Þekkirðu muninn á hverju þú trúir og hvað þú veist?

Manneskjan er alltaf að læra, hvort sem við ætlum það eða ekki. Sumt sem við lærum er satt, sumt sem við lærum er það ekki. Eftir að hafa lært hitt og þetta þurfum við að melta það. Sumir ákveða að trúa öllu því sem þeir læra, sumir ákveða að velta því nánar fyrir sér. Sumar upplýsingar læðast inn um bakdyr okkar, eitthvað sem við sjáum og erum samdauna í menningunni og lífsstíl okkar, sumt af þessu grasserar og dafnar í hugum okkar, hvort sem þessar hugmyndir eru byggðar á einhverju sönnu eða ekki.

Þegar við lærum er skynsamlegt að velta fyrir sér hvaðan upplýsingarnar koma, hvað sá sem flytur upplýsingarnar er að meina, og hvernig við skiljum upplýsingarnar sem við fáum. Stundum koma þessar upplýsingar frá miklum og merkilegum stofnunum, stundum frá frægu fólki, fræðimönnum, fréttamönnum eð sjálfum páfanum, stundum úr alfræðiritum, af vefnum, úr skáldsögum, frá Wikipedia, Netflix, Google eða jafnvel úr bloggi eins og þessu.

Ef við kærum okkur um sannleikann, að safna að okkur og deila einungis sönnum upplýsingum og reyna að skilja samhengið á milli þeirra á skilvirkan hátt verðum við að átta okkur á því hvort þeir sem veiti okkur upplýsingarnar séu áreiðanlegur aðili og þá kannski reyna að meta áreiðanleika viðkomandi eftir fyrri stöðugleika, því við verðum að treysta aðeins þeim sem eru traustsins verðir. Við þurfum jafnvel stundum að átta okkur á hvort að okkar eigin skilningur á upplýsingum sem við höfum fengið eða deilt séu áreiðanlegar. Hefurðu lent í því að segja frá einhverju sem var ekki alveg satt, og svo áttaðirðu þig á því seinna? Ef já, hvað ætli hafi orðið um þessar upplýsingar sem þú komst frá þér, og hversu margir hafa veitt þér upplýsingar á svipuðum forsendum?

Einnig þurfum við að átta okkur á hvernig upplýsingarinnar tengjast staðreyndum, fyrri þekkingu og rökum. Þetta er heilmikil vinna, og ekkert sjálfgefið að allir nenni að standa í henni. Það útskýrir í sjálfu sér af hverju hjarðhegðun er svona algeng, þar sem staðreyndir virðast oft skipta minna máli en skoðanir. Með hjarðhegðun á ég við að forystusauður er valinn, hvort sem það er á sviði stjórnmála, íþrótta eða trúmála, og viðkomandi fylgt eftir gegnum þykkt og þunnt, af mikilli tryggð, og efasemdir jafnvel litnar hornauga.

Fólk sem gerir sitt besta til að vinna úr upplýsingum, pæla í þeim með gagnrýnni hugsun og velta þeim fyrir sér af bestu getu, jafnvel þetta fólk upplifir að stundum trúir það hlutum sem eru ekki sannir. Ekkert okkar virðist komast undan þessum örlögum, öðru hverju.

Munurinn er sá að þeir sem hugsa gagnrýnið, þegar þeir átta sig á eigin mistökum eða jafnvel fordómum setja vinnu í gang við að leiðrétta þetta. Hinir sem nenna ekki að pæla í hvað er satt og ekki satt, eiga hins vegar á hættu að festast í ósönnum upplýsingum, og ákveða hugsanlega að um ‘persónulegan sannleika’ sé að ræða, eitthvað heilagt sem kemur engum öðrum við, nokkuð sem hefur í raun ekkert með sannindi eða ósannindi að gera. 

Þú ert það sem þú étur. Þú færð ákveðnar upplýsingar og vinnur úr þeim (eða ekki), og það sem stendur eftir er kjarninn í tilveru þinni. Hvort þú viljir eitthvað um þennan kjarna í lífi þínu segja eða ekki er náttúrulega algjörlega þitt mál, þú getur gengið í gegnum lífið án þess að þekkja stærri myndina eða hafa nokkrar áhyggjur af henni. Hægt er að lifa hamingjusömu lífi án þess að vita nokkurn skapaðan hlut, og hugsanlega er það auðveldara heldur en að vita alltof mikið.

Það er sorglegt þegar ekki er hlustað á þá sem vita betur, þá sem hafa lagt vinnu í að leita sannleikans, heldur hlustað meira á þá sem minna vita og meiru trúa. Það er ekkert endilega auðvelt að greina á milli hver er hvað, hver gengur í gegnum lífið með augun opin, og hverjir keyra gegnum það eins og í ljóslausum bíl á myrkri nótt.

Stundum hafa nefnilega þeir sem hafa hugsað gagnrýnið og vel rangt fyrir sér. Þess vegna þurfum við öll að hugsa gagnrýnið og vel.

Líka þú og ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

" þá sem hafa lagt vinnu í að leita sannleikans," fékk gefins bókina
Þess vegna sofum við
Þó höfundurinn virðist hafa lagt mikla vinnu í rannsóknir þá trúi ég honum mátulega einfaldelga vegna þess að rökin eru ekki nógu sannfærandi.

Grímur Kjartansson, 4.3.2021 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband