sem kemur upp í huga okkar sjálfsagt lítið meira en fordómur.
Fordómar eru eðlilegir hlutir, því við reynum alltaf að átta okkur fljótt á hlutum sem við vitum ekki, við giskum á samhengi hlutanna, reynum að átta okkur á púsluspilinu stóra. Stundum gleymum við að við vitum ekki allt.
Til að auðvelda okkur lífið getum við ákveðið að treysta á eitthvað yfirvald sem hefur höndlað stóra sannleikann. Þetta yfirvald tekur á sig margskonar form fyrir ólíkar manneskjur. Þetta getur verið foreldri, ættingi, kennari, trúarbrögð, vinsælustu stjórnmálaskoðanirnar, gildi tengd stórum fyrirtækjum eða jafnvel knattspyrnuliðum, átrúnaðargoðum sem birtast í fjölmiðlum, kannski poppstjörnur, pólitíkusar eða heimspekingar. Stundum tökum við þessar hugmyndir úr kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, útvarpserindum eða fréttum.
Allt eru þetta einhvers konar ljós sem skína á okkur, og án þess að gera okkur grein fyrir því myndast skuggamynd á veggnum bakvið okkur, og nýir fordómar fara á kreik. Með góðum vilja getum við grafið upp stríðsöxi gegn eigin fordómum, reynt að átta okkur á hverjir þeir eru, passa okkur að á aðgreina þá frá okkur sjálfum sem manneskjum, og viðurkenna af auðmýkt að ekkert er mannlegra en að hafa rangt fyrir sér, jafnvel oft á dag.
Eina leiðin sem ég þekki til að taka á fordómum er að einbeita sér að því sem er satt og átta sig á tengslum þess við annað sem er satt. Og þetta sanna þarf að geta staðist endurtekna skoðun og má ekki bara vera einhver ágiskun.
Það er satt sem segir í Biblíunni, Jóhannesarguðspjalli 8.32 að ...sannleikurinn mun gera yður frjálsa og hjálpa þér að brjóta út úr fangelsi eigin fordóma. Ég get reyndar ekki tekið undir að eina leiðin til að finna sannleikann sé að fara eftir því sem Jesús segir, því það er fjöldinn allur af aðferðum til, til að finna hið sanna og smám saman nálgast eitthvað sem við getum kallað sannleika.
Fyrst þurfum við kannski að átta okkur á því hvers eðlis sannleikurinn er. Er hann eitthvað sem við skynjum með skynfærum okkar eða tilfinningum, eða eitthvað sem við skiljum með skynsamlegri hugsun okkar? Getum við aðskilið það sem við skynjum, það sem við finnum og það sem við hugsum, eða væri eðlilegra að bræða þetta allt saman í eina heildarmynd þar sem tilvist okkar er vitni að heiminum og heimurinn vitni að okkur?
Er nóg að hugsa skynsamlega til að fá okkar eigin fordóma til að leggja á flótti úr lífi okkar? Ef svo er, hvernig förum við að því að hugsa skynsamlega? Er það annars konar hugsun en sú hugsun sem vex og dafnar í okkur öllum? Þurfum við kannski að læra formlega rökhugsun til að komast að réttum niðurstöðum?
Ég held, eins og Bertrand Russell taldi, að heimspekin geti hjálpað okkur út úr ógöngum fordómanna, og reyndar ef Jesús var heimspekingur sem tilbúinn var að hugsa um hlutina af skynsemi, þá er hans leið vissulega rétt, þó að hún sé ekki eina leiðin. Og með heimspeki á ég við ást á þekkingu og visku, og þeim gildum sem felast í rökum, siðferði, þekkingu, fegurð og öllu því sem er mögulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af hverju verðum við ósammála?
10.3.2021 | 22:00
Í síðustu færslu skrifaði ég aðeins um rasisma og gagnrýna hugsun og fannst áhugavert hvernig umræður í athugasemdum fóru í umræður um fordóma gagnvart samkynhneigð og síðan túlkun á kristnu siðferði. Ég hafði gaman af að fylgjast með og fór að velta fyrir mér af hverju þeir sem ræddu saman virtust vera ósammála um svo margt, en svo áttaði ég mig á að kannski voru þeir með samræðunni að bera hugsanir sínar saman til að stilla þær aðeins af.
Ef hugsanir eru byggðar á síendurteknu stagli, eins og kennisetningum sem hefur verið þvingað inn í hugann, þá breytist sjálfsagt lítið í eigin hugarfari, en ef viðkomandi byggir hugsanakerfi sitt á skilningi, sem er nokkuð sem lærist vel í samræðu, þá eru líkur á að fólk hugsi sinn gang eftir að hafa rætt hlutina, og í framhaldinu endurhugsi þær fullyrðingar sem þeir álitu sannar og lögðu á minnið. Slík endurskoðun er alls ekki auðveld, en er vel þess virði, og gefur lífinu sífellt ný lög af hugmyndum til að velta fyrir sér.
Þegar við lærum eitthvað nýtt, ákveðum við stundum að vista þessar upplýsingar í langtímaminninu. Leiðin til þess er að nota fullyrðingar sem við reiknum með að eru sannar, og leggja þær á minnið, hugsanlega með því að staglast á þeim eða hugsa um merkingu þeirra út frá ólíkum sjónarhornum. Önnur aðferðin er betri en hin.
Við semjum setningar sem hafa merkingu, hvert og eitt okkar gerir það, síðan tjáum við þessar setningar þegar það er viðeigandi. Þá gerist svolítið undarlegt. Manneskjan sem við tölum við skilur fullyrðinguna hugsanlega á allt annan hátt en við meintum. Samt finnst okkur að hin manneskjan ætti að skilja það sem við sögðum nákvæmlega eins og við meintum.
Þessi rangtúlkun eða misskilningur er engum að kenna, það er ekki hægt að kenna um óskýru málfari eða slökum hugsunum, heldur hefur ólíkt fólk vald á ólíku tungumáli. Þó að við búum í sama samfélagi, jafnvel sama bæjarfélagi, erum í sömu fjölskyldu, jafnvel tvíburar, þróa ólíkt tungumál sem hver og einn einstaklingur skilur, og sem enginn annar skilur á sama hátt. Þetta er eðlilegur hluti af hvernig við þroskumst, og útskýrir líka að hluta af hverju fjarlægar þjóðir þróa með sér gjörólík tungumál. Það er blanda af landfræðilegum aðskilnaði, aðskilnaði gegnum tíma, og því að fólk þroskast á eigin forsendum að við þróum með okkur ólíkan skilning á veruleikanum sem brýst fram í ólíkri notkun okkar á tungumáli..
Það er í raun furðulegt að við skulum yfir höfuð geta skilið aðrar manneskjur að einhverju marki. Hversu djúpt og hversu vel okkur gengur að skilja aðra manneskju út frá því hvernig hún hugsar er svo önnur saga. Hvort við getum nokkurn tíma skilið aðra manneskju yfir höfuð er svo ennþá stærri spurning, því hugsanlega mótum við aðeins okkar eigin skilning á eigin forsendum í stað þess að meðtaka það sem önnur manneskja segir og meinar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Aðeins um rasisma og gagnrýna hugsun
9.3.2021 | 22:21
Rasismi er eitt af þessum erfiðu fyrirbærum sem við vitum að er illt í sjálfu sér. Það er fordómur sem segir að sumar manneskjur séu verri en aðrar og að sumar manneskjur séu betri en aðrar. Óháð kynþáttum, þjóðernum, trúarbrögðum, kyni, skoðunum eða skólun erum við öll nokkuð jöfn. Við getum öll lært, þau ungu hraðar en þau gömlu þar sem leirinn í hausnum þeirra er mýkri og auðveldara að hnoða, en með einbeittri þjálfun getur nánast hver sem er æft sig til að gera nánast hvað sem er.
Við erum öll jöfn efnislega og siðferðilega vitum við að manneskjur ættu allar að vera jafnar, óháð hvaðan þær eru, hverju þær trúa, hvers kyns þær eru. Það eru augljós sannindi sem er ágætlega lýst í Mannréttindayfirlýsingu sameinuðu þjóðanna:
Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þetta eru þín mannréttindi. Kynntu þér þau. Leggðu þitt af mörkum til að efla virðingu fyrir mannréttindum þínum eigin og annarra.
Almennt hugsum við um rasisma sem fyrirbæri í hugum okkar, að við dæmum einhverja sem verri en okkur sjálf, en ekkert endilega að einhverjir séu betri. En þegar við trúum að konungar, drottningar, prinsar, prinsessur, jarlar eða greifar sé betri manneskjur en aðrar erum við kannski að fordæma út frá rasisma?
Rasistinn er manneskja föst í ákveðinni heimsmynd, trú um að heimurinn sé á ákveðinn hátt, þar sem sumir eru betri eða verri en aðrir, einfaldlega vegna þess hverra manna viðkomandi er. Hann er ekki líklegur til að velta fyrir sér hvaðan skoðanir hans koma, hvort þær hafi síast óvart inn í hugann og trúna, heldur hefur hann samþykkt þessa trú sem sanna og leyfir ekki eigin hugsunum að gagnrýna og efast um gildi þessarar trúar. Veikleiki rasistans er skortur á gagnrýnni hugsun, en styrkleikur hans óbilandi trú sem er viðhaldið af þrjósku.
Þeir sem hugsa gagnrýnið geta orðið fyrir því að dæma annað fólk fljótfærnislega á röngum forsendum, til dæmis vegna rasisma eða annarra fordóma sem einhvern veginn hafa fest rætur í huga hennar, en slík manneskja getur leiðrétt eigin skoðanir með því að hugsa um þær og stilla sig af, og með því að hlusta á ábendingar annarra sem hugsanlega hafa skoðanir á skoðunum hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Munurinn á fræðslu og námi
8.3.2021 | 22:11
Fræðsla getur verið gríðarlegt kerfi sem nær út um alla mannlega tilveru, hvert sem þú lítur, og er ætlað að þjóna öllu mannkyninu, eða lítið kver sem hannað er til að þjóna fáum. Mikið af fólki kemur að fræðslu, ekki bara leiðbeinandi eða kennari, heldur líka þeir sem vinna á skrifstofunni, sjá um bókhald og skráningu, stjórnendur, ráðamenn, fræðimenn, rithöfundar, hönnuðir námsefnis og fleiri. Allt þetta kerfi skipuleggur og framkvæmir fræðslu, stundum er það virkilega gott, stundum er það hræðilega lélegt. En óháð gæðum þess getur nemandinn, sá sem sér um námið, annað hvort lært mikið eða lítið.
Nemandi getur lært af nánast hvaða aðstæðum sem er hafi hann rétta hugarfarið. Hins vegar sá sem hefur slakt hugarfar til náms er líklegur til að læra lítið, að minnsta kosti þar til hann eða hún áttar sig á eigin ábyrgð. Sumir átta sig aldrei. Aðrir átta sig seint. Þeir sem átta sig snemma komast fljótt á beina braut sem getur leitt þá menntaveginn. Aðrir fara ýmsar krókaleiðir, læra ýmislegt, hafa aðrar áherslur í lífinu, en flestir finna á endanum góða leið, svo framarlega sem þeir vita nokkurn veginn hvert þeir vilja fara.
Heimsins besti kennari nær ekkert endilega til heimsins versta nemanda. Heimsins versti kennari hefur sjálfsagt lítil sem engin áhrif á heimsins versta nemanda. Heimsins versti kennari hefur lítil áhrif á heimsins besta nemanda, fyrir utan að nemandinn verður að læra á eigin forsendum og án stuðnings, en getur samt lært ýmislegt gagnlegt. En það að hafa heimsins besta kennara og heimsins besta nemanda saman við fræðslu og námsaðstæður, það er þar sem einhver galdur á sér stað. Nemandinn verður ennþá betri í námi en þegar hann er einn og fer að sýna framúrskarandi árangur, og kennarinn verður einnig ennþá betri fyrir vikið. Ennþá betra er þegar fleiri framúrskarandi einstaklingar bætast í hópinn.
Að sjálfsögðu eru ekki til í veruleikanum heimsins besti og versti kennari eða nemandi, en þetta eru hugsjónir sem við getum notast við til að sjá fyrir okkur hvernig aðstæður gætu verið ákjósanlegar fyrir fræðslu og nám.
Það er nefnilega svo merkilegt að aðstæður við nám eru alltaf tvenns konar, það eru fræðsluaðstæðurnar, ytri aðstæður, umhverfið, námsefnið, áreitið; við getum kallað þetta veruleikann, en svo eru það aðrar aðstæður sem skipta alveg jafn miklu máli, innri aðstæður nemandans, það sem hann hefur áður lært, hversu mikla hvatningu hann finnur, hversu tilbúinn hann er til að læra, og þar fram eftir götunum; við getum kallað þetta fyrirbæri.
Veruleikinn og fyrirbærin takast á í öllum okkar verkum. Þegar við áttum okkur á því, hvernig fræðsla og nám eru gjörólík þó að þau stefni að sama markmiði, það er fyrsta skrefið í átt að framúrskarandi námi og árangri, óháð viðfangsefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hefur þú öðlast viðurkenningu fyrir verk þín og fyrir að vera þú?
7.3.2021 | 21:25
Í síðustu færslum hef ég verið að velta fyrir mér hvernig við vitum það sem við teljum okkur vita, og aðeins minnst á fyrirbærafræðina, sem er ein af greinum heimspekinnar flokkuð undir frumspeki. Fyrirbærafræðin snýst um þau gildi sem felast í hugmyndum okkar sem hvert og eitt okkar upplifir.
Þessar pælingar um fyrirbærafræði spratt úr lestri mínum á ritgerð Per Andersson Recognition of Prior Learning for Highly Skilled Refugees Labour Market Integration eða Viðurkenning á fyrra námi fyrir flóttamenn með mikla færni og samþætting þeirra við vinnumarkaðinn, en það er þegar reynsla í formi þekkingar og leikni er metin á formlegan hátt fyrir íslenska skólakerfið eða atvinnulífið. Svona raunfærnimat er þegar til staðar á framhaldsskólastig og að einhverju marki fyrir atvinnulífið, en það er í undirbúningi að víkka hugtakið í íslensku samfélagi.
Í þessari grein kemur fram mikilvægi þess að viðurkenna manneskjur á tveimur þrepum, annars vegar fyrri það sem fólkið gerir og hins vegar fyrir það einfaldlega að vera manneskja sem lifir og hrærist í samfélaginu.
Við sækjumst flest eftir tvenns konar viðurkenningu, ytri og innri. Við viljum að fólk þekki okkur út frá verkum okkar og fyrir að vera bara þessi ákveðna manneskja sem við erum. Þessi tilfinning, þessi viðurkenning, hún er kannski ekki áþreifanleg, heldur fyrirbæri í huga okkar. Engu að síður hefur hún gríðarlegt gildi fyrir okkur um hvernig við metum eigin lífsgæði.
Hugsaðu þér muninn á manneskju sem fær í lífi sínu stöðugt ytri viðurkenningu fyrir verk sín, og manneskju sem fær aldrei slíka viðurkenningu. Hvernig ætli slíkt hafi áhrif á sjálfsmynd þeirra?
Hugsaðu þér einnig muninn á manneskju sem finnur að hún er viðurkennd fyrir að vera nákvæmlega manneskjan sem hún er, og berðu saman við manneskju sem fær ekki slíka viðurkenningu.
Geturðu sett þig í spor þessa fólks?
Fólk sem flytur til Íslands, flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur, gætu átt erfitt með að öðlast svona viðurkenningu í íslensku samfélagi, bæði þá ytri og innri. Það sama á við um Íslendinga sem flytja til annarra landa, oft eiga þeir erfitt með að fóta sig og finna sams konar viðurkenningu fyrir störf og fyrir að vera einfaldlega manneskja, þar sem þeir búa. Það sama á reyndar líka við um Íslendinga í eigin landi, hugsanlega gæti hvert og eitt okkar bætt sig aðeins í því að hrósa þeim sem gera góða hluti og einfaldlega sýna næsta manni tillitssemi og velsæmi.
Bloggar | Breytt 8.3.2021 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiða sannanir til þekkingar?
5.3.2021 | 23:19
Í færslunni "Er einhver þekking svo áreiðanleg að engin skynsöm manneskja gæti efast um hana?" var hversu flókið mál það er að tala um þekkingu út frá beinni reynslu, sem þýðir sjálfsagt að þekking er ekki eitthvað áþreifanlegt sem maður hefur skynjað beint. Þekking er þá eitthvað annað.
Í athugasemdum minntust lesendur á sannanir í tengslum við lotukerfið, stærðfræði og afstæðiskenningu Einsteins.
Sannanir eru frekar flókið fyrirbæri og ólíkar eftir aðstæðum. Þegar stærðfræðingur sannar að 2+2 séu 4, er það ekki alveg á sama hátt og saksóknari gerir þegar hann sannar að dæma skuli ákveðna manneskju fyrir glæp. Í dæmi stærðfræðingsins þarf aðeins að gefa sér ákveðnar reglur, eða lögmál stærðfræðinnar, til að sanna dæmi. Síðan er það annað mál hvort að stærðfræðin sé bara lokað kerfi, eða sjálfstæður hluti af heiminum? Hvort ætli stærðfræðin sé hluti af mannlegri hugsun eða heiminum sjálfum? Ætli hún sé uppgötvun eða uppfinning? (Ég leyfi mér að spyrja villt og galið en svara ekkert endilega strax því mig langar til að halda mig við meginefnið).
Í dæmi sakamálsins þarf ýmislegt að passa saman til að dæmið gangi upp, en það er einmitt lykilmálið, sannanir virka í lokuðum kerfum. Lög og reglur eru lokað kerfi, og til að dæma fólk, þarf að fara eftir þessum lögum og reglum. Fyrst þarf að uppgötvast að glæpur hafi verið framinn, sem þarf sjálfsagt að skilgreina. Síðan þarf að finna mögulega sökudólga, og reyna að átta sig á heildarmynd málsins. Loks fær hugsanlega einhver manneskju stöðu grunaðs, og þá þarf saksóknarin að afla nógu mikilla gagna, í formi sönnunargagna, samskipta, skjala og vitna, sem sýna ekki aðeins að lög hafi verið brotin, heldur einnig að ákveðin manneskja hafi brotið þau, og reynir sjálfsagt að átta sig á ástæðunum fyrir því, til að geta sannfært dómara um að þessi rök séu rétt. Leiðin að sannleikanum í málinu er flókin, því sakborningur hefur einnig verjanda, sem miskunnarlaust reynir að finna gloppur í saksókninni, því að ein lítil mistök geta verið nóg til að vekja vafa um að sönnunin sé gild.
Það er í raun aðeins hægt að sanna ýmislegt eftir slíkum lokuðum kerfum, til dæmis í skákdæmum er hægt að sanna að annar aðilinn verði mát í þriðja leik, aðeins með því að finna réttu leikina.
Maður hlýtur á endanum að velta þessu yfir í veruleikann og spyrja hvaða kerfi það er sem við notum til að átta okkur á hvað er satt eða ekki. Því ferlið til að finna út úr því hvað er satt, hlýtur að vera tengt sönnunum. Er það ekki?
Það liggur beinast við að benda á tungumálið. En svo kemur fljótt í ljós sá galli að tungumálið er menningarlegt fyrirbæri og mörg hugtök skilin á alls konar hátt, og þar að auki er eitt tungumál kannski eitthvað allt annað fyrirbæri en annað tungumál. Hver ætlar að segja mér að eitt orð þýði það sama á öllum tungumálum, en beri aðeins ólík hljóð og stafi, til að tákna það nákvæmlega sama, án blæbrigða?
Þannig að tungumálið gengur ekki upp. Samt er það hugsanlega okkar öflugasta tæki. En hugsanlega er eitthvað meira sem býr að baki tungumálinu, þetta sem gerir okkur mögulegt að þýða orð úr einu tungumáli í annað, og öfugt. Þetta er svona eins og tungumál á bakvið tungumálin, en hvað væri það?
Eru það hugtök sem þýða alltaf það sama, eru hugtök eins og hugmyndir, en orð birtingarmyndir þeirra? Ef svo er, og þetta ef er stórt, hvernig getum við tengt öll þessi hugtök saman og skilið hvert annað, eða að minnsta kosti sannað að eitthvað sem við höldum að sé satt, sé satt?
Slíkt kerfi er til, við köllum það rökfræði. Sumir hafa haldið því fram að rökfræði sé ákveðin gerð stærðfræði, og aðrir að stærðfræði sé ákveðin gerð rökfræði, og enn aðrir að þetta séu aðskilin fyrirbæri. Stærðfræðin reiknar út tölur, en rökfræðin reiknar út orð. Og það eru sannanir í rökfræði, og ákveðnar formúlur sem þarf að fylgja. Í rökfræðinni eru spennandi fræði um rökvillur sem hjálpa okkur að skilja hvenær einhver að plata okkur, og við lærum smám saman að flokka niður það sem er satt og greina það frá því sem er ósatt.
Og einhvern veginn reynum við manneskjurnar að tengja allar þessar hugmyndir, bæði það sanna og hið ósanna, saman í eina heildarmynd sem við köllum svo sannleikann, sem að sjálfsögðu er síbreytilegur út frá sjónarhorni manneskjunnar, sem hvern dag getur öðlast nýjar upplýsingar sem breyta á einhvern hátt skilning hennar á sannleikanum.
Það er freistandi að segja að sannleikurinn sé til staðar, óháð manneskjunni, að hlutir séu sannir eða ósannir, óháð okkur. En sú tilraun reynist merkingarlaus, því að fullyrðingar um hugtök eru nauðsynlegar til að ákvarða um hvað er satt eða ekki.
Hugsanlega er til einhver sammannlegur hugtakaheimur sem við þurfum að komast í snertingu við til að komast í snertingu við sannleikann. Hugsanlega felst hann í fræðiritum, heimspekipælingum, fréttum dagsins, ljóðum, og öllu því sem ber fyrir vit okkar; og öll erum við sífellt að gera tilraun til að höndla þennan sannleika.
Vandinn reynist samt sá, að þeir sem telja sig loks hafa höndlað sannleikann, það eru þeir sem hafa tapað tengslum við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þannig spurði Bertrand Russell í Gátum heimspekinnar (The Problems of Philosophy). Þetta er ekki spurning sem einfalt er að svara. Það er ekki hægt að giska bara á svarið og segja hvað manni finnst. það þarf að færa rök fyrir svarinu.
Ef svarið er jákvætt er eðlilegt að fylgja því eftir með dæmi. Ef það er neikvætt, þyrfti að svara spurningu eins og hvort þekking sé þá hugsanlega ekki möguleg? Þarf það sem við köllum þekkingu að vera örugglega satt til að við getum kallað það þekkingu?
Hvernig vitum við hvað er örugglega satt?
Ég hugsa um reynslu mína núna þar sem ég sit uppi í sófa og finn jarðskjálfta öðru hverju hérna í Grindavík, pikka setningar inn á tölvuna og sé liti bregða fyrir á sjónvarpsskjá þar sem Dr. Phil gengur um svið. Það er kringlótt bók við hliðina á mér, og þar er tebollinn minn með grænu tei. Ég fæ mér sopa og finn að teið er ekki lengur eins heitt og það var þegar ég lagði bollann frá mér, það er orðið volgt.
Er allt þetta áreiðanlega satt? Frá mínu sjónarhorni í augnablikinu er þetta satt. Ég veit það. En hvað um þig? Hvernig veistu að nokkuð af þessu sem ég upplifi sé satt án þess að þú þurfir að treysta því sem ég hef að segja? Væri kannski ekki skynsamlegt að efast um svona upplýsingar, hver gæti verið ástæðan fyrir að færa slík ósannindi?
Segjum að reynslan sé persónulegri, hafi eitthvað með persónuleg átök að gera, þar sem ein persóna hefur eina útgáfu af sannleikanum, en önnur hefur aðra? Hverjum eigum við að trúa? Gætu báðar manneskjurnar verið að segja satt, út frá eigin sjónarhorni? Útskýrir það mótsagnir?
Þó að ég hafi sagt satt um upplifun mína á borðinu og tebollanum, vantaði svolítið uppá til að upplýsingarnar væru nákvæmar og með fullnægjandi lýsingu. Ég minntist ekkert á áferð bollans, né tegundinni af tei, því að ein græn tegund af te er gjörólík þeirri næstu. Það kom ekki fram að á borðinu er flaska með grænum tappa sem merkt er Klaki, teikningar eftir þriggja ára listamann liggja á borðinu, og líka IKEA kanna með vatni. Ekki hef ég minnst á hvernig lýsingin skapar skemmtilega skuggamynd út frá glasinu. Einnig er handáburður þarna.
Þegar ég get ekki einu sinni lýst af fullri nákvæmni hvernig núverandi umhverfi mitt er, hvernig get ég þá sagt að það sem ég segi sé satt og áreiðanlegt? Ég get lýst hvernig hlutirnir virðast vera, en ég á kannski erfiðara með að lýsa hvernig þeir eru í raun og veru.
En aftur að spurningunni, er einhver þekking algjörlega áreiðanleg, svo áreiðanleg að ekki sé nokkur leið að efast um hana? Eins og ég minntist á í athugasemd við fyrri grein, Fyrirbærin sem skipta máli, þá er jafnvel hægt að efast um að tveir plús tveir séu fjórir:
Hvort ætli 2+2=4 sé staðreynd eða fyrirbæri? Í veruleikanum getur 2+2 auðveldlega orðið að einum, til dæmis ef við blöndum tveimur vatnsdropum við tvo vatnsdropa, þá er bara einn vatnsdropi til staðar, eða þegar maður leggur tvær hugmyndir saman við tvær aðrar hugmyndir, þá getur útkoman verið margfalt hærri en einn. Samt eftir lögmálum stærðfræðinnar myndi ég gera ráð fyrir að 2+2=4, en hef heyrt að stærðfræðilegri röksemdafærslu sem reynir að sanna að 2+2=5, eins og gert var í skáldsögu George Orwell, 1984. Þannig geta stærðfræðileg ósannindi orðið að félagslegum og skáldlegum sannindum. (Fyrirbærin sem skipta máli, 2021)
Hvað um hugmyndir eins og komu frá Heraklítusi, að maður getur aldrei stigið tvisvar í sömu ána? Er þetta dæmi um áreiðanlega þekkingu? Eða sú hugmynd frá Parmenídesi, að engar breytingar eigi sér stað í veruleikanum? Hvað um þá hugmynd Sókratesar að heimspeki sé undirbúningur fyrir dauðann?
Er hægt að segja að eftirfarandi sé sönn setning og það áreiðanleg að enginn getur efast um sanngildi hennar?
Allir menn eru dauðlegir
Eða væri undir einhverjum kringumstæðum skynsamlegt að efast um áreiðanleika hennar? Er mögulegt að einhver ein manneskja sé á ferli innan um okkur sem deyr aldrei? Það hafa verið gerðar kvikmyndir um slíkar manneskjur, þannig að sögurnar eru til. Dæmi um slíkar kvikmyndir eru The Highlander og The Man from Earth.
Hvað um þessa setningu
Allt vatn er það sama og H20
Getum við undir einhverjum kringumstæðum efast um áreiðanleika hennar, og talið þessar efasemdar lagðar fram á skynsamlegan máta? Hvað ef við veltum fyrir okkur hvort að drykkjarvatn sé mengað? Er það þá samt H20?
Hvað segir þú?
Er einhver þekking svo áreiðanleg að engin skynsöm manneskja gæti efast um hana?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þekkirðu muninn á hverju þú trúir og hvað þú veist?
3.3.2021 | 20:16
Manneskjan er alltaf að læra, hvort sem við ætlum það eða ekki. Sumt sem við lærum er satt, sumt sem við lærum er það ekki. Eftir að hafa lært hitt og þetta þurfum við að melta það. Sumir ákveða að trúa öllu því sem þeir læra, sumir ákveða að velta því nánar fyrir sér. Sumar upplýsingar læðast inn um bakdyr okkar, eitthvað sem við sjáum og erum samdauna í menningunni og lífsstíl okkar, sumt af þessu grasserar og dafnar í hugum okkar, hvort sem þessar hugmyndir eru byggðar á einhverju sönnu eða ekki.
Þegar við lærum er skynsamlegt að velta fyrir sér hvaðan upplýsingarnar koma, hvað sá sem flytur upplýsingarnar er að meina, og hvernig við skiljum upplýsingarnar sem við fáum. Stundum koma þessar upplýsingar frá miklum og merkilegum stofnunum, stundum frá frægu fólki, fræðimönnum, fréttamönnum eð sjálfum páfanum, stundum úr alfræðiritum, af vefnum, úr skáldsögum, frá Wikipedia, Netflix, Google eða jafnvel úr bloggi eins og þessu.
Ef við kærum okkur um sannleikann, að safna að okkur og deila einungis sönnum upplýsingum og reyna að skilja samhengið á milli þeirra á skilvirkan hátt verðum við að átta okkur á því hvort þeir sem veiti okkur upplýsingarnar séu áreiðanlegur aðili og þá kannski reyna að meta áreiðanleika viðkomandi eftir fyrri stöðugleika, því við verðum að treysta aðeins þeim sem eru traustsins verðir. Við þurfum jafnvel stundum að átta okkur á hvort að okkar eigin skilningur á upplýsingum sem við höfum fengið eða deilt séu áreiðanlegar. Hefurðu lent í því að segja frá einhverju sem var ekki alveg satt, og svo áttaðirðu þig á því seinna? Ef já, hvað ætli hafi orðið um þessar upplýsingar sem þú komst frá þér, og hversu margir hafa veitt þér upplýsingar á svipuðum forsendum?
Einnig þurfum við að átta okkur á hvernig upplýsingarinnar tengjast staðreyndum, fyrri þekkingu og rökum. Þetta er heilmikil vinna, og ekkert sjálfgefið að allir nenni að standa í henni. Það útskýrir í sjálfu sér af hverju hjarðhegðun er svona algeng, þar sem staðreyndir virðast oft skipta minna máli en skoðanir. Með hjarðhegðun á ég við að forystusauður er valinn, hvort sem það er á sviði stjórnmála, íþrótta eða trúmála, og viðkomandi fylgt eftir gegnum þykkt og þunnt, af mikilli tryggð, og efasemdir jafnvel litnar hornauga.
Fólk sem gerir sitt besta til að vinna úr upplýsingum, pæla í þeim með gagnrýnni hugsun og velta þeim fyrir sér af bestu getu, jafnvel þetta fólk upplifir að stundum trúir það hlutum sem eru ekki sannir. Ekkert okkar virðist komast undan þessum örlögum, öðru hverju.
Munurinn er sá að þeir sem hugsa gagnrýnið, þegar þeir átta sig á eigin mistökum eða jafnvel fordómum setja vinnu í gang við að leiðrétta þetta. Hinir sem nenna ekki að pæla í hvað er satt og ekki satt, eiga hins vegar á hættu að festast í ósönnum upplýsingum, og ákveða hugsanlega að um persónulegan sannleika sé að ræða, eitthvað heilagt sem kemur engum öðrum við, nokkuð sem hefur í raun ekkert með sannindi eða ósannindi að gera.
Þú ert það sem þú étur. Þú færð ákveðnar upplýsingar og vinnur úr þeim (eða ekki), og það sem stendur eftir er kjarninn í tilveru þinni. Hvort þú viljir eitthvað um þennan kjarna í lífi þínu segja eða ekki er náttúrulega algjörlega þitt mál, þú getur gengið í gegnum lífið án þess að þekkja stærri myndina eða hafa nokkrar áhyggjur af henni. Hægt er að lifa hamingjusömu lífi án þess að vita nokkurn skapaðan hlut, og hugsanlega er það auðveldara heldur en að vita alltof mikið.
Það er sorglegt þegar ekki er hlustað á þá sem vita betur, þá sem hafa lagt vinnu í að leita sannleikans, heldur hlustað meira á þá sem minna vita og meiru trúa. Það er ekkert endilega auðvelt að greina á milli hver er hvað, hver gengur í gegnum lífið með augun opin, og hverjir keyra gegnum það eins og í ljóslausum bíl á myrkri nótt.
Stundum hafa nefnilega þeir sem hafa hugsað gagnrýnið og vel rangt fyrir sér. Þess vegna þurfum við öll að hugsa gagnrýnið og vel.
Líka þú og ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)