Hefur þú öðlast viðurkenningu fyrir verk þín og fyrir að vera þú?

Í síðustu færslum hef ég verið að velta fyrir mér hvernig við vitum það sem við teljum okkur vita, og aðeins minnst á fyrirbærafræðina, sem er ein af greinum heimspekinnar flokkuð undir frumspeki. Fyrirbærafræðin snýst um þau gildi sem felast í hugmyndum okkar sem hvert og eitt okkar upplifir.

Þessar pælingar um fyrirbærafræði spratt úr lestri mínum á ritgerð Per Andersson “Recognition of Prior Learning for Highly Skilled Refugees’ Labour Market Integration” eða “Viðurkenning á fyrra námi fyrir flóttamenn með mikla færni og samþætting þeirra við vinnumarkaðinn,” en það er þegar reynsla í formi þekkingar og leikni er metin á formlegan hátt fyrir íslenska skólakerfið eða atvinnulífið. Svona raunfærnimat er þegar til staðar á framhaldsskólastig og að einhverju marki fyrir atvinnulífið, en það er í undirbúningi að víkka hugtakið í íslensku samfélagi. 

Í þessari grein kemur fram mikilvægi þess að viðurkenna manneskjur á tveimur þrepum, annars vegar fyrri það sem fólkið gerir og hins vegar fyrir það einfaldlega að vera manneskja sem lifir og hrærist í samfélaginu.

Við sækjumst flest eftir tvenns konar viðurkenningu, ytri og innri. Við viljum að fólk þekki okkur út frá verkum okkar og fyrir að vera bara þessi ákveðna manneskja sem við erum. Þessi tilfinning, þessi viðurkenning, hún er kannski ekki áþreifanleg, heldur fyrirbæri í huga okkar. Engu að síður hefur hún gríðarlegt gildi fyrir okkur um hvernig við metum eigin lífsgæði. 

Hugsaðu þér muninn á manneskju sem fær í lífi sínu stöðugt ytri viðurkenningu fyrir verk sín, og manneskju sem fær aldrei slíka viðurkenningu. Hvernig ætli slíkt hafi áhrif á sjálfsmynd þeirra?

Hugsaðu þér einnig muninn á manneskju sem finnur að hún er viðurkennd fyrir að vera nákvæmlega manneskjan sem hún er, og berðu saman við manneskju sem fær ekki slíka viðurkenningu. 

Geturðu sett þig í spor þessa fólks?

Fólk sem flytur til Íslands, flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur, gætu átt erfitt með að öðlast svona viðurkenningu í íslensku samfélagi, bæði þá ytri og innri. Það sama á við um Íslendinga sem flytja til annarra landa, oft eiga þeir erfitt með að fóta sig og finna sams konar viðurkenningu fyrir störf og fyrir að vera einfaldlega manneskja, þar sem þeir búa. Það sama á reyndar líka við um Íslendinga í eigin landi, hugsanlega gæti hvert og eitt okkar bætt sig aðeins í því að hrósa þeim sem gera góða hluti og einfaldlega sýna næsta manni tillitssemi og velsæmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband