Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
Hvernig ber að túlka niðurstöður í Reykjavík?
30.5.2010 | 06:56
Sjálfstæðisflokkurinn hefur níu líf. Þó að þeir tapi tveimur borgarfulltrúum, þá tekst þeim að halda lykilstöðu í borginni með fimm fulltrúum, þar á meðal Gísla Marteini, sem hefur með þessum árangri sjálfsagt fengið leyfi til að fara aftur til útlanda í meira framhaldsnám fyrir næstu kosningar. Ég er ekki að grínast.
Samfylkingin gerði líka vel með að ná inn þremur fulltrúum. Dagur finnst mér reyndar að ætti að vera félagsmálaráðherra miðað við áhuga hans og baráttu fyrir betra atvinnulífi. Hann hefur stærri köllun í ríkisstjórn en borgarstjórn. Sjálfsagt á að nota hann sem tromp í næstu alþingiskosningum, á meðan hið rétta væri að nota eldmóð hans, skynsemi og starfskrafta strax í þágu þjóðarinnar.
VG stóð sig mun betur en ég átti von á. Sóley komst inn.
Framsókn og aðrir flokkar dissaðir algjörlega. Reykjavíkurframboðið hafði góð málefni en hefði betur mátt sameinast Besta flokknum, enda nauðalíkir flokkar, fyrir utan að Reykjavíkurframboðið hafði stefnu.
Besti flokkurinn er stóri sigurvegarinn. Aðrir flokkar munu samt túlka þetta sem eigin sigra, þrátt fyrir bla bla bla... BF kemur inn sex borgarfulltrúum, sem er mjög gott en samt minna en spár gerðu ráð fyrir. Mig grunar að mikil smölun hafi verið í gangi hjá stærri flokkum sem hafa haft áhrif á niðurstöðurnar, enda dræm þátttaka í upphafi kosningadags sem síðar skánaði eftir því sem á leið. Þannig grunar mig að Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hafi tekist að lifa af.
Eðlilegt væri að Jón Gnarr yrði næsti borgarstjóri, enda virðist hann afar næmur fyrir að hvetja fólk til samvinnu og skilja hvað það er sem gerir fjórflokkinn að meini sem er að murka líftóruna úr íslensku þjóðinni vegna hagsmunabaráttu fyrir fámennar auðklíkur og hugarfari sem líkist meira kappleik heldur en samvinnu. Hann er ekki pólitískur andstæðingur eins eða neins, sem er gott.
Næststærsti sigurvegurinn eru vel smurðar áróðursmaskínur fjölmiðla. Þeim tókst að sannfæra mikinn fjölda fólks um að Besta flokkinn skyldi ekki taka alvarlega, að Hanna Birna væri Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig og að hún hafi staðið sig vel sem borgarstjóri og eigi skilið að vera það áfram. Samfylkingin átti erfiðara uppdráttar í fjölmiðlum en tókst að nota vefmiðla og bloggið til að koma sér og sínum málefnum á framfæri.
Annars hefur mikil orka farið í að beita hugtakinu 'fjórflokkur' við ýmsar aðstæður. Mér sýnist merking hugtaksins ekki vera ljós. Ég lít á 'fjórflokkinn' sem samsteypu þeirra flokka sem hafa stjórnað íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Þetta eru fjögur lið sem öll berjast fyrir ákveðnum hagsmunum, ekki fyrir hugsjónum. Þau líta á hvert annað sem andstæðinga og að þau séu að fylkja liði gegn þessum andstæðingum.
Það er svo mikil fáfræði spunnin í þennan hugsunarhátt að það er varla hægt að kalla þetta hugsun, kannski væri betra að flokka þetta sem hegðun, sem brýst út sem viðbrögð gegn andstæðum viðhorfum sem gætu hugsanlega ógnað hagsmunum þeirra sem styrkja viðkomandi flokk.
Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn eru flokkar sem berjast fyrir þessum ákveðnu hagsmunum, en VG hefur hins vegar verið ógn gegn þessum flokkum þrátt fyrir að berjast ekki beint fyrir hagsmunum, heldur fyrst og fremst gegn þeim hagsmunum sem hinir flokkarnir standa fyrir. Þannig spinnst VG inn í fjórflokkinn, og festir sig síðan almennilega í sessi þegar í ljós kemur þegar inn í ríkisstjórn er komið að enginn munur virðist á VG og hinum þremur, þar sem að upp spretta hagsmunaaðilar sem VG byrjar að verja og koma í stöður innan stjórnkerfisins.
Besti flokkurinn er ferskur vegna þess að hann hefur ekki enn fallið í þá gildru að setja sig upp sem flokk sem berst gegn hagsmunum vernduðum af öðrum flokkum, heldur sem hóp af fólki sem vill berjast fyrir almannaheill. Það að þeir noti háð og spott til að koma sér á framfæri er hið besta mál. Fólk sem hugsar ekki út frá flokkspólitískum forsendum er nauðsynlegt til að koma stjórnkerfinu í lag. Flokkspólitíkin er krabbamein sem er að ganga frá stjórnkerfi Íslands dauðu.
Vonandi fer fjórflokkurinn í meðferð og áttar sig á hvað þeir hafa verið að gera þjóð sinni mikinn skaða með ábyrgðarleysi og flokkadráttum. Vonandi fara meðlimir þeirra að hlusta á þjóðina. Vonandi fara þeir að skilja að það er ekki flokksrígur sem fólkið vill, heldur samvinna og samstaða gegn meinum og glæpum, að heiðarlegt fólk sé stutt áfram, að duglegt fólk fái vinnu sem skilar gæðum til samfélagsins.
Vonandi fattar fjórflokkurinn að hann fékk spark í rassinn á landsvísu, en snýr ekki út úr með því að þykjast hafa runnið til í hálku eða að sparkið hafi ekki verið nógu harkalegt.
Fjórflokkurinn er mein sem þarf að reka út, með góðu eða illu. Og með fjórflokknum meina ég ekki bara Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Framsókn og Vinstri græna, heldur þann hegðunarhátt sem þessir flokkar standa fyrir í dag. Þeir gætu hæglega breyst í þríflokk eða fimmflokk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Tekst vel smurðum áróðursvélum að brytja niður fylgi Besta flokksins á síðustu metrunum?
29.5.2010 | 05:04
Mikill titringur sem Jóni Gnarr og hans kátu mönnum hefur tekist að koma í gang. Það merkilegasta við þetta allt saman er hvað vinsældir hans bæði pirra og gleðja. Það er hugsanlega enn kaldara á toppnum í stjórnmálum heldur en í listaheiminum.
Það er áberandi hvernig fjórflokkarnir eru fastir í skotgröfum, fyrir utan kannski Sjálfstæðisflokk, sem hefur ekki verið að skjóta eiturpílum að hinum, heldur verið með mun sterkari og vandaðri áróðursbrögð og markaðssetningu. Þeir ná langt á því. Einnig hefði ég getað svarið að þegar ég hlusta á Hönnu Birnu, að hún talar nákvæmlega eins og Þorgerður Katrín. Mér finnst það frekar skondið. Aðrir flokkar eru sífellt að deila á hina flokkana og það stelur frá þeim orku.
Dagur ræðir um atvinnumálin sem aðalmálefni, en þar sem hann er varaformaður flokks sem er í ríkisstjórn og sem einnig hefur Félagsmálaráðuneytið á sínu borði, finnst mér að hann ætti frekar að berjast fyrir því að koma hinum stórskaðlega Árna Páli úr ráðherrastól og setjast sjálfur í hann. Þar held ég að Dagur gerði mikið gagn. Hann er réttur maður á röngum stað í borgarpólitík.
Sóley Tómasdóttir er svolítið spes. Hún fattar ekki að með stöðugum árásum á Sjálfstæðisflokk græðir hún aðeins einhver hatursatkvæði. Á sama hátt getur hún grætt atkvæði með því að ráðast á klám og annað slíkt.
Einar Skúlason er drengur góður, en virðist hafa lítið til málanna að leggja.
Baldvin hjá Reykjavíkurflokknum er töffari sem ætti að fá góð verkefni hjá þeim sem sigrar í þessum kosningum.
Ólafur F. fer með slíku offorsi gegn Framsóknarflokki að það er með ólíkindum. Framsóknarflokkurinn er eins og vængbrotinn fugl í dag, og ég einfaldlega vorkenni honum þegar læknirinn fer að reita af honum fjaðrirnar.
Helga Þórðardóttir, hjá Frjálslyndum, virðist vilja þjóða samfélagi sínu á einhvern hátt. Virðingarvert.
Mér líst vel á það sem Jón Gnarr hefur verið að segja um samvinnu, ef hann meinar það, að mikið af góðu fólki sé innan sérhvers stjórnmálaflokks, og hann sé tilbúinn að vinna með því fólki sem sýnir áhuga á að leggja hönd á plóg (vinna vinnuna sína) og fyrir heill borgarbúa.
Ætti ég heima í Reykjavík gæti ég ekki kosið annað en Besta flokkinn. Hins vegar finnst mér afar áhugavert að sjá hvað áróðursmaskínur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru öflugar, og viss um að þeim hafi tekist að sannfæra fullt af fólki sem er óákveðið.
Besti flokkurinn er ennþá sá fyndnasti. En hann hefur skotið sig í fótinn með því að allt í einu eru farnar að heyrast skynsamar raddir innan hans sem hafa töluvert merkilegt að segja. Ég efast um að fólk sé jafn tilbúið fyrir skynsemi og fyrir húmor.
VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjoppuprófið
27.5.2010 | 06:21
Þegar ég veit ekki hvern ég á að kjósa, reyni ég stundum að setja upp auðskiljanleg dæmi sem segja allt sem segja þarf um frambjóðendur. Spurningin í þessu prófi er hvort flokkunum sé treystandi til að gera það sem þeir eru beðnir að gera. Ég ímynda mér hóp barna og bið þau að skreppa fyrir mig út í sjoppu, en hvert barn hefur eiginleika viðkomandi stjórnmálaflokks, í það minnsta eins og ég sé þá. Vissulega eru svona próf ákveðin einföldun og fram koma mínir eigin fordómar í garð flokkanna. En til þess er leikurinn gerður, að átta mig á eigin hug og hafa betri forsendur til að taka ákvörðun.
Ímyndum okkur að hver og einn stjórnmálaflokkur í Reykjavík sé barn sem við biðjum um að skjótast út í sjoppu til að kaupa hraun og lakkrísrúllu. Öll börnin samþykkja verkefnið og leggja af stað út í sjoppu. Þau fengu klukkutíma.
Sjálfstæðisflokkurinn kemur fyrstur til baka með skært bros á andlitinu en ekkert nammi.
"Hvar er nammið?" spyr ég.
"Ég ákvað að fara út í banka og leggja peninginn inn á reikning. Þú getur tekið peninginn aftur út eftir 10 ár en hann er á stórgóðum vöxtum."
"Ertu að meina það?"
"Nei, bara að grínast. Mig vantaði aðeins upp í klippingu. Hvernig finnst þér? Ég skal fara aftur út í sjoppu og gera aðra tilraun."
"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.
Samfylkingin kemur næst, líka með tvær hendur tómar.
"Hvar er nammið mitt?" spyr ég.
"Tja, ég hitti gamlan vin fyrir utan sjoppuna og við spjölluðum lengi saman. Það kom í ljós að mamma hans og pabbi eru atvinnulaus, þannig að ég ákvað að gefa honum peninginn."
"Það var nú fallega gert af þér."
"Það hefði verið ennþá fallegra ef foreldrar hans ættu ekki sjoppuna."
"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.
Vinstri græn kemur næst, líka með tvær hendur tómar.
"Hvar er nammið mitt?" spyr ég.
"Veistu hvað nammið er óhollt? Þú gætir orðið sykursjúkur og svo er það ekki umhverfisvænt að borða nammi, og svo er Hraun svo ósiðlegt í laginu."
"Nú?" spyr ég.
"Já. Ímyndaðu þér ef Hrauninu væri hent út í sundlaug. Það myndi grípa um sig skelfing. Stórhættulegt."
"Hvað gerðirðu við peninginn?"
"Ég fékk mér ís í brauðformi."
"Dóh!" segi ég. "Farðu heim."
Framsókn kemur næst, líka með tvær hendur tómar en frekar kámugan munn.
"Hvar er nammið mitt?" spyr ég?
"Nammið þitt?" segir Framsókn vandræðalega og sleikir út um.
"Farðu heim," segi ég.
Frjálslyndur kemur næstur, líka með tvær hendur tómar.
"Hvar er nammið mitt," spyr ég.
"Ég fór upp á efstu hæð blokkarinnar þarna og prófaði að láta peninginn fljúga inn í sjoppu og sjá hvort nammið kæmi ekki bara til þín. Kíktu í vasann."
Ég kíki í vasann. Ekkert annað en hringur í vasanum.
"Farðu heim," segi ég.
Heiðarleiki og almannaheill eru tvíburðar, þeir koma með pening til baka. Nákvæmlega sömu upphæð og þeir fóru með.
"Hvernig stendur á þessu?" spyr ég. "Hvar er nammið?"
"Okkur fannst nammið of dýrt, þessar álögur í sjoppunni eru ekki heiðarlegar né góðar fyrir almenning í landinu. Svo tekur ríkið gífurlegan skatt af þessu. Við töldum betra fyrir þig að halda peningnum og sleppa þessu bara. Svo þekkja mig margir fyrir heiðarleika og ekki vil ég eyðileggja svoleiðis orðspor."
Þeir rétta mér peninginn og ganga álútir heim á leið.
Reykjavíkurframboð kemur til baka með hraun og lakkrísrúllu. Ég stari gapandi á barnið.
"Takk," segi ég.
"Það var ekkert," segir Reykjavíkurframboðið og labbar heim.
Besti flokkurinn kemur til baka með málningardollu, nokkur hrísgrjón í lófanum og grjóthlunk.
"Hva...?" styn ég upp.
"Baðstu ekki um Hraun og lakkrís?" spyr Besti flokkurinn og setur upp bros eins og Jókerinn í "The Dark Knight".
Í raun stóðst aðeins Reykjavíkurframboðið prófið, en það er svo lítill flokkur að hann varð að gera það til að eiga einhvern möguleika. Helsti galli Reykjavíkurframboðsins er að það er hefðbundið framboð sem snýst um stefnur og loforð, en er ekki þessi bylting sem Íslendingar þurfa á að halda í dag.
Ef ég mætti kjósa í Reykjavík, færi atkvæði mitt til Besta flokksins, fyrst og fremst til að senda atvinnupólitíkusum öllum þau skilaboð að ég vil ekki sjá þá hafa ævilangt lifibrauð af stjórnmálum, að hver einstaklingur ætti ekki að vera lengur en áratug í stjórnmálum, að þeir sem hafa verið að þiggja styrki verði að segja af sér - ekki bara þeir sem fengu háa styrki, líka þeir sem fengu lága styrki, - því það er prinsippið sem skiptir meira máli en upphæðin. Þetta þýðir að breyta þarf algjörlega leikreglum um hvernig fólk kemst að í stjórnmálum, því það er mikill fjöldi fólks sem gæti gert þjóðinni gott með þátttöku sinni, sem dettur ekki í hug að taka þátt eins og staðan er í dag eða hefur verið síðustu ár.
Sjálfsagt væri réttast að setja saman lista yfir alla þá sem geta hugsað sér að starfa að stjórnmálum. Útiloka þá sem eru á sakaskrá. Og draga síðan úr pottinum á tilviljunarkenndan hátt. Brjóti viðkomandi af sér á tímabilinu fengi hann eða hún eina viðvörun, og verði síðan látin fara gerist slíkt aftur.
Lýðræði þarf nefnilega að vera aðgengilegt fyrir alla. Ekki bara þá sem kjósa. Líka fyrir þá sem stjórna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað eru draumar?
24.5.2010 | 07:40
Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri á gangi yfir brú með fulla appelsínugula poka og vinur minn gekk á eftir mér. Sjónarhornið var reyndar eins og frá mávi sem væri á flugi yfir, en undir brúnni baulaði kraftmikið fljót. Ég heyrði hróp og sneri mér við og sá þá að brúin hafði brotnað og vinur minn fallið í ána. Ég hljóp að handriðinu. Og sá vin minn öskra í örvæntingu og appelsínugula pokann belgjast út, en síðan hvarf hann hratt ofan í djúpið. Mig langaði að stökkva fram af brúnni og bjarga honum en gat ekki lengur séð hann og sá ekki betur en að þú myndi beljandi fljótið grípa mig með.
Áður en mér datt nokkuð í hug vaknaði ég.
Nú velti ég fyrir mér hvort að draumar þýði eitthvað. Og ef þeir þýða eitthvað, hvað þýða þeir?
Á síðunni draumur.is er til dæmis hægt að lesa hvað tákn í draumum eiga að merkja, en ég sé ekki betur en að merkingin sé frekar mótsagnakennd:
Það er álitið mikið gæfumerki að dreyma að maður sé að drukkna. Þó segja sumir að ef drukknunin er í sjó sé vissara að gæta sín á viðskiptalífinu, þú munir ekki ráða við hlutina. Ef þér þykir sem einhver bjargi þér, máttu reiða þig á að þínir nánustu eru þér hliðhollir. Að sjá einhvern annan drukkna er fyrir alvarlegum fréttum eða að þú lendir í vandræðalegri aðstöðu, gættu að öðrum táknum draumsins og þá sérstaklega nöfnum.
Hvernig túlkar maður þetta? Gæfumerki sem gefur til kynna að maður ráði ekki við hlutina, alvarlegar fréttir eða vandræðalegri aðstöðu? Þetta segir mér minna en draumurinn sjálfur.
Hvað eru annars draumar?
Ég hef heyrt þá kenningu að draumar séu skilaboð til manns sjálfs frá manni sjálfum. Gallinn er að ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef haft áhuga á að segja sjálfum mér með þessum draumi.
Ég hef heyrt þá kenningu að suma dreymi fyrir atburðum. Dreymi um hluti sem eru að gerast einhvers staðar annars staðar, eða dreymi fyrir um eitthvað sem mun gerast. Ég veit varla hvað það þýðir. Þýðir það að maður væri þá einhvers konar spámaður sem sér inn í framtíðina, eða hugartengsl (ESP) við einhvern fjarlægan vin?
Draumar um framtíðina væru þá þess eðlis að maður man eftir drauminum þegar atburðurinn gerist í raun og veru, svona Deja-Vu, en ég hef upplifað það nokkrum sinnum, sem og flestir aðrir sem ég hef talað við um þetta fyrirbæri. Það er svona tilfinning sem maður fær um að atburður sem er að gerast hafi gerst áður og þú getir séð fyrir hvað mun gerast næst, og það gerist. Ég man skýrt eftir Deja-Vu upplifun sem ég hafði þegar ég var nítján ára gamall, á þríhjólaleigubíl í miðborg Bangkok, þar sem ég fór að versla mér gleraugu. Merkileg upplifum, bílar og hjól allt í kring á mikilli ferð, og næstum allir að pústra á bílflauturnar, og þarna voru þessi gríðarstóru ljóslogandi auglýsingaskilti, enda var þetta þegar myrkrið hafði skollið á.
Seinna sagði ég mínum ágæta ritlistarkennara, Nirði P. Njarðvík frá þessu, en ég ber mikla virðingu fyrir hvernig hann hefur lag á að segja nákvæmlega kjarnann í því sem hann meinar. Honum fannst frekar heimskulegt af mér að fara einsamall út í miðborg Bangkok, borg sem ég þekkti ekki neitt, að nóttu til að kaupa mér gleraugu. Ég get ekki annað en samþykkt þann dóm, en hvað get ég sagt? Sumir lifa lífinu á svona. Og ég fékk góð gleraugu.
Aftur að draumum: getur verið að draumar séu ekkert annað en melting á því sem við höfum skynjað? Að allt sem við höfum séð lendi í þessari gríðarstóru hrærivél sem hugurinn er og sem varpar fram furðumyndum sem samansulli úr reynslu okkar?
Ég á góðan vin frá Simbabve. Við þekktumst þegar ég var við nám í Bandaríkjunum. Hún er eiginkona eins samleigjanda míns. Eitt sinn barst talið að draumum, og ég sagði henni frá draum þar sem ég hafði verið á flótta undan hoppandi háhýsi og síðan þegar blokkin lenti, dregið upp sverð og stokkið inn í aðaldyr þess, inn í lyftuna og ráðist á hnappaborðið með sverðinu þannig að lyftan skaust upp í gegnum þakið þannig að blokkin drapst.
Þá minntist hún á að hún ólst uppi í þorpi þar sem var gamall og vitur seiðkarl. Hann hafði fundi með börnum þorpsins þar sem þau sátu í kringum varðeld og hann sagði þeim sögur. Eitt sinn hafði hann sagt börnunum frá merkingu drauma, að draumarnir segðu væru tákn um hugarástand, að í draumi gætirðu komist að því hvort þú sért hugrökk manneskja eða huglaus. Hann tók dæmi um ljón sem réðst á dreymanda, en slíkt var algengur draumur meðal barna í þessu þorpi, og hann sagði að það sem skipti mestu máli í þessum draumi væri hvort dreymandinn snerist gegn ljóninu og berðist við það eða héldi áfram á huglausum flótta undan því. Mikilvægt væri að takast á við vandann sem upp kemur í draumnum sjálfum, því þar væri til staðar persónulegt og sálrænt vandamál sem þyrfti að sigrast á til að þroskast.
Mér þótti þetta merkilegt.
Sem unglingur tók ég mig til og skrifaði niður drauma sem mig dreymdi. Fyrst mundi ég ekki draumana, en eftir um viku voru þeir farnir að standa ljóslifandi fyrir mér, og það sem meira var, mér tókst að stjórna dreymandanum. Af einhverjum ástæðum hætti ég þessu. Leit á þetta eins og marklausa iðju, enda fannst fólki þetta ansi asnalegt, að maður væri að grúska í eigin draumum eins og maður væri einhver merkileg vera.
Og jú.
Við erum merkilegar verur. Hvert og eitt.
Myndir
Drukknun: Mocoloco.com
Bangkok: inewscatcher.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Er Jón Gnarr og flokkur hans bestur?
23.5.2010 | 11:02
Besti flokkurinn er ekki bara grín. Hann er líka háð. Háð er ekki bara grín. Háð er gagnrýnið grín.
Jón Gnarr hefur háð stríð með háði gegn fjórflokknum. Hann er að sigra.
Fjórflokkurinn svarar fyrir sig með skotum á Jón Gnarr um að einhvern tíma hafi hann skráð sig á lista til stuðnings sjálfstæðismönnum, hann sé trúaður, sé ekki alltaf fyndinn, sé ekki hægt að taka hann alvarlega og þar fram eftir götunum.
Ég ólst upp í Breiðholtinu. Í fellahverfinu. Mér þykir vænt um Reykjavík. Síðasta kjörtímabil var óhugnanlegt. Þeir sem komust að kjötkötlum borgarinnar stálu ekki bara öllu kjötinu úr kötlunum, heldur seldu líka katlana og skepnurnar sem nota áttu til næstu áratuga. Þeim fannst þeir bara standa sig nokkuð vel.
Hefðbundinn kosningaáróður hófst með innihaldslausum loforðum, sæmilega mjúkum og loðnum, einhverju sem hægt væri að geyma þar til stutt væri í næstu kosningar og sýna þá einhvern lit til að setja verkefni í gang sem hægt væri síðan að slá á frest eftir næstu kosningar.
Nú kemur Jón Gnarr fram og gefur verstu hugsanlegu kosningaloforð sem hægt er að gefa. Þau snúa að hlutum sem fáir vilja, en loforðin eru það fáránleg að enginn trúir að manninum sé alvara. Ég trúi því ekki heldur. En hvað ef honum er alvara?
- Hvað ef hann vill tollahlið frá Garðabæ til Reykjavíkur?
- Hvað ef hann vill slátra skepnum í húsdýragarðinum til að gefa ísbirni að éta?
- Hvað ef hann vill láta ættleiða róna?
Væri ekki fyndið ef hann stæði við öll kosningaloforðin, fyrsti stjórnmálamaður Íslendinga til að gera slíkt?
Mig grunar að markmið framboðsins sé að sýna fram á fáránleika flokka og hefðbundinna kosninga, en hvað ef ég hef rangt fyrir mér? Hvað ef Jón Gnarr vill einfaldlega fá það sem hann hefur sagt, þægilegt skrifstofustarf þar sem hann hefur nóg af frítíma og getur gert það sem honum sýnist?
Hvað ef markmiðið er að styrkja leikhúslíf í Reykjavík? Hvað ef raunveruleg uppspretta bakvið framboðið er atvinnuleysið sem bíður listafólks þar sem Páll Magnússon sjónvarpsstjóri hefur boðað niðurskurð á íslensku sjónvarpsefni? Hvað ef þetta er svarið við þeim niðurskurði, og hefur í raun ekkert með gagnrýni á pólitík að gera?
Ég myndi kjósa Besta flokkinn umfram allt hitt sem í boði er, aðallega vegna þess að þetta er eini flokkurinn sem inniheldur engan atvinnupólitíkus. Það er nóg fyrir mig, því ég tel atvinnupólitíkusa vera eina mestu meinsemd þjóðarinnar og starfstétt sem ætti ekki einu sinni að vera til.
Svo er svolítið skondið að þegar fólk kýs Besta flokkinn er það í raun að kjósa Jón Gnarr, og er nokkuð sama um alla þá sem geta streymt inn í stjórnkerfið í kjölfar hans. Það virðist nóg fyrir heilan flokk að hafa eina fyndna manneskju í framboði. Ekkert annað skiptir máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Prince of Persia: The Sands of Time (2010) ***
21.5.2010 | 21:18
"Prince of Persia: The Sands of Time" er ekki fullkomin, en vel heppnuð kvikmyndaútgáfa af tölvuleik. Sjálfsagt mætti flokka hana í sama gæðaflokk og "Harry Potter", "Pirates of the Caribbean" og "Tomb Raider". Ekki skemmir fyrir að flestir leikarar standa sig vel, fyrir utan suma, eins og pirrandi prinsessu með svo enskan hreim að ég vorkenni Persum, og Ben Kingsley, sem sífellt dregur niður þær ævintýramyndir sem hann leikur í, því hann leikur alltaf sama karakterinn, alltaf með sömu svipbrigðum. Benni Kóngalegi ætti að halda sig við dramað. Þar er hann oft frábær.
Innrásarher Persa ræðst til atlögu gegn heilagri borg vegna þess að njósnir hafa borist um að borgarbúar séu að framleiða öflug sverð og að undirbúa mikla styrjöld gegn Persum. Gjöreyðingarsverði, sko... Þannig að Bandaríkj... ég meina Persar gera árás áður en Írök... ég meina borgarbúum, tekst að ráðast á Persa.
Árásin gengur upp, prinsessan Tamina (Ginna Arterton) handsömuð, en hún hefur staðið vörð um heilagan rýting sem gengur fyrir tímasandi, og konungur Persa fær samviskubit og skammar syni sína fyrir að brjóta niður varnarhlið friðsælustu borgar jarðríkis.
Rýtingurinn er svoldið spes. Þegar og ýtt er á hnapp á skapti hnífsins, sem hlaðinn skal sérstökum galdrasandi, þá getur sá sem heldur á hnífnum ferðast allt að eina mínútu aftur í tímann. Sé hnífnum hins vegar stungið í uppsprettu hins heilaga sands og hnappnum haldið inni, væri fræðilega séð hægt að ferðast miklu lengra aftur í tímann. Um þetta snýst plottið.
Prinsinn Dastan (Jake Gyllenhaal) er einn af þremur prinsum Persíu sem leiddu árásina á borgina, hann var sá úrræðabesti og gerði það að verkum að varnirnar voru brotnar á bak aftur. Dastan er samt ekki alvöru prins. Hann var í æsku götustrákur sem sýndi mikið hugrekki. Sharaman konungur (Ronald Pickup) var vitni að hugrekki og fimi stráksins og ættleiddi hann á staðnum.
Þegar Sharaman konungur er myrtur fyrir augum prinsanna og fjölda vitna er Dastan ásakaður um morðið og allir menn hans drepnir. Hann leggur á flótta og tekur með sér Taminu prinsessu. Á flóttanum lenda þau í ýmsum ævintýrum og hrífast að sjálfsögðu hvort að öðru í leiðinni. Rekast þau meðal annars á skuggalega kaupsýslumanninn Amar (Alfred Molina) sem telur skatta uppsprettu alls hins illa í heiminum og rekur strútaveðreiðar. Amar er ekki jafn illur og hann virðist vera. Hans traustasti félagi er Seso (Steve Toussaint), sem er sérlega klár í hnífakasti. Besta atriði myndarinnar er stutt sena þar sem Toussaint fær að njóta sín í bardaga gegn öðrum miklum hnífameistara. Eftirminnilegur leikari þar á ferð.
Ég hefði viljað sleppa Ben Kingsley algjörlega, því hann er hreinlega ömurlega lélegur sem illmenni í fantasíumyndum. Þess í stað hefði mátt nota höfðingja Hassansin leigumorðingjanna betur og gefa honum aðeins meira en þann virkilega flotta persónuleika sem hann hafði og hina svölu samherja hans, en Gísli Örn Garðarson leikur þennan skúrk feikilega vel og tekst að búa til illmenni sem jafnast á við Mickey Rourke í "Iron Man 2".
Ég hafði gaman af þessu ævintýri.
Mikill hasar, sem er misjafnlega vel útfærður, ekkert sem jafnast á við það besta frá Jackie Chan eða Jet Li, og atriðin afar ójöfn. Jake Gyllenhaal er góð ofurhetja, í fínu formi og tekst að skapa eftirminnilega persónu. Góður endir bjargar myndinni frá því volæði og þeirri klisju sem hún stefndi í að verða.
Frekar brokkgeng mynd, en þegar á heildina er litið frekar skemmtileg stund með poppi og svörtu gosi.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árásin á Alþingi og skörungur Wittgensteins
21.5.2010 | 06:09
25. október 1946 hélt vísindaheimspekingurinn Karl Popper fyrirlestur í Cambridge sem bar titilinn "Eru til staðar heimspekileg vandamál?" Ludwig Wittgenstein var fundarstjóri. Wittgenstein hafði haldið því fram að engin raunveruleg heimspekileg vandamál væru til, að öll heimspekileg vandamál væru sprottin úr ófullkomnun tungumálsins. Popper hélt því aftur á móti fram að heimspekileg vandamál væru dýpri en svo að hægt væri að afgreiða þau öll sem tungumálaleiki.
Vitni segja að rifrildið milli þeirra Popper og Wittgenstein hafi stöðugt magnast upp, og Wittgenstein haldið á eldskörungi og beint honum að Popper á meðan þeir þrættu. Loks kom að hinu magnþrungna augnabliki þegar Wittgenstein beindi skörungnum ógnandi að Popper og krafðist þess að Popper gæfi dæmi um raunverulega siðferðilega reglu.
"Þú skalt ekki ógna gestafyrirlesurum með eldskörungum," svaraði Popper að bragði. Wittgenstein brást við með að henda frá sér skörungnum og rjúka út.
Það merkilega við þennan atburð er að hann gerðist á um tíu mínútum og fjöldi vitna var á staðnum, sérfræðingum í þekkingarfræði og rannsóknum á sannleikanum, en þessi vitni gátu aldrei komið sér algjörlega saman um hvað gerðist nákvæmlega á þessum tíu mínútum. Hver og einn upplifði atburðinn á ólíkan hátt.
Eitthvað ákveðið gerðist, og meðal þess sem gerðist er tjáning á ákveðnum heimspekilegum vangaveltum frá tveimur afar djúpum heimspekingum, sem síðar braust út í einhverju sem virtist hafa verið reiðikast og uppgjöf Wittgensteins. En var þetta uppgjöf eða skýr skilaboð?
Var Wittgenstein að segja með því að kasta frá sér skörungnum og rjúka út að hann væri rökþrota, að honum þætti Popper ósanngjarn, eða staðfesti hann með verki sínu að það var ekkert heimspekilegt vandamál til staðar? Túlkanir manna og skoðanir geta verið jafn ólíkar og jafnvel fleiri en fjöldi einstaklinga í salnum.
Hvað ef við tökum aðeins fyrir staðreyndir málsins. Það sem raunverulega gerðist. Er mögulegt að staðreyndirnar einar sýni annan veruleika en sannleikann sjálfan?
Mér varð hugsað til þessa atviks sem átti sér stað fyrir 64 árum þegar ég horfið á Kastljós í morgun, og myndbandið sem staðfestir að þingverði hafi verið hrint með tveimur höndum, hægri hendi, eða dottið slysalega á ofn. Einnig kemur fram að forseti Alþingis taldi þingmönnum og húsnæði ógnað af þeim sem ruddust inn á Alþingi þennan örlagaríka dag, þrátt fyrir að sumir þingmenn hafi lítið kippt sér upp við þetta. Þó minnist ég þess að Sif Friðleifsdóttir sem var í ræðustól á þessu augnabliki hafi verið frekar brugðið. Einnig er áhugavert að sjálfur utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, framkvæmdi mörgum árum áður nákvæmlega það sem innrásarmennirnir ætluðu sér, að lesa yfir þingmönnum.
Það er erfitt að segja hvað einhver einn ætlaði sér að gera, hvað þá þeir þrjátíu manns sem ruddust inn í húsið á 3. desember 2008. Aðeins níu þeirra eru ákærðir, hugsanlega vegna þess að ekki tókst að nafngreina hina einstaklingana 21, hugsanlega af annarlegum ástæðum.
En það er öllum ljóst að þessir níu einstaklingar voru ekki að ógna vinnufrið á Alþingi þennan örlagaríka dag, enda hefur ekki verið vinnufriður á Alþingi í mörg ár, eða síðan Alþingismenn byrjuðu að þiggja styrki frá áhrifavöldum í samfélaginu. Það eitt að starfa við að samþykkja lög fyrir heilt þjóðfélag, með sérstaka styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum þér til stuðnings, eru ólög í sjálfum sér sem hlutu að leiða á endanum til stjórnmálakreppu.
Það ótrúlega er að stjórnmálamenn í dag virðast ekki átta sig á af hverju styrkir til einstakra þingmanna eða fyrirtækja í þeirra eigu séu það sama og mútur, og að slíkt sé í sjálfu sér rangt - og er það sannarlega siðferðilega þó hugsanlega sé slíkt löglegt, enda engum kannski dottið í hug að setja lög gegn eigin hag, og í grundvelli jafn rangt og að hóta gestafyrirlesara með eldskörungi.
Það eru þingmenn sjálfir sem hafa ógnað þinghaldi á Íslandi með ábyrgðarleysi, mútuþægni, aðgerðarleysi þegar aðgerða er þörf, aðgerða þegar aðgerðarleysi er þörf, skilningsleysi á mikilvægi þess að lög séu jöfn fyrir alla, þiggja laun fyrir ókláruð verkefni (svikin kosningaloforð), og þannig mætti sjálfsagt æra óstöðugan með margfalt lengri upptalningu.
Það þarf uppstokkun á Alþingi. Siðferðilega uppstokkun. Þar þarf að vera fólk sem skilur hvað heiður og mannvirðing er, ekki bara fólk sem kann að hlíða hegðunarreglum á Alþingi og kalla einhvern annan þingmann í einu orði háttvirtan og hálfvita í því næsta.
Ég veit ekki hvað skal koma í staðinn. Sjálfsagt utanþingsstjórn með úrvalsfólki (það er mikið af slíkum Íslendingum en þeir komast einfaldlega ekki að og hafa ekki áhuga á pólitískum sandkassaleik) sem vinnur að því að setja saman nýtt og betra Alþingi.
Nímenningarnir ætluðu sér að flytja þá kröfu að þingmenn hypjuðu sig út af Alþingi og bæru þannig virðingu fyrir þeirri stofnun sem hefur því miður verið flekkuð af hagsmunapoturum í marga áratugi.
Það er sanngjörn siðferðileg krafa að heiðarlegt fólk setji lögin og heimspekilegt vandamál að þingmenn séu ekki enn búnir að fatta það, eða þá að þeir hafi þegar fattað það og vilji ekkert gera í málinu.
Hvernig munu "Iron Man 8", "Robin in da Hood" og "Die Hard 5" líta út?
19.5.2010 | 20:37
Worth 1000 hélt samkeppni á dögunum þar sem gerð voru veggspjöld í Photoshop af framtíð vinsælla kvikmynda. Ansi gaman að efstu sætunum.
Textinn undir myndunum er næstum, en samt ekki alveg þráðbein þýðing.
Þó að "Riðfríi stálmaðurinn" hljómi ekki alveg jafn vel, sér Tony Stark nú eftir vali sínu á hráefnum.
Hrói Höttur 800 árum síðar - útlagi verður bankamaður.
Die Hard 5! Bruce Willis er gamli maðurinn sem harðneitar að deyja!
Tenglar: Worth 1000
Kvikmyndir | Breytt 20.5.2010 kl. 04:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Robin Hood (2010) *1/2
16.5.2010 | 20:47
Hrói Höttur er sígild persóna. Flestir þekkja hann sem ref í teiknaðri Walt Disney útgáfu og margir muna enn eftir Kevin Costner í hlutverkinu sem "Robin Hood: Prince of Thieves" fyrir sautján árum. Besta kvikmyndin um hetjuna, að mínu mati, er "The Adventures of Robin Hood" frá 1938, en þar lék Errol Flynn aðalhlutverkið á eftirminnilegan hátt. Persónan hefur birst í meira en 100 kvikmyndum, og í sumum þar sem gert er miskunnarlaust grín að henni, eins og í "Robin Hood: Men in Tights" eftir Mel Brooks.
"Robin Hood" er leikstýrð af engum öðrum en Ridley Scott með Russell Crowe í aðalhlutverkinu. Cate Blanchett sem Lady Marion. Öll eru þau í eldri kantinum en maður er til í að kíkja á þroskaða túlkun slíkra listamanni á sögupersónu sem er meðal þeirra stærstu. Því miður, myndarinnar vegna, fannst mér ég stundum vera að horfa á "Monty Python and the Holy Grail," sérstaklega í atriði þar sem Robin er margoft kallaður "Sir Robert". Þeir sem þekkja Holy Grail kannast kannski við "The Tale of Sir Robin".
Þar að auki er kvikmyndatónlistin afar misheppnuð. Hún verður oft meira áberandi en sagan sjálf, en það er kannski vegna þess að sagan er kolflöt, og einfaldlega nauðgun á öllum fyrri sögum um Hróa Hött. Russell Crowe og öðrum leikurum tókst ekki að móta persónur sínar á áhugaverðan hátt, og í stað þess að berjast gegn spillingu milli Breta þar sem John prins er illmennið með ýmsa áhrifamenn á sínum snærum til að klófesta Hróa kallinn, eru þeir ekkert annað en peð í höndum landráðamannsins Godfrey (Mark Strong) sem reynir að koma á borgarastyrjöld í Bretlandi til þess að gefa Frökkum tækifæri á árangursríkri innrás.
Fullt af góðum leikurum leikur í þessari mynd. Helsta má nefna William Hurt sem ráðgjafa konungs og Max Von Sydow sem Walter Loxley, en af einhverjum ástæðum var ákveðið að Robert Loxley er ekki Hrói Höttur í þessari mynd, heldur smiðssonurinn Robin Longstride, sem fer í hlutverk hins fallna Robert Loxley, tekur sér eiginkonu hans, Mario (Kate Blanchett) og fær föðurlega sálfræðiráðgjöf hjá Walter. Helstu persónurnar úr sögunum eru til staðar, en þær eru hver annarri flatari.
Þrátt fyrir allt er myndatakan yfirleitt mjög góð, sem og hvert einasta smáatriði sem á að stimpla inn tíðarandann. Það vantaði bara meiri kraft í þessa sögu. Það vantaði illmenni sem Hrói Höttur þurfti að kljást við og höndla með vitsmunum, kjarki og klókindum, en ekki bara aflsmunum og bogfimi.
Þeir sem gera ekki of miklar kröfur til kvikmyndaleikstjóra eins og Ridley Scott og þeir sem hafa ekki hugmynd um hvað Hrói Höttur er, gætu haft gaman að þessu. En mér leiddist. Mér leiddist það mikið að ég leit þrisvar á úlnlið minn þar sem úrið átti að vera, en ég hafði gleymt henni heima. Það eru ekki góð meðmæli.
Þessi útgáfa af "Robin Hood" er álíka góð og "Transformers", án Megan Fox.
Í stað þess að sjá "Robin Hood" í bíó, kíktu á sýnishornið hér fyrir neðan. Það er miklu betra en myndin sjálf.
Geturðu treyst siðblindum lygurum til að segja satt?
16.5.2010 | 08:03
Hvernig greinum við á milli siðblindra lygara, þeirra sem segja næstum alltaf satt en eru siðblindir og þeirra sem segja alltaf satt og eru ekki siðblindir?
Þegar yfirlýstur siðblindur lygari fullyrðir að hann sé siðblindur lygari, eigum við að trúa honum frekar en yfirlýstum sannindamanni sem er hugsanlega siðblindur lygari sem segist ekki vera siðblindur lygari?
Þverstæða lygarans er ein af áhugaverðustu og ríkustu uppsprettum samræðna um lygar og sannleika. Hún er til í mörgum myndum. Mín uppáhalds útgáfa er þannig:
"Þessi setning er ósönn."
Hvert barn sér að ef þessi setning er ósönn, þá er hún sönn, en sé hún sönn, þá er hún ósönn. Þannig heldur vítahringurinn áfram að eilífu.
Það væri hægt að vekja sams konar áhrif með setningunni:
"Allir Íslendingar eru lygarar."
En þar sem ég er Íslendingur og held þessu fram, hvernig geturðu greint út frá setningunni hvort ég sé að segja satt eða ljúga? Samt liggur þarna einhvers staðar á bakvið spurningin um hvort ég sé að meina þetta sem dæmi, bókstaflega eða í raun og veru við allar aðstæður.
Það undarlega við þetta er að afstæðan til sannleikans og hins ósanna fer meira eftir því hvernig þér hefur tekist að mynda þér skoðanir um þessi hugtök.
- Felst sannleikur í orðum eða meiningu?
- Hvernig veistu hvenær sannleikurinn er í meiningunni og hvenær í orðunum?
- Er sannleikurinn þess eðlis að orð geti gripið hann?
- Er sannleikurinn þess eðlis að mannshugurinn geti höndlað hann?
Þegar ég held því fram að þessi setning sé ósönn, þá eru bara fjórir möguleikar til staðar.
- Setningin er sönn
- Setningin er ósönn
- Setningin er bæði sönn og ósönn
- Setningin er hvorki sönn né ósönn
Er eitt af þessum svörum hið eina og rétta?
Þegar út í það er farið, getum við komist að hinu rétta án þess að rannsaka hvað sannleikurinn er, óháð birtingarformum hans eða dæmum um hann?
- Þekkjum við lygar frá sannsögli?
- Þekkjum við setningar?
- Hvernig eru ósannindi ólík sannindum?
- Er munur á sannleikanum og sannri setningu?
Þessa dagana þarf sérstakur saksóknari og teymi hans að glíma við svona spurningar. Þeir þurfa að átta sig á hinum afar litla mun sem getur verið á sannleikanum og lygakryddaða sannleikanum. Það getur verið afar erfitt að greina á milli örlítið kryddaðs sannleiks og sannleiks, sérstaklega ef við höfum í huga að 'ekkert nema sannleikurinn' þýðir í raun ósköp lítið ef ekki er litið á allar hliðar málsins, á alla þá smáu þræði sem spinnast út og suður. Stundum tekst að klippa á óþægilega þræði.
Stein Bagger segist vera siðblindur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)