Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
Endurholdgun og karmalögmálið
2.3.2021 | 20:04
Jón Þórhallsson gerði athugasemd við greinina Fyrirbærin sem skipta máli og spurði Lítur þú svo á að endurholdgunar og karmalögmálið sé 100% staðreynd eða ekki? Y/N? (Jón Þórhallsson). Kærar þakkir fyrir spurninguna, Jón.
Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég er enginn sérfræðingur um endurholdgun eða karmalögmálið, en get velt þeim fyrir mér út frá þeim forsendum sem ég hef: reynslu og fyrri störfum, og vonandi get ég beitt gagnrýnni hugsun á viðeigandi hátt.
Endurholdgun má skilja á tvo vegu, annars vegar að þegar efnisleg lífvera deyr verði hún síðar að annarri lífveru. Það er auðvelt að ímynda sér þetta ferli. Ímyndum okkur lamb uppi á fjalli sem deyr af slysförum. Krummi kemur og kroppar í lambið, smám saman rotnar holdið og rennur ofan í svörðinn. Bitarnir sem krumminn gleypti verða hluti af honum og rotnandi líkaminn hluti af jörðinni. Þessir hlutar eiga það sameiginlegt að næra annars vegar krummann og hins vegar jörðina. Með tíð og tíma mun krumminn hverfa frá einhvern veginn, og gróður vaxa í jörðinni þar sem dauða lambið rotnaði sem síðar verður hugsanlega étinn af öðrum dýrum, og þannig heldur þetta efnislega líf áfram þrátt fyrir dauða. Út frá þessu sjónarhorni gæti ég samþykkt að endurholdgun sé staðreynd, og sjálfsagt væri hægt að sannreyna þetta ferli út frá vísindalegum kenningum og tilraunum.
En svo er það hin leiðin, sú trú að þegar manneskjan deyr endurfæðist hún í öðrum líkama, hugsanlega sem dýr, önnur manneskja eða sem himnesk vera, og að vitund þessarar manneskju lifi í þessu næsta lífi, og hafi í raun lifað í mörgum fyrri lífum. Þetta þýðir að hugur eða sál flakkar yfir í næsta líf og ber vitundina með sér. Þetta er erfiðara að sannreyna með endurteknum hætti, vísindalegum aðferðum og prófunum, og á ég því erfiðara með að samþykkja þetta sem staðreynd. Betra væri að kalla þetta hugmynd þar sem bæði hugur og sál eru fyrirbæri frekar en efnislegar verur. Það þýðir samt engan veginn að staðreynd hafi meira gildi en hugmynd eða fyrirbæri. Slíkt gildi hlýtur að vera bundið ólíkum heimsmyndum.
Getum við sagt að það sé staðreynd að við höfum öll huga? Til þess að átta okkur á því þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvað hugur er. Er hugurinn eitthvað sem er til staðar? Á hann heima í heilanum, eða kannski í maganum? Er hann í fótum knattspyrnuknappa og í úlnliðum tennisstjörnunnar? Það er miklu auðveldara að sannreyna að við höfum öll heila, heldur en að við höfum öll huga. Samt höfum við líkast til langflest bæði heila og huga. Það er hægt að fullyrða að tungumálið og hvernig við tjáum okkar séu eiginleiki hugsunar, og þannig sönnun á að við séum með huga. Ég gæti samþykkt það að hugurinn sé staðreynd út frá slíkum rökum, en hvort að hann geti flakkað úr einu lífi í annað er önnur saga. Held að það sé meiri hugmynd um hvernig fyrirbærið hugur og endurholdgun virka.
Svo er það sálin. Er hún til? Er sálin sjálf staðreynd? Höfum við öll sál? Birtist sálin í einhverju sem við gerum, á svipaðan hátt og hugurinn birtist í tungumálinu og því sem við segjum? Getur verið að góðmennska og gjafmildi séu dæmi um birtingarmyndir sálarinnar?
Það er hægt að deila heilmikið um hvort að sálin sé til, hvort að það sé munur á sálinni og líkamanum, hvort að sálin stjórni líkamanum eða líkaminn sálinni. Einnig er hægt að halda því fram að sálin sé eitthvað sem verður til út frá menningarlegum og samfélagslegum aðstæðum, að sálin sé samansafn alls sem við erum og höfum lært.
Hvort að sálin sem erfitt er að skilgreina og vera sammála um hvað er geti flakkað úr einu lífi í annað get ég ekki kallað staðreynd. Það sama á við um huga og sál þegar við tölum um flakk frá einu lífi til annars. Það er ekkert mál að gera sér það í hugarlund, en að kalla það staðreynd krefst sönnunargagna sem hægt verður að prófa frá ólíkum sjónarhornum þannig að sama niðurstaða endurtaki sig. Ég sé það ekki gerast.
En svo að karmalögmálinu, hvort að það sé staðreynd. Karmalögmálið er sú hugmynd að ef við gerum eitthvað gott eða slæmt, þá fáum við það á endanum til baka á einhvern hátt. Þetta er trú á æðri máttarvöld sem sjá til þess að allir fái það sem þeir eiga skilið út frá því hvernig þeir hafa hagað sér í lífinu. Þetta er ekki staðreynd, heldur fyrirbæri sem við sjáum aðeins í huga okkar, en ekki eitthvað sem við getum sannreynt. Samt getur þetta fyrirbæri haft gríðarlegt gildi í menningu þar sem flestir trúa á karma, að líf okkar í næsta lífi verði betra en í þessu ef við högum okkur vel, en geti sokkið á neðra stig ef við högum okkur illa.
Karma er keimlík hugmyndinni um réttlæti. Réttlætið er fyrirbæri sem manneskjur í vestrænum menningarheimi krefjast. Það þýðir ekki að réttlætið sé til, heldur að lögð sé gríðarleg vinna í að manneskjan geti upplifað réttlæti í lífinu. Lögregla, lögmenn, dómarar, þingmenn og fullt af aðstoðarfólki vinnur statt og stöðugt að því að setja saman og fylgja eftir mannanna lögum, til að búa til umhverfi sem heldur utan um fyrirbærið réttlæti. Skrifuð lög og framkvæmd þeirra getur verið staðreynd, en réttlætið sjálft er það ekki, það er fyrirbæri.
Samt hefur sú hugmynd að viðhalda réttlætinu gríðarlegt gildi fyrir flest samfélög, og þegar við sjáum réttlætinu ógnað bregðast sum okkar við og berjast fyrir því með kjafti og klóm, þó að það sé ekki staðreynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fyrirbærin sem skipta máli
1.3.2021 | 21:45
Staðreyndir eru ekki fyrirbæri. Þær eru bara. Það er hægt að skoða þær frá óteljandi sjónarhornum, en alltaf er staðreyndin sú sama.
Skoðun er fyrirbæri. Það flækist um huga okkar. Við höfum jafnvel skoðanir um staðreyndir, sem gerir þá staðreyndina í huga okkar að annars stigs fyrirbæri. Samt er staðreyndin ennþá þarna einhversstaðar úti. Hún breytist ekki. Skoðunin tifar eins og tíminn. Ekkert sem heldur henni kyrri.
Rökhugsun er fyrirbæri í huga okkar sem hefur þann ofurkraft að stoppa tímann. Við tengjum rökin í staðreyndir og sjáum að þessi bönd eru traust, en þegar við tengjum rökin í fyrirbæri, teygjast þau og slitna fljótt.
Samsæriskenningar eru líka fyrirbæri - þær víxla staðreyndum og skoðunum, og rökin sem eru í raun veik virðast eins og marmarasúlur sem halda uppi musterum í skýjaborgum.
Þegar við lítum á sannleikann, þennan hlutlæga sannleika, það sem við sjáum öll út frá okkar eigin sjónarhorni, þá vitum við að hann er eitthvað miklu meira en fyrirbæri, en vitum líka að sjónarhorn okkar á honum er fyrirbæri í sjálfu sér.
Það sem mig langar að segja er ansi fjarri því sem ég skrifaði hér að ofan. Mig langar að minnast á fyrirbæri sem skiptir máli. Það er að viðurkenna aðra manneskju, ekki bara fyrir það sem hún hefur gert, það sem hún getur, eða það sem hún mun geta gert, heldur fyrir það sem hún er, fyrir það eitt að vera til. Það eitt er nóg til að hún skipti máli.
Það er staðreynd að manneskjan er til staðar, en það er fyrirbæri að bera nógu mikla virðingu fyrir henni til að viðurkenna hana fyrir það sem hún er.
Hvaða önnur fyrirbæri skipta máli sem ekki eru staðreyndir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)