Um gagnrýnið viðhorf

Gagnrýnið "viðhorf er altækt í tvennum skilningi: hvað sem er getur orðið viðfang þess og verkefnið er endalaus leit sanninda um heiminn og hugsun manna." - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Fátt er mikilvægara meðal lýðræðisþegna en gagnrýnið viðhorf. Fátt er samt meira misskilið heldur en hugtakið 'gagnrýni'.

Gagnrýnið viðhorf og hugsun felst ekki í að rífa hugmyndir niður, skjóta á ríkjandi hugmyndir og kenningar, um að vera á móti einu og öllu, gerast efahyggjumaður andskotans.

Gagnrýnið viðhorf og hugsun snýst um að virða fyrir sér hugmyndir, taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut, sama hver heldur því fram, heldur velta fyrir sér og athuga aðeins betur hvort að það sem þú heyrir sé satt og rétt. 

Ef við tryðum öllu sem við heyrðum myndum við enda í heimi þar sem samsæriskenningar þættu sennilegri en sannleikurinn sjálfur. Kannski erum við reyndar hluti af slíkum heimi?

Það er mjög flókið að bæði hafa gagnrýnið viðhorf og halda góðum samskiptum og traustum samböndum við annað fólk. Til að mynda tengsl með öðru fólki er mikilvægt að hlusta á hvað það hefur að segja, og frekar en að efast um orð þeirra, að trúa þeim, nema í ljós komi að eitthvað sem þau hafa sagt sé ósatt. Þá má byrja að efast, og þá eru tengslin líkleg til að rofna. 

Vandinn er sá að ef við trúum öllu sem okkur er sagt, munu einhverjar ósannar hugmyndir laumast inn í þekkingargrunn okkar, sem verður síðan hluti af okkar skoðanaheimi, nema við séum því duglegri að rýna í okkar eigin hugmyndir og reyna að átta okkur á hvað af því sem við trúum er satt og hvað ósatt. 

Það er endalaus vinna að komast að slíku.

Þetta er ákveðin klemma. Hvað á fólk að gera þegar það hittir nýja manneskju?

Eigum við að trúa því sem manneskjan segir og eiga á hættu að það skekki heimsmynd okkar, eða eigum við að fara varlega í að trúa því sem aðrar manneskjur segja til að það skekki ekki heimsmynd okkar?

Málið er að við höfum aldrei fundið endanlegt svar við einu eða neinu, við erum alltaf leitandi, og þegar við finnum svör er alls ekki ólíklegt að nýjar spurningar spretti fram. Sá sem hefur öll svörin og veit allt betur en allir aðrir, er líklega sá sem minnst veit þegar upp er staðið, því sannri þekkingu fylgir auðmýkt og virðing gagnvart síbreytileika heimsins og eigin huga.

Hvað gerir þú? Trúirðu eða efastu þegar þú ræðir við fólk? Hvernig ferðu að því að vita að það sem þú trúir sé satt? Veistu það bara af sjálfu sér? Síast inn fordómar? Ef þú hefur einhverja fordóma, veistu þá af þeim, eða fela þeir sig í huga þínum, fyrir þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Hvað gerir þú?

Trúirðu eða efastu þegar þú ræðir við fólk?

Hvernig ferðu að því að vita að það sem þú trúir sé satt?

Veistu það bara af sjálfu sér?

-----------------------------------------------------------------------------

Það verður að koma með DÆMI um eitthvert viðfangsefni 

ef að  maður á að geta svarað þessari spurningu:

Jón Þórhallsson, 15.10.2021 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband