Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Hvað er guðstrú?
26.6.2012 | 10:48
Frá mínu takmarkaða sjónarhorni get ég ekki betur séð en að guðstrú sé val.
Ekki allar forsendur eru gefnar í slíku vali, frekar en þegar fyrsta manneskjan ákvað að drekka mjólk. Munurinn er sá að þegar valið hefur verið tekið, þá skekkist dómgreind mannsins að því leiti að heimurinn umhverfist í annað hvort eitthvað guðlegt, eða eitthvað óguðlegt (fyrir þá sem trúa að guðstrú sé ill). Þeir sem velja ekki, hanga hins vegar í einhvers konar limbói, og líta sjálfsagt út sem tvístígandi álfar frá sjónarhóli þeirra sem hafa valið, já eða nei.
Val á hvort að einhver vitur vera, eða einhvers konar viska, sé að baki allri sköpun og lífi, og þar af leiðandi hafi mannlífið markmið óháð því hvort við sjálf sköpum það eða ekki. Slík trú getur leitt til óskapa í lífi einstaklings sem heldur að hann lifi í hinum besta hugsanlega heimi og að ekkert sem hann geri hafi nokkuð að segja í hans eigin örlagasögu.
Hins vegar getur valið einnig leitt til þess að viðkomandi sjái tilgang með því að lifa sínu lífi, vinna sína vinnu, og stefna að betra mannlífi fyrir sjálfan sig og alla þá sem einhvern veginn tengjast viðkomandi. Og viðkomandi getur einnig séð út fyrir mikilvægi eigin lífs, og metið að heildin hafi meira gildi en hlutinn.
Þeir sem velja að hafna guðstrú algjörlega halda einfaldlega fram að það sé engin vitur eða greind vera sem hafi skapað heiminn, heldur sé allt tilviljunum háð. Sú manneskja leitar sjálfsagt eftir algjöru frelsi. Að hindurvitni séu ekki að trufla líf hennar. Slík manneskja getur haft allt á hornum sér og farið hamförum á bloggsíðum gegn þeim sem einhverjum trúa, en virðast ekki hafa rödd í raunverulegu lífi, af einhverjum ástæðum - hefur enga rödd eða samstöðu. Pirringur slíkrar manneskju er skiljanlegur, en hefur að grundvallarforsendu þann skort á auðmýkt að aðrir geti haft rétt fyrir sér, sama hvernig þeir ákváðu þeirra val.
Svo eru sumir sem hafna því að velja með eða á móti, og leita visku í mannlífinu, náttúrunni og sjálfum sér.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (154)
(Hvernig) veistu það sem þú veist?
17.6.2012 | 21:54
Þessar vikurnar sit ég með unglingum í skólastofu og ræði með þeim heimspekilegar pælingar með beitingu gagnrýnnar hugsunar. Margt áhugavert hefur komið út úr samræðunum, og þá sérstaklega hvernig þau mynduðu sér skoðun um áreiðanleika upplýsinga. Til að mynda fannst þeim kóraninn og Biblían áreiðanlegri en fréttamennska nútímans, og þá erum við að tala um fjölmiðla eins og dagblöð eða sjónvarpsfréttamennsku.
Áreiðanlegast finnst þeim:
- Náttúran
- Landakort
- Alfræðiorðabækur
- Viska
Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvernig við veljum hverju við trúum. Það má flokka aðferðirnar í fimm leiðir:
- Duttlungar viðhaldið með þrjósku
- Kennivald viðhaldið með áróðri
- Gervivísindi viðhaldið með skoðunum
- Vísindaleg aðferð viðhaldið með efasemdum
- Gagnrýnin hugsun viðhaldið með spurningum
Mig grunar að þrjár fyrstu leiðirnar séu þær sem flestir velja, af þeirri einföldu ástæðu að þær leiðir eru auðveldar og þægilegar, sérstaklega leið duttlunga og kennivalds. Þeir sem velja leið duttlunga skýra val sitt með orðum eins og "af því bara" og "það er mín skoðun". Þeir sem velja leið kennivalds skýra val sitt með orðum eins og "vísindamaður X sagði það og við hljótum að treysta honum", "það stendur í Biblíunni og þar sem hún er rit Guðs verðum við að treysta því" eða "pabbi sagði það og pabbi minn er miklu gáfaðri en pabbi þinn."
Við höfum öll fasta heimsmynd. Við sjáum heiminn út frá okkar eigin sjónarhorni. Sumir víðara en aðrir. Og heimurinn er sá sem við höldum að hann sé. Ef við lifum í takt við tímann og tökum þátt í sömu heimsmynd og "allir" hinir, þá hljótum við að lifa í samræmi við réttu heimsmyndina. Eða hvað? Sá sem velur leið gervivísinda skýrir val sitt með orðum eins og "annars gengi dæmið aldrei upp" eða "það er örugg staðreynd" eða "það er vísindalega sannað", eða "allir aðrir möguleikar eru bull".
Vísindaleg aðferð færir okkur enn nær sannleikanum, þar sem innbyggt í hana er sú kenning að við getum ekki vitað neitt með fullri vissu, og verðum að vera leitandi í leiðangri okkar að réttu svörunum, og góðum spurningum sem leiða okkur vonandi enn lengra. Vísindaleg aðferð er ekki algjörlega ólík samviskunni og efanum, sem biður okkur að staldra aðeins við og íhuga áður en við framkvæmum, í stað þess að hrinda okkur út í örlagadans athafna. Sá sem velur leið vísindalegrar aðferðar skýrir val sitt með orðum eins og "ef við gefum okkur að..." eða "hafi mér ekki yfirsést neitt, þá..." eða "að gefnum forsendum, þá..."
Gagnrýnin hugsun er ekki æðri öðrum aðferðum, en er vel til þess fallin að spyrja nýrra spurninga, halda þekkingarleitinni ferskri. Vísindin leitast við að svara spurningum sem upphaflega voru gagnrýnar, og jafnvel heimspekilegar, eða þróa traustar aðferðir til að svara þeim áreiðanlega, en þó aldrei af fullri vissu. Og gagnrýnin hugsun heldur áfram leit sinni að spurningum sem skipta máli fyrir mannkynið, fyrir samfélagið, fyrir mann sjálfan, og vísindin halda áfram að þróa aðferðir til að svara þeim spurningum sem vísindin finna leiðir til að nálgast.
Vitur manneskja sagði mér í vikunni sem leið að greinarmunurinn á vísindum og gagnrýnni hugsun væri sá að vísindin leituðu að "hvernig", á meðan heimspeki og gagnrýnin hugsun leitaði að "af hverju". Það er nokkuð til í því. Trúarbrögð eru ólík gagnrýnni hugsun að því leiti að þau, rétt eins og vísindin, eru að svara spurningum í stað þess að spyrja spurninga. Gagnrýnir hugsuðir finna ekkert endilega svör við öllum sínum spurningum, en þeir geta velt þeim fyrir sér og fundið ólíkar leiðir gegnum skóginn.
Sá sem velur gagnrýna aðferð skýrir val sitt með orðum eins og "af hverju?" "hvað er þetta?" og "hvað er hitt?" og lýkur ekki leit sinni þar, heldur gerir sitt besta til að finna svörin, án þess að hætta leitinni. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun veit að svörin eru ekki annað hvort og eða, heldur er einnig mögulegt að fresta því að fella dóm.
Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Hvað tekur við þegar við deyjum?
11.6.2012 | 12:29
en svo deyr mofi; slökknar á heilanum.. og það sama tekur við og áður en mofi fékk sjálfsvitund.. EKKERT, NÚLL, ZERO; Mofi verður dauður, alveg eins og ég og þú og allir hinir... (DoctorE) (sjá athugasemdir við bloggfærsluna: Er ekkert til sem ferðast hraðar en ljósið?)
Skoðanasystkinin Mofi og DoctorE eru sammála um að "EKKERT, NÚLL, ZERO" taki við þegar lífinu lýkur, og þannig hafi þetta einnig verið fyrir líf. Þeir hafa rangt fyrir sér í alhæfingunni. Ástæðan er sú að fólk deyr og lífið heldur samt áfram. Þeir hafa hugsanlega rétt fyrir sér út frá afar sjálfsmiðuðu sjónarmiði, en samt eru þetta bara getgátur, enda engin lifandi manneskja sem hefur upplifað "ekkert" og getur útskýrt hvað "ekkert" er eða er ekki. Samt er alltaf gaman að heyra tilraunir um þá skilgreiningu og reyndar hægt að læra margt af slíkum tilraunum.
Það væri áhugavert að heyra útskýringu á hvað þetta "EKKERT, NÚLL, ZERO" er, eða er ekki? Er kannski verið að tala um algleymi, eða Nirvana skv. Buddhafræðum?
Samkvæmt mínum skilningi er ekkert hugtak sem notað er um fjarveru, það er að segja ef við gerum ráð fyrir að einhver manneskja bíði okkar á kaffihúsi, sem reynist síðan ekki vera þar þegar við mætum, þá upplifum við fjarveru hennar, eða það að hún er ekki þar. Það er ákveðin upplifun á engu. "Það var enginn á staðnum." Þannig að ekkert í þessum skilningi fjallar um eftirvæntingu og hvernig sú eftirvænting á ekki samleið með veruleikanum.
Hins vegar grunar mig að þeir félagar hafi verið að tala um ekkert í ákveðnum skilningi, út frá því hvað við sjálf upplifum eða upplifum ekki þegar við deyjum. Þá er verið að takmarka framhaldslíf við manns eigið egó, og gert ráð fyrir að ekkert sé til ef við getum ekki upplifað það. Sem er fjarstæða.
Við vitum að fjöldi fólks og heimurinn var til áður en við fæddumst, og við getum gert ráð fyrir að heimurinn haldi áfram eftir að við deyjum. Hvernig við skiljum við heiminn að endalokum, getur skipt miklu máli fyrir þá sem eftir lifa, rétt eins og innkoma okkar í heiminn skipti miklu máli fyrir þá sem tóku á móti okkur.
Aðal atriðið við enda lífsins er ekki endilega hvað við munum sjálf upplifa "þegar ljósin slökkna", heldur það að heimurinn heldur áfram þrátt fyrir fjarveru okkar. Þessi upplifun, "þegar ljósin slökkna" er hins vegar afar áhugaverð. Ég velti fyrir mér hvað við upplifum, og hvort sé yfir höfuð mögulegt að upplifa "ekkert" á endanum. Þegar vitund hættir að vera til, hættir hún þá að vera sjálfsvituð, eða mun þessi vitund upplifa eitthvað ákveðið þegar slökknar á henni? Skiptir máli fyrir þessa sjálfsvitund það ástand sem hún er í þegar "ljósin slökkna"?
Hefurðu velt fyrir þér hver þú vilt að síðasta upplifun þín verði, á augnablikinu þegar þú deyrð? Skiptir máli hvort það sé eftirsjá, sorg eða von?
Núll og Zero eru svo að sjálfsögðu stærðfræðileg hugtök, og erfitt að sjá hvernig þau tengjast lífi og dauða, enda er stærðfræðin aðeins sönn í sjálfri sér, rétt eins og rökfræðin. Hugtökin ekkert og allt eru rökfræðileg hugtök sem einnig eiga við um hugtök í ramma sem aðeins er sannur í samræmi við sjálfan sig. Ekkert er alhæfingarhugtak sem hjálpar okkur að ná tökunum á heiminum. Dæmi: "engin manneskja er kafbátur" og "engin kengúra er agúrka". Nokkuð sem við sjáum að er satt, vonandi. Hins vegar finnum við það ósanna eða jafnvel ljóðræna ef við segjum "allar manneskjur eru kafbátar" eða "allar kengúrur eru agúrkur".
Það sem tekur við þegar við erum deyjum er svo magnað og dularfullt, og það eina sem ég veit um það er að ég hef ekki hugmynd um hvað verður, og reyndar tel ég mig einnig vita að ég geti ekki vitað hvað verður, og að þegar við höfum fest okkur trú um hvað verður eða ekki verður, þá séum við á villigötum.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (90)
Er ekkert til sem ferðast hraðar en ljósið?
10.6.2012 | 09:30
Áhugaverð sú tilhneiging að telja eina kenningu vera rétta þegar önnur kenning stenst ekki. Það rétta er að innan vísindalegrar þekkingar, eða mælanlegrar skynjunar á fiseindum, getur engin eind ferðast hraðar en ljósið. Það þýðir ekki að sú eind geti ekki verið til sem fer hraðar en ljósið.
Afsönnun einnar tilgátu sannar ekki algildi annarrar tilgátu.
Tökum sem dæmi sál mannsins. Kynslóð eftir kynslóð hafa fjölmargar þjóðir trúað að sálir séu til, og að þær lifi lengur en líkaminn. Sumir telja sálina fara til himna eða helvítis eftir lífið, sumir telja sálina fá aðgang að Nirvana, sumir telja sálina flytjast efnislega úr einni lífveru í aðra. Að sjálfsögðu hefur engin þessara kenninga verið sönnuð, því samkvæmt vísindalegri þekkingu, sem er þekking á öllu því sem hefur verið staðfest að við getum skynjað, enda sálin ekki mælanleg á neinn áþreifanlegan hátt.
Við getum ekki bragðað, lyktað, snert, séð eða heyrt sálina með mælanlegum hætti. Það útilokar hins vegar ekki tilvist sálarinnar. Rétt eins og þegar við slökkvum ljós í herbergi og það verður niðdimmt, þá þýðir það ekki að allir litir úr herberginu hverfi, enda birtast þeir mér þegar ljósið kviknar á ný.
Sú hugmynd er til úr íslenskri nýjaldarspeki, að á meðan við sofum, þá fara sálir okkar til annarra pláneta, og að við skynjum líf annarra manneskja enda taki sál okkar þátt í þeirra lífi. Frá sjónarhorni vísinda er þetta fjarstæðukennd hugmynd, enda hefur sálin aldrei verið mælanleg og er ekki til. Frá sjónarhorni frumspeki er þetta hins vegar mögulegt, þar sem möguleikar eru ekki bundnir við þá þekkingu sem við höfum á heiminum, heldur því hvernig heimurinn er, var eða getur orðið óháð því hvernig við upplifum hann.
Önnur, kannski aðeins jarðbundnari hugmynd, en sú um tilvist sálarinnar, getur verið hugmyndin um tilvist hugsana. Engin vísindaleg tæki hafa gripið nákvæmlega hvað hugsun er efnislega. Það er hægt að smækka hugsun niður í efnislegar kenningar um rafeindir og taugaboð í heilanum, og útskýra að fólk hugsi ólíkt vegna námsvenja, líkamlegra afbrigða, eða ólíkrar menningar.
Ef þú ert að lesa þetta, og þú dregur ályktun, þá ertu að hugsa og hugsun þína þekkir þú. Samt er ekki til eitt einasta vísindalega mælitæki sem getur sýnt fram á tilvist þessarar hugsunar þinnar. Þýðir það að þessi hugsun sé ekki til, eða þýðir það að hugsun þín falli ekki inn í mælistikur vísindanna? Hugsaðu þér, kannski er hugsun þín efnisleg, og kannski verður hún einhvern tíma mælanleg af vísindum - kannski ekki - en það hefur ekkert að segja um tilvist hennar, heldur aðeins um mælanleika hennar innan ramma vísindalegrar þekkingar nútímans.
Getur verið að hugsanir ferðist hraðar en ljósið?
Einstein hafði rétt fyrir sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Prometheus (2012) ***1/2
5.6.2012 | 21:22
The Cabin in the Woods (2011) ****
1.6.2012 | 16:19
"The Cabin in the Woods" er stórgóð skemmtun fyrir þá sem hafa einhvern tíma haft gaman af slassermyndum, en það er sú gerð hrollvekja þar sem nokkrum unglingum er safnað saman og þeim síðan slátrað af einhverju skrímsli eða skrímslum. Hér er tekið í eyrun á þessu hugtaki og því snúið niður svo úr verður mikill hasar, mikil læti, miklar tæknibrellur, og eftirminnilegar persónur.
Eins og búast má við af leikstjóra "The Avengers", Josh Whedon, sem skrifaði handritið að þessari mynd ásamt leikstjóranum Drew Goddard, er húmorinn sterkasta hlið myndarinnar. Persónurnar lenda hver á eftir annarri í skelfilegum aðstæðum, haga sér stundum frekar heimskulega - og oft ekki beint í karakter, en það er hluti af leiknum.
Myndmálið er ofhlaðið og skrautlegt, og þegar myndinni lauk fannst mér eins og ég hefði séð allar slassermyndirnar í einni. En hvílík skemmtun.
Ég spilli engu þegar ég segi aðeins frá upphafi sögunnar, en fimm ungmenni sem virðast í fyrstu passa frekar vel inn í söguna sem staðlaðar arkitýpur, reynast hver annarri skemmtilegri og með óvæntar hliðar, sem þó forða þeim ekki frá þeim hrakalegu örlögum sem tengjast skógarkofanum ógurlega. Ég er heldur ekki að spilla neinu þegar ég segi að óafvitandi eru þessi ungmenni þátttakendur í raunveruleikaþætti þar sem stjórnendur gera sitt besta til að koma þeim í aðstæður sem líklegar eru til að verða þeim að bana. Allt þetta kemur í ljós á fyrstu mínútum myndarinnar.
Dæmi um eitt magnað og reyndar frekar kinkí atriði, sem virðist frekar einfalt, í upphafi myndar, er þegar einn af unglingunum, Holden (Jesse Williams), kemur í herbergi sitt í kofanum og sér þar ógnvekjandi málverk sem sýnir lömb leidd til slátrunar. Hann fjarlægir málverkið, en á bakvið það er gegnsær spegill. Hinu megin við spegilinn er stúlkan sem hann þráir, Dana (Kristen Connolly), að klæða sig úr. Þetta atriði er sérstaklega vel útfært og gerir persónurnar ljóslifandi og spennandi, sérstaklega í ljósi viðbragða þeirra Holden og Dana. Þetta er bara eitt lítið dæmi um frumlegt atriði, en þannig er öll þessi mynd, hlaðin mögnuðum atriðum.
Annað gott atriði er þegar Jules (Anna Hutchinson) fer í sleik við vel tenntan og uppstoppaðan úlfshaus. Það er þegar búið að sýna áhorfendum að eitthvað undarlegt er á gangi í kofanum, og ein persónan hafði kallað úlfinn elg, sem er reyndar vísun í "Evil Dead 2", mynd þar sem uppstoppaður elgshaus lifnaði til lífsins.
Ef hægt væri að líkja "Cabin in the Woods" við einhverjar aðrar kvikmyndir, mætti segja að hún sé jafningi "Evil Dead 2", en það er töluvert vísað í þá snilld, og síðan í goðsöguna um Pandoru og kassann hennar.
Chris Hemsworth, sem þekktari er í hlutverki Thor, leikur kláran íþróttamann og er sjálfsagt skærasta stjarna myndarinnar, en hún var kvikmynduð árið 2009, rétt áður en frægðarsól þessa ágæta ástralska leikara fór að stíga. Skemmtilegasta persónan er Marty (Fran Kranz), sem virkar í upphafi eins og uppdópað fífl, en leynir á sér. Richard Jenkins og Bradley Whitford eru bæði fyndnir og ógnvekjandi í hlutverki þáttarstjórnenda.
Það magnaða er að spennan stigmagnast, húmorinn heldur sér, og fjölbreytileikinn stökkbreytist og heldur út til enda. Einnig dýpkar sagan og aðstæðurnar eftir því sem nær dregur endinum. Mögnuð mynd!
Þetta er sumarið hans Josh Whedon!
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Má óska eftir kynningarþáttaröð fyrir forsetaframbjóðendur og kjósendur á RÚV þar sem jafnræðis er gætt?
1.6.2012 | 06:06
- Ólafur Ragnar: hefur hlustað á þjóðina meðan þingið brást
- Andrea: hefur unnið magnað starf fyrir Hagsmunasamtök heimilanna
- Ari Trausti: fjölmiðlamaður
- Þóra: fjölmiðlakona
- Ástþór: frumlegur og uppátækjasamur frambjóðandi - kann að vekja athygli, þó ekki alltaf honum sjálfum til framdráttar
- Herdís: doktor í lögfræði
- Hannes: hefur búið í Noregi, lært stjórnunarfræði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)