(Hvernig) veistu það sem þú veist?

Þessar vikurnar sit ég með unglingum í skólastofu og ræði með þeim heimspekilegar pælingar með beitingu gagnrýnnar hugsunar. Margt áhugavert hefur komið út úr samræðunum, og þá sérstaklega hvernig þau mynduðu sér skoðun um áreiðanleika upplýsinga. Til að mynda fannst þeim kóraninn og Biblían áreiðanlegri en fréttamennska nútímans, og þá erum við að tala um fjölmiðla eins og dagblöð eða sjónvarpsfréttamennsku.

Áreiðanlegast finnst þeim:

  1. Náttúran
  2. Landakort
  3. Alfræðiorðabækur
  4. Viska

Í kjölfarið velti ég fyrir mér hvernig við veljum hverju við trúum. Það má flokka aðferðirnar í fimm leiðir:

  1. Duttlungar viðhaldið með þrjósku 
  2. Kennivald viðhaldið með áróðri
  3. Gervivísindi viðhaldið með skoðunum
  4. Vísindaleg aðferð viðhaldið með efasemdum
  5. Gagnrýnin hugsun viðhaldið með spurningum

Mig grunar að þrjár fyrstu leiðirnar séu þær sem flestir velja, af þeirri einföldu ástæðu að þær leiðir eru auðveldar og þægilegar, sérstaklega leið duttlunga og kennivalds. Þeir sem velja leið duttlunga skýra val sitt með orðum eins og "af því bara" og "það er mín skoðun". Þeir sem velja leið kennivalds skýra val sitt með orðum eins og "vísindamaður X sagði það og við hljótum að treysta honum", "það stendur í Biblíunni og þar sem hún er rit Guðs verðum við að treysta því" eða "pabbi sagði það og pabbi minn er miklu gáfaðri en pabbi þinn."

Við höfum öll fasta heimsmynd. Við sjáum heiminn út frá okkar eigin sjónarhorni. Sumir víðara en aðrir. Og heimurinn er sá sem við höldum að hann sé. Ef við lifum í takt við tímann og tökum þátt í sömu heimsmynd og "allir" hinir, þá hljótum við að lifa í samræmi við réttu heimsmyndina. Eða hvað? Sá sem velur leið gervivísinda skýrir val sitt með orðum eins og "annars gengi dæmið aldrei upp" eða "það er örugg staðreynd" eða "það er vísindalega sannað", eða "allir aðrir möguleikar eru bull".

Vísindaleg aðferð færir okkur enn nær sannleikanum, þar sem innbyggt í hana er sú kenning að við getum ekki vitað neitt með fullri vissu, og verðum að vera leitandi í leiðangri okkar að réttu svörunum, og góðum spurningum sem leiða okkur vonandi enn lengra. Vísindaleg aðferð er ekki algjörlega ólík samviskunni og efanum, sem biður okkur að staldra aðeins við og íhuga áður en við framkvæmum, í stað þess að hrinda okkur út í örlagadans athafna. Sá sem velur leið vísindalegrar aðferðar skýrir val sitt með orðum eins og "ef við gefum okkur að..." eða "hafi mér ekki yfirsést neitt, þá..." eða "að gefnum forsendum, þá..."

Gagnrýnin hugsun er ekki æðri öðrum aðferðum, en er vel til þess fallin að spyrja nýrra spurninga, halda þekkingarleitinni ferskri. Vísindin leitast við að svara spurningum sem upphaflega voru gagnrýnar, og jafnvel heimspekilegar, eða þróa traustar aðferðir til að svara þeim áreiðanlega, en þó aldrei af fullri vissu. Og gagnrýnin hugsun heldur áfram leit sinni að spurningum sem skipta máli fyrir mannkynið, fyrir samfélagið, fyrir mann sjálfan, og vísindin halda áfram að þróa aðferðir til að svara þeim spurningum sem vísindin finna leiðir til að nálgast.

Vitur manneskja sagði mér í vikunni sem leið að greinarmunurinn á vísindum og gagnrýnni hugsun væri sá að vísindin leituðu að "hvernig", á meðan heimspeki og gagnrýnin hugsun leitaði að "af hverju". Það er nokkuð til í því. Trúarbrögð eru ólík gagnrýnni hugsun að því leiti að þau, rétt eins og vísindin, eru að svara spurningum í stað þess að spyrja spurninga. Gagnrýnir hugsuðir finna ekkert endilega svör við öllum sínum spurningum, en þeir geta velt þeim fyrir sér og fundið ólíkar leiðir gegnum skóginn.

Sá sem velur gagnrýna aðferð skýrir val sitt með orðum eins og "af hverju?" "hvað er þetta?" og "hvað er hitt?" og lýkur ekki leit sinni þar, heldur gerir sitt besta til að finna svörin, án þess að hætta leitinni. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun veit að svörin eru ekki annað hvort og eða, heldur er einnig mögulegt að fresta því að fella dóm.

Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Vitur manneskja sagði mér í vikunni sem leið að greinarmunurinn á vísindum og gagnrýnni hugsun væri sá að vísindin leituðu að "hvernig", á meðan heimspeki og gagnrýnin hugsun leitaði að "af hverju"."

Þetta er gömul og óviturleg klisja Hrannar. Aðeins vísindin geta svarað spurningunni; "af hverju". Vísindin væru óhugsanleg án gagrýnnar hugsunar. Um það þarf vonandi ekki að deila.    

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 22:27

2 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Það má vel hugsa sér að maður noti fyrstu 10 ár fullorðinsára (frá 25 - 35 ára) til að hugsa sig til niðurstöðu um hvað maður vill velja sem sína trúargöngu eða heimspekilegu lífssýn.

Þegar maður einhvern tíma á þeim vegi finnur eitthvað verulega sannfærandi fyrir mann til að fylgja, að ganga þá þar til leiks með einlægni og ákefð. Tökum til dæmis það val að velja trúarlega heimsskoðun, þar sem maður finnur til verulegrar ábyrgðar gagnvart sinni lífsgöngu og vill að hún verði frjósöm og veiti sálinni einhverja næringu. Að ganga hana með mikilli ábyrgðartilfinningu. Þá auðvitað skellir maður sér til sunds með heilsteyptri vissu um að maður geri eitthvað rétt.

Auðvitað er hægt að nota allt sitt líf í að spyrja spurninga. Vera aldrei viss um neitt. Með því móti er líka hægt að missa af miklum verðmætum. Efinn er góður í hófi. En þegar hugur og sál og hjarta finn einhvern samhljóm þá er vegur mannsins þar.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 17.6.2012 kl. 22:34

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég leyfi mér að efast um getu og áhuga vísindanna til að svara "af hverju" spurningum.

Að sjálfsögðu eru vísindin óhugsanleg án gagnrýnnar hugsunar.

Hrannar Baldursson, 17.6.2012 kl. 22:35

4 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég var að enda við að hlusta á fyrirlestur. Efni hans var spurningin um hvað vitund væri. Eftir mikla rannsókn og greiningu var niðurstaðan sú að allar verur hafa vitund um það að vera.

Vera vakandi, vera til staðar, og vera fjarverandi (annars hugar).

Loka niðurstaða fyrirlesara var þessi: "Ég er Guð" (Við höfum öll vitund, sem er hinn fasti punktur í tilverunni.)

Hann nefndi til sögunnar annan mann sem sagði hið sama og var lokaður inni á geðveikrarhæli!

Varðandi hann sjálfan þá sagðist hann ekki fara sömu leið vegna þess að hann segði um leið við áheyrendur að þeir væru líka Guð!

Þennan góða fyrirlestur fékk ég inn á mitt borð vegna pistils þíns "Hvað gerist þegar við deyjum?"

Svona leiðir eitt af öðru og úr verður heilsteyptari mynd og betur mótuð.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 17.6.2012 kl. 22:44

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: Allar þessar leiðir hafa sína kosti og galla. Að velja bara eina þeirra er varla skynsamlegt. Gott er að nýta hverja þeirra í hófi.

Mér líkar vel við hugmyndina "Ég er Guð": sólipsismi fyrir alla. 

Hrannar Baldursson, 17.6.2012 kl. 23:01

6 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Gott Hrannar, þessi skoðun kom til mín þegar ég var í trúarreglu fyrir um 40 árum. Hún hljómaði svona: Maðurinn er Skaparinn í mannsgervi.

Síðar komst ég í kynni við heimssýn Martinusar (danskur heimspekingur sem hefur gefið út ritröð sem ber nafnið "Þriðja testamentið".) Þar er maðurinn lifandi vera í þróun í heimsmynd þar sem Skaparinn er grunnverund tilverunnar (GUÐ) og allar aðrar verur eru börn hans á þróunarleið til að vera ljósi lík og sameinast ljósi fullkomnunarinnar í Guði.

Algjör samhljómur við fyrirlesturinn sem ég gat um áðan.

Við erum þá sammála margir hverjir um að vera Guð í mannsgervi, það er góður grundvöllur til að finna hvern annan og vera góð hvert við annað!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 17.6.2012 kl. 23:13

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?

Góð spurning, en ég veit að 2+2 eru 4 og ég tek mig vita það.

Ég tel mig vita að klukkan á Hallgrímskirkju sé rétt, en ég veit það samt ekki.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.6.2012 kl. 01:24

8 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum"

Af hverju telur fólk sig vita eitthvað sem það veit ekki? Hvernig vitum við að við vitum nokkun skapaðan hlut? Ég hef sjálfur ekki minnstu hugmynd... 

Varðandi áreiðanleika upplýsinga, þá sagði vitur maður eitt sinn að allt sem þú lest er lýgi...

Hörður Þórðarson, 18.6.2012 kl. 03:11

9 identicon

Takið eftir að Sigurður er þykjustu Guddi.. háaldraður í þykjustu Gudda leik.. Það er svo gott að leika hryllilegustu persónu skáldsagnanna þegar á að finna einhverni til að vera góður við.. eins og Guddi; ég meina Guddi pyntaði son sinn, drap öll börnin og mömmurnar og pabbana, myrti næstum öl dýr á jörðinni, en hann er svo sætur og góður samt, hann er með verðlaun..

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 07:55

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Án þess að vita og vera fróð,hlýtur dauðinn að samsama fæðingu,þannig skil ég fyrirætlan guðs. Undanfari fæðinga er mikil þjáning,sem verðskuldar himneska hamingju.

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2012 kl. 10:46

11 identicon

DoctorE, ættir þú ekki aðeins að prófa að anda með nefinu.

Sigurður var að vitna í fyrirlestur sem ég póstaði, svo ég veit alveg hvað hann er að tala um.

Í þessari setningu "Ég er Guð", þá eru mitt "Ég" og þitt "Ég" nákvæmlega það sama.

Og orðið "Guð" er ekki það sama og þú talar um. Hvernig skilgreinirðu Guð, DoctorE? Hvað er Guð?

Það er a.m.k. ekki átt við þenna biblíuguð sem þú ert að tala um, og hann kemur málinu ekkert við.

Hvers vegna ertu að lesa þetta blogg og ummælast, DoctorE?

Er það til að sýnast vera obboslega klár, eða til að halda þinni skoðun á lofti?

Ef þú hefur áhuga á rökræðum, hvernig væri að kynna þér örlítið rökin áður en þú hellir þér yfir "andstæðinginn"?

Sjaldan hafa menn skotið sig jafn illilega í fótinn, eins og þú í síðustu ummælum.

En reyndu nú að læra eitthvað af þessu, vinurinn.

Þú getur prófað að kynna þér efni þessa fyrirlesturs, og komið svo með gagnrýni á hann, þ.e. marktæka gagnrýni, í stað þess að hengja bakara fyrir smið.

Mæli með því að kynna þér þetta. Þetta kemur hefðbundnum trúarkreddum lítið sem ekkert við, sem þú virðist ólmur í að gagnrýna, og virðist sleppa rökhugsun við þann æsing.

Og ég er svo sem sammála þér um þennan guð sem þú ert að gagnrýna, og alla þá trúaröfga. Sigurður var bara alls ekkert að tala um það.

PS- það hefur reyndar verið sýnt fram á það með nokkuð sterkum rökum að flestar persónur biblíunnar, t.d. Abraham, Móses, Davíð o.fl. voru faraóar í Egyptalandi, og Jesús einnig af þeirri ætt. Þú getur gúglað t.d. Ralph Ellis varðandi það allt.

palli (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 10:52

12 identicon

Hérna, DoctorE. Fann í fljótheitum fyrirlestur með þessum Ralph Ellis:

http://www.youtube.com/watch?v=j1Vho-yNwVE

Hann er nú ekki besti fyrirlesari í heimi en samt í lagi, en þú getur fundið fullt af viðtölum og öðru með honum. Gúglaðu bara nafnið og leitaðu að videoum.

Ég er ekki 100% sammála honum en að stóru leyti, engu að síður.

palli (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 10:58

13 identicon

Já Palli, ef Sigurður eða einhver annar fer að plögga guðum og göldrum.. þá auðvitað segi ég eitthvað um slíka dellu.
Ég fer ekki að eltast við að viðkomandi hafi verið að leggja út frá blogginu hans palla.. semvar að tala um eitthvað allt annað...
Það er ljóst að Sigurður tók delluna algerlega með húð og hári, er enn dýpra sokkinn í delluna en áður

Þessi fyrirlesari.. o boy.. það litla sem ég nennti að hlusta á var alger pína,

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 11:37

14 identicon

"Það er ljóst að Sigurður tók delluna algerlega með húð og hári, er enn dýpra sokkinn í delluna en áður"

Uhh.. nei.. þú veist ekki hvað hann er að tala um, þótt hann noti orð eins og "guð". Það var nákvæmlega það sem ég var að segja þér. Hann var ekki að plögga neinum guð eða neinu.

Fyrirlesarinn mætti vera betri í fyrirlestir, jú, en ég horfði á hann vegna innihaldsins og kenninganna hans. Eitthvað sem ég hélt að þú hefðir áhuga á, svona ef þú ert gefinn fyrir að rakka niður þessa biblíu og allt það.

...nema þú sért að tala um fyrirlesturinn sem Sigurður var að tala um, þá er það mjög góður fyrirlestur.

Þarft kanski þolinmæði til að kynna þér málefnið? Hún kemur með aldrinum.

palli (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 12:04

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE: Aðeins sá sem getur hlustað, getur í raun og veru talað.

Hrannar Baldursson, 18.6.2012 kl. 12:57

16 identicon

Hér er alvöru maður sem veit hvað hann er að segja.. annað en þessi útþynnta þvölguþvæla sem kemur frá honum palla..
http://www.youtube.com/watch?v=YltEym9H0x4

Ef menn vilja ekki virka eins og fáfróðir ruglukollar.. þá eiga menn ekki að hafa guði í tali sínu eða skrifum; Guð er fancy orð yfir fáfræði

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 13:01

17 identicon

Richard er mjög fínn náungi, horfði á allt þetta viðtal fyrir þónokkru síðan.

Ef þú ætlar að tjúllast í hvert skipti sem þú sérð orðið "guð", þótt það sé lögð allt önnur merking í það orð en þú vilt meina, þá þarftu að hugleiða sjálfan þig vel og lengi.

Þú ert eins og naut sem sérð bara rautt.

Ég er ekkert að reyna að boða einhverja trú til þín eða eitthvað álíka. Það kæmi mér ekki á óvart að við séum sammála um flesta hluti

...en það þarf að vera hægt að tala við þig eins og mann.

Hvernig sem þú skilgreinir orðið "guð", þá er það ekki það sama og er til umræðu hérna.

Og hvernig veistu að ég er með útþynnta þvögluþvælu? Þú veist ekkert hvað ég er að tala um!

Þú sérð orðið "guð" og tjúllast.

Kallarðu þetta rökræður?

Þolinmæði, DoctorE, þolinmæði.

Þegar þú hefur þolinmæði til að horfa á fyrirlesturinn sem ég póstaði og Sigurður talaði um, þá fyrst hefurðu tækifæri til að geta sagt eitthvað af viti. Þangað til veistu ekki um hvað þú ert að tala. Aftur: orðið "guð" er ekki notað eins og þú eða flestir skilgreina það.

Og ég er ekkert að rífast við þig. Þú vilt ekki kynna þér umræðuefnið, og byrjar á einhverjum blammeringum!

Þarftu ekki aðeins að hugsa málið? Og í það minnsta kynna þér umræðuefnið til að taka þátt í umræðum um það?

Hérna er linkurinn aftur. Fyrirlestur um vitund, ekki guð:

http://www.youtube.com/watch?v=c1vCm9M6YA8

palli (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 13:48

18 identicon

Ef mig minnir rétt þá er orðið "guð" notað í þessum fyrirlestri í endann, og þá eingöngu í setningunni "I am God" og hlegið að því að öll orðin í þessari setningu eru misskilin.

palli (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 14:06

19 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sleppum Guði....?

spurningin er of góð til að flækja í trúfræði, þetta er hrein heimspekispurning hjá Hrannari og á skilið að vera tekin frumspekilegum tökum.

Endurtek spurninguna;   Hvernig gerum við greinarmun á því sem við vitum ekki en teljum okkur vita og því sem við vitum?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.6.2012 kl. 20:14

20 identicon

Mér skilst að þú sért kennari Hrannar. Ef svo er, ráðlegg ég þér að kenna nemendum þínum raungreinar; eðlisfræði og efnafræði og jaðargreinar þeirra. Eðlisefnafræði, líffræði, erfðarfræði, lífeðlisfræði etc, etc. Þannig fengju nemendur þjálfun í gagnrýnni og rökvísri hugsun og fengju mynd af þeim raunveruleika sem vísindin vita réttan í dag, en þar erum við mjög langt komin.  Heimspekin er búin að vera, þeir sem kenna heimspeki í dag, kenna sögu hennar. Enginn "heimspekingur" í dag getur náð tökum á brotabroti af þeirri þekkingu sem við höfum í dag í raungreinum. Og án hennar getur hann lítið gert.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 20:50

21 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ég hef bæði BA í Heimspeki og BS í raungrein Haukur Kr. Heimspekin er alltaf lifandi og tekst á við spurningar sem raunvísindi (og ég tali nú ekki um félagsvísindi) geta ekki nálgast, vegna eðlis síns. Heimspekin er það sem menn verða að tileinka sér í allri sérhæfingu nútímans. Hún er trúarbrögðum æðri, vegna þess að hún hefur alltaf og gerir enn, fengist við innsta kjarna mannlegrar tilveru.

Mundu einnig Haukur að "raunvísindi" voru ekkert annað en Heimspeki fyrir Upplýsinguna!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.6.2012 kl. 21:00

22 identicon

Það er rétt Anna, fyrir "renaissance". Þegar við vissum minna en  krakkar í grunnskóla í dag, voru heimspekingar mætir menn og margir hverjir mjög snjallir. Renè Descarte, Baruch Spinoza etc. Margir höfðu góða þjálfun í stærðfræði. En stærðfræðin er auðvitað forsenda fyrir öllum raungreinum í dag. En það sem blífur fyrir heimspekina er eins og þú segir greining félgsvísinda, uppruni tungumála etc. En hún hefur ekki lengur neinu hlutverki að gegna í raunvísindum. Sorry, Anna Bencovic.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 21:27

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Haukur Kristinsson:

Eitthvað sýnist mér þú skilja heimspeki og gagnrýna hugsun öðruvísi en undirritaður.

Viðfangsefni heimspekinnar er ekki það sama og viðfangsefni raunvísinda, þó að vissulega hljóti hvort tveggja að tvinnast saman. Eins og áður segir; vísindin takast á við "hvernig", en heimspekin "af hverju". Sérhver vísinda- og fræðigrein hefur heimspeki í kjarna sínu, en heimspekin utan vísinda og fræða lifir einnig góðu lífi.

Að heimspekin sé dauð grein er bara gömul kredda. Ég hef unnið með heimspeki víða um heim síðustu 20 árin og séð gagnsemina sem felst í henni (þó að gagnsemin sé ekki markmið í sjálfu sér) með eigin augum. Ég upplifi stöðugt þakkarorð nemenda minna, bæði fyrrverandi og þeirra nýju, og heyri frá þeim hvernig heimspekin hefur dýpkað líf þeirra og þekkingarleit, og er afar sáttur við þá uppskeru.

Heimspekin þarf að standa sér á báti og líka vinna með vísindum, fræðum, listum og menningunni allri.

Hrannar Baldursson, 19.6.2012 kl. 04:46

24 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já, Hrannar, en allar huglistir mannanna eru fyrst byggpar æa heimspeki!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.6.2012 kl. 05:37

25 identicon

Hrannar. Vísindin takast á við "hvernig", en heimspekin "af hverju", endurtekur þú.

Í bókinni The Grand Design, eftir Stephen Hawking og Leonard Mlodinow, má lesa eftirfarandi: To understand the universe at the deepest level, we need to know not only how the universe behaves, but why.

Why is there something rather than nothing?

Why do we exist?

Why this particular set of law and not some other?

Svar við þessum spurningum er og verður viðfangsefni raunvísinda og við erum þegar komin nokkuð langt. Saga heimspekinnar er hinsvegar bráð skemmtileg og má gera popular. Það sýndi útgáfa bókarinnar Sofies werden, eftir Jostein Gaarder.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 08:12

26 identicon

Ég gleymdi áðan að minnast á bókina eftir Richard Dawkins, The Greatest Show on Earth. The Evidence for Evolution. Þetta er bók sem ætti að vera skyldulesning í Menntaskólum í dag.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 08:35

27 Smámynd: Hrannar Baldursson

Haukur: geturðu vinsamlegast frætt okkur um vísindalega rannsókn um "af hverju það er eitthvað frekar en ekkert", "af hverju við erum til" og "af hverju þessi lögmál frekar en önnur"?

Ég sé ekki betur en að þetta séu frumspekilegar spurningar, spurningar sem raunvísindin ná ekki að höndla, en eru dagleg viðfangsefni heimspekinnar, sem hefur þann þægilega sess að geta viðað að sér þekkingu frá öllum vísindum (sem og öðrum gerðum þekkingar), á meðan vísindin eru mun sérhæfðari.

Reyndar tók ég eftir þegar ég kíkti í bókaverslun hérna í USA í gær, að bækur þeirra Richard Dawkins og Christopher Hutchins voru flokkaðar meðal trúarbragðarita, á næstu hillu fyrir neðan heimspekiritin. Mér þótti það áhugaverð flokkun, enda er afstaða þeirra skýr gegn trúarbrögðum sem slíkum, á meðan trúarbragðaheimspeki myndi varla ganga út frá þeirri forsendu að öll trúarbrögð séu skaðleg.

Anna: sammála.

Hrannar Baldursson, 19.6.2012 kl. 12:34

28 Smámynd: Mofi

Haukur
Þetta er gömul og óviturleg klisja Hrannar. Aðeins vísindin geta svarað spurningunni; "af hverju". Vísindin væru óhugsanleg án gagrýnnar hugsunar. Um það þarf vonandi ekki að deila.

Það ætti að vera augljóst að vísindin geta ekki glímt við af hverju spurningar en... jafnvel doktorar geta ruglast hérna í ríminu, hérna er William Lane Craig að útskýra þetta fyrir Peter Atkins, sjá: http://www.youtube.com/watch?v=cJrMFv6QoX0

Hrannar
Til að mynda fannst þeim kóraninn og Biblían áreiðanlegri en fréttamennska nútímans, og þá erum við að tala um fjölmiðla eins og dagblöð eða sjónvarpsfréttamennsku. 

Svakalega gaman að lesa þetta!  Gaman að þau geri sér grein fyrir því hve óáreiðanleg fréttablöð og tímarit eru.

Haukur
Ég gleymdi áðan að minnast á bókina eftir Richard Dawkins, The Greatest Show on Earth. The Evidence for Evolution. Þetta er bók sem ætti að vera skyldulesning í Menntaskólum í dag.

Ég mæli með því að þú lest þessa hérna bók þá til viðbótar, sjá: The greatest hoax on earth?

Mofi, 19.6.2012 kl. 13:00

29 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta myndskeið, Mofi, er mjög gott og passar í þessa umræðu - þó að titill þess sé frekar slakur. Takk fyrir þetta.

Það er einmitt útilokað að vísindin geti svarað frumspekilegum, siðfræðilegum, þekkingarfræðilegum, fagurfræðilegum og rökfræðilegum spurningum, af þeirri einföldu ástæðu að þær eru ekki hluti af viðfangsefni vísindanna. 

Hrannar Baldursson, 19.6.2012 kl. 13:08

30 Smámynd: Mofi

Hrannar, titillinn er ekkert voðalega faglegur :)

Ég hefði gaman að lesa blog grein frá þér þar sem þú veltir dálitlu fyrir þér. Er í rauninni áframhald af þessari grein en það er hve lítið við vitum og hvaða áhrif sú vitneskja hefur á áreiðanleika. Við vitum frekar lítið um hvað er í hafsdjúpunum og hvað þá hvað lífverurnar þar eru að gera og hvernig þær eru samsettar og hvað þá örverurnar sem synda í maganum á þeim. Við vitum lítið sem ekkert um aðrar plánetur eða sólkerfi og það eru alveg þó nokkur þannig þarna úti.  Með þetta í huga, er þá ekki möguleiki að þessi 99% af þekkingu sem við vitum ekki, að í þeirri þekkingu eru atriði sem gera það að verkum að það litla sem við teljum okkur vita sé rangt?

Mofi, 19.6.2012 kl. 13:19

31 identicon

Hallo Hrannar, “now be careful”. Richard Dawkins verk, The God Delusion” má mín vegna lenda í sömu hillu og trúarbragðarit. En að flokka bókina sem ég nefndi, The Greatest Show on Earth, sem trúarrit, er slíkur “nonsense”, að ég nenni ekki að ræða það.

Bókin The Grand Design hefur verið þýdd á íslensku, taktu þér tíma og lestu bókina. En það er einmitt málið, ég impraði á þessu í fyrri ummælum. Þeir sem eru heimspekingar í dag, kalla sig heimspekinga, eru því miður margir hverjir það lítið menntaðir í eðlis- og efnafræði, að þeir eiga í erfiðleikum með bækur eins og The Grand Design, þó skrifuð sé með það í huga að gera hlutina eins skiljanlega og hægt er fyrir lítt lærða. Til dæmis allri stærðfræði sleppt. Ég er ekkert með þig í huga, Hrannar. veit ekkert um þína menntun.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 13:19

32 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hrannar. Gott að fá svona pælingar um raunveruleikann í öllum sínum ótal myndum og púslbrotum.

Hugur Edisons skapaði hans vísinda-uppfinningu. Hvað stýrði hugboðum hans? Ekki þekki ég þann hugar-stjórnanda persónulega frekar en nokkur önnur lifandi mannvera hefur möguleika á. Edison var yfir öll trúar-brögð hafinn, og lét ekki stjórnast af trúar-valdasprota misviturra manna, eftir því sem mér finnst líklegt.

Mér finnst trúlegt að eini Guðinn sem er raunverulegur, horfi í gegnum augun á hverjum og einum, vegna þess að það er svo margt sem bendir til þess, af því sem ég hef upplifað, heyrt, lesið og púslað saman í gegnum árin. Það er staðreynd að hver er sinnar gæfu smiður (sinn eigin Guð, og sá eini trausti).

Ekkert óttast misvitrir/misvandaðir stjórnendur jarðar-bröltsins meira en sjálfstæða hugsun einstaklinganna og óháða þekkingu þeirra á sínu eigin sjálfi og tilverunni. Það finnst mér rannsóknarvert.

Þetta eru bara pælingar hjá mér, og til þess birtar að leggja eitthvað gott til málanna. Öll umræða um þessi mál eru af hinu góða, og bætir samfélags-umræðuna fyrir alla, án landamæra-brölts valdapostula. Og stuðla þar með að friði milli stríðandi fylkinga.

Þróunin stoppar aldrei, og hugsun er til alls fyrst. Eða það held ég?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.6.2012 kl. 17:23

33 identicon

Lol Mofi vill að þú lest bók eftir sköpunnarsinna.

Arnar Magnússon (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband